Sunnudagur 21.2.2010 - 16:41 - FB ummæli ()

Finnbogi Vikar og fiskveiðistjórnunin

Sá mæti, ungi maður, Finnbogi Vikar Guðmundsson, sjómaður og laganemi að Bifröst var einn gesta Egils í Silfrinu í dag. Finnbogi Vikar situr í nefnd um breytingar á fiskveiðistjórnun fyrir hönd Hreyfingarinnar. Þó – eins og Finnbogi Vikar tekur fram – hefur hann ekki starfað með Hreyfingunni og situr ekki í nefndinni sem hagsmunaaðili eða pólitíkus heldur almennur borgari. Hann hefur aftur á móti kynnt sér kvótamálin mjög vel, þekkir þau af eigin reynslu og veit um hvað málin snúast. Miðað við málflutning hans hér og annars staðar er honum fyllilega treystandi til að vera einn þeirra sem gæta hagsmuna þjóðarinnar í þessu mikilvæga auðlindamáli. Hér er Finnbogi Vikar.

Silfur Egils 21. febrúar 2010

Hér eru síðan tillögur Finnboga Vikars sem hann lagði fyrir nefndina fyrir örfáum dögum. Gaman væri að heyra hvað fólki finnst um tillögurnar. Eins of Finnbogi Vikar tók fram í viðtalinu er þetta málamiðlunartillögur, því sjálfur vill hann ganga lengra. Það vil ég líka. Áhugavert væri að fá að vita meira um störf hópsins, hvaða hugmyndir eru þar uppi og hvort hagsmunagæsla útgerðaraðalsins og kvótakónganna á þar marga fulltrúa – og þá hverjir það eru.

Tillögur fyrir starfshóp um endurskoðun á fiskveiðistjórnun.
Lagt fram á fundi starfshópsins 19.  febrúar 2010 af fulltrúa Hreyfingarinnar

– Fiskveiðistjórnunarkerfið verði stokkað upp og núllstillt 1. september 2010.  Allur vafi tekinn af að aflaheimildir eru tímabundinn nýtingarréttur.

– Útgerðum boðið að gera nýtingarréttarsamning  til 15 ára sem byggir á veiðireynslu síðustu 3 fiskveiðiára.

– Vannýttar aflaheimildir síðustu 3 fiskveiðiára skulu verða gerðar aðgengilegar sem 15 ára nýtingarsamningur eða leigðar út innan fiskveiðiársins á Kvótaþingi.

– Til að byrja með verður 3 ára reynslutími á kerfinu og síðan verður gerður 15 ára nýtingarsamningur.

– Á 10 ára fresti skal útgerðum standa til boða að endurnýja nýtingarréttinn og skulu ströng skilyrði gilda um nýtinguna.

– Útgerðin greiði 10% gjald fyrir nýtingarréttinn í Sjávarauðlindasjóð sem miðast við aflaverðmæti upp úr sjó og skal gjaldið greitt óháð því hvort aflaheimildirnar eru nýttar eða ekki.

– Sjávarauðlindasjóður mun greiða út árlega. Miðað skal við að 50% renni til sveitarfélaga og 50% til ríkis. Sjávarbyggðir skulu hafa sérstakan forgang umfram aðrar byggðir sem ekki byggja afkomu sína á sjávarútvegi við úthlutunina.

– Hagnaður af sölu aflaheimilda skal skattlagður um 75%.

– Veiðiskylda verði 75%.

– Kvótaþing endurvakið og verði opinber miðstöð miðlunar á aflaheimildum.

– Heimilt verði að leigja eða skipta frá sér 25% aflaheimilda innan fiskveiðiársins og skal gilda hámarksverð á leiguverði. Útgerðir sem hyggjast leigja frá sér eða skipta, leggja aflaheimildir inn til Kvótaþings og fá í staðinn aðrar heimildir ef áhugi er fyrir hendi og aflaheimildir á lausu.

– Þegar útgerð leggur inn aflaheimildir til Kvótaþings, þá skal útgerð losna undan þeirri kvöð að greiða Sjávarauðlindasjóðsgjald af þeim. Engin hagnaðarvon skal vera fyrir útgerð til að vera með nýtingarréttarsamning á aflaheimildum frá ríkinu og leigja þær út til þriðja aðila til nýtingar.

– Útgerð sem leigir aflaheimildir á Kvótaþingi skal því einungis greiða 10% Sjávarauðlindasjóðsgjaldið fyrir leigu á aflaheimildunum.

– Fjárhagslegur aðskilnaður fiskvinnslu og útgerðar.

– Allur fiskur verði seldur á innlendum fiskmarkaði eða greitt markaðsverð fyrir afla sem landað er beint til vinnslu. Það er gert til að tryggja sjómönnum rétt verð fyrir aflann og efla fullvinnslu á Íslandi með auknu aðgengi að hráefni.

– Sjómenn á frysti- og vinnsluskipum skulu fá uppgert miðað við söluverðmæti afla frá síðasta tengda aðila útgerðarinnar.

– Bann við veðsetningu aflaheimilda með skipi jafnt sem án.

– Bann við eignaskráningu aflaheimilda í bókhaldi fyrirtækja.

