Fimmtudagur 11.1.2018 - 08:28 - FB ummæli ()

Litið aftur, og svo fram veginn

„Með kjafti og klóm“

Síðasta fjárhagsáætlun sveitarstjórnar þetta kjörtímabilið var afgreidd samhljóða 14. desember 2017. Niðurstaðan sú að fjárhagsleg afkoma sveitarfélagsins heldur áfram að styrkjast umtalsvert, framkvæmdum fjölgar og fleiri viðhaldsverkefnum er sinnt.

Það er sérstök tilfinning að klára þennan krefjandi áfanga ársins, stefna og markmið sveitarfélagsins klár fyrir árið 2018. Það er eins og andrúmsloftið hafi fengið syndaaflausn þegar maður andar að sér umhverfinu eftir þennan síðasta sveitarstjórnarfund ársins.

Að auki eru þetta fyrstu merki þess að kjörtímabilinu fari að ljúka. Næst verður kosið í maí 2018, nýjar sveitarstjórnir munu í kjölfarið líta dagsins ljós. Kannski með klofin skjöld eftir átök kosningabaráttunnar – kannski með fulla tösku af sól og bjartsýni. Skiptir engu, framundan eru krefjandi verkefni, fyrir óhræddar hendur. Þannig, og bara þannig, gerum við betur í dag en í gær.

Óhrædd.

Eitt kjörtímabil dregur fram alla kosti og ókosti í einum sveitarstjórnarmanni. Sum mál sýna þínar bestu hliðar, „þvílíkur mannkostur“ er hrópað. Önnur draga fram breyska eiginleika, mann sem tók ekki rétta ákvörðun, „þvílíkur auli“ er kallað. Eitt er sameiginlegt báðum málum; á bakvið er einlægur vilji til að gera vel.

Á milli sigla stóru verkefnin, þessi sem geyma mótun og framtíð samfélagsins í DNA þráðum sínum. Stundum hef ég það á tilfinningunni að stórum málunum hljóti að líða eins og Van Gogh, áður en heimurinn kveikti á þessum áhrifamanni listasögunnar. Áhrifamikil, afskipt, stundum örvingla af áheyrnarleysi.

Samanlagt gefur þetta mynd af manni – okkur. Við erum gott fólk sem vill vel. Við viljum stækka og þroskast, og glímum stöðugt við brestina í sjálfum okkur.

 

Litið til baka…

Fjárhagsleg styrking sveitarfélagsins

Sé horft aftur yfir kjörtímabilið sést árangur og framþróun, þegar kemur að stórum málum er varða tilvist og framtíð sveitarfélagsins. Fjárhagsleg afkoma sveitarfélagsins hefur styrkst mjög, svo eftir er tekið. Sjálfstæði sveitarfélaga felst ekki í sögu og tilfinningum, ekki í rómantík og sérstöðu einstaklinga, verkefna eða ættbálka. Sjálfstæði sveitarfélaga er bundið í fjárhagslegan styrk. Síðan má svitna yfir andleysi þessarar staðhæfingar – það breytir hins vegar ekki niðurstöðunni, og um einbeittan vilja hins opinbera að fækka minni sveitarfélögum.

Samhent sveitarstjórn

Þegar horft er yfir kjörtímabilið sést samheldin sveitarstjórn sem glímdi sameiginlega við verkefni dagsins. Upptaktur síðustu kosninga gaf ekki vísbendingu um slíkt. Hvergi hefur komið fram ágreiningur sem ekki var hægt að leysa, nema í sátt og samtóna niðurstöðu. Í litlu samfélagi þarf klefinn að vera í lagi, annars vinnst ekki nokkur leikur. Klefinn, í þessu samhengi, er sveitarstjórn Súðavíkurhrepps, samlyndi og samvinna hennar er svar við spurningunni hvers vegna gangi svo vel í sveitarfélaginu.

Atvinnumál á skriði

Þegar horft er yfir kjörtímabilið sést glögglega áhersla sveitarstjórnar á uppbyggingu atvinnumála. Í upphafi kjörtímabilsins var tekin ákvörðun um að ganga til samstarfs við Marigot, móðurfélag Íslenska Kalkþörungafélagsins, um uppbyggingu á starfsemi félagsins í Súðavík. Þessi vinna hefur gengið vel, og stefnt er að framkvæmdum á næsta ári, gangi skipulagsbreytingar eftir. Í skýrslu KPMG, sem sveitarstjórn lét vinna fyrir sig á árinu kemur glögglega fram hvaða ávinningur hlýst af verkefninu. Í samantekt á KPMG kemur eftirfarandi fram:

 • Fjöldi beinna nýrra starfa nær hámarki í um 30 manns, sjö árum eftir að útflutningur hefst.
 • Fjöldi afleiddra starfa, sem verða til á svæðinu, verði um 12 á sama tíma.
 • Íbúar með afkomu vegna kalkþörungaverksmiðju verði um 90 á sama tíma.
 • Árlegar greiðslur til ríkissjóðs geta numið um 65 m.kr. og um 89 m.kr. til sveitarfélagsins þegar útflutningur er í hámarki og flest bein störf verða til.
 • Árlegar greiðslur til lífeyrissjóða nema um 36 m.kr. þegar útflutningur er í hámarki og flest bein störf verða til.
 • Árlegar greiðslur til sveitarfélagsins á atvinnusvæðinu geta numið um 89 m.kr. þegar útflutningur er í hámarki og flest bein störf verða til.
 • Árlegar greiðslur til Súðavíkurhrepps vegna hafnargjalda og annarra gjalda geta numið um 56 m.kr. þegar útflutningur er í hámarki og flest bein störf verða til.

 

Að undaskyldum laxeldisáformum í Ísafjarðardjúpi er því um að ræða stærsta einstaka atvinnuþróunarverkefni við Ísafjarðardjúp, sem lítið en metnaðarfullt sveitarfélag á Vestfjörðum heldur utan um. Verkefni sem geymir þann styrk í sér að geta breytt þróun byggðar í Súðavík, og verið öflugur samverkandi í viðsnúning Ísafjarðardjúpsins. Auðvitað er verkefni af þessari stærðargráðu ekki óumdeilt. Af þeirri ástæðu hefur sveitarstjórn Súðavíkurhrepps kappkostað að halda sem flesta opna fundi um verkefnið á tímabilinu. Nú þegar hafa þrír fundir verið haldnir. Sá síðasti var haldin í Samkomuhúsinu í október, þar sem drög að umhverfismati voru kynnt. Íbúar þannig upplýstir um innihald skýrslunnar og gátu komið með fyrirspurnir. Í kjölfarið var hægt að senda inn umsagnir, ábendingar og gagnrýni.

Sveitarfélagið bindur miklar vonir við uppbyggingu laxeldis við Ísafjarðardjúp. Á kjörtímabilinu hafa fulltrúar sveitarfélagsins staðið í framvarðarsveit Vestfirðinga sem talað hafa, og barist, fyrir máli og réttlæti og skynsemi þessara atvinnuuppbyggingar. Uppbygging laxeldis á Vestfjörðum er ekki bara stærsta atvinnuþróunarmál fjórðungsins, heldur einnig réttlætismál fólksins sem byggir svæðið, ræktar land og líf og lifir fyrir vestfirska framtíð.

Ferðaþjónusta á Vestfjörðum er í stöðugum vexti og verður ein af kjölfestu-atvinnugreinum Vestfjarða um ókomna tíð. Á kjörtímabilinu beitti sveitarstjórn sér fyrir stofnun ferðaþjónustusamtaka Súðavíkurhrepps. Samtökunum er ætlað að gæta hagsmuna atvinnugreinarinnar innan sveitarfélagsins. Þá hafa framkvæmdarverkefni sveitarfélagsins verið mikilvægur stuðningur við atvinnugreinina. Þar má helst nefna framkvæmdir við Hvítanes, við helsta selalátur Vestfjarða, og síðan stærsta verkefni sveitarstjórnar þetta kjörtímailið, ljósleiðararvæðing Inndjúpsins.

