Miðvikudagur 6.1.2010 - 07:27 - FB ummæli ()

Nú er kátt í höllinni

Nú er kátt í Hádegismóum, maður minn! Tilgangur ritstjórans, þ.e. að fjarstýra atburðarásinni og blekkja almenning, hefur bara tekist ansi vel. Þetta hangir allt saman og ég hlakka til að sjá Moggann á eftir og viðbrögð ritstjórans við aðgerðum mannsins sem hann hefur vægast sagt litlar mætur á – en hlýddi honum í þetta sinn. Ritstjórinn á ekki spegil og viðurkennir auðvitað ekki eigin ábyrgð á neinu sem aflaga hefur farið í íslensku þjóðfélagi sem þó er í rúst eftir 20 ára ógnarstjórn hans. Vill fólk þetta aftur? Og í framhaldi af því – ábending til fjölmiðla: Er ekki tímabært að kafa ofan í og fjalla um skuldina sem fyrrverandi seðlabankastjóri (og núverandi ritstjóri) steypti þjóðinni í á síðustu metrunum fyrir hrun? Icesave ku vera skiptimynt í samanburði við þau ósköp!

Það var fróðlegt að fylgjast með viðbrögðum fólks í gær. Facebook er fínn þjóðarspegill þegar mikið gengur á. Sumir fengu hnútinn í magann aftur – þennan sem kom fyrst eftir hrunið. Sumir vilja að Ólafur Ragnar segi af sér. Sumir kætast mjög og þetta er í fyrsta sinn sem ég hef séð harðlínusjálfstæðismenn og öfgafrjálshyggjufólk hrósa forsetanum í hástert. Nú eygja þeir von um stjórnarslit og valdatöku og til þess er nú einmitt leikurinn gerður, gott fólk! Þeim er skítsama um almenning – gleymum því ekki.

En áður en lengra er haldið skulum við rifja upp viðtöl við nokkra af ábyrgðamönnum hrunsins – einkum Icesave. Bara svo það sé á hreinu hverjir bera ábyrgðina.

Sigurjón Þ. Árnason í Kastljósi 8. október2008

Björgólfur Thor Björgólfsson í Kompási 27. október 2008

Björgólfur Thor í mynd Helga Felixsonar – Guð blessi Ísland

Björgólfur Guðmundsson í Kastljósi 13. nóvember 2008

Jamm… rifjast ekki ýmislegt upp? Eru ekki allir með ábyrgðina á hreinu? Í fyrstu, þegar verið var að snúa ábyrgð á öllu sem dynur á okkur yfir á núverandi ríkisstjórn þá fauk í mig. Ekki síst þegar bæjarstjórinn í Reykjanesbæ, og framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins sökuðu Svandísi Svavarsdóttur um að bera ábyrgð á atvinnuleysinu í Reykjanesbæ. Nú hlæ ég að þessu en tek það þó alvarlega. En þetta er í rauninni svolítið fyndið þótt það sé sorglegt um leið. Að fólk skuli gleypa við áróðrinum og gleyma forsögunni er dapurlegt. Við megum aldrei gleyma hvar hin raunverulega ábyrgð liggur.

Ég ætla ekki að fjalla um forsetann og það mál allt í smáatriðum. Reikna með að þeir sem hafa áhuga á málinu á annað borð hafi lesið blogg og hlustað og horft á fréttir og Kastljós í gær. Ég lagði mig hins vegar sérstaklega eftir viðbrögðum erlendra fjölmiðla og hér eru sýnishorn af þeim. En eins og einhver sagði efnislega: „Umheimurinn getur alveg án Íslands verið – en Ísland getur ekki án umheimsins verið.“ Áttum okkur á því.

BBC – 5. janúar 2010

Danska og norska sjónvarpið – 5. janúar 2010

Channel 4 – 5. janúar 2010

Channel 4 – Steingrímur J. Sigfússon – 5. janúar 2010

Mér fannst Steingrímur standa sig helvíti vel í þessu viðtali. Bendi á greiningu hins vísa Egils Jóhannssonar, pistil Teits líka og hugleiðingar Silju Báru eru mjög áhugaverðar. Mér finnst ég vera að gleyma einhverju… en þetta er líklega orðið nóg í bili. Ég árétta að við megum aldrei gleyma hverjir eru hinir raunverulegu sökudólgar í hruninu og Icesave – hverjir bera ábyrgðina. Og ég minni á að ritstjórinn í Hádegismóum er höfuðpaurinn – hvað sem hann og skósveinar hans og -meyjar sprikla, afneita og rífa kjaft.

En í lokin – viðtalið við Michael Hudson í Silfri Egils í byrjun apríl í fyrra. Mjög athyglisvert sjónarhorn í umræðunni. Hlustið og horfið af mikilli athygli.

