Um áratugaskeið hefur valinn hópur manna fengið að leika sér með lífeyri landsmanna og lítið eða ekkert eftirlit verið haft með framferði þeirra. Í gær kom í ljós hve háum fjárhæðum þeir töpuðu á hruninu eftir að hafa braskað, leikið sér á fjármálamörkuðum og stigið útrásardans með hrunverjum. Nærri 500 milljörðum. Já – milljörðum! Fimmhundruð þúsund milljónum.
Fyrir nokkrum dögum endurklippti ég umfjöllun um lífeyrissjóði frá því í ársbyrjun 2008, fyrir fjórum árum. Þarna tala fyrst þáverandi framkvæmdastjóri Starfsgreinasambandsins og Kristin Halvorsen, fjármálaráðherra Noregs. Síðan er rætt við þáverandi stjórnarformann Lífeyrissjóðs verslunarmanna og formann VR, en eins og við munum var hann í stjórn Kaupþings og þáði fyrir það rúmar 6 milljónir á ári – þrátt fyrir viðvaranir Siðfræðistofnunar. Lítum á fréttirnar frá miðjum janúar 2008.
Fréttir Stöðvar 2 – 12., 13. og 14. janúar 2008
Fréttir RÚV og Stöðvar 2 – 3. og 4. febrúar 2012
Hér kemur í ljós að lífeyrissjóðirnir töpuðu næstum 250 milljörðum, sem er um það bil helmingur heildartapsins, á þessum tveimur hópum. Þó mun meira á Exista-hópnum – sem átti stóran hlut í Kaupþingi – þar sem stjórnarformaður Lífeyrissjóðs verslunarmanna og formaður VR var í stjórn og á launaskrá. Tilviljun?
Í einni fréttinni segir Hrafn Bragason, formaður rannsóknarnefndarinnar m.a. þetta: „Vissulega halda margir innan lífeyrissjóðanna og utan þeirra því fram, að þeir hafi orðið einhvers konar fórnarlömb aðstæðnanna og stjórnenda bankanna.“ Ansi er ég nú treg til að trúa því að formaður lífeyrissjóðs sem situr í stjórn banka og þiggur fyrir það milljónir, væntanlega gegn því að sjóðurinn hans dæli peningum í bankann, geti talist fórnarlamb eins eða neins – ja, nema kannski eigin dómgreindarskorts.
Þess má geta að núverandi formaður Lífeyrissjóðs verslunarmanna, sem gæta á lífeyris konunnar á kassanum í t.d. Bónus og skrifstofumannsins hjá t.d. Flugleiðum er Helgi Magnússon, formaður Samtaka iðnaðarins. Sá hinn sami og hreifst svo af ástandinu í Moskvu eins og lesa má um hér og skoða má afar skrautlega tengslamynd Helga hér.
Þórður Björn Sigurðsson hefur skrifað um lífeyrissjóðina og bent á undarlega starfshætti á þeim bæjum, ekki síst tengsl stjórnarmanna við stórfyrirtæki. Í bloggpistli frá 23. desember sl. segir Þórður Björn m.a. þetta:
„Staða Helga Magnússonar, sem stjórnarformanns Lífeyrissjóðs verslunarmanna, er birtingarform þeirrar lýðræðiskreppu sem hrjáir íslenska lífeyrissjóðakerfið. Helgi er ekki bara formaður Samtaka iðnaðarins og skipaður í stjórn Lífeyrissjóðs verslunarmanna sem slíkur, heldur er hann einnig umsvifamikill fjárfestir. Í gegnum Eignarhaldsfélagið Hörpu ehf., félag sem er í meirihlutaeigu Helga, er hann á meðal tuttugu stærstu hluthafa í Marel, nánar tiltekið númer sautján samkvæmt frétt Viðskiptablaðsins. Í fréttinni kemur einnig fram að Lífeyrissjóður verslunarmanna sé sjötti stærsti hluthafinn í Marel.“
Er þetta eðlilegt – eða bara klassísk íslensk spilling, siðleysi og valdafíkn? Er Helgi kannski fórnarlamb aðstæðna? Við munum hann Þorgeir Eyjólfsson, er það ekki? Hann var framkvæmdastjóri Lífeyrissjóðs verslunarmanna í 25 ár en var látinn hætta skömmu eftir hrun. Það tók mánaðarlífeyrisgreiðsur 800 láglaunamanna að greiða fyrir starfslok hans og það kostaði 300 þúsund á mánuði að reka bílinn hans. Og við munum arftakann Guðmund Þ. Þórhallsson sem vann í eignastýringu áður en hann tók við af Þorgeiri. Var það ekki eignastýring sjóðanna sem klikkaði með 500 milljarða afleiðingum? Þorgeir er nú í þægilegri stöðu hjá Seðlabankanum með viðkomu í MP banka og Guðmundur stýrir enn Lífeyrissjóðnum. Fórnarlömb aðstæðna? Varla.