Heildarendurskoðun aðalskipulags

Sveitarstjórn Súðavíkurhrepps ákvað á kjörtímabilinu að ráðast í heildarendurskoðun á aðalskipulagi sveitarfélagins. Fyrra skipulag hafði gildistíma til 2018. Sveitarstjórn var einhuga um að tvínóna ekki við hlutina og hefja strax vinnu við heildarendurskoðun. Slíkt er ekki sjálfsagt, mörg minni sveitarfélög eiga í miklum erfiðleikum með slíkar ákvarðanir, enda afar kostnaðarsamt ferli.

Verkefnið er risavaxið, og mun hafa grundvallandi áhrif á alla stefnumótun og þróun Súðavíkurhrepps næsta áratug. Verkefninu vindur vel áfram og vonir standa til um að skipulagsvinnan geti klárast á vor/sumarmánuðum og farið þá í umsagnar- og staðfestingarferli.

Íbúalýðræði

Eitt af áhersluverkefnum sveitarstjórnar hefur verið að efla íbúalýðræði og þátttöku. Af þessu tilefni hafa verið haldnir sex íbúafundir á kjörtímabilinu, og tveir íbúafundir vegna aðalskipulagsvinnu. Þá fór fram vel heppnað íbúaþing, undir stjórn Sigurborgar Kr. Hannesdóttur, í nóvember þar sem hugmyndum og sýn íbúa var safnað saman í skýrslu sem gefin verður út í upphafi nýs árs. Þessi skýrsla verður leiðarljós sveitarstjórnar fram í maí, og síðan næstu sveitarstjórnar sem tekur við í kjölfarið. Aukinheldur verður afurð þingins hluti af nýju aðalskipulagi sveitarfélagsins, sem er stefnumörkun sveitarfélagsins til næstu 20 ára.

Kaupfélagið

Í upphafi kjörtímabilsins stóð sveitarfélagið frammi fyrir því að þorpið var kaupfélagslaust. Slík staða er bæði áhugaverð og krefjandi fyrir samfélag eins og Súðavík. Súðavík er jaðarsamfélag í landfræðilegum skilningi. Fámennt landsbyggðarsamfélag sem einangrast tíðum yfir vetrartímann, vegna snjóflóða. Í þessum aðstæðum er matvöruverslun grunnþjónusta. Hins vegar er það alls ekki skilgreint hlutverk sveitarstjórna að hlutast til um rekstur matvöruverslunar, jafnvel þótt algjör markaðsbrestur blasi við og allar leiðir til að laða að rekstraraðila hafi verið reyndar.

Sveitarstjórn Súðavíkurhrepps tók ákvörðun á vordögum 2015, eftir íbúafund, að stofna til reksturs matvöruverslunar í gegnum félag í fullri eigu Súðavíkurhrepps, Matvöruverslun Súðavíkurhrepps ehf. Ákvörðun sveitarstjórnar grundvallaðist á þremur þáttum, færa þessa þjónustu til íbúa sveitarfélagsins, reka hana ekki með tapi og vera áfram með Kaupfélagið í söluferli.

Strax var farið í breytingar á versluninni til að laga reksturinn að hlutverki og þörfum eigandans. Í upphafi sumarins 2015 opnaði síðan lítil bókasafnsmatvöruverslunarkaffihúsaupplýsingamiðstöð sem fékk nafnið Kaupfélagið.

Verkefnið gekk ekki átakalaust, né syndlaust, en niðurstaðan óumdeild fyrir almenning. Kaupfélagið færði meiri lífsgæði, öryggi og þjónustu til íbúa sveitarfélagsins og rak sig réttu megin við núllið.

Matvöruverslun Súðavíkurhrepps ehf. var síðan seld á haustdögum til nýrra rekstraraðila. Sveitarfélagið er því ekki lengur eigandi Kaupfélagsins, engu að síður er tryggt að sama þjónusta, og enn betri, verður starfrækt í Álftaveri næstu árin. Mikil gleðitíðindi fyrir sveitarstjórn, íbúa og gesti Súðavíkurhrepps.

Markmiðum sveitarstjórnar var því að fullu náð með stofnun, rekstri og sölu Matvöruverslunar Súðavíkurhrepps ehf.

Samvinna vestfirskra sveitarfélaga.

Það ætti að vera forgangsmál hjá vestfirskum sveitarfélögum að finna samvinnu og samtakamátt í öllum verkefnum. Þannig eflist hin sameiginlega hagsmunabarátta og þjónusta við íbúa, lífsgæði aukast og Vestfirðir eygja þannig meiri möguleika á að ná vopnum sínum á ný.

Það er því veruleg ánægja sem fylgir því að klára stofnun Vestfjarðastofu og sannfæring, með vísan í ofansagt, að með henni eflist vestfirsk framtíð. Súðavíkurhreppur hefur gegnt lykilhlutverki í þessari vinnu og baráttu, með því að fara með formennsku í stjórn Fjórðungssambands Vestfjarða og síðan formennsku í stjórn Vestfjarðastofu. Vestfjarðastofa verður vettvangur fyrir vestfirskt sveitarstjórnarlíf, sem og vestfirskt atvinnu- og menningarlíf, til að sameina krafta sína og hugmyndir til eflingar lífs og framtíðar.

Það sem sameinar sveitarfélög á Vestfjörðum, öðru fremur, er að þau eru öll lítil. Það er ekki til stórt sveitarfélag í fjórðungnum. Slíkt er kostur – þannig eigum við að geta sýnt hvoru öðru skilning í stað yfirgangs. Allar ákvarðanir sem miða að því að færa vestfirsk sveitarfélög fjær hvort öðru í samvinnu og trausti eru rangar ákvarðanir og færa Vestfirðinga fjær því takmarki að ná upp krafti og seiglu fyrri tíma. Þetta er regla.

Mögulega sameinast einhver sveitarfélög í fjórðungnum í ókominni framtíð, rétt eins og annarsstaðar á landinu. Hitt er víst, slíkt mun aldrei gerast nema með þessum forleik; meiri samvinnu og trausti milli sveitarfélaga. Vestfjarðastofa er gott dæmi um slíkt.

 

…svo framveginn

Markmið og verkefni ársins 2018 eru margvísleg, upptalningin er ekki tæmandi.

Framkvæmdir

Stærsta framkvæmdaverkefni sveitarfélagsins á árinu 2017, var ljósleiðaravæðing Inndjúpsins. Haldið verður áfram með verkefnið á árinu 2018, og vonast er til að það geti klárast árið 2019 með heimtengingu allra bæja, fyrirtækja og þeirra frístundahúsa sem kjósa að vera með. Þetta verkefni sýnir glögglega hver forgangsröðun sveitarstjórnar er. Inndjúpið stendur höllum fæti og eðlilegt er að sveitarfélagið fjárfesti í innviðauppbyggingu til að gera svæðið samkeppnishæft og fýsilegan kost – atvinnu, og byggðarfært. Samvinna sveitarfélagsins við Orkubú Vestfjarða hefur verið til fyrirmyndar í þessu verkefni og sveitarfélagið bindur miklar vonir við framhaldið.

Þá er ráðgert að klára framkvæmdir á Hvítanesi, þar sem myndarleg aðstaða fyrir ferðamenn er að rísa við selalátrið yst á nesinu.

Viðhaldsmál

Helstu viðhaldverkefnin verða við Súðavíkurskóla og síðan verða íbúðarhúsin í Arnarflötinni tekin í gegn að utan og máluð. Sveitarfélagið eignaðist í desember 2017 Arnarflöt 5, rauða húsið, og er því eigandi að þremur húsum í götunni. Það hefur legið á málningarviðhaldi og verður það mikil prýði að hafa þennan Arnarflatar-regnboga, eitt af fallegum einkennum þorpsins, skínandi eftir sumarið.

Hafnarmál

Hafist verður handa við lengingu flotbryggju Súðavíkurhafnar á nýju ári. Bryggjan er alfarið í notkun Iceland Seaangling. Með flutningi, þess hluta, fyrirtækisins til Súðavíkur, sem áður hafði starfstöð á Tálknafirði, er nauðsynlegt að lengja bryggjuna um eitt bil. Ráðgert er að skipta um dekk á Miðgarði og Suðurgarði, auk þess sem Miðgarður verður ástandsskoðaður á árinu. Þá verður sett upp árekstrarvörn/steinhleðsla, hafnarmegin, meðfram akveginum að Suðurgarði. Í athugun er að setja ferskvatnsslöngu á flotbryggjuna á Suðurgarði.

