Föstudagur 11.07.2014 - 13:13 - FB ummæli ()

Spilling og skortur á gegnsæi í ESB

Dalligate er nafn á máli tengdu John Dalli fyrrum heilbrigðisframkvæmdastjóra ESB sem varð að segja af sér fyrir tveimur árum vegna ásakana um að hann hefði hitt hagsmunagæslumenn tóbaksiðnaðar á óskipulögðum fundum. Fulltrúi hans er einnig sakaður um að hafa óskað eftir fjárframlagi frá sænskum tóbaksframleiðanda gegn því að Dalli myndi stuðla að því að tóbakslögum ESB yrði breytt þannig að almennt bann gegn notkun á munntóbaki, þ.e. svokölluðu snusi Svíanna, yrði afnumið.

Dalli er maltverskur, kristilegur demókrati og fyrrum þingmaður og ráðherra á Möltu til margra ára (1987-2004), en hann var meðal annars fjármálaráðherra lengst af á árunum 1992 til 2004. Eftir það tapaði hann kjöri sem formaður flokksins (sem reyndar er kallaður Þjóðernissinnaflokkur eða Nationalist Party) og var um það leyti sakaður um fjárglæfra og spillingu. Ekkert athugavert fannst þó gegn Dalli í lögreglurannsókn um það mál á Möltu en sá sem helst bar fram ásakanir á hendur honum fékk hins vegar þungan dóm og fangelsisvist.

Ósæmilegir fundir og meint tilraun til mútuþægni

Dalli varð framkvæmdastjóri yfir heilbrigðismálum hjá ESB í ársbyrjun 2010 og hafði því með endurskoðun á löggjöf um tóbaksmál að gera. Hann þykir hafa farið óhefðbundnar leiðir ef borið er saman við opinberlega viðurkenndar aðferðir í ESB og í nokkur skipti verið tengdur við það sem litið er á sem óeðlileg tengsl stjórnmálamanna við fjármálamenn. Þannig kom í ljós að Dalli hafði hitt  meinta hagsmunagæslumenn tveggja stórra tóbaksfyrirtækja án þess að þeir fundir væru formlega á vegum stofnunar hans í Brussel og án þess að fundirnir væru skráðir opinberlega. Það fundarhald var því brot á reglum Alþjóðaheilbrigðisstofnunarinnar, WHO, sem ESB hefur tekið upp, um gagnsæi og skráningu funda með fulltrúum hagsmunaafla. Auk þess var Dalli sakaður um að hafa vitað af tilraun aðstoðarmanns síns, fyrrum atkvæðasmala, til að koma á mútugreiðslum, án þess að bregðast við. Stofnun ESB gegn fjármálaspillingu, OLAF, gekk í að rannsaka málið, en áður en niðurstaða þeirrar rannsóknar lá opinberlega fyrir kallaði Jose Barroso, forseti framkvæmdastjórnar ESB, Dalli á teppið haustið 2012, fór yfir málið með honum og sagði honum síðan að afhenda uppsagnarbeiðni innan 30 mínútna því annars yrði hann rekinn. Barroso taldi sem sagt vissuna um fundina með hagsmunapoturunum næga ástæðu til uppsagnar.

Dalli krefst himinhárra skaðabóta

Dalli var ekki skemmt við þetta og ákvað að höfða mál fyrir dómstóli ESB (Europan Court of Justice) gegn framkvæmdastjórn ESB fyrir tilhæfulausan brottrekstur. Sú málshöfðum var til umfjöllunar í dómstólnum í vikunni, en Dalli krefst skaðabóta að fjárhæð 1,9 milljónir evra (um 300 milljónir króna). Kröfur hans eru þó smáræði í samanburði við meinta tilraun til mútuþægni, en þar var um að ræða 60 milljónir evra eða sem svarar um 10 milljörðum króna. Þrátt fyrir langar vitnaleiðslur er ýmislegt óljóst í málinu og óvíst hvenær niðurstaða fæst varðandi kröfu Dalli. Barroso segist hafa verið að bregðast við sem pólitískur verkstjóri og að Dalli hafi verið látinn axla pólitíska ábyrgð með því að segja af sér eftir að upp komst um fundi hans og undirmanna hans með fulltrúum tóbaksiðnaðarins.

Fundað á skýlunni við laugarbakkann

Fram hefur komið að Dalli hitti fulltrúa tóbaksfyrirtækisins Philip Morris á sundskýlunni á sumarleyfiseyjunni Gozo. Þær kringumstæður telur Dalli til marks um hversu léttvægur sá fundur hafi verið. Enn fremur hitti atkvæðasmali Dallis  fulltrúa Swedish Match og mun hann hafa komið á framfæri hugmyndum um að Dalli væri tilbúinn að þiggja greiðslu að fjárhæð 60 milljónir evra gegn því að breyta löggjöf ESB um tóbaksmál þannig að banni gegn almennri sölu á sænsku munntóbaki annars staðar í Evrópu en í Svíþjóð yrði aflétt. Þetta er sagt koma fram í skýrslu frá áðurnefndri stofnun ESB, OLAF.

