Sunnudagur 23.10.2016 - 18:08 - 5 ummæli

Afrek og meintar syndir síðustu ríkisstjórnar

Í umræðum og í pistlum vefmiðla sé ég að ríkisstjórn Samfylkingar og Vinstri grænna 2009-2013 er borin ýmsum sökum, því miður oft ómaklega. Förum aðeins yfir það.

 • „Alls kyns skattar voru hækkaðir og bætur skertar.“

Já, rétt. En enginn gerir slíkt að gamni sínu. Stjórnin tók við gati á ríkissjóði eftir hrunið sem nam 216 milljörðum króna 2008. Því var mætt með niðurskurði að sirka tveimur þriðju og nýrri tekjuöflun að sirka einum þriðja. Slíkar aðgerðir eru mjög sársaukafullar og lítt til vinsælda fallnar. En árangurinn varð sá að stjórnin skilaði af sér hallalausum ríkissjóði 2013 (-0,7 ma. kr. skv. ríkisreikningi). Það er afrek í rústabjörgun; afrek sem sú ríkisstjórn sem nú situr – og við öll – höfum notið góðs af.

 • „Nýja stjórnarskráin var ekki kláruð.“

Nei, það tókst ekki að klára nýju stjórnarskrána á síðasta kjörtímabili. En það var vitaskuld umrædd ríkisstjórn, undir forystu Jóhönnu Sigurðardóttur sem hefur alla tíð verið ötul baráttukona fyrir stjórnkerfisumbótum, sem setti stjórnarskrármálið af stað – í opnu og lýðræðislegu ferli sem var til fyrirmyndar. Það tókst að semja fullbúin drög að stjórnarskrá 2011 og setja þau í þjóðaratkvæði 2012. Sennilega var ekki raunsætt að ná lokaáfanga í málinu á einu kjörtímabili, sérstaklega með stjórnarandstöðu sem var í harðri baráttu og grenjandi málþófi gegn því. Nýja stjórnarskráin lifir hins vegar – og sem betur fer – góðu lífi og tekur vonandi gildi í lok næsta kjörtímabils.

 • „Sjóvá var bjargað.“

Sjóvá var skólabókardæmi um áhættusækni og óðafrjálshyggju sem fékk að vaða uppi með lágmarks eftirliti. Stjórnendur tryggingafélagsins töpuðu bótasjóðum þess í fjárfestingarævintýrum sem fóru langt út fyrir mörk eðlilegs umboðs þeirra fyrir hönd tryggingataka fortíðar og nútíðar. Það eru nefnilega tryggingatakarnir sem eiga bótasjóðina í reynd; þeir eru m.a. notaðir til að greiða bruna-, slysa-, örorku- og dánarbætur til fólks sem hefur orðið fyrir áföllum og tjóni. Ef félagið hefði verið látið fara í gjaldþrot hefðu tjónþolar setið eftir með sárt ennið. Það hefði ekki aðeins verið reiðarslag fyrir marga þeirra persónulega, heldur einnig rýrt traust til vátryggingastarfsemi á Íslandi um langa framtíð. Hluthafar í Sjóvá töpuðu vitaskuld hlutafé sínu, ríkið eignaðist félagið að 3/4 og hefur sem betur fer náð meirihluta af kostnaðinum við björgunina til baka (sjá einnig hér, bls. 27 o.áfr.). Sökin í Sjóvá-málinu er ekki þeirra sem þurftu að taka til eftir óðu kapítalistana, heldur þeirra sem skópu það hugarfar og praktíseruðu þá viðskiptahætti sem leiddu til hrunsins.

 • „SpKef var bjargað.“

Sparisjóðurinn í Keflavík var einstaklega illa rekinn í samkrulli viðskipta og pólitíkur. Gríðarlegt tap hans í hruninu kom aðeins smám saman í ljós eftir því sem kafað var dýpra ofan í bækurnar. Hann er eina íslenska fjármálastofnunin sem átti ekki nægar eignir fyrir innistæðum. Ríkissjóður varð því að hlaupa undir bagga með honum til að verja innistæður, sbr. yfirlýsingu Geirs H. Haarde frá október 2008 um að allar innistæður í íslenskum bönkum yrðu tryggðar. Sjóðurinn endaði að lokum inni í Landsbankanum.

 • „Skuldir fólks ruku upp.“

Já, krónan féll um helming í hruninu og því fylgdi mikil verðbólga, sem hækkar verðtryggðar skuldir fólks. Í gegn um krónuna verður ógætileg hagstjórn sjálfkrafa að vandamáli alls almennings. Ríkissjóður var galtómur (sbr. fyrsta punktinn) og því takmarkað svigrúm til að hjálpa skuldurum. Ráðist var í 110% leiðina sem hafði þann stóra kost að vera á kostnað lánveitenda, ekki skattborgara. Greiðslujöfnunarvísitala var virkjuð (hún lækkar afborganir verðtryggðra lána þegar vísitala hækkar langt umfram laun), sett lög um greiðsluaðlögun, sett á fót embætti umboðsmanns skuldara o.m.fl. En rót vandans var að sjálfsögðu hagstjórnin í aðdraganda hrunsins og krónan okkar margblessuð.

 • „Bankarnir voru einkavæddir/afhentir kröfuhöfum.“

Bankarnir voru hvorki einkavæddir né „afhentir kröfuhöfum“. En það var tekin ákvörðun um að ríkissjóður legði ekki fram eigið fé (hlutafé) Arion banka og Íslandsbanka nema að litlu leyti. Hefði ríkissjóður gert það hefðu skattgreiðendur tekið alla áhættu og ábyrgð á rekstri þriggja banka. Þá voru framundan gengislánadómar og alls kyns óvissa önnur um virði lánasafna. Eiginfjárframlög til allra bankanna hefðu numið vel á fjórða hundrað milljarða króna meðan ríkissjóður var galtómur.

Þetta var rétt ákvörðun í stöðunni, eins og sýndi sig síðar, þegar bankarnir komust hvort eð er í eigu ríkisins sem hluti af krónueignum sem kröfuhafar skildu eftir gegn því að sleppa út úr höftum með allar erlendu eignir föllnu bankanna.

 • „Kröfuhöfum var gefið skotleyfi á heimilin.“

Þetta er innihaldslaus frasi. Stjórnvöld, hver sem þau eru, hafa engin ráð – innan ramma réttarríkisins – til að breyta einhliða höfuðstól eða skilmálum þegar gerðra löglegra lánasamninga. Lög geta jú ekki verið afturvirk, löglegir samningar skulu standa og engan má skylda til að láta af hendi eign sína nema fullar bætur komi fyrir. Það var því aldrei möguleiki, þó menn hefðu viljað, að grípa inn í efni eða efndir lánasamninga. Sú staðreynd er óháð því hvernig eignarhaldi á bönkum var eða er háttað. Hins vegar var unnt að grípa til ýmis konar mótvægisaðgerða til að létta fólki róðurinn eftir föngum. Síðasta ríkisstjórn beindi þeim aðgerðum, til dæmis vaxta- og barnabótum, fyrst og fremst til þeirra sem höllustum fæti stóðu, þ.e. fólks með lægri tekjur og slæma skuldastöðu. Vitaskuld hefði verið æskilegra að gera meira fyrir fleiri, en ríkissjóður var því miður ekki aflögufær.

Að auki er það svo að aðeins lítill hluti fasteignalána heimilanna var í bókum Arion og Íslandsbanka (bankanna sem kröfuhafar áttu óbeint hlut í) eftir hrun. Íbúðalánasjóður var vitaskuld með stóran hlut, en bankarnir höfðu pakkað íbúðalánasöfnum sínum inn í „sértryggð skuldabréf“ fyrir hrun og selt þau m.a. lífeyrissjóðum. Þá hafði Seðlabanki Íslands eignast talsvert af þessum lánum þegar hann gekk að veðum hjá Kaupþingi og Glitni. Kröfuhafarnir hefðu því ekki ráðið miklu um innheimtu íslenskra íbúða- og neytendalána jafnvel þótt þeir hefðu beina aðkomu að stjórnun nýju bankanna, sem þeir höfðu ekki.

Gleymum því ekki að það var fall krónunnar sem stökkbreytti gengistryggðum lánum og olli verðbólguskoti sem hækkaði verðtryggðu lánin. Svo það sé endurtekið: vond hagstjórn og slælegt eftirlit bitnar á almenningi í gegn um íslensku krónuna. Hún er okkur gríðarlega dýr.

 • „Það hefði átt að frysta vísitöluna.“

Það er ekki unnt að krukka í vísitölur sem notaðar eru til verðtryggingar lána skv. þegar gerðum lánasamningum. Til eru 2-3 dómafordæmi Hæstaréttar (t.d. „Samvinnusjóðsmálið“ frá 1990) sem gera þetta alveg skýrt: allar breytingar á grundvelli vísitalna þurfa að vera minniháttar og málefnalegar. Tilraunir til að „frysta vísitölu“ hefðu því verið dæmdar ólöglegar. Hitt er annað mál að svokölluð „greiðslujöfnunarvísitala“ var virkjuð eins og áður var nefnt, sem tók af allramesta kúfinn.

