Þriðjudagur 23.05.2023 - 18:46 - FB ummæli ()

Læknisþjónusta á Hólmavík, í tímans rás

Gamla læknishúsið á Hólmavík, reist 1896-1897.

Eitt elsta húsið á Hólmavík er gamla læknahúsið byggt 1896-1897. Nú hýsir það Kvennfélagið á Ströndum. Fyrsti læknirinn er þangað flutti 1897 var Guðmundur Scheving Bjarnason og sem þjónaði héraðinu til 1909. Annar var Magnús Pétursson sem þjónaði héraðinu frá 1910-1922. Baráttu hans gegn Spænsku veikina er vel getið m.a. í söguriti Strandamanna 1918. Honum ásamt læknum norður í Árneshreppi og í Djúpinu tókst að forða íbúum frá smiti með tilmælabréfum til íbúanna um sóttvarnir. Frægt er að þannig tókst að halda héraðinu smitfríu af völdum Spænsku veikinnar. Berklar voru í upphafi 20 aldar helsti óvinurinn. Margir höfðu auk smitgátar, mikla trú á lækningamætti fjallagrasa, enda meðalaforskrifta gjarnan að leita í grasa- og forskriftarbækur. Næstur kom Karl Georg Magnússon sem var héraðslæknir í Hólmavík 1922-1941. Hann var vel liðinn og tók mikinn þátt í félagsstörfum hverskonar. Eftir hann kemur Valtýr H. Valtýsson og er héraðslæknir til 1947. Hann reyndist Strandamönnum vel, en varð fyrir því áfalli, sem sumir kölluðu þá annan skæðasta sjúkdóm landsins, eftir berklunum og sem tekið var eftir að gætti í æ ríkara mæli. Kransæðastífla (coronary thrombosis), hét sá sjúkdómur nánar tiltekið. Læknar voru í þá daga ekki farnir að átta sig almennilega á þessum skæða sjúkdómi, en sem síðar var farið að beita árangursríkum mótatgerðum gegn, m.a. asperin lyfjameðferð. Þá var Hjartavernd stofnað í þeim tilgangi að hamla á móti þessum nýja vágesti með forvörnum og sem reyndist mjög vel. Tóbaksreykingar var talinn langmesti áhættuþátturinn, ásamt offitu og hreyfingaleysi.

Eini vegurinn suður á þessum árum var um Steinadalsheiði og síðar yfir Tröllatunguháls. Miklir vegatálmar nema þá helst yfir hásumarið yfir í Dalasýslu  og Reykhólahrepp. Lagning Innstrandavegar suður með Húnaflóa var heldur ekki raunin fyrr en um 1950. Á þessum tímum urðu menn því að vera sjálfbjarga að mestu við sín læknastörf.

1950 var tekið í notkun nýtt og veglegt læknishús á Hólmavík og sem talið var þá eitt það stærsta og fullkomnasta á landinu með sjúkrastofum á neðri hæðinni. Eins röntgentækjum búið og læknisstofu og apóteki á neðri hæðinni, auk húsnæðis fyrir hjúkrunarkonu. Á efri hæðinni var læknisíbúðin með fallegu útsýni yfir Steingrímsfjörð og sveitirnar í kring. Erfiðlega gekk þó að ráða lækna til fastar og lengri búsetu. Margir hins vegar ágætir kandídatar og læknar. „Einn kemur þá annar fer og þóttu þessi eilífu læknaskipti vera mikill höfuðverkur fyrir Strandamenn. Ísleifur Halldórsson, læknir var þó kyrr í nokkur ár.“

Í byrjun áttunda áratug síðustu aldar var farið að huga að nýjum læknabústað, enda mikil þörf fyrir gamla læknahúsið til rekstrar sjúkraskýlis. Eins var farið að huga að stækkun þess til að fjölga sjúkraplássum. Áttatíu prósent Íbúa Strandasýslu töldu að mönnunarvandi á lækni í héraði væri eitt alvarlegasta byggðarmálið, enda héraðið oft á tíðum læknislaust. Nýr læknisbústaður var síðan loks byggður 1977 og sjúkraskýlið (gamli læknisbústaðurinn) stækkað síðan með viðbótarbyggingu 2003. Ný og fullkomin Heilsugæslustöð var vígð 1985. Enn vantaði samt oft lækna. Sameining heilbrigðisstofnunar Hólmavíkur við Heilbrigðisstofnun Vesturlands (HVE) átti sér síðan stað með lögum árið 2008.