– Heimild til að flytja aflaheimildir á milli fiskveiðiára verði takmarkaður við 5%.

– Aflaheimildir sem falla niður ónýttar og ekki hægt að flytja yfir á næsta fiskveiðiár, skulu verða boðnar til leigu á Kvótaþinginu, strax á næsta fiskveiðiári.

– Hámarks aflahlutdeild í einstökum tegundum verði minnkuð til að skapa betra samkeppnisumhverfi í sjávarútvegi og koma í veg fyrir fákeppni.

– Frjálsræði við strandveiðar verði stóraukið og afli verði seldur á innlendum fiskmarkaði.

– Tegundatilfærslur verði þrengdar verulega.

– Línuívilnun verður aukin og látin ná til beitningarvélabáta líka og þannig stuðlað að umhverfisvænum veiðum. Skilyrt verði að línuívilnun nái einungis til afla sem landað er á innlendan fiskmarkað.

– Bátar og skip sem stunda netaveiðar á grálúðu, ufsa og skötusel skulu fá ívilnun upp að 10% í viðkomandi tegundum af þeim afla sem seldur er á innlendum fiskmarkaði.

– Meðafli við rækju- og humarveiðar verði heimilaður upp að 10%, sem ekki reiknast af aflaheimildum skips eða útgerðar samkvæmt nýtingarsamningi og er seldur á innlendum fiskmarkaði. Útgerðum er  ekki er skylt að leigja aflaheimildir sem rúmast innan þessara marka á Kvótaþingi.

– Heimilaður verði 5% meðafli í löngu, keilu og skötusel við almennar veiðar og seldur er á innlendum fiskmarkaði.

– Sveitarstjórnum verði veittar auknar heimildir til að stöðva flutning á aflaheimildum frá byggðalagi, ef fyrirséð er að 50% eða meira af heildar aflaheimildum byggðalags, verði fluttar frá byggðalagi.

Virðingarfyllst,
Finnbogi Vikar

Flokkar: Bloggar

Sunnudagur 21.2.2010 - 08:47 - FB ummæli ()

Undanhald samkvæmt áætlun

Ég var móðgaður, hæddur, svívirtur, kvalinn og kúgaður
af kumpánum nokkrum, sem allt virtust geta og mega.
Og þótt ég sé maður á sigur sannleikans trúaður,
sýndist mér stundum því von minni í flestu geiga.

Að endingu sagði ég yfirdrottnunarvaldinu
í alvöru stríð á hendur, án nokkurrar vægðar.
Og styrkur minn liggur allur í undanhaldinu,
þótt einhverjum sýnist það málstaðnum lítið til þægðar.

Og stríð mitt er nútímastríð, en ekki af því taginu,
að standa til lengdar í tvísýnum vopnabrýnum.
Þið vitið að jörðin er líkt og knöttur í laginu.
Og loksins kemst maður aftan að fjandmanni sínum.

Steinn Steinarr
Ferð án fyrirheits – 1942

Flokkar: Bloggar

Laugardagur 20.2.2010 - 22:10 - FB ummæli ()

Stjórnlagaþing, stjórnarskrá og samstaða

Sigurður Hr. Sigurðsson heitir réttsýnn maður með ríka réttlætiskennd. Hann hélt ræðu á Austurvelli í dag sem ég fékk leyfi til að birta hér. Sigurður minnir á kröfurnar um stjórnlagaþing, nýja stjórnarskrá og einnig hverju samstaða getur áorkað.

Mótæli - Siggi Hrellir

Kæru félagar,

Í dag ætla ég ekki bara að tala um réttindi og réttlæti. Í dag langar mig líka að tala um skyldur okkar sem borgara.

Skoðum réttarsögu okkar og berum hana saman við Evrópu. Því miður sýnir sagan að réttur, lýðræði og réttlæti eru ekki sjálfsögð mannréttindi. Það tók Frakkland 1789 ár að staðfesta nútímalega mannréttindaskrá. Og hversu margir týndu lífi í Evrópu á síðustu öld til að tryggja frið og réttarríki – hugtök sem við tökum sem ókeypis og sjálfsögðum hlut? Fyrri heimsstyrjöldin kostaði heiminn á bilinu 9 til 16 milljón mannslíf. Sú síðari kostaði á bilinu 50 til 70 milljón mannslíf.

Okkar saga er öðruvísi. Við erum líka hugrökk þjóð. Við misstum ótalmarga dugmikla sjómenn í áranna rás og einnig nokkra farmenn í stríðinu. En hversu margir Íslendingar hafa týnt lífinu fyrir sjálfstæði, lýðræði og mannréttindi? Hugsum aðeins málið. Stjórnarskráin var gjöf til okkar frá dönskum kóngi. Það segir ýmislegt um skapgerð okkar…..

Sigurður Hr. Sigurðsson

Sigurður Hr. Sigurðsson

En ég spyr: Eru það örlög okkar að verða eins og hjáleigubændur sem fylgja þessu blessaða landi? Erum við eins og ósjálfráða þegnar sett undir náð og miskunn fáræðis og forréttindaklíku? Þegar ég sé svo marga hér í dag þá veit ég að spurningin á rétt á sér. Við erum hér vegna þess að við eigum betra skilið.