Kastljós 3. febrúar 2012
Hér kemur m.a. fram að Rannsóknarnefndin hafi ekki fjallað um vafasamar boðsferðir bankanna en þó er nefnt dæmi um eina slíka og fjárfestingar í kjölfar hennar. Vitað er að slíkar boðsferðir voru fjöldamargar, bæði laxveiði innanlands og fínimannaferðir til útlanda. Hve mikið af tapi sjóðanna var af þeim völdum eins og dæminu sem tiltekið er hér?
Eitt af því sem Þórður Björn nefnir í ofangreindum bloggpistli eru áróðursfréttir Stöðvar 2 í desember þar sem maður gekk undir manns hönd við að sannfæra landsmenn um hvað allir gætu grætt rosalega á því að lífeyrissjóðirnir keyptu fjórðung í Landsvirkjun. En af hverju ætli lífeyrissjóðirnir vilji eignast svona stóran hlut í Landsvirkjun? Þar sem sama fólkið er þar meira og minna við stjórn geri ég ekki ráð fyrir að siðferði eða samfélagsleg sjónarmið ráði því. Líklegra finnst mér að Samtök atvinnulífsins eigi þar hlut að máli – og vilji einfaldlega ráða því hvar, hvenær, fyrir hvaða verksmiðjur og hve stórt er virkjað á landinu. Hvað haldið þið? Hver treystir þeim fyrir Landsvirkjun?
Fréttir Stöðvar 2 – 20., 21. og 22. desember 2011 og hádegisfréttir Bylgjunnar 23. desember 2011
Eins og sjá má skreytti ég útvarpsfréttina í lokin með myndum af viðmælandanum, Arnari Sigurmundssyni, formanni Landssamtaka lífeyrissjóða, sem einnig kom fram í viðtali við Stöð 2 í gær. Arnar er víða formaður og kemur við í ótrúlega mörgum störfum og stjórnum að ógleymdum Sjálfstæðisflokknum. Hér er tengslamynd Arnars sem þið skulið endilega skoða vandlega. Hvaða hagsmunum er Arnar líklegastur til að þjóna?
Lengi hefur verið vitað um gríðarlega sterk tengsl verkalýðssamtaka og atvinnurekenda á sviði fjármála – einkum í gegnum lífeyrissjóðina. Mjög lengi. Undanfarin ár höfum við séð hin nánu tengsl milli Gylfa Arnbjörnssonar hjá ASÍ og Vilhjálms Egilssonar hjá SA sem ganga gjarnan undir samheitinu „aðilar vinnumarkaðarins„. Forseti ASÍ hefur alfarið hafnað því fyrir hönd lífeyrissjóðanna að koma heimilum landsins til aðstoðar og segir: „Það hefur enginn umboð til að nota lífeyrisreikninga til annars en að borga lífeyri“. Nú vitum við í hvað má nota lífeyrisreikningana okkar – áhættubrask.
Árið 1998 varði Herdís Dröfn Baldvinsdóttir doktorsritgerð sína eftir sjö ára rannsóknarvinnu. Herdís skrifaði ritgerðina á ensku við Lancaster University á Englandi og kallaði hana Networks of Power in Iceland: The Labour Movement Paradox. Í íslenskri snörun Valdanetið á Íslandi: Þversögn verkalýðshreyfingarinnar. Í kynningu á efni ritgerðarinnar segir m.a. þetta:
„Markmið rannsóknarinnar er að kanna samvirkni íslenskra atvinnurekenda og verkalýðssamtaka á sviði fjármála – með sérstöku tilliti til lífeyrissjóðanna. Lagt er mat á afleiðingar þessarar samvirkni og skoðaðar þær mótsetningar að hún eykur verkalýðshreyfingunni afl og um leið dregur úr henni máttinn. Jafnframt er gefin innsýn í ríkjandi valdhringjakerfi Íslands.
