Föstudagur 22.4.2016 - 09:24 - 1 ummæli

Satt eða logið

Eftirlitshlutverk Alþingis byggir á því að þingmenn veiti ráðherrum og framkvæmdavaldi nauðsynlegt aðhald.  Það er hins vegar ekkert í lögum um ráðherraábyrgð sem segir til um ábyrgð ráðherra gagnvart Alþingi, ef hann greinir rangt frá, gefur þingmönnum og þinginu villandi upplýsingar eða leynir upplýsingum sem mikilvægar eru fyrir meðferð mála á Alþingi. Frumvarp í þessa veru var þó fyrst lagt fram árið 1993 og fyrsti flutningsmaður var Jóhanna Sigurðardóttir.  Mál í svipuðum dúr hefur oft verið lagt fram eftir það en ekki náð fram að ganga.

Lög um ráðherraábyrgð

Lög um ráðherraábyrgð eru að stofni til frá 1963 og hefur lítið verið breytt frá þeim tíma. Þau kveða á um ábyrgð ráðherra á stjórnarframkvæmdum og hvenær megi krefja ráðherra ábyrgðar. Meginreglan er sú að það skuli gert ef ráðherra hefur annaðhvort af ásetningi eða stórkostlegu hirðuleysi farið í bága við stjórnarskrá lýðveldisins, önnur landslög eða að öðru leyti stofnað hagsmunum ríkisins í fyrirsjáanlega hættu. Lög um ráðherraábyrgð taka hins vegar ekki sérstaklega til ábyrgðar ráðherra á að veita Alþingi réttar upplýsingar.

Ein af ábendingum rannsóknarnefndar Alþingis um aðdraganda og orsakir falls íslensku bankanna var að Alþingi hafi ekki náð að rækja eftirlitshlutverk sitt með framkvæmdarvaldinu með nægilega öflugum hætti. Undir þetta tók þingmannanefndin sem fjallaði um skýrsluna. Lögð var áhersla á að auka sjálfstæði þingsins gagnvart framkvæmdarvaldinu og meðal annars lagt til að þingskaparlög, lög um ráðherraábyrgð og Landsdóm yrðu endurskoðuð með þetta að leiðarljósi.

Þingskaparlög

Við endurskoðun þingskaparlaga í kjölfar vinnu þingmannanefndarinnar 2010 var eftirlitshlutverk Alþingis með framkvæmdarvaldinu styrkt til muna. Þar er meðal annars kveðið á um að ráðherra skuli leggja fram þær upplýsingar sem hann hefur aðgang að og hafa verulega þýðingu fyrir mat þingsins á máli sem er til meðferðar. Þessi skylda tekur til svara við fyrirspurnum frá alþingismönnum, við sérstakar umræður, við skýrslugerð, umfjöllun um þingmál og frumkvæðisathugun fastanefnda þingsins, hvort sem upplýsingagjöfin er að frumkvæði ráðherra eða samkvæmt beiðni þingsins. Í þingskaparlögum er hins vegar ekki kveðið á um afleiðingar þess að upplýsingaskyldan sé virt að vettugi. Ekki er heldur fjallað sérstaklega um almenna sannleiksskyldu ráðherra í upplýsingagjöf til Alþingis. Heildarendurskoðun á lögum um ráðherraábyrgð og landsdóm hefur ekki ennþá farið fram þrátt fyrir einróma samþykkt Alþingis um að það skuli gera.

Enginn vafi

Það þyrfti að taka af öll tvímæli um að lög um ráðherraábyrgð taki til upplýsingagjafar ráðherra til Alþingis og að hann verði að sæta tilgreindum viðurlögum, brjóti hann þá skyldu. Ábyrgð ráðherra ætti að skapast annars vegar ef hann veitir Alþingi rangar eða villandi upplýsingar og hins vegar ef hann leynir upplýsingum sem hafa verulega þýðingu við meðferð máls á Alþingi. Slíkt ákvæði er í dönskum lögum um ráðherraábyrgð og í Noregi var almenn upplýsingaskylda ráðherra til Stórþingsins sett í stjórnarskrá árið 2007 og á sama tíma var lögð refsing við því ef ráðherra vanrækir þá skyldu í lögum um ráðherraábyrgð.

Lýðræði

Það er grundvallarforsenda lýðræðis að þjóðkjörnir fulltrúar hafi réttar upplýsingar til þess að byggja ákvarðanatöku sína á. Rangar upplýsingar geta hæglega leitt til þess að þingið komist að annarri niðurstöðu en ella. Skortur á upplýsingagjöf getur leitt til trúnaðarbrests milli þings og ráðherra eins og nýleg dæmi sanna hér á landi. Svo að Alþingi geti sinnt eftirlitshlutverki sínu sem skyldi verða þingmenn að fá nægilegar, réttar og greinargóðar upplýsingar um þau mál sem eru til umfjöllunar hverju sinni. Í niðurstöðum vinnuhóps um siðferði í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis um bankahrunið var lögð áhersla á mikilvægi upplýstra skoðanaskipta og rökræðna fyrir aukið aðhald þingsins gagnvart framkvæmdarvaldinu. En við erum í vanda ef ráðherrar segja ekki satt og halda upplýsingum frá þinginu. Skýr ákvæði í lög skortir til að taka á þeirri stöðu hér á landi.

Kjallari DV 19. apríl 2016

Flokkar: Óflokkað

Föstudagur 18.3.2016 - 15:38 - 1 ummæli

Rukkað fyrir heilsu

Þegar við Íslendingar veikjumst þurfum við að borga fyrir læknisþjónustuna, lyf, þjálfun og hjálpartæki. Upphæðirnar eru orðnar svo háar að flestir Íslendingar þekkja einhvern sem hefur frestað því að fara til læknis eða sparað við sig þjálfun sem flýtir fyrir bata. Augljóslega leiðir slíkt til aukins kostnaðar í samfélaginu þar sem fullir kraftar fólks fá ekki notið sín. Þetta er grafalvarlegt mál og við eigum ekki að sætta okkur við þessa stöðu. Alls eru íslenskir sjúklingar að greiða rúma 30 milljarða úr eigin vasa fyrir heilbrigðisþjónustu til viðbótar við skattgreiðslur. Gjaldfrjáls heilbrigðisþjónusta ætti að vera aðalsmerki íslenska velferðarkerfisins.