Silfur Egils 5. apríl 2009

Flokkar: Bloggar

Þriðjudagur 5.1.2010 - 07:25 - FB ummæli ()

Icesave og forsetinn í bresku pressunni

Það er alltaf fróðlegt að kynna sér „hina hliðina“, í þessu tilfelli hvernig breskir fjölmiðlar fjalla um Icesave og undirskrift forsetans. Hér eru tvær úrklippur með umfjöllun BBC og Channel 4. BBC fjallaði um málið 2. janúar og talaði við Magnús Árna Skúlason.

BBC 2. janúar 2010

Hér er svo frétt Channel 4 frá í gærkvöldi. Að sögn Baldurs McQueen, sem sá fréttina í sjónvarpinu ytra, var viðtal við Gylfa Magnússon, efnahags- og viðskiptaráðherra, í lok fréttarinnar en hann virðist hafa verið klipptur út úr myndbandinu og aðeins vitnað í hann í textanum. Viðtalið við Davíð Oddsson sem sýnt er brot úr birti ég í heild sinni hér.

Channel 4 – 4. janúar 2010

Flokkar: Bloggar

Mánudagur 4.1.2010 - 15:23 - FB ummæli ()

Dauðasyndir tvær

Í síðasta pistli rifjaði ég upp umfjöllun um viðskiptalífið á Íslandi og mennina á bak við það. Nefndi hvernig tekið var á gagnrýninni og viðvörunum sem voru hunsaðar, gagnrýnendur niðurlægðir, hæddir og reynt að þagga niður í þeim. Í leiðara Fréttablaðsins 31. janúar 2005 stendur þetta m.a.: „Metár er að baki í rekstri íslenskra fjármálafyrirtækja og hagnaðartölurnar utan skynsviðs meðalmannsins sem glímir við að stemma af tekjur sínar og útgjöld. Þegar slíkar tölur birtast fer um ýmsa og þeir sjá í tölunum táknmynd óréttlætis, misskiptingar og græðgi. Þetta er varhugaverður hugsunarháttur. Stundum virðast eindregnustu andstæðingar græðgi einmitt vera fórnarlömb annarrar dauðasyndar sem er öfundin. Öfundin er síst betri en græðgin í hópi dauðasyndanna sjö.“ Það stirnir á hrokann og yfirlætið í þessum orðum. Þeir sem sáu fáránleikann, skildu hann, vöruðu við honum og gagnrýndu hann voru bara öfundsjúkir. Hér er þessi magnaði leiðari eftir Hafliða Helgason og ég þakka ES fyrir að benda á hann í athugasemd við síðustu færslu. Svona var mórallinn í ársbyrjun 2005 og hann átti bara eftir að versna.

Leiðari Fréttablaðsins 31. janúar 2005

Gleðjumst með bönkunum - Hafliði Helgason - Fréttablaðið 31.12.2005

Gleðjumst með bönkunum - Hafliði Helgason - Fréttablaðið 31.12.2005

Ég minni meðal annars á þetta vegna þess, að á ýmsum sem hafa verið í hlutverki gagnrýnandans frá hruninu hafa dunið skammir og skætingur fyrir að gera einmitt það – að gagnrýna. Fyrir að horfa um öxl, persónugera vandann, vera „neikvæðir niðurrifsmenn“, stunda nornaveiðar og þar fram eftir götunum. Þó er þetta fólk bara að biðja um réttlæti. Um uppgjör – pólitískt, lagalegt og ekki síst siðferðilegt. Það þýðir ekkert að setja plástur á svöðusár, við verðum að sótthreinsa rækilega og sauma vandlega saman. Endurskoða svo ótalmargt, þar á meðal siðferðið og hvernig við skilgreinum spillingu. Ákveða hvort við ætlum að halda áfram að dæma og fangelsa smákrimma á meðan stórþjófarnir sleppa, sjá í gegnum fingur við grunaða, líða þeim að dvelja í vellystingum á sólarströndum og veita þeim jafnvel fyrirgreiðslu og ívilnanir fyrir næsta ævintýri.