NEI – við erum ekki þrælar í þessu landi. Við erum frjáls og ráðum okkur sjálf.

NEI – við erum ekki fædd til að þjóna ráðamönnum.

JÁ – við erum bara venjulegar manneskjur, en við erum líka sterkasta vopn lýðræðisins. Valdið er hjá okkur – við fólkið.

Ég veit að við getum gert hvað sem er. Nýtt og betra Ísland sem okkur dreymir um. Ný stjórnarskrá sem gefur okkur ráð til að byggja betra og réttlátara samfélag.  En þetta mun ekki gerast án okkar frumkvæðis. Það er skylda okkar að standa vörð um þau réttindi sem við krefjumst strax.

Annars hefur aðeins borið á því að fulltrúar „Gamla Íslands“ hafi reynt að bendla þessar samkomur hér á Austurvelli við fasisma. Það gamalt neyðarúrræði og margnotað áróðursbragð að ljúga verstu syndum upp á þá sem reyna að fletta ofan af spillingu og misnotkun.

Það verðum við að þola jafnvel þó að sárt sé.

Ég efast t.d. ekki um að Eva Joly hafi fengið að kynnast slíku áður en hún fór að fá beinar hótanir vegna rannsóknar sinnar á ELF málinu í Frakklandi.

Stjórnarþingmaðurinn Björn Valur Gíslason fer nokkrum orðum um þá ágætu konu í tengslum við Icesave-málið á bloggsíðu sinni í fyrradag. Ekki hvetur hann hana til dáða fremur en Hrannar Björn Arnarsson aðstoðarmaður forsætisráðherra.

Austurvöllur 20. febrúar 2010 - Mynd af RÚV

Austurvöllur 20. febrúar 2010 - Mynd af RÚV

Skyldi Birni Val hugnast það betur að senda vælandi embættismenn á fundi með sendiherrum annarra ríkja? Hví ekki að taka því fegins hendi þegar að mikilsmetnir einstaklingar eins og Eva Joly talar okkar máli í blaðagreinum erlendis?

En reyndar er ég ekki hingað kominn til þess að rifja upp fréttir vikunnar þó svo að af nógu sé að taka.

Okkur er tíðrætt um „gjár“ hér á þessu landi. Gjár fyrirfinnast víða um land og jafnvel hér umhverfis Alþingi við Austurvöll.

Gjá getur virkað eins og múr eða veggur til aðskilnaðar frá öðru fólki, áhrifum eða verðmætum. Sá munur er þó á múr og gjá að múrinn er mannanna verk meðan að gjáin er mynduð af náttúrunnar völdum.

Annar munur á múr og gjá er sá að múrinn brotnar niður ef nægilega margir leggjast á eitt við að brjóta hann. Gjáin gerir lítið annað en að gliðna.

Margt bendir til þess að ósýnilegir múrar hafi verið reistir víða um samfélagið án okkar vitundar og eflaust er verið að endurreisa marga þá múra sem löskuðust illa í hruninu.

Ósýnilegir múrar eru á milli þeirra sem fá og þeirra sem ekki fá. Á milli þeirra sem mega og þeirra sem ekki mega. Á milli þeirra sem stjórna og þeirra sem engu fá að stjórna.

Austurvöllur 20. febrúar 2010 - Mynd af RÚV

Austurvöllur 20. febrúar 2010 - Mynd af RÚV

Okkar ósýnilegu múrar eru settir saman úr ósanngjörnu regluverki af fólki sem stjórnmálaelítan hefur velþóknun á. Þeir hafa orðið til í áranna rás vegna þess að þjóðin hefur sífellt verið klofin niður í andstæðar fylkingar sem reynt hafa að skara eld að eigin köku.

KJÖRDÆMAPOT – KLÍKUSKAPUR – FJÓRFLOKKURINN – EMBÆTTISMENN – STÓRIÐJAN – ÚTGERÐARMENN – ÚTRÁSARVÍKINGAR.

Heildarhagsmunum hefur sífellt verið fórnað fyrir sérhagsmuni og jöfnuður…, það er fallegt orð sem rykið er dustað af við sérstök tilefni.

Hvernig getum við sætt okkur við þá mismunum sem felst í ójöfnu atkvæðavægi? Úr sér genginni stjórnarskrá? Einkavinavæðingu? Klíkustjórnmálum? Dómurum sem skipaðir eru með tilliti til flokksskírteinis eða ættartengsla?

Það verður ekki annað sagt en að „af þolinmæði eigum við nóg“.

Það eru 16 mánuðir síðan fólk fór að hópast hér saman á laugardögum með kröfuspjöldin á lofti, í þeirri von að samstöðumátturinn yrði óréttlætinu yfirsterkari.

Við stóðum í ósýnilegri leikmynd sem hafði hrunið yfir okkur með berstrípaða leikara sem létu á engu bera og báðu Guð að blessa Ísland. Á endanum flæmdum við helstu leikendur burt en pössuðum ekki nægilega vel að hreinsa til ruslið eftir þá.

Af þeim sökum hefur sama leikritið nú verið sett upp í plástraðri leikmyndinni með sömu persónum og leikendum, allavega að hluta til. Fyrir bragðið erum við lent í hálfgerðu öngstræti eða sjálfheldu því að leiðin fram á við er stífluð og enginn kærir sig um að fara aftur á bak. M.ö.o vilja fæstir nýjar kosningar því að enginn trúir því í raun og veru að sjálft stjórnkerfið sé heilbrigt.

Því verðum við að uppfæra stýrikerfið.

Austurvöllur 20. febrúar 2010 - Mynd af Stöð 2

Austurvöllur 20. febrúar 2010 - Mynd af Stöð 2

Okkur bráðvantar nýja stjórnarskrá – og það sem fyrst, því að án hennar er framtíðin allt annað en björt.

Hjá allsherjarnefnd Alþingis liggur nú íhaldssamt og hugmyndasnautt frumvarp ríkisstjórnarinnar um stjórnlagaþing.

Frumvarpið, sem alls engin umræða hefur farið fram um, gerir ráð fyrir svokölluðu ráðgefandi stjórnlagaþingi í boði Alþingis sem starfa skal eins og smækkuð útgáfa af Alþingi með svipuðu vinnulagi. Væntanlegar tillögur um endurbætur á stjórnarskránni eiga svo ekki einu sinni að koma til atkvæðagreiðslu meðal þjóðarinnar heldur ætlar Alþingi sjálft að leggja blessun sína yfir þær – eða ekki. M.ö.o. ætlar Alþingi að vera úrskurðarvald um nýjar vinnureglur fyrir sig sjálft og okkur hin í leiðinni auk þess að passa upp á að engir innmúraðir missi spón úr sínum aski.

Á Íslandi höfum við enga hefð fyrir mótmælum líkt og í mörgum öðrum ríkjum. Búsáhaldabyltingin sýndi þó og sannaði að úrræði eru til staðar þegar að fólki er gróflega misboðið.

Breytingar gerast nefnilega ekki af sjálfu sér og það er því á ábyrgð okkar sjálfra að passa upp á réttindi og skyldur þjóðarinnar og kjörinna fulltrúa hennar.

Höfum það í huga að Berlínarmúrinn féll ekki af sjálfu sér og heldur ekki vegna ákvarðana stjórnmálamanna. Ósýnilegir múrar eru ekki óbrjótanlegir bara ef almenningur gerir sér grein fyrir tilvist þeirra og fólk leggst á eitt við að mölva þá niður.

Segjum NEI við bankakerfi sem mismunar fólki bak við luktar dyr.

Segjum NEI við stjórnkerfi þar sem embættismenn eru ráðnir á pólitískum forsendum.

Segjum NEI við kosningakerfi þar sem kjósendur hafa ekki raunverulegt val.

Segjum NEI við því að fólk hrekist úr landi sökum vonleysis og uppgjafar.

Segjum NEI við stjórnlagaþingi fyrir stjórnmálaflokka og hagsmunasamtök sem engu vilja breyta.

Segjum JÁ við stjórnlagaþingi á okkar eigin forsendum.

Tökum ábyrgð og völdin í eigin hendur því að valdið er hjá okkur og við erum þjóðin.

EIGI SKAL VÍKJA!

Ný búsáhaldabylting – Spaugstofan 20. febrúar 2010

Flokkar: Bloggar

Laugardagur 20.2.2010 - 11:46 - FB ummæli ()

Starfskraftur óskast…

Íris Erlingsdóttir skrifaði þessa grein sem birtist í Morgunblaðinu á fimmtudaginn.

Starfskraftur óskast... - Íris Erlingsdóttir - Moggi 18. febrúar 2010

Starfskraftur óskast... - Íris Erlingsdóttir - Moggi 18. febrúar 2010

Viðbót: Mér var bent á þessa svargrein á Facebook síðu, var rétt búin að taka skjámynd af síðunni til að birta hér þegar Anna benti á að hún væri í Mogganum. Takk fyrir það.

Ærumeiðingu hafnað... - Arnar Guðmundsson - Moggi 20. febrúar 2010

Ærumeiðingu hafnað... - Arnar Guðmundsson - Moggi 20. febrúar 2010

Flokkar: Bloggar

Föstudagur 19.2.2010 - 15:36 - FB ummæli ()

„Guð hatar Ísland!“

Það er viðurkennd staðreynd að sannfærðir finna sinn eigin sannleika – hver sem hann kann að vera – ef það hentar eigin kreddum eða „málstað“. Gjarnan er talað um fanatík, ofsatrú, þröngsýni, einstrenging og þar fram eftir götunum og þykir lítt til fyrirmyndar. Ég sá þessa slóð á Facebook og smellti. Viðurkenni að ég hreinlega tárfelldi af hlátri þegar ég las þetta fyrst yfir – og athugasemdirnar! Svo fór ég að smella á ýmsar slóðir sem tengt er í og gerði mér þá betur grein fyrir alvarleika og viðbjóði ofstækisins. Prófið til dæmis að smella á slóðina Are you a Woman 18-24? Read this now! Hvað er maðurinn að bjóða ungum stúlkum í nafni guðstrúar? Trúmenn og trúfélög geta reynt hressilega á þolrif sæmilega skynsamra og upplýstra manna og kvenna og það sem verra er – setja svartan blett á alla trú og alla trúaða, hversu hófsamt og víðsýnt það fólk er. Og það eru sem betur fer margir.