Formleg vinna við hönnun hafnarmannvirkja, vegna kalkþörungavinnslu innan við Langeyri hefst á nýju ári. Framkvæmdin verður langstærsta framkvæmdaverkefni sveitarfélagins í lengri tíma og mun hafa geysileg áhrif á þróun sveitarfélagsins.

Landbúnaðarmál

Í fjárhagsáætlun fyrir árið 2018 er veitt meira fé í veiðar á mink og ref. Þá samþykkti sveitarstjórn að veita styrk til kaupa á dróna, sem nýta á við haustleitir. Spennandi verkefni sem vonandi á eftir að auðvelda smalamennsku, sem getur verið erfið og langdregin í víðfeðmu sveitarfélagi.

Umhverfis og menningarmál

Sett verða upp steinker í vor, á valda staði í Súðavík, með sumarblómum, sem verður hluti af umhverfis- og fegrunarátaki þorpsins. Ráðgert er að klára hönnun og hefja framkvæmdir við göngustígaátak í Súðavík. Eftir framkvæmdir verður samfelldur göngustígur í kringum tjörnina, að tjaldstæðinu í Sumarþorpinu.

Margræddu hvalsporða/hvalveiðisöguverkefni verður lokið með uppsetningu á hvalsporðum umhverfis tjörnina, verður verkefnið samstíga göngustígaframkvæmdum. Þá er hönnun á Torglundi, við hliðina á leikskólanum á samþykktri fjárhagsáætlun.

Í fjárhagsáætlun fyrir árið 2018 er 2 millj. styrkur til sögusýningar sem stefnt er á að setja upp í Súðavík fyrir næsta sumar. Verkefnið verður kynnt frekar í upphafi nýs árs á opnum fundi.

Skipulagsmál

Ráðgert er að klára heildarendurskoðun á aðalskipulagi sveitarfélagsins á árinu, eins og áður hefur verið minnst á. Með nýju aðalskipulagi verður sveitarfélagið komið með gífurlega vandað og efnismikið stefnumótunarplagg til næstu ára.

Lýðheilsumál.

Verkefnið Heilsueflandi samfélag verður áfram keyrt í sveitarfélaginu. Frítt verður fyrir íbúa sveitarfélagsins í líkamsrækt á Langeyri.

Frístundastyrkir verða greiddir vegna þátttöku barna og unglinga í íþrótta- og æskulýðsstarfi.

Fjárhagsleg afkoma 2018

Gert er ráð fyrir að afkoma samstæðunnar, A og B hluti reksturs Súðavíkurhrepps ,verði jákvæð um 39 milljónir. Þá hækkar handbært fé frá rekstri um 18 milljónir á árinu, gangi áætlun eftir.

Skuldahlutfall samstæðunnar verður 28% og hefur farið lækkandi.

Með kjafti og klóm

Lítil sveitarfélög róa lífróður fyrir tilverurétti sínum þessi misserin. Fjárhagsleg staða þeirra er æði misjöfn, og ljóst er að þau sveitarfélög sem ekki búa við öruggan rekstur eiga erfiða baráttu fyrir höndum, sé vilji til að vernda sjálfstæði sveitarfélagsins.

Fjöregg sveitarfélagsins er í höndum sveitarstjórnar. Séu ekki skýr skilaboð um annað er það meginhlutverk sveitarstjórnar að verja tilverurétt sveitarfélagsins, efla framtíð þess og fjórðungsins og verja velferð íbúa, með kjafti og klóm.

Niðurstaða fjárhagsáætlunar sveitarstjórnar Súðavíkurhrepps fyrir árið 2018, atvinnustefna sveitarfélagins, forgangsröðun skólamála, sem og öll önnur verk og vinna kjörtímabilsins, skal lesa með þeirri sannfæringu og einbeitta vilja; með kjafti og klóm!

Staða Súðavíkurhrepps hefur styrkst umtalsvert á kjörtímabilinu, hvort sem það er núverandi staða eða framtíðarmöguleikar. Hins vegar eru krefjandi verkefni framundan, og ekkert í hendi. Það tekur skamma stund að snúa jákvæðri þróun til fyrri vega.

Einn knattspyrnuþálfari orðaði þetta svona; „fyrst þarftu gott líkamlegt form til að eygja möguleika á tímabilinu. Það kostar vinnu. Svo þarftu stórt hjarta og beittan huga til sigra tímabilið. Það kostar vinnu“.

Tímabilið er framundan.

Lifi Súðavíkurhreppur, eflist Vestfirðir, Íslandi allt!

 

Skrifað í Súðavík, 2. janúar 2018

Pétur G. Markan

Sveitarstjóri Súðavíkurhrepps

Flokkar: Óflokkað

Þriðjudagur 8.8.2017 - 18:50 - FB ummæli ()

Birtan á fjöllunum

– Þegar ágreiningur er um virði fólks

Virkjun Hvalár snýst ekki um Sjálfstæðismenn, Tómas Guðbjartsson, verndunarsinna eða virkjunarsinna.

Hvalárvirkjun snýst um framtíðina.

Hvalárvirkjun snýst ekki um göngufólk í leit að innblæstri, heldur að mögulegum endalokum jarðar og útblæstri.

Lítið ljós í stærsta vandamáli mannsins.
Hvalárvirkjun er ekki aðför að óspilltu svæði, heldur lítið ljós í spilltum umhverfisheimi.
Útblástur og kolefnisspor ógna tilvist mannsins. Nýlega samþykkt Parísarsamkomulag er alþjóðleg samstaða um að ná tökum á því vandamáli sem manninum hefur ekki tekist að hefta, útblæstri. Vandamál sem m.a. stuðlar að hlýnun jarðar með ægilegum afleiðingum, ef ekkert verður að gert.
Hlýnun jarðar er stærsta vandamál heimsins í dag. Hver einasta þjóð, hver jarðarbúi er þar í ábyrgð. Þegar við brennum kolum, olíu eða öðrum sambærilegum aflgjöfum horfum við framhjá framtíðinni og angist komandi kynslóða. Líklegasta ástæðan fyrir léttlyndi okkar gagnvart þessu stærsta vandamáli mannsins er sú að líkur eru á því að okkar efnislega vera verði komin undir græna torfu, þegar ungabörn framtíðarinnar fara að þjást, vegna okkar.
Í léttlyndu umhverfiskóma getum við því fundið okkur í „ókönnuðu“ víðerni Íslands, ósnertu auðvitað, og kjarnað sálina fyrir komandi átök vinnuvetrarins. Í 100% þversögn við það sem við gefum okkur út fyrir að vera – en það er í lagi á meðan aðrir roðna af skömminni.

Uppbygging raforkukerfis Vestfjarða
Virkjun Hvalár snýst ekki um stóriðju á Vestfjörðum. Verkefnið er lykilþáttur í uppbyggingu raforkukerfis Vestfjarða. Vestfirðir eru stóriðjulausir og verða það um ókomna framtíð. Hér væri hægt að minnast á olíuhreinsistöð til að þvæla aðeins málið. Það er óþarfi. Vestfirðingar eru löngu búnir að skila skömminni, og þakka fyrir reynsluna, sem einmitt hjálpar til við að halda fjórðungnum hreinum. Vestfirðingar eru umhverfisvænir, silfur umhverfisvottaðir af Earth Check og eru sem slíkir leiðandi afl í umhverfismálum sveitarfélaga á Íslandi.
Hvað er átt við þegar talað er um uppbyggingu raforkukerfis á Vestfjörðum? Vestfirðir eru ekki hringtengdir þegar kemur að raforkuflutningi, eins og vel flestir staðir landsins. Þegar byggðalínan fellur út, tekur við olíuvaraafl, sem brennir þúsundum lítra af olíu út í umhverfið. Þegar byggðalínan á Vestfjörðum gefur eftir, fer af stað keðjuverkandi umhverfisárás, sem raunverulega ógnar framtíð jarðar. Það þýðir ekki bara að heiðra Parísarsamkomulagið þegar við djöflumst í Trump. Við erum samkomulagið, og við höfum bein áhrif á það. Munum að stærsta vá mannkyns er útblástur og kolefnaspor, ekki skortur á heilun og kjörnun göngugarpa.

