Miðvikudagur 14.03.2018 - 12:00 - Lokað fyrir ummæli

Stöðugleikasáttmáli alþýðunnar

Í dag eru einungis 292 dagar eða nánar til getið 9 mánuðir þar til kjarasamningar á hinum almenna vinnumarkaði renna út.

Það er morgunljóst að landslagið í íslenskri verkalýðshreyfingu hefur gjörbreyst á liðnum misserum og dögum, fyrst með kjöri Ragnars Þórs til formanns VR og núna síðast með kjöri Sólveigar Önnu til formanns Eflingar.

Eins og fram hefur komið í fréttum þá hafa formenn VR, Verkalýðsfélags Akraness og nýkjörinn formaður Eflingar verið funda að undanförnu og bera saman bækur sínar og það er ljóst að þessi félög mynda nú þegar meirihluta innan ASÍ.

Það liggur líka fyrir að formenn þessara stéttarfélaga munu alls ekki láta forystu ASÍ leiða komandi kjaraviðræður fyrir sína hönd enda hafa félagsmenn þessara stéttarfélaga og reyndar fleiri stéttarfélaga algerlega hafnað samræmdri láglaunastefnu sem rekin hefur verið undir forystu ASÍ á liðnum árum.

Það liggur einnig fyrir í ljósi niðurstöðu nýafstaðinna kosninga, bæði í VR og Eflingu, að grasrót alþýðunnar hefur kallað eftir því að tekin verði upp markvissari og róttækari verkalýðsbarátta.

Það er ákall um að gert verði þjóðarátak í því að auka ráðstöfunartekjur lágtekjufólks og millistéttarinnar í komandi kjarasamningum og það er kristaltært að á þá kröfu munu áðurnefndir formenn hlusta og fylgja eftir. Það má klárlega halda því fram með rökum að það sé lýðheilsumál að tryggja lágtekjufólki mannsæmandi kjör þannig að það geti haldið mannlegri reisn.

Það verður ekki látið átölulaust að launahækkanir til handa launafólki verði teknar til baka í formi hinna ýmsu skerðinga og jaðarskatta eins og t.d. í formi skerðinga á barnabótum og öðru slíku eins og verið hefur á liðnum árum og áratugum.

Það er ljóst að krafa verður um að samið verði í krónutölum í stað prósentuhækkana enda liggur fyrir að prósentulaunahækkanir eru aflgjafi misskiptingar, óréttlætis og gera ekkert annað en að auka á ójöfnuð í íslensku samfélagi.

Það liggur líka fyrir að gera þarf róttækar kröfur um hinar ýmsu kerfisbreytingar sem lúta að hagsmunum alþýðunnar eins t.d. að skapa heilbrigðan og sanngjarnan húsnæðis- og leigumarkað þar sem hagsmunir fjármálaaflanna verði látnir víkja fyrir hagsmunum almennings. Það verður ekki látið líðast lengur að fjármálakerfið stingi ryksugubarkanum ofaní launaumslag launafólks og sogi stóran hluta ráðstöfunartekna yfir til sín.

Það er einnig á hreinu að kallað verður eftir endurskoðun á lífeyriskerfinu þar sem einnig verði horft á aukna lýðræðisvæðingu og fækkun sjóðanna með það að markmiði að ná niður gríðarlegum rekstrarkostnaði þeirra. Einnig þarf að kalla lífeyrissjóðina að nauðsynlegum samfélagsverkefnum eins og að sjóðirnir stofni lítt hagnaðardrifin leigufélög þar sem launafólki með lágar og miðlungs tekjur verði boðið upp á sanngjarnt leiguverð öllum til hagsbóta.

Það er mikilvægt að Samtök atvinnulífsins og stjórnvöld taki þessa lýðræðisbyltingu og breytingu á samsetningu meirihlutans innan Alþýðusambands Íslands grafalvarlega, því ef ekki verður hlustað á kröfur um kerfisbreytingar og auknar ráðstöfunartekjur lág- og millitekjuhópa þá mun það kalla á mjög róttækar aðgerðir af hálfu þessara stéttarfélaga og það verður látið sverfa til stáls!

Á þeirri forsendu er mikilvægt að taka þarf samtal um þessi mál strax og það er mikilvægt fyrir stjórnvöld að átta sig strax á því að aðkoma þeirra að nýjum stöðugleikasáttmála þar sem hagsmunir alþýðunnar og íslenskra heimila verður í fyrirrúmi er mjög mikilvæg.

Það er gríðarlega mikilvægt að forystumenn Samtaka atvinnulífsins og stjórnvalda hugsi vel út fyrir kassann og rammann til að finna leiðir til þess að hægt sé að ganga hér frá kjarasamningi og forða vinnumarkaðnum frá gríðarlegum átökum í byrjun næsta árs

Á þeirri forsendu er eins og áður sagði mikilvægt að hefja vinnu að nýjum stöðugleikasáttmála sem byggist á hagsmunum alþýðunnar og íslenskra heimila eins fljótt og kostur er og eitt er víst að ekki mun standa á formönnum VR, Eflingar og Verkalýðsfélags Akraness í þeim efnum.

Það liggur algerlega fyrir að áðurnefndir formenn munu berjast með kjafti og klóm fyrir sína félagsmenn til að stöðugleikasáttmáli alþýðunnar verði að veruleika og verði sem hagstæðastur fyrir okkar fólk.

Nú er komið að ögurstundu. Tryggja verður stöðugleika fyrir íslenska alþýðu eigi síðar en núna, en slíku hefur alls ekki verið til að dreifa um alllanga hríð enda ljóst að ráðstöfunartekjur mjög margra duga ekki fyrir nauðþurftum frá mánuði til mánaðar. Við viljum stöðugleika fyrir alla, ekki bara suma og núna er komið að því að tryggja stöðuleikasáttmála fyrir íslenska alþýðu þessa lands!

Flokkar: blogg

»

Höfundur

Vilhjálmur Birgisson
Fæddur 5. ágúst 1965. Fjögurra barna faðir og Skagamaður í húð og hár. Hefur alla tíð unnið verkamannavinnu þar til hann tók við formennsku í Verkalýðsfélagi Akraness 19. nóvember 2003.

Er óflokksbundinn og hefur þá trú að forystumenn í verkalýðshreyfingunni eigi ekki að vera eyrnamerktir stjórnmálaflokkum. Hefur brennandi áhuga þjóðfélagsmálum og segir sína meiningu umbúðalaust.
RSS straumur: RSS straumur

Nýlegar athugasemdir