Hér er slóðin:  Landover Baptist Church – Guaranteeing Salvation Since 1620. Bendi á að forvitnilegt er að fara með músarbendilinn yfir táknin hægra megin við myndina af séranum og skoða fjaðrirnar sem hann skreytir sig með. Þessi vefsíða er gott dæmi um hve hættulegt allt ofstæki er – hvað sem ofstækið snýst um. Sannleikanum er gjarnan snúið á hvolf í þágu „málstaðarins“. Vörumst ofstæki!  Smellið í læsilega stærð.

Got hates Iceland

Got hates Iceland - séra Jim Osborne - Landover Baptist Church

ATH: Þessi færsla ætti að bíða til 1. apríl þar sem þetta munu vera „Baggalútar kristninnar vestra“ – gera grín að ofsatrú og ofsatrúarfólki.

Flokkar: Bloggar

Föstudagur 19.2.2010 - 07:25 - FB ummæli ()

Fjárfestingar og tap lífeyrissjóðanna

Sáralítið hefur komið upp á yfirborðið um framferði lífeyrissjóðanna, fjárfestingar þeirra í gróðærinu og tap í hruninu. Ég hef ekki orðið vör við að neinn fjölmiðill hafi tekið það fyrir með skipulögðum hætti og grafið upp upplýsingar, upphæðir, tengsl við bankastofnanir og manna í millum. Það sem þó hefur heyrst og sést í fjölmiðlunum er lítið, handahófskennt og því hefur ekki verið fylgt eftir. Það er einna helst Ragnar Þór Ingólfsson sem hefur reynt af miklum dugnaði að grafa upp sannleikann um Lífeyrissjóð verslunarmanna en ekki hlotið nándar nærri þá athygli sem hann verðskuldar fyrir rannsóknarvinnu sína. Það er eins og þegjandi samkomulag ríki um að þegja málin í hel. Nema þau séu svo gríðarlega stór, umfangsmikil og alvarleg að enginn leggi í það. Fjölmiðlar hafi ekki tíma og mannskap. Upplýsingar ófáanlegar og verið að fela þær enn dýpra. Ég minntist á þetta í pistlinum Barbabrella Bakkabræðra í tengslum við Existu og hvers vegna Lífeyrissjóður verslunarmanna vill ólmur ganga til nauðarsamninga. Jón Jósef Bjarnason hefur verið að reyna að safna gögnum um þá sem sitja og sátu í stjórnum lífeyrissjóðanna í gagnagrunninn sinn, Rel8.

Á þriðjudaginn var Sigrún Davíðsdóttir með beittan pistil í Speglinum á RÚV. Efnið er grafalvarlegt og kemur inn á ýmislegt sem við er að etja þessa dagana, vikurnar og mánuðina – siðferði, gagnrýna hugsun og aðhald. Þrátt fyrir að þjóðin beinlínis öskri á heiðarleika, bætt siðferði, endurheimt trausts og jafnræði virðist vera ansi djúpt á slíkum eiginleikum í raun eins og fréttir undanfarið hafa sýnt og sannað. Græðgin og spillingin vaða enn uppi hvert sem litið er og yfirvöld virðast ekki ætla að hindra það með lögum eða reglugerðum. En hlustið á og lesið pistil Sigrúnar. Hann upplýsir og vekur margar spurningar eins og til dæmis þá – í ljósi upplýsingatregðu – hvort lífeyrissjóðirnir kæri sig ekkert um gagnrýnið aðhald. Enda eru fulltrúar atvinnurekenda mest áberandi í stjórnum þeirra.

Lífeyrissjóðirnir og gagnrýnið aðhald – Sigrún Davíðsdóttir – Spegillinn 16. febrúar 2010

Sigrún Davíðsdóttir - Spegilspistlar

Sigrún Davíðsdóttir - Spegilspistlar

Lífeyrissjóðirnir og gagnrýnið aðhald

Það er talað um nauðsyn þess að lífeyrissjóðirnir taki þátt í uppbyggingunni – en þurfa þeir þá ekki að horfa betur í eigin barm vegna fyrri fjárfestinga? Í aðdraganda hrunsins var gjarnan bent á að öflugir lífeyrissjóðir væru einn af hornsteinum í íslensku efnahagslífi. En það má líka líta svo á að gagnrýnisleysi sjóðanna hafi ýtt undir ógæfulega þróun og óhóflega áhættu á óþroskuðum markaði. Sjóðirnir eru víða kröfuhafar í eignarhaldsfélögum sem hafa lent í gjaldþrotum með stórfelldar skuldir og varla nokkrar eignir. Kröfurnar í þrotabú Samsons eru 80 milljarðar, eignirnar 2 milljarðar. En lífeyrissjóðir eru einnig stórir kröfuhafar í Existu þar sem hart er barist um nauðasamninga. Sigrún Davíðsdóttir bendir á að ef lífeyrissjóðirnir ætla að taka þátt í uppbyggingunni þurfa þeir að veita meira gagnrýnna aðhald en áður.

********************************************

Samson var eignarhaldsfélag feðganna Björgólfs Guðmundssonar og Björgólfs Thors, upphaflega stofnað utan um eignarhlut feðganna og Magnúsar Þorsteinssonar í Landsbankanum. Magnús seldi svo sinn hlut í Samson 2005. Eins og gildir um fleiri eignarhaldsfélög íslenskra stórumsvifamanna undanfarin ár þá fór Samson á flug – og eldsneytið kom meðal annars í formi skuldabréfakaupa frá tæplega 20 lífeyrissjóðum.

En af hverju keyptu lífeyrissjóðirnir í einkahlutafélagi? Af því félagið sem byrjar sem eignarhaldsfélag breytir með tímanum samþykktum sínum og fer að sinna almennum fjárfestingum. Við nánari athugun reynast fjárfestingarnar þó ekki mjög almennar: öll félögin sem Samson fjárfesti í tengdust umsvifum feðganna sjálfra. Félagið stundaði einnig lánastarfsemi á sömu forsendum: lánaði félögum nátengdum eða í eigu eigendanna sjálfra.

Eignarhaldsfélög eru ekkert séríslenskt fyrirbæri, öldungis ekki – en úr því það var álitlegt fyrir íslenska lífeyrissjóði að fjárfesta í skuldabréfum félaga eins og Samson af hverju keyptu erlendir lífeyrissjóðir þá ekki í þessum félögum? Svarið er að á þroskuðum mörkuðum í nágrannalöndunum líta lífeyrissjóðir almennt ekki við skuldabréfum skuldsettra eignarhaldsfélaga – og erlendis þekkist varla að skuldsett eignarhaldsfélög fjármagni sig með skuldabréfaútgáfu.

Svona starfsemi er í eðli sínu svo áhættusöm að fjárfestar sætta sig ekki við að hagnaður þeirra takmarkist af vöxtum. Félögin eru því fjármögnuð með hlutafé, geta svo fengið lán hjá fjárfestingabönkum þar sem bankinn tekur veð í þeim eignum sem eru keyptar í gegnum bankann. Bankinn er þá með tryggingu í eignum sem hann getur selt ef þörf krefur.

Eins og skuldabréfaeigendur í kollsigldu íslensku eignarhaldsfélögunum vita nú af biturri reynslu eru endurheimtur í skuldsettum eignarhaldsfélögum næstum engar. Kröfurnar í Samson nema 80 milljörðum, eignirnar eru metnar á tvo milljarða. Endurheimtur í skuldabréf banka eru gjarnan um 40 prósent. Skýringin er sú að það er grundvallarmunur á veðum skuldsettra eignarhaldsfélaga og banka: veð banka á almennt að vera haldbetra en hlutabréfaeign eignarhaldsfélaga. – Íslensku bankarnir brutu reyndar þessa meginreglu þegar þeir tóku lítil eða engin veð en það er önnur saga. Meginreglan er að bankar gæti að veðum fyrir veittum lánum.

Erlendis geta eignarhaldsfélög hugsanlega gefið út skuldabréf í tengslum við ákveðin og afmörkuð verkefni. Baugur gat til dæmis fengið lán frá erlendum bönkum til yfirtöku á House of Fraser. Erlendu bankarnir taka þá veð í eignunum sem er verið að kaupa, ekki bara veð í hlutabréfum. – Talandi um Baug: stundum kastaðist í kekki milli umsvifamanna og lífeyrissjóða: sumarið 2006 hótuðu forráðamenn Baugs og FL Group að stofna lífeyrissjóð fyrir sína starfsmenn því þeim hugnuðust ekki fjárfestingar Lífeyrissjóðs verslunarmanna.

Það var aldrei mjög viturlegt af lífeyrissjóðunum að kaupa skuldabréf af skuldsettum, óskráðum eignarhaldsfélögum. Þegar Samson fór í þrot sagði framkvæmdastjóri eins lífeyrissjóðanna sem hafði keypt skuldabréf af félaginu að það væri áfall að ‘fjárfestar hafi meðhöndlað félög og fyrirtæki með óábyrgum hætti, annaðhvort með því að taka út úr þeim verðmæti eða einfaldlega fjárfesta með arfavitlausum hætti.’ Framkvæmdastjórinn sagðist svo ekki hafa búist við því að félag einhverra ríkustu manna heims færi í þrot.

Einn viðmælandi Spegilsins sem þekkir vel til bankastarfsemi á Íslandi undanfarna áratugi segir að íslenski skuldabréfamarkaðurinn hafi alltaf verið einkennilegur. Útgefendur skuldabréfa hafi þar alltaf haft góðan aðgang að fjármagni gegn litlum tryggingum. Eftir á að hyggja hefði ávöxtunarkrafan átt að vera mun hærri. Samkeppni bankanna hafi skrúfað ávöxtunarkröfurnar niður – þeir sem hefðu barið í borðið fengu einfaldlega engin viðskipti. Lífeyrissjóðir og bankarnir hafi því gert sér þetta að góðu. Í raun sé það einkenni óþroskaðs markaðar að gera ekki grein á óskráðu eignarhaldsfélagi og skráðu félagi með rekstur og áþreifanlegar eignir.