— o —

Ég gæti haldið áfram en læt hér staðar numið í bili. Þigg ábendingar um fleiri umfjöllunarefni í athugasemdum.

Mér sárnar þegar fólkið sem tók að sér rústabjörgunina í síðustu ríkisstjórn af mikilli ósérhlífni er haft fyrir rangri sök, og jafnvel hengt sem bakarar fyrir smið. Ekki tókst allt jafn vel sem síðasta ríkisstjórn ætlaði sér, en heilt yfir vann hún afrek. Ég myndi sjálfur helst gagnrýna hana – og þá með því að vera vitur eftir á – fyrir að hafa færst of mikið í fang. Hún reyndi að koma of mörgum góðum og þörfum umbótamálum í gegn samhliða risavöxnu þrekvirkinu í efnahagsmálunum, hafandi mjög nauman og jafnvel engan meirihluta á Alþingi (þökk sé villiköttum VG, mikil er ábyrgð þeirra) – og aðeins eitt kjörtímabil til að vinna með. Væntingarnar voru því sennilega spenntar of hátt og vonbrigðin því meiri sem því nemur. Hins vegar er ekki endilega sanngjarnt að dæma eftir væntingunum, heldur eftir árangrinum eins og hann varð, miðað við fordæmalausar aðstæður. Í því efni þarf enginn að skammast sín; þvert á móti.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Sunnudagur 22.5.2016 - 18:02 - 22 ummæli

Stóra Millifærslan tveggja ára og enn galin

Nú eru liðin tvö ár síðan lög um Stóru Millifærsluna („Leiðréttinguna“) voru samþykkt á Alþingi.

Í nóvember 2014 skrifaði ég bloggpistil sem vakti mikla athygli og hét Stóra Millifærslan er galin. Þar sýndi ég graf um ávinning af verðlagsbreytingum á hverja milljón sem tekin hefði verið að láni verðtryggð og sett í íbúð á höfuðborgarsvæðinu, allt frá 1994. Sem sagt: hvernig íbúðaverð hefur hækkað að frádregnu því hvernig höfuðstóll verðtryggðra lána hefur hækkað á sama tíma.

Á grafinu sást greinilega að það var tiltekinn, afmarkaður hópur sem hafði tapað á fjárfestingu í íbúðarhúsnæði, þ.e. þeir sem keyptu 2005-2009. Sumt af því fólki hafði tapað nálægt helmingi af kaupverði fasteignarinnar þegar þar var komið sögu. Aðrir hópar voru hins vegar ennþá í fínum plús með sína fjárfestingu þrátt fyrir hrun og verðbólguskell, sérstaklega þeir sem voru með eldri lán.

Hér er grafið eins og það leit út í pistlinum frá nóvember 2014:

Staðan í nóvember 2014

Staðan í nóvember 2014

Ég benti á að nota hefði mátt 80 milljarðana sem fóru í Stóru Millifærsluna til að hjálpa því fólki sem verst fór út úr fasteignakaupum mun betur – en eiga samt mikið fé afgangs í önnur brýn verkefni, svo sem aðgerðir fyrir ungt fólk og leigjendur og til uppbyggingar Landspítalans, svo eitthvað sé nefnt. 80 milljarðar eru jú mikið fé: 1 milljón króna á hverja fjögurra manna fjölskyldu í landinu.

Á þeim tveimur árum sem liðin eru hefur sama mynstur aðeins styrkst ennþá frekar. Íbúðaverð hefur haldið áfram að hækka (+14,6% frá okt. 2014) umfram almenna verðlagsþróun (+2,5% á sama tíma). Það bitnar harðast á unga fólkinu sem á æ erfiðara með að koma þaki yfir höfuðið, hvort sem er með kaupum eða leigu. Á sama tíma heldur miðaldra fólkið – sem fyrir var í góðum málum, og fékk milljarðatugi afhenta í Stóru Millifærslunni – áfram að hagnast.

Ég fann gamla Excel-reiknivanginn minn og uppfærði hann til apríl 2016. Hér er grafið eins og það lítur út í dag; takið eftir að lóðrétti ásinn nær nú upp í 3 milljónir í stað tveggja áður:

Staðan í apríl 2016

Staðan í apríl 2016

Með hækkandi fasteignaverði hefur staða allra fasteignaeigenda batnað og tjón þeirra sem keyptu 2005-2008 hefur minnkað um næstum helming. Þeir sem keyptu 2009 eru nú komnir réttu megin við strikið. (Athugið að hér er aðeins horft á verðtryggðan höfuðstól lána miðað við fasteignaverð; vextir eru utan jöfnunnar.)

Það er hins vegar enn augljósara en áður hve stór hluti Millifærslunnar fór til fólks sem þurfti ekki á henni að halda; miðaldra og eldra fólks sem hefur haft góðan ávinning af fasteignakaupum sínum og á mikið eigið fé í húsnæði. Á þeim tveimur árum sem liðin eru hefur þessi hópur enn bætt við sig, allt að 500.000 kalli fyrir hverja milljón af upphaflegu kaupverði (á föstu verðlagi), vegna verðlagsbreytinga – til viðbótar við það sem hann fékk úr Stóru Millifærslunni.

Var þetta réttlát eða skynsamleg ráðstöfun þeirra 80 milljarða af skattfé sem þarna fóru í gegn um ríkissjóð? Það finnst mér ekki.

Niðurstaða pistils míns fyrir tveimur árum á ekki síður við í dag:

Stóra Millifærslan var meingölluð aðgerð, illa hugsuð og ómarkvisst útfærð. Meðferð ríkisstjórnarinnar á almannafé var að mínu mati forkastanleg. Við öll, og sérstaklega unga fólkið – skattgreiðendur framtíðar – áttum betra skilið en þennan galskap.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Fimmtudagur 28.4.2016 - 16:18 - 17 ummæli

Haldið til haga

Eins og við var að búast hefur umfjöllun Kastljóss RÚV á mánudagskvöld, þar sem nafn mitt kom fyrir, vakið ýmis viðbrögð, sum hörð. En margir hafa einnig haft samband og sýnt stuðning og skilning sem mér þykir vænt um.

Ég sé af viðbrögðunum að ekki veitir af að árétta nokkur aðalatriði.

 • Þau sem hafa lesið skýringar mínar og svör virðast sem betur fer átta sig á því að ekkert er athugavert við efnisatriði míns máls. Ekkert var ólöglegt, engu leynt fyrir yfirvöldum og engin skattundanskot áttu sér stað.
 • Mín stóru mistök eru að hafa ekki greint frá eignarhaldi eignarhaldsfélags míns á dótturfélagi skráðu á Bresku jómfrúreyjum 2000-2008. Þar var á ferð ótvíræður dómgreindarbrestur af minni hálfu sem ég geri mér vel grein fyrir og biðst afsökunar á.
 • Höfuðstóll eigna minna kemur úr fyrirtækjum sem ég hef sjálfur stofnað eða komið verulega að rekstri og uppbyggingu á. Ég hef hvorki hagnast á áhættulausum lánum til hlutabréfakaupa né gjaldfrjálsum aðgangi að auðlindum íslensku landhelginnar. Þá er það rangt að ég hafi hagnast á „stöðutöku gegn krónunni“ í hruninu eða aðdraganda þess.
 • Gjarnan er spurt hver tilgangur félags á Bresku jómfrúreyjum geti verið, annar en sá að leyna upplýsingum og/eða komast hjá sköttum. Í mínu tilviki er það banki í Lúxemborg sem stofnar dótturfélagið M-Trade sem hluta af eignastýringarþjónustu sinni fyrir lúxemborgíska móðurfélagið. Ástæður þessa eru fyrst og fremst lögfræðilegar tækniástæður (varðandi takmarkanir „1929 Holding“ félaga) og einfaldleiki í bókhaldi og umsýslu. Eignastýringarþjónusta bankans var, eins og önnur starfsemi hans, undir eftirliti fjármálaeftirlitsins í Lúxemborg og þarlendum yfirvöldum var fullkunnugt um hvernig kaupin gerðust á þeirri eyri. Engum upplýsingum var leynt fyrir yfirvöldum og þau settu sig á engan hátt á móti þessum praxís. Þau sóttust jú á þeim árum ekki eftir tekjusköttum af eignarhaldsfélögum sem slíkum*), enda voru þau tekjuskattsfrjáls í Lúxemborg, heldur fremur skatttekjum af bankastarfsemi og annarri umsýslu sem þeim fylgdi.
 • Margt af því sem viðtekið var á þessu sviði fyrir hrun hefur nú breyst, m.a. fyrir áeggjan ESB og OECD, sem hafa unnið ötullega að því að samræma skattkerfi milli landa, loka skattaskjólum og auka upplýsingaskipti skattyfirvalda. Þetta er góð þróun.
 • Hvað skattskil á Íslandi varðar þá greiddi ég auðlegðarskatt (meðan hann var og hét) hér af öllu eigin fé eignarhaldsfélags míns, að dótturfélögum þess meðtöldum. Afkoma M-Trade lagðist á sínum tíma við eigið fé móðurfélagsins og af því og ávöxtun þess greiði ég 20% fjármagnstekjuskatt (m.v. núverandi skattprósentu) á Íslandi eftir því sem arði var og verður úthlutað úr því.
 • Frá júní 2011 eru eignarhaldsfélag mitt og öll dótturfélög „venjuleg“ fullskattlögð hlutafélög innan evrópska efnahagssvæðisins (EES).