Rannsóknin notar aðferðir félagsnetagreiningar og hugtök annarra rannsókna á hringlæstum stjórnunarstöðum til að halda utan um viðfangsefnið og leiða greiningarstarfið. Upplýsingarnar eru fyrst og fremst um tengsl. Það merkir að þær upplýsingar sem safnað er fjalla um hvers konar tengsl eins aðila við annan en segja ekkert um neitt annað sem snertir þann aðila. Rannsökuð eru félagsleg kerfi en þau byggjast ætíð á tengslum – gagnkvæmum aðildum – til dæmis að stjórnum fyrirtækja og hlutafélaga, að fjölskyldum, vinum og hópum og aðkomu að margvíslegri stjórnun fyrir ríki og sveit.
Leitt er í ljós að á Íslandi er ráðandi valdakjarni með sterka aðstöðu í stærstu hlutafélögum og fjármálastofnunum. Hann stýrir og samhæfir stærstu atvinnufyrirtæki landsins og leggur öll ráð um félagslegar og stjórnmálalegar aðgerðir. Hann er félagslega og efnahagslega samloðandi. Það sést annars vegar í því að einstaklingar hans fjárfesta í sömu fyrirtækjum en þó enn skýrar þegar skoðað er flókið samspil þeirra í stjórnarsetum sem gerir tengsl þeirra að þéttriðnu neti. Þetta hefur skilað kjarnanum markvissri aðstöðu til að stýra meginstraumum fjármagnsins.
Niðurstöðurnar benda til að starfsemi lífeyrissjóðanna hafi innlimað verkalýðshreyfinguna í þennan valdakjarna með útbreiddu samtengineti bæði persónulegu og fjárhagslegu – og í samtengdum stjórnunarstöðum.
Það er hér sem mótsetningarnar sýna sig. Verkalýðshreyfingin hefur orðið afar veik fyrir félagsmenn sína en mjög sterk fyrir valdakjarnann.“
Þetta eru niðurstöður margra ára rannsókna Herdísar og skrifað fyrir nærri 14 árum. Hefur eitthvað breyst?
Guðrún Guðlaugsdóttir, þá blaðamaður á Morgunblaðinu, tók viðtal við Herdísi 31. janúar 1999 þar sem hún segir frá rannsóknum sínum og niðurstöðum í doktorsritgerðinni. Skemmst er frá að segja að karlarnir í ASÍ helltu sér yfir hana, töluðu niður til hennar og voru ekkert of kurteisir. Hér fyrir neðan er viðtalið við Herdísi og þær greinar sem ég fann sem tengdust viðtalinu í tímaröð. Enn gildir hið fornkveðna: Smellið í læsilega stærð.
