Stóru Magma-fréttirnar og öll umræðan í kringum þær hafa verið ansi fróðlegar og athyglisverðar í meira lagi, ekki síst á Facebook þar sem þetta málefni hefur átt sviðið í dag. Margir hafa bent á að það sé engin ný frétt að Magma Energy Sweden AB sé skúffufyrirtæki. Það er alveg hárrétt – það var ljóst frá upphafi. Ég bendi til að mynda á pistil sem ég skrifaði fyrir nærri ári síðan – Innihaldið í sænsku skúffunni. Og þeir voru fleiri pistlarnir í þessum dúr. Ég hef aldrei verið í vafa um skúffuelementið í Svíþjóðardeild Magma Energy og bent á það í mörgum pistlum.
Hins vegar hafa ýmsir verið ósammála þessari fullyrðingu, kallað skúffuna t.d. „dótturfélag“ eða „eignarhaldsfélag“ og látið eins og það sé ofureðlilegt að fyrirtæki og einstaklingar stofni slík sýndarfyrirtæki víða um lönd til þess eins að sveigja og beygja lög í eigin landi eða öðrum – eða jafnvel til að svíkja undan skatti. Það get ég ekki tekið undir – hvaða brask sem um er að ræða hverju sinni.
Það sem er kannski fréttnæmast í þessu framtaki okkar Teits Atlasonar er sú staðreynd að enginn – hvorki fjölmiðlar, stjórnvöld eða Nefnd um erlenda fjárfestingu, hafði rannsakað málið og gengið úr skugga um réttmæti þessa orðróms sem allir vissu en enginn hafði fært sönnur á. Þetta mál hafði farið í gegnum alls konar nefndir, ráð og stjórnsýslu án þess að þessi almannavitneskja væri staðfest eins og Orðið á götunni skrifar um hér og Agnar Kristján bendir á hér.
Eftir því sem ég best veit hefur heldur enginn kannað hvort slíkur gjörningur stenst sænsk lög. Ef til vill vegna þess sem fram kom í RÚV-fréttum í kvöld – að iðnaðarráðherra og hennar fólk hafi beinlínis leiðbeint Magma Energy Kanada um hvernig komast mætti í kringum lögin með stofnun skúffunnar. Auðvitað rannsakar ráðuneytið ekki verknað sem það stóð sjálft að. Var það að undirlagi Össurar eða Katrínar? Össur var iðnaðarráðherra frá kosningum 2007 til kosninga 2009, en þá tók Katrín við ráðuneytinu. Magma Energy Sweden var skráð 8. júní 2009, en þá hafði Katrín verið ráðherra iðnaðarmála í hálfan mánuð eða þrjár vikur. Hefur Katrín sömu ráðgjafa og Össur? Hverjir eru þeir? Kannski er þarna kominn ljóslifandi þrýstingurinn á formann Nefndar um erlenda fjárfestingu sem ég minntist á í síðasta pistli. Maður spyr sig alltént…
Össur og Katrín Júl virðast bæði vera virkjana- og stóriðjusinnar og hafa hagað sér í sínum embættum samkvæmt því. Hvort það er af einlægum áhuga fyrir náttúruspjöllum, risamannvirkjum og ofnýtingu orkuauðlinda veit ég ekki, en ég sá a.m.k. ástæðu til að segja m.a. þetta í pistlinum Hin fallna þjóð og afsal auðlinda þann 8. ágúst 2009:
„Fyrir næstum nákvæmlega ári síðan skrifaði ég í pistli um náttúruna og rányrkjuna: „…Katrín (Júlíusdóttir) kom út eins og argasti stóriðju- og virkjanasinni. Kannski er hún það…“ Þarna var ég að vísa í þessa umræðu í Kastljósi. Katrín var þá formaður iðnaðarnefndar – nú er hún iðnaðarráðherra. Unnendur náttúru Íslands, innlendir sem erlendir, geta ekki vænst neinnar miskunnar úr þeim herbúðum, að því er virðist. Hér skal náttúrunni fórnað, virkjað og álver reist, hvort sem það er þjóðhagslega hagkvæmt eða ekki. Auðlindirnar skulu einkavæddar og ofnýttar, hvað sem hver segir.“
Ef rétt reynist að iðnaðarráðuneytið hafi leiðbeint Magma Kanada um stofnun skúffunnar í Svíþjóð þarf ekki frekar vitnanna við um ásetning þeirra við að einkavæða grunnstoðir samfélagsins – í þessu tilfelli orkuna – og láta arðinn renna í prívatvasa, innlenda og/eða erlenda. Þetta voru a.m.k. ekki nýjar fréttir fyrir henni Petrínu í Grindavík – eðlilega.
Fyrsta útgáfa þessarar umfjöllunar, sem auðvitað er engin afhjúpun heldur staðfesting á því sem allir vissu, var í Morgunútvarpspistli mínum klukkan rúmlega átta á föstudagsmorgunn. Bloggistilinn birti ég síðan upp úr hádeginu. En svona hljóðaði Morgunútvarpspistillinn:
Pistill í Morgunútvarpi Rásar 2 – 9. júlí 2010
Ágætu hlustendur,
Ég hafði hugsað mér að tala um lánamálin, dóma Hæstaréttar og rasskellingu Umboðsmanns Alþingis – en mér snerist hugur. Ég ætla þess í stað að tala um auðlindasöluna og þau skelfilegu mistök sem verið er að gera hvað ráðstöfun auðlindanna varðar.