Krafan um endurreisn

Nú hafa um 85.000 manns krafist þess með undirskrift sinni að heilbrigðiskerfinu verði raðað framar af stjórnvöldum og auknu fjármagni varið til heilbrigðismála. Þessu svarar heilbrigðisráðherra og ríkisstjórnin með því að tilkynna útboð á þremur heilsugæslustöðvum á höfuðborgarsvæðinu. Einkarekstur er svar þeirra við vandanum.

Markmiðið ætti að vera að heilsugæslan sé fyrsti viðkomustaður í heilbrigðiskerfinu, að þangað leiti allir fyrst nema í bráðatilvikum. Hugmynd stjórnvalda um aukinn einkarekstur byggir meðal annars á því að fólk geti valið sér heilsugæslustöð og að þær fái greitt eftir fjölda sjúklinga. Þó heilbrigðisráðherra hafi sagt að hann vilji ekki að rekstraraðilar greiði sér arð geta þau orð ekki komið í veg fyrir arðgreiðslurnar.

Hagnaðarvon

Það er ekkert í lögum sem bannar arðgreiðslur í einkarekstri í heilbrigðiskerfinu. Með lagabreytingum þarf að koma í veg fyrir að skattfé almennings, sem ætlað er til  heilbrigðisþjónustu, renni í arðgreiðslur til eigenda einkafélaga. Félaga,sem hafa með samningi við ráðherra  tekið að sér að veita nauðsynlega grunnþjónustu við velferð og heilsu landsmanna.

Þegar að teknar eru stefnumarkandi ákvarðanir svo sem um einkarekstur á grunnþjónustu fyrir almenning, er rétt að ráðherra hafi skýrt umboð lýðræðislega kjörinna fulltrúa þjóðarinnar til þess.  Að óbreyttum lögum um sjúkratryggingar getur ráðherra tekið slíkar stefnumótandi ákvarðanir fyrir heilbrigðiskerfið án þess að  bera þær undir þingið. Og það er hann að gera þessa dagana.

Markaðslögmálin

Það er ekkert í lögum sem setur ráðherra skorður við að fjölga einkareknum heilugæslustöðvum. Almenningur hefur krafist  þess að auknum fjármunum verði varið til heilbrigðismála. Gæta þarf þess að þeir fjármunir nýtist sem allra best.  Reynsla annarra hefur sýnt  að einkarekstur í heilbrigðiskerfi eykur frekar heildarkostnað kerfisins, fremur en að rekstrarformið dragi úr kostnaði.

Hægrimenn telja að markaðslögmálin eigi að gilda og að með þeim megi bæta heilbrigðisþjónustuna og draga úr kostnaði. Markaðurinn sem um ræðir er væntanlega samansafn veikra Íslendinga og hann vilja hægrimenn að einkaaðilar nýti sér til hagsbóta. En getur það orðið til hagsbóta fyrir sjúklingana og heilbrigðiskerfi sem á að vera aðgengilegt öllum óháð efnahag?  Það fæ ég ekki séð enda leikurinn ójafn sjúklingum í óhag.

Lagaumbætur

Nokkrir þingmenn Samfylkingarinnar undir forystu Sigríðar Ingibjargar Ingadóttur hafa lagt fram frumvarp sem breytir lögum um sjúkratryggingar. Breytingin sem vonandi fær brautargengi, felst í því að Alþingi sem veitir ráðherra leyfi til að gera samninga við einkaaðila í heilbrigðiskerfinu að uppfylltum ákveðnum skilyrðum og óheimilt verði að greiða arð út úr rekstrinum.

Nú þegar hafa verið gerðir þjónustusamningar um einstök verk innan heilbrigðiskerfisins en einkarekstur getur aldrei komið í staðinn fyrir trausta opinbera heilbrigðisþjónustu sem rekin er af myndarbrag. Aldrei má vafi leika á því hvort hagsmunir sjúklinga eða rekstraraðila heilbrigðisstofnana skuli vega  þyngra. Þess vegna vill þjóðin reka sína heilbrigðisþjónustu sjálf.

Kjallari DV 18. mars 2016

 

 

Flokkar: Óflokkað

Þriðjudagur 1.3.2016 - 11:06 - 4 ummæli

Leikur eða dauðans alvara

Það gengur á ýmsu hjá stjórnmálaflokkunum þessa dagana. Skoðanakannanir sýna mikla breytingu hjá flestum flokkum frá kosningum. Stjórnarflokkarnir tapa en Framsókn þó meira en Sjálfstæðisflokkur. Píratar eru í hæstu hæðum, Björt framtíð tapar miklu, Vinstri grænir standa um það bil í stað og Samfylkingin er samkvæmt könnunum ekki sá stóri jafnaðarmannaflokkur sem hún var stofnuð til að vera. Vangaveltur um af hverju þetta rót stjórnmálanna eigi sér stað nú um stundir er vinsæll samkvæmisleikur. En í þeim leik er mikilvægt að það gleymist ekki um hvað stjórnmálin snúast og hvað er þar mest um vert.

Það má ekki slaka á í baráttunni gegn misskiptingu auðs og misbeitingu valds eða baráttunni fyrir bættum kjörum láglaunafólks, aldraðra og öryrkja hvað þá baráttunni fyrir jöfnum tækifærum karla og kvenna eða sömu launum fyrir sömu vinnu. Við megum ekki gleyma okkur í skemmtilegu samkvæmisleikjunum og slaka á nauðsynlegu aðhaldi við stjórnvöld.