Fjármálatengsl ASÍ og atvinnurekenda áhrifamikil
Herdís Dröfn Baldvinsdóttir – Morgunblaðið 31. janúar 1999

Fjármálatengsl ASÍ og atvinnurekenda áhrifamikil - Herdís Dröfn Baldvinsdóttir - Morgunblaðið 31. janúar 1999
Hafnar viðhorfum Herdísar Drafnar
Grétar Þorsteinsson – Morgunblaðið 1. febrúar 1999
Fordómum flaggað og fáfræði stimpluð
Ásmundur Stefánsson – Morgunblaðið 6. febrúar 1999
Doktor í misskilningi
Arnar Guðmundsson – Morgunblaðið 9. febrúar 1999
Skáldskap alþýðuskriffinna svarað
Herdís Dröfn Baldvinsdóttir – Morgunblaðið 19. febrúar 1999
Alþýðuskriffinnar, doktorar og rök í kílóavís
Arnar Guðmundsson – Morgunblaðið 27. febrúar 1999
Að þjóna tveimur herrum í takt við tímann
Hörður Sigurðsson – Morgunblaðið 3. mars 1999

Verkalýðshreyfingin þjónar ekki tilgangi sínum Guðrún María Óskarsdóttir - Morgunblaðið 16. mars 1999
Síðast en alls ekki síst: Ekki er hægt að skilja við umfjöllun um lífeyrissjóðina án þess að minnast á Ragnar Þór Ingólfsson. Hann hefur verið mjög ötull við að gagnrýna vinnubrögð þeirra bæði í ræðu og riti. Ragnar Þór kom fyrst fram í Silfri Egils 30. nóvember 2008 og hefur verið þar nokkrum sinnum síðan, sem og í útvarpi, blöðum og á blogginu. Hér eru sýnishorn af málflutningi Ragnars Þórs í Silfrinu:
Silfur Egils 30. nóvember 2008
Silfur Egils 8. mars 2009
Silfur Egils 11. október 2009
Silfur Egils 14. nóvember 2010
Viðbót: Þetta viðtal við Ragnar Þór birtist í Smugunni í dag, sunnudaginn 5. febrúar og Agnar Kristján Þorsteinsson kannaði umfjöllun um boðsferðir starfsmanna lífeyrissjóðanna og skrifar um þær í þessum pistli.
Lokaorð: Fyrir nokkrum dögum setti ég þennan pistil Margrétar Tryggvadóttur á Facebook-síðuna mína með þessum orðum:
„Lög um lífeyrissjóði voru sett á ofanverðum tíunda áratugnum og allir skyldaðir að borga í sameignarsjóði. Ég hef verið sjálfstætt starfandi í á hálfan þriðja áratug og þarf því að borga hlut bæði atvinnurekanda og launþega (mín). Þetta eru nú 12 prósent af tekjunum.
Þegar lögin gengu í gildi hringdi ég í mann og annan til að grennslast fyrir um hvort ég mætti ekki borga þessa upphæð beint í banka og skila yfirliti með skattskýrslu. Nei, það mátti ekki. Ég varð að borga í hítina.
Þetta var að sjálfsögðu í tíð ríkisstjórna Davíðs og Halldórs. Ég hef alltaf haft þá grunaða um að vera að redda vinum sínum peningum til að leika sér með og lifa hátt á. Því stjórnendur lífeyrissjóða hafa löngum lifað miklu hærra en sjóðsfélagar hafa getað leyft sér.“
Takk fyrir magnaða samantekt Lára.
Takk fyrir þessa stórgóðu grein.
Óskaplega er þér orðið illa við mig, Gísli Steinar. Er það eitthvað sérstakt sem veldur því? Hef ég gert þér eitthvað? Þér þarf ekki að líka við pistlana mína og þú þarft ekki að vera sammála mér. En væri ekki skemmtilegra að ræða innihald pistilsins heldur en að reyna að valta yfir persónu mína? Og mér þætti vænt um að vita hver kostar mig til að geta sent þeim reikning og fengið peningana í hendur. Það er illkvittnislegt af þér að gefa ekki upp hver borgar mér fyrir að hugsa og skrifa, ekki veit ég það og nýt því ekki afrakstursins.
Ef textinn er nógu langur, klippurnar í stóru upplagi, þá er verkið harla gott. Því lengra og yfirgripsmeira þeim mun betra, segja aðdáendur og halda vart vatni. Að lesa allt er óþarfi. Lára Hanna er gæðastimpillinn. En að hætti Íslendingasagna hefði textinn hennar Láru mátt vera ögn styttri og hnitmiðaðri og örugglega náð sama áhrifamætti. Orðavaðall er ekki ávísun á gæði heldur oftast þvert á móti.
Það breytir ekki því að tap lífeyrissjóðanna í hruninu var óheyrilegt og skýrslan dregur fram vanhæfni forstöðumanna og stjórna sjóðanna í rekstri þeirra. Fjarfestingarstefnan ómarkviss, meðvirkni, aðhaldsleysi stjórna, sóun og flottræfilsháttur. Sérstakur saksóknari fær málið vafalaust til skoðunar en það er fyrirfram ljóst, að enginn verður dreginn til ábyrgðar. Varnarmúrinn er of öflugur.