— o —

Ekkert af ofangreindu breytir neinu um það að ég er jafnaðarmaður að lífsskoðun. Það þýðir meðal annars að ég styð aukna skattlagningu á hið eignamesta 1%, sem ég tilheyri, til dæmis með auðlegðarskatti (þar sem hóflegt eigið húsnæði væri undanskilið) og þrepaskiptum erfðafjárskatti.

Þá tel ég nauðsynlegt að bregðast við því sem Thomas Piketty hefur m.a. bent á, að eignir þess eina prósents sem mest á ávaxtast hraðar en sem nemur almennum hagvexti. Það þýðir að hlutdeild hinna 99% í afhentri vöru og þjónustu í framtíðinni mun áfram minnka sé ekkert að gert. Þetta er ósjálfbær (og ósiðleg) þróun sem verður að finna leiðir til að snúa við. Ég hef fullan hug á að taka virkan þátt í þeirri umræðu.


*) Almennt greiða eignarhaldsfélög ekki verulega „hefðbundna“ tekjuskatta, ekki heldur á Íslandi, vegna þess að þau sýsla með höfuðstól sem þegar hefur verið skattlagður. Söluhagnaður hlutabréfa er skattfrjáls innan hlutafélaga og móttekinn arður sömuleiðis. Flest form fjármagnstekna eru nú til dags skattlögð með afdráttarskatti þegar og þar sem þær verða til, ekki með hefðbundnum tekjuskatti eftir á.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Mánudagur 25.4.2016 - 20:13 - 18 ummæli

Fleiri svör um fjármál

Nafn mitt kom fyrir í Kastljóss-þætti RÚV í kvöld.

Ég árétta að ég tengist með engu móti viðskiptafléttum af því tagi sem lýst var í þættinum og gengu út á lán til hlutabréfakaupa án áhættu.

Hér á eftir fara skýringar mínar á því sem fram kom og að mér snýr, og svör við spurningum sem ég geri ráð fyrir að kviknað hafi. Sjálfsagt er að svara þeim spurningum þó ég sé ekki lengur gjaldkeri Samfylkingarinnar og ekki í opinberri trúnaðarstöðu.

Stutta útgáfan:

Eignarhaldsfélag mitt Meson Holding var í eignastýringu hjá Kaupþingi Lúxemborg á árunum 2000-2008. Vegna regluverks um slík félög í Lúxemborg var það praxís bankans að stofna dótturfélög fyrir þau á Bresku jómfrúreyjum – með fullri vitund stjórnvalda í Lúxemborg – ef viðskiptavinur vildi geta fjárfest í öðru en hlutabréfum, skuldabréfum og fasteignum. Það gilti um mitt félag og það átti því dótturfélag á Bresku jómfrúreyjum í umsjá bankans til 2008 þegar Kaupþing Lúxemborg fór í greiðslustöðvun. Eftir það flutti félagið eignastýringu sína og allar eignir annað og dótturfélagið var þar með úr sögunni. Í millibilsástandi 2009-2011 var félagið með hluta eigna sinna í eignastýringu hjá alþjóðlegum banka sem stofnaði af sömu ástæðum dótturfélag á Guernsey. Það var lagt niður 2011 og eftir það hefur eignarhaldsfélagið aðeins átt dótturfélög innan EES eins og fram kemur í reikningum þess. Ekkert af ofangreindu hafði áhrif til lækkunar á skattgreiðslum félagsins í Lúxemborg né á mínum persónulegu skattgreiðslum á Íslandi. Fram kemur í svörunum að Meson Holding hefur greitt skatta af söluhagnaði hlutabréfa á Íslandi sem það hefði ekki greitt ef það væri íslenskt félag.

Langa útgáfan:

1. Hvað er “M-Trade”?

Eins og fram hefur komið á ég eignarhaldsfélagið Meson Holding S.A. í Lúxemborg. Það var upphaflega stofnað árið 2000 af Kaupþingi Lúxemborg, og var þar í eignastýringu allt til október 2008 er bankinn fór í greiðslustöðvun. Félagið var svokallað “1929 Holding” félag, nefnt eftir ártali laganna sem um slík félög giltu. Samkvæmt þeim lögum máttu félögin eiga hlutabréf, skuldabréf og fasteignir, en ekki aðrar tegundir fjármálagjörninga (enda var slíkt sjaldgæft árið 1929).

Það var því almennur praxís hjá Kaupþingi Lúxemborg, eftir því sem ég best veit, að stofna dótturfélög á Bresku jómfrúreyjum í umsjá bankans fyrir “1929” félög í eignastýringu ef skjalfest fjárfestingarstefna viðskiptavinarins leyfði fjárfestingar til dæmis í valréttum eða skiptasamningum. Slík viðskipti voru þá gerð í nafni dótturfélagsins en hefðbundnari fjárfestingar í nafni móðurfélagsins.

Afkoma dótturfélaganna var færð í ársreikning móðurfélaganna hverju sinni, sem var endurskoðaður og lagður fram til birtingar hjá fyrirtækjaskrá Lúxemborgar. Þetta fyrirkomulag, sem var þá alsiða og skattyfirvöldum í Lúxemborg vel kunnugt, hafði ekki áhrif á skattgreiðslur móðurfélaganna í Lúxemborg enda greiddu “1929” félög ekki tekjuskatt þar í landi.

M-Trade var dótturfélag Meson Holding, stofnað af Kaupþingi Lúxemborg og í umsjá bankans í ofangreindum tilgangi sem þáttur í eignastýringu. Það var skráð á Bresku jómfrúreyjum.

Ég hafði aldrei prókúru fyrir félagið, né var ég framkvæmdastjóri þess eða stjórnarmaður.

Við fyrsta tækifæri eftir fall Kaupþings Lúxemborgar í október 2008 flutti Meson Holding allar eignir sínar úr eignastýringu þar. M-Trade var þar með úr sögunni hvað mig varðar.

Frá og með 2009, þ.e. síðastliðin 7 ár, er Meson Holding S.A. “venjulegt” fullskattlagt hlutafélag í Lúxemborg.

2. Varð tilvist M-Trade til þess að lækka persónulegar skattgreiðslur þínar?

Nei. Tilvist félagsins varð ekki til að lækka launatekjuskatta, auðlegðarskatta, fjármagnstekjuskatta eða aðra skatta sem ég greiddi og mun greiða á Íslandi. Líkur standa til að tilvist þess hafi fremur orðið til að hækka þessa skatta.

3. Hvað er þá “Jacinth”?

Eftir fall Kaupþings í Lúxemborg leitaði Meson Holding fyrir sér með bankaviðskipti og eignastýringu á öðrum stöðum. Það hóf árið 2009 viðskipti við alþjóðlegan banka sem, af sömu ástæðum og Kaupþing Lúxemborg, stofnaði dótturfélag á Guernsey, kallað Jacinth, fyrir önnur hugsanleg viðskipti en hlutabréf, skuldabréf og fasteignir. Viðskiptasambandinu var hins vegar slitið fljótlega og Jacinth var endanlega lagt niður í júní 2011. Jacinth hafði ekki áhrif, frekar en M-Trade, til lækkunar á skattgreiðslum móðurfélagsins eða mín persónulega.

Eftir afleita reynslu af viðskiptaháttum og áhættusækni Kaupþings hefur Meson Holding frá 2010 verið í mjög íhaldssamri eignastýringu og hefur t.d. enga afleiðusamninga gert.

4. Greiddi Meson Holding S.A. lægri skatta á Íslandi en íslenskt félag hefði gert?

Uppistaðan í eigin hagnaði Meson Holding S.A. meðan það var “1929” félag var söluhagnaður hlutabréfa. Slíkur söluhagnaður er ekki skattlagður innan íslenskra hlutafélaga frá og með árinu 2008. Fyrir þann tíma frestaðist skattlagning söluhagnaður hlutabréfa svo lengi sem endurfjárfest var í hlutabréfum í stað þeirra sem seld voru. Það átti í öllum tilvikum við í þeim viðskiptum sem Meson Holding var í á þeim tíma, þannig að ekki hefði komið til skattlagningar slíks söluhagnaðar í íslensku félagi. (Skattlagning hagnaðarins á sér stað þegar hann er greiddur út til eigenda sem arður, og það er óháð því hvort félag er í Lúxemborg eða á Íslandi.)