Þrjú umhverfisvæn byltingarskref
Hvalárvirkjun og Austurgilsvirkjun, sem eru í nýtingarflokki, og Skúfnavatnavirkjun, eru allar fyrsta skrefið í uppbyggingarbyltingu raforkukerfis Vestfjarða. Tengivirki mun síðan rísa á Nauteyri, eða þar um kring, í Ísafjarðardjúpi. Skref tvö. Síðan hafa verið til rannsóknar í áratugi virkjanaverkefni í Súðavíkurhreppi. Nú er verkefnið hugsað sem tvær aðskildar virkjanir, Hvanneyrardalsvirkjun og síðan Skötufjarðarvirkjun. Með þessum virkjanakostum er komin raunverulegur möguleiki á að umbylta raforkukerfi Vestfjarða með hringtengingu. Skref þrjú.
Sé lesið í orð Tómasar Guðbjartssonar eru Vestfirðingar ekki þess virði að þessi þrjú skref séu tekin. Það sagði hann beint út í viðtali við mogunútvarp Rásar 1. Ég horfi á dóttur mína í dúkkó, á meðan ég skrifa þessa síðustu línu. Ég er auðvitað hlutdrægur, en er virkilega einhver ekki þess virði í augum fólks. Merkilegt.
Að byggja á olíuvaraafli er bæði óumhverfisvænt, óhagkvæmt og gerir búsetu og atvinnulíf að annars flokks kosti. Gerir Vestfirðinga að annars flokks kosti og skerðir möguleika og lífsgæði barna framtíðarinnar. Það er ekki valmöguleiki fyrir upplýst fólk. Það er ekki stefna sem siðuð stjórnvöld geta fylgt eftir.

Fyrir utan þessa Vestfirðinga, þarf að virkja?
Samkvæmt raforkuspá Orkustofnunar mun raforkuþörf almennings, ekki stóriðju, aukast um 100 megavött á áratug til ársins 2050. Til samanburðar þá er verður heildarafl Hvalárvirkjunarinnar 55 megavött. Í dag er þessi vöxtur ekki til í kerfinu.
Svo ætlum við að rafvæða bílaflotann samkvæmt umhverfisráðherra, frábært framtak og ábyrgt og kostar ennþá meiri raforku en spááætlun gerir ráð fyrir.
Í stuttu máli gerir framtíðin ráð fyrir margskonar lifnaðar og atvinnubreytingum, sem allar eiga það sameiginlegt að skipta út mengandi aflgjöfum fyrir umhverfisvæna raforku.

Náttúran nýtur vafans
Það er ekki sjálfsagt að virkja hálendi Íslands. Það er ekki auðveld fimma að temja perlur Íslands til nýtingar og nytja. Slíkt er með réttu óðsmanns- og þolinmóðsæði að fara fram í umræðu með hugmynd um virkjanaáform. Hvað þá að láta það raungerast. Það er gott, þannig á það að vera. Náttúran á að njóta vafans. Alltaf og í öllum tilvikum.
#natturanaadnjotavafans ( mynd af göngugarpi í forgrunni,hornstrandanáttúra á heimsmælikvarða í aukahlutverki baktjalda)
Hún gerir það.
Verkefni eins og Hvalárvirkjun fara í gegnum ferli sem kallast á stofnanamáli rammaáætlun. Í því ferli fær verkefnið, eða öllu heldur náttúran, þá faglegustu meðferð sem völ er á hverju sinni. Það er hins vegar einn galli á gjöf njarðar. Þegar verkefni fær faglega meðferð, þá gildir það sama fyrir báða hópa, virkjunarsinna og virkjunarandstæðinga. Sama í hvorum hópnum maður telur sig, ræður maður ekki útkomunni. Náttúran nýtur vafans. Verkefnahópur, undir stjórn Stefáns Gíslasonar, sem stýrir vinnu rammaáætlunar er besta mögulega meðferð sem náttúran getur fengið. Stefán þessi er einmitt einn fremsti utanvegahlaupagarpur Íslands og þekkir hálendi Íslands jafn vel og aðrir þekkja sínar skurðstofur.
Hvalárvirkjun hefur gengið í gegnum rammaáætlun, gegnumlýst og þolprófuð, og niðurstaðan er sú að verkefnið er sett í nýtingarflokk. Náttúran naut og nýtur vafans.
Hvalárvirkjun snýst ekki um Sjálfstæðismenn og full kok. Hún er einfaldlega miklu mikilvægari en örmagna flokkapólitík. Hún er verkefni sem fékk nýtingarhlutverk rammaáætlunar og hlaut síðan þverpólitíska staðfestingu þingheims. Hvalárvirkjun er vel reynt verkefni innan stjórnsýslu og stjórnmála Íslands, mögulega hefur ekkert verkefni fengið jafn faglega og upplýsta meðferð.
Ef náttúran á að njóta vafans, er Hvalarárvirkjun fyrirmynd sem við getum tileinkað okkur.

„Vestfirðingar eru ekki þess virði“
Ein andstyggilegasta birtingarmynd umræðunnar um Hvalárvirkjun, og almennt um stærri uppbyggingarverkefni á landsbyggðinni, er viðkvæðið: „Greyin! Þau vita ekki hverju þau eru að fórna fyrir tilfinningalausa fjárfesta sem hafa engan áhuga á þeim. Þau vita ekki hvað þau eiga. Þau eiga ekki heimtingu á byggðainnviðum, til þess er of fallegt í kringum þau.“. Hvort sem um ræðir virkjanaáform, eldisuppbyggingu eða vegasamgöngur er sunnanblærinn litaður af rasískum nýlendutón. Heimamaður veit ekki að það er verið að plat‘ann, hann hefur ekki séð fegurðina, skilur hana ekki, er ekki þess virði að hún sé skynsamlega nýtt, og það sem verst er, heimkynni hans þurfa ekki að vera til. Eina ráðið er að hafa vit fyrir honum, hann er svo vitlaus og heimkynni hans aum í fjallasölum eilífðarinnar.
Nú verður sjálfsagt sagt að þetta séu órökstuddar dylgjur, þetta hafi engin sagt. Eftirfarandi eru bara nýleg dæmi um hvað suðrið færir okkur Vestfirðingum í umræðu um okkur sjálfa og framtíð svæðisins:

Tómas Guðbjartsson, viðtal á Rás 1 um Hvalárvirkjun;
„Fáir hafa litið þessi víðerni á Ströndum eigin augum. Skýrir það að einhverju leyti viljann til að virkja þarna? „Ég held að rödd náttúruverndarsinna hafi ekki heyrst nógu vel. Margir hafa ekki komið þarna og ekki einu sinni séð þessa fossa á mynd.“ Tómas segist hafa hitt forsvarsmenn fyrirtækja sem tengjast þessum áformum en hafa ekki komið að fossunum, aðeins séð þá ofan af heiðinni. „Það er hluti af vandamálinu að margir sem tjá sig um þetta, jafnvel Vestfirðingar, hafa ekki komið þarna og vita ekki hvað er undir.“
„Tómas segir að þarna séu náttúruperlur á heimsmælikvarða. Vestfirðingar verði að átta sig á að það er verið að plata þá, orkan fari í stóriðju fyrir sunnan.“
„Það er ekki þess virði að virkja þarna til þess að tryggja Vestfirðingum rafmagn. Vestfirðingar verða að átta sig á því að þarna liggja þeirra mestu auðævi og til komandi kynslóða – þessi ofboðslega fallega náttúra á Vestfjörðum.“

Dofri Hermannsson, fyrrverandi varaborgarfulltrúi, opinber umræða um Hvalárvirkjun á FB greinarhöfundar: „Það munu fleiri koma vestur um lengri eða skemmri tíma ef náttúran er vernduð og byggt á styrkleikum svæðisins. En Árneshreppur verður aldrei þéttbýli og er það ekki bara allt í lagi?“.

