Sunnudagur 11.03.2018 - 11:42 - FB ummæli ()

#metoo í Kauphöllinni

Nú er aðalfundarhrina í viðskiptalífinu þar sem hvert fyrirtækið á fætur öðru kynnir afkomu síðastliðins árs og velur sér stjórnendur til að stýra félögunum inn í framtíðina.

Peningum fylgja völd og Kjarninn hefur birt ítarlega greiningu á því hverjir stjórna peningum hér á landi og kemur í ljós að 91% af þeim sem stýra peningum eru karlar. Í skráðum félögum eru lífeyrissjóðirnir með yfirburðarstöðu og halda beint eða óbeint á um helmingi af skráðum hlutabréfum. Það er á allra vitorði að engar meiriháttar ákvarðanir eru teknar í óþökk lífeyrissjóðanna.

Þetta er rifjað upp og þeirri spurningu varpað fram hvort að stjórnendur lífeyrissjóðanna taki með öðrum hætti á konum en körlum sem stýra þeim félögum sem þeir eru með ráðandi hlut í.

Nýlega náði Katrín Olga Jóhannesdóttir ekki endurkjöri í stjórn Icelandair og rifjaði Morgunblaðið upp í þvi samhengi þá óánægju lífeyrissjóðanna þegar Katrín Olga seldi bréf sín í Icelandair haustið 2016 upp á rúmar 9 milljónir. Í kjölfarið var þó nokkuð skrifað um þessa sölu Katrínar Olgu og vakti það furðu margra að sala á þessum litla hlut í félaginu skyldi valda þessu fjaðrafoki. Var m.a. talað um dómgreindarleysi – að salan hafi hleypt illu blóði í fjárfesta og voru jafnvel ritaðar greinar um ábyrgð stjórnarmanna og innherja og tímapunktur sölunnar sagður einkar viðkvæmur.

Lífeyrissjóðum landsins er heimilt að hafa skoðun á því hvenær eða hvort þeir telji yfir höfuð heppilegt að stjórnendur í skráðum fyrirtækjum selji hluti sína. Hins vegar ættu viðbrögð þeirra við sölu stjórnenda að vera á sama veg í hvert skipti sem sala fer fram óháð því hver selur. Sú hefur hins vegar ekki verið raunin.

Á undanförnum misserum hafa margir stjórnendur í félögum þar sem lífeyrissjóðirnir eiga ráðandi hlut selt hlutabréf án þess að þær sölur hafi vakið einhverja sérstaka óánægju. Þessar sölu hafa varla ratað í blöðin og ef þær hafa gert það hefur það verið án allra fúkyrða.

Dæmi um sölur stjórnenda eru:

2015: Stjórnarformaður Nýherja selur hlutabréf fyrir 130 milljónir
2016: Stjórnarmaður í Marel selur fyrir 124 milljónir
2016: Helstu stjórnendur Haga selja fyrir hundruð millljóna
2017: Helstu stjórnendur og stjórnarmenn N1 selja fyrir hundruð milljóna
2017: Stjórnarformaður TM selur fyrir 172 milljónir

Þegar viðbrögð við sölu Katrínar Olgu eru höfð til hliðsjónar við þessum milljóna viðskiptum vekur furðu að lífeyrissjóðirnir hafi þagað þunnu hljóði þegar allar þessar sölu gengu í gegn. Eða vekur það eingöngu reiði þegar kona selur fyrir 9 milljónir sem er örhlutur í samanburði við upphæð strákanna?

Allavega sáu lífeyrissjóðirnir ekki ástæðu til að tryggja Katrínu Olgu áframhaldandi setu í stjórn Icelandair og verður áhugavert að fylgjast með hvort að sala strákanna muni hafa áhrif á stöðu þeirra enda hljótum við sjóðsfélagar að gera þá kröfu að lífeyrissjóðirnir séu samkvæmir sjálfum sér í sínum störfum.

Flokkar: Óflokkað

«

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Margrét Kristmannsdóttir
Framkvæmdastjóri Pfaff.
RSS straumur: RSS straumur