Laugardagur 29.11.2014 - 11:20 - FB ummæli ()

Stuðlar ESB að friði?

euramyÞví er haldið fram að Evrópusambandið stuðli að friði. Fátt er fjarri sanni. Vissulega var friður í Evrópu forsenda þess að ESB varð til. Sambandið hefur hins vegar ekki tryggt frið í Evrópu. Þvert á móti. ESB hefur stuðlað að ófriði, ekki aðeins í Evrópu heldur einnig í fleiri heimsálfum, bæði í Afríku og Asíu. Vörnin fyrir evruna hefur leitt til aukins atvinnuleysis, fátæktar og félagslegrar mismununar í álfunni sem leitt hefur til spennu og dregið úr samstöðu meðal íbúanna.

Margir ráku upp stór augu þegar ESB hlaut friðarverðlaun Nóbels árið 2012. Hagsmunagæsla og klaufaskapur ESB áttu sinn þátt í að kveikja það bál sem brann í stríðinu á Balkanskaga undir lok síðustu aldar. Þjóðverjar knúðu það í gegn að ESB-ríkin myndu viðurkenna Króatíu jafnvel þótt landið uppfyllti ekki kröfur sem gerðar voru til ríkja um stöðu minnihlutahópa. Afleiðingin var m.a. ófriðurinn Bosníu og Hersegóvínu. Klaufaskapur ESB á viðkvæmum tímum þegar friðarumleitanir stóðu fyrir dyrum á Sri Lanka urðu þess valdandi að ekkert varð af frekari viðræðum, friðurinn varð úti og stjórnarherinn réðst af hörku gegn Tamíl Tígrunum og stuðningsmönnum þeirra og á bilinu 40-70 þúsund manns létu lífið. ESB lýsti því yfir á viðkvæmum tíma í friðarferlinu að Tamíl Tígar væru hryðjuverkasamtök. Stjórnvöld á eyjunni notuðu þá yfirlýsingu til þess að murka lífið úr liðsmönnum Tígranna og stuðningsmönnum þeirra. Á Sri Lanka unnu Íslendingar að því að koma á friði ásamt Norðmönnum og fleirum en framferði ESB gerði friðarframlag þeirra að litlu.

Í vesturhluta Afríku hefur ESB leyft sér að gera fiskveiðisamning við eitt af ríkjum sem á í átökum við íbúa nærliggjandi svæða. Þannig hefur ESB gert samning við Marokkó um fiskveiðar á svæðum sem ná langt út fyrir löglegt yfirráðasvæði Marokkó. Þar með gróf ESB undan viðleitni til að tryggja frið á svæðinu. Þetta var meðal þess sem fram kom í erindi Lave K.Broch, sem er varaþingmaður á þingi ESB og fulltrúi dönsku þjóðarhreyfingarinnar gegn ESB-aðild, á hátíðarfundi samtakanna Nei til EU í Noregi í gær í tilefni af því að 200 ár eru liðin frá því að Norðmenn fengu stjórnarskrá og 20 ár frá því að Norðmenn höfnuðu síðast aðild að ESB í þjóðaratkvæðagreiðslu.

Ófaglegt og hagsmunaknúið framferði ESB í Úkraínu er sérstakur kafli út af fyrir sig. Kohl, fyrrum kanslari Þýskalands, er meðal þeirra sem telja að ESB hafi ekki fetað rétta braut þar.

ESB krefst þess að aðildarríkin séu tilbúin til að taka þátt í hernaðaruppbyggingu. Af þessum sökum þurfti meðal annars að breyta lögum í Finnlandi sem meinuðu Finnum að taka þátt í hernaðarbrölti utan Finnlands.

Friður er hins vegar annað og meira en að koma í veg fyrir vopnuð átök herja. ESB hefur í gegnum uppbyggingu og stuðning við evruna leitt yfir stóran hluta Evrópubúa atvinnuleysi og fátækt með stórækum niðurskurði í opinberum útgjöldum sem hefur ekki síst bitnað á konum og ungu fólki. Nú er staðan þannig samkvæmt nýlegri könnun Eurostat, Hagstofu ESB, að 120 milljónir Evrópubúa eiga á hættu að lenda í fátækt og félagslegri útskúfun. Sú könnun leiddi í ljós að hættan á slíku er hlutfallslega einna minnst á Íslandi.

ESB hefur því á mörgum svæðum og sviðum spillt friði fremur en að stuðla að honum.

 

 

 

Flokkar: Bloggar · Óflokkað · Stjórnmál og samfélag

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Nei við ESB - vefrit
Þau samtök sem standa að Nei við ESB eru Heimssýn, hreyfing sjálfstæðissinna í Evrópumálum, Ísafold, félag ungs fólks gegn ESB-aðild, Herjan, félag stúdenta í H.Í. gegn aðild að ESB, Vinstrivaktin gegn ESB og Þjóðráð.

Slóðin að vefnum Nei við ESB er www.neiesb.is

Ábyrgðarmaður er Jón Bjarnason.
RSS straumur: RSS straumur