Gísli Sigurðsson, þjóðfræðiprófessor við Háskóla Íslands, umræða á Vísi um eldisuppbyggingu á Vestfjörðum: „Talsmenn aflandsfyrirtækjanna hafa kosið að beita fyrir sig hagsmunum almennings á Vestfjörðum – líkt og þegar almennir borgarar eru notaðir sem hlífiskjöldur í hernaði.“

#Vestfirðingareruþessvirði
Yfirleitt er umræðan heilbrigð, henni mætti vel líkja við virkjun lýðræðisins. Ef vel tekst til flæðir umhverfisvæn orka um menninguna sem nýtir hana til uppbyggingar og bættrar velferðar mannsins. Ef illa tekst til virkjum við umræðuna til eigin geðþótta, hrösum um staðreyndir um leið og tilgangurinn helgar öll meðöl. Þannig birtist mér nýleg umræða um Hvalárvirkjun. Fullyrðingar um horfna fossa, bláeygða og svanga Vestfirðinga og ljóta stóriðju er í senn fyrirlitning á fólki og staðreyndum.
Framundan er stórkostleg bylting í atvinnu – og innviðauppbyggingu Vestfjarða. Bylting sem er sjálfbær, stóriðjulaus, umhverfisvæn og býr komandi kynslóðum tækifæri, búsetufrelsi og velferð.

Svo heldur Tómas Guðbjartsson áfram að þræða óbyggðir Vestfjarða, finna fossa og mynda sig. Ef hann er hræddur um að Vestfirðingar þekki ekki perlur fjórðungsins, er það ástæðulaus ótti.

Getur á móti verið að Tómas átti sig ekki á blómastrandi mannlífi Vestfjarða, náttúrufegurð fólksins og lífinu sem það skapar á hverjum degi. Virðinu ómetanlega sem býr í samfélagi, dóttur minni og öllum hinum. Kannski er þörf á að segja honum sögur að vestan, merkja myndir af mannlífi sem lifir í sátt við umhverfi og framtíð. Lífi sem gerir ekki aðrar kröfur en að standa jafnfætis öðrum Íslendingum.

#Vestfirðingareruþessvirði

 

Flokkar: Óflokkað

Miðvikudagur 2.8.2017 - 18:46 - FB ummæli ()

Hagsmunir íbúa við Ísafjarðardjúp að engu hafðir.

Yfirlýsing frá sveitar- og bæjarstjórum Súðavíkurhrepps, Ísafjarðarbæjar og Bolungarvíkurkaupstaðar.

Hagsmunir íbúa við Ísafjarðardjúp að engu hafðir.

Nefnd sjávarútvegsráðherra um stefnumótun í fiskeldismálum hefur verið að störfum síðan haustið 2015 þegar þáverandi ráðherra, Gunnar Bragi Sveinsson, setti nefndina á fót.

Snemma á þessu ári sendi nefndin út spurningalista til sveitarfélaga þar sem spurt var um áhrif fiskeldis á sveitarfélögin. Spurningarnar virtust reyndar fyrst og fremst miða við sveitarfélög þar sem uppbygging í fiskeldi hefur þegar átt sér stað en var engu að síður svarað ítarlega og samviskusamlega, þar sem fram kom hvaða áhrif hefðu þegar átt sér stað, hvaða áhrifa væri að vænta í framtíðinni og hvaða uppbygging þyrfti að eiga sér stað.

Sveitarstjórar fiskeldissveitarfélaga á Vestfjörðum áttu svo fund með sjávarútvegsráðherra, Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur, á Þingeyri 10. júlí síðastliðinn. Það kom ráðherra mjög á óvart að nefndin skildi ekki þegar hafa átt fund með fulltrúum sveitarfélaganna á Norðanverðum Vestfjörðum, Ísafjarðarbæjar, Bolungarvíkurkaupstaðar og Súðavíkurhrepps – enda ætlar nefndin að skila af sé áliti þann 15. ágúst næstkomandi. Í þessum sveitarfélögum búa nærri 5.000 íbúar, eða meginhluti Vestfirðinga, og þótti furðu sætta ef hagsmunir þeirra íbúa ættu ekki að komast að borðinu með skýrum hætti.

Fyrir íhlutun ráðherra fengu Ísafjarðarbær, Bolungarvíkurkaupstaður og Súðavíkurhreppur loks áheyrn nefndarinnar í dag, 1. ágúst, ásamt einnig Fjórðungssambandi Vestfirðinga. Reyndum við sveitar- og bæjarstjórar á Norðanverðum Vestfjörðum að koma á framfæri mikilvægi þess að hagsmunir allra þessara íbúa væru hafðir að leiðarljósi í störfum nefndarinnar.

Það verður að segjast eins og er að fundurinn með nefndinni olli okkur verulegum vonbrigðum. Svo virðist sem ætlun nefndarinnar sé að ná einhvers konar samkomulagi milli eldisfyrirtækja og veiðiréttarhafa um svæðaskiptingu fyrir laxeldi – að mestu án tillits til hagsmuna íbúa svæðanna – en minna horft til raunverulegrar stefnumótunar í fiskeldismálum þar sem samfélög og sjálfbærni yrðu lögð til grundvallar. Það er því varla að sjá að frá nefndinni muni koma eiginlega stefnumótum um hvernig uppbyggingu fiskeldis skuli háttað á Íslandi, heldur sé fyrst og fremst verið að úthluta fyrirtækjum svæðum fyrir starfsemi sína.

Svo var að heyra sem ein skýrsla Hafró – sem er umdeild í þokkabót – eigi að verða hornsteinn einhverskonar sáttar milli þessara hagsmunaaðila, laxeldisfyrirtækja og veiðiréttarhafa, án þess að íbúarnir og hagsmunir þeirra eigi sæti við borðið. Einungis tvo mánuði tók að setja saman skýrslu Hafró. Ef það var svona veigalítið verk að slá laxeldisáform í Ísafjarðardjúpi út af borðinu, hvers vegna var þessi skýrsla þá ekki unnin fyrir mörgum árum síðan þegar áform um laxeldi í Ísafjarðardjúpi voru fyrst kynnt. Það er algerlega óásættanlegt að skýrsla Hafró fái að ráða því að hagsmunir íbúanna séu virtir að vettugi og hagsmunum þeirra jafnvel fórnað fyrir tvær veigalitlar laxveiðiár í Djúpinu.

Það er krafa okkar að skýrsla um hagræn, lýðfræðileg og menningarleg áhrif fiskeldis á byggðir við Ísafjarðardjúp verði höfð til grundvallar, rétt eins og áhættumat hafrannsóknarstofnunnar, við ákvörðun um fiskeldisuppbyggingu í Ísafjarðardjúpi.

Sveitar- og bæjarstjórarnir á Norðanverðum Vestfjörðum kynntu fyrir nefndinni þann möguleika að laxeldi yrði leyft í Ísafjarðardjúpi og að árnar yrðu varðar með bestu fáanlegu aðferðum og tækni þannig að engu þyrfti að fórna til þess að leyfa laxeldi að þróast þannig að það geti lifað í sátt og samlyndi við laxveiðiár. Sá málflutningur virtist ekki eiga upp á pallborðið hjá formanni nefndarinnar og var að heyra sem hann væri sannfærður um að mótvægisaðgerðir til varnar ánum gætu aldrei orðið fullnægjandi. Slík afstaða er undarleg enda væri mönnum í lófa lagið að frysta genamengið og varðveita til að útiloka alla áhættu – fyrir utan allar þær óteljandi aðferðir sem mögulegar eru til að fullverja árnar.

Ef raunin verður sú að tillaga nefndarinnar um stefnumótun í fiskeldi verður á þeim nótum sem við upplifðum á fundinum þá getur slík tillaga aldrei orðið meira en innlegg í málið og undirbúningur að víðtækari og heildstæðari stefnumótun þar sem hagsmunir íbúa, bæði Vestfirðinga og annarra landsmanna, verði settir í fyrsta sæti. Þeir gríðarlegu þjóðarhagsmunir sem geta legið í laxeldi í Ísafjarðardjúpi eru alltof miklir til að verða skiptimynt í hrossakaupum.