Við verðum sem þjóð að taka ákvörðun um hvort við viljum endurtaka leikinn, hleypa sömu pólitísku öflum til valda og ollu hruninu og leyfa spillingunni í stjórnkerfinu að grassera áfram eins og bakteríusýkingu í kýli á viðkvæmasta stað þjóðarlíkamans. Forystumenn hrunflokkanna hafa ekkert lært og ýmsir aðrir ekki heldur að því er virðist. Ekkert. Þeir neita að gangast við ábyrgð og leiðtogar tveggja þeirra eru sjálfir auðmenn af stjórnmálaættum – annar með vafasama fortíð í viðskiptum. Öfgaöfl fara hamförum og láta frá sér fara þvílíka steypu að það hálfa væri yfirdrifið. Þetta fólk reynir einmitt, af ótrúlegum hroka og yfirlæti, að gera lítið úr gagnrýni á sig og sína og hlut sinn í hruninu með því að beina athygli að öðru, niðurlægja gagnrýnendur og gera þá tortryggilega. Vonandi taka fáir þá trúanlega.

Ég minni hér á nokkra gerendur í aðdraganda hrunsins – við megum ALDREI gleyma hverjir það voru og hvað þeir gerðu – og gerðu ekki – sem varð til þess að efnahagur landsins hrundi. Aldrei! Og við verðum að læra af reynslunni – reynslunni af þeim og gjörðum þeirra. Ekki byggja framtíðina á sömu fúaspýtunum.

Fréttir Stöðvar 2 – 11. til 23. desember 2009

Að lokum enn ein áminningin um hvernig mórallinn var í samfélaginu. Hvernig spilað var á hégóma, græðgi og löngun sumra til að vera í „rétta liðinu“ – að vera „Hinir útvöldu“ sem óku um á Range Rover.

Auglýsing í Fréttablaðinu 21. ágúst 2008

Hinir útvöldu aka um á Range Rover - B & L - Fréttablaðið 21.8.08

Hinir útvöldu aka um á Range Rover - B & L - Fréttablaðið 21.8.08

Guðni Elísson nefnir þessa auglýsingu í stórfínni grein sem ég mæli eindregið með og birtist í Tímariti Máls og menningar nú í desember. Greinin heitir Staðleysan Ísland og mýtan um okkur sjálf.

Guðni

Guðni Elísson - Staðleysan Ísland og mýtan um okkur sjálf - TMM 4-2009

Flokkar: Bloggar

Sunnudagur 3.1.2010 - 18:03 - FB ummæli ()

Orsakir og afleiðingar

Að fylgjast með Icesave-umræðunni er eins og að hlusta á Gunnar í Krossinum tala um sannleiksgildi Biblíunnar, Snorra í Betel um samkynhneigð eða Jón Val um fóstureyðingar. Þetta eru ekki samræður milli skynsamra, vel upplýstra einstaklinga – þótt vissulega örli á slíku hjá sumum – heldur upphrópanir, sleggjudómar, ofstæki af verstu sort og bókstafstrú af þeirri tegund sem ekki er hægt að setjast niður og ræða. Báðir deiluaðilar telja sinn málstað hinn eina rétta og gífuryrðin fljúga þvers og kruss. En mér finnst minna fara fyrir umræðu um orsök Icesave – því Icesave er jú afleiðing af gjörðum, misgjörðum og sinnuleysi áhrifamikilla aðila hérlendis og erlendis, sem og yfirvalda og eftirlitsaðila. Áður en farið er að hengja mann og annan nú er vert að rifja upp hverjir bera ábyrgð á hruninu og þar með Icesave – hvort sem það var af gáleysi, taumlausri græðgi, vítaverðu kæruleysi eða einbeittum brotavilja. Gleymum þessu aldrei. Viðvaranir voru hunsaðar og jafnvel kerfisbundið þaggaðar niður. Þetta fólk gengur allt laust. Ættu frjálshyggjumennirnir með Sigríði A. Andersen, fyrrverandi varaþingmann Sjálfstæðisflokksins, í fararbroddi ekki frekar að reisa þeim níðminnisvarða?

Ég tók saman umfjöllun Markaðarins, fylgiblaðs Fréttablaðsins, um viðskiptalífið í árslok 2005, 2006 og 2007 auk umfjöllunar um skýrslu Tryggva Þórs og Mishkins 2006, viðtalið með tærri snilld Sigurjóns frá í febrúar 2007 og yfirlit yfir útrásarferðir forseta Íslands þar til í október árið 2007. Þetta er fróðleg lesning og athyglisvert að sjá og heyra hvernig talað og skrifað var um þá sem voru að græða og græða meira – og á hverju. En byrjum á Markaðsannál Stöðvar 2 fyrir árið 2007 sem sendur var út 28. desember 2007.

Markaðsannáll – Stöð 2 – 2007

.

Hér eru svo úrklippurnar úr Markaðnum – smellið þar til læsileg stærð fæst.