En Lára Hanna er með allt á hreinu og þess vegna er hún komin aftur á Eyjuna með góða og örugga kostun. Það styttist í þingkosningar og oft hefur verið þörf að tjalda öllu til en nú er það lífsnauðsyn.
Og hún er ekki í minnsta vafa um það hverjir beri ábyrgð á gengisfalli lífeyrissjóðanna eins og lokaorðin bera með sér: „Þetta var að sjálfsögðu í tíð ríkisstjórna Davíðs og Halldórs. Ég hef alltaf haft þá grunaða um að vera að redda vinum sínum peningum til að leika sér með og lifa hátt á. Því stjórnendur lífeyrissjóða hafa löngum lifað miklu hærra en sjóðsfélagar hafa getað leyft sér.“
Sjáið bara skrif Ögumndar Jónassonar , sat í stjórn en bara enga ábyrgð !!!!!
Munið að þið hafið alltaf lifað í gjörspilltu handóýtu kerfi , klíkisamfélagi !!!!
Þið munið þegar Vígdís hætti sem forseti þótti henni við hæfi að gangaí Rottary !!!!!
Fréttamiðlar voru aðalalega með viðtöl við Arnar Sigmundsson , fulltrúa atvinnurekenda , vegna skýrslu um lífeyrissjóði ???
Samkvæmt mínum launaseðli er greiðsla í lífeyrissjóð launagreiðsla til mín !
Getið þið skýrt fréttaflutning frá fjölmiðlum um þessa lífeyrisgreiðslur til mín ?
Hvað vinna margir á fréttastofu RUV, eða mbl? Með fullri virðingu fyrir því ágæta fólki.
.
Lára Hanna virðist margra manna maki.
.
Davíð hlýtur að fara að átta sig…hún verður ráðin á moggann áður en ég get sagt „svei mér þá“, eða hvað?
Okkur , sem eru greiðendur í þessa svo kölluðu lífeyrissjóði er sagt, að fólkið sem er ráðið í störf hjá lífeyrissjóðum þurfi svo mikil laun vegna þess að ábyrgðin sé svo mikil !
Hvað þarf til að þessi ábyrgð sé sýnileg ???????????????????????????
Fangelsisvist ?
Dómur frá hæstarétti ?
Eða bara réttlætisvitund ?
Ég undrast sífellt hversvegan Landsbankinn/Straumur/Samson/Eimskip/… er ekki nefnt sem tengdur aðili í fréttinni né í skýrslunni um tengda aðila og hvervegna Baugur er nenft fyrst með innan við 5 milljarða sjálft en og um 77 milljarða þegar öllum tengdum Glitni, FL-group og tengdu Baugi er sturtað saman — og á undan Exista með 172 milljarða.
Það er svo ofti í öllum þessum fréttaflutningi að ekki er minnst á Landsbankann eða Björgólfana þó ekkert hafi gert okkur eins mikinn skaða og Landsbankinn.
Við lestur skýrslunar sem lifeyrisrekendur létu útbúa fyrir tugir milljóna , segir ekkert um hver er sökudólgurinn ????
Eina sem eigendur peninga í svo kölluðum lífeyrissjóðum hafa í hödnum er reikingur upp á tugir milljóna , sem skerðir lífeyrir enn þá frekar !!!!
Ef þið hlustið á alla leikendur innan lífeyrissjóðskerfisins, þá heyrið þið eintón !!!
Hvers vegna ?
Hvers vegna hljóma Gylfi Arnbjörnsson og Vilhjálmur Egilsson eins, þegar þeir tala um líefeyrissjóði ????
Er það laxveiðin eða er það flugferðin til Rússlands eða hvað er það ???
Dæmalaus er framkoman við doktor Herdísi Dröfn , eftir blaðaviðtalið 1999. Það var enginn hulduher sem hljóp í herklæðin og beytti öllum vopnum sínum, til að mótmæla staðreyndum, sem við blöstu. Grunar að þetta sé til dæmis ein birtingarmyndin af ógeðslega þjóðfélaginu sem Styrmir upplifði.
Dagar gullfiskanna er liðinn, elja og dugnaður Láru Hönnu við að halda hlutum í samhengi og rifja upp á réttum augnablikum er ómetanlegur.
