Sunnudagur 15.09.2013 - 17:38 - FB ummæli ()

Valdaránin eru víða

Milton Friedman og Augusto Pinochet

Milton Friedman og Augusto Pinochet

Valdarán getur verið margs konar og þarf ekki endilega að gerast fyrir tilstuðlan hers. Þótt her sé gagnlegur sums staðar, gerist hans varla þörf lengur þegar framið er efnahagslegt og samfélagslegt valdarán.

Þann 11. september sl., á miðvikudaginn, voru 40 ár síðan valdaránið í Chile átti sér stað. Valdarán hersins með aðstoð Bandaríkjamanna og að því er sagan segir – beinlínis að frumkvæði þeirra. Undirrót þess valdaráns hefur síðan orðið alþjóðleg yfirtaka á efnahagskerfi ótal landa, m.a. Íslands.

Talsvert er búið að fjalla um þennan sögulega atburð á Rás 1, einkum í tengslum við bókmenntir og viðtöl við chilenska rithöfundinn Antonio Skármeta sem var hér á landi í tilefni Bókmenntahátíðar. Í Víðsjá eftir hádegið í dag var m.a. samantekt á umfjöllun vikunnar, viðtal við Skármeta og sænskt sendiráðsfólk sem var í Chile á tíma valdaránsins.

Ég hef ekki orðið mikið vör við umræðu eða viðbrögð hér á landi við þessum upprifjunum. Kannski finnst fólki okkur ekki koma þetta við – það sé svo langt síðan; þetta var valdarán hers og hér er enginn her; Chile er jú svo langt í burtu.

En okkur kemur þetta mjög mikið við þótt 40 ár séu liðin frá atburðinum því ástæður og undirrót valdaránsins voru af sama hagfræðilega meiði og efnahagshrunið á Íslandi og víðar um heiminn. Við verðum að þekkja söguna og tengja Ísland við alheiminn, því það sem gerist annars staðar getur svo auðveldlega gerst hér – og hefur vissulega gerst.

Margir muna eftir heimildamyndinni ‘The Shock Doctrine’, eða Hamfarakenningunni sem byggð er á samnefndri bók eftir Naomi Klein. Í inngangsorðum myndarinnar segir Naomi Kline þetta, í þýðingu Bárðar R. Jónssonar:

Að fara í lost hendir ekki bara þegar eitthvað slæmt gerist. Áfallið kemur þegar við missum fótanna, áttum okkur ekki á heiminum. Við höldum áttum og vöku okkar með því að vita af sögu okkar. Svo þegar kreppir að eins og núna er hollt að íhuga söguna. Að íhuga framvindu, ræturnar. Að setja sig í stærra samhengi sögunnar og baráttu mannsins.

Einmitt það sem við þurfum öll að gera – setja okkur í stærra samhengi sögunnar og rifja upp það sem er að gerast og gerst hefur víða um heim.

Þetta Chicago-gengi komst til valda á Íslandi fyrir 20 árum, þ.e. íslenska útgáfan af því. Það endaði með allsherjar efnahagshruni árið 2008. En ekki bara efnahagshruni – mantran hafði verið spiluð svo oft að samfélagið var orðið svo gegnsýrt af eiginhagsmunagæslu, sérgæsku og græðgi að stundum óttast maður að ekki verði aftur snúið. Samfélagsleg ábyrgð og hlutverk okkar allra í að efla og viðhalda grunnþjónustu hafði verið lagt í rúst. Nú var það hver maður fyrir sig, hver er sjálfum sér næstur, skítt með náungann og hin minnstu okkar bræðra og systra mega éta það sem úti frýs. Frumskógarlögmálið allsráðandi. Fyrirtæki og auðmenn flýta sér með auðinn í skattaskjól án þess að leggja neitt til samfélagsins sem þeir og fjölskyldur þeirra þó nýta og nota að vild á kostnað annarra.

Chicago-gengið er aftur komið til valda á Íslandi á bak við nokkur ný andlit – og er nú í óða önn að endurskrifa söguna, bera af sér sakir og ekki hvarflar að þessu fólki að viðurkenna mistök, hvað þá að biðjast afsökunar á þeim. Stefnan hefur heldur ekkert breyst. Áfram skal hlaða undir auðmenn og útvalda og nú er enn og aftur talað um einkavæðingu grunnstoða og afnám eftirlits hvers konar til verndar almenningi. Taka tvö er hafin, þökk sé rúmlega 50% íslenskra kjósenda.

Það er því enn mikilvægara en áður að rifja upp söguna á bak við valdaránið í Chile, vera á varðbergi og spyrna á móti enn frekari áhrifum þessara eyðileggingarafla í íslensku samfélagi.