Ákall um endurreisn

Rúmlega 80.000 manns hafa krafist þess með undirskrift sinni að auknum fjármunum verði varið til heilbrigðismála. Stjórnvöld svara því kalli með því að bjóða út þrjár heilsugæslustöðvar á höfuðborgarsvæðinu! Heilbrigðisráðherra segir það vera í þágu sjúklinga en telur ekki ástæðu til að ræða málið á Alþingi. Fyrirspurn formanns velferðarnefndar, Sigríðar Ingibjargar Ingadóttur sem hún beindi til ráðherrans í nóvember sl. hefur til að mynda ekki verið svarað. Svíar hafa slæma reynslu af auknum einkarekstri í heilbrigðisþjónustunni þar á bæ, samkvæmt greiningu sænsku ríkisendurskoðunarinnar. Við eigum ekki að flytja inn þeirra mistök heldur læra af þeim.

Rekstur heilbrigðiskerfisins er ekki einkamál heilbrigðisráðherra og ríkissjórnarinnar. Stjórnvöld eiga að svara kalli fólksins í landinu um aukið fjármagn til heilbrigðismála því þörfin er sannarlega fyrir hendi. Rekstrarform breytir engu þar um. Einkarekstur gefur hins vegar færi á því að greiddur sé út arður, s.s. í formi hærri launa til rekstraraðila. Bann við beinum arðgreiðslum er því aðeins sýndarleikur til að slá á efasemdir um að hagur sjúklinga gangi framar rekstrarhagnaði.

Aðgerðarleysi

Engin ríkisstjórn undanfarin 20 ár hefur lagt fram jafn fá stjórnarfrumvörp og ríkisstjórn Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar. Aðgerðarleysið er þó stórkostlegast í málefnum sem varða ferðaþjónustuna og móttöku erlendra ferðamanna. Erlendir ferðamenn, sem verða vel á aðra milljón talsins í ár, valda miklu álagi á samgöngukerfið okkar, ferðamannastaði, löggæsluna og heilbrigðiskerfið. Þeim vanda sem álagið skapar er ekki hægt að mæta með samblandi af fumi og úrræðaleysi. Það verður aðeins til þess að auka líkurnar á því að ferðamenn hætti að sækja okkur heim og fjárfestingar í ferðaþjónustunni nýtist ekki sem skyldi með tilheyrandi tjóni í kjölfarið. Hér er kallað á styrka stjórnun og örugga fjármögnun en hvorugt er fyrir hendi.

Bankasala eður ei

Ríkisstjórnin vill selja hlut ríkisins í bönkunum og gerir ráð fyrir fjármunum í ríkissjóð vegna þess í fjárlögum 2016. Samfylkingin hefur varað sterklega við því að það sé gert núna þegar ríkið er með mikinn meiri hluta kerfisins í sínum höndum og góður möguleiki á að endurskipuleggja fjármálakerfið. Nú er tækifæri til að raða kerfinu saman upp á nýtt og ákveða hvernig það geti best þjónað fólkinu í landinu. Við þurfum fyrst að svara grundvallarspurningum eins og þessum: Hvaða kröfu eigum við að gera um eigið fé íslenskra banka? Hvað á kerfið að vera stórt? Eigum við að skilja á milli viðskiptabankastarfsemi og fjárfestingarbankastarfsemi? Og ef við ætlum að selja hvernig viljum við að eignarhaldið verði?

Alþingi hefur samþykkt rannsókn á einkavæðingu bankanna en hún er ekki enn hafin. Niðurstöðum rannsóknarinnar er m.a. ætlað að auðvelda mótun viðmiða fyrir sölu eignarhluta ef arbært þyki að ríkið selji eingarhluti sína í bönkunum.

Lærum af reynslunni og gleymum því ekki að það skiptir máli hverjir stjórna.

Kjallari DV 1. mars 2016

Flokkar: Óflokkað

Fimmtudagur 11.2.2016 - 11:32 - 6 ummæli

Mikilvægt að flokkurinn fari sterkur og samhentur inn í kosningaveturinn

Blaðið Reykjanes bað mig að svara nokkrum spurningum. Hér eru spurningarnar og svörin.

Hver verða helstu átakamálin á Alþingi í vetur?

Ég held að það verði nokkur mál sem muni bera hæst á vorþinginu. Þetta eru bæði mál sem beðið hefur verið eftir allt kjörtímabilið eins og húsnæðismálin og stjórnarskrárbreytingarnar en einnig önnur stór mál sem liggur á að þingiðtaki afstöðu til, svo sem um sölu á eignarhlutum ríkisins í bönkum, uppbyggingu hjúkrunarheimila og einföldun á kerfi almannatrygginga. Það sem helst gæti komið í veg fyrir góða afgreiðslu þessara mála er ágreiningur innan stjórnarflokkanna. Samfylkingin mun t.d. styðja þau húsnæðismál sem leggja til umtalsverða fjölgun lítilla og meðalstórra íbúða og á hækkun  húsnæðisbóta. Ástandið er þannig núna að ungt fólk getur í raun hvorki keypt né leigt. Stjórnvöld verða að koma að lausn þess vanda. Það þarf að gera ýmsar tæknilegar breytingar á húsnæðisfrumvörpunum eins og þau liggja fyrir þinginu núna en sennilega munu þau ekki fá framgang þar vegna andstöðu Sjálfstæðismanna við þau. Sama má segja um eignarhluti ríkisins í bönkunum. Þar er bullandi ágreiningur á milli stjórnarflokkanna.

Mikill ágreiningur er á Alþingi  um brennivín í búðir sem Sjálfstæðismenn leggja ofuráherslu á þó nánast enginn nema þeir séu að kalla eftir þeirri breytingu. Það mál gæti valdið því að brýn mál frá öðrum þingmönnum komist ekki á dagskrá.

Skoðanakannanir sýna að Samfylkingin nýtur ekki mikils trausts meðal kjósenda. Hver er skýringin?