Margskonar lífstofnar búa um sig við Ísafjarðardjúp. Stofn manna hefur átt erfitt uppdráttar undanfarin ár og áratugi á þessu svæði, og á Vestfjörðum í heild.

Það er ófrávíkjanleg krafa okkar þessi stofn njóti skilnings, fagmennsku og sanngjarnrar meðferðar þegar kemur að því að ákveða næstu skref framtíðar-atvinnuuppbyggingar Vestfjarða, fiskeldis. Til þess að svo verði þarf megin útgangspunktur þeirrar ákvörðunar vera félagslegt samfélag og sjálfbær vöxtur þess.

Það er réttur fólksins við Ísafjarðardjúp að það sé sett í forgang atvinnuuppbyggingar á svæðinu. Af þeirri kröfu gefum við engan afslátt.

Pétur G. Markan, sveitarstjóri Súðavíkurhrepps
Gísli Halldór Halldórsson, bæjarstjóri Ísafjarðarbæjar
Jón Páll Hreinsson, bæjarstjóri Bolungarvíkurkaupstaðar

Flokkar: Óflokkað

Föstudagur 13.1.2017 - 11:26 - FB ummæli ()

Skattheimta, sveitarfélög og almannahagur

Héraðsmiðillinn BB gerir að fréttaefni bókun mína frá 35. sveitarstjórnarfundi Súðavíkurhrepps, sem varðar lækkun á útsvarstekjum á milli ára. Það er afar þakkarvert að fjölmiðillinn skuli taka upp þessa umræðu.

Fyrirsögn BB er eftirfarandi: Skattsvik í Súðavík. Það skal árétta að orðið “skattsvik,, í þessari umræðu er fært inn af ritstjóra BB, sem skrifar umrædda frétt. Ásakanir um lögbrot er framlag ritstjóra BB.

Það er ekkert í bókun sveitarstjóra sem kallar samborgarana skattsvikara.

Hins vegar er bent á þá vá sem fylgir því þegar að útsvarstekjur lækka. Margs konar skýringar geta verið á bakvið slíka þróun. Í tilfelli Súðavíkurhrepps, og þetta er veruleiki allra sveitarfélaga á landinu, verður sveitarfélagið af miklum tekjum vegna einkaneyslu, sem tekin er í gegnum fyrirtæki, í stað þess að greiða starfsmönnum hærri laun, sem aftur skilar sér í meira framlagi til samneyslu samfélagsins.

Það er val þeirra sem kjósa að stýra eiginrekstri í gegnum einkahlutafélag að greiða lægri laun, og skila þess í stað meiri arði, sem síðan er skattlagður af ríkinu. Hins vegar er einn galli á gjöf Njarðar í því tilfelli og hann er að ríkið hefur þennan fyrirtækjaskatt fyrir sig sjálft, að nánast öllu leiti.

Kannski finnst lausnin í því að veita sveitarfélögum hlutdeilt í skattstofnun fyrirtækja. Sem væri þá mótvægi við þá fjármuni sem tapast í núverandi kerfi. Verðugt verkefni fyrir Samband íslenskra sveitarfélaga.

Sveitarfélag rekur sína þjónustu og velferð á skatttekjum. Ef þær dragast saman, dregst starfsemi sveitarfélagsins saman. Velferð og þjónusta við almenning minnkar. Ekkert ábyrgt sveitarfélag lætur þá staðreynd óhreyfða, ef skatttekjur þess dragast meira saman en eðlilegt getur talist. Þá er vegið að tilveru þess og velferð íbúa. Við því þarf að bregðast af ábyrgð, hreinskilni og festu.

Góð þjónusta við íbúa, öflugir skólar og styðjandi velferð í sveitarfélögum er almannahagur. Sé vegið að þessum atriðum er það skylda þeirra sem standa í stafni sveitarfélagana að vekja athygli á því og vinna markvisst gegn því. Með þetta að leiðarljósi skal lesa bókun sveitarstjóra frá 35. fundi sveitarstjórnar Súðavíkurhrepps. Hugmyndin er ekki að hengja neinn, hitt heldur, að standa vörð um almenning.

Flokkar: Óflokkað

Sunnudagur 23.10.2016 - 14:32 - FB ummæli ()

Eru Vestfirðingar óttaslegnir?

Grímur Atlason, settist í hljóðstofu RÚV á föstudaginn og ræddi AirWaves tónlistarhátíðina. Frábæran tónlistarviðburð, sem er orðin einn af hornsteinum tónlistarsenu Íslands.

Í hliðarskrefi við umræðuefnið fór Grímur að ræða fortíð sína og þá um leið hans tengingu við Vestfirði.

Grímur hefur nefninlega áhyggjur af Vestfjörðum, þar eru allir hræddir. Allir að fara flytja, menn að vinna með atvinnuuppbyggingu eins og laxeldi, er álverið ekki örugglega að koma hugsar fólk og það býr engin í Súðavík, segir Grímur leiður.

Til að sefa Grím og áhyggjurnar er rétt að eftirfarandi komi fram:
• Á suðursvæði Vestfjarða hefur verið 5% fólksfjölgun síðustu ár.
• Vestfirðir er stóriðjulausir, hafa verið það og verða það áfram samkvæmt ákvörðun sveitarfélaga á Vestfjörðum. Álverið er því ekki á leiðinni og engin að bíða.
• Laxeldi er matvælaframleiðsla sem er háð ströngu umhverfismati.
• Í Súðavíkurskóla hefur fjölgað börnum undanfarið, sem er sjálfsagt einn besti mælikvarði á íbúaþróun sveitarfélaga. Einungis réttindakennarar hafa umsjón með bekkjardeildum við grunnskólann. Skólastjórinn lauk nýverið meitararagráðu við HÍ í kennslufræðum og stjórnum skóla.
• Sveitarfélagið er með gjaldfrjálsan leikskóla. Þar hefur börnum fjölgað undanfarið.
• Í Súðavík býr tónlistarmaður sem verður eitt af aðalnúmerum Gríms á AirWaves í ár, Mugison.

Vestfirðingar er því ekki óttaslegnir, eða hræddir. Hitt þó heldur. En Vestfirðingar ræða stöðu sína og baráttumál, sakna þeirra sem flytja burt og fagna þeim sem setjast að. Eins og önnur byggðalög.

Það er til að mynda fjörug umræða þessa dagana um íbúaþróun miðbæjarins, í samhengi við uppgang ferðaþjónustu á svæðinu. Skyldu íbúar miðbæjarins vera hræddir og óttaslegnir. Eru íbúar miðbæjarins orðnir svo veikgeðja að þeir væru ginnkeyptir fyrir þriðja álverinu? Nei, þar mæta menn sjálfsagt verkefninu af festu og ábyrgð. Eins og Vestfirðingar.

En sjálfsagt að hafa áhyggjur af geðlagi Vestfirðinga.

Irónían í orðum Gríms er kannski sú að á meðan Grímur hefur áhyggjur af laxeldi á Vestfjörðum, situr hann í hljóðstofu í rvk sem er föðmuð af tveimur kraftmiklum álverum.

Það hafa margir komið að uppbyggingu Vestfjarða. Þeim hefur farnast misjafnlega. Það veit Grímur, sennilega er það sú vitneskja sem truflar hann í viðtalinu. Hann veit betur.

Vestfirðingar taka sinn tilvistadans við undirleik örlaganna. Stundum eru hreyfingarnar þungar og kraftmiklar, og stundum léttar og dúnleikandi.

En aldrei verður óttinn dansfélagi.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Laugardagur 16.7.2016 - 12:13 - FB ummæli ()

Ísafjarðarbær 150 ára – hugleiðing og kveðja

Ég er giska 7 ára á leiðinni vestur. Framundan er sumardvöl hjá frændfólki. Fram að þessu hafði ég lært að veröldin getur verið hættuleg. Bílarnir, kallarnir, sjórinn og allt þetta hitt sem feður og mæður eru verndandi fyrir.

Mánuður á Ísafirði og viðhorfið hafði breyst.