Sem kunnugt er fengu Svíar undanþágu frá banni ESB við sölu á munntóbaki þegar þeir gengu í ESB. Margir telja að það hafi riðið baggamuninn um að Svíar samþykktu aðildina. Samkvæmt OLAF var Dalli kunnugt um fund atkvæðasmalans og erindi hans, þ.e. tilraun til mútuþægni, án þess að hafa gert nokkuð í málinu. Reyndar er því einnig haldið fram að OLAF hafi komist að þeirri niðurstöðu að aðgerðirnar gegn Dalli hafi ekki að öllu leyti verið réttmætar. Því fer tvennum sögum af því hvað skýrslur OLAF segja í raun og Dalli fékk ekki að skoða þær áður en Barroso stillti honum upp við vegg og beitti valdi sínu til að fá hann til að segja af sér.

Lögreglustjóri fann ekkert athugavert  og var látinn fjúka

Þegar rannsókn hófst á vegum OLAF var óskað aðstoðar lögregluyfirvalda á Möltu. Þáverandi lögreglustjóri sem fór í að rannsaka málið á Möltu sagði ekkert ámælisvert hafa komið fram gegn Dalli í þeirri rannsókn. Reyndar var lögreglustjórinn færður til í starfi nokkru síðar eftir að fram komu ásakanir frá OLAF um að hann hefði ekki brugðist við óskum starfsmanna OLAF í þremur atriðum. Yfirvöld á Möltu hafa þó ekki viljað staðfesta að tilfærsla á lögreglustjóranum tengist rannsókn á Dalli-málinu þótt tengslin virðast vera nokkuð augljós við lestur fjölmiðla. Réttarrannsókn í málinu virðist því hafa runnið út í sandinn. Eftir stendur hin pólitíska ábyrgð bæði Dallis og Barrosos. Félagar Dallis telja ekkert athugavert við að hann hafi hitt hagsmunagæslumenn tóbaksiðnaðarins óopinberlega. Reglur WHO og ESB telja það hins vegar vítavert.

Óeðlilegt vald framkvæmdastjóra ESB og skortur á gagnsæi?

Þetta mál hlýtur að vekja upp ýmsar spurningar um stjórnsýslu í kringum framkvæmdastjórn ESB. Forseti framkvæmdastjórnarinnar tekur sér nánast alræðisvald yfir öðrum framkvæmdastjórum, er sakaður um að hafa haft óeðlileg áhrif á rannsókn meintra efnahagsbrota og tekur yfir stjórn á starfsliði burtrekinna framkvæmdastjóra. Þannig virðist Barroso hafa getað teflt ýmsu starfsliði fram til þess að hafa áhrif á gang rannsóknar í málinu. Rannsóknarniðurstöðum virðist hins vegarvera stungið að einhverju leyti undir stól. Það hlýtur að vera krafa í lýðræðissamfélagi að opinberar skýrslur sem hafa jafn afdrifaríkar afleiðingar og umrædd skýrslugerð OLAF sé birt svo fjölmiðlar og aðrir geti lagt sjálfstætt mat á atburðarásina. Barroso kýs hins vegar að líta svo á að hér sé um pólitískar skyldur og ábyrgð að ræða og því þurfi ekki að birta ítarleg gögn um málið.

Vill fangelsa Barroso og fleiri

Dalli er þó alls ekki af baki dottinn og í samtali við fjölmiðla í vikunni, eftir að málið hafði verið rætt á maltverska þinginu, sagði hann að ef Barroso kæmi í heimsókn til Möltu ætti að stinga honum í svartholið. Reyndar er hann einnig sagður hafa komið þeim boðum til yfirmanns efnahagsbrotadeildar ESB að sá yrði einnig handtekinn og fangelsaður ef hann kæmi til  Möltu. Það er út af fyrir sig áhugavert að stjórnmálamaður skuli telja sig hafa heimild til að senda frá sér skilaboð af þessu tagi.

Dalligate er stórmál á Möltu og fjalla meðal annars enskumælandi miðlarnir Times of Malta og Malta Independent ítarlega og reglulega um málið (sjá neðanmáls). Maltverjar samþykktu á sínum tíma með naumum meirihluta að gerast aðilar að ESB. Ráðandi öfl vilja helst vera tekin með sem fullgildur aðili í því samstarfi. Þær spurningar sem vofa yfir þeirri umræðu sem átt hefur sér stað um málið í maltverskum fjölmiðlum er annars vegar sú hvort Brusselvaldið sé að níðast á einum valdaminnsta aðilanum með ógagnsæjum aðgerðum og hins vegar hvort Malta hafi verið tilbúin fyrir þær alþjóðlegu reglur og viðmiðanir sem óskað er eftir að aðildarlönd undirgangist. Sjálfsagt verður nokkur bið á því að öllum spurningum um málið verði svarað.

 

Samantekt: Ritstjórn Nei við ESB.

Sjá ýmsar greinar um efnið á þessum netmiðlum:

Malta Independent, m.a. hér: http://www.independent.com.mt/articles/2014-07-10/news/john-dalli-accused-bs-of-being-part-of-fraud-committed-against-him-5786828801/

Times of Malta, m.a. hér:

http://www.timesofmalta.com/articles/view/20140710/local/dalli-barroso-should-be-arrested-if-he-came-to-malta.527145

 

Flokkar: Óflokkað

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Nei við ESB - vefrit
Þau samtök sem standa að Nei við ESB eru Heimssýn, hreyfing sjálfstæðissinna í Evrópumálum, Ísafold, félag ungs fólks gegn ESB-aðild, Herjan, félag stúdenta í H.Í. gegn aðild að ESB, Vinstrivaktin gegn ESB og Þjóðráð.

Slóðin að vefnum Nei við ESB er www.neiesb.is

Ábyrgðarmaður er Jón Bjarnason.
RSS straumur: RSS straumur