Sunnudagur 03.03.2013 - 11:52 - Lokað fyrir ummæli

Hið rétta Stefán Ólafsson ofl.

Stefán Ólafsson prófessor er eins og aðrir prófessorar er telja sig vita mikið og getað talað að einhverju viti þó oft sé um hálfsannleika að ræða. Það er oft svo margt skilið eftir, því miður.

Það sem vantar inn í pistil hans á Eyjunni í dag er umræða um svokallaðan vergan sparnað, þ.e. sparnað án lífeyrissparnaðar sem hlutfall af ráðstöfunartekjum heimila og þróun hans m.v. fjárfestingu t.d. í fasteignum bifreiðum og öðru lausafé eins og raftækjum ofl.

Á árunum 1999 til 2003 rannsakaði ég sparnað og fjárfestingu á Íslandi á árunum þar á undan fyrir fjármálastofnun á Íslandi og hefur Seðlabanki Íslands þessa skýrslu í bókasafni sínu þar sem fræðimenn geta nálgast hana, greint og lesið.

Árið 2003 birtist svo grein pistlahöfundar og MBA námsfélaga í Vísbendingu varðandi fyrirsjáanlega markaði og fjallaði hún einnig um sparnað og fjárfestingu, þ.e. vergan sparnað sem er sparnaður án lífeyrissjóða sem hlutfall af ráðstöfunartekjum. Var greinin byggð á sömu rannsóknum og skýrslan sem getið er hér að framan.

Sjá mátti að eyðslan (bruðl með sparnað, a.m.k. að stórum hluta) í raftæki og bifreiðar (ath. flotinn þarf samt ávallt að endurnýjast – en þurfum við 2 bíla á fjölskyldu?) hafði um 6 mánaða töf áður en sparnaðurinn hitti markaðinn í formi neyslu á Íslandi á árunum þar á undan, þ.e. fyrir 2001. Um 12 mánuði eða svo tók það almenning, sem hafði seðjað langanir sínar (hugsanlega af einhverri nauðsyn) í neyslu 6 mánuðina þar á undan, að fara í að fjárfesta í fasteignum eða viðhaldi á þeim. Svona er og var hegðunin, neyslan og eyðsla sparnaðar á Íslandi, a.m.k. árin fyrir hrun.

Lögmálin láta ekki að sér hæða í þessum efnum og við, við öll, vitum þetta mæta vel enda þátttakendur í þessu. Ekki hjálpaði uppá sparnaðinn og hagstjórnina þegar Framsókn sá til þess að auka á tekjumörk viðbótarlánanna á árunum 2001 til 2003 en það jók á verðbólguna. Ekki var það krónan sem stýrði því ferli heldur Framsóknarflokkurinn.

Svo komu 100% lánin og síðan fór Framsókn í yfir 100% veðsetningu yfir brunabótamati og síðan fór Jóhanna í að bæta í og skora á fólk að taka verðtryggð lán í meira mæli 2007 eða rétt fyrir hrun. Ekki má gleyma núverandi formanni Samfylkingarinnar sem gaf fyrir hrun út lögfræðiálit þess efnis að Íbúðarlánasjóður gæti aðstoðað SPRON og aðra sparisjóði að stækka efnahagsreikning sinn með ólögmætum lánum. Svo er það þetta lið með Stefán Ólafsson prófessor í broddi fylkingar fræðimannaelítunnar þeirra sem segja svo að þetta sé stjórnarskránni að kenna og krónunni.

Brennuvargarnir kenna eldspítunum og hálminum um eldinn.

Þetta var ekki heilbrigt ástand, var það? Viljum við aftur í þetta far? Hafa vinstri- og miðjuflokkar ekki haft ráð á ráðuneyti félagsmála og nú velferðar í áratugi? Hverjir hafa farið svona að ráðum sínum Stefán Ólafsson prófessor og sérfræðingur um fátækt á Íslandi?

Á þessum tíma endurfjármagnaði fólk sig, skuldsetti sig meira í boði Framsóknar, fór til útlanda og keypti sér nýjan bíl og húsvagn. Sumir fóru í að byggja sumarhús í miklum mæli. Er þetta búsældarleg þróun? Nei, það er það ekki.

Með þetta fór pistlahöfundur til ráðherra og benti á að það þyrfti að auka sparnaðarleiðir til að dreifa þessu ,,álagi“ á hagkerfið og ýta þannig undir sparnað t.a.m. með leiðum í gegnum skattkerfið. Þetta var árið 2001, 2003, 2004 og síðar með fundum innan ráðuneyta og hjá fræðimönnum innan Háskóla Íslands.

Ekkert gerðist.

Ekki fyrr en nú þegar Bjarni Benediktsson gekk af landsfundi með gríðarlega sterkt bakland og stefnu Sjálfstæðisflokksins sem gengur út á að aðstoða fólk út úr skuldavandanum með því að auka skattaívilnanir svo fólk geti lækkað skuldir sínar en það að lækka skuldir er sparnaður.

Þetta skilja bara ekki allir og eru ekki að eyða tíma sínum í annað en að hrópa, æmta og skræmta auk þess sem að fara með hálfsannleika inn í umræðuna nú rétt fyrir kosningar.

Hér þarf að eiga sér stað vitundarvakning varðandi sparnað rétt eins og í umræðu um notkun öryggisbelta, umferðarhraða og heilsusamlegs lífernis. Ég hef trú á að fólk vilji stjórnmálamenn sem ætla að hefja slíka herferð enda ekki vanþörf á.

Svona er þetta, svona var þetta og lái mér hver sem vill.

Hér þarf að jafna hagsveifluna, auka sparnað og efla atvinnulíf samhliða. Þá er það ekki krónan sem er vandinn heldur hvernig er á málum haldið. Hver veldur sem á heldur í þessu efni.

Þar sem ég þekki Stefán sem velviljaðan fræðimann í leit að sannleikanum setti ég inn linka svo hann og aðrir geti nálgast efnið sér til fróðleiks.

Vöndum umræðuna fyrir framtíðar kynslóðir þessa lands.

Njótið heil.

 

Flokkar: Stjórnmál og samfélag · Viðskipti og fjármál

«
»

Lokað fyrir ummæli.

Höfundur

Sveinn Óskar Sigurðsson
MSc í fjármálum frá Háskóla Íslands og MBA í viðskiptum frá sama skóla auk BA í heimspeki og hagfræði. Áhugamaður um að efla skólastarf, hagræða í opinberri stjórnsýslu og að þar sé ávallt sýnt aðhald, ráðdeild og sparnaður. Helstu áhugamál mín eru ferðalög með fjölskyldunni, stangveiðar, skíðaiðkun og opinber umræða.
RSS straumur: RSS straumur