Þú Lára ert margra milljóna – milljarða – skrilljónavirði. Meira virði en allt pakkið sem er á okkar herðum þarna við Austurvöll. Ef ég mætti ráða þá værir þú bæði fjármála- og viðskiptaráðherra þessa lands, og ég gæti líka klínt á þig félagsmálaráðherratigninni án hugsunar. Þínar samantektir eru öllum yfirsterkari, sá sérstaki er bara hjóm í samanburðinum. Þegar þú getur gert þetta, algerlega í sjálfboðavinnu, hvers vegna geta þá ekki þeir sem eru með skrilljónir í mánaðarlaun frá okkur aumingjunum ekki gert slíkt og hið sama? Jú þeir eru á launum beggja megin frá. Ég hreint og beint elska þig og þína vinnu.
Flott grein um hrunið en Hvað græddu lífeyrissjóðirnir 3 árin á undan hruninu og hversu stór þáttur er það í tapinu
Svo væri gaman að fá að vita hvers vegna þurfti að greiða 70 milljónir til þessarar nefndar fyrir nokkura mánuða starf þetta eru yfir 20 millur á mann
Ég verð að biðja lesendur forláts á því að hafa ekki með nokkru móti getað minnst á alla lífeyrissjóði og alla menn sem léku stórt hlutverk í fjárfestingum sjóðanna. Ég er ekki búin að lesa skýrsluna og var ekki búin að sjá fréttir kvöldsins (í kvöld) þegar ég lauk við pistilinn. Ég reyndi að tala almennt þótt ég hafi nefnt nokkra menn sem hafa verið mest áberandi í umræðunni og rætt var við í fréttum gærkvöldsins (þann 3. feb.)
Að lokum fannst mér pistillinn orðinn svo langur og ítarefnið svo yfirgripsmikið að hvorki væri meira leggjandi á lesendur né mig sjálfa að þessu sinni.
Ég vona að allir skoði tengslamyndirnar sem leynast undir ýmsum tenglum, sem og stórgóða ritgerð Herdísar, viðtalið við hana og greinaskrifin.
Flottur pistill hjá þér Lára Hanna og mikið efni. Takk fyrir þetta.
Ég er aðeins búinn að vera að grúska í þessari skýrslu, a.m.k. hvað varðar þann lífeyrissjóð sem ég greiði í og þar er niðurstaðan:
„Þótt hér að framan hafi verið fundið að ýmsum einstökum fjárfestingum Stafa lífeyrissjóðs virðast stjórnendur sjóðsins og starfsmenn Virðingar sem unnu fyrir þá hafa gert sér nokkra grein fyrir þeim vandamálum sem að lífeyrissjóðunum steðjuðu og kostað kapps um að kynna sér markaðinn. Það er þannig ljóst að það er starfræksla bankanna og fall þeirra svo og fyrirtækja þeim tengdum, sem veldur mestu um tap lífeyrissjóðsins. Í sumum tilfellum er jafnvel líklegt að einhverjir starfsmenn bankanna hafi brotið trúnað á lífeyrissjóðnum sem viðskiptavini, bæði almennt og jafnvel samkvæmt rammasamningi.“
Engu að síður telst mér til að tap sjóðsins sé 29 milljarðar en eins og skýrslan segir virðist það hafa verið hreinn og klár þjófnaður bankanna sem virðast hafa beitt blekkingum til að soga til sín fé úr sjóðunum.
Breytir ekki því að tapið er mikið og Stafir er lítill sjóður og kannski ekki eftir neinum stórum upphæðum að slægjast í stóra samhenginu. Það verður samt nógu gaman og athyglisvert að fylgjast með umræðunni framundan. Maður getur líklega gengið út frá því að allir sjóðirnir verða dregnir í sama dilkinn hvort sem þeir stóðu sig vel eða illa.
Daninn ég hef einmitt kynnt mér það…….það er ekki ávöxtun sem hefur stækkað norska sjóðinn heldu dælist inn ný Olía. Þessi samanburður við aðra lífeyrissjóði Evrópu og USA ásamt Norska lífeyrissjóðnum verður birtur næstu daga. En að sjálfsögðu er besti samanburðurinn bara við aðra lífeyrissjóði. Norski sjóðurinn er spes enda dælast inn daglega þar olíupeningar en það breytir því ekki að sjóurinn tapaði 25% í hruninu.
