Mánudagur 26.11.2012 - 10:26 - 9 ummæli

Stafrænn dauði – nei, takk

Við búum enn að árangri tæknibyltingar sem hófst á 15. öld þegar prentbækur leystu af hólmi handritin sem helsta dreifingarleið upplýsinga um heimsbyggðina – prentbækur, rit og blöð þjóna okkur ennþá sex öldum síðar og verða líklega alltaf til. Á Íslandi hófst prentöld seinna en á meginlandinu – oftast er miðað við Nýjatestamenti Odds Gottskálkssonar 1540, en helsta miðstöð eigna, áhrifa og valda innanlands, lúterska kirkjan, tók prentlistinni strax tveim höndum – og lét prenta allan sinn boðskap á íslensku. Hinar miklu biblíur Guðbrands, Þorláks og Steins, grallarinn og önnur sálmakver, postillur og leiðbeiningar aðrar um kristilega lífsleikni – allt á íslensku. Þegar veraldlegir textar fóru að prentast þótti sjálfsagt að þeir væru líka á íslensku, þótt öll völd væru í hendi þýskdanskra konunga sem ekki þekktu þetta skrýtna tungumál nema af afspurn, hvað þá embættismennirnir í kansellíi og rentukammeri.

Þarna munaði miklu fyrir menningu Íslendinga, menntir þeirra og sjálfsmynd. Á svipuðu méli lagðist þjóðtungan af í Noregi sem opinbert samskiptamál kirkju og stjórnkerfis. Biblía Norðmanna var ekki á norsku heldur sú sama og kóngurinn lét prenta í Kaupinhafn. Eins um Færeyjar, þar var talað við Guð almáttugan á dönsku fram undir miðja 20. öld. Þessar tungur „misstu af“ prentbyltingunni og hafa ekki beðið þess bætur. Miklu verri útreið fengu ýmsar aðrar tungur og málsamfélög sunnar í álfunni – sem sumar hverjar eru nú nánast útdauðar. Þær dóu fyrst „prentlegum dauða“ – misstu svo smásaman tökin á fleiri sviðum og trénuðust að lokum upp sem einkamál fyrir þjóðlegan fróðleik, fólk á elliheimilum og nokkra skrýtna kalla – svipað og íslenskan núna í Vesturheimi.

Önnur bylting

Í vikunni fyrir dag íslenskrar tungu núna um daginn, fæðingardag Jónasar 16. nóvember, kynnti Íslensk málnefnd ályktun sína um stöðu tungunnar. Þar ítreka sérfræðingar og áhugamenn að íslenskan er öflugt tungumál með sterka stöðu í landinu. En vara um leið við hættum framundan.

Á okkar tímum stendur yfir tæknileg menningarbylting sem fullkomlega jafnast á við prentbyltinguna fyrir sex öldum – tölvurnar, netið, upplýsingatæknin. Hingað til hefur íslenskan bjargað sér nokkuð vel á þessum nýtæknitímum. Það má þakka metnaði almennings og stjórnvalda, og ekki síst íslenskra frumherja í tölvuheimum. Á hinn bóginn hefur það blasað við í eina tvo eða þrjá áratugi að við yrðum að leggja á okkur vinnu og fé við að halda stöðunni þegar lengra kæmi fram á tölvuöld.

Hingað til hefur höndin slegið inn stafi eða snúið snerlum eða smellt á einhvers konar takka í þessum stafrænu vélum, í tölvunum okkar, á borði eða í hendi, á spjaldi, í síma, í bílum og heimilistækjum, en nú er stjórntækið að verða tungumálið sjálft, bæði skrifað og ekki síður talað. Þetta er ekki framtíðarmúsík, engin vísindaskáldsaga. Þetta er að verða og er orðið í öðrum málsamfélögum en okkar, að menn tala við tölvurnar sínar á mannlegu tungumáli – ensku, kínversku, frönsku – og þær svara á sama máli.

Í 21 máls áhættuhópi

Í nýútkominni skýrslu frá Evrópska samstarfshópnum Meta-neti er gerð grein fyrir því hvernig tungumálin og málsamfélögin í Evrópu eru undir þessa þróun búin. Þar kemur í ljós að íslenska er í þeim hópi 21 tungumáls sem stendur höllum fæti. Þau tungumál eru vanbúin að bregðast við þessari þróun og eiga á hættu það sem í skýrslunni er kallaður „stafrænn dauði“. Það er ekki alger dauði, en tungurnar mundu tapa einu mikilvægasta notkunarsviði sínu eða umdæmi –stöðunni á netinu og í tölvutækjunum sem við notum á hverjum degi: Síminn, spjöldin, bílatölvurnar, heimilistækin. Málið verður svo áfram til í almennu tali og ritum og ræðu, en gefur líklega eftir smátt og smátt, og heldur að lokum ekki velli nema í þjóðlegum fróðleik og inni á elliheimilunum.