2005

Maður ársins 2005 - Björgólfur Thor - Markaðurinn 28.12.2005

Maður ársins 2005 - Björgólfur Thor - Markaðurinn 28.12.2005

Viðskiptafréttaannáll 2005 - Markaðurinn 28.12.2005

Viðskiptafréttaannáll 2005 - Markaðurinn 28.12.2005

2006

Maður ársins 2006 - Hannes Smárason - Markaðurinn 28.12.2006

Maður ársins 2006 - Hannes Smárason - Markaðurinn 28.12.2006

Viðskiptafréttaannáll 2006 - Markaðurinn 28.12.2006

Viðskiptafréttaannáll 2006 - Markaðurinn 28.12.2006

Skýrsla Tryggva Þórs og Mishkins - Markaðurinn 28.12.2006

Skýrsla Tryggva Þórs og Mishkins - Markaðurinn 28.12.2006

2007

Maður ársins 2007 - Jón Ásgeir Jóhannesson - Markaðurinn 26.12.2007

Maður ársins 2007 - Jón Ásgeir Jóhannesson - Markaðurinn 26.12.2007

Viðskiptaannáll 2007 - Markaðurinn 26.12.2007

Viðskiptaannáll 2007 - Markaðurinn 26.12.2007

Tær snilld Sigurjóns Árnasonar - Markaðurinn 14.02.2007

Tær snilld Sigurjóns Árnasonar - Markaðurinn 14.02.2007

Forsetinn talar fyrir atvinnulífið - Markaðurinn 17.10.2007

Flokkar: Bloggar

Föstudagur 1.1.2010 - 18:25 - FB ummæli ()

Skrúðkrimmarnir í skaupinu

Skaupið var skrambi gott. Betra en það hefur verið í þó nokkur ár. Nauðsynlegt að horfa oft því brandararnir leyndust víða, ekki síst í leikmunum og leikmynd. Við sátum sjö saman í fjölskyldunni, tvær kynslóðir, og hlógum öll dátt – frá upphafi til enda. Það er ekki mjög algengt. Öll hæstánægð með frábært skaup. Tvö smáatriði þörfnuðust útskýringa og yngri kynslóðin benti á atriði úr kvikmyndinni Hangover sem við hin höfðum ekki séð. Þetta voru aukabrandarar inni í aðalbrandaranum og kom ekki að sök þótt þeir skildust ekki. Semsagt – sérlega vel heppnað skaup, til hamingju RÚV, handritshöfundar, leikstjóri og aðrir aðstandendur.

Áramótaskaup RÚV 2009

Lokaatriði skaupsins var glæsilegt og einstaklega vel gert. Og það er eitthvað við hann Pál Óskar sem yljar alltaf og fær brosið til að breiðast um eiginlega allan líkamann. Ekki var boðskapurinn síðri – en ég tók eftir að í textanum var spurningamerki við setningarnar: Er í lagi, Ísland? og Ísland, er í lagi? Réttmætar spurningar og eins og segir í textanum: „Nokkrir vinir fengu að græða, meðan hinir fengu að blæða. Lánin þeirra látin hverfa, þeirra mínus munum erfa.“ Ef marka má orð Jónasar eru það Íslendingar sem ekki er í lagi með. Þeir virðast hafa gleymt hverjir aðalskúrkarnir úr yfirstjórn landsmála voru. Hverjir báru pólitíska ábyrgð á glæpnum. Hrópa á réttlæti en vilja undanskilja „sína menn“. Það er einfaldlega ekki hægt.

Lokaatriðið og textinn

Ísland, er í lagi?

Þegar kerfið hérna hrundi, þjóðin hræddist, þjóðin stundi.
Þetta var víst bara bóla, allt í plati, á Tortóla.
Nokkrir vinir fengu að græða, meðan hinir fengu að blæða.
Lánin þeirra látin hverfa, þeirra mínus munum erfa.

Ísland, er í lagi? Ísland, er í lagi? Er í lagi, Ísland?
Ísland, er í lagi? Ísland, er í lagi? Er í lagi, Ísland?

Ísland, er í lagi? Ekki láta þessa peyja
sem að allir hafa selt þig, nánast svelt þig, í svaðið beygja.
Þegar allt er við að hrynja, og hörmungar á dynja,
þá er rétt að rísa á fætur og rifja upp okkar rætur.

Ísland, er í lagi? Ísland, er í lagi? Er í lagi, Ísland?
Ísland, er í lagi? Ísland, er í lagi? Er í lagi, Ísland?

Þú varst svikið, þú varst tekið af skrúðkrimmunum!

Okkar sjóðir voru tæmdir, megi sekir verða dæmdir.
Næstu árin verða erfið, en við endurreisum kerfið.

Ísland, er í lagi? Ísland, er í lagi? o.s.frv.

Ísland, er í lagi? Ekki láta þessa peyja
sem að allir hafa selt þig, nánast svelt þig, í svaðið beygja.
Þegar allt er við að hrynja, og hörmungar á dynja,
þá er rétt að rísa á fætur og rifja upp okkar rætur.

