Laugardagur 10.7.2010 - 23:50 - FB ummæli ()

Afhjúpun eða ekki afhjúpun

Magma Energy Sweden AB - Allabolaget.se

Magma Energy Sweden AB - Allabolaget.se

Stóru Magma-fréttirnar og öll umræðan í kringum þær hafa verið ansi fróðlegar og athyglisverðar í meira lagi, ekki síst á Facebook þar sem þetta málefni hefur átt sviðið í dag. Margir hafa bent á að það sé engin ný frétt að Magma Energy Sweden AB sé skúffufyrirtæki. Það er alveg hárrétt – það var ljóst frá upphafi. Ég bendi til að mynda á pistil sem ég skrifaði fyrir nærri ári síðan – Innihaldið í sænsku skúffunni. Og þeir voru fleiri pistlarnir í þessum dúr. Ég hef aldrei verið í vafa um skúffuelementið í Svíþjóðardeild Magma Energy og bent á það í mörgum pistlum.

Hins vegar hafa ýmsir verið ósammála þessari fullyrðingu, kallað skúffuna t.d. „dótturfélag“ eða „eignarhaldsfélag“ og látið eins og það sé ofureðlilegt að fyrirtæki og einstaklingar stofni slík sýndarfyrirtæki víða um lönd til þess eins að sveigja og beygja lög í eigin landi eða öðrum – eða jafnvel til að svíkja undan skatti. Það get ég ekki tekið undir – hvaða brask sem um er að ræða hverju sinni.

Það sem er kannski fréttnæmast í þessu framtaki okkar Teits Atlasonar er sú staðreynd að enginn – hvorki fjölmiðlar, stjórnvöld eða Nefnd um erlenda fjárfestingu, hafði rannsakað málið og gengið úr skugga um réttmæti þessa orðróms sem allir vissu en enginn hafði fært sönnur á. Þetta mál hafði farið í gegnum alls konar nefndir, ráð og stjórnsýslu án þess að þessi almannavitneskja væri staðfest eins og Orðið á götunni skrifar um hér og Agnar Kristján bendir á hér.

Eftir því sem ég best veit hefur heldur enginn kannað hvort slíkur gjörningur stenst sænsk lög. Ef til vill vegna þess sem fram kom í RÚV-fréttum í kvöld – að iðnaðarráðherra og hennar fólk hafi beinlínis leiðbeint Magma Energy Kanada um hvernig komast mætti í kringum lögin með stofnun skúffunnar. Auðvitað rannsakar ráðuneytið ekki verknað sem það stóð sjálft að. Var það að undirlagi Össurar eða Katrínar? Össur var iðnaðarráðherra frá kosningum 2007 til kosninga 2009, en þá tók Katrín við ráðuneytinu. Magma Energy Sweden var skráð 8. júní 2009, en þá hafði Katrín verið ráðherra iðnaðarmála í hálfan mánuð eða þrjár vikur. Hefur Katrín sömu ráðgjafa og Össur? Hverjir eru þeir? Kannski er þarna kominn ljóslifandi þrýstingurinn á formann Nefndar um erlenda fjárfestingu sem ég minntist á í síðasta pistli. Maður spyr sig alltént…

Össur og Katrín Júl virðast bæði vera virkjana- og stóriðjusinnar og hafa hagað sér í sínum embættum samkvæmt því. Hvort það er af einlægum áhuga fyrir náttúruspjöllum, risamannvirkjum og ofnýtingu orkuauðlinda veit ég ekki, en ég sá a.m.k. ástæðu til að segja m.a. þetta í pistlinum Hin fallna þjóð og afsal auðlinda þann 8. ágúst 2009:

„Fyrir næstum nákvæmlega ári síðan skrifaði ég í pistli um náttúruna og rányrkjuna: „…Katrín (Júlíusdóttir) kom út eins og argasti stóriðju- og virkjanasinni. Kannski er hún það…“ Þarna var ég að vísa í þessa umræðu í Kastljósi. Katrín var þá formaður iðnaðarnefndar – nú er hún iðnaðarráðherra. Unnendur náttúru Íslands, innlendir sem erlendir, geta ekki vænst neinnar miskunnar úr þeim herbúðum, að því er virðist. Hér skal náttúrunni fórnað, virkjað og álver reist, hvort sem það er þjóðhagslega hagkvæmt eða ekki. Auðlindirnar skulu einkavæddar og ofnýttar, hvað sem hver segir.“

Ef rétt reynist að iðnaðarráðuneytið hafi leiðbeint Magma Kanada um stofnun skúffunnar í Svíþjóð þarf ekki frekar vitnanna við um ásetning þeirra við að einkavæða grunnstoðir samfélagsins – í þessu tilfelli orkuna – og láta arðinn renna í prívatvasa, innlenda og/eða erlenda. Þetta voru a.m.k. ekki nýjar fréttir fyrir henni Petrínu í Grindavík – eðlilega.

Fyrsta útgáfa þessarar umfjöllunar, sem auðvitað er engin afhjúpun heldur staðfesting á því sem allir vissu, var í Morgunútvarpspistli mínum klukkan rúmlega átta á föstudagsmorgunn. Bloggistilinn birti ég síðan upp úr hádeginu. En svona hljóðaði Morgunútvarpspistillinn:

Pistill í Morgunútvarpi Rásar 2 – 9. júlí 2010

Ágætu hlustendur,

Ég hafði hugsað mér að tala um lánamálin, dóma Hæstaréttar og rasskellingu Umboðsmanns Alþingis – en mér snerist hugur. Ég ætla þess í stað að tala um auðlindasöluna og þau skelfilegu mistök sem verið er að gera hvað ráðstöfun auðlindanna varðar.

Nefnd um erlenda fjárfestingu gaf út lokaálit sitt í fyrradag þar sem meirihlutinn lagði blessun sína yfir að skúffufyrirtæki með enga starfsemi, stofnað gagngert til að fara á svig við íslensk lög, megi eiga orkufyrirtæki á Íslandi með húð og hári og nýtingarrétt á gjöfulum  auðlindum Íslendinga til allt að 130 ára. Þetta er fordæmalaust hneyksli sem verður viðkomandi einstaklingum og flokkum þeirra til ævarandi skammar.

Ég ætla að segja meirihluta nefndarinnar svolitla sögu. Þeir sem ekki vilja trúa að Magma Energy Sweden sé nafnið eitt, lokað ofan í skúffu á lögfræðiskrifstofu í Svíþjóð, ættu líka að hlusta.

Maður að nafni Teitur Atlason býr í Gautaborg. Ég bað hann að heimsækja höfuðstöðvar Magma Energy Sweden og það gerði hann snarlega. Teitur átti stutt samtal við Monu Jonasson, lögmann á lögfræðistofunni þar sem fyrirtækið er skráð. Samtalið má sjá í heild sinni á bloggsíðu minni á netmiðlinum Eyjunni, en hér er örlítið sýnishorn:

Teitur: Er þetta heimilisfang  Magma Energy Sweden?
Mona: Það stemmir, velkominn. Leitarðu að Jóhanni Rappmann? Hann er í fríi.
Teitur: Er ekki einhver annar sem getur talað fyrir Magma Energy?
Mona: Jonas Hallberg. Hann er í fríi. Get ég aðstoðað þig?
Teitur: Spurningin er, ég vil vita hverskonar fyrirtæki þetta er. Er einhver rekstur hérna eða starfsmenn? Eða er þetta bara skráð hérna í gegnum Kanada? Hvað gerið þið?
Mona: A-ha.  Þetta eru spurningar fyrir stjórnina.  Þetta er ekki skrifstofa Magma en við höfum unnið fyrir þá.
Teitur: Er þetta ekki skrifstofa Magma?
Mona: Nei, nei.  En sem lögfræðingar höfum við hjálpað Magma.
Teitur: Þið hafið bara hjálpað Magma. Þetta er ekki skrifstofan fyrir Magma eða þannig.  Veistu hvar skrifstofur Magma eru?
Mona: Nei. Þú verður að kíkja á skráninguna.
Teitur: Það hef ég gert. Heimilisfangið er gefið upp hérna. Spurningin er: Getur verið að þið hér á lögfræðiskrifstofunni hjálpið Magma að skrá sig í Svíþjóð?
Mona: Aðeins Jonas eða Johann geta svarað þessu.