Við erum ósköp blönk þessi árin – en við höfum ekki efni á að glutra íslenskunni úr höndum okkar, að flytja málið ekki áfram frá hinum horfnu kynslóðum til þeirra sem taka við landinu eftir okkar dag. Þessvegna þarf að hefja sem fyrst svipað máltækniátak og Björn Bjarnason kom af stað með góðum mönnum á síðasta áratug, en varð því miður endasleppt.

Um þetta ræddum við á alþingi um daginn, og þar talaði Katrín Jakobsdóttir menntamálaráðherra um að helga einhvern hluta af rannsóknarstyrkjum því verkefni að tryggja íslenskunni leið inn í næsta áfanga framfara og umbreytinga upplýsingatækninnar.

Við hin getum líka hjálpað til. Með því að gera kröfur fyrir hönd íslenskunnar og fyrir hönd barna okkar og barnabarna sem við viljum að njóti íslenskunnar í leik og starfi næstu áratugina og aldir. Íslenskt viðmót í sem flestum tölvum í skólum og öðrum vinnustöðum. Símar og spjaldtölvur sem kunna íslensku. Íslenska notuð í leiðbeiningum um tölvubúnað og nettækni, á Fésbók og í Tvitti. Ekki fæl, öppdeit og dánlód heldur skrá, uppfæra, hala niður. Við lifum á alþjóðatímum, sem betur fer, en samt er ennþá í fullu gildi auglýsingin hans Stefáns Gunnlaugssonar bæjarfógeta 1848: Íslenska tungu í íslenskum kaupstað, hvað allir athugi.

 

(Líka birt í DV 26. nóvember)

 

Flokkar: Menntir og menning
Efnisorð:

«
»

Ummæli (9)

  • Íslenska.

    Já, takk.

  • Takk Mörður!

    Þessi grein varð til þess að ég lét verða að því að kaupa mér Grallarann. Fann eintak hjá Braga Kristjóns.

    Íslenska tungan er í raun forsenda fyrir því að Ísland haldist í byggð. Þó íslendingur búi langdvölum erlendis þá togar alltaf í hann þessi þráður að tala þá tungu sem hjartanu er næst.

  • „Hingað til hefur höndin slegið inn stafi eða snúið snerlum eða smellt á einhvers konar takka í þessum stafrænu vélum, í tölvunum okkar, á borði eða í hendi, á spjaldi, í síma, í bílum og heimilistækjum, en nú er stjórntækið að verða tungumálið sjálft, bæði skrifað og ekki síður talað. Þetta er ekki framtíðarmúsík, engin vísindaskáldsaga. Þetta er að verða og er orðið í öðrum málsamfélögum en okkar, að menn tala við tölvurnar sínar á mannlegu tungumáli – ensku, kínversku, frönsku – og þær svara á sama máli.“
    Annað hvort eru menn ekki að fylgjast með eða hér er um misskilning að ræða. Íslenskan hefur einmitt verið í forgrunni við þróun talgerfla alls konar. Ég get stýrt tölvunni minni og símanum á íslensku. mbl.is bauð um daginn upp á að lesa fréttir á íslensku og svo má áfram telja. íslensk tölvuorðabók og samheitaorðabók á netinu. Eina sem ógnar tungunni er minnkandi bókalestur unga fólksins. þannig glatast orðaforðinn og málkenndin.

  • Mörður Árnason

    Jóhannes – Sannarlega gott að heyra að þú skulir vera ánægður með stöðu íslensku á tölvuöld. Sem betur fer er þar ýmislegt að gerast, og í síðustu viku var tveimur verkefnum veitt viðurkenning, talgervli fyrir blinda og talgreiningu í samvinnu við Google. Í ljósi tækniþróunar er þó full ástæða til að bretta upp ermar – og ekkert ofsagt í mínum pistli. Fróðlegt að skoða ályktun Íslenskrar málnefndar frá því um daginn: http://www.arnastofnun.is/solofile/1016400
    — og ekki síður Metanets-skýrsluna sem þar er vitnað til: http://www.meta-net.eu/whitepapers/volumes/icelandic

  • Jóhann Péturs

    Hvað kallast það að vera með miðstýrt kosningakerfi eða vera svo einfaldur að nota sama notendanafn og lykilorð inn á eigin reikning? Kallast það ekki á góðri íslensku að vera heimskur? Þú átt kannski betra orð yfir það? Þú kannski gleðst yfir því að vegna heimskunnar, þá er nú flokksskráin aðgengileg öllum á netinu í þínu boði?