Ísland, er í lagi? Ísland, er í lagi? o.s.frv.

Þú varst svikið, þú varst tekið af skrúðkrimmunum!

Ísland, er í lagi? Ekki láta þessa peyja
sem að allir hafa selt þig, nánast svelt þig, í svaðið beygja.
Þegar allt er við að hrynja, og hörmungar á dynja,
þá er rétt að rísa á fætur og rifja upp okkar rætur.

Ísland, er í lagi? Það lifir enn í glæðum.
Förum áfram út úr ryki, okkar striki, með eld í æðum.
Nú er rétt að herða upp huga, ekki drepast, heldur duga!
Saman verðum við að verjast öllu veseni og berjast – Ísland!

Ísland, er í lagi? Það lifir enn í glæðum.
Förum áfram út úr ryki, okkar striki, með eld í æðum.
Nú er rétt að herða upp huga, ekki drepast, heldur duga!
Saman verðum við að verjast öllu veseni og berjast – Ísland!

Bless 2009!
Ég vona að ég sjái þig aldrei framar!
Gleðilegt nýtt ár Ísland!

Hér er Áramótaskaupið 2008 ef einhvern langar að rifja það upp

Flokkar: Bloggar

Föstudagur 1.1.2010 - 10:48 - FB ummæli ()

Verðskuldaðar viðurkenningar

Margir tilnefna ársins þetta og hitt – sumir í alvöru, aðrir í gríni. Ýmsir koma til greina en auðvitað lendir alltaf einhver á toppnum. Það yljaði mér um hjartarætur að sjá hve verðskuldaðar útnefningarnar voru víða um þessi áramót. Edda Heiðrún kemur fyrst upp í hugann og hún var enda kjörin maður ársins á Bylgjunni og Rás 2.  Sigrún Davíðsdóttir var útnefnd fréttamaður ársins á fréttastofu RÚV og að öllum öðrum ólöstuðum er hún svo sannarlega verðug titilsins. Andrés Jónsson gerði stórskemmtilegan 2009-lista og Magnús Geir Eyjólfsson spyr hvort árið 2009 hafi verið til einskis. Pælið í þessu.

RÚV.is 31. desember 2009

Maður ársins 2009 - Edda Heiðrún Bachman

Maður ársins 2009 - Edda Heiðrún Backman

RÚV.is 31. desember 2009

Fréttamaður ársins 2009 á RÚV - Edda Heiðrún Backman

Fréttamaður ársins 2009 á RÚV - Sigrún Davíðsdóttir

En Frjáls verslun tilnefndi loksins verðuga viðskiptamenn ársins – hina skuldlausu Fjarðarkaupsfjölskyldu sem hafnaði öllum yfirtökugylliboðum. Frábær verslun sem ég hef verslað við síðan 1983. Þangað er gott að koma, starfsfólkið yndislegt og alveg sérlega góður andi í versluninni. Minnir mig alltaf á Melabúðina sem er margfalt minni en líka sjálfstætt fjölskyldufyrirtæki sem gott er að versla við.

RÚV 20. og Kastljós 30. desember 2009

Í lok árs og byrjun annars er ótalmargt sem kemur upp í hugann. Ég vil þakka lesendum síðunnar stuðninginn, samhuginn, skoðanirnar og skammirnar – allt er þetta ómetanlegt og ómissandi. Ég á þá ósk heitasta fyrir nýbyrjað ár að við sjáum réttlæti ná fram að ganga – og ég á ekki við lagatæknilega séð heldur siðferðilega. Ég óska þess líka þjóð minni til handa að hugarfarsbyltingin sem ég vonaðist eftir fyrir ári síðan fari að verða öflugra afl í þjóðfélaginu.

Flokkar: Bloggar

Fimmtudagur 31.12.2009 - 09:25 - FB ummæli ()

Ræða kvöldsins

Ég hef aldrei á minni lífsfæddri ævi haldið ræðu. Fæ hroll og brauðfætur bara við tilhugsunina. Undanfarið rúmt ár hef ég oft verið beðin um að halda ræðu en neitað öllum beiðnum staðfastlega. Ég er í eðli mínu athyglisfælin og má ekki til þess hugsa að athygli beinist að persónu minni þótt ég vilji gjarnan að hún beinist að því sem ég hef fram að færa. Kannski er þetta viss tegund af félagslegri fötlun, ég veit það ekki.

