Nú er kátt í Hádegismóum, maður minn! Tilgangur ritstjórans, þ.e. að fjarstýra atburðarásinni og blekkja almenning, hefur bara tekist ansi vel. Þetta hangir allt saman og ég hlakka til að sjá Moggann á eftir og viðbrögð ritstjórans við aðgerðum mannsins sem hann hefur vægast sagt litlar mætur á – en hlýddi honum í þetta sinn. Ritstjórinn á ekki spegil og viðurkennir auðvitað ekki eigin ábyrgð á neinu sem aflaga hefur farið í íslensku þjóðfélagi sem þó er í rúst eftir 20 ára ógnarstjórn hans. Vill fólk þetta aftur? Og í framhaldi af því – ábending til fjölmiðla: Er ekki tímabært að kafa ofan í og fjalla um skuldina sem fyrrverandi seðlabankastjóri (og núverandi ritstjóri) steypti þjóðinni í á síðustu metrunum fyrir hrun? Icesave ku vera skiptimynt í samanburði við þau ósköp!
Það var fróðlegt að fylgjast með viðbrögðum fólks í gær. Facebook er fínn þjóðarspegill þegar mikið gengur á. Sumir fengu hnútinn í magann aftur – þennan sem kom fyrst eftir hrunið. Sumir vilja að Ólafur Ragnar segi af sér. Sumir kætast mjög og þetta er í fyrsta sinn sem ég hef séð harðlínusjálfstæðismenn og öfgafrjálshyggjufólk hrósa forsetanum í hástert. Nú eygja þeir von um stjórnarslit og valdatöku og til þess er nú einmitt leikurinn gerður, gott fólk! Þeim er skítsama um almenning – gleymum því ekki.
En áður en lengra er haldið skulum við rifja upp viðtöl við nokkra af ábyrgðamönnum hrunsins – einkum Icesave. Bara svo það sé á hreinu hverjir bera ábyrgðina.
Sigurjón Þ. Árnason í Kastljósi 8. október2008
Björgólfur Thor Björgólfsson í Kompási 27. október 2008
Björgólfur Thor í mynd Helga Felixsonar – Guð blessi Ísland
Björgólfur Guðmundsson í Kastljósi 13. nóvember 2008
Jamm… rifjast ekki ýmislegt upp? Eru ekki allir með ábyrgðina á hreinu? Í fyrstu, þegar verið var að snúa ábyrgð á öllu sem dynur á okkur yfir á núverandi ríkisstjórn þá fauk í mig. Ekki síst þegar bæjarstjórinn í Reykjanesbæ, og framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins sökuðu Svandísi Svavarsdóttur um að bera ábyrgð á atvinnuleysinu í Reykjanesbæ. Nú hlæ ég að þessu en tek það þó alvarlega. En þetta er í rauninni svolítið fyndið þótt það sé sorglegt um leið. Að fólk skuli gleypa við áróðrinum og gleyma forsögunni er dapurlegt. Við megum aldrei gleyma hvar hin raunverulega ábyrgð liggur.
Ég ætla ekki að fjalla um forsetann og það mál allt í smáatriðum. Reikna með að þeir sem hafa áhuga á málinu á annað borð hafi lesið blogg og hlustað og horft á fréttir og Kastljós í gær. Ég lagði mig hins vegar sérstaklega eftir viðbrögðum erlendra fjölmiðla og hér eru sýnishorn af þeim. En eins og einhver sagði efnislega: „Umheimurinn getur alveg án Íslands verið – en Ísland getur ekki án umheimsins verið.“ Áttum okkur á því.
BBC – 5. janúar 2010
Danska og norska sjónvarpið – 5. janúar 2010
Channel 4 – 5. janúar 2010
Channel 4 – Steingrímur J. Sigfússon – 5. janúar 2010
Mér fannst Steingrímur standa sig helvíti vel í þessu viðtali. Bendi á greiningu hins vísa Egils Jóhannssonar, pistil Teits líka og hugleiðingar Silju Báru eru mjög áhugaverðar. Mér finnst ég vera að gleyma einhverju… en þetta er líklega orðið nóg í bili. Ég árétta að við megum aldrei gleyma hverjir eru hinir raunverulegu sökudólgar í hruninu og Icesave – hverjir bera ábyrgðina. Og ég minni á að ritstjórinn í Hádegismóum er höfuðpaurinn – hvað sem hann og skósveinar hans og -meyjar sprikla, afneita og rífa kjaft.
En í lokin – viðtalið við Michael Hudson í Silfri Egils í byrjun apríl í fyrra. Mjög athyglisvert sjónarhorn í umræðunni. Hlustið og horfið af mikilli athygli.
Silfur Egils 5. apríl 2009