En af því að Meson Holding var “1929” félag (til 2009) og féll sem slíkt ekki undir tvísköttunarsamning Íslands og Lúxemborgar, bar það svokallaða “takmarkaða skattskyldu” á Íslandi skv. 3. gr. laga um tekjuskatt nr. 90/2003. Nánar til tekið bar því að greiða tekjuskatt af söluhagnaði hlutabréfa á Íslandi sbr. 7. tölulið þeirrar greinar, án þess að eiga rétt til frádráttar á móti skv. tvísköttunarsamningi.

Félagið greiddi því, og samkvæmt þessu, skatt í ríkissjóð af söluhagnaði hlutabréfa á Íslandi. Þær skattgreiðslur, vel á þriðja tug milljóna króna, voru umfram það sem félagið hefði greitt væri það skráð hér. Að sjálfsögðu greiddu svo dótturfélög og hlutdeildarfélög Meson Holding á Íslandi, sem eru stór hluti fjárfestinga félagsins, sína skatta hér.

5. Á félag þitt eða þú sjálfur dótturfélög eða hlutdeildarfélög í skattaskjólum?

Nei. Síðan Jacinth var lagt niður í júní 2011 eru öll dóttur- og hlutdeildarfélög Meson Holding S.A. venjuleg hlutafélög innan EES, eins og fram kemur í ársreikningum félagsins, og skattlögð sem slík.

Frá því Meson Holding var stofnað árið 2000 hef ég engin önnur félög átt erlendis.

6. Tengdist þú félagi í skattaskjóli meðan þú varst gjaldkeri Samfylkingarinnar?

Nei. Ég var fyrst kjörinn gjaldkeri Samfylkingarinnar á landsfundi í nóvember 2011.

7. Breyta þessar upplýsingar um forsögu félags þíns einhverju um það sem fram kemur í Eyjupistli þínum frá 30. mars sl.?

Nei. Þar er allt satt og rétt, en þessar upplýsingar eru til viðbótar því sem þar kemur fram.

Ég skrifaði pistil á bloggið mitt á eyjan.is á síðkvöldi á hótelherbergi erlendis (á iPad!) í þeim tilgangi að tilkynna snarlega um afsögn mína sem gjaldkeri, þannig að nafn mitt og flokksins þvældist sem minnst fyrir þeirri mikilvægu umræðu um Wintris-málið sem þá var framundan.

Það hefði óneitanlega verið réttara og skynsamlegra af mér að flýta mér hægar, bíða uns ég hafði aðgang að fullnægjandi gögnum (allt frá árinu 2000) og fara að því loknu yfir alla forsögu mála í einum og þá ítarlegri pistli.

Í lokin er ástæða til að ítreka orð mín úr blogginu frá 30. mars: Ég hef ekki kosið að hafa eignarhaldsfélag mitt í Lúxemborg vegna skattahagræðis, heldur fyrst og fremst vegna krónunnar, óstöðugleika íslensks efnahags- og stjórnmálaumhverfis og gjaldeyrishafta.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Sunnudagur 10.4.2016 - 18:48 - 4 ummæli

Stjórnarskráin og atburðir liðinnar viku

Austurvöllur. Mynd: VÞ (c)Það er fróðlegt að máta nýju stjórnarskrána inn í hina hröðu og afdrifaríku atburðarás síðustu viku.

Ramminn sem stjórnarskráin setur, leikreglurnar, hefur nefnilega mikil áhrif á það hvað gerist og hvað gerist ekki.

Í fyrsta lagi gerir nýja stjórnarskráin kröfu um hagsmunaskráningu alþingismanna (50. gr.), sem greinilega þarf að styrkja í núgildandi lögum. Engin krafa er um slíka hagsmunaskráningu í gömlu stjórnarskránni.

Í öðru lagi kveður nýja stjórnarskráin á um vanhæfi þingmannaAlþingismanni er óheimilt að taka þátt í meðferð þingmáls sem varðar sérstaka og verulega hagsmuni hans eða honum nákominna. (50. gr.) Samkvæmt þessu hefði forsætisráðherra til dæmis ekki getað greitt atkvæði á þingi um mál er vörðuðu hag kröfuhafa í föllnu bankanna. Engin ákvæði um vanhæfi þingmanna er að finna í gömlu stjórnarskránni.

Í þriðja lagi fjallar nýja stjórnarskráin um vanhæfi ráðherraGeti ráðherra ekki fjallað um mál vegna vanhæfis, fjarveru eða annarra ástæðna felur forsætisráðherra það öðrum ráðherra. (86. gr.) Samkvæmt þessari grein hefði forsætisráðherra þurft að tilnefna staðgengil sinn til að fjalla um málefni kröfuhafa föllnu bankanna. Brot gegn greininni varða ábyrgð skv. ákvæðum um ráðherraábyrgð.

Í fjórða lagi er upplýsingaskylda ráðherra gagnvart þinginu áréttuð í 93. gr.: Ráðherra er skylt að veita Alþingi eða þingnefnd allar upplýsingar, skjöl og skýrslur um málefni sem undir hann heyra, nema leynt skuli fara samkvæmt lögum. Mikilvæg viðbót er sannleiksskylda ráðherra: Upplýsingar sem ráðherra veitir Alþingi, nefndum þess og þingmönnum skulu vera réttar, viðeigandi og fullnægjandi. Sambærilegt ákvæði er ekki að finna í gömlu stjórnarskránni.

Í fimmta lagi er sjálfstætt embætti Umboðsmanns Alþingis tryggt í nýju stjórnarskránni og því falið að hafa eftirlit með stjórnsýslu ríkis og sveitarfélaga. [Umboðsmaður] gætir þess að jafnræði sé í heiðri haft í stjórnsýslunni og að hún fari að öðru leyti fram í samræmi við lög og vandaða stjórnsýsluhætti. (75. gr.) Hvorki er minnst á Umboðsmann Alþingis, jafnræði né vandaða stjórnsýsluhætti í gömlu stjórnarskránni, en treyst á almenn stjórnsýslulög sem raunar voru ekki sett á Íslandi fyrr en 1993.

Í sjötta lagi segir í nýju stjórnarskránni: Frelsi fjölmiðla, ritstjórnarlegt sjálfstæði þeirra og gegnsætt eignarhald skal tryggja með lögum. Vernd blaðamanna, heimildarmanna og uppljóstrara skal tryggja í lögum. (16. gr.) Þessi ákvæði myndu til dæmis vernda Jóhannes Kr. Kristjánsson rannsóknarblaðamann og ritstjórn Kastljóss gagnvart áreiti valdaafla þegar stórmál á borð við Panamaskjölin koma upp. Ekkert sambærilegt er að finna í gömlu stjórnarskránni.

Í sjöunda lagi er í nýju stjórnarskránni sett fram meginreglan Öllum er frjálst að safna og miðla upplýsingum. (15. gr.) Í sömu grein segir: Söfnun, miðlun og afhendingu gagna, geymslu þeirra og birtingu má aðeins setja skorður með lögum í lýðræðislegum tilgangi, svo sem vegna persónuverndar, friðhelgi einkalífs, öryggis ríkisins eða lögbundins starfs eftirlitsstofnana. (Skattsvik falla nóta bene hvorki undir persónuvernd né friðhelgi einkalífs.) Með þessu er stuðlað að lýðræðislegu aðhaldi, eins og Panama-skjölin eru dæmi um. Ekkert um þetta er að finna í gömlu stjórnarskránni.

Í áttunda lagi er í nýju stjórnarskránni skýrt að Forseti Íslands rýfur Alþingi að ályktun þess (73. gr.). Þingrofsréttur færist þar með frá forsætisráðherra til þingsins sjálfs. Framkvæmdarvaldið (ríkisstjórnin) situr jú í umboði löggjafarvaldsins (þingsins) en ekki öfugt. Óeðlilegt er, og fáheyrt í nýrri stjórnarskrám, að forsætisráðherra geti rofið þing, eins og gamla stjórnarskráin segir. Þau ákvæði hennar eru þó ekki fullkomlega skýr frekar en annað í henni. Eins og við sáum í síðustu viku er umdeilanlegt hvaða vald forseti hefur nákvæmlega í þessu efni.

Í níunda lagi skilgreinir nýja stjórnarskráin nákvæmlega hvernig skipt er um forsætisráðherra á miðju kjörtímabili. Það gerist annað hvort í kjölfar þess að meirihluti þingheims samþykkir vantraust á ríkisstjórnina, en í vantrauststillögu felst jafnframt tillaga um nýjan forsætisráðherra (91. gr.); eða með því að forsætisráðherra biðst lausnar og er þá nýr forsætisráðherra kjörinn í atkvæðagreiðslu á Alþingi (90. gr). Þannig er þingræðisreglan í heiðri höfð með jákvæðum og gegnsæjum hætti, og ábyrgð þingsins á ríkisstjórninni hverju sinni er skýr.