Samtalinu lauk og Teitur fór út og tók myndir af húsinu, anddyrinu og innganginum því til sönnunar, að hvergi nokkurs staðar er minnst á að höfuðstöðvar Magma Energy Sweden sé þar til húsa. Þannig er það líka á Tortóla og öðrum aflandsfelustöðum. Enda er fyrirtækið bara til á blaði – að nafninu til.

Hvernig er komið fyrir þjóð sem missti allt – nema auðlindir sínar – þegar hún ætlar í ofanálag að afsala sér þeim líka í hendur gráðugra manna, innlendra eða erlenda, sem svífast einskis til að sölsa undir sig auðlindir sem eiga að vera í almannaeigu? Selja skúffufyrirtæki hænuna sem verpir gulleggjunum.

Samkvæmt 12. grein laga nr. 34/1991 um fjárfestingu erlendra aðila í atvinnurekstri á Íslandi getur efnahags- og viðskiptaráðherra stöðvað kaup skúffufyrirtækisins á orkuauðlindinni. Ég skora á Gylfa Magnússon að gera það nú þegar.

******************************************************************

Þess má geta að 12. greinin – eða sá hluti af henni sem ég vísa í – hljóðar svo: “ ‘Nú telur viðskiptaráðherra að tiltekin erlend fjárfesting ógni öryggi landsins eða gangi gegn allsherjarreglu, almannaöryggi eða almannaheilbrigði eða ef upp koma alvarlegir efnahagslegir, þjóðfélagslegir eða umhverfislegir erfiðleikar í sérstökum atvinnugreinum eða á sérstökum svæðum, sem líklegt er að verði viðvarandi, og getur hann þá stöðvar slíka fjárfestingu, enda kunngjöri hann ákvörðun sina innan átta vikna frá því að honum berst tilkynning um hlutaðeigandi fjárfestingu, sbr. 7. gr.’ Gylfi Magnússon getur semsagt stöðvað söluna samkvæmt þessu.“ Ástandið í íslensku samfélagi var svona þá – og er því miður enn og því full ástæða fyrir ráðherra að grípa til þessara ráðstafana og stöðva söluna til Magma. Í pistlinum sem ég vísa í hér í upphafi – Innihaldið í sænsku skúffunni – skoraði ég einmitt á Gylfa Magnússon að beita þessu valdi sínu svo nú hef ég gert það tvisvar. Ég efast ekki um að fjölmargir taki undir þá áskorun.

Hér eru fréttir kvöldsins af RÚV og Stöð 2. Í mestu vinsemd bendi ég krúttmolanum á RÚV á að ég blogga á Eyjunni, ekki DV þótt mér sé afskaplega hlýtt til blaðsins. Ekki að það skipti máli, en rétt skal vera rétt.

Fréttir RÚV og Stöðvar 2 – 10. júlí 2010

Nú verður umhverfisráðherra að fylgja málinu mjög fast eftir. Og samkvæmt fréttum í kvöld hefur Margrét Tryggvadóttir, þingkona Hreyfingarinnar, farið fram á fund í iðnaðarnefnd, sem hún á sæti í, þar sem könnuð verði samskipti iðnaðarráðuneytis og Magma Energy auk þess sem rætt verði við bæði meiri- og minnihluta Nefndar um erlenda fjárfestingu.

Flokkar: Bloggar

Föstudagur 9.7.2010 - 12:47 - FB ummæli ()

Magma og skúffan í Svíþjóð

Tómar skrifborðsskúffur

Tilbúnar skrifborðsskúffur

Aldrei verður nægilega hamrað á hve þetta mál er alvarlegt og ég bið alla sem vettlingi geta valdið og eru á sömu skoðun og ég að hjálpa mér að hrópa á götuhornum, senda tölvupósta, skrifa, tala og sannfæra þá sem eru enn slegnir blindu um að þetta megi aldrei gerast. Við megum ekki láta það viðgangast að auðlindir okkar séu einkavæddar og seldar í hendur misviturra og gráðugra manna sem hafa eigin auðsöfnun eina að leiðarljósi. Það má aldrei gerast að grunnstoðir samfélagsins, sem fomæður okkar og forfeður börðust fyrir, verði einkavæddar. Persónugerum vandann, drögum einstaklinga til ábyrgðar – því á bak við allar ákvarðanir er jú fólk. Landar okkar sem slegnir eru einhvers konar blindu og neita að skilja alvarleika gjörða sinna. Þiggja mútur eða taka við skipunum einhvers staðar frá en vilja ekki viðurkenna það. Hvað veit maður?

Einkavæðing orkuveitna og orkusölu hefur hvergi gefist vel. Ekki tók nema fimm ár að stefna orkumálum í Kaliforníu í algjört óefni eftir einkavæðingu. Og gleymum aldrei Enron-málinu. Almenningur í þeim löndum þar sem orkumálin hafa verið einkavædd hafa skelfilega sögu að segja og vara önnur lönd við. Horfum í kringum okkur og reynum að vera nú einu sinni framsýn og skynsöm og láta okkur reynslu annarra að kenningu verða! Getum við það?

Margir halda að Magma Energy Sweden AB sé alvörufyrirtæki með alvörustarfsemi, kalla það „dótturfélag“ Magma í Kanada og ýmsir sem hafa viðrað aðrar skoðanir hafa fengið skömm í hattinn. Fólk er talið of tortryggið, með ofsóknaræði og þar fram eftir götunum. En Magma Energy Sweden ER gervifyrirtæki – skúffufyrirtæki staðsett í lögfræðifirma í Svíþjóð og gagngert stofnað til að fara í kringum íslensk lög um fjárfestingar erlendra aðila í íslenskum atvinnuvegi. Ég hélt að Íslendingar hefðu fengið nóg af slíku svindli eftir hrunið – en það er nú aldeilis öðru nær! Sumir eru meira að segja tilbúnir til að selja slíkri svikamyllu auðlindir íslensks almennings. Meðal þeirra er meirihluti Nefndar um erlenda fjárfestingu sem ég minntist síðast á í þessum pistli – en líka í þessum, þessum, þessum og þessum. Ég varaði við, skoraði á, færði rök fyrir máli mínu en allt kom fyrir ekki. Unnur G. Kristjánsdóttir, Adolf H. Berndsen og Sigurður Hannesson – meirihluti nefndarinnar – voru ákveðin í að koma HS Orku í hendur skúffufyrirtækisins hvað sem tautaði og raulaði. Þrátt fyrir að hafa fengið rökstudd lögfræðiálit sem hefði gert þeim auðvelt fyrir að hafna sölunni. Skoðið bara rökstuðninginn gegn henni.

Hér er sagan af sannleikanum um Magma Energy Sweden AB. Lesið vandlega og íhugið hve alvarlegan glæp er verið að fremja á íslenskum almenningi. Ég flutti líka pistil um málið í Morgunútvarpi Rásar 2 í morgun.

Pistill í Morgunútvarpi Rásar 2 – 9. júlí 2010

Sannleikurinn um Magma Energy Sweden AB

Teitur Atlason

Teitur Atlason

Miðvikudaginn 7. júlí 2010 fór Teitur Atlason, sem búsettur er í Gautaborg, að svokölluðum höfuðstöðvum Magma Energy Sweden AB. Það var stofnað í júní 2009 gagngert til að kaupa hlutabréf í HS Orku. Fyrirtækið varð að vera með heimilisfang í EES eða ESB landi til að vera heimilt að kaupa hlut í íslensku orkufyrirtæki. Deilt hefur verið um hvort það samræmist íslenskum lögum (34/1991 – Lög um fjárfestingu erlendra aðila í atvinnurekstri) að farið sé svo augljóslega á svig við lögin og stofnað svokallað skúffufyrirtæki til að komast bakdyramegin inn í eignarhald/nýtingarrétt á orkufyrirtækjum og auðlindum Íslendinga.

Magma Energy Sweden AB er samkvæmt skráningu til heimilis að Kungsgatan 42 í Gautaborg forsvarsmenn fyrirtækisins sagðir vera Lyle Emerson Braaten, Johan Peter Rappmann og Jonas Lage Hallberg.