Ég labbaði sjálfur niður í bæ og keypti mér snúð með hörðu súkkulaði…og kringlu. Maður lifandi hvað kringlur er vont fyrirbæri nema fyrir vestan. Þar eru þær bakkelsi guðanna. Ég lá fram á bryggjukantinn í Hnífsdal, veiddi manna og húkkaði kola. Hjólaði síðan heim í einfaldri röð, Steini á undan til að láta mig vita af stórum bílum.

Viðhorfið hafði breyst. Lífið var frelsi, veröldin víð og ævintýrin sönn.

Ég er giska 19 ára borgarbarn á leiðinni vestur. Föðurlaus tinkarl í leit að hjarta. Framundan síðasti leggur menntaskólagöngunnar, knattspyrna og þetta sem rúnar alla í framan í tímans rás; ástin, átök og ábyrgð. Stór ákvörðun að flytja vestur og sumpart erfið. Kannski verður engin ákvörðun stærri en sú besta sem þú tekur í lífinu.

Ísafjörður varð mitt leiksvið næstu árin.

Það er engin ástæða að læðast með það sem satt er. Þessi ár fyrir vestan eru mér ekki bara ógleymanleg, ég er vegna þeirra.

Kom með tóman poka.

 • Fór sem stúdent.
 • Fór sem reynslumikill knattspyrnumaður.
 • Fór með tónlist í eyrunum og gítar í kjöltunni.
 • Fór með vini sem duga þar til lífið segir stopp.
 • Fór með félagsmál og pólitík í beinmergnum.
 • Fór með skýra hugmynd um hver ég vildi verða, hvert ég vildi fara.

Viðhorfið hafði breyst. Ég hafði breyst.

Ég er 31 árs á leiðinni vestur á Ísafjörð. Ég er að fara að ljúka knattspyrnukaflanum, loka hringnum. Hér fékk ég tækifærið, hér varð ég fyrst fyrirliði, hér lýk ég sem fyrirliði.

Ég er enn fyrir vestan.

Ég er auðvitað smátt korn í tímaglasi Ísafjarðarbæjar. Eitt af þúsundum sem bærinn hefur nært og nostrað við. Sumir staldra stutt við, sumir allt lífið.

Takk fyrir hjartað. Til hamingju með afmælið.

150 ár er afar merkilegur áfangi fyrir hvert bæjarfélag. Ísafjarðarbær hefur glæsta sigra, þungar sorgir, magnaða sögu ólíkra þéttbýliskjarna, stórbrotna menningararfleið og iðandi íþróttalíf í sínum sögu handritum.

Hlutverk Ísafjarðarbæjar í sveitarfélagaflóru Vestfjarða er afar mikilvægt. Hvort sem litið er til stjórnsýslu, menningar eða íþrótta þá er Ísafjarðarbær kompás sem önnur sveitarfélög taka sitt mið af.

Ísafjarðarbær er heimsbær sem hefur í sinni þroskasögu gert veröldina að sínum áhrifavaldi. Þessara áhrifa gætir síðan í lífi og starfi annarra sveitarfélaga á Vestfjörðum, hefur dýpkað þau og gert sterkari. Fyrir það verður seint þakkað nægilega.

Fyrir hönd Súðavíkurhrepps þakka ég Ísafjarðarbæ fyrir samfylgdina, óska sveitarfélaginu blessunar um ókomin ár og kalla kveðjuna yfir: Ísafjarðarbær lengi lifi, húrra!

Gleðilegt afmæli.

Pétur G. Markan
Sveitarstjóri Súðavíkurhrepps

Flokkar: Óflokkað

Miðvikudagur 1.6.2016 - 09:47 - FB ummæli ()

Vestfirðir í kastljósi ríkisstjórnarinnar

Á ríkisstjórnarfundi þriðjudaginn 31. maí var tillaga forsætisráðherra um nefnd, Vestfjarðarnefnd, sem ætti að vinna aðgerðaráætlun fyrir Vestfirði samþykkt. Nefndinni verður ætlað að starfa í samneyti við önnur ráðuneyti og Fjórðungssamband Vestfirðinga.

Þessari tillögu forsætisráðherra og samþykkt ríkisstjórnarinnar er tekið fagnandi af Fjórðungssambandi Vestfirðinga, hér eftir nefnt FV, enda tilurð og forspil nefndarinnar runnið undan rifjum FV. Þann 15. febrúar segir svo í fundarsamþykkt FV:

“ Stjórn FV óskar eftir að ríkisstjórn skipi nefnd um aðgerðir á Vestfjörðum sem lúti að fjárfestingu, verkefnum stofnana og búsetuskilyrðum á Vestfjörðum. Meginmarkmið er að skapa aðstæður í samfélögum og atvinnulífi til að geta nýtt auðlindir svæðisins og skapa vöxt til framtíðar en með sjálfbærni að leiðarljósi. Skipan nefndarinnar verði með þeim hætti að í henni sitji að lágmarki þrír fulltrúar sveitarfélaga á Vestfjörðum. Komi einn fulltrúi frá skilgreindum atvinnu og þjónustusvæðum á Vestfjörðum, það er, einn frá norðursvæði, einn frá suðursvæði og einn frá sveitarfélögum á Ströndum og Reykhólahreppi.“

Það er því ánægjuefni að undirbúningur nefndarinnar sé komin af stað með samþykki ríkisstjórnarinnar. Eins og kemur fram í bókun stjórnar FV er gert ráð fyrir að lágmarki þremur fulltrúum frá sveitarfélögum á Vestfjörðum. Það þýðir að aðkoma Vestfirðinga verður tryggð í vinnu nefndarinnar, sem og þau verkefni sem FV hefur unnið að verði höfð að leiðarljósi.
Fjórðungssamband Vestfirðinga ber miklar vonir til að afurð nefndarinnar verði nægilega kröftug til að hafa afgerandi jákvæð áhrif á þá byggðaþróun sem átt hefur sér stað á Vestfjörðum undanfarið. Þau verkefni sem stjórn FV nefndi í minnisblaði til ríkisstjórnarinnar eru skýr, afmörkuð og hafa hvert og eitt burði í sér til að vera leikbreytir, úr vörn í sókn.

Það er afar ánægjulegt að forsætisráðherra, Sigurður Ingi Jóhannsson ætli sér að setja Vestfirði undir sitt kastljós. Fjórðungurinn hefur kallað og ríkisstjórnin svarað.

Um þessa ánægjutilfinningu má hafa mörg orð. Hér verður reynt að lýsa henni í fáum orðum. Í hinu víða samhengi landsbyggðarinnar má segja að í þessu sértæka verkefni vakni von um að meiri pólitískur kraftur fari í byggða- og landsbyggðamál á næstu misserum. Málefni landsbyggðarinnar færist úr hugmyndafræði hjálparstarfs yfir í markvissa uppbyggingu landsins, þar sem byggðajafnrétti, hagsemi og sjálfbærni ráða för.

Ef sjónarhornið er þrengt að Vestfjörðum þá hefur fjórðungurinn verið í vörn, sem hefur aðeins gefið eftir, með tilfallandi ágjöf og pressu. Neikvæð íbúaþróun, minnkandi verðmætasköpun og mædd hagvaxtarþróun sem fylgir ekki landsmeðaltali er lýsing á ástandi sem lætur nærri. Ástandi sem er langt frá eðlilegt fyrir jafn gjöfult svæði. Með eðlilegu inngripi og átaki hins opinbera verður þessari þróun hrundið til baka. Ánægjan felst í því upphafi sem nefndin getur markað.

Það er afar mikilvægt að næstu skref verði fumlaust og markviss, nefndin komi hið fyrsta saman og leggi fram öfluga aðgerðaráætlun fyrir komandi haust. FV mun setja sína dáðustu menn í nefndina sem munu leggja til þekkingu, seiglu og aðhald, svo hvergi verði kvikað frá markmiðum og loforðum.

Flokkar: Óflokkað

Þriðjudagur 12.1.2016 - 12:11 - FB ummæli ()

Sameiginlegir hagsmunir

Það er fagnaðarefni þegar að góðar fréttir berast vestur frá Alþingi Íslendinga.

Nú er það staðfest að 15 milljónum hefur verið varið á fjárlögum næsta árs til að kosta undirbúningsvinnu við hringtengingu raforku Vestfjarða.  Það vel og þessu ber að fagna.