Í tíunda lagi gerir nýja stjórnarskráin kjósendum mun auðveldara að losa sig við þingmenn sem þeir telja að hafi brugðist trausti með auknum möguleikum til persónukjörs: Kjósandi velur með persónukjöri frambjóðendur af listum í sínu kjördæmi eða af landslistum, eða hvort tveggja. Honum er og heimilt að merkja í stað þess við einn kjördæmislista eða einn landslista, og hefur hann þá valið alla frambjóðendur listans jafnt. (39. gr.) Eins og landsmenn þekkja eru ákvæði núgildandi stjórnarskrár og kosningalaga rýr og gagnslítil til persónukjörs. Flokkarnir ráða því miklu fremur en kjósendur hvaða einstaklingar setjast á þing.

Ef þau 10 ákvæði sem hér eru talin, og fjölmörg önnur í nýju stjórnarskránni, hefðu verið í gildi á Íslandi undanfarin misseri hefði atburðarás hér getað orðið verulega öðruvísi, og farsælli fyrir almenning, en raun ber vitni. Leikreglurnar móta bæði leikinn sjálfan og útkomu hans.

Höldum áfram hinu opna og lýðræðislega ferli sem í gangi var á síðasta kjörtímabili, og setjum okkur það markmið að klára stjórnarskrána okkar á næsta kjörtímabili. Það verður heillaskref í átt að því nýja Íslandi sem við ætluðum að byggja upp eftir hrunið en var lagt á hilluna af núverandi ríkisstjórnarflokkum.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Miðvikudagur 30.3.2016 - 23:41 - 29 ummæli

Um meint „aflandsfélög“ og „skattaskjól“

Í dag hefur risið mikil umræða vegna þeirrar hreinskilni minnar að benda á, eins og áður hefur komið fram í fjölmiðlum og hefur aldrei verið leyndarmál, að ég á eignarhaldsfélag í Lúxemborg. Af því tilefni er rétt að setja fram nokkra punkta – og smá rúsínu í pylsuendanum.

Ég stofnaði hugbúnaðarfyrirtæki árið 1983, þá 17 ára gamall, ásamt félaga mínum. Félagið var svo selt á 10. áratug síðustu aldar til erlends hugbúnaðarfyrirtækis fyrir ágætis upphæð í sterlingspundum. Síðan þá hef ég verið vel settur fjárhagslega. Eignir mínar hafa að mestu leyti verið ávaxtaðar innan félags sem ég á í Lúxemborg – eins og er fullkomlega heimilt skv. „fjórfrelsi“ evrópska efnahagssvæðisins.

Félagið hefur vitaskuld alltaf verið gefið upp á skattskýrslum og íslensk skattyfirvöld hafa getað farið fram á að sjá ársreikning þess, sem þau hafa a.m.k. einu sinni gert til að sannreyna arðgreiðslu.

Félagið er venjulegt fullskattlagt hlutafélag og greiðir 21,84% tekjuskatt í Lúxemborg. Íslensk hlutafélög greiða 20%. En mikilvægt er að benda á að söluhagnaður af hlutabréfum, t.d. ef fjárfesting reynist góð og er seld með hagnaði – sem er meginuppistaðan í ávöxtun félags míns frá upphafi – er ekki tekjuskattskyldur hjá íslenskum hlutafélögum. Það er þannig m.a. til að komast hjá margsköttun. (Slíkur hagnaður er skattskyldur í nokkrum tilvikum, en ekki öllum, í Lúxemborg.)

Félagið í Lúxemborg á dótturfélag á Íslandi sem heldur utan um flestar fjárfestingar mínar hér. Það á jafnframt dótturfélag á Kýpur utan um tilteknar hlutabréfaeignir. (Það fyrirkomulag kemur til vegna reglna um skattlagningu söluhagnaðar hlutabréfa í Lúxemborg, og er í samræmi við bindandi álit sem leitað var eftir hjá skattyfirvöldum í Lúxemborg og þau samþykktu.) Lúxemborg og Kýpur eru innan EES og hvorugt landið er á lista RSK yfir lágskattasvæði.

Hvernig borga ég þá skatta?

Ég borga auðvitað alla skatta og skyldur sem mér ber og hef alltaf gert; í gegn um tíðina töluverðar upphæðir í sjóði íslenska ríkisins, sem ég tel ekki eftir mér.

 • Ég greiði að sjálfsögðu tekjuskatt af launum sem ég fæ;
 • ég borgaði auðlegðarskatt (sem reiknast af öllu eigin fé félagsins í Lúxemborg) meðan hann var og hét (og sem ég er almennt fylgjandi);
 • og ég borga fjármagnstekjuskatt af öllum arði sem tekinn er út úr félaginu.

Síðastnefndi liðurinn er grundvallaratriði því hann þýðir að 20% af eignum félagsins og ávöxtun þeirra (m.v. núverandi skattprósentu) munu með tíð og tíma renna til íslenska ríkisins, eftir því sem þeim er komið í verð og þær greiddar út í arð – að því gefnu að ég sé íslenskur skattþegn, sem ég er og hyggst vera. Sú staðreynd er algerlega óháð því að félagið er í Lúxemborg.

Félagið er ekki í Lúxemborg vegna skattahagræðis, heldur fyrst og fremst vegna krónunnar, gjaldeyrishafta og óstöðugleika íslensks efnahags- og stjórnmálaumhverfis. Ef við værum í ESB og með evru væri engin ástæða að hafa svona félag annars staðar en á Íslandi. Á hinn bóginn hefði það verið félaginu mjög erfitt, og nánast ómögulegt, að starfa eins og það gerir ef það hefði verið íslenskt félag undir íslenskum gjaldeyrishöftum. Nógu erfið hafa höftin verið samt.

Félagið átti ekki kröfur á íslensku bankana og það notfærði sér ekki fjárfestingarleið Seðlabankans.

Sem sagt: Persónulegar skattgreiðslur mínar eru nákvæmlega þær sömu og ef eignarhaldsfélagið hefði verið íslenskt. Félagið sjálft greiðir hærri tekjuskatt í Lúxemborg en það hefði gert á Íslandi, sérstaklega þegar það er haft í huga að söluhagnaður hlutabréfa er ekki skattskyldur í íslenskum félögum. Félagið er ekki í Lúxemborg vegna skattahagræðis.

Ég er svo heppinn að vera vel stæður, og tilheyri eflaust hinu fræga 1%. En ég er líka jafnaðarmaður að lífsskoðun, styð öflugt velferðarkerfi og samhjálp og að þeir sem mest eiga greiði sanngjarnan, og þá meina ég ríflegan, skerf til samfélagsins.

En þrátt fyrir allt sem að ofan er sagt, má augljóst vera að svona flókið eignarhalds- og fjárfestingadæmi hjá gjaldkera Samfylkingarinnar – jafnaðarmannaflokks Íslands er lítt til þess fallið að fókusera umræðuna sem nú stendur yfir um aflandsfélög og skattaskjól á það sem máli skiptir: ríkisstjórnina og stjórnarmeirihlutann í landinu.

Ég hef því ákveðið að segja af mér embætti gjaldkera Samfylkingarinnar, og styð stjórnarandstöðuna eindregið í því að kalla fram ábyrgð ríkisstjórnarflokkanna á sínu fólki.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Miðvikudagur 23.3.2016 - 15:33 - 10 ummæli

Forsetinn, Össur og stjórnarmyndun

Í dag birtist í Fréttablaðinu ágæt grein eftir Össur Skarphéðinsson alþingismann og fv. utanríkisráðherra þar sem hann fjallar um fyrirsjáanlegar breytingar á embætti og valdsviði forseta Íslands þegar nýja stjórnarskráin tekur gildi. Í greininni freistar Össur þess að „brjóta til mergjar hvernig síðasttöldu tillögurnar breyta vægi og áhrifum forsetans, einkum andspænis sundurleitu þingi og flókinni stjórnarmyndun“, enda „herð[i] þær kröfurnar sem verður að gera til forsetaefna“.

Nýja stjórnarskráin hefur það umfram þá gömlu í þessu efni (og fleirum) að vera skýr og afdráttarlaus um hlutverk forsetans. Gamla stjórnarskráin segir lítið sem ekkert um það hvernig forsætisráðherra er valinn og ríkisstjórn mynduð. Ísland er lýðveldi með þingbundinni stjórn segir í 1. gr. Forsetinn skipar ráðherra og veitir þeim lausn. Hann ákveður tölu þeirra og skiptir störfum með þeim segir í 15. gr. [Ráðherrafundum] stjórnar sá ráðherra, er forseti lýðveldisins hefur kvatt til forsætis, og nefnist hann forsætisráðherra er sagt í 17. gr. – og þar með er það upp talið(!).

Það þarf því að lesa bækur fræðafólks um stjórnskipunarrétt, ekki stjórnarskrána sjálfa, til að skilja þá venju og hefð – mér liggur við að segja vúdú – sem mótast hefur um stjórnarmyndun á Íslandi. Á endanum byggir þó leikjafræði ferlisins alltaf á því að þingið þarf að umbera þá stjórn sem mynduð er; að öðrum kosti getur það samþykkt vantraust á forsætisráðherra eða aðra ráðherra og verða þau þá að víkja. (Formleg lögfesting þeirrar meginreglu, þingræðisreglunnar, fór merkilegt nokk ekki fram fyrr en með nýjum lögum um Stjórnarráð Íslands frá 2011, en reglan á að sjálfsögðu heima fullútskrifuð í stjórnarskránni sjálfri.)