Lyle Emerson Braaten er lögfræðingur og starfar hjá Magma Energy Corp. í Kanada eins og sjá má hér. Ekkert kemur fram sem bendir til þess að hann hafi nokkur tengsl við Svíþjóð önnur en að vera nafn á blaði hjá MES.

Johan Rappmann og Jonas Hallberg eru lögmenn hjá lögfræðifirmanu Glimstedt Göteborg AB. Ekkert í skráningu fyrirtækisins Magma Energy Sweden AB bendir til að það sé virkt á neinn hátt, hvorki skattalega né að öðru leyti.

Eins og áður segir fór Teitur Atlason í vettvangskönnun og hér fer á eftir stutt samtal sem hann átti við lögmann sem hann hitti hjá firmanu, Monu Jonasson. Því miður voru Rappmann og Hallberg í fríi.

Glimstedt - Mona Jonasson

Glimstedt - Mona Jonasson

Teitur Atlason: Er þetta heimilisfang  Magma Energy Sweden?
Mona Jonasson: Það stemmir, velkominn. Leitarðu að Jóhanni Rappmann. Hvað heitirðu?
TA: Teitur Atlason.
—Smá stund—
MJ: Hann er í fríi.
TA: Er ekki einhver annar sem getur talað fyrir Magma Energy? Ég er með 2 nöfn.  Rappmann og …. Jan…
MJ: Jonas Hallberg. Hann er í fríi. Get ég aðstoðað þig?
TA: Spurningin er, ég vil vita hverskonar fyrirtæki þetta er. Er einhver rekstur hérna eða starfsmenn? Eða er þetta bara skráð hérna í gegnum Kanada? Hvað gerið þið?
MJ: A-ha.  Þetta eru spurningar fyrir stjórnina.  Þetta er ekki skrifstofa Magma en við höfum unnið fyrir þá.
TA: Er þetta ekki skrifstofan fyrir Magma?
MJ: Nei, nei.  En sem lögfræðingar höfum við hjálpað Magma.
TA: Þið hafið bara hjálpað Magma. Þetta er ekki skrifstofan fyrir Magma eða þannig.  Veist þú hvar skrifstofur Magma eru?
MJ: Nei. Þú verður að kíkja á skráninguna?
TA: Það hef ég gert.  Allabolag.se.
MJ: Og…?
TA: Heimilisfangið er gefið upp hérna.  Kungsgatan 42 og 2 nöfn. Rappman og Jonas. Sá sem er skráður stjórnarformaður er skráður fyrir utan ESB.  Hann heitir Lyle Emerson Braatens. Ekki sænskt nafn?
MJ: Nei.
TA: Gæti verið norskt?
MJ:
TA: Allar upplýsingar frá Allabolag eru hér.  Spurningin er: Getur verið að þið hér á lögfræðiskrifstofunni hjálpið Magma að skrá sig í Svíþjóð?
MJ: Aðeins Jonas eða Johann geta svarað þessu.

Hér lauk samtalinu og Teitur fór með nafnspjöld sænsku lögmannanna upp á vasann. Samtalið var tekið upp á band svo hægt er að sannreyna hvert orð.

Teitur tók einnig myndir af húsinu, merkingum í anddyri og forstofu firmans og á þeim sést að hvergi nokkurs staðar er minnst á að þarna sé Magma Energy Sweden AB til húsa. Þetta minnir óþægilega mikið á kaflann í heimildamynd Gunnars Sigurðssonar og Herberts Sveinbjörnssonar, Maybe I should have, þar sem þeir heimsóttu aflandseyjuna Tortóla og sýndu ómerkt hús og póstkassa sem hýstu þúsundir svokallaðra skúffufyrirtækja. Myndbrotið má meðal annars sjá hér.

Myndir af Kungsgatan 42 í Gautaborg – meintum höfuðstöðvum Magma Energy Sweden AB

Magma Energy Sweden AB - Kungsgatan 42, Gautaborg, Svíþjóð

Magma Energy Sweden AB - Kungsgatan 42, Gautaborg, Svíþjóð

Ljóst má vera af þessum upplýsingum að Magma Energy Sweden AB er skúffufyrirtæki með enga starfsemi, greinilega tæki til að sveigja og beygja lög um erlenda fjárfestingu í íslenskum orkuiðnaði og komast bakdyramegin inn á markaðinn.

Vísað er í lögskýringargögn með frumvarpinu til áðurnefndra laga nr. 34/1991 þar sem segir m.a.: „Ástæðan fyrir því að íslenskt atvinnufyrirtæki undir erlendum yfirráðum er í frumvarpinu skilgreint sem erlendur aðili er sú að þannig á að reyna að girða fyrir að erlendur aðili geti farið bakdyramegin inn á svið þar sem fjárfestingu erlendra aðila eru skorður settar. Ella gæti erlendur aðili fyrst stofnað eða fjárfest í atvinnufyrirtæki hér á landi sem þar með teldist íslenskur aðili og það fyrirtæki síðan fjárfest á umræddu sviði.“ Sjá hér.

Þessi tilvísun er ein af mörgum röksemdum í minnihlutaáliti Nefndar um erlenda fjárfestingu sem fjallaði um málið og úrskurðaði gjörninginn lögmætan í mars 2010 með samhljóða lokaáliti 7. júlí 2010. Sjá má álitsgerðir nefndarinnar hér:

Meirihlutaálit – mars 2010

Minnihlutaálit – mars 2010

Nefndarálit – júlí 2010

Ef frumvarpið til laga um erlenda fjárfestingu nr. 34/1991 er lesið ásamt fylgigögnum má ljóst vera að andi laganna og tilgangur er sá, að verja íslensku þjóðina fyrir ágangi erlendra aðila sem vilja hagnast á náttúruauðlindum Íslendinga. Auðvelt hefði verið að koma í veg fyrir lögfestingu kaupa Magma Energy Sweden AB á HS Orku þar sem augljóst er að fyrirtækið er ekki með neinn rekstur og er dæmigert gervifyrirtæki sem stofnað er beinlínis til að fara á svig við lög og reglur.

Eftir efnahagshrunið og skýrslu Rannsóknarnefndar Alþingis um orsakir þess er deginum ljósara að slík svik og prettir eru til þess eins fallnir að gera mikinn skaða enn meiri.

Vinnubrögð meirihluta Nefndar um erlenda fjárfestingu eru ámælisverð og ýmislegt sem kanna þarf, s.s. pólitískan þrýsting á formann nefndarinnar, rannsóknargögn, upplýsingar og heimildir. Einnig þarf að fá upplýst um viðhorf Svía og laga þar í landi til hýsingar skúffufyrirtækja í anda illræmdra aflandseyja.

Lára Hanna Einarsdóttir
Teitur Atlason

*********************************************

Hér er svosem ekkert verið að fela þetta – á Corporate-síðu Magma Energy í Kanada er hvergi minnst á „dótturfyrirtækið“ í Svíþjóð.

Magma Energy Corp. - Corporate Profile

Magma Energy Corp. - Corporate Profile

Flokkar: Bloggar

Fimmtudagur 8.7.2010 - 22:42 - FB ummæli ()

Auðlindasalan, nefndin og mistökin

Að gefnu tilefni ætla ég að minna á orð þessara tveggja herramanna. Verið er að gera einmitt þau hrikalegu mistök sem þeir vara svo afdráttarlaust við.

John Perkins í Silfri Egils 5. apríl 2009

Lítum sérstaklega á t.d. þessi orð Perkins: Málið snýst um… „…stjórn á íbúunum af því þannig nær maður valdi á auðlindunum. Þegar íbúarnir standa uppi í hárinu á manni, eins og í nokkrum ríkjum rómönsku Ameríku, getur maður ekki lengur ráðið yfir auðlindunum. Þetta snýst því um auðlindirnar. En þetta snýst líka um að stjórna fólkinu svo maður geti nálgast auðlindirnar“.