Hringtenging raforku á Vestfjörðum er lykilatriði og ein af forsendum fyrir því að hér verði viðsnúningur í atvinnulífi og menningu. Snúið verði frá þeirri þróun sem lýst í skýrslu byggðastofnunnar, þar sem fjallað er um hagvöxt landshluta 2009 – 2013, en þar segir m.a.;

„Mest dróst framleiðsla saman á Suðurnesjum og á Vestfjörðum frá 2009 til 2013, eða um 11-12%. Einkum virðist vera ástæða til þess að hafa áhyggjur af þróun mála á Vestfjörðum. Samtals hækkuðu launagreiðslur þar 10% minna en laun á landinu öllu. Á sama tíma fækkaði fólki á Vestfjörðum um 5%. Vísbendingar eru um að höfuðatvinnugreinin, sjávarútvegur, standi höllum fæti í þessum landshluta. Framleiðsla hefur lengi dregist saman á Vestfjörðum, dráttur í sjávarútvegi virðist vera meginskýringin á falli framleiðslu á Vestfjörðum undanfarin ár, en þar hafa byggingar, fjármálaþjónusta og skyldar greinar einnig dregist mikið saman.“

Lýsing skýrslunnar talar einfalt og skýrt mál. Hér þarf átak og samhentan vilja til breytinga. Vestfirðingar eiga auðlindir, og nú þarf átak til að treysta og byggja upp innviðina svo hér verði hægt að nýta þær til fullnustu.  Skapa hér kröftugri aðstæður til athafna og menningar, fjölgunar og allrahanda hagvaxtar.

Hringtenging raforku á Vestfjörðum spilar þar langan og fallegan sólókafla í tónverki sem verður söngur Vestfjarða inn í komandi framtíð.

Hringtenging Vestfjarða mun án efa veita stórum fjárfestingarverkefnum verkefnum brautargengi, eins og komið hefur fram í atvinnuuppbyggingarumræðu síðustu missera.  Uppbygging innviða svæðisins er forsenda nýrra tækifæra í atvinnumálum Vestfjarða.

Uppbygging atvinnumála á Vestfjörðum snýst ekki um einstök sveitarfélög eða einstaka menn. Heldur einstakt svæði, Vestfirði.  Hér viljum ala manninn, fjölga okkur og rækta framtíðina. Til þess þurfum bærilegar aðstæður, til jafns við aðra landsmenn.

Framundan er samráðsfundur sveitarfélaga á Vestfjörðum. Þar verður væntanlega rætt af festu um raforkumál Vestfirðinga, þá hringtengingu Vestfjarða.  Hér þurfum við að tala einni röddu, enda sameiginlegt hagsmunamál okkar allra, fyrir einstakt svæði.

Flokkar: Óflokkað · Stjórnmál og samfélag

Sunnudagur 1.11.2015 - 16:42 - FB ummæli ()

Um draum um straum, byggðajafnrétti eða sjálfstæði.

Árið 1984 var vinnu við hringtengingu háspennulínu í kringum landið lokið. Við sama tækifæri sagði þáverandi forsætisráðherra að næsta verkefni væri að koma Vestfjörðum í hringsamband. Gott ef hann nefndi ekki mögulega atvinnuuppbyggingu í leiðinni sem því myndi fylgja.

Svo leið tíminn.

Fólkið beið og tíminn leið.

Árið 2015 er farið að sjá í endann á sjálfur sér og ef guð lofar tekur árið 2016 við. Og við höldum áfram að ströggla. Kveinum þegar rafmagnslaust er. Þusum þegar þolanlegt er. En erum aldrei jafnfætis öðrum landshlutum þegar kemur að grunngerð og stoðkerfi. Aldrei.

Krafa Vestfirðinga er einföld og skýr; Við viljum búa við sömu tækifæri, sömu grunngerð og sama stoðkerfi og aðrir landshlutar. Ölmusur afþakkaðar. Jafnræðis krafist. Byggðajafnréttis!

Í samþykktri ályktun á síðasta Fjórðungsþingi Vestfjarða kom eftirfarandi fram: „60. Fjórðungsþing Vestfirðinga haldið á Patreksfirði 2.-3. október 2015 krefst þess að ríkisstjórn og Alþingi leggi strax til sérstakt fjármagn til að vinna kerfisáætlun fyrir raforku- og gagnaflutninga á Vestfjörðum. Meginmarkmiðið er að tengja virkjun Hvalár í Ófeigsfirði, og aðra hugsanlega virkjunarkosti í Ísafjarðardjúpi, við öll byggðarlög á Vestfjörðum. Virkjun Hvalár verður þannig forsenda nýrrar atvinnuuppbyggingar á svæðinu um leið og afhendingaröryggi raforku er tryggt.“

Setjum ályktunina inn í vestfirskan raunveruleika. Vestfirðir búa við mikið magn fjölbreyttra náttúruauðlinda. Ein þeirra er kalkþörungur. Lifandi rauðbleik vera sem þrífst m.a. í Ísafjarðadjúpi. Með tímanum situr eftir hvít stoðgrind sem er rík af kalki og öðrum steinefnum. Ný verðmæti, ný störf og ný tækifæri.

Nú eru menn og fjárfestar tilbúnir að virkja þessa auðlind, fjárfesta í henni, skapa verðmæti og störf. Svæði sem sárlega vantar hagvöxt, verðmætasköpun og jákvæða íbúaþróun og býr við seilingarfjarlægð við auðlindina. Er ekki lausnin fundin? Það er allt klárt. Stærsta einstaka fjárfesting inn á vestfirskt efnahagssvæði um áratugabil. Sennilega sú stærsta í sögunni.

Nei.

Stutta svarið er það að Vestfirðir búa ekki við sömu aðstæður og aðrir landshlutar.

Vestfirðir búa ekki við einfaldar grunnaðstæður til að vinna úr sínum eigin auðlindum.

Það vantar að tryggja afhendingu raforku. Verkefnið þarf mest 10 mw. Í Álftafirði, Súðavík er ekki hægt að afhenda nægilega raforku. Dreifikerfið er getulaust, gamalt og grautfúið. Þessi náttúruhreina guðsgjöf sem við Íslendingar eigum svo nóg af að ef við viljum selja restina til Bretlands er það ekkert mál. Það virðast allir eiga nóg nema Vestfirðir…og Bretland. En menn eru samt að ræða úrlausnir fyrir Bretana. Það er ekki hægt að tryggja afhendingu á 10 mw til vinnslunnar. Þar stranda vestfirsk verðmæti, vestfirskur hagvöxtur og vestfirsk störf. 10 mw!

Setjum 10 mw í samhengi. Sveitarfélög á norðurlandi vestra vinna að álversverkefni. Orkuþörf verkefnisins er 206 mw. Hvernig geta menn verið svona brattir með orkukrefjandi verkefni? Jú, þeir búa við sambærilega grunngerð og meirihluti landsmanna, lesist, allir aðrir en Vestfirðingar, og því eiga þeir möguleika á að afhenda þetta magn. Ég fagna því og krefst þess sama.

Að tengjast orkulandsneti Íslands í báðar áttir, að búa við sambærilegt dreifikerfi og eiga sama möguleika á atvinnuuppbyggingu sem nýtir vestfirskar auðlindir í sinni sköpun er ekki áskorun til stjórnvalda, heldur valkostur. Það eða vestfirskt sjálfstæði.

Vestfirskt sjálfstæði…

…eða bylting í byggðajafnrétti sem hefst á hringtengingu háspennulínu til  Vestfjarða samhliða virkjunarframkvæmdum í Hvalá og vonandi tengdum virkjunum.

Byrjum á rafmagninu og svo bíða aðrir málaflokkar spenntir eftir úrlausn.

Mér er alvara og þekki tæplega 7 þúsund aðra sem eru að hugsa það sama.

Höfundur er sveitarstjóri Súðavíkurhrepps og stjórnarmaður í Fjórðungssambandi Vestfjarða.

 

 

 

 

 

 

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Höfundur

Pétur Georg Markan
Höfundur er sveitarstjóri Súðavíkurhrepps og formaður Fjórðungssambands Vestfirðinga.
RSS straumur: RSS straumur