Í nýju stjórnarskránni er stjórnarmyndun skilgreind vel og nákvæmlega og með hliðsjón af þingræðisreglunni. Greinin (90. gr.) er svona:

Alþingi kýs forsætisráðherra.

Eftir að hafa ráðfært sig við þingflokka og þingmenn gerir forseti Íslands tillögu til þingsins um forsætisráðherra. Er hann rétt kjörinn ef meirihluti þingmanna samþykkir tillöguna. Að öðrum kosti gerir forseti Íslands nýja tillögu með sama hætti. Verði sú tillaga ekki samþykkt fer fram kosning í þinginu milli þeirra sem fram eru boðnir af þingmönnum, þingflokkum eða forseta Íslands. Sá er flest atkvæði hlýtur er rétt kjörinn forsætisráðherra.

Hafi forsætisráðherra ekki verið kjörinn innan tíu vikna skal Alþingi rofið og boðað til nýrra kosninga.

Forsætisráðherra ákveður skipan ráðuneyta og tölu ráðherra og skiptir störfum með þeim, en ráðherrar skulu ekki vera fleiri en tíu.

Forseti Íslands skipar forsætisráðherra í embætti. Forseti veitir forsætisráðherra lausn frá embætti eftir alþingiskosningar, ef vantraust er samþykkt á hann á Alþingi, eða ef ráðherrann óskar þess. Forsætisráðherra skipar aðra ráðherra og veitir þeim lausn.

Þarna er sem sagt gert ráð fyrir tveimur atrennum að því að leggja til forsætisráðherra sem meirihluti þingmanna (þ.e. 32 þingmenn hið minnsta) getur stutt í atkvæðagreiðslu. Takist það ekki fer fram þriðja atrenna þar sem þingmenn, þingflokkar og forseti geta lagt til kandídata, og sá er rétt kjörinn forsætisráðherra sem flest atkvæði fær. (Geti meirihluti þingmanna enn ekki sætt sig við þann forsætisráðherra sem út úr þessu kemur er honum frjálst að samþykkja vantraust skv. 91. gr., en þá þarf hann að tilnefna annan forsætisráðherra í staðinn í sömu tillögu.)

Hlutverk forsetans í ferlinu er að vera nokkurs konar miðlari; það sem í fræðunum er kallað informateur. Hann safnar saman upplýsingum, leiðir saman sjónarmið og stuðlar að því að meirihluti finnist, sé á annað borð möguleiki á honum í stöðunni. Á endanum eru það hins vegar alltaf þingflokkar og þingmenn sem ráða niðurstöðunni; enginn verður forsætisráðherra án þess að hljóta til þess beinan og opinn stuðning meirihluta þingsins eða a.m.k. stærsta mögulega minnihluta. Þingræðið birtist þannig með jákvæðum og skýrum hætti, ekki óbeint eins og nú.

Ákvæðin eru sem sagt nákvæm, úthugsuð og út úr þeim kemur leikjafræði sem er fyrirséð og viljandi höfð eins og hún er.

Í umræðum um frumvarp stjórnlagaráðs 2011-2012 bar nokkuð á þeim misskilningi, meira að segja stöku stjórnmálafræðings, að stjórnlagaráð væri þarna að leggja til áður óþekkta og róttæka lausn sem væri gjörbreyting á þekktum praxís. Svo er alls ekki, því ákvæðin eru mjög lík, og nánast hin sömu, og t.d. í nýlegri stjórnarskrá Finnlands frá 2000 og í stjórnarskrám Svíþjóðar og Þýskalands. Í öllum þessum ríkjum leggur informateur (forseti í Finnlandi og Þýskalandi, þingforseti í Svíþjóð) fram tillögur til þingsins um forsætisráðherra eftir samráð við þingflokka og þingmenn. Í Finnlandi og Þýskalandi þarf meirihluti að samþykkja tillöguna, en í Svíþjóð nægir að meirihluti leggist ekki gegn henni. Í Finnlandi og Þýskalandi eru þrjár atrennur reyndar, í Svíþjóð allt að fjórar, áður en gefist er upp og boðað til nýrra kosninga.

Allt gengur þetta vel og snuðrulaust fyrir sig í Finnlandi, Svíþjóð og Þýskalandi og þar velkjast menn ekki í vafa um hlutverk forseta/þingforseta við stjórnarmyndun, heldur er þingræðið þar lýðum ljóst og þar með ábyrgð þingsins á ríkisstjórninni.

Óskýrleiki ákvæða gömlu stjórnarskrárinnar um stjórnarmyndun er tifandi tímasprengja. Sá dagur gæti komið að við lentum í stjórnskipunarkrísu ef forseti ákveður að víkja frá þeim óskráðu hefðum og venjum sem tíðkast hafa. Miklum vafa yrði undirorpið hvaða réttarheimildir Hæstiréttur gæti stuðst við ef slíkt mál kæmi til kasta hans.

Þetta er ein af mörgum ástæðum fyrir því að við eigum að drífa í því að klára og samþykkja nýja og miklu betri íslenska stjórnarskrá, eins og fyrirheit voru um árið 1944 og beðið hefur verið eftir allar götur síðan.

 

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Þriðjudagur 24.11.2015 - 14:54 - 2 ummæli

Viðfangsefni næstu áratuga

Margvíslegar stórar samfélagsbreytingar eru fyrirsjáanlegar á næstu árum og áratugum. Að mínu mati þyrftu stjórnmálin að fjalla meira um þessar breytingar og taka tillit til þeirra. Umræðan er of föst í viðfangsefnum og hjólförum síðustu aldar. Það kann einnig að vera hluti skýringarinnar á því að ungt fólk tengir ekki við hina hefðbundnu flokka, sem eru býsna miðaldra í ýmsum skilningi.

Meðal viðfangsefna og spurninga sem þarf að glíma við af fyllstu alvöru má nefna:

Loftslagsvána. Að sporna við hlýnun jarðar mun þýða miklar breytingar á orkuvinnslu, samgöngum, flutningum, land- og borgarskipulagi, meðferð vatnsauðlinda o.m.fl. Verkefnið mun reyna á alþjóðlega og hnattræna samstöðu – einnig við að takast á við afleiðingar þurrka og hamfaraveðurs.

Fólksflutninga. Vegna loftslagsvárinnar og vegna þess að fólk sættir sig ekki við að búa við stríðsástand verða fólksflutningar stærri í sniðum en áður. Því þarf að mæta með opnum huga og lausnum sem helst taka á orsökunum fremur en afleiðingunum.

Deilihagkerfið og upplifunarhagkerfið. Yngri kynslóðir leggja ekki eins mikið og þær eldri upp úr stórum húsum, dýrum húsbúnaði og flottum bílum (enda mun einkabíllinn hverfa af sjónarsviðinu; einkabílar verða eins og vínýlplötur). Þær eru frekar til í að deila efnislegum gæðum en eiga í staðinn meiri frítíma og verja peningum í upplifanir, ferðalög, menningu og skemmtun. Sá þáttur hagkerfisins mun stækka.

Lýðheilsu. Fólk lifir lengur, en á móti koma ýmsir lífsstílssjúkdómar: Offita, sykursýki, streita og sálrænir kvillar. Ný sérhæfð lyf og hátæknimeðferðir geta verið mjög dýrar. Taka þarf upp virka lýðheilsustefnu (dæmi: sykurskatt), gera starfslok sveigjanlegri og svara erfiðum spurningum um samhjálp og samábyrgð í heilbrigðiskerfinu.

Símenntun og endurmenntun. Þekkingu mun sífellt þurfa að endurnýja og uppfæra, eftir því sem hraðari breytingar verða á atvinnumarkaði. Efla þarf mjög möguleika til símenntunar og endurmenntunar á öllum æviskeiðum. Skapandi greinar verða sífellt mikilvægari.

Klæðskerasaumaða framleiðslu í stað magnframleiðslu. Með tilkomu þrívíddarprentunar verða hlutir framleiddir jafnóðum nálægt okkur (eða heima hjá okkur), í þeirri útfærslu sem við veljum sjálf. Virðið og framlegðin mun felast í hönnuninni, ekki framleiðslunni. Þetta gerbreytir framleiðslu, flutningum, dreifingu, smásölu og hlutverki hönnuða.

Sítengingu við netið. Allar heimsins upplýsingar verða ætíð aðgengilegar. Með okkur í för verður „gáfaður“ tölvuþjónn sem við getum talað við, vonandi á íslensku. Þjónninn pantar vörur og þjónustu fyrir okkur, sér um dagatalið, hóar í sjálfkeyrandi bíl þegar við þurfum hann, man það sem þarf að muna o.s.frv. – Störf sem felast fyrst og fremst í að hnoða upplýsingum fram og aftur, án skapandi þáttar (les: hvers kyns skriffinnska), verða smám saman óþörf. Gæta þarf sérstaklega að persónuvernd og valdi og ábyrgð stórra upplýsingatæknifyrirtækja.

Tauganet og gervigreind. Nú liggur fyrir að tauganet í tölvum geta lært að leysa ýmis verkefni sem áður þóttu erfið, svo sem að þekkja fólk, hluti og aðstæður á myndum og í myndstraumum, keyra bíla, þýða talað mál jafnóðum milli tungumála, greina æxli á sneiðmyndum, versla með verðbréf og jafnvel að stjórna fyrirtækjum. Allt þetta munu tauganetin innan tíðar gera betur en fólk; hraðar, öruggar, áreiðanlegar. Raunar er stórt heimspekilegt viðfangsefni að ákveða hvernig mannkynið hyggist höndla framþróun gervigreindar. Það þarf helst að liggja fyrir áður en gervigreind nær svo langt að geta endurbætt sjálfa sig – en eftir það skilur hún mannkynið eftir í rykinu, ef ekki er varlega farið frá upphafi.

Ójöfnuð. Þessar samfélagsbreytingar munu að óbreyttu gagnast þeim best sem í bestri stöðu eru fyrir; vel menntuðu fólki í efri lögum þjóðfélaga í ríkari heimshlutum. Þær geta hins vegar orðið mjög jákvæðar ef rétt er á spilum haldið. Þær gera okkur kleift að mæta margvíslegum þörfum fólks með minni tilkostnaði, tíma, forðum og umhverfisálagi. Breytingarnar kalla á meiri endurdreifingu gæða, þannig að í stað þess að lítill hópur hafi það miklu betra (vegna þekkingar, aðstöðu og sveigjanleika), en stór hópur verra (vegna atvinnuleysis og jaðarsetningar), gagnist þær sem flestum. Í þessu efni koma til álita ráðstafanir á borð við styttri vinnuviku, öflugra velferðarkerfi, borgaralaun og aukna þróunaraðstoð.

Lýðræði og alþjóðlegt samstarf. Allt ofangreint mun reyna á lýðræðislega stjórnarhætti, ekki bara innan þjóðríkja, heldur einnig milli þeirra – enda flest viðfangsefnin hnattræn. Gæta þarf að því að vilji og hagur almennings ráði för, fremur en sérhagsmuna. Það útheimtir þá einnig að almenningur sé vel upplýstur um álitaefnin og að um þau fari fram gagnrýnin umræða. Stjórnmálaflokkar framtíðar eiga m.a. að fóstra þá umræðu – ef þeir vilja skipta máli.

Að mínu mati er afar mikilvægt að hugmyndafræði jafnaðarmanna – með lýðræði, algildum mannréttindum og samhjálp, gegn ójöfnuði – komi verulega við sögu þegar tekist er á við áskoranir næstu áratuga.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Þriðjudagur 3.11.2015 - 17:33 - 7 ummæli

Stórar tölur, stöðugleikaframlög og stærðfræði

Í umræðu hafa verið uppi tvær meginhugmyndir um uppgjör slitabúa föllnu bankanna. Önnur gekk út á að gera frjálsa nauðasamninga þar sem kröfuhafar „sleppa út“ með erlendar eignir/gjaldeyri búanna, gegn því að skilja eftir innlendar eignir/krónueignir. Hin gekk út á að nota skattlagningu og/eða „gjaldþrotaleið“ til að taka hluta (35-40%) af heildareignum búanna, erlendum sem innlendum, til stjórnvalda, og nota þær eignir m.a. til að losa út aðrar krónueignir í eigu erlendra aðila (og jafnvel til að bæta annað tjón þjóðarbúsins af bankahruni).

Ég skrifaði til dæmis um fyrri leiðina vorið 2013, en þá voru þegar uppi vangaveltur um skipti á krónueignum og gjaldeyriseignum við kröfuhafa sem hluta af nauðasamningi. Tíminn hefur verið dýr í þessu efni enda hafa krónueignir slitabúanna hækkað úr 500 milljörðum króna í 576 milljarða vegna virðisaukningar útlána meðan stjórnvöld hafa velt málinu fram og aftur.

Í síðustu viku kynnti Seðlabankinn það mat sitt að fyrirliggjandi drög að nauðasamningum föllnu bankanna uppfylli skilyrði um fjármálastöðugleika og kröfur laga um gjaldeyrismál. Í framhaldi var haldinn blaðamannafundur á vegum ríkisstjórnarinnar með nýrri glærukynningu. Niðurstaðan er sú að fara fyrri leiðina, þ.e. leið frjáls nauðasamnings en ekki skattlagningar eða gjaldþrotaleiðar.

„Afnám hafta“ kynnt í Hörpu í júní sl. Mynd mbl.is/Golli

Eins og margir eflaust muna voru stórar tölur nefndar til sögu í Hörpu í júní sl. þegar „aðgerðir til losunar fjármagnshafta“ voru reifaðar. Bar þar hæst áform um stöðugleikaskatt upp 850 milljarða brúttó.

Heildarvandinn vegna slitabúanna er talinn nema 815 milljörðum króna (glæra 12). Með hliðsjón af því, og í ljósi gagnrýni og varnaðarorða InDefence, hefur ríkisstjórninni þótt mikilvægt að setja ávinning af nauðasamningi þannig fram að hann leysti vandann og þætti ekki lakari en skattlagningarleiðin. Því var áberandi á blaðamannafundinum í síðustu viku talan 856 milljarðar sem „heildarumfang aðgerðanna“ (glæra 4).

Sú tala er hins vegar ekki sérlega traustvekjandi, enda fengin með athyglisverðri stærðfræði þar sem margvíslegar eðlisólíkar tölur eru lagðar saman. Skoðum það aðeins nánar. (Heimild: Greinargerð Seðlabanka Íslands, einkum tafla á bls. 10)

Hið eiginlega stöðugleikaframlag er að sjálfsögðu sú fjárhæð sem kröfuhafar bankanna þriggja afhenda stjórnvöldum vegna nauðasamninganna sem slíkra. Samkvæmt kynningunni nemur framlagið 379 milljörðum króna. Þar verður þó að hafa í huga að talan miðast við að Íslandsbanki og Arion banki séu metnir á fullu eiginfjárvirði (Q-hlutfall 1,0). 95% hlutur í Íslandsbanka er þannig metinn á 185 milljarða. Ef rétt verð reynist t.d. 0,6 (sem er ekki ólíklegra en 1,0) er stöðugleikaframlagið 74 milljörðum lægra, eða 305 milljarðar alls. Sama gildir um Arion banka; 20 milljarðar af stöðugleikaframlaginu eru skilyrtir við Q 1,0. Framlagið getur því hæglega orðið undir 300 milljörðum þegar upp er staðið – og sú fjárhæð birtist ekki í ríkiskassanum fyrr en bankarnir hafa verið seldir og kaupverðið greitt.

Til að brúa mismuninn frá <379 milljörðum upp í 856 milljarða er gripið til skapandi bókhalds.

 • Taldir eru með ýmsir kostnaðarliðir föllnu bankanna sem þeir greiða innanlands og hefðu alltaf greitt óháð nauðasamningi. Þar má nefna almennan rekstrarkostnað þeirra (laun, þ.m.t. slitastjórna, verktaka o.s.frv.) upp á 15 milljarða, skaðleysissjóð slitastjórna og starfsmanna vegna ágreiningsmála upp á 1 milljarð, bankaskatta upp á 26 milljarða og aðra skatta að fjárhæð 3 milljarðar. Þessi kostnaður upp á 46 milljarða samtals er sem sagt talinn til ávinnings af nauðasamningnum og innifalinn í 856 milljarða tölunni. – Óneitanlega er skemmtilegt að ofurlaun slitastjórna teljist nú hluti af lausninni, ekki vandanum.
 • Endurheimtur Eignasafns Seðlabanka Íslands af kröfum í föllnu bankana (vegna ástarbréfaviðskiptanna á sínum tíma) upp á 81 milljarð eru taldar til ávinnings af nauðasamningnum. Sú fjárhæð hefði alltaf fengist greidd, raunar að frádregnum 39% ef stöðugleikaskattur hefði verið lagður á en nettóávinningur ríkisins hefði verið sá sami.
 • Nýi Landsbankinn skuldar þeim gamla 149 milljarða í svokölluðu „Landsbankabréfi“ sem stjórnvöld streittust lengi á móti (af óskiljanlegum ástæðum) að framlengt yrði. Nýlega seldi nýi Landsbankinn skuldabréf erlendis á ágætum kjörum. Ef nauðasamningur verður samþykktur hyggst bankinn greiða niður „Landsbankabréfið“ með fénu sem nýja skuldabréfið skilaði. Þessi fyrirætlun bankans virðist vera stjórnvöldum tilefni til að bæta öllum höfuðstóli Landsbankabréfsins – 149 milljörðum – við ávinning af nauðasamningnum og innifela hann í 856 milljarða tölunni(!) – Aftur er skemmtilegt að sjá að skuld sem einu sinni þótti ógna þjóðarhag sé nú orðin veigamikill þáttur í lausn vandans, og væri veigameiri ef hún væri hærri.
 • Þá er lengt í innlánum kröfuhafa í bönkunum og skuldum ríkissjóðs með nýrri fjármögnun á vegum kröfuhafa. Höfuðstóll skuldanna er óbreyttur og þær þarf eftir sem áður að greiða, í erlendum gjaldeyri þar sem það á við. Þessar skuldbreytingar að fjárhæð 151 milljarður eru taldar með í ávinningi af nauðasamningnum.
 • Loks er liður í útreikningum stjórnvalda upp á 50 milljarða undir nafninu Eignir með undirliggjandi erlendan gjaldeyri sem ég get ómögulega séð annað en að sé a.m.k. að hluta tvítalinn, en gæti haft rangt fyrir mér í því.
 • Ofantaldir liðir eru 46+81+149+151+50 = 477 milljarðar sem að viðbættu 379 ma. kr. stöðugleikaframlagi gerir 856 milljarðana margnefndu.

Nú er það gott og blessað að nauðasamningnum tengist ýmsar aðrar ráðstafanir, svo sem lánalengingar. En allir geta séð að þeir liðir sem ég taldi upp hér að ofan eru alls ekki hliðstæðir stöðugleikaskatti sem hefði einfaldlega, og a.m.k. fræðilega, skilað 850 milljörðum brúttó í ríkissjóð (mínus afsláttur sem kröfuhafar hefðu getað fengið með því að festa fé á Íslandi til lengri tíma). Að nota 856 milljarða „ávinning“ af nauðasamningi reiknaðan eins og hér var lýst í samanburði við 850 milljarða skatt er algjör markleysa.

Hitt, og jafnvel meira áhyggjuefni, er að í reynd er aðeins verið að fá <379 milljarða (eftir dúk og disk og sölu tveggja banka á Q=1,0), upp í vanda sem nemur 815 milljörðum mínus skattar og innlendur kostnaður, skv. upplýsingum stjórnvalda sjálfra. En þar fyrir utan, og til viðbótar, er svo snjóhengja aflandskróna upp á 300 milljarða. Það er því ljóst að talsverðar upphæðir þurfa að koma úr gjaldeyrisvaraforðanum til að ná heildarjöfnuði. Og þrátt fyrir digurbarkaleg orð talsmanna stjórnarflokkanna um annað er niðurstaðan sú að kröfuhafar komast fyrstir út úr höftum með gjaldeyrinn sinn, meðan óljóst er hvort og hvenær höftum verður aflétt á innlend fyrirtæki og einstaklinga.

Fyrir mitt leyti myndi ég gjarnan vilja sjá betri útskýringu, með trúverðugri tölum, á því hvernig ríkisstjórnin sér fyrir sér að þetta dæmi gangi upp.

Að minnsta kosti er full ástæða til að flýta sér hægt, og taka um þetta risastóra mál góða og ítarlega umræðu á þingi og í þjóðfélaginu.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Mánudagur 29.6.2015 - 18:29 - 14 ummæli

Nokkur grundvallaratriði um Grikkland

Staða mála á Grikklandi er flókin og erfitt að henda reiður á því hvað snýr upp og hvað snýr niður.

Svona horfa grundvallaratriði málsins við mér:

1. Skúrkarnir í málinu eru þeir stjórnmálamenn (og þau sem kusu þá) sem skuldsettu gríska ríkið svo gríðarlega sem raun ber vitni. Að hluta til var sú skuldsetning uppi á yfirborðinu og afleiðing viðvarandi fjárlagahalla, en að hluta var hún falin og „utan efnahagsreiknings“.

2. Í samningum árið 2012 náðu Grikkir, með aðstoð Íslandsvinarins Lee Buchheit, að semja um verulega afskrift (~75%) þeirra skulda sinna sem einkaaðilar áttu (ágætt yfirlit hér). Að því loknu voru lánardrottnar Grikkja að langmestu leyti AGS og sjóðir og ríki ESB.

3. Í þeim pakka komu AGS og Evrópusambandið að málum með því að lána Grikkjum peninga og gera þeim kleift að skuldbreyta og lengja í eldri lánum. Hluti af pakkanum er að ESB-sjóðir gefa eftir vaxtamun og gengishagnað af lánum sínum til Grikkja. Evrópski seðlabankinn ECB hefur jafnframt veitt Grikkjum lausafjárfyrirgreiðslu. Þetta hefur forðað gríska ríkissjóðnum frá greiðsluþroti og bankakerfinu frá því að verða uppiskroppa með lausafé.

4. Síðan þá hefur verið reynt að vinna með grískum stjórnvöldum að því að teikna upp hvernig unnt sé að lækka skuldahlutfall ríkissjóðs smám saman yfir tíma („Debt Sustainability Analysis„). Það gerist með blöndu af því að gefa eftir vexti og fjármagnskostnað annars vegar, og að ná frumafgangi af ríkissjóði (þ.e. að tekjur séu umfram gjöld önnur en vaxtagjöld). Í þeim tillögum sem lágu á borðinu á föstudaginn af hálfu Eurogroup (fjármálaráðherra evruríkjanna) var miðað við að frumafgangur ykist í skrefum og næði 3,5% af VLF á árinu 2018. Það er svipað hlutfall og í íslensku fjárlögunum 2013.

5. Tillögur Eurogroup um leiðir til að ná umræddum frumafgangi hljóma alls ekki frjálshyggjulega eða óskynsamlega fyrir utanaðkomandi; þar er m.a. gert ráð fyrir hækkun tekjuskatta á fyrirtæki úr 26% í 28%, framhaldi hátekjuskatts og lúxus-skatts á skemmtibáta og snekkjur, að loka ýmsum skattundanþágum, að hækka VSK á hótelgistingu (sem væri upplagt á Íslandi líka), að herða mjög skatteftirlit, að draga saman útgjöld til varnarmála um €400m – og raunar að hækka eftirlaunaaldur í skrefum í 67 ár (eða 62 ár eftir 40 ár í starfi).

6. Vandinn er meðal annars sá að aðhaldsaðgerðir með hækkun skatta og lækkun bóta og millifærslna draga þrótt úr hagkerfinu, sem aftur lækkar skattstofninn, sem aftur kallar á meiri aðhaldsaðgerðir. Hitt er líka ljóst, að jafnvel þótt ESB og AGS kæmu ekki að málum, og jafnvel þótt allar skuldir Grikkja yrðu afskrifaðar á morgun, þyrftu Grikkir engu að síður að ná að reka ríkissjóð sinn með jákvæðum frumjöfnuði (því ekki yrðu margir til að lána þeim við svo búið).

7. ESB eru þröngar skorður settar í því að færa skuldir Grikkja með beinum hætti yfir á skattborgara í öðrum löndum sambandsins. Slíkt er raunar bannað í Lissabon-sáttmálanum (sjá 125. gr. hans) og ákvæði svipaðs eðlis eru í stjórnarskrám sumra aðildarríkja, t.d. Þýskalands. Einnig er skiljanlegt að skattborgurum finnist ekki sjálfsagt að greiða skuldir annarra ríkja, a.m.k. ekki uden videre, enda fá fordæmi fyrir slíku, og má segja að þar reyni fyrir alvöru á evrópska samheldni.

8. Málið er því í erfiðum hnút. Eina mögulega leiðin virðist vera sú að halda áfram viðræðum, finna millileiðir til skemmri tíma og vinna svo að langtímalausnum í betra ráðrúmi. Minna má á að unnið var úr skuldavanda Íra með slíkum hætti; á endanum var búinn til skuldbreytinga- og afskriftapakki sem gerði að verkum að ríkissjóður Írlands getur nú fjármagnað sig sjálfur á skuldabréfamörkuðum á góðum kjörum.

9. Að hætta viðræðum og boða til þjóðaratkvæðagreiðslu um þetta margbrotna mál með viku fyrirvara, eins og Tsipras forsætisráðherra gerði,  gagnast grískum almenningi lítt, að mínu mati. Nær væri að álykta að þar sé Tsipras að leika sér að eldinum.

10. Að hætta við evruna og taka aftur upp drökmu hjálpar heldur ekki grískum almenningi. Drakman myndi falla eins og steinn, nauðsynjavörur hækka í verði, skattstofnar ríkisins dragast enn frekar saman (enda yrði til neðanjarðarhagkerfi í evrum), fjármagnsflótti yrði úr landi og vextir yrðu óbærilegir.

11. Lexían hlýtur að vera sú að skuldsetning ríkja sé afskaplega vandmeðfarin. Stjórnmálamenn, kjósendur og lánardrottnar þurfa að líta í eigin barm varðandi þá hættu sem óvarleg skuldsetning skapar í nútíð og framtíð.

Það er sársaukafullt að horfa upp á raunir grísks almennings þessa dagana, og þessi árin. En lausnin er ekki svört eða hvít frekar en flest annað; einhvers staðar er grátónn á milli sem varðar bestu leiðina. Vonandi bera menn gæfu til að finna hann.

Flokkar: Evrópusambandið · Stjórnmál og samfélag

Höfundur