Miðvikudagur 09.03.2016 - 17:06 - FB ummæli ()

Vöggugjöfin VII – Arsenik

Meðan bjórinn var bannaður með lögum var glæpur að brugga hann, glæpur að kaupa hann, gæpur að halda á flöskunni, glæpur að færa stútinn að vörunum, glæpur að súpa á honum og glæpur að kyngja honum. Hver einasti maður sem það gerði var sannkallaður glæpamaður, brotlegur við lögin í landinu. Á hinn bóginn var viskí á klaka algengur og sjálfsagður drykkur í glösum landsmanna. Sömuleiðis romm í kók. En bjórinn — maður minn! Bjórinn var vondi kallinn, grimmur djöfull með svartan hatt, andstæðingur heilbrigðis og góðra lífshátta sem brá fæti fyrir veikgeðja einstaklinga á hverju götuhorni. Löggjafinn var kórstjórinn sem sló tóninn í þessum yndislega baráttusöng og samfélagið söng með. Söngurinn var lengi vel kyrjaður af mikilli innlifun og sannfæringu. Bjórinn var jafnvel verri en arsenik!

JM&HKL

1984 lagði ungur varaþingmaður, Jón Magnússon, fram enn eitt frumvarpið (gat nú verið!) á Alþingi um að leyfa bjór ásamt nafna sínum Jóni Baldvini Hannibalssyni. Þegar þetta var, var baráttusöngurinn um grimma djöfulinn með svarta hattinn af einhverjum óskiljanlegum ástæðum orðinn máttlausari og minna sannfærandi. Sem betur fer heyrðist þó enn hátt í útvöldu snillingunum sem eins og fyrr vissu best hvað öðrum er fyrir bestu, betur en þeim sjálfum, og höfðu bæði vald og aðstöðu til að koma fram vilja sínum.

Í framsöguræðunni vitnaði Jón Magnússon í sögu eftir Halldór Laxness. Sagan, eða öllu heldur fimmaurabrandarinn, birtist í Guðsgjafaþulu. Það var verið að afferma bát á Djúpuvík. Grunur lék á og almannarómur taldi að smyglvarningur, meðal annars bjór, væri í bátnum. Í tunnu sem skipað var upp var efni sem tveir verkamenn héldu að væri bjór í föstu formi. Mennirnir neyttu efnisins og dóu báðir. Í fréttum Ríkisútvarpsins var sagt að mennirnir hefðu orðið bráðkvaddir af bjór á ritstjórnarskrifstofu verkamannablaðsins Norðurhjarans á Djúpuvík. Um misskilning var að ræða þar eð efnið sem talið var bjór í föstu formi var í raun arsenik. Ritstjórinn sendi leiðréttingu til Ríkisútvarpsins, en áður en leiðréttingin kom fram barst blaðinu skeyti frá Landssambandi kvenfélaga í sveitum gegn bjórflutningi til Íslands. Í skeytinu sagði:

Hr. ritstjóri,
sakir voveiflegrar morgunfréttar í­ útvarpinu í­ dag, þess efnis að tveir verkamenn hafi orðið bráðkvaddir af bjór á ritstjórnarskrifstofu verkamannablaðsins Norðurhjarans á Djúpví­k í­ morgun, leyfum vér oss að láta í­ ljós skelfí­ngu vora útaf lí­fshættulegum drukk sem ógnar eiginmönnum vorum og sonum. Vér treystum yður að gefa í­ blaði yðar fullnægjandi skýringar á þessu voðalega atviki. Vér krefjumst þess í­ nafni heilsu og velferðar í­slensku þjóðarinnar að þessum óttalega vökva verði helt niður í­ niðurhellí­ngarstöðinni á Akureyri.

Undir skeytið rituðu 25 konur.

Ritstjórinn sendi Kvenfélagasambandinu svarskeyti með leiðréttingu:

Háttvirtu frúr:
Það var ekki bjór, heldur arsenik.

Virðingarfyllst, ritstjóri Norðurhjarans, Djúpví­k.

Svar barst frá Kvenfélagasambandinu:

Til herra ritstjóra blaðsins Norðurhjara, Djúpví­k.
Guði sé lof það var bara arsenik.

Stjórnin.

(Guðsgjafaþula, bls. 259-26, útg. Helgafell 1972.)

Hvað frumvarp Jónanna áhrærir þá urðu örlög þess þau sömu og allra sem á undan komu. Það var svæft í nefnd. Bjórandstæðingar fögnuðu enn einum varnarsigrinum.

Flokkar: Dægurmál · Menning og listir · Spaugilegt · Stjórnmál og samfélag

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Sigurgeir Orri Sigurgeirsson
sögumaður. Sagði söguna af Alfreð Elíassyni og Loftleiðum í samnefndri heimildarmynd og Árna Sam. í SAM-bíóunum í bókinni Á fullu í 40 ár.
RSS straumur: RSS straumur