Góð samantekt. Svo langt sem hún nær, þú nefnir ekki einu orði 100 milljarðamanninn, Ögmund Jónasson.
Er það tilviljun?
Lenin. Thú ætir ad kynna thér stödu Nosrka oliusjódssins í dag. Thessi 25% thú nefnir ad tapadist er alt komid til baka og mikklu meira, og er thad ekki útaf idngreidslum eda ekstra oliutekjum.
Verulega vel unnið hjá þér vina mín.
Lángflottust.
Frábært að vanda hjÁ Láru Hönnu. Kærar þakkir.
Rósa………það breytir því ekki að Norski Olísjóðurinn(plús hann er í eigu almennings Norðmanna) tapaði meiru en Íslensku lífeyrissjóðirnir………..og Íslensku sjóðirnir töpuðu minna en sjóðirnir í Evrópu og USA.
Það er ekki allt lygi í þessu landi þvert á móti. Svo má ekki gleyma neyðarlögunum.
Amen
Norski olíusjóðurinn samanstendur ekki af greiðslum sem almennir launþegar eru þvingaðir til að inna af hendi lögum samkvæmt.
Norski olíusjóðurinn samanstendur ekki af fjárframlagi almennings sem ætlað er að gera viðkomandi kleift að standa undir útgjöldum á gamals aldri.
Íslenska lífeyriskerfið er lygi eins og allt annað í þessu landi.
Takk, Lára Hanna. Þú ert þjóðargersemi.
Ég vil benda síðuhöfundi á að tap lífeyrissjóða Íslands versus sjóða í Evrópu og USA er minna. Einnig tapaði Norski Olíusjóðurinn 25% í hruninu af sínum eignum sem er meira en Íslensku lífeyrissjóðana. En kannski má ekki koma hér til varnar Lífeyrissjóðskerfinu sem er það besta í heimi og fully funded fyrir utan þetta rugl með LSR. Svo er mjög alvarlegt að skýrsluhöfundar vita ekki hvað víkjandi lán eru. Annars er skýrslan mjög góð þó það séu mikið af dylgjum inn á milli órökstuddar. Það gleymist líka í skýrslunni að nefna að neyðarlögin voru Lífeyrissjóðunum mjög óhagstæð þar sem leikreglum var breytt eftir á. Innlánin fóru framfyrir skuldabréfin sem gerði tap lífeyrissjóðana mun meira en ella. Það jákvæða þó í þessu er þetta að Lífeyrissjóðskerfið er ennþá mjög sterkt þrátt fyrir hrunið og armageddon scenario. Guð blessi ykkur. Kveðja Sannkristinn
Vá!
Þvílík samantekt.
Frábært.
Takk!
Ekki ráða fjölmiðlarnir okkar við þetta.
En ein kona getur tekið saman þessa mikilvægu fréttaskýringu.
Hvernig ætlar þjóðin að bregðast við þessum upplýsingum?
Tæpum tveimur milljónum stolið af hverjum launþega.
Og hvað ætlar Ögmundur Jónasson að gera?
Formaður stjórnar lífeyrissjóðs ríkisstarfsmanna sem tapaði 100 millljörðum í hreinu fjárhættuspili.
Ætlar fólkið í þessu landi að sætta sig við þetta?
Ég spyr.
Hvað ætlið þið að gera nú þegar búið er að segja ykkur frá því að tveimur milljónum hafi verið stolið af hverju ykkar?
Og ráðherra í ríkisstjórninni tengist stærsta þjófnaði Íslandssögunnar.
Hvað ætlum við að gera?
Hver sat við hlið formanns VR í stjórn Kaupþings ? Jú, fulltrúi Ólafs Ólafssonar, sjálfur forstjóri KJALAR. Sá gleymdi kannski að nefna það við formann VR að Kjalar veðjaði GEGN íslensku krónunni, gegn hagsmunum VR og gegn hagsmunum íslensku þjóðarinnar. Glæpamenn sem keyptu og sviku fulltrúa lífeyrissjóðanna. SICK !!