Föstudagur 06.04.2018 - 15:00 - Lokað fyrir ummæli

Sjáðu þessi dæmi um græðgisvæðingu!

Já í greinargerð fjármálaáætlunar ríkisstjórnarinnar kemur fram að ríkisstjórnin leggi áherslu á að gott samstarf takist milli stjórnvalda og aðila vinnumarkaðarins til að varðveita efnahagslegan stöðugleika og efla velferð.

Þar segir einnig orðrétt:

„Þannig megi stuðla að farsælli niðurstöðu í kjarasamningum sem varðveiti óvenju mikla kaupmáttaraukningu síðustu ára með hóflegum launahækkunum og skili heimilunum áfram auknum kaupmætti“

Enn og aftur á að reyna að níðast á íslensku lágtekjufólki og það eitt á að bera ábyrgð á ímynduðum stöðugleika. Hvernig á að verja efnahagslegan stöðuleika verkafólks sem tekur laun efir lágmarkstöxtum verkafólks? Lágmarkslaunum og -töxtum sem eru langt undir öllum framfærsluviðmiðum sem hið opinbera hefur gefið út.

Lágmarkstöxtum sem hækkuðu einungis um rétt rúmar 12 þúsund krónur á síðasta ári og nemur lægst taxti verkafólks í dag einungis 257 þúsundum á mánuði! Á sama tíma hækkaði húsaleiga á höfuðborgarsvæðinu um 10,6% og frá árinu 2011 hefur leiguverð hækkað um 81%.Bullandi kaupmáttaraukning segja stjórnvöld hvað lægstu launin varðar, þvílíkt bull því frá árinu 2011 hafa lægstu laun hækkað um 51,7% á meðan leiguverð á höfuðborgarsvæðinu hefur hækkað um 81%. Það er bullandi kaupmáttarskerðing hjá lágtekjufólki enda er stór hluti þess á leigumarkaðnum og þessu til viðbótar liggur fyrir að það er útilokað fyrir lágtekjufólk að framfleyta sér á lágmarkslaunum eins og öll framfærsluviðmið sýna og sanna.

Já svo segir ríkisstjórnin:

Við viljum eiga gott samstarf við aðila vinnumarkaðarins“ og að gera þurfi hóflegar launahækkanir sem skili heimilunum áfram auknum kaupmætti.

Nei við erum ekki að fara að ganga frá hóflegum kjarasamningum á sama tíma og ráðstöfunartekjur verkafólks duga ekki fyrir nauðþurftum frá mánuði til mánaðar.

Við erum ekki að fara að ganga frá hófstillum kjarasamningum á með skattbyrði lágtekjufólks er eins og hún er í dag.Við erum ekki að fara að ganga frá hófstillum kjarasamningum á meðan almenningur þarf að búa hér við okurvexti, verðtryggingu og að húsnæðisliðurinn sé inni í lögum um vexti og verðtryggingu.

Við erum ekki að fara að ganga frá hófstillum kjarasamningum á meðan almenningur þarf að búa við trylltan leigumarkað þar sem okurleiga er látin átölulaus.

Á sama tíma og stjórnvöld kalla eftir að almennt launafólk eitt og sér haldi að sér höndum þegar kemur að því að lagfæra ráðstöfunartekjur sínar þá skammta forstjórar og auðmannselítan sér gríðarlegar launahækkanir, kaupauka og bónusa eins og enginn sé morgundagurinn.Bara þannig að það sé á hreinu þá verður þessi misskipting, óréttlæti og ójöfnuður ekki látinn átölulaus í komandi kjarasamningum fái ég einhverju ráðið í þeim efnum.

Hérna er nokkur dæmi um þá græðgivæðingu sem hefur fengið að þrífast hjá auðmannselítunni á liðnum árum. Ég vil enn og aftur minna á að lágmarkstaxtar launafólks hækkuðu um 12 þúsund krónur á mánuði og gott fyrir fólk að hafa það í huga þegar það les þessar hækkanir forstjóranna.

Forstjóri N1 hækkaði í launum um 1 milljón á mánuði- Mánaðarlaun 5 milljónir.

Forstjóri Landsvirkjunar hækkaði í launum um 800 þúsund á mánuði!- Mánaðarlaun 2,7 milljónir.

Forstjóri Eimskips hækkaði í launum um tæp 700 þúsund á mánuði!- Mánaðarlaun 8,6 milljónir.

Forstjóri Símans hækkaði í launum um 433 þúsund á mánuði!- Mánaðarlaun 4 milljónir

Forstjóri Reita hækkaði í launum um 400 þúsund á mánuði!- Mánaðarlaun 3,7 milljónir

Forstjóri HB Granda hækkaði í launum um 330 þúsund á mánuði!- Mánaðarlaun 4,2 milljónir

Forstjóri Sjóvá hækkaði í launum um 242 þúsund á mánuði!- Mánaðarlaun 4,1 milljónir

Forstjóri Íslandspósts hækkaði í launum um 252 þúsund á mánuði- Mánaðarlaun 1,7 milljónir.

Forstjóri Landsnets hækkaði í launum um 180 þúsund á mánuði- Mánaðarlaun 1,8 milljónir.

Sjónvarpsstjóri RUV hækkaði í launum um 250 þúsund á mánuði-Mánaðarlaun 1,8 milljón

Framkvæmdastjóri Framtakssjóðs fékk 20 milljónir fyrir að ná þriggja ára starfsaldri.

Nokkrir aðilar fengu 90 milljóna bónus vegna uppgjörs til stjórnenda LBI sem heldur utan um eignir gamla Landsbankans.

Kjararáð hefur hækkað laun æðstu stjórnenda og embættismanna ríkisins um 200 til 400 þúsund á mánuði með afturvirkni í allt að tæp 2 ár.

Árið 2015 seldi Arion banki Símann til vildarvina á sérkjörum og högnuðust þeir um 722 milljónir á 48 dögum.

Allir þekkja Borgunarmálið fræga frá árinu 2015 þar sem íslenskir skattgreiðendur töpuðu milljörðum króna til fárra útvaldra.

Árið 2016 tilkynntu tryggingafélögin um 10 milljarða króna arðgreiðslur vegna breytinga á reikningsskilaaðferðum á bótasjóðum.

Samkeppniseftirlitið tilkynnti um þá niðurstöðu að neytendur hafi greitt 4,5 milljörðum of mikið fyrir bifreiðaeldsneyti í smásölu bara fyrir árið 2014. Ástæðan sé sú að samkeppni sé verulega skert.

Árið 2016 greiddi Íslandsbanki um 400 milljónir í bónusa til starfsmanna.

Stjórn VÍS tilkynnti í fyrra um hækkun iðgjalda vegna slæmrar stöðu en nokkrum dögum síðar tilkynnir stjórnin um 75% hækkun launa stjórnarmanna.

Árið 2015 fengu 20 starfsmenn gamla Straums Burðaráss greiddan bónus uppá 3,3 milljarða.

Flokkar: blogg

«
»

Höfundur

Vilhjálmur Birgisson
Fæddur 5. ágúst 1965. Fjögurra barna faðir og Skagamaður í húð og hár. Hefur alla tíð unnið verkamannavinnu þar til hann tók við formennsku í Verkalýðsfélagi Akraness 19. nóvember 2003.

Er óflokksbundinn og hefur þá trú að forystumenn í verkalýðshreyfingunni eigi ekki að vera eyrnamerktir stjórnmálaflokkum. Hefur brennandi áhuga þjóðfélagsmálum og segir sína meiningu umbúðalaust.
RSS straumur: RSS straumur

Nýlegar athugasemdir