  • Sæll Mörður, auðvitað eigum við að stuðla að vernd tungunnar en það gerum við ekki í gegnum notendaviðmót stýrikerfa eða annars hugbúnaðar. Og það er rangt sem kemur fram í skýrslunni að ekki sé til leiðréttingarforrit fyrir íslenzku. Það er til og kemur með Stóru Orðabókinni frá Fast Pro. Vandinn er að fá netverja til að nota þau leiðréttingarforrit sem til boða eru. Hvort heldur Púkann eða Snöru.is og vef Árnastofnunar. Við leit kemur í ljós mikið safn alls konar hjálpartækja sem þeir sem skrifa íslensku á stafrænu formi geta nýtt sér.http://www.mr.is/~aesa/ordabokatenglar.htm En eigi tungan að þróast og lifa af þetta menningarsnauða samskiptaform fésbókar og twitter, þá þarf að tala við unglingana og fá þá til að tala við okkur. Ég sé að tengslin við atvinnusöguna sem var varðveitt í tungunni eru að rofna. Unglingarnir skilja ekki orðtök og málshætti og nota þar af leiðandi fábrotnara mál. Og stóriðjan og ferðaþjónustan hafa ekki leitt af sér nýyrði eða orðtök enn sem komið er. Kannski er bara mannlífið snauðara í dag og við þurfum ekki á auðgun tungunnar að halda. Það er heldur ekkert sjálfgefið að tungumál 330 þúsund manna þjóðar lifi tækniöldina af. Og alls ekki ef við verðum innlimuð í ESB 🙂

  • Haltu baráttunni áfram Mörður. Þannig styrkist vonin um áframhaldandi íslensku.

  • Kristinn Halldór Einarsson

    Sæll Mörður og takk fyrri þessa tímabæru grein. Í henni er fátt ofsagt. Það er hinsvegar svo að ýmislegt er lengra á veg komið en margir gera sér grein fyrir. Þannig er í dag hægt að láta síma og spjaldtölvur sem keyra á Android stýrikerfinu tala íslensku og það er hægt að láta nýja íslenska talgervillinn lesa texta á rafrænu formi, hvort sem er textaskjöl eða efni vefsíðna. Að þessu leiti stendur t.d. Android tölvubúnaður Apple búnaðinum mun framar.

    Einn af þeim veikleikum sem kom í ljós þegar við vorum að skoða fyrri talgervilsverkfni fyrir islensku var að verkefnin voru alls ekki hugsuð sem sjálfbær. Enginn bar ábyrgð á á þeim og því döguðu fyrri talgervlar uppi þar sem þeir voru ekki þróaðir í takt við auknar gæðakröfur og þróun tölvutækninnar og tilkomu nýrra stýrikerfa.

    Talgervlaverkefni Blindrafélagsins (http://www.blind.is/verkefni/talgervlaverkefnid/) er hinsvegar ætlað að verða sjálfbært þannig að við lendum ekki í þeirri stöðu eftir 5 ár að vera með úreltan talgervil og þurfa að lárta smíða nýjan frá grunni. Það kostar nefnilega jafnmikið að smíða máltækniverkfæri eins og talgervil fyrir tungumál sem 300 þúsund eða 30 milljónir tala. Munurinn er bara sá að markaðurinn greiðir einungis kostnað fyrir talgervla í tungumálum sem margir tala.

    Til að það takist að gera talgervilsverkefni Blindrafélagsins sjálfbært þá þurfa, stofnanir og fyrirtæki að nýta sér talgervilinn, t.d. með uppsetningu veflesara á vefsíður sínar, og greiða fyrir notkun hans sanngjarnt gjald. Einungis þannig er hægt að tryggja sjálfbærni verkefnisins. Alþingi Íslendinga gætui farið á undan og sýnt gott fordæmi í þessum málum og sett upp veflesara á síðu Alþingis. Þannig mætti láta athafnir fylgja orðum.

    Kristinn Halldór Einarsson
    formaður Blindrafélagsins

  • Heyr, Kristinn Halldór. Skal athuga um þetta með veflesarann. Þingræður frá síðustu árum má hlusta á en ekki eldra efni og engin skjöl. // Mörður

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af sex og fimm? Svar:

Höfundur

Mörður Árnason
sjálfstætt-starfandi íslenskufræðingur og stjórnmálamaður. Netfang: mordurarna@gmail.com. Vinir velkomnir á Fb.:
www.facebook.com/mordurarna.
RSS straumur: RSS straumur