En í gærkvöldi, þegar ég horfði á útsendingu RÚV frá Alþingi, fékk ég einkennilegan fiðring – mig dauðlangaði að stíga í ræðustól á Alþingi og draga ekkert undan. Segja skoðun mína umbúðalausa á öllu mögulegu – ekki bara Icesave. Einn Fésbókarvinur hafði á orði að margir hefðu ekki átt neitt erindi í ræðustól og ég var því innilega sammála. Það er ekki allra að halda góða tölu, svo mikið er víst.

En burtséð frá skoðunum fólks á mönnum og málefninu sem var til umfjöllunar stóð ein ræða upp úr í umræðunni í gærkvöldi. Ég hef áður fjallað um orðsnilld á Alþingi – hér – og met þar innihald ræðu og flutning ræðumanns en felli ekki dóm um málið sem er til umfjöllunar. Hvað sem fólki finnst um manninn eða málefnið og að öðrum ræðum ólöstuðum fannst mér þetta vera ræða kvöldsins. Allt hitt má sjá hér.

Alþingi 30. desember 2009

„Virðulegi forseti,

Það gladdi mig nú eftir bölmóð og botnlausa svartsýni undanfarinna daga og vikna að heyra, að þrátt fyrir allt metur hinn alvitri formaður Framsóknarflokksins stöðuna hérna á þinginu sem heldur betri en var í Sódómu og Gómorru hér á fyrri tíð með því að nú þegar meðal okkar 63 sem hér eru, hefur hann fundið tvo réttláta.

Í hreppsnefnd í afskekktri sveit norður við ysta haf urðu langar umræður um að eitthvað þyrfti að aðhafast vegna bújarðar sem hafði verið yfirgefin haustið áður og var viðskilnaðurinn slæmur. Þessi jörð hafði verið í eigu hreppsins og notuð sem upprekstrarland fjár uns nýr og atkvæðamikill hreppstjóri komst til valda í hreppsnefndinni og vildi selja eigur hreppsfélagsins, þar á meðal þessa jörð sem hentaði vel til fjárbúskapar.

Hreppstjórinn hafði sitt fram í þessu sem öðru og kaupandinn var sérvalinn úr vinahópi hreppstjórans. Hann hét Stórólfur. Nokkur kurr kom upp þegar það spurðist út að ætlunin væri að selja Stórólfi jörðina því að búskaparhættir hans voru umdeildir og hann hafði áður verið dreginn fyrir dóm fyrir óhefðbundna meðferð sína á fé og sérkennilega afstöðu til búreikninga. Hreppstjórinn og fylgismenn hans höfðu sitt fram og Stórólfur tók við búi og gerði einkavin hreppstjórans að ráðsmanni sínum – en láðist með öllu að greiða það lága verð sem upp var sett fyrir jörðina.

Líður svo fram um hríð og verður mönnum tíðrætt um ríkidæmi Stórólfs sem barst mjög á og skorti aldrei skotsilfur, enda gat hann sótt lausafé að vild í skiptum fyrir ástarbréf til hreppstjórans sem nú hafði flutt sig um set og var orðinn sparisjóðsstjóri í sveitinni.

Nú harðnar í ári og menn hafa orð á því að ekki séu lengur tvö höfuð á hverri skepnu á búi Stórólfs, og það sem verra er að nú fara að berast kvartanir úr öðrum sýslum yfir því að fé Stórólfs sé haldið þar til beitar í leyfisleysi og húskarlar hans taki í sína umsjá sauðfjáreign bændafólks í fjarlægum byggðarlögum og setji engar tryggingar fyrir því að þeir geti skilað fénu til baka loðnu og lembdu.

Til að gera langa sögu stutta brestur nú á með harðan vetur og fjárfelli sem kemur harðast niður á þeim bændum sem höfðu trúað því að með mikilli stóriðju og tilheyrandi loftslagshlýnun hefðu búskaparhættir á Íslandi gjörbreyst til hins betra og fé gæti gengið sjálfala árið um kring og þyrfti ekki aðra umhirðu en rúningu og slátrun.

Milli jóla og nýárs þagnar loksins hreppsnefndin málglaða og tekst ferð á hendur að kanna viðskilnað Stórólfs. Það er áliðið kvölds þegar nefndarmenn paufast heim að bænum við daufa týru frá þrettánda tungli þessa óhappaárs. Þegar þeir koma heim að bæjarhúsunum rekur sá sem fyrstur gengur upp skaðræðisóp því að út úr myrkrinu kemur flyksa og vefur hann ísköldum örmum. Á bæjarhlaðinu er háð tvísýn glíma og angistaróp bergmála í klettum út yfir hjarnbreiðuna.