Nefnd um erlenda fjárfestingu gaf út lokaálit sitt í fyrradag þar sem meirihlutinn lagði blessun sína yfir að skúffufyrirtæki með enga starfsemi, stofnað gagngert til að fara á svig við íslensk lög, megi eiga orkufyrirtæki á Íslandi með húð og hári og nýtingarrétt á gjöfulum auðlindum Íslendinga til allt að 130 ára. Þetta er fordæmalaust hneyksli sem verður viðkomandi einstaklingum og flokkum þeirra til ævarandi skammar.
Ég ætla að segja meirihluta nefndarinnar svolitla sögu. Þeir sem ekki vilja trúa að Magma Energy Sweden sé nafnið eitt, lokað ofan í skúffu á lögfræðiskrifstofu í Svíþjóð, ættu líka að hlusta.
Maður að nafni Teitur Atlason býr í Gautaborg. Ég bað hann að heimsækja höfuðstöðvar Magma Energy Sweden og það gerði hann snarlega. Teitur átti stutt samtal við Monu Jonasson, lögmann á lögfræðistofunni þar sem fyrirtækið er skráð. Samtalið má sjá í heild sinni á bloggsíðu minni á netmiðlinum Eyjunni, en hér er örlítið sýnishorn:
Teitur: Er þetta heimilisfang Magma Energy Sweden?
Mona: Það stemmir, velkominn. Leitarðu að Jóhanni Rappmann? Hann er í fríi.
Teitur: Er ekki einhver annar sem getur talað fyrir Magma Energy?
Mona: Jonas Hallberg. Hann er í fríi. Get ég aðstoðað þig?
Teitur: Spurningin er, ég vil vita hverskonar fyrirtæki þetta er. Er einhver rekstur hérna eða starfsmenn? Eða er þetta bara skráð hérna í gegnum Kanada? Hvað gerið þið?
Mona: A-ha. Þetta eru spurningar fyrir stjórnina. Þetta er ekki skrifstofa Magma en við höfum unnið fyrir þá.
Teitur: Er þetta ekki skrifstofa Magma?
Mona: Nei, nei. En sem lögfræðingar höfum við hjálpað Magma.
Teitur: Þið hafið bara hjálpað Magma. Þetta er ekki skrifstofan fyrir Magma eða þannig. Veistu hvar skrifstofur Magma eru?
Mona: Nei. Þú verður að kíkja á skráninguna.
Teitur: Það hef ég gert. Heimilisfangið er gefið upp hérna. Spurningin er: Getur verið að þið hér á lögfræðiskrifstofunni hjálpið Magma að skrá sig í Svíþjóð?
Mona: Aðeins Jonas eða Johann geta svarað þessu.
Samtalinu lauk og Teitur fór út og tók myndir af húsinu, anddyrinu og innganginum því til sönnunar, að hvergi nokkurs staðar er minnst á að höfuðstöðvar Magma Energy Sweden sé þar til húsa. Þannig er það líka á Tortóla og öðrum aflandsfelustöðum. Enda er fyrirtækið bara til á blaði – að nafninu til.
Hvernig er komið fyrir þjóð sem missti allt – nema auðlindir sínar – þegar hún ætlar í ofanálag að afsala sér þeim líka í hendur gráðugra manna, innlendra eða erlenda, sem svífast einskis til að sölsa undir sig auðlindir sem eiga að vera í almannaeigu? Selja skúffufyrirtæki hænuna sem verpir gulleggjunum.
Samkvæmt 12. grein laga nr. 34/1991 um fjárfestingu erlendra aðila í atvinnurekstri á Íslandi getur efnahags- og viðskiptaráðherra stöðvað kaup skúffufyrirtækisins á orkuauðlindinni. Ég skora á Gylfa Magnússon að gera það nú þegar.
******************************************************************
Þess má geta að 12. greinin – eða sá hluti af henni sem ég vísa í – hljóðar svo: “ ‘Nú telur viðskiptaráðherra að tiltekin erlend fjárfesting ógni öryggi landsins eða gangi gegn allsherjarreglu, almannaöryggi eða almannaheilbrigði eða ef upp koma alvarlegir efnahagslegir, þjóðfélagslegir eða umhverfislegir erfiðleikar í sérstökum atvinnugreinum eða á sérstökum svæðum, sem líklegt er að verði viðvarandi, og getur hann þá stöðvar slíka fjárfestingu, enda kunngjöri hann ákvörðun sina innan átta vikna frá því að honum berst tilkynning um hlutaðeigandi fjárfestingu, sbr. 7. gr.’ Gylfi Magnússon getur semsagt stöðvað söluna samkvæmt þessu.“ Ástandið í íslensku samfélagi var svona þá – og er því miður enn og því full ástæða fyrir ráðherra að grípa til þessara ráðstafana og stöðva söluna til Magma. Í pistlinum sem ég vísa í hér í upphafi – Innihaldið í sænsku skúffunni – skoraði ég einmitt á Gylfa Magnússon að beita þessu valdi sínu svo nú hef ég gert það tvisvar. Ég efast ekki um að fjölmargir taki undir þá áskorun.
Hér eru fréttir kvöldsins af RÚV og Stöð 2. Í mestu vinsemd bendi ég krúttmolanum á RÚV á að ég blogga á Eyjunni, ekki DV þótt mér sé afskaplega hlýtt til blaðsins. Ekki að það skipti máli, en rétt skal vera rétt.
Fréttir RÚV og Stöðvar 2 – 10. júlí 2010
Nú verður umhverfisráðherra að fylgja málinu mjög fast eftir. Og samkvæmt fréttum í kvöld hefur Margrét Tryggvadóttir, þingkona Hreyfingarinnar, farið fram á fund í iðnaðarnefnd, sem hún á sæti í, þar sem könnuð verði samskipti iðnaðarráðuneytis og Magma Energy auk þess sem rætt verði við bæði meiri- og minnihluta Nefndar um erlenda fjárfestingu.