Á síðasta kjörtímabili tókst ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttir á við fordæmalausan efnahagsvanda sem krafðist aðgerða sem ekki voru líklegar til vinsælda. Svo virðist sem sumir séu búnir að gleyma hve slæm staðan var. Viðfangsefnið var að koma í veg fyrir gjaldþrot ríkissjóðs og stöðva skuldasöfnun með hallarekstri. Og það tóks á aðeins fjórum árum að loka 216 milljarða króna fjárlagagati. Það vekur aðdáun í nágrannaríkjum en minni hér heima. Það var einnig hávær krafa í samfélaginu um róttækar breytingar og nýtt Ísland. Við fórum af heilum hug út í margar lagabreytingar og breytingar á stjórnarskrá sem mættu sterkum úrtöluröddum og ég vil segja hreinum skemmarverkum þar sem allt var gert til að tefja fyrir brýnum breytingum. Við náðum auðvitað ekki að ljúka öllu á einu kjörtímabili við þessar slæmu aðstæður. Nú er enn verið að tefja það að tillögur stjórnlagaráðs um nýja stjórnarskrá verði að veruleika. Og hverjir eru það sem það gera? Það eru núverandi ríkissjónarflokkar sem eru enn við sama heygarðshornið.

Það er rétt að okkur skortir tiltrú nú um stundir en við munum öðlast hana að nýju og vinna traust kjósenda. Við verðum aftur öflugur jafnaðarmannaflokkur með afl til að leiða breytingar þannig að niðurstaðan verði eftirsóknarvert velferðarsamfélag fyrir alla.

Samkvæmt skoðanakönnunum eru Píratar með yfir 40% fylgi. Hver er þín skýring á þessu ótrúlega góðu gengi Pírata?

Ég kem ekki auga á neina augljósa skýringu. Þeir tala vissulega fyrir beinu og auknu lýðræði og opinni stjórnsýslu. En það gerum við líka. Píratar virðast vera ósamstæður hópur með ólíkar skoðanir og svo virðist sem margir geti fundið sér skjól undir þeirri regnhlíf. Þeir eru einnig flokkur án fortíðar og hafa ekki þurft að taka sér stöðu í erfiðum máum. Þingmönnum þeirra leyfist að greiða atkvæði þvers og kruss í sumum málum svo dæmi séu tekin en ef ágreiningur um afgreiðslu mála kemur upp hjá hinum flokkunum þá er það stór mál bæði innan flokks og utan. Þau fá mikla athygli og njóta meira umburðarlyndis en aðrir flokkar gera.

Ert þú fylgjandi viðskiptabanni okkar á Rússa?

Ákvörðun um viðskiptabann er ekki tekin í tómarúmi heldur varðar hún utanríkisstefnu landsins. Saga Evrópu ætti að kenna okkur eitt og annað um það hvernig ekki á að leysa úr ágreiningi ríkja. Við munum þá sögu sem betur fer og höfum undirritað sáttmála og samstarf við önnur lönd til að koma í veg fyrir að sagan endurtaki sig. Þess vegna erum við í Nató og þess vegna gengumst við undir Helsinki sáttmálann 1976, sem segir að óheimilt sé að breyta landamærum fullvalda ríkis nema með fullu samkomulagi beggja ríkja. Rússar komust upp með að innlima einhliða hluta af Georgíu án þess að það yrði stöðvað og nú var röðin komin að Úkraínu. Rök Rússa eru þau sömu og Hitlers þegar hann tók Súdetaland af Tékkum. Hvað gæti komið næst? Og í hvaða stöðu yrðum við á alþjóðavettvangi sem smáríki ef stórveldi ásældist okkar svæði? Við verðum að horfa á stóra samhengið í þessu máli og standa vörð um fullveldi ríkja. Viðskiptabannið við Rússa snýst um svo mikið annað en peninga og viðskipti með fisk. Þar með er ég ekki að segja að stjórnvöld í Úkraínu séu til fyrirmyndar, en það er bara annað mál.

Er eðlilegt að ríkisbanki eins og Landsbankinn geti verið alfarið sjálfstæður í öllum sínum aðgerðum? Þarf ekki Alþingi að hafa stjórnina á bankanum?

Það getur varla verið þannig að alþingismenn eða ráðherrar stýri bönkum frá degi til dags. Við þurfum skýra eigendastefnu, skýrari en sú sem er í gildi af hálfu ríkisins og á hluthafafundum geta eigendur haft áhrif á stefnu bankans. Við þurfum eigendastefnu sem leyfir ekki að eignir bankans séu seldar til einhvers valins hóps í lokuðu söluferli. Það er ekkert annað en spillingargildra og elur á tortryggni. Borgunar málið er skýrt dæmi um það hvernig hlutirnir eiga ekki að vera.

Staðan sem nú er komin upp þegar ríkið á sjálft stærsta hluta bankakerfisins gefur okkur gullið tækifæri til að ákveða hvernig bankakerfi við viljum hafa. Ég vil að við svörum lykilspurningum í þessari stöðu svo sem: Hvaða krafa verður gerð um eigið fé til íslenskra banka? Viljum við dreift eignarhald? Viljum við frekari aðskilnað viðskiptabankastarfsemi og fjárfestingarbankastarfsemi? Er mögulegt að aðskilja þá starfsemi í okkar litla landi? Viljum við svokallaða samfélagsbanka og hvernig eru þeir öðruvísi en hinir? Og síðast en ekki síst – hversu stórt á bankakerfið að vera? Við ættum að gefa okkur tíma til að ákveða hvernig við viljum sjá bankakerfið okkar til framtíðar og draga lærdóm af fyrri sölu og einkavæðingu áður en við rjúkum til við að selja banka. Sporin hræða. Okkur liggur ekkert á.

Ert þú sammála Kára Stefánssyni að auka þurfi framlag til heilbrigðismála um 50 milljarða? Er það framkvæmanlegt öðruvísi en skera verulega niður í mennta-og félagsmálum?

Já ég er sammála Kára að setja markið hátt þegar að kemur að heilbrigðismálunum og hef barist fyrir því að við setjum aukna fjármuni til heilbrigðiskerfisins. Okkur í Samfylkingunni er það mikið í mun að gefið sé til baka í heilbrigðiskerfið eftir endurreisnina. Heilbrigðiskerfið fór laskað inn í hrunið og nokkuð augljóst að þegar hagur ríkisins batnaði þyrfi að bæta þessa meginstoð velferðarkerfisins. Sanngjarnara tekjuskattskerfi og tekjur af auðlindum okkar myndu duga til þeirrar uppbyggingar. Hægristjórnin hefur gert miklar á breytingar skattheimtu sem gagnast fyrst og fremst þeim sem best standa. Það hefði átt að nota þá fjármuni í velferðarkerfið frekar en að rétta milljarðana til ríka fólksins.

Staða margra eldri borgara er mjög erfið. Núverandi ríkisstjórn heldur því fram að aldrei hafi verið eins vel gert fyrir þennan hóp heldur en núna. Ert þú sammála?

Nei ég er aldeilis ekki sammála því. Mesta breytingin til batnaðar á þessari öld var með tillögu Jóhönnu Sigurðardóttur þegar að hún sem félagsmálaráðherra lagði til  hækkun upp á 9,6% og til viðbótar 19,9% hækkun á sérstakri framfærsluuppbót sem tók gildi 1. janúar 2009. Sú hækkun stóð í gegnum kreppuna með þeim sem minnst höfðu handa á milli og fengu bara greiðslur frá Tryggingastofnun en áttu ekki möguleika á öðrum tekjum. Á árinu 2016 munu greiðslur frá Tryggingastofnun hækka minna en lægstu laun og það gerðu þær líka í fyrra. Hér að neðan er tafla sem sýnir muninn á lægstu launum og greiðslum frá Tryggingastofnun til þeirra sem hafa engar aðrar tekjur á árunum 2015 og 2016. Við skulum ekki gleyma því að fáir eru á lægstu launatöxtunum og vinna sig hratt upp í betri kjör. Það geta aldraðir og öryrkjar hins vegar ekki.

Samanburður á lágmarkslaunum og kjörum aldraðra og öryrkja 
Samtals 2015 Samtals 2016 Alls 2015 og 2016
Lágmarkslaun VR og Flóabandalag      2.960.000      3.180.000              6.140.000
Greiðslur TR einhleypings með heimilisuppbót      2.700.840      2.962.824              5.663.664
Greiðslur TR einstaklingur sem býr með öðrum      2.327.544      2.553.312              4.880.856
Munur á ársgreiðslum
Lágmarkslaun og TR greiðslur til einhleypings með heimilisuppbót         259.160         217.176                 476.336
Lágmarkslaun og TR greiðslur til einstaklings sem býr með öðrum         632.456         626.688             1.259.144

Munurinn er sláandi eða tæp hálf milljón uppsafnað hjá öldruðum og öryrkjum sem búa einir en tæplega 1,3 milljónir hjá sambýlingum. Það er þjóðarskömm að halda þessum hópum fátækustum allra á landinu og fátækt fólk munar um þessar fjárhæðir. Þetta gerir hægristjórnin á meðan að gjalda- og skattalækkanir renna til þeirra sem búa við allsnægtir.

Athygli vekur að ekki er gert ráð fyrir neinum nýjum hjúkrunarrýmum á Suðurnesjum næstu árin þrátt fyrir mikla þörf. Nú eruð Þið sjö þingmennirnir hér frá Suðurnesjum. Eru þið nógu dugleg að vinna saman að mynda þrýstihóp?

Það er rétt að það blasir við alvarleg staða í málefnum aldraðra á Suðurnesjum. Þingmenn svæðisins leggjast ekki nógu fast á árarnar saman. Allra best væri að sveitarstjórnarmenn og allir þingmenn svæðisins sameinuðust um að koma þessum málum í lag. Hér eru lengstu biðlistar á landinu eftir hjúkrunarrýmum. Öldruðum fjölgar sem betur fer hratt en við því þarf að bregðast. Vinstri stjórnin gerði áætlun og vann eftir henni í miðri kreppunni, eins og Suðurnesjamenn hljóta að muna og við í Samfylkingunni höfum kallað eftir stefnumótun hægri stjórnarinnar í þessum málum og höldum því áfram. Það verður að gera raunhæfar áætlanir um málefni aldraðra þar sem fjármunir fylgja tímasettum aðgerðum.

Framundan eru forsetakosningar. Hvernig forseta viltu sjá í embættinu, pólitískan eins og núverandi eða forseta sem er sameiningartákn sem blandar sér ekki í pólitísku átökin?

Mér finnst að forsetinn eigi að vera sameiningartákn og boðberi menningar og friðar. En fyrst og fremst vil ég sjá breytingar á stjórnarskrá sem færa málsskotsréttinn til þjóðarinnar sjálfrar, en ekki á eina hönd nánast konunglegs yfirvalds eins og nú er. Mér þætti það góð ásýnd fyrir lýðveldið Ísland ef kona og móðir ungra barna yrði forsetinn okkar. Kona sem sameinaði og sætti þjóðina. Ég er ekki með neina ákveðna konu í huga. Þetta er bara draumur minn um ásýnd Bessastaða og ímynd fyrir nýja Ísland.

Það heyrist að nauðsynlegt sé fyrir Samfylkinguna að skipta um forystu. Ert þú að hugleiða að bjóða þig fram til formennsku í Samfylkingunni? 

Ég viðurkenni að ýmsir hafa haft samband við mig og beðið mig um að bjóða mig fram til formanns Samfylkingarinnar. En ég segi nú bara eins og maðurinn: „þeir eru þó mun fleiri sem hafa ekki haft samband.“  En grínlaust þá hef ég ekki verið að íhuga neitt slíkt. Mér finnst krafan um flýtingu landsfundar eðlileg viðbrögð við stöðu flokksins og þegar fjölmiðlar leita eftir álíti Samfylkingarfólks þá væri best að það varðaði stefnu og áherslur jafnaðarmanna við landsstjórnina en ekki bara  forystukreppu. Það er mikilvægt að flokkurinn fari sterkur og samhentur inn í kosningaveturinn með vel útfærða stefnu jafnaðarmanna og nái þannig eyrum almenningins sem skýrasti valkosturinn fyrir íslenska jafnaðarmenn. Þeir eru miklu fleiri en 9% kjósenda og Samfylkingin verður að svara þeirra kalli.