Hluti hreppsnefndarmanna telur þann kost vænstan að leggja hæla á bak og flýja undan draugnum. Þeir skunda til byggða og flytja þau tíðindi að magnaður draugur gangi nú ljósum logum í sveitinni og muni engu eira og eyða allri byggð. Fólk sem heyrir þessar tröllasögur verður eðlilega felmtri slegið og uggandi um framtíðina þegar sveitin sér forystumenn sína og trúnaðarmenn froðufella af æsingi og skjálfa á beinunum af ótta.

Þá víkur sögu aftur heim á hlað. Nýi hreppstjórinn og oddvitinn ákveða að reyna að koma til bjargar. Eftir harðan aðgang kemur í ljós að draugur sá sem hefur vafið örmum sínum að hálsi hreppsnefndarmannsins er engin afturganga heldur er þarna á ferðinni svonefnt föðurland, ullarnærbuxur síðar sem Stórólfur bóndi hefur skilið eftir hangandi á snúru og hafa nú fokið og skálmarnar vafist að hálsi hreppsnefndarmannsins sem er viti sínu fjær af ótta.

Við skulum skiljast hér við þessa þjóðsögu sem við þekkjum öll í einni eða annarri mynd úr þúsund ára sögu okkar. En fyrst er þó ekki úr vegi að draga nokkurn lærdóm af sögunni.

Til dæmis á maður ekki að selja einkavinum sínum eignir almennings. Í annan stað á maður að vanda val á vinum sínum. Til dæmis skulum við hafa að nýjar hreppsnefndir geta ekki kjaftað sig frá því að takast á við vandamál úr fortíðinni – jafnvel þótt þær eigi ekki sök á þeim vanda. Og til dæmis að hreppsnefndir eiga að leysa erfiðleika en ekki magna þá upp og allra síst að hræða saklaust fólk með því að breyta skítugum nærbuxum eftir uppflosnaðan búskussa í mannskæðan draug.

Hvað svo sem líður sagnahefð okkar Íslendinga þá er kominn tími til að slá botn í þetta Icesave-mál að sinni, og ganga óttalaus að því að slá marglofaðri skjaldborg um fjölskyldur og heimili í landinu.“

Flokkar: Bloggar

Miðvikudagur 30.12.2009 - 12:26 - FB ummæli ()

Æst til óeirða á fölskum forsendum

Sjálfstæðisflokkurinn hamast í áróðrinum. Maskínan er á fullu og öfgamennirnir fara hamförum. Morgunblaðið er notað blygðunarlaust í þágu harðlínuaflanna í flokknum, sagan endurskrifuð og tilgangurinn er augljós: Sjálfstæðismenn ætla að komast í stjórn aftur. Komast aftur að kjötkötlunum til að skammta sér og sínum. Til að græða á daginn og grilla á kvöldin í fullkominni valdapólitískri alsælu. Til að halda áfram að einkavinavæða eigur almennings, viðhalda stéttaskiptingunni sem þeir skópu og hindra uppgjör og réttlæti. Til að gæta þess vandlega að ekkert breytist hjá íslensku elítunni og að dómskerfið sé vel mannað. Fólk lætur glepjast og trúir þeim – hvernig sem það er mögulegt – og gengur til liðs við þá á rammfölskum forsendum. Sjálfstæðisflokknum er nefnilega ekkert annt um almenning og heimilin í landinu og hefur ekki verið um áratugaskeið. Það er yfirskin sem notað er til að reyna að fella núverandi stjórn og komast aftur til valda. Höfum það á hreinu.

Krumlur SjálfstæðisflokksinsOg ríkisstjórnarflokkarnir gera þeim afar auðvelt fyrir með því að gera mistök á mistök ofan þrátt fyrir fögur fyrirheit og væntanlega góðan vilja – a.m.k. sumra – og ein stærstu mistök þeirra eru að svara í engu eða sáralitlu lygum, útúrsnúningi og áróðri Sjálfstæðisflokksins. Eins og það er í rauninni auðvelt að benda á gríðarlega ábyrgð Sjálfstæðisflokksins á hruninu og auðvitað Icesave. Auðvelt að rifja upp hvernig þessi flokkur hækkaði skatta á almenning í landinu um leið og hann gerði landið að skattaparadís auðmanna og elítu. Með dyggri aðstoð Framsóknarflokksins, auðvitað. Það var sjálfstæðismönnum þungbært að missa völdin sem þeir höfðu haft svo óralengi og nú gera þeir allt – hversu grimmilegt gagnvart almenningi það er – til að endurheimta þau. Þeir hika ekki við að hræða líftóruna úr fólki, jafnvel að ástæðulausu, ef það þjónar valdasæknum hagsmunum þeirra. Og fólk lætur blekkjast af grímulausum áróðrinum.

