Mánudagur 05.05.2014 - 18:07 - Lokað fyrir ummæli

Hanna Birna og leki

Nú hafa niðurrifsöfl á Íslandi tekið sig saman ásamt sundirlyndisfjandanum og ráðist á Hönnu Birnu Kristjánsdóttur ráðherra innanríkismála. Það sem hún á að hafa til sakar unnið er að koma gögnum úr ráðuneytinu í fjölmiðla, gögnum sem hefðu ekki átt að rata í fjölmiðla.

Galgopar og æsingafólk allt hefur verið kallað saman til að reyna að eyðileggja orðspor Hönnu Birnu.  Hanna Birna hefur staðið sig vel í stjórnmálum og gert allt til þesss að framgangur þessa máls sé þannig að fólk geti brátt séð niðurstöðu lögreglurannsóknar varðandi það.

En Merði Árnasyni og fleirum er svo óskaplega mál að ekki er hægt að bíða eftir því að lögreglurannsókn ljúki. Nýlega birti Hæstiréttur upplýsingar vegna málsins og þar mátti rekja klukkan hvað skjalið var búið til og rakið hvenær það birtist í fjölmiðlum.

Hvers vegna ræðir enginn það að hugsanlega var verið að vísa úr landi manni sem tekið hefur þátt í mansali?

Hvað er mansal? Er það ekki verslun með fólk, þrælasala og glæpamennska?

Pistlahöfundur þekkir vel til flóttamanna og fólks sem hefur mátt þjást undir margvíslegum kringumstæðum. Pistlahöfundur telur sig þekkja vel til Afríku og þeirra mála sem varða aðstöðu og afkomu fólks sem flokkast sem flóttafólk.  Eitt sinn í París var setið til borðs með flóttamanni sem týndist í frumskógi í 20 ár. Flestir til borðs höfðu verið flóttamenn áður en ekki nokkur maður verið glæpamaður, stundað mansal eða þrælasölu.

Hvar sem er í veröldinni þjáist fólk og á erfitt. Á Íslandi verður að gæta að því, eins og í öðrum ríkjum, að þegar við tökum á móti flóttafólki þá gerum við það á okkar forsendum og þeim forsendum að um mannúðarmál sé að ræða og að viðkomandi hafi ekki gerst brotlegur. Einhver getur haft samúð með þeim sem hafa rænt til að hafa ofan í sig og á. Einnig má hafa samúð með þeim sem hafa verið píndir til vondra verka.

Allt þetta er sorglegt og erfitt að eiga við. Hins vegar getum við ekki stuðlað að því að aðilar sem eru glæpamenn og hafa stundað mansal gangi framar þeim flóttamönnum, varðandi dvalarleyfi á Íslandi, sem hafa beðið lengi og hafa væntanlega betri málstað að verja en sá sem hefur stundað mansal.

Þrátt fyrir að margt megi betur fara hjá Útlendingastofnun og Innanríkisráðuneytinu, t.a.m. að ráða fleiri sérfræðinga af erlendum uppruna, flýta málum og laga símsvara embættanna, má ekki víkja frá ákveðnum frumforsendum varðandi gögn og hælisleitendur.

Það er mjög alvarlegt að gera fólki það að brjóta lög áður en dómur er fallinn eða rannsókn er lokið. En þar sem Mörður og fáeinir aðrir þingmenn á vinstri vængnum hafa nú fundið hér ,,gott mál“ að djöflast í og vega sig upp á er rétt að taka allt það sem frá þessu fólki fer með fyrirvara. Hins vegar er aðhaldið nauðsynlegt og af hinu góða þeim sem vammlaus er.

Ég tel að Hanna Birna Kristjánsdóttir muni koma sterkari út úr þessari rimmu.

Bíðum hæg þar til rannsókn er lokið.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

«
»

Lokað fyrir ummæli.

Höfundur

Sveinn Óskar Sigurðsson
MSc í fjármálum frá Háskóla Íslands og MBA í viðskiptum frá sama skóla auk BA í heimspeki og hagfræði. Áhugamaður um að efla skólastarf, hagræða í opinberri stjórnsýslu og að þar sé ávallt sýnt aðhald, ráðdeild og sparnaður. Helstu áhugamál mín eru ferðalög með fjölskyldunni, stangveiðar, skíðaiðkun og opinber umræða.
RSS straumur: RSS straumur