Flokkar: Óflokkað

Sunnudagur 24.1.2016 - 22:19 - 2 ummæli

Af hverju ertu í stjórnmálum?

Ungir jafnaðarmenn spurðu okkur í þingflokki Samfylkingarinnar hvers vegna við værum í stjórnmálum. Ég svaraði að ég væri þar fyrst og fremst fyrir barnabörnin mín. Ég vildi að þau byggju við jafnrétti, jöfnuð og í góðu samfélagi fyrir alla.

Þetta var mitt 15 sekúndna svar. IMG_0158 Þarf nokkuð að segja meira?

Ég ætla ekki að sitja aðgerðarlaus hjá á meðan stelpur hafa ekki sömu tækifæri og strákar og að kynjunum bjóðist ekki sömu laun fyrir sömu vinnu á fullorðinsárum. Ég get ekki hugsað mér að ömmustelpan mín eigi ekki sömu möguleika og ömmudrengirnir. Ég get ekki hugsað mér að hún muni rekast upp undir glerþökin, þau sömu og amma hennar rakst undir fyrir tugum ára. Ég vil að þau sitji við sama borð jafnréttis og réttlætis.

Ég ætla ekki að sitja aðgerðarlaus hjá á meðan að börn búa við fátækt á Íslandi eða geti ekki tekið þátt í frístundastarfi vegna fjárskorts foreldranna. Ég vil að með skattgreiðslum þar sem hver greiðir sinn sanngjarna hlut eftir getu, verði staða barnafjölskyldna jöfnuð líkt og almennileg velferðarsamfélög gera. Með barnabótum sem munar um fyrir öll börn. Og ég ætla ekki heldur að sitja aðgerðarlaus hjá og horfa á unga foreldra glíma við vanda vegna þess bils sem er á milli leiksskóla og fæðingarorlofs.

Sjónarhorn barna

Með því að horfa á heiminn út frá sjónarhorni barna náum við öllu sem skiptir máli. Fremst skoðum um við nærsamfélagið sem barnið býr í. Hvernig fjárhagsstaða heimilisins er og félagsleg staða. Kynbundið ofbeldi sem þrífst innan veggja sumra heimila bitnar ekki síst á börnum sem verða vitni að því þegar móður þeirra er misþyrmt. Ég mun ekki sitja aðgerðarlaus hjá á meðan að lögreglu þessa lands er ekki gert kleift að sinna málum barna hratt og vel í samstarfi við félagsþjónustu sveitarfélaga. Börnin þurfa að geta treyst á örygga og meðvitaða lögreglu sem ekki er undirmönnuð eða svo önnum kafin við annað að þau verði að bíða, með slæmum aukaverkunum sem kunna að vara allt lífið.

Út frá sjónarhóli barna er staða móðurinnar afar mikilvæg. Ef konurnar eru heilbrigðar og hafa gengið í góða skóla gerist það í öllum löndum heims að fjölskyldur dafna. Ef konur búa við öryggi og eiga sömu tækifæri í lífinu og karlar dafna fjölskyldur þeirra. Og ef fjölskyldur dafna fylgja samfélögin á eftir og heilu þjóðirnar. Kynjamisrétti er brot á mannréttindum. Svo einfalt er það. Enginn getur sætt sig við mannréttindabrot eða setið aðgerðarlaus hjá.

Ef við getum tryggt fullt jafnræði karla og kvenna og jafna stöðu kynjanna á öllum sviðum, erum við að þar með að skapa góðar aðstæður og góðar fyrirmyndir fyrir öll börn. Bæði stúlkur og drengi. Þannig breytum við heiminum.

Greinin er einnig í nýársblaði Samfylkingarinnar í Suðurkjördæmi 2016

Flokkar: Óflokkað

Föstudagur 22.1.2016 - 13:28 - 16 ummæli

Að selja banka

Ég vil vara við því að of geyst sé farið í sölu á eignarhlutum ríkisins í bönkunum. Ég tel að núna ættum við að gefa okkur tíma til að meta stöðuna og ákveða hvernig við viljum hafa bankakerfið okkar til framtíðar.

Bankasýslan gerir hins vegar ráð fyrir að ef ákvörðun fjármálaráðherra um sölumeðferð á eignarhlutunum liggur fyrir vorið 2016 verði unnt að ljúka sölu á síðari hluta ársins í samræmi við fjárlög 2016.

Í stöðuskýrslu Bankasýslunnar um fyrirhugaða sölu á Landsbankanum stendur í samantektar og niðustöðukafla að stofnunin telji nú eftir mat á fjórum efnahagslegum viðmiðum um efnahagslegan stöðugleika, verðmat á hlutabréfum í fjármálafyrirtækjum, fjárhagslegt bolmagn mögulegra kaupenda og stöðu Landsbankans að rétt sé að hefja sölumeðferð á eignarhlutum í bankanum.

Sem stöðuleikaframlag verður Íslandsbanki eign ríkisins og ákveða þarf um sölu hans.

Gylfi Magnússon, doktor í hagfræði og fyrrverandi viðskiptaráðherra segir í nýlegu erindi að svara þurfi áleitnum spurningum áður en hugsanleg sala fer fram. Hann bendir einnig á að huga þurfi að hlutverki ríkisins sem er annars vegar eigandi og hugsanlega seljandi banka og hins vegar mótar það regluverk fjármálakerfisins og hefur eftirlit með því.

Gylfi spyr hvaða krafa verði gerð um eigið fé til íslenskra banka? Verður gerð krafa um dreift eignarhald banka? Verður gerð krafa um frekari aðskilnað viðskiptabankastarfsemi og fjárfestingarbankastarfsemi? Að auki þurfi helstað að svara spurningum um framtíðar gjaldmiðil og hversu stórt bankakerfið ætti að vera áður en sala eignarhluta fari fram.

Alþingi hefur samþykkt rannsókn á einkavæðingu bankanna en ekki enn hrint henni í framkvæmd. Niðurstöðum rannsóknarinnar er ætlað að auðvelda mótun viðmiða fyrir sölu eignarhluta ef arbært þyki að ríkið selji eingarhluti sína í bönkunum.