Perkins sagði líka: „Þetta [andstaðan] verður að koma frá fólkinu. Þrælahaldi í Bandaríkjunum lauk ekki af því Abraham Lincoln vildi það heldur þjóðin. Við fórum ekki frá Víetnam af því Nixon væri andsnúinn stríði heldur af því þjóðin krafðist þess. Þetta kemur alltaf frá fólkinu. Við getum ekki búist við að leiðtogarnir búi yfir kjarki eða getu til að koma á breytingum nema við, fólkið, krefjumst þess. Hér á Íslandi verða Íslendingar að krefjast þess að þið eigið auðlindirnar. Þetta er landið ykkar. Þið búið í því. Forfeður ykkar hafa verið hér í mörg hundruð ár og hugsað um það. Þið megið ekki selja auðlindirnar til annarra og láta arðræna ykkur svona. En það verður að koma frá ykkur. Þegar upp er staðið verðið þið að krefjast þessa…“

Joseph Stiglitz í Háskóla Íslands 7. september 2009

Takið sérstaklega eftir þessum orðum Stiglitz: „Eitt sem þið ættuð að vita af er að náttúruauðlindirnar verða að öllum líkindum enn verðmætari síðar meir. Markaðir bregðast oft. Það er lærdómur kreppunnar. Þeim mistókst að verðleggja áhættu og nú mistekst þeim einnig að verðleggja skortinn á náttúruauðlindum…  Spurningin er hver hagnast á auknu verðmæti jarðvarmans og vatnsorkunnar. Rennur það til útlendinga því þið hafið gefið náttúruauðlindirnar? Eða haldið þið auðlindunum fyrir Íslendinga? Þetta er það sem þið þurfið að ákveða núna.“

Það var einmitt þetta sem meirihluti Nefndar um erlenda fjárfestingu var að ákveða núna. Meirihlutann skipuðu:

Unnur G. Kristjánsdóttir, fatahönnuður og myndmenntakennari, fulltrúi Samfylkingar – formaður

Adolf H. Berndsen, stúdent og oddviti á Skagaströnd, fulltrúi Sjálfstæðisflokks

Sigurður Hannesson, stærðfræðingur og fyrrverandi sérfræðingur í markaðsviðskiptum hjá Straumi fjárfestingarbanka, fulltrúi Framsóknarflokks

Þau gerðu ein mestu og skelfilegustu mistök sem hægt var að gera. Hlustuðu ekki á mótrök og viðvaranir. Lærðu ekki af reynslunni. Fordæmisgildi úrskurðarins er gríðarlegt og stórhættulegt. Verið er að opna allar dyr upp á gátt. Mikil er ábyrgð þessara þremenninga í nútíð og framtíð – og fullkomin vanvirðing við fortíðina.

Flokkar: Bloggar

Fimmtudagur 8.7.2010 - 15:56 - FB ummæli ()

Dómar Hæstaréttar og annmarkar Skýrslunnar

Mig langar að benda á tvær góðar greinar um ólík mál sem birtust í dag.

Nokkur orð um dóma Hæstaréttar – Magnús Thoroddsen, fyrrv. hæstaréttardómari – Morgunblaðið 8. júlí 2010

Nokkur orð um dóma Hæstaréttar... - Magnús Thoroddsen - Morgunblaðið 8. júlí 2010

Nokkur orð um dóma Hæstaréttar... - Magnús Thoroddsen - Morgunblaðið 8. júlí 2010

Annmarkar Skýrslunnar góðu – Þorvaldur Gylfason – Fréttablaðið 8. júlí 2010

Annmarkar skýrslunnar góðu - Þorvaldur Gylfason - Fréttablaðið 8. júlí 2010

Annmarkar skýrslunnar góðu - Þorvaldur Gylfason - Fréttablaðið 8. júlí 2010

Flokkar: Bloggar

Miðvikudagur 7.7.2010 - 16:35 - FB ummæli ()

Hvar liggur ábyrgðin?

Ég er mikið að velta fyrir mér hvar ábyrgðin á harmleikjum ótalmargra Íslendinga liggur. Auðvelt er að fara í Skýrsluna og rifja upp atburði undanfarinna… ja, bara tíu ára eða svo. Ábyrgðin á aðdraganda hrunsins er skýr – hana bera stjórnmálamenn, bankamenn og aðrir stórleikarar á sviði viðskipta og efnahagsmála.

En það er ábyrgðin á eftirleiknum sem er að flækjast fyrir mér. Ómennskunni, hörkunni, ósvífninni og hinum einbeitta vilja til að leggja líf fólks í rúst og jafnvel hrekja það út í dauðann. Sparka í náungann sem liggur í blóði sínu í ræsi efnahagskreppu sem hann átti enga sök á. Fyrst var almenningur rændur þegar útrásarvíkingar og aðrir stórþjófar létu greipar sópa um allar mögulegar fjárhirslur og stjórnmálamenn gáfu vinum sínum eigur þjóðarinnar. Þegar það rán stöðvaðist sjálfkrafa við hrunið tóku við annars konar rán sem hafa haft gríðarlegar og alvarlega afleiðingar. Hvenær linnir þessum ósköpum og hver ber ábyrgð á ránunum í eftirleik hrunsins?

Hér fyrir neðan eru tvær opnur úr DV – sú fyrri frá 4. desember 2009 og sú seinni frá 21. júní 2010, fimm dögum eftir dóma Hæstaréttar. Við vitum öll að þetta er bara toppurinn á ísjakanum, þessi mál eru margfalt, margfalt fleiri – stór og smá.

DV 4. desember 2009

Sá enga aðra leið en að svipta sig lífi - DV 4. desember 2009

Sá enga aðra leið en að svipta sig lífi - DV 4. desember 2009

DV 21. júní 2010

Hefði endað allt öðruvísi - DV 21. júní 2010

Hefði endað allt öðruvísi - DV 21. júní 2010

Í dag er svo heilmikil umfjöllun í DV um vinnubrögð Vörslusviptingar ehf., sem hirti eignir af fólki af fullkominni hörku og skeytingarleysi. Hvað ætli fyrirtækið hafi fengið mikið fyrir hvern bíl? Einnig er í DV í dag viðtal við fyrrverandi bílasala sem segir forljóta sögu um klíkuskap og vísvitandi svik við vörslusviptingu, mat og sölu á bílum – gagngert til að auðgast sjálfir. Í viðtalinu við bílasalann fyrrverandi, Sveinbjörn Ragnar Árnason, segir meðal annars þetta: „Sveinbjörn segist hafa talað við bankastjóra eins ríkisbankanna sem og regluvörð varðandi mál er tengist fjármögnunarfyrirtæki í eigu bankans en undirtektirnar hafi verið dræmar. „Ég sagði honum að ég væri með upplýsingar um að þeir væru að svindla með vörslusvipta bíla og það litii mjög illa út þar sem þröngur hópur manna væri að féfletta almenning með því að fá bílana ódýrt til sín og selja þá dýrt,“ segir Sveinbjörn og bætir við að hvorugur þeirra hafi haft áhuga á að rannsaka eða skoða málið frekar. „Ég hefði talið að ef þeir hefðu ekkert að fela hlytu þeir að fagna rannsókn til þess að hreinsa mannorð sitt.“ Sveinbjörn tekur fram að það sam hann sé að segja hafi lengi verið í umræðunni en enginn hafi þorað að bjóða þessum fyrirtækjum birginn.“

Já, þetta er búið að vera vitað lengi og fjallað hefur verið um eitt og eitt mál í fjölmiðlum stöku sinnum – en engin rannsókn hefur farið fram á þessum sögum. Einnig hefur verið talað um svipuð vinnubrögð í tengslum við húsnæði, uppboð og sölu á því, en mér vitanlega hefur heldur ekki verið farið ofan í saumana á þeim málum og þar eru yfirleitt miklu hærri upphæðir undir. Græðgi mannskepnunnar virðist engin takmörk sett og afmennskun stórs hluta samfélagsins virðist vera algjör. Hér er fréttin um bílasalann.