Ég klippti út kaflann um Chile úr heimildamyndinni ‘The Shock Doctrine’ til að rifja upp öflin á bak við valdaránið árið 1973 og lét upphafsorð Naomi Klein fljóta með. Í næsta kafla myndarinnar á eftir Chile er fjallað um valdaránið í Argentínu og þar segir m.a.:

Lærisveinar Friedmans gegndu lykilstöðum í Brasilíu og voru ráðgjafar yfirvalda í Urugvæ. Svo henti það 24. mars 1976 að herinn steypti stjórn Isabel Peron í Argentínu. […]  Chicago-drengirnir fengu mikilvægar stöður hjá herforingjastjórninni. Þeir gripu tækifærið og lögðu út í umfangsmikla efnahags- og samfélagslega endurskipulagningu. Ári eftir valdaránið hafði kaupmáttur launa rýrnað um 40%, verksmiðjum hafði verið lokað og fátæktin óx hröðum skrefum.

Kunnuglegt stef, ekki satt?

Friedman, Chile og hamfarakenningin – The Shock Doctrine

.

Árið 1982, þegar Pinochet hafði stjórnað Chile með harðri hendi í 9 ár, var kvikmyndin ‘Missing’ frumsýnd. Ég gleymi aldrei hvernig mér leið eftir að horfa á myndina og átta mig á hlutverki Bandaríkjanna í þeim voðaatburðum sem höfðu átt sér stað í Chile. En í myndinni var þó ekkert komið inn á efnahagslega undirrót valdaránsins, ef ég man rétt.

‘Missing’ fjallar um hvarf bandarísks blaðamanns og rithöfundar í Chile og tilraunum eiginkonu hans og föður til að hafa upp á honum. Það er mjög áhrifaríkt hvernig faðirinn, sem trúði á og treysti sínum yfirvöldum, áttar sig smátt og smátt á því, að einmitt þessi sömu yfirvöld í ‘landi frelsis og réttlætis’ báru ótvíræða ábyrgð á ástandinu í Chile og þar með örlögum sonar hans.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Ummæli

  • Þorleifur Gunnlaugsson

    Mjog góð grein, Lára Hanna

    Bendi á myndina NO sem nú er sýnd í Bíó Paradís. Handritið er byggt á leikverki eftir umræddan Antonio Skármeta en myndin lýsir því sem átti sér stað í Cile árið 1988 þegar Pinochet boðaði til kosninga, vegna óvinsælda heima fyrir, taldi sig hafa allt i hendi sér en tapaði.

  • Milton Friedman og Paul A. Samuelson voru dálkahöfundar hjá Newsweek á fyrri hluta áttunda áratugar síðustu aldar. Á þeim tíma skrifuðu þeir báðir dálka þar sem þeir fögnuðu þeirri breytingu sem varð á peningamálum heims við ákvörðun Bandaríkjastjórnar Richard Nixons að Federal Reserve System (Seðalbanki BNA) myndi hætta að innleysa gull fyrir dollarainnstæður sem aðrir seðlabankar höfðu eignast. Skuldbinding BNA í þá veru var forsenda alþjóðapeningakerfisins um aldarfjórðungs skeið eftir lok síðari heimsstyrjaldar og virkað sem hemill á útlánaþenslu bandarískra banka á alþjóðavettvangi.

    Ég skrifaði bæði Friedman og Samuelson bréf, hvorum í sínu lagi, og var ósammála þeim að breytingin væri til batnaðar. Árið 1982 hélt ég síðan fyrirlestur á Loftleiðahótelinu í boði Verzlunarráðs Íslands þar sem ég flutti rök fyrir afstððu minni og fullyrti eftirfarandi:

    Sú aukning pappírspeninga í hagkerfi heims miðað við framleiðslumagns kerfisins sem hafði orðið sífellt síðasta áratuginn gæti ekki haldið áfram án þess að hlutirnir færu úr böndum. Eins og ég rakti í Silfri Egils í byrjun árs 2009 þá líkti ég pappírseignum við yfirbyggingu á skipi sem myndi leiða af sér vaxandi óstöðugleika skipsins eftir því sem við hana væri bætt þar til – á einhverjum tímapunkti og við aðstæður sem ekki væri hægt að segja fyrir um – skipinu myndi hvolfa.

    Samkvæmt hugmyndum Friedman og Samuelson – og andmælanda míns sem Verzlunarráð hafði fengið til umsagnar um hugmyndir máinar, Jónasar Haralz – gat ekkert slíkt skeð. Frjáls markaðsöfl myndu sjá til þess að allt héldist í góðu jafnvægi.

    Aldarfjórðungi síðar gerðist síðan það sem almenn skynsemi gat sagt fyrir um að myndi gerast – alþjóðapeningakerfið hrundi 2007. Aðgerðir stjórnvalda víða um heim hafa snúist um það að endurreisa kerfi sem ekki verður endurreist til langframa. Í millitíðinni ráðast stjórnvöld í alls kyns niðurskurð ríkisútgjalda og skattalækkanir sem breyta engu varðandi kjarna málsins – sem er hagstjórn í þágu peningaafla á kostnað alls almennings með meðfylgjandi atvinnuleysi og skemmdum á þeim innviðum samfélagsins sem blasa við á Íslandi þessa dagana.

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af einum og fjórum? Svar:

Höfundur



Eldri færslur

Dagatal

september 2013
S M Þ M F F L
« ágú   okt »
1234567
891011121314
15161718192021
22232425262728
2930