Fjárfestingar lífeyrissjóðanna í Existu eru kapítuli út af fyrir sig – það var talað um Existu sparisjóði, líka tilefni til að tala um Existu-lífeyrissjóði. Þessar vikurnar fara fram harðsnúnar samningaviðræður kröfuhafa Existu um nauðasamninga og já, það er ástæða til að tala um harðsnúnar viðræður. Þarna eins og víðar er tekist á um hvort og hvernig fyrri eigendur haldi eignum og ítökum. Gríðarleg átök þó hljótt fari. Aðkoma lífeyrissjóðanna í félögum í nauðasamningum er umhugsunarverð. Þó það gildi sömu reglur um gjaldþrot og nauðasamninga sýnir reynslan undanfarið að framkvæmdin vill vera öll önnur þegar um nauðasamninga er að ræða. Þá er eins og kröfuhafar sjái litla ástæðu til að eyða tíma og fé í að fara í saumana á bókhaldinu. Þannig grafast og fyrnast fyrri gerðir og gjörningar.

Viðmælandi Spegilsins í stjórnkerfinu segir það umhugsunarvert að lífeyrissjóðirnir, sem beri beina ábyrgð gagnvart launþegum, hafi lítið gert í að krefjast upplýsinga um hrap stóru eignarhaldsfélaganna sem áttu Ísland. Sjóðirnir séu stórir aðilar sem hafi borið mikinn skaða – en virðist þó ekki spyrja gagnrýninna spurninga varðandi rekstur, bókhald og uppgjör þessara félaga. – Reyndar má bæta því við að skaðinn er tæplega allur kominn fram. Skortir líka að lífeyrissjóðsfélagar hafi krafið stjórnir sjóðanna reikningsskila, þá einnig siðferðislegra skila.

Þegar litið er til undanfarinna ára má segja að stórir aðilar í viðskiptalífinu hafi getað gengið að því vísu að fé fengist úr lífeyrissjóðunum. Oft þegar er nóg af einhverju er eins og þar með sé ekki farið sérlega vel með ofgnóttina. Þannig var það um fjármagnið sem flæddi um heiminn á lágum vöxtum, ekkert séríslenskt fyrirbæri. En gríðarlega sterkir lífeyrissjóðir eru að vissu leyti séríslenskt fyrirbæri. Auðvitað hin mesta blessun en gagnrýnislausar fjárfestingar þeirra voru ekki að öllu leyti blessun. Nú er talað um að lífeyrissjóðirnir þurfi að taka þátt í uppbyggingunni. Vissulega þarf fé – en það þarf líka miklu gagnrýnna hugarfar en áður og ábyrgt aðhald.

*************************************************************

Eftir lestur og hlustun þessa pistils er ekki úr vegi að rifja upp þann sem ég benti á hér ofar og fjallar um nauðasamninga – og muninn á þeim og gjaldþroti. Hve miklu auðveldara er að fela upplýsingar þegar gerðir eru nauðasamningar en þegar félag eða fyrirtæki er tekið til gjaldþrotaskipta. Hlustið og tengið.

Ólán nauðasamninga – Sigrún Davíðsdóttir – Spegillinn 13. janúar 2010

Flokkar: Bloggar

Fimmtudagur 18.2.2010 - 17:27 - FB ummæli ()

Nú fer hver að verða síðastur

Hún var skemmtileg, fréttin á RÚV í gærkvöldi um að stækkunardeild framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins sem sér um umsóknir nýrra aðildarríkja hefði beðið um að fá að sjá heimildamyndina Maybe I should have. Hróður hennar hafði borist þeim til eyrna og þeim finnst greinilega rétt að kynna sér hana áður en lengra er haldið. Ég hef engar upplýsingar um hve margir hafa séð myndina, sem sýnd er í Kringlubíói um þessar mundir og mun vera lögð af stað í ferð um landið. En ég á bágt með að trúa því að fólk ætli að láta hana fram hjá sér fara. Ekki er víst hvort hún verður gefin út á DVD og miðað við nýjustu fréttir af niðurskurði á RÚV verður myndin ekki sýnd í sjónvarpinu. Þá er bara að drífa sig í bíó! Sýningum fer óðum fækkandi svo nú fer hver að verða síðastur…

RÚV 17. febrúar 2010

Myndin hefur hlotið mikið lof gagnrýnenda. Sjálf hef ég minnst á og vitnað í hana í fjölmörgum pistlum og ætla að lista þá hér – ekki síst til glöggvunar fyrir sjálfa mig.

Undarleg upplifun af spillingu – 13. janúar 2010
Allir á frumsýningu! – 18. janúar 2010
Einlæg, heiðarleg, hárbeitt, frábær… – 21. janúar 2010
Jóhannes Björn í Silfrinu og á Austurvelli – 24. janúar 2010
Silfur dagsins – 24. janúar 2010
Aflandseyjaskattaskjólin – 7. febrúar 2010
Viðvaranir Wades – 9. febrúar 2010
Reiðilestur um réttlæti – 13. febrúar 2010
Ef þetta er ekki spilling… – 14. febrúar 2010
Í tilefni Viðskiptaþings – 17. febrúar 2010

Í pistlinum Allir á frumsýningu! birti ég myndbandið með uppruna titils myndarinnar. Sú uppákoma er rúmlega ársgömul, eða frá 12. febrúar 2009. Í þeim pistli birti ég líka þá sjónvarps- og útvarpsumfjöllun sem hafði verið fyrir frumsýninguna og endurtek ekki hér. Heldur ekki efnið sem birtist í pistlinum Einlæg, heiðarleg, hárbeitt og frábær… þar sem birtar eru umsagnir á Facebook og tengt í nokkrar bloggfærslur sem fjalla um myndina. Hér á eftir fer umfjöllun og gagnrýni um myndina eftir frumsýningu.

