Miðvikudagur 03.02.2016 - 12:18 - FB ummæli ()

Prófessor varar við útbreiðslu fjölónæmra baktería með ESB-reglum

professorKarlKarl G. Kristinsson, prófessor í sýklafræði við Háskóla Íslands og yfirlæknir á sýklafræðideild Landspítalans, segist óttast aukna útbreiðslu fjölónæmra baktería verði innflutningsbann á hráum og ófrosnum kjötvörum afnumið. Þessi ummæli viðhafði hann í kjölfarið á nýju ráðgefandi áliti EFTA-dómstólsins sem segir að innflutningsbann íslenskra stjórnvalda á hráu og ófrosnu kjöti brjóti í bága við EES-samninginn.

Svo segir í frétt Ríkisútvarpsins:

 

Í löndum þar sem fjölónæmar bakteríur eru algengari, sé dánartíðni af völdum slíkra baktería hærri og horfur sjúklinga verri.

Samkvæmt nýju ráðgefandi áliti EFTA-dómstólsins brýtur innflutningsbann íslenskra stjórnvalda á hráu ófrosnu kjöti í bága við EES-samninginn. Íslensk stjórnvöld íhuga nú hvernig bregðast skuli við stöðunni sem upp er komin.

Karl segir að íslensk kjötframleiðsla sé í sérflokki hvað varðar litla notkun sýklalyfja, og óttast að fjölónæmum bakteríum sem berast milli manna og dýra, fjölgi verði innflutningsbannið afnumið.

„Í löndum þar sem ónæmi er algengara en á Íslandi, eru sýkingar af völdum þessara fjölónæmu baktería algengari og sýkingar af völdum fjölónæmra baktería hafa hærri dánartíðni og horfur sjúklinga eru marktækt verri heldur en ef þeir væru að sýkjast af næmum bakteríum,“ segir Karl í samtali við fréttastofu. „Fyrir utan það að í sumum tilfellum getur verið mjög erfitt að uppræta sýkingar af völdum baktería sem eru ónæmar fyrir nánast öllum sýklalyfjum.“

Hættan er raunveruleg

Hann segir hættuna vissulega til staðar í dag, til að mynda vegna innflutts grænmetis og ferðamanna. Mjög grannt sé fylgst með því að þeir beri ekki með sér fjölónæmar bakteríur inn á sjúkrahús landsins. Þá hafi fjölónæmar bakteríur nú þegar borist til landsins, sem tekist hafi að hefta útbreiðslu á. Hann segir ónæmi baktería mismikið eftir löndum, áhættan sé langmest í Asíu og meiri í Suður-Evrópu en í Norður-Evrópu. Ísland sé hins vegar með eitt lægsta ónæmishlutfall í álfunni, þó víðar væri leitað.

„Því miður þá er mín skoðun sú að þessi áhætta sé raunveruleg og að þetta muni gerast. Við viljum bara að það gerist hægt og seint, þannig að þegar það gerist þá verði komin ný sýklalyf,“ segir Karl G. Kristinsson, prófessor í sýklafræði.

 

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Nei við ESB - vefrit
Þau samtök sem standa að Nei við ESB eru Heimssýn, hreyfing sjálfstæðissinna í Evrópumálum, Ísafold, félag ungs fólks gegn ESB-aðild, Herjan, félag stúdenta í H.Í. gegn aðild að ESB, Vinstrivaktin gegn ESB og Þjóðráð.

Slóðin að vefnum Nei við ESB er www.neiesb.is

Ábyrgðarmaður er Jón Bjarnason.
RSS straumur: RSS straumur