Við ættum að gefa okkur tíma til að svara verðugum spurningum Gylfa Magnússonar, ákveða hvernig við viljum sjá bankakerfið okkar til framtíðar og draga lærdóm af fyrri sölu áður en rokið er til. Það liggur ekkert á.

Flokkar: Óflokkað

Mánudagur 18.1.2016 - 14:04 - 8 ummæli

Ríkir verða ríkari

Moldríkir forréttindahópar í skjóli greiða ekki skatta. Ríkir verða ríkari og fátækir fátækari. Ríkustu 62 einstaklingarnir eiga meira en fátækari helmingur mannkyns. Hagstjórnin virðist snúast um að bæta hag þeirra allra ríkustu. Þó kalla hagfræðingar OECD eftir því að þjóðir nýti skattkerfi sín til jöfnunar í auknum mæli, með því batni hagur allra. Það gerir metsöluhöfundurinn Pikkety líka og einnig nóbelsverðlaunahafinn í hagfræði 2015 Angus Deaton. Hvað gera stjórnvöld á Íslandi svo í málunum? Jú – þau draga úr jöfnunarhlutverki tekjuskatts, gefa ríkum afslátt og halda öldruðum og öryrkjum við allra verstu kjör. Þetta er algjörlega óþolandi!

Flokkar: Óflokkað

Sunnudagur 20.12.2015 - 12:21 - Rita ummæli

Ábyrgð og skömm

Jón Ólafsson skrifar góðan pistil í Stundina um siðleysi í skjóli lagaheimilda. Þar er hann að ræða brottvísun flóttafólks úr landi og langveiks barns með enga raunhæfa batamöguleika í heimalandi sínu. Mér finnst að spegla megi pistilinn yfir á fleiri nýleg mál, t.d. ákvörðun hægristjórnarinnar að halda kjörum aldraðra og öryrkja sem enga tekjumöguleika hafa á vinnumarkaði, undir lágmarkslaunum í landinu.

Jón segir: „Yfirvöld hafa vissulega lagaheimildir til að koma fram eins og þau hafa gert, en það þýðir ekki að þeim beri skylda til að gera það eða geti ekki gert annað. Lagaheimildir gera þeim þetta mögulegt. Um leið og við erum farin að trúa því að lagaheimildirnar séu þröskuldur sem kerfið komist ekki yfir og kaupum þá röksemd að í einstökum tilfellum sé ekkert hægt að gera, fólk verði að snúa sér að því að berjast fyrir breyttri löggjöf, vilji það breyta einhverju, þá höfum við samþykkt siðleysi.“

Rétt og fallegt

Eftir ötula baráttu Suðurnesjamannsins Hermanns Ragnarssonar sameinuðust alþingismenn um að veita nokkrum flóttamönnunum frá Albaníu ríkisborgararétt hér á landi og fundu þannig leið framhjá lögunum. En lagahyggjan var látin ráða þegar kom að kjörum aldraðra og öryrkja. Lögin um almannatryggingar setja viðmið um hvernig gæta skuli að kjörum þeirra en þau segja ekki að þegar aðstæður í samfélaginu séu þannig að lægstu laun hækka hlutfallslega meira en önnur, eigi aldraðir og öryrkjar ekki að njóta þeirra kjara. Það er sérstök ákvörðun hægristjórnarinnar sem vísar í lagatextann máli sínu til stuðnings. Lagaheimildirnar voru ekki það sem kom í veg fyrir að aldraðir og öryrkjar fengju afturvirka hækkun á árinu 2015 eins og allir aðrir í samfélaginu, heldur voru þær tækið sem notað var til þess að þau fengju hana ekki.

Mér finnst að í báðum þessum málum getum við skammast yfir ráðherrum og hægristjórninni en eins og Jón Ólafsson orðar svo ágætlega niðurlag pistils síns: „Hin erfiða staðreynd málsins er hins vegar sú að við eigum þetta öll – ábyrgðina og skömmina yfir því að geta ekki tekið rétt og fallega á málum fólks.“

Ég hef áður fjallað um ískalda lagahyggju og slóðin er hér: http://blog.pressan.is/oddnyh/

Flokkar: Óflokkað

Miðvikudagur 16.12.2015 - 11:28 - 4 ummæli

Ísköld lagahyggja

Hægristjórnin vill ekki hækka lífeyrir eldriborgara og öryrkja afturvirkt í takt við lægstu laun. Þau líta þannig á að „bætur almannatrygginga eigi einungis að hækka árlega í fjárlögum og þá frá 1. janúar ár hvert en ekki á miðju ári þótt gerðir hafi verið kjarasamningar í millitíðinni“ eins og segir í nýlegu minnisblaði frá fjármála- og efnahagsráðuneytinu til fjárlaganefndar.

Þau virðast líta þannig á að samkvæmt lögum eigi að skilja eftir einn hóp í samfélaginu og halda honum á verri kjörum en þeir njóta sem eru á lægstu umsömdu laununum. Með minnisblöðum til fjárlaganefndar er reynt að gera sem mest úr hækkunum á elli- og örorkulífeyri frá næstu áramótum. En það er sama hvernig þau fara með prósentutölur, uppsafnað þetta eða hitt, milljarðar lagðir saman og ruglað til með fjölgun eldriborgara. Niðurstaðan verður alltaf sú sama: Kjör aldraðra og öryrkja, sem hafa ekki laun annars staðar frá, verða verri en allra annarra, bæði á árinu 2015 og 2016.

Sanngjörn tillaga felld

Stjórnarliðar felldu við aðra umræðu fjáraukalaga tillögu minnihluta fjárlaganefndar Alþingis um að lífeyrir hækki frá 1. maí 2015. Í tillögunni var miðað við samninga sem VR og Flóabandalagið gerði við sína viðsemjendur. Lægstu laun hækka samkvæmt þeim samningum í fjórum skrefum til ársins 2018 í 300.000 kr. mánaðarlaun. Þann 1. maí 2015 hækkuðu lægstu launin í 255.000 kr á mánuði og frá 1. maí 2016 verða þau komin í 270.000 kr á mánuði.

