Sunnudagur 30.04.2017 - 10:46 - FB ummæli ()

Munurinn á 2007 og 2017

Unga parið sem var á krossgötum í síðasta pistli mínum ákvað að reyna að kaupa sambærilega íbúð og þau nú leigja, sem kom skyndilega í sölu í hverfinu þeirra. Uppsett verð var 31,9 milljón – ekki var hægt að bóka skoðun en haldið var opið hús sem níu aðilar sóttu.   Unga parið var ekki í vafa um að slegist yrði um íbúðina þ.a. þau  mættu á opna húsið vel undirbúin með kauptilboð í vasanum upp á 33 milljónir eða rúmri milljón hærra en uppsett verð.   En jafnvel þó að unga parið hefði boðið eins vel og þau gátu og verið svo til í hámarki í greiðslumati bankans var þeim tilkynnt um hádegið daginn eftir að íbúðin væri ekki þeirra – enda hefði hún verið seld öðrum á rúmar 34 milljónir króna.  

Þessi íbúðarkaup rifjuðu upp fyrir mér þegar gamalreyndur fasteignasali leit við í kaffi hjá mér um mitt ár 2007 og var þungt í honum hljóðið.   Hann hafði fyrr um daginn verið að ganga frá nokkrum kaupsamningum og sagði brúnaþungur:  „Ég veit ekki hvað við erum að gera þessum krökkum – það má ekki einu sinni springa dekk hjá þessu unga fólki og þá hrynur spilaborgin.“    Það sem að fasteignasalinn átti við var að ungt fólk þá – eins og í dag – var nauðbeygt að reyna íbúðarkaup á uppsprengdu verði og var boginn spenntur það hátt að ekkert mátti út af bregða til að margra ára greiðsluáætlun færi ekki úr skorðum.  Gamli fasteignasalinn vissi að það var óskhyggjan ein að gera ekki ráð fyrir neinum óvæntum útgjöldum árum saman og einfaldlega ávísun á fjárhagslega erfiðleika fyrr en seinna.

Væntanlega höfum við þó eitthvað lært síðan 2007 – en kannski ekki nóg?   Allavega þurftum við hjón að láta pípara skipta um lekan krana í bílskúrnum okkar um daginn og þegar við spurðum hvort að ekki væri allt brjálað að gera játti piparinn því og sagði að þetta væri orðið alveg eins og  2007.   En klikkti síðan út með þeim orðum að munurinn væri þó einn því að 2007 hefðu allir verið brosandi – nú brosti hins vegar enginn.

Eftir töluverða umhugsun veit ég ekki enn hvernig réttast er að túlka þessi orð.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Margrét Kristmannsdóttir
Framkvæmdastjóri Pfaff.
RSS straumur: RSS straumur