Þetta er svikamylla – DV 7. júlí 2010

Þetta er svikamylla - DV 7. júlí 2010

Þetta er svikamylla - DV 7. júlí 2010

Flokkar: Bloggar

Þriðjudagur 6.7.2010 - 17:24 - FB ummæli ()

Með mannslíf á samviskunni

Ég sagði frá sögum í pistlinum Gengistryggða ruglið og lögleysan fyrir nokkrum dögum. Önnur var af stúlku sem hafði verið svipt bílnum sínum og henni gert að greiða margfalt verð hans – meðal annars fyrir viðhald og viðgerðir sem aldrei höfðu farið fram. Sú saga hafði farið víða á Facebook og vakið mikla athygli. Nú er önnur saga á ferðinni eftir sama mann, Þórleif Ugluspegil Ásgeirsson, og sú er öllu skelfilegri en engu síður sönn. Gefum sögumanni orðið:

************************************************

Ef ég, annar eins skíthæll og ég nú er, myndi af ásettu ráði, leggja ákveðinn mann í einelti. Og ég léti ekkert tækifæri ganga mér úr greipum til að vinna honum tjón, helst fjárhagslegt. Ég myndi senda honum tilhæfulausa reikninga og setja þá í lögfræðiinnheimtur alveg eftir nótum. Sönnunarbyrðinni myndi ég koma á hann, svo að flestar kröfurnar væru viðurkenndar.

Maðurinn myndi senda mér bréf, biðja mig að hætta þessu, og ég myndi að sjálfsögðu hunsa það. Að lokum gæfist vesalings maðurinn upp, skrifaði mér kveðjubréf og svipti sig lífi. Þegar farið væri að rannsaka málið, þá kæmi hið sanna í ljós, bæði með innheimtubréfunum, svo og afritum af bréfunum til mín í tölvunni hans. Ég yrði handtekinn með það sama og ákærður fyrir morð, og næstum örugglega dæmdur, því að án minnar skítlegu íhlutunar hefði maðurinn lifað góðu lífi, og væri örugglega á lífi..

Eftir síðustu grein hef ég fengið mikið af bæði tölvupósti og skilaboðum á Facebook, og margar reynslusögur. Eina þeirra vildi ég kanna sérstaklega, og hafði samband við hlutaðeigandi aðila.

Sagan kemur hér:

Maður á fertugsaldri í Reykjavík ákvað að stofna fyrirtæki árið 2006, með jarðvinnu og lóðafrágang að aðalstarfi. Hann kaupir sér vörubíl og traktorsgröfu á um það bil 13 milljónir samtals. Það var fjármagnað með myntkörfuláni í japönskum jenum og svissneskum frönkum. En hann gerir röð af mistökum sem urðu afdrifarík.

Fyrir það fyrsta þá byrjar hann sem einyrki og rekur fyrirtækið á eigin kennitölu.  Það annað sem hann gerir er að samþykkja að faðir hans gangi í ábyrgð með honum.

Hann átti hús, en ekki leist þeim á veðhæfi þeirrar eignar, en á henni hvíldi um 70% lán frá sama fjármögnunarfyrirtæki. Skuldlaust hús föður hans var miklu betri kostur.

Og ekki virtust tækin standa undir veðinu sem á þeim hvíldi, svo að mig rennir í grun um að stefna fjármögnunarfyrirtækjanna um að lána sem mest í gjaldeyristryggðum lánum hafi verið langtímaplott, því eins og flestum er kunnugt þá tóku bankarnir stöðu gegn krónunni gagngert til að hagnast á gengismuni, þegar þeir sáu að allt var á leið í hundana.

Reksturinn gekk bærilega, og hann var með skólakrakka í sumarvinnu, og á veturna mokaði hann snjó, því hann var laginn að verða sér út um verkefni.

Hann kláraði að byggja húsið sitt og gerði lóðina snilldarlega fallega, svo að verðmæti eignarinnar jókst umtalsvert, án þess að frekari lán væru tekin.

Svo kemur að því að Geir Haarde telur það tímabært að biðja Guð að hjálpa sér og Íslandi. Við vitum hvernig það gekk, allar framkvæmdir stöðvuðust, og lánin hækkuðu og hækkuðu, með aðstoð fallandi gengis íslensku krónunnar, sem eins og áður er sagt var plott lánastofnana.

Vinur okkar er atvinnulaus, og með tæki sem þarf að greiða af, en standa bara verkefnalaus. Fjármögnunarfyrirtækið var ekki lengi að sækja tækin. Það gerðist 12 dögum eftir að þriðja afborgun fór í vanskil. Uppgjörið var heldur ekki lengi að láta sjá sig.

Samkvæmt því skuldaði drengurinn 14,2 milljónir í það heila, Tækin voru metin á 4,8 milljónir, en samkvæmt óháðu sölumati, þá var gangverð þeirra rúmar 9 milljónir, og sennilega meira, því þeim hafði verið vel við haldið. Samt kom þessi venjulegi reikningur fyrir þrif og viðgerðir upp á 1,1 milljón, og lækkaði matsverðið í 3,7 milljónir. Eftirstöðvarnar stóðu í cirka 10,5 milljónum.

Á þessum tímapunkti var ekki búið að frysta nauðungaruppboð, og fjármögnunarfyrirtækið var ekki lengi að bjóða húsið upp, og keypti það á sínum fyrsta veðrétti, og þar af leiðandi fékkst ekkert upp í tækjakröfurnar.

Hjónin áttu húsið saman og voru gift, og þar af leiðandi bæði komin á svartann lista. Þau fengu þrjá mánuði til að rýma húsið, og það stóð ekki á fjármögnunarfyrirtækinu að rukka leigu, og hana ekkert í lægri kantinum, því að auðvitað vissu þeir að þau þyrftu tíma til að pakka niður og tæma húsið, og að sjálfsögðu vildu þeir fá leigu á meðan.

Fólk á svörtum lista á erfitt með að fá húsnæði leigt í Reykjavík, og ekki voru til miklir peningar á heimilinu.

Maðurinn varð þunglyndari og þunglyndari dag frá degi, því hann gerði sér fullvel grein fyrir hvert málin stefndu. Og eina nóttina skömmu áður en þau áttu að flytja, þá skrifar hann kveðjubréf til fjölskyldunnar og einnig kurteislegt bréf til fjármögnunarfyrirtækisins þar sem hann sagðist ekki sjá að hann ætti neina framtíð fyrir sér, og yrði bráðlega útskúfaður af fjölskyldu sinni.

Þessa nótt svipti maðurinn sig lífi í bílskúrnum á húsinu sem hann byggði. Hann varð 37 ára.

Það voru ekki margir dagar liðnir frá jarðarförinni, þegar kröfubréf og hótanir um nauðungarsölu fóru að berast foreldrum hans. og þá voru eftirstöðvarnar komnar vel á fjórtándu milljón.

Gamli maðurinn fer til fjármögnunarfyrirtækisins og greiðir upp kröfuna með sparifé, og lífeyrissjóðsláni, og hann fer fram á að fá að greiða alla upphæðina og fá tækin afhent aftur, í von um að geta gert sér eitthvað meiri pening úr þeim en fjármögnunarfyrirtækið hafði metið þau á, og jafnvel minnkað tjón sitt eitthvað.

Nei það var ekki hægt, því þeir vildu ekki selja tækin svona ódýrt, en hann fékk tilboð um að fá þau keypt á 10,5 milljónir, því þau voru svo vel með farin, og í svo fínu standi. ( Er ekki smá rökvilla þarna? )

Ég heimsótti foreldrana, og fékk að skoða pappírana sem gamli maðurinn hafði undir höndum, og fékk leyfi til að segja ykkur söguna, ef nafnleyndar yrði gætt, og allir sem segja mér sína sögu mega treysta því að nafnleyndar verður gætt sé þess óskað.

Ég verð að segja að ég hef ekki séð ósvífnari og rætnari aðgerðir. Innheimtubréfin voru hrein og klár hótunarbréf. Ég gleymdi að spyrja föðurinn hvort ég mætti nefna fjármögnunarfyrirtækið á nafn sem hagaði sér svona alúðlega. En ég fæ vonandi leyfi til að gera það, og þá kemur það á stundinni.

Ég bauð gamla manninum að fara í málið með honum og ræða við lögfræðinginn minn, sem er snillingur í svona málum, en svarið sem ég fékk var: „Drengurinn minn lifnar ekki við þó að ég fái einhverjar krónur.“

Þarna er búið að rústa lífi þriggja ættliða, því barnið er búið að fá finna fyrir þessu enda 11 ára þegar faðirinn dó.