Landsamband eldriborgara miða við aðra samninga í sínum útreikningi og segja að hækkunin frá 1. maí eigi að vera 14,5% en ekki 10,9% eins og tillaga minnihlutans. Þrátt fyrir það eru þessi lágu laun mun hærri en þau sem öldruðum og öryrkjum er boðið samkvæmt ákvörðunum hægristjórnarinnar sem stefnir að því að lífeyrir með heimilisuppbót fyrir fólk sem býr eitt verði um 247.000 krónur á árinu 2016.

Andi laganna

Lög um almannatryggingar voru sett til að verja kjör eldri borgara og öryrkja. Þau voru sett til þess að fólk héldi reisn sinni og gæti lifað mannsæmandi lífi. Lögin voru ekki sett til þess að tryggja að aldraðir og þeir sem eru óvinnufærir vegna örorku væru allra fátækasta fólk samfélagsins.

Fordæmi er frá kjarasamningunum árið 2011 en þá voru lægstu laun einnig hækkuð umfram önnur. Eldriborgarar og öryrkjar nutu þeirra hækkana þá og fengu þær um mitt ár eins og aðrir. Það var réttlátt og í anda laga um almannatryggingar. Sömu leið ætti að fara nú. En hægristjórnin sýnir hvorki samkennd né mannúð og skilur ekki réttlætissjónarmiðin. Hún skilur bara ískaldan lagatextann og ber hann fyrir sig þrátt fyrir að fordæmi séu til um annað.

Kjallari DV 16. desember 2015

Flokkar: Óflokkað

Miðvikudagur 18.11.2015 - 09:39 - 11 ummæli

Heilsugæsla boðin út

Þessa dagana er verið að leggja loka hönd á undirbúning fyrir einkarekstur heilsugæslunnar á höfuðborgarsvæðinu. Innan tíðar verður undirbúningi fyrir útboð lokið og hafist verður handa við að hrinda í framkvæmd stefnumáli Sjálfstæðisflokksins um aukinn einkarekstur og einkavæðingu opinberrar þjónustu. Í þessum efnum gera frjálshyggjumenn engan greinamun á rekstri heilbrigðisþjónustu eða fjármálastofnanna svo dæmi séu tekin.

Heilbrigðisráðherra hefur fengið frið í þessum undirbúningi frá Framsóknarflokknum sem virðist leggja blessun sína yfir athæfið. Allar kannanir hafa sýnst svo ekki verður um villst að almenningur í landinu vill að ríki eða sveitarfélög reki heilbrigðisþjónustuna. Nú verður almenningur, ekki síður en þeir þingmenn sem eru á móti slíkum markaðsáherslum í velferðarkerfinu, að rísa upp og mótmæla. Baráttan snýst um heilbrigðiskerfið okkar, sem við eigum öll saman og höfum byggt upp á löngum tíma.

Skortur á umræðu

En hvers vegna fer þessi undirbúningur á útvistun heilsugæslunnar á höfuðborgarsvæðinu til einkaaðila svona leynt? Hvar er opinbera umræðan um þetta stóra skref í átt að einkavæðingu heilbrigðiskerfisins? Í læknasamningunum síðustu var gert samkomulag um að starfshópur skoðaði fleiri rekstrarform í heilbrigðisþjónustunni. Hugmyndum um gróða, markað, kostnað og gjöld var þá þröngvað inn í umræðuna um viðkvæma stöðu heilbrigðisstofnana. Þeir sem vilja selja ríkinu þjónustuna og græða á henni um leið, virðast fá frítt spil til að skilgreina þarfirnar og útfærsluna.

Klappað og klárt

Á fundi fjárlaganefndar á dögunum kom fram að allt væri að verða klappað og klárt til að láta til skarar skríða. Lög um sjúkratryggingar leyfa að ráðherra geri samning um rekstur í heilbrigðiskerfinu án atbeina Alþingis. Það er því mögulegt að setja stóran hluta heilbrigðiskerfisins í einkarekstur án þess að kjörnir fulltrúar fólksins í landinu fái að koma að þeirri ákvörðun og án þess að almenningur hafi nokkuð um það að segja. Þetta getur heilbrigðisráðherra Sjálfstæðisflokksins gert en þó ekki án stuðnings Framsóknarflokksins. Þessir gamalkunnu helmingaskiptaflokkar hafa því samið sín á milli um að setja heilsugælustöðvarnar í einkarekstur þrátt fyrir skýran vilja almenningins um að reksturinn eigi að vera hjá ríki eða sveitarfélögum.

Traustur rekstur

Lausn vandans í heilbrigðiskerfinu felst fyrst og fremst í því að ríkið styrki raunverulega rekstur sjúkrahúsa og heilbrigðisstofnana, geri þeim kleift að halda góðum mannauði og að mæta þörfum sjúklinga um land allt. Það á að vera forgangsverkefni. Heilsugæslustöðvar og heilbrigðisstofnanir tilheyra grunnstoðum velferðarkerfisins og að þeim eiga allir að hafa jafnan aðgang án tillits til efnahags. Að þessu þurfum við að gæta nú þegar að hugmyndir um aukinn einkarekstur í heilbrigðiskerfinu vaða uppi.

Það hafa verið gerðir þjónustusamningar um einstök verk innan heilbrigðiskerfisins í gegnum tíðina en nú á sýnilega að ganga enn lengra. Einkarekstur getur ekki komið í staðinn fyrir trausta opinbera heilbrigðisþjónustu sem rekin er af myndarbrag. Aldrei má vafi leika á því hvort hagsmunir sjúklinga eða rekstraraðila heilbrigðisstofnana vegi þyngra. Þess vegna vill þjóðin reka sína heilbrigðisþjónustu sjálf.

Kjallari DV 17. nóvember 2015

Flokkar: Óflokkað

Höfundur

Oddný G. Harðardóttir
Þingmaður Samfylkingarinnar jafnaðarmannaflokks Íslands.
RSS straumur: RSS straumur