Sunnudagur 07.10.2012 - 14:40 - FB ummæli ()

Þegar Afríka vaknar

Í velheppnaðri gönguferð á fjöll er fátt skemmtilegra en að hugsa um tindana. Ekki síst þegar maður er staddur í Norður-Afríku og ófært er vegna snjókomu og ísingar í yfir 4000 metra hæð. Hæsti tindurinn, Toubkal toppurinn sem ferðinni var heitið á, var einmitt í 4167 metra hæð. Í góðra manna hópi undir öruggri farastjórn. Ekkert sem toppar ferðalagið sjálft og samveruna með góðum ferðafélögum, en sjálfir fjallstopparnir og gott eða slæmt veður eru aðeins plúsar og mínusar í heildardæminu. Ekki síst þegar tækifæri gafst að kynnast nýrri menningu í einni svipan, þar sem sterk sólin spilar stórt hlutverk. Ferðalag sem gott að geta iljað sig með minningum síðar og skrifað um, svo fleiri geti notið. Eins til að geta rifjað upp ferðina löngu síðar, jafnvel eftir að fæturnir eru hættir bera mig eins og ég vildi og sem mest á reynir í löngum og erfiðum göngum. Eins þegar maður hugsar til fjarlægra staða, staða sem maður á jafnvel aldrei eftir að koma til, en sem kalla á fleiri ferðir um framandi heima. Því engin ferð er annarri lík, reyndar sem við þekkjum best á landinu okkar góða og sem ekkert toppar. Þegar allt kemur til alls og nægir okkur furðuvel hvað fjallgöngur varðar.

Fresta þurfti uppgöngunni á toppinn og við þurftum að bíða spennt til kvölds eftir nýrri veðurspá með von um að óskin rættist. Sumir í hópnum vildu þó ekki taka óþarfa áhættu á hrakningum og héldu til byggða ásamt múlösnunum okkar átta og fylgdarsveinum, vinum okkar berbunum alla vikuna. Flestir reyndar búnir að fá nóg í sjálfu sér eftir frekar erfiða ferð um fjöllin. Yfir 80 kílómetra vegalengd á misbröttum stígum og samtals yfir 6000 metra hækkun. Þar sem var sofið var í tjöldum og sandstormur var rétt búinn að feykja okkur út í buskan. Ógleymanlegt ævintýri þar sem hver dagur toppaði hvern annan, hver á sinn einstakan hátt. Farið var gjarnan yfir fjallaskörð þar sem þunna loftið var sumum aðeins erfitt. Eins um djúpa heita dali og gegnum öll fjallaþorpin þar sem tíminn virtist víða hafa staðið í stað um aldir. Eins þar sem gafst tækifæri á að fara í sund í einu blágrænu köldu öskjuvatni og þar sem rifjuðust upp íslenskar ferðasögur, m.a. um Öskjuveginn okkar eina og sanna og best sannaðist hvað góð leiðsögn er mikilvægur hluti allra ferðalaga.

Í fjallaskálanum þar sem beðið var og gist hafði veri um nótt nóttina áður, voru ferðamenn frá flestum heimshornum, sem sennilega hugsuðu svipað og ég og samferðamenn mínir. Sumir komu blautir í skálann og var orðið kalt, þótt hitinn á sléttunum undir fjöllunum í nokkra tuga kílómetra fjarlægð frá okkur hafi verið um 38 gráður yfir daginn. Slík getur kólnunnin verð þegar komið er í mikla hæð og fjöllin ein ráða sinni veðráttunni, jafnvel þótt í Afríku sé. Svefnskálinn var þéttsetinn og blaut föt til þerris á öllum hönkum og kojubrýkum. Inn um gluggann laggði síðan svalann viðarreykblandinn andvara sem létti aðeins á þungu og röku loftinu inni fyrir. Fólk spáði í spilin á ólíkum tungumálum og spjölluðu yfir mintute og Marakkóískum snæðingi. Spennan lá í loftinu og hluti af íslenska hópurinum ákvað eftir sameiginlegan fund allra að leggja í hann klukkan 4 um nóttina.

Upplifunin næsta dag var einstök og byrjaði með 2 klukkustunda göngu upp snarbratta fjallshlíðina í svarta myrkri með höfuðljós, en undir samt stjörnunum himinshvolfsins, en þar sem tunglið var í felum bak við fjöllin háu. Kalt var í veðri en lygnt framan af. Hinsvegar frost þegar ofar var komið og töluverður vindur í 4000 metra hæð og tæplega þriggja tíma göngu. Snjór á köflum og hálka leyndist víða á klöppunum. Tímasetningin þegar við komum upp í fjallsskarðið rétt neðan við toppinn gat ekki verið heppilegri. Klukkan orðin sjö og sólin að koma upp við fjölinn í austri. Afríka var að vöknuð til lífsins með sinni djúprauðu undirfögru birtu. Þá gleymdist þreytan og súrefnisskoturinn sem var var aðeins farinn að gera vart við sig.

Fegurðin og stemningin á toppnum var ólík því sem ég hef áður upplifað. Og það var eins og að við Íslendingarnir værum einir í heiminum, enda á undan öllum öðrum hópum þennan morgun. Ofar skýjun í norðrinu en Sahara eyðimörkinni í suðri. Rauð lægri fjöll þar á milli með sinni hvítu snjóföl í efstu fjallstoppunum. Fjöll og landslag svo gjörólík því sem við þekkjum á Íslandi, þótt snjórinn, klappirnar og steinarnir gætu eins vel verið okkar og sem fæturnir þekktu svo vel á leiðinni upp. Þar undir sem rætur okkar sennilega allra liggja. Í fjarlægri heimsálfu sem vaknaði þennan morgun og ég varð vitni af og birtu sem vonandi boðar nýja tíma fyrir okkur öll.

Flokkar: Óflokkað · Dægurmál · Íþróttir · Lífstíll · útivist

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Vilhjálmur Ari Arason
Höfundur er heimilislæknir (1991) en starfar nú á Slysa- og bráðamóttöku LSH. Doktorspróf frá Læknadeild HÍ 2006 og klínískur dósent við Heilsugæslu Höfuðborgarsvæðisins frá 2009 - 2015. Sérstaklega annt um gott og réttlátt heilbrigðiskerfi og skynsamlega notkun lyfja. Hef átt sæti í Sóttvarnaráði sem fulltrúi LÍ, skipaður af heilbrigðisráðherra árið 2013 og 2017.
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn