Sunnudagur 25.03.2018 - 23:00 - Lokað fyrir ummæli

Berjumst gegn græðgisvæðingu

Það er morgunljóst að Verkalýðsfélag Akraness, VR, Efling og Framsýn ætla að leggja ofuráherslu í komandi kjarasamningum að ná tökum á hinum tryllta leigumarkaði, enda liggur fyrir að stór hluti ráðstöfunartekna lágtekjufólks fer í að greiða húsaleigu.

Eins og kemur fram í þessari frétt þá hækkaði vísitala leiguverðs um 10,4% á síðustu 12 mánuðum sem þýðir að fólk sem greiddi 200 þúsund fyrir leigu í febrúar í fyrra þarf að greiða núna 220.800 eða 20.800 krónum meira en fyrir ári síðan.

Rétt er að geta þess að launataxtar verkafólks hækkuðu á sama tíma um 12 þúsund krónur á mánuði og þegar búið er að taka skatta og önnur gjöld þá voru eftir í vasann um 7.000 krónur en á sama tíma hækkaði leiguverð um 10,4% eða af 200 þúsund króna leigu um 20.800.

Það á hvert einasta mannsbarn að sjá að þetta er glórulaust og getur ekki endað nema með skelfingu fyrir þá sem eru á leigumarkaði og svo tala menn um fordæmalausa kaupmáttaraukningu hjá þeim tekjulægstu! Nei það er bullandi kaupmáttarskerðing eins og þetta dæmi sýnir og sannar.

Rétt er líka að geta þess að leiguverð á höfuðborgarsvæðinu hefur hækkað um 81,1% frá janúar 2011 til dagsins í dag á meðan lágmarkslaunataxtar hafa hækkað um 52%

Áðurnefnd stéttarfélög ætla að berjast af alefli fyrir því að koma böndum á þá græðgivæðingu sem er að eiga sér stað á íslenskum leigumarkaði enda er verið að murka lífið úr lágtekjufólki með þeirri okurleigu sem hefur fengið að grassera óáreitt á liðnum árum.

Flokkar: blogg

«
»

Höfundur

Vilhjálmur Birgisson
Fæddur 5. ágúst 1965. Fjögurra barna faðir og Skagamaður í húð og hár. Hefur alla tíð unnið verkamannavinnu þar til hann tók við formennsku í Verkalýðsfélagi Akraness 19. nóvember 2003.

Er óflokksbundinn og hefur þá trú að forystumenn í verkalýðshreyfingunni eigi ekki að vera eyrnamerktir stjórnmálaflokkum. Hefur brennandi áhuga þjóðfélagsmálum og segir sína meiningu umbúðalaust.
RSS straumur: RSS straumur

Nýlegar athugasemdir