Í almennum hegningarlögum stendur:
248. gr. Ef maður kemur öðrum manni til að hafast eitthvað að eða láta eitthvað ógert með því á ólögmætan hátt að vekja, styrkja eða hagnýta sér ranga eða óljósa hugmynd hans um einhver atvik, og hefur þannig fé af honum eða öðrum, þá varðar það fangelsi allt að 6 árum.
249. gr. Ef maður, sem fengið hefur aðstöðu til þess að gera eitthvað, sem annar maður verður bundinn við, eða hefur fjárreiður fyrir aðra á hendi, misnotar þessa aðstöðu sína, þá varðar það fangelsi allt að 2 árum, og má þyngja refsinguna, ef mjög miklar sakir eru, allt að 6 ára fangelsi.

Getur þetta þvælst fyrir nokkrum?

Og svo leggst Ríkisstjórnin með Gylfa í fararbroddi, Seðlabankinn og Fjármálaeftirlitið á eitt við að styðja við bakið á þessum glæpahundum.

Kannski er kominn tími á hryðjuverkalög á ofantalda aðila.

***************************************************

Eins og við vitum er fólk á bak við allar ákvarðanir. Fólk, sem ætti samkvæmt siðferðiskröfum samfélagsins að bera ábyrgð á ákvörðunum sínum, hverjar sem þær eru. Og axla þá ábyrgð ef þess er krafist. Fyrirtæki – hvort sem um er að ræða lánastofnanir eða annars konar starfsemi – er ekkert annað en fólkið sem þar vinnur og því stjórnar.

Í pistlinum Kúguð þjóð í tilvistarkreppu sagði ég m.a. þetta: „Svo er annar vinkill á málinu – þeir sem héldu kúgunina og ofbeldið ekki út og sviptu sig lífi eftir að lánastofnanirnar hirtu af þeim ævistarfið og aleiguna. Við vitum ekki hve margir þeir eru. En ætli þeir sem gáfu dagsskipanirnar átti sig á að þeir hafa mannslíf á samviskunni? Hafa þeir þann skilning á samfélagi manna og sálræna dýpt til að átta sig á afleiðingum gjörða sinna og græðgi? Átta þeir sig á að dómar Hæstaréttar á miðvikudaginn hafa að öllum líkindum bjargað mannslífum? Skilur núverandi ríkisstjórn að mannslíf glötuðust vegna aðgerðaleysis hennar? Fattar hún hve margir eiga um sárt að binda af því hún hefur ekki beitt því valdi sem hún þó hefur til að afstýra þeim harmleikjum sem átt hafa sér stað í þjóðfélaginu og Helgi Jóhann lýsir svo vel? Maður spyr sig…“

Í athugasemd við áðurnefndan pistil, Gengistryggða ruglið og lögleysan, skrifaði einn lesandi þetta: „Svo heyrir maður sögur um að starfsmenn þessara fyrirtækja sendi handrukkara á fólk og hafi stofnað fyrirtæki í Hollandi sem kaupir atvinnutæki af fjármagnsleigunum og endurselur í Hollandi með miklum ágóða. Lántakandinn fái svo rukkun um viðgerð sem aldrei fór fram og situr eftir með jafnvel hærri höfuðstól en hann tók í fyrstu meðan þessir starfsmenn mata krókinn eftir fínan hagnað í Hollandi.“ Ég hef ekki hugmynd um hvort eða hvað er hæft í þessu en ef þótt ekki sé nema örlítið sannleikskorn í þessari fullyrðingu er nauðsynlegt að rannsaka það. Þessi orð lesandans komu upp í hugann þegar ég sá frétt þar sem sagt var að vörubíll Sturlu Jónssonar hafi verið seldur á uppboði í Hollandi.

Er kannski kominn tími til að „persónugera“ glæpina? Hætta að tala um andlitslaus fyrirtækin og tala um stjórnendur þeirra í staðinn – þá sem gáfu hinar afdrifaríku fyrirskipanir og sýndu slíkan ósveigjanleika að fólk svipti sig lífi? Og jafnvel sækja þá til saka. Hvað segja lögmenn um möguleikana á því sem og ráðherraábyrgðina? Einhverjir hljóta að bera ábyrgð á þessum hörmungum og þeim mannslífum sem glatast hafa vegna lögleysunnar sem vaðið hefur uppi á landinu.

Flokkar: Bloggar

Mánudagur 5.7.2010 - 22:12 - FB ummæli ()

Ólán í láni

Þessi fína grein eftir Guðmund Andra Thorsson birtist í Fréttablaðinu í dag.

Ólán í láni – Guðmundur Andri Thorsson – Fréttablaðið 5. júlí 2010

Ólán í láni - Guðmundur Andri Thorsson - Fréttablaðið 5. júlí 2010

Ólán í láni - Guðmundur Andri Thorsson - Fréttablaðið 5. júlí 2010

Flokkar: Bloggar

Mánudagur 5.7.2010 - 07:14 - FB ummæli ()

Að rýna til gagns

Gagnrýni er hverju samfélagi lífsnauðsyn ef hún er rökstudd og málefnaleg. Ekki er úrvalið í hefðbundnu fjölmiðlaflórunni burðugt og ansi fáir fjölmiðlar sem mark er takandi á. Ég býð ekki í umræðuna og upplýsingaflæðið frá hruninu ef ekkert hefði verið net eða blogg. Það ber því að fagna nýjum miðlum í hvaða formi sem er, einkum ef þeir eru óháðir og innihalda fjölbreytt efni.

Einn slíkur birtist okkur sem kynningareintak fyrir mánuði síðan – helgarblaðið Krítík – sem hefur göngu sína í haust ef áætlanir aðstandenda þess ganga eftir. Sagt er á vef blaðsins: „Krítík er óháð eigendum, stjónvöldum og hverskonar félögum, s.s. stjórnmálaflokkum. Við viljum að eignaraðild einstaklinga verði hámörkuð við 5%, að auglýsingar taki aldrei meira en 25% af síðuplássi blaðisins og að áskriftarsala borgi laun blaðamanna. Það eru þær forsendur sem við gefum okkur fyrir því að geta kallað blaðið óháð.“

Ég renndi í gegnum kynningareintakið þegar það kom út í síðasta mánuði og líkaði vel. Þarna voru margs konar greinar um aðskiljanlegustu mál, skrifuð af góðum pennum. Mér hlýnaði um hjartarætur þegar ég sá þarna grein eftir gamlan uppáhaldspistlahöfund, blaðakonuna Guðrúnu Guðlaugsdóttur. Ég las alla pistla eftir hana þegar hún var hjá Mogganum forðum og fannst ég vera orðin nákunnug henni þótt ég hafi aldrei hitt eða talað við hana. Ég fékk leyfi blaðisins til að birta pistil Guðrúnar úr kynningareintakinu sem lofar mjög góðu.

Krítík - 1. tbl. 1. árgangur

Feluleikur misgjörðarmanna - Guðrún Guðlaugsdóttir - Krítík 1-1/4.-6. júní 2010

Feluleikur misgjörðarmanna - Guðrún Guðlaugsdóttir - Krítík 1-1/4.-6. júní 2010

Ég óska aðstandendum blaðsins alls hins besta og vona innilega að þeim takist að afla hlutafjár og áskrifta sem til þarf svo blaðið geti tekið flugið í haust. Íslendingar þurfa á allri málefnalegri umræðu og krítík að halda sem í boði er til að komast sæmilega klakklaust í gegnum næstu árin.

Flokkar: Bloggar

Laugardagur 3.7.2010 - 08:19 - FB ummæli ()

Hver skoðar hvaða nafla?

Borgarafundurinn á mánudagskvöldið var ansi magnaður. Salurinn í Iðnó var fullur langt út úr dyrum og fólk sat og stóð úti og hlustaði á í öflugu hljóðkerfi. Sem betur fer var veðrið gott. Stemningin var ólýsanleg og fólki var heitt í hamsi – eðlilega. Dómur Hæstaréttar um gengistryggðu lánin og framhaldið er hitamál og mikilvægt að unnið verði vel og réttlátlega úr því. Enda fjárhagur og framtíð þúsunda ef ekki tugþúsunda Íslendinga í húfi. Fundurinn var haldinn áður en embættismennirnir í Fjármálaeftirlitinu og Seðlabankanum settu „bráðabirgðalögin“ um notkun seðlabankavaxta í samráði við lánafyrirtækin. Ekkert samráð var haft við lántakendur eins og allir vita. Enda var ákvörðun embættismannanna að sögn í fullkomnu samræmi við ítrustu kröfur lánastofnana.

Eitt af því sem ég hlusta eftir þegar ég horfi á fréttir er hvernig fólk segir hlutina. Í tíufréttum RÚV á miðvikudagskvöldið, daginn sem embættismennirnir tóku ákvörðunina um seðlabankavextina, var viðtal við Guðjón Rúnarsson, framkvæmdastjóra Samtaka fjármálafyrirtækja. Þann hinn sama og benti Alþingi á ólögmæti gengistryggðra lána árið 2001 eins og ég fjallaði um í pistlinum Löngu vitað um lögleysuna. Hvað hann sagði í fréttinni – og hvernig hann sagði það – staðfesti þá fullyrðingu að tekið hafi verið tillit til ítrustu krafna lánastofnana í hvívetna. Hlustið á Guðjón og takið eftir hvað hann er ánægður með niðurstöðuna – ef niðurstöðu skal kalla.

RÚV 30. júní 2010

Aftur að Borgarafundinum. Eins og flestir vita er Pétur Blöndal mikill og góður fjárhirðir. Hann má ekki vita af fé án hirðis neins staðar án þess að vilja skipa einn slíkan og virkja féð í sönnum anda HHG. Sparisjóðirnir fóru flatt á fjárhirðinum. Á fundinum var hann óskaplega sár út í lántakendur fyrir að hugsa frekar um sjálfa sig en sparifjáreigendur. Hugsa frekar um skuldirnar sínar sem höfðu stökkbreyst, möguleg gjaldþrot, framtíð sína og barnanna sinna og fjárhagslega afkomu heldur en sparifjáreigendur eða fjármagnseigendur sem nú fá neikvæða vexti eftir að hafa lifað í vaxtavímu árum saman. Fjármagnseigendur, sem hafa lánað okkur hinum á góðum vöxtum og verðtryggingu en sjá nú fram á sult og seyru ef samningsvextir verða ofan á í gengistryggðu lánunum og lántakendur lifa af. Svo ekki sé minnst á stökkbreyttu verðtrygginguna sem sligar heimilin í landinu en sparifjár/fjármagnseigendur hagnast á.

En maður spyr sig hvort Pétur og aðrir talsmenn fjármagnseigenda hafi gleymt þessu sem hér er lýst. Og þetta er alls ekki eina dæmið. Bankarnir stunduðu sjálfir stöðutöku gegn krónunni um leið og þeir héldu gengistryggðum lánum að almenningi.

Fréttir Stöðvar 2 – 2. júlí 2010

Pétri fannst lántakendur ansi sjálfhverfir og eigingjarnir. Hann orðaði það þannig að þeir sæju bara naflann á sjáfum sér. Seisei, þvílíkt hneyksli! Dæmið í myndbandinu hér að ofan er kannski einmitt ein af ástæðum þess að lántakendur eru svona tillitlslausir gagnvart fjármagnseigendum og vilja heldur skoða naflann á sjálfum sér en þeim. Á þingi hefur ekki verið fjallað um annað en lánþega og skuldir heimilanna, sagði Pétur. Þessara tugþúsunda sem eru á barmi gjaldþrots og örvæntingar. Ekkert talað um þá sem eiga peninga og finnst þeir ekki geta ávaxtað sitt pund nógu vel eftir efnahagslegt hrun heillar þjóðar. Þetta er auðvitað skandall. Að sjálfsögðu á almenningur að borga möglunarlaust stökkbreyttar skuldir til að fjármagnseigendur geti haldið áfram að græða! En ekki hvað? Það væri í stíl við hina klassísku kúgun íslensku þjóðarinnar. Við megum ekki gerast sek um stílbrot í sögunni, er það?

Samanklippt brot af naflaskoðun Péturs Blöndal – Borgarafundur 28. júní 2010
í boði www.hjariveraldar.is

Ekkert fer fram hjá honum Halldóri Baldurssyni. Var hann á Borgarafundinum?

Naflaskoðun Péturs Blöndal – Halldór Baldursson – Fréttablaðið 1. júlí 2010

Pétur Blöndal og nafli lántakenda - Halldór Baldursson - Fréttablaðið 1. júlí 2010

Pétur Blöndal og nafli lántakenda - Halldór Baldursson - Fréttablaðið 1. júlí 2010

Svo bætti skúrkurinn (þ.e. Halldór) um betur og kom með þessa mynd þar sem Gylfi Magnússon leiðir handrukkara lánafyrirtækjanna til fórnarlambanna – blóðuga upp fyrir axlir og lætur þá biðjast fyrirgefningar. Ætli nýr formaður OR sé þar á meðal? Raunin er hins vegar m.a. þessi.

SP og Lýsing segja fyrirgefðu – Halldór Baldursson – Fréttablaðið 2. júlí 2010

SP og Lýsing segja fyrirgefðu - Halldór Baldursson - Fréttablaðið 2. júlí 2010

Spurning hver á að skoða hvurs nafla…

Flokkar: Bloggar

Fimmtudagur 1.7.2010 - 07:12 - FB ummæli ()

Gengistryggða ruglið og lögleysan

Ég hef heyrt margar svona sögur og þær eru allar á einn veg – þennan. Bílalána- eða fjármögnunar- eða kaupleigufyrirtækin eða hvað sem við köllum þau viðhöfðu slíka hörku, blekkingar, svik og lögleysu að manni blöskrar. Og komust upp með það. Lítum á dæmið sem RÚV tók í fréttum í gærkvöldi og hér er endursögn DV á fréttinni:

RÚV – 30. júní 2010

Hér er svipuð saga sem gengið hefur ljósum logum um Facebook undanfarna daga:

„Annar nemandi lenti í því að lánastofnun tók bíl af henni með vörslusviptingu.  Þessi vörslusvipting fór að sögn nemanda míns fram með fádæma ruddaskap, þar sem augljóslega var ætlunin að niðurlægja hana sem mest. Eftir smátíma kom uppgjör, þar sem manneskjunni var gert að greiða hátt í tvær milljónir í viðbót af bíl, sem í upphafi kostaði 1.290 þúsund.

Ég bað hana að koma með uppgjörsrukkunina, og skoðaði hana vandlega. Meðal þess sem reikningurinn innihélt voru 800 þúsund króna eftirstöðvar af láninu, nýr dekkjagangur þrif fyrir 80 þúsund, stýrisendar og alsprautun á bílnum, auk fleiri liða.

Starfsleyfi SP-fjármögnunar - FME 9. maí 2010

Starfsleyfi SP-fjármögnunar - FME 9. maí 2010

Ég leitaði bílinn uppi og fann hann á bílasölu. Ég skoðaði bílinn vandlega, svona eins og ég væri að hugleiða að kaupa hann, verðið var milljón. Hann var á hálfslitnum sumardekkjum og engin önnur dekk fylgdu með, stýrisendar voru óhreyfðir. Hann var illa þrifinn, og sennilega bara af fyrri eiganda, alllöngu fyrir vörslusviptinguna.  Og síðast en ekki síst þá hafði bíllinn sko hreint ekki verið sprautaður. Samt átti manneskjan að borga fyrir þessar viðgerðir sem aldrei voru framkvæmdar, og kostuðu lánastofnunina þar af leiðandi ekki krónu. Manneskjan færði mér greidda gíróseðla upp á tæp 1.300 þúsund, að auki.

Þegar ég hafði samband við lánastofnunina þá fékk ég bara: „Ég veit ekkert um þetta, en þetta hlýtur að vera rétt,“ svör.“

Þetta heitir þjófnaður eða eitthvað þaðan af verra. Eins og ég sagði hér að ofan hef ég heyrt fjölmargar svona sögur. Og í þessum tilfellum sem hér er lýst er um einkabíla að ræða. Hvað með allar vinnuvélarnar og vörubílana sem menn hafa verið sviptir með svipuðum aðferðum og sömu hörku? Hvað með afleiðingarnar af því öllu saman? Á meðan á þessu stóð sögðu stjórnvöld ekkert, komu engum til hjálpar. Nú, þegar meðal annars þetta fólk eygir leiðréttingu sinna mála samkvæmt hæstaréttardómi, er rokið upp til handa og fóta og embættismönnum falið að fara í kringum hæstaréttardóminn og ákveða hvernig skal „leiðrétta“ gengistryggðu lánin. Hvar er nú sjálfstæði dómstóla? Hver er persónuleg ábyrgð þessara embættismanna sem fara svona að ráði sínu? Enn minni ég á þriðja dóminn frá 16. júní þar sem fram kom að ekkert mætti koma í stað gengistryggingar – hvorki verðtrygging né aðrir óverðtryggðir vextir en þeir sem tilteknir eru í samningunum. Hver er að vinna fyrir hvern? Eða hefur Marinó rétt fyrir sér hér?

Svo er vinkill á málinu sem vert er að athuga vandlega: Hafði SP-fjármögnun leyfi til að stunda þá starfsemi sem fyrirtækið gerði? Þessi spurning kom upp á Borgarafundinum í Iðnó á mánudagskvöldið og Gylfi Magnússon gat ekki svarað henni. Maður í salnum gat það hins vegar og Agnar Kristján Þorsteinsson fór á stúfana og skrifaði þennan pistil. Að því er virðist hafði SP-fjármögnun ekki leyfi til að gera ótalmargt – en ég lýsi eftir umsögnum lögfræðinga í þessu sambandi. Þangað til þær fást getur fólk spáð í spilin og skoðað starfsleyfi FME frá 9. maí 2007 hér – og útdrátt úr því á myndinni hér ofar til hliðar. En maður spyr sig eðlilega: Ef rétt reynist og fyrirtækið hafði ekki leyfi til að gera vissar tegundir af samningum – en gerði þá samt – eru þeir samningar þá í heild sinni ekki ólöglegir og ógildir?

Bankarnir

Bankarnir

Í tengslum við þetta er vert að íhuga sjónarhorn sem góður kunningi minn nefndi ásamt fleiru í tölvupósti til mín í gær. Hann sagði meðal annars þetta: „Ég hef tekið eftir að þú sýnir athygli umræðunni um hvað eigi að gera í kjölfar Hæstaréttardómanna um gengislánin. Gylfi sneri við blaðinu og án útskýringa gladdist hann ekki lengur yfir því að íslenskur almenningur væri skorinn úr snörunni heldur tók til að hafa áhyggjur af bönkunum, bankakerfinu og bankamönnunum. Steingrímur líka. Margir hafa bent á að þessir sem eru sagðir hafa eignast tvo af stóru bönkunum (held það sé ekki í reynd, þ.e. ekki formlegt a.m.k.), þ.e.  erlendu kröfuhafarnir, fengu lánin yfir í nýju bankana með a.m.k. helmings afslætti. Gildir svosem einu fyrir þá því þeir eru de facto eigendur gömlu bankanna sem kröfuhafar og flytja bara afskriftina úr einum stað í annan.

Annað sem hefur að ég held alls ekki verið rætt í þessu samhengi. Þegar bankarnir hrundu haustið 2008 fóru kröfur í þá á ruslmarkað. Þá keyptu spákaupmenn (stundum nefndir vogunarsjóðir) þessar kröfur á allt niður í 2 (segi og skrifa tvö) prósent af nafnverði. Í vetur voru fregnir af því að þetta verð hefði hækkað upp í allt að 25 prósent af nafnverði, sem þýðir ævintýralegan hagnað frá tveimur prósentunum. Einhverjir, sem keyptu á tvö prósent, eru enn eigendur krafnanna og vonast eftir enn meiri hagnaði en að fá 25 prósent nafnvirðis. Mér sýnist ljóst að verulega miklu meiri afföll, heldur en Hæstaréttardómi kunna að fylgja, eru langt innan við þolmörk og hagnaðarmörk margra eða flestra kröfuhafanna. Því ætti ekki að þurfa að hafa áhyggjur af þeim, þótt höfuðstóll lánanna skrúfist niður í upphaflega krónutölu. Þeir hafa vænan hagnað samt.

Og í beinu framhaldi af þessu: Hvernig má það vera að hópi óþekktra manna (á bak við hvern kröfuhafa eru á endanum menn, hvernig svosem fyrirtækja- og kennitöluflækjan kann að vera) sé afhent eignarhald á íslenskum bönkum? Og ekki bara bönkum, heldur tveimur af þremur stærstu og mikilvægustu fjármálastofnunum landsins? Eru menn frávita?“

Í framhaldi af þessu spyr maður sig aftur:  Fyrir hverja eru yfirvöld og embættismenn að vinna? Hverra hagsmuni er verið að verja? Hverjir eiga bankana? Getur einhver svarað því? Og hvað í ósköpunum á það að þýða að hafa hvorki samráð við fulltrúa lántakenda, hvað þá Talsmann neytenda, þegar ákveðið er að hunsa dóm Hæstaréttar? Hafa þessir menn EKKERT lært? En aftur að vöxtunum sem á að troða upp á lántakendur. Fréttir gærkvöldsins:

RÚV – 30. júní 2010

Stöð 2 – 30. júní 2010

Ég held að það eina sem þessir menn, bankarnir og lánafyrirtækin skilji er ef fólk hættir að borga í þúsundavís. Standi saman og vinni sem það afl sem samstaða getur skapað. Og styðji við bakið á frumkvöðlunum sem hafa riðið á vaðið í málssóknum og munu gera það áfram – fyrir hönd okkar allra.

Ef ég hef skilið umræðuna rétt þá er ekkert verið að tala um einhverja 8,25% vexti, en eins og allir vita eru seðlabankavextir nýdottnir niður í þá prósentu. Undanfarin ár hafa þeir verið miklu hærri og þótt það hafi ekki verið staðfest af embættismönnum eða yfirvöldum (þegar þetta er skrifað) felur þessi ákvörðun væntanlega í sér að reiknaðir verða meðalvextir á endurgreiðslu lánanna frá því þau voru tekin. Þetta er ekki ljóst ennþá, en ekki ólíklegt. En eins og kemur fram í þessari töflu Elíasar Péturssonar eru meðalvextir óverðtryggðra lána frá 2007 til dagsins í dag hvorki meira né minna en 14,7%! Elías er ekki sérfræðingur og það er ég ekki heldur, svo ég auglýsi aftur eftir áliti sérfróðra manna á þessum meðalvaxtaútreikningum og áhrifum þeirra á meint yfirvofandi uppgjör gengistryggðra lána. Eyjan var með frétt um málið í gær.

Viðbót: Svavar Halldórsson var með frétt um meðalvexti Seðlabankans í hádegisfréttum Ríkisútvarpsins í dag þar sem staðfest er að meðalvextir, þ.e. vaxtaprósentan frá mánuði til mánaðar, verði notuð:

Óverðtryggðir vextir Seðlabanka Íslands og meðalvextir tímabila

Óverðtryggðir vextir SÍ og meðalvextir tímabila - Elías Pétursson

Óverðtryggðir vextir SÍ og meðalvextir tímabila - Elías Pétursson

Að lokum bendi ég á ágætan pistil Egils Helgasonar og miklar umræður í athugasemdakerfinu við hann. Ég er þó alls ekki tilbúin til að trúa þeirri fullyrðingu að sanngjörn leiðrétting gengistryggðu lánanna samkvæmt dómum Hæstaréttar bitni á skattgreiðendum og lántakendum verðtryggðra lána. Ef kunningi minn sem ég vitna í hér að ofan hefur rétt fyrir sér, eru kröfuhafar bankanna búnir að græða svo gríðarlega á fjárfestingu sinni að þeir fyndu ekki fyrir því ef þessi lán væru leiðrétt – og verðtryggðu lánin í ofanálag. Þeir fengju líklega sitt og jafnvel gott betur – hverjir sem þeir nú eru.

Flokkar: Bloggar

Höfundur



Eldri færslur

Dagatal

júlí 2025
S M Þ M F F L
« des    
 12345
6789101112
13141516171819
20212223242526
2728293031