Fréttir RÚV – 20. janúar 2010

Kastljós – 20. janúar 2010

DV – 8. febrúar 2010

Gagnrýni - Maybe I should have - DV 8. febrúar 2010

Gagnrýni - Maybe I should have - DV 8. febrúar 2010

Moggi – 8. febrúar 2010

Gagnrýni - Maybe I should have - Moggi 8. febrúar 2010

Gagnrýni - Maybe I should have - Moggi 8. febrúar 2010

Fréttablaðið – 9. febrúar 2010

Gagnrýni - Maybe I should have - Fréttablaðið 9. febrúar 2010

Gagnrýni - Maybe I should have - Fréttablaðið 9. febrúar 2010

Sigurjón M. Egilsson í Bítinu á Bylgjunni –  5. febrúar 2010

Ólafur H. Torfason í Síðdegisútvarpi Rásar 2 – 11. febrúar 2010

Maybe I should have – fantagóð kvikmynd – Jóhannes Björn
Maybe I should have spoken up – Iceland Review
Maybe I should have… found out where all the money went – Icenews
Kriseforstaelse – Dagbladet.no

Maybe I should have, aka Follow the money – Iceland Weather Report

Outmooring Michael: Maybe I should have – The Reykjavík Grapevine

Ef einhver veit um fleiri umsagnir sem hafa farið fram hjá mér þá vinsamlegast látið mig vita í athugasemdum.

Flokkar: Bloggar

Miðvikudagur 17.2.2010 - 16:44 - FB ummæli ()

Í tilefni Viðskiptaþings

Úr heimildamyndinni Maybe I should have

.

Finnur Oddsson, framkvæmdastjóri Viðskiptaráðs þá og nú – Viðskiptablaðið 14. september 2007

Finnur Oddsson - Viðskiptaráð - Viðskiptablaðið 14. september 2007

Finnur Oddsson – Viðskiptaráð – Viðskiptablaðið 14. september 2007

.

Viðskiptaráð barðist fyrir afnámi hafta, laga og reglna – og svo fór sem fór

Viðskiptaráð, burt með höftin - Halldór Baldursson - Viðskiptablaðið 14. september 2007

Viðskiptaráð, burt með höftin – Halldór Baldursson – Viðskiptablaðið 14. september 2007

Flokkar: Bloggar

Miðvikudagur 17.2.2010 - 01:30 - FB ummæli ()

Afskriftir og níu núll ehf.

Já, það kostar klof að ríða röftum, krakkar!

Afskriftir og Níu núll ehf. - Halldór Baldursson - Moggi 15. febrúar 2010

Afskriftir og Níu núll ehf. - Halldór Baldursson - Moggi 15. febrúar 2010

Flokkar: Bloggar

Þriðjudagur 16.2.2010 - 15:02 - FB ummæli ()

Rannsóknir Fjármálaeftirlitsins

Þrjár greinar birtust með stuttu millibili í janúar og fram kom að þær yrðu fjórar. Sú fjórða, sem ég hef beðið með óþreyju, birtist loksins í dag og ég ætla að koma þeim öllum á framfæri hér. Ég hugsa mitt um tilganginn með skrifunum og hef á tilfinningunni að verið sé að undirbúa okkur undir eitthvað. Það kann vel að vera rangt, en ég vil hafa vaðið fyrir neðan mig. Hvað sem því líður eru greinaskrifarar alltént að upplýsa okkur og hafi þeir þökk fyrir það. Smellið í læsilega stærð.

Rannsóknir FME 1:4 – Fréttablaðið 15. janúar 2010

Rannsóknir FME 1:4 - Fréttablaðið 15. janúar 2010

Rannsóknir FME 1:4 - Fréttablaðið 15. janúar 2010

Rannsóknir FME 2:4 – Fréttablaðið 16. janúar 2010

Rannsóknir FME 2:4 - Fréttablaðið 16. janúar 2010

Rannsóknir FME 2:4 - Fréttablaðið 16. janúar 2010

Rannsóknir FME 3:4 – Fréttablaðið 20. janúar 2010

Rannsóknir FME 3:4 - Fréttablaðið 20. janúar 2010

Rannsóknir FME 3:4 - Fréttablaðið 20. janúar 2010

Rannsóknir FME 4:4 – Fréttablaðið 16. febrúar 2010

Rannsóknir FME 4:4 - Fréttablaðið 16. febrúar 2010

Rannsóknir FME 4:4 - Fréttablaðið 16. febrúar 2010

Flokkar: Bloggar

Höfundur



Eldri færslur

Dagatal

júlí 2025
S M Þ M F F L
« des    
 12345
6789101112
13141516171819
20212223242526
2728293031