Ég gróf upp gamla ræðu Bjarna Benediktssonar, sem á að heita formaður og leiðtogi Sjálfstæðisflokksins en er það kannski bara að nafninu til. Ræðan er úr fyrri umræðu um „Tillögu til þingsályktunar um samninga varðandi ábyrgð ríkissjóðs á innstæðutryggingum vegna innstæðna í útibúum íslenskra viðskiptabanka á Evrópska efnahagssvæðinu.“ Þetta heitir á mannamáli Icesave-samningurinn. En eins og allir vita – eða ættu að vita – voru það sjálfstæðismenn sem fyrstir gerðu drög að þeim samningi. Allar upplýsingar um feril málsins, ræður annarra, nefndarálit o.fl. er hér.

En hlustum á ræðu Bjarna Benediktssonar, þáverandi óbreytts málaliða Sjálfstæðisflokksins, um Icesave 28. nóvember 2008. Ég minni á að þá var hrunstjórnin enn við völd og sjálfstæðismenn, aðalhrunvaldarnir, höfðu ennþá tögl og hagldir í stjórn efnahagsmála þjóðarinnar. Þetta er ansi fróðlegt í ljósi viðsnúnings í málatilbúnaði og nú æsa þeir til óeirða á fölskum forsendum.

Alþingi 28. nóvember 2008

Í Kastljósi á mánudagskvöldið sagði sjálfstæðiskonan Heiðrún Lind Marteinsdóttir að hneyksli ársins 2009 væri „ofbeldið“ sem átti sér stað í ársbyrjun og fegrað væri með nafninu Búsáhaldabylting. Frá upphafi töluðu sjálfstæðismenn um að þessi tjáning almennings og vilji þjóðarinnar væri ofbeldi. Sá málflutningur hefur ekkert breyst eins og orð þessarar ungu konu bera vott um og lýsa afskaplega vel fyrirlitningu sjálfstæðismanna á almenningi í landinu og vilja hans, sem og afneitun á eigin ábyrgð á hruninu og skattahækkunum flokksins á árunum 1995 til 2007.

Kastljós 28. desember 2009

Flokkar: Bloggar

Þriðjudagur 29.12.2009 - 07:32 - FB ummæli ()

Ráðherraábyrgð og réttlætið

Þegar ég sá þessa frétt á Stöð 2 í gærkvöldi…

Stöð 2 – 28. desember 2009

…duttu mér í hug þessi orð Evu Joly frá í sumar:

Stöð 2 – 16. júní 2009

Þetta er hluti af spillingunni og siðleysinu sem verður að taka á í siðferðilegu uppgjöri þjóðarinnar. Ef þetta er svona í lögum þá verður að breyta lögunum – núna.

Flokkar: Bloggar

Mánudagur 28.12.2009 - 21:24 - FB ummæli ()

Spilling og mútur – taka tvö

Í síðustu færslu birti ég tilvitnun í brasilíska mannfræðinginn og hugsuðinn Roberto Da Matta sem hljóðaði svona: „Spilling er aldrei verk eins einstaklings. Hún felur alltaf í sér hóp af fólki sem er tengt saman með einni grundvallarreglu – að skiptast á greiðum. Þessi sameinaða spilling er byggð á hefðbundnu siðgæði, vel treystum vináttuböndum og tækifærum sem gefast. Það verður til þess að glæpir geta átt sér stað án refsingar. Aðaleinkenni hennar er óþolandi hroki.” Svo mörg voru þau orð og auðvelt að taka undir þau.

Við eigum vonandi eftir að upplifa réttlæti. Að þeir sem sekir eru um bankaránin, rán á eigum okkar og þjóðarauðnum verði dregnir til ábyrgðar og þeim refsað eins og sanngjarnt getur talist. En við eigum líka alveg eftir hið bráðnauðsynlega siðferðilega uppgjör og verðum að skilgreina spillingu og hvernig við viljum hafa þjóðfélagið í framtíðinni.

Í ljósi skilgreiningar Da Matta sem vitnað er í hér að ofan munaði engu að ég skellti upp úr þegar ég horfði á fréttir Stöðvar 2 í kvöld og sá þetta sem getur varla kallast annað en dæmigerð spilling. Eru einhverjir að skiptast á greiðum hér og hygla sjálfum sér að auki? Nú bíð ég eftir að sjá viðtöl við mennina þar sem þeir eru krafðir skýringa og verð með hrokamælinn tilbúinn. Hvernig er það annars… getur ríkisstjórnin ekki stöðvað svona siðleysi?

Fréttir Stöðvar 2 – 28. desember 2009

Flokkar: Bloggar

Höfundur



Eldri færslur

Dagatal

júlí 2025
S M Þ M F F L
« des    
 12345
6789101112
13141516171819
20212223242526
2728293031