Heilbrigisstofnun HVE, Hólmavík. Dvalarheimili aldraða (gráa álman, læknishúsið „nýja“ (1950) heilsugæslan (vígð 1985), sjúkrabílageymslan og nýi læknisbústaðurinn (1977) ofan við.

Sigfús Ólafsson var fastur læknir á Hólmavík (1990-2000) sem segja má hafi helgað sig mest allra í áhrifaríkum forvarnaraðgerðum gegn hjarta- og æðasjúkdómum með tengslum við íþróttir og gönguhvatningu til handa Strandamönnum. Síðan kom Guðmundur Sigurðsson, læknir (2004-2016) og var góður hvalreki fyrir Strandamenn. Fastur hópur ákveðinna lækna hefur sinnt afleysingum og mannað alla lausa tíma frá árinu 2001. Þar á meðal undirritaður sl. 26 ár. Íbúafjöldinn hefur verið svipaður sl. öld, þó heldur fækkað sl. ár í héraðinu öllu, eftir töluverða fjölgun upp úr miðri síðsutu öld. Umferðaþungi þó margfaldast enda liggur þjóðleiðin til Ísafjarðar gegnum héraðið og ferðamannafjöldi þúsundfaldast, sérstaklega á sumrin. Enn er þó aðeins einn sjúkrabíll tiltækur með tveimur frábærum sjúkraflutningsmönnum með grunnmenntun í bráðalæknisfræði, en hjúkrunarfræðingur hefur ekki fengist til fastra starfa sl. ár. Samt frábærir sjúkraliðar og sem sumir ganga í flest störf. Flestir reiða sig á hjálp björgunarsveitarinnar Dagrenningar, þegar mikið liggur við. Strandasýsla hefur um árabil samt verið skilgreind sem brothætt byggð hjá stjórnmálamönnunum.

Sjúkraskýlið (sjúkrahúsið) en nú eingöngu skilgreint sem öldrunarstofnun, dvalarheimili aldraða sem fengið hafa vistunarmat. Sjúkraflutningar landleiðina suður á Akranes eða til Reykjavíkur eru í dag yfir 100 talsins á ári, enda ekkert sjúkrahús á staðnum fyrir bráðainnlagnir. Sjúkraflutningur frá Hólmavík tekur u.þ.b 5-6 klukkustundir og stundum jafnvel læknislaust á meðan í héraðinu sem nær 100 km í norður, suður og vestur frá Hólmavík. Innviðirnir þannig í raun brothættari að mörgu leiti en fyrir meira en öld síðan!!

Tilvísanir:

Grein Guðmundar Hraundal í lesbók Mbl 5.júni 1966

https://blog.dv.is/vilhjalmurari/2020/12/07/aldarspegillinn-a-strondum/

https://blog.dv.is/vilhjalmurari/2016/09/09/saga-storhuga-a- strondum/

https://blog.dv.is/vilhjalmurari/2018/03/15/throttmiklir-a-strondum/

https://blog.dv.is/vilhjalmurari/2020/10/04/kortin-hans-fusa/

https://blog.dv.is/vilhjalmurari/2016/11/01/thjodbrautin-um-innra-djup-og-strandir/

 

 

 

 

Flokkar: Óflokkað · Bloggar · Dægurmál · heilbrigðismál · Stjórnmál og samfélag

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Vilhjálmur Ari Arason
Höfundur er heimilislæknir (1991) en starfar nú á Slysa- og bráðamóttöku LSH. Doktorspróf frá Læknadeild HÍ 2006 og klínískur dósent við Heilsugæslu Höfuðborgarsvæðisins frá 2009 - 2015. Sérstaklega annt um gott og réttlátt heilbrigðiskerfi og skynsamlega notkun lyfja. Hef átt sæti í Sóttvarnaráði sem fulltrúi LÍ, skipaður af heilbrigðisráðherra árið 2013 og 2017.
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn