Mánudagur 06.02.2012 - 16:47 - Lokað fyrir ummæli

Enn um niðurfærslu lána

Umræðan um niðurfærslu lána hefur spólað í svipuðum hjólförum í þrjú ár og er talsvert ruglingsleg. Hér verður gerð tilraun til að skýra stöðuna og greina, í þeim tilgangi að færast nær raunhæfum lausnum.

Byrjum á lykilstaðreyndum. Íbúðalán landsmanna stóðu í byrjun október 2011 í samtals 1.380 milljörðum króna. Þar af átti Íbúðalánasjóður tæpan helming eða 670 milljarða. Lífeyrissjóðir áttu 178 milljarða. Það sem eftir stendur, 532 milljarðar, skiptist gróflega til helminga á milli nýju bankanna annars vegar og Seðlabanka og gömlu bankanna hins vegar. (Heimild: Skýrsla Hagfræðistofnunar HÍ C11:08, m.a. bls. 10 og 17.)

Niðurfærsla allra íbúðalána um 18,7% – eins og Hagsmunasamtök heimilanna hafa lagt til – kostar 260 milljarða króna. Af þeim hafa 110% leiðin og aðrar aðgerðir þegar skilað niðurfærslu upp á 60 milljarða. Ef halda ætti áfram og ráðast í hina flötu niðurfærslu þyrfti að liggja fyrir hvar og hvernig ætti að taka þá 200 milljarða sem upp á vantar. Í umræðu hafa verið nefndir nokkrir kostir í því efni:

 • Að misst hafi verið af tækifæri til að taka peningana af kröfuhöfum bankanna við flutning lána úr gömlu bönkunum yfir í þá nýju. Þetta stenst ekki skoðun. Lánasöfn gömlu bankanna voru (og eru í prinsippi enn) eign þrotabúanna og kröfuhafanna. Stofnun nýju bankanna og flutningur tiltekinna eigna og skulda yfir í þá hefði ekki getað skert þau eignarréttindi bótalaust. Kröfuhafar hefðu getað sótt bætur fyrir dómi, á grundvelli stjórnarskrár og þeirra laga sem giltu þegar bankarnir féllu, ef reynt hefði verið að „taka snúning“ á þeim. En þó svo væri ekki, þá eru þau íbúðalán sem fóru á milli gömlu og nýju bankanna aðeins brot af heildinni, sennilega um fimmtungur. Niðurfærsla þeirra nú um 18,7% myndi skila innan við 36 milljörðum upp í þá 200 sem til umræðu eru.
 • Að sparifjáreigendur hafi beint eða óbeint fengið peninga úr ríkissjóði sem nota hefði mátt í þessu skyni. Lilja Mósesdóttir og fleiri hafa haldið því fram að trygging innlendra innistæðna við fall bankanna, umfram lágmarkstryggingu, hafi kostað ríkissjóð stórar upphæðir sem unnt hefði verið að nota til niðurfærslu lána. Þetta er ekki rétt. Með neyðarlögunum var forgangi krafna í þrotabú banka breytt, þannig að innistæður fóru fram fyrir almennar skuldir bankanna í kröfuröðinni. Þetta olli því að meirihluti eigna bankanna gekk til innistæðueigenda í stað þess að fara til almennra kröfuhafa. Þessi aðgerð kostaði ríkissjóð ekki krónu. Þvert á móti var hún bráðnauðsynleg fyrir almannahag og einnig gagnvart hagsmunum Tryggingasjóðs innstæðueigenda og fjárfesta. Þarna var því enga peninga að sækja til niðurfærslu lána – því miður.
 • Að önnur heimili en þau skuldsettu eigi að taka skellinn á sig. Lilja Mósesdóttir hefur einnig gefið í skyn að önnur heimili en þau 69.000 skuldsettu ættu að greiða niðurfellinguna, með vísan til 150 þúsund tekjuskattsgreiðenda í landinu. Þegar skuldsettu heimilin eru frátalin, eru m.a. eftir heimili ellilífeyrisþega, öryrkja og námsmanna í leiguíbúðum. Ekki er raunhæft að skuldlaus og tekjuhá heimili standi undir 260 milljörðum eða broti af þeirri upphæð, en minna má á að sitjandi ríkisstjórn hefur hækkað fjármagnstekjuskatt og efsta þrep tekjuskatts og lagt á sérstakan auðlegðarskatt, nú 2% af eignum umfram tiltekið mark. Sá skattur skilar 7 milljörðum samkvæmt fjárlagafrumvarpi 2012.
 • Að prenta peninga upp í skuldirnar. Ólafur Margeirsson hefur stungið upp á því að Seðlabankinn taki 200 milljarða af skuldum heimilanna yfir á sinn efnahagsreikning með peningaprentun, sem svo verði endurheimtir af bönkunum smám saman með skattlagningu á hagnað þeirra. Af mörgum ástæðum sem ekki er rými til að fara út í hér gengur þessi lausn ekki upp, hvorki hagfræðilega eða viðskiptafræðilega. Á endanum borga annars vegar viðskiptavinir bankanna og hins vegar skattgreiðendur brúsann, enda er enginn ókeypis hádegisverður.
 • Að láta lífeyrissjóðina borga. Ef til vill væri hægt að þvinga fram, með lögum og samningum, að lífeyrissjóðirnir greiddu fyrir niðurfærsluna. Lífeyrissjóðir eru langstærstu fjármagnseigendur í landinu og gæta 2.000 milljarða fyrir hönd lífeyrisþega nútíðar og framtíðar. Eru menn tilbúnir að skerða réttindi í sjóðunum um 10% og nota fjárhæðina til að greiða niður húsnæðisskuldir? Það kann að vera, en þá á að segja það hreint út.
 • Að hætta þessu kjaftæði og færa niður skuldirnar strax! – Eins og áður sagði er helmingur skuldanna á vegum Íbúðalánasjóðs, sem er á ábyrgð ríkissjóðs, þ.e. skattgreiðenda. Íbúðalánasjóður er síðan að mestu leyti fjármagnaður af lífeyrissjóðunum. Eignaupptaka frá gömlu og nýju bönkunum (eða lífeyrissjóðum ef út í það er farið) verður ekki framkvæmd bótalaust skv. fortakslausu ákvæði stjórnarskrárinnar. Í þessu liggur vandinn og ástæðan fyrir því að málið hefur ekki þokast lengra en raun ber vitni. Þar er annars vegar við lögmál stærðfræðinnar og hins vegar við grundvallarreglur réttarríkisins að eiga.

Óumdeilt er að ástandið er erfitt fyrir marga, sérstaklega þá sem keyptu eignir á mestu bóluárunum og hafa horft upp á verð þeirra lækka og skuldirnar hækka upp úr öllu valdi, þökk sé gengishruni krónunnar. Þetta dregur úr þreki fólks og vinnuvilja, er erfitt fyrir sálina (og þjóðarsálina) og hamlar vexti hagkerfisins. En hvað er þá til ráða?

Mig langar að nefna til sögu tvennt sem ég tel raunhæft:

 • Að stefna að upptöku evru með aðild að Evrópusambandinu. Eitt af samningsmarkmiðum okkar gæti verið að skipta krónu yfir í evru á tiltölulega lágu skiptigengi krónu (margar krónur fyrir evruna). Við það „lækka“ skuldir nokkuð í evrum (og eignir líka), en laun munu fljótlega leita til jafnvægis á við það sem annars staðar gerist innan ESB. Við gjaldmiðlaskiptin væri unnt að fara í frjáls skipti, í kjölfar skiptiútboðs, á verðtryggðum krónulánasamningum yfir í nýja óverðtryggða evrusamninga á vöxtum sem eru nær því sem almennt tíðkast  í húsnæðislánum á evrusvæðinu. Þarna fengist fram nokkur höfuðstólslækkun, veruleg lækkun vaxta og afnám verðtryggingar.
 • Að nýta góðan árangur og betri horfur í ríkisfjármálum til þess að koma til móts við vanda þeirra sem á þurfa að halda í gegn um skattakerfið, jafnt og þétt á næstu árum. Þá er átt við t.d. sértækar vaxtabætur og aðrar leiðréttingar til þeirra sem verst fóru út úr misgengi eignaverðs og skulda. Nú þegar er um 30% af vaxtakostnaði heimila endurgreiddur í gegn um skattakerfið (sem er einn af mörgum duldum kostnaðarliðum við krónuna). Þarna má hugsa sér að enn verði bætt í hjá þeim sem lakast eru settir miðað við fjölskylduaðstæður, m.a. hjá „millistéttaraulanum“ fræga. Það hjálpar til í þessu sambandi að fasteignaverð er byrjað að jafna sig upp úr lægstu lægðum.

 Allt þetta og fleira þarf að ræða á uppbyggilegan hátt. Þessi mál eru of mikilvæg til að hafa þau spólandi í sömu hjólförunum einhver ár í viðbót.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

«
»

Ummæli (121)

 • Bjarni Gunnlaugur

  Er það álit þitt Vilhjálmur, að ekkert sé við viðmiðunargrunn verðtryggingarinnar að athuga?
  Íslenska krónan er ávísun á verðmæti íslenska hagkerfisins ekki satt? Þegar hagkerfið verður fyrir áföllum og verðmæti þess minkar þá er væntanlega eðlilegt að verðgildi hverrar krónu minki af þeim sökum. Telur þú eðlilegt við slíkar aðstæður að skuldari tryggi lánveitanda fyrir þessum samdrætti hagkerfisins? Taktu eftir Vilhjálmur, það er mjög mikilvægt, að ég er ekki að tala um verðrýrnun krónu vegna þess að fleiri krónur eru notaðar til að túlka sömu hagstærð og áður (verðbólga).

 • Bjarni: Neysluverðsvísitalan er byggð á neyslu dæmigerðs íslensks heimilis. Þar blandast saman innlendar vörur og þjónusta, innfluttar vörur, fjármagnskostnaður vegna húsnæðis o.m.fl. Hvort sem mönnum líkar betur eða verr þá eru verðtryggðir lánasamningar þannig að þeir tryggja kaupmátt hinnar umsömdu lánsupphæðar, auk vaxta. Þessi kaupmáttartrygging miðast við neysluverðsvísitölu, sem Hagstofan sér um að reikna út frá neyslukönnunum. Allt eru þetta þekktar forsendur lánasamningsins þegar hann er gerður. – En vitaskuld er verðtrygging ekki gott fyrirbæri og nauðsynlegt að losna við hana. Ég er hins vegar hræddur um að til þess verði að skipta um gjaldmiðil, ellegar grípa til róttækra og kostnaðarsamra aðgerða á borð við gjaldeyrishöft til frambúðar eða a.m.k. Tobin-skatt á gjaldeyrisviðskipti.

 • Margrét

  Afhverju virðast íslendingar ekki vita af því að það tekur mörg herrans ár að taka upp Evru og sennilegast tekst það aldrei því verðbólgan þarf að vera undir 3% í 3 ár samfellt !!

  Alveg stórundarlegt !!

 • Ólafur Garðarsson

  Geri athugasemd við þá fullyrðingu að HH hafi sagt það ætti að lækka íbúðalán um 18,7%. Þetta hafa HH aldrei sagt og er fengið annarstaðar frá. Einhverjir hafa búið til þessa túlkun á tillögum samtakanna en hún er einfaldlega röng. Svona prósentu útreikningar eru til þess fallnir að búa til ofureinföldun. Samtökin höfðu árið 2009 ákveðna tillögu um „restore point“ og 4% hámark á verðbætur en hún er fallin á tíma. Sérstaklega varðandi gengisbundnu lánin en þau eru alfarið í ferli í réttarkerfinu nú og of seint að taka á því máli með þessum hætti. Þau lán þarf því að taka til hliðar í þeirri mynd sem Vilhjálmur dregur upp. Leiðréttingarupphæðirnar eru því talsvert lægri en hér er getið auk þess sem útreikningarnir eru rangir hjá Vilhjálmi. Ég vísa í heimasíðu HH og útreikninga Marinós G. Njálssonar varðandi raunsannari tölur.

  • Ólafur: 18,7% talan er úr skýrslu Hagfræðistofnunar og byggir á „frystingu“ vísitölu í janúar 2008 og „þaki“ á hækkun hennar mánaðarlega sem svarar til 4% árlegrar hámarksverðbólgu. Sjá bls. 15 í skýrslunni. Endilega staðfestu það hér ef þetta er misskilningur á hugmyndum HH. (Ég fann þær ekki við fljótlega leit á heimasíðu samtakanna.)

   • Vilhjálmur það þarf ekki að reikna lengi til að sjá að tillögur HH hafa mismunandi áhrif á lán eftir því hvar þau eru stödd í tímalínu og hvaða vextir eru á láninu. Takmörkun verðbótaþáttar hefur mismunandi áhrif og því rangt að smella á höfuðstólinn flatri prósentu. Það er því rangtúlkun á tillögunum og ofureinföldun til þess fallin að skapa tortryggni um þær. Réttur skilningur fæst með því að tilgreina tillögurnar eins og þær eru settar fram þar sem vísað er í efri mörk verðbólguviðmiðunar seðlabankans. Samtökin hafa aldrei nefnt flatan niðurskurð í þessu sambandi enda stenst það ekki skoðun. http://www.heimilin.is/varnarthing/about/stjorn/tilloegur-samtakanna

    • Ekki sammála, Ólafur. Hagfræðistofnun reiknar út muninn á annars vegar fullum verðbótum frá janúar 2008 og svo hins vegar verðbótum með þaki við 4% efri mörk Seðlabankans eins og HH leggur til. Munurinn á þessum tveimur verðbótaaðferðum frá 1. janúar 2008 til október 2011 nemur 18,7%. Það þýðir einfaldlega að öll lán sem á annað borð voru tekin fyrir 1. janúar 2008 eiga að standa 18,7% lægra en þau gera, sé farið að tillögu HH. Engu máli skiptir hvenær lánið var tekið (fyrir 1. jan. 08) eða hvaða vextir eru á því. (Stærðfræðin á bak við það er sú regla að (a * b) * c = a * (b * c).)

 • Þórhallur Kristjánsson

  Það væri hægt að leiðrétta lánin með því að taka vísitöluna af og halda vöxtum lágum. Þannig mundi verðbólgan færa peninganna aftur til skudaranna með tímanum. Þetta væri hægt að gera tímabundið.
  Víða í hinum vestræna heimi eru vextir neikvæðir um þessar mundir. Önnur lönd eru að leiðrétta skulda og eignastöðu með neikvæðum vöxtum.

 • „Að prenta peninga upp í skuldirnar.“

  Ég ætla að biðja þig, Vilhjálmur, að hafa það alveg á kristalhreinu að ég er einmitt EKKI að stinga upp á því að „prenta peninga upp í skuldirnar.“ Ég tek það einmitt sérstaklega fram í mínum pistli sem þú vísar í að:

  „Peningamagn í umferð breytist ekkert við aðgerðina sjálfa því innlán heimila eru óbreytt og innlán bankastofnana hjá Seðlabankanum teljast ekki til peningamagns í umferð.“

  Ég skora hér með á þig að svara mínum hugleiðingum, þótt þú reynir að víkja þér undan þeim svörum hér með afsökunum um plássleysi. „Af mörgum ástæðum… gengur þessi lausn ekki upp, hvorki hagfræðilega eða viðskiptafræðilega“ er algjörlega órökstutt svar sem enginn getur tekið alvarlega. Vil ég sérstaklega beina þínum eigin orðum til þín: „allt þetta og fleira þarf að ræða á uppbyggilegan hátt.“

  Í þínu svari vil ég sérstaklega fá útskýringu þína á orðunum: „Á endanum borga annars vegar viðskiptavinir bankanna og hins vegar skattgreiðendur brúsann…“

  Þá vil ég biðja þig um að hugleiða þann möguleika að vaxtabætur á Íslandi séu ein af þeim orsökum sem ýta vöxtum upp á við – vextir eru jú, með vaxtabótunum, í raun ríkisstyrktir (og þar með væru fjármagnseigendur ríkisstyrktir).

  Að lokum langar mig að benda þér á að það tæki, ætlum við okkur að taka upp evru með samþykki ESB í gegnum Maastricht skilyrðin, a.m.k. áratug að uppfylla þau, m.a. vegna slakrar skuldastöðu ríkissjóðs. En þú vilt kannski taka upp evru einhliða, það er óljóst út frá þessum pistli.

  • Wikipedia: “ The monetary base is highly liquid money that consists of coins, paper money (both as bank vault cash and as currency circulating in the public), and commercial banks’ reserves with the central bank. “ Ég hygg að þú finnir enga skilgreiningu á peningamagni í umferð sem ekki tekur með innistæður viðskiptabanka í seðlabanka. Ég er einnig að vísa til fyrri bloggfærslu þinnar um sama efni, „Er sumt pappírsins virði“, þar sem þú talar beinlínis um „quantitative easing“ sem almennt er kallað „peningaprentun“ í óformlegra máli.

   Þú ert í reynd að tala um að færa hluta íbúðalána (væntanlega fyrsta tap, junior tranche af CDO-inu?) af efnahagsreikningi bankanna og inn á efnahagsreikning Seðlabanka. Þar með er tapsáhættan færð yfir á skattborgara. Síðan á að skattleggja bankana til að ná aftur inn höfuðstólnum, væntanlega að viðbættum vöxtum, verðbótum og áhættuálagi? Hvernig á það að gerast án taps fyrir Seðlabankann? Hvernig verða til peningar með þessu?

   • „The monetary base is highly liquid money that consists of coins, paper money (both as bank vault CASH and as currency circulating in the public.“

    Beinlínis rangt hjá þér! Þú finnur líklega enga skilgreiningu á peningamagni í umferð (hugsanlega einhverja Austrian economics skilgreiningu) sem telur með RAFRÆNAR innistæður bankastofnana hjá seðlabanka. Því endurtek ég það sem ég sagði: peningamagn í umferð, skilgreint eins og Seðlabanki Íslands gerir það, eykst ekkert við aðgerðina sjálfa.

    QE er aðeins „peningaprentun“, eins og óformlega heitið er, ef lánveitingar aukast í framhaldinu. QE er aldrei peningaprentun nema sé hún gerð beinlínis með því að prenta peninga. Því er ekki að skipta í minni tillögu enda væri það fráleitt og engum ætti að detta það í hug.

    Varðandi CDO / MBS tranche pælinguna hjá þér er hún röng: ég er ekki að tala um neina lánapakka (e. securitisation) heldur hreina og beina endurgreiðslu á lánum jafnháa þeirri upphæð sem hver fær inn á sinn innlánareikning sem samstundis er notuð til að borga upp lán viðkomandi. Eftir standa útlán hvers og eins lægri en þau voru í upphafi. Aftur: innlán eru óbreytt.

    Seðlabankinn fær skuldabréf sem er með ábyrgð útlánastofnana. Hagnist þær, sem þær verða að gera eigi hugmynd mín að ganga upp (þess vegna má ekki greiða upp of háa upphæð, þú áttar þig vonandi á af hverju) þá greiða þær lánið til baka. Það mun sjálfsagt taka áratug eða meira.

    Þú hefur því miður engu svarað. Þau svör sem þú komst með voru annaðhvort byggð á grundvallarmisskilningi á hvernig peningamagn í umferð er skilgreint og í öðru lagi skorti á því að lesa tillögu mína. Ég bíð ennþá spenntur eftir ítarlegra svari.

    P.S. það verða engir peningar til við aðgerðina sjálfa og þvert á móti er von mín að fjármálalegar eignir (e. financial assets) í hagkerfinu dragist saman við þessa aðgerð eftir því sem fram líða stundir.

    • Afsakið, fljótfær á fyrstu málsgreininni. „Monetary base“ þýðist sem „grunnfé“. Það er seðlar + mynt + innistæður bankastofnana.

     Innistæður bankastofnana hjá Seðlabankanum eru aldrei hluti af peningamagni í umferð (M3). Þær eru aðeins hluti af grunnfé.

     • Hmm. Seðlar og mynt eru M0 (emm núll). Monetary base, grunnfé, er M0 plús innistæður innlánsstofnana í Seðlabanka, rafrænar eða ekki. Síðan bætast við lausar innistæður í bankakerfinu (sight deposits) o.s.frv. uns loks er komið að M3, broad money, sem innifelur allt hitt plús bundnar innistæður.

      Eru menn nokkuð að falla á fyrsta ári? Nei, segi bara svona.

      Til að bankarnir hagnist nóg til að geta haldið Seðlabankanum skaðlausum af skuldabréfinu verða þeir að afla vaxta, verðbóta og áhættuálags auk höfuðstólsins yfir tíma. Þann hagnað sækja þeir aðeins af sirka jafnstórri upphæð í útláni, og þá að því gefnu að kostnaður af þeim peningum sé enginn.

      Þetta er dálítið eins og að reyna að útskýra fyrir uppfinningamanni að eilífðarvél geti ekki gengið… en vona að lesendur átti sig á þeim einfalda sannleika að það er ekkert trix sem getur búið til peninga án þess að einhver borgi þá á endanum.

     • Ásgeir Brynjar Torfason

      Þegar þið Ólafur og Vilhjálmur eruð hættir að rífast um M0-M3 eða off balance sheet lausnir með SPV grikk (sem Grikkir fengu t.d. hjálp frá Gullmanninum við að setja upp og eru ekki enn búnir að súpa seyðið af) þá væri gaman að rökræða við ykkur gamla og nýja hagfræðihugsun eftir að þið væruð búnir að horfa á Steve Keen hagfræðing hinumegin á hnettinum ræða um skuldalækkun með útdeilingu nýrra peninga dreifðra til allra og sem skilyrtir væru til skuldalækkunnar lánþega, sem sjá má t.d. í Hradtalk á BBC fyrra haust minnir mig og aðgengilegt er á youtube http://www.youtube.com/watch?v=rGkmgnprrIU&feature=youtube_gdata_player

     • Grunnfé = seðlar + mynt + innistæður banka hjá seðlabanka
      Peningamagn (M3) = seðlar + mynt + lausar innistæður + bundnar innistæður + annað sparifé. Innistæður banka hjá seðlabanka eru ekki hluti af M3.

      Ég fæ hugmyndina frá Steve Keen. Hans útfærsla, eins og ég skil hana, í HardTalk eykur hins vegar M3 í umferð. Hins vegar hefur hann gert cash flow greiningu á áhrifum þess að gera þetta. Fólk getur séð hana í bók hans Debunking Economics, kaflinn „Monetary Model of Capitalism.“

      Heila trikkið í minni tillögu – og Steve Keen – er að bankarnir hafi vaxtamun til að geta hagnast jafnvel þótt útlán séu greidd upp að hluta. Og einmitt af þessari ástæðu má ekki greiða upp of mikið, þá hverfur hagnaður bankakerfisins og það mun aldrei geta undið ofan (greitt lán SPV til baka) aðgerðinni. Fyrst þá tapa allir.

      Ég bíð ennþá spenntur Vilhjálmur eftir því að þú svarir mínum pælingum í lengra máli. Enn sem komið er hef ég ekki séð neitt sem hrekur þær eða segir þær ekki „vitrænar.“

     • Ég skal horfa á Keen – var ekki búinn að því. Þakka ábendinguna!

 • Ingvar Guðmundsson

  Allt lítur þetta að því hvernig við tökum á afleiðingum efnahagsmistaka stjórnmálamanna (þjóðarinnar). Gerum við það með þessum hefðbundnu feluleiðum gengisfellinga/verðbólgu íslensku krónunnar. Eða styllum við mistökunum upp á gagnsæjan vegg atvinnuleysis og samdráttar evrunnar.

  • Það er hægt að færa mjög góð rök fyrir því að upptaka evru auki atvinnu á landinu. Það gerist með lægri fjármagnskostnaði og minni hindrunum gagnvart erlendri fjárfestingu, t.d. með aðild Íslands að sameiginlegu VSK-kerfi evrunnar. Menn eru oft að rugla með atvinnuleysistölur í ýmsum Evrópulöndum sem ráðast fyrst og fremst af sveigjanleika viðkomandi vinnumarkaðar og löggjafar þar um, sem er mjög breytileg eftir löndum. Í ýmsum Evrópulöndum er t.d. svo erfitt að segja upp starfsfólki að fyrirtæki fastráða helst ekki starfsmenn fyrr en í fulla hnefana. Í staðinn er mikið notast við tímabundinn starfskraft („temps“) og verktaka. Þetta er dæmi um hvata sem eru vel meintir en hafa ófyrirséðar (en þó fyrirsjáanlegar) afleiðingar. Við eigum að halda okkar sveigjanlega vinnumarkaði og þá er engin ástæða til annars en að atvinnustig batni hér, miklu fremur en hitt.

 • Bjarni Gunnlaugur

  Því miður kýst þú að skauta fram hjá málefnalegum umræðum Vilhjálmur með því að svara spurningum um grundvallaratriði. Það er t.d. mjög áhugaverð pæling (sem þú verður þar með af) að spá í hvort Seðlabanki hafi eða hafi átt í kjölfar hrunsins að taka slatta af krónum úr umferð vegna samdráttar hagkerfisins.
  Ef þú villt í alvöru spá í veilu verðtryggingarinnar þá er hér t.d. ágætis samlíking við fé á fjalli: http://falconer.blog.is/blog/falconer/entry/1220101/#comment3272785

 • Skuldir heimila umfram verðmæti undirliggjandi eigna nema samkvæmt skýrslu svokallaðs sérfræðingahóps um skuldavanda heimilanna, um 125 milljörðum króna. Þessar skuldir eru eðli máls samkvæmt, án trygginga og sé miðað við þróun og stöðu á fasteignamarkaði, þá má gera ráð fyrir að stór hluti þeirra sé þegar tapaður og fáist ekki greiddur.
  Þessa tölu verður þú auðvitað að draga frá, enda nokkkuð ljóst að tæplega fæst hún greidd.
  Þá standa eftir 135 milljarðar, en ekki 260.
  Síðan verður þú að gera grein fyrir því, að með lagasetningu um forgang innistæðna fram yfir skuldabréf, þá var innistæðueigendum tryggð eign á kostnað eignar almennra lífeyrisþega, enda, svo sem sjá má á nýútkominni skýrslu um lífeyrissjóðina, þeir stórtækir í skuldabréfum á banka.
  Þar með eru komnar skattskyldar bætur, sem eðli máls samkvæmt á að greiða af tekjuskatt.
  Þá er ótalinn kostnaður ríkis við yfirtöku á t.a.m. SpKef, Byr og fleiri lánastofnunum, en sá kostnaður væri auðvitað enginn ef ekki kæmi til ótakmarkaðra innistæðutrygginga. Það er því frekar lélegt yfirklór hjá þér að segja að kostnaður við ótakmarkaðar innistæðutryggingar hafi enginn verið.
  Sé gengið út frá þeim tölum sem finna má í skýrslu RNA þá er ljóst að:
  Skattlagning á umframtryggingu til einstaklinga nemur allt að:
  164.861.000.000 * 46,21% = 76.182.268.100,-­‐
  Skattlagning á umframtryggingu til fyrirtækja nemur allt að:
  610.909.000.000 * 18% = 109.963.620.000,-­‐
  Skattlagning vegna uppkaupa ríkissjóðs á skuldabréfum peningamarkaðssjóða nemur allt að:
  83.300.000.000 * 46,21% = 38.492.930.000,-­‐

  Samtals skattlagning á þá sem fengu framlag úr ríkissjóði í formi trygginga umfram lagaskyldu gæti því numið allt að 220 milljörðum.

  Svo legg ég til að þú svarir vel fram settum gagnrýnirökum Ólafs Margeirssonar hér að framan.

  • Guðmundur: Skýrslan sem þú vísar til er orðin nokkuð gömul, er frá nóvember 2010. Síðan þá er búið að fara í 110% leiðina, sem kostaði 89 milljarða skv. mati nefndarinnar. Ef farið hefði verið með skuldir niður í 100% af verðmæti eigna hefði kostnaðurinn verið 125 milljarðar eins og þú segir. En 89 milljarðar eru sem sagt „komnir í hús“ síðan skýrslan var gerð. Það er reyndar undrunarefni að þú sért ekki með þessar tölur á hreinu, verandi sá „talsmaður skuldara“ sem þú gefur þig út fyrir að vera.

   Tal þitt um skattlagningu er óskiljanlegt. Það er enginn skattstofn þarna á ferðinni og hefur aldrei verið.

   • Enn þá felur þú þig, Vilhjálmur, á bak við hróp í stað þess að fara yfirveguðum orðum um staðreyndir.

    Tölurnar eru alveg réttar þó þær séu þér kannski ekki að skapi. Lánastaðan er 125 milljarða umfram verðmæti undirliggjandi eigna. Engar nýjar niðurstöður, skýrslur eða rannsóknir, hafa breytt því. Miðað við stöðu á N.P.L. innan bankanna þá er nokkuð ljóst að þeir 89 milljarðar sem þú talar um að séu “komnir í hús”, eru allir umfram 110% af verðmæti undirliggjandi eigna (ekki 100% eins og 125 milljarðarnir) og nær útilokað að þeir fáist innheimtir. Þeir eru því langt því frá “komnir í hús”. Þeir hafa einfaldlega aldrei verið til.
    Viðskiptafélagi þinn kallaði það “Money Heaven” svo sem frægt er orðið.
    Það er reyndar undunarefni að þú sjáir það ekki, verandi stjórnarformaður fjármálafyrirtækis.
    En við skulum þó líta fram hjá því að sinni, og leyfa þér að njóta vafans.
    Kalla þetta yfirsjón.
    Tölurnar sem ég setti fram eru því alveg réttar. 125 milljarðar eru umfram veðtryggingar.
    Tilraun þín til að minnka boðberann breyta því ekki staðreyndinni.
    Varðandi skatt, þá er líklega best að vitna til laga um tekjuskatt hvar tilgreint er að til skattskyldra tekna teljist hvers kyns tryggingabætur.
    Undir þessa túlkun taka löglærðir menn og jafnframt treystir Ríkisskattstjóri sér ekki til að svara um þetta tiltekna atriði að svo stöddu.
    Þar fyrir utan þá er ég í forsvari fyrir Samtök lánþega, en er ekki talsmaður skuldara og hef aldrei gefið mig út fyrir það.
    Leiðinlegt þegar menn hjóla svona í upphrópanir í stað þess að beita rökum. En líklega skýrir þetta hjólförin sem mönnum er tíðrætt um.

    • Sko. Þú segir að skuldir umfram verðmæti eigna (eins og það var nóv. 2010 en fasteignaverð hefur síðan hækkað að raunvirði) hafi verið 125 milljarðar skv. skýrslunni sem þú nefnir. Þetta muni aldrei innheimtast hvort eð er og því sé óhætt að draga 125 milljarða frá 260 (eða 200).

     Þá bendi ég þér á að samkvæmt sömu skýrslu og sömu forsendum þá voru skuldir umfram 110% af verðmæti eigna 86 milljarðar. Síðan skýrslan var skrifuð er búið að fara 110% leiðina og sú afskrift hefur staðið öllum til boða. Því eru skuldir umfram verðmæti eigna samkvæmt þínum eigin forsendum nú að hámarki 125 mínus 86 = 39 milljarðar. Er þetta ekki alveg kýrskýrt? Ef það kostar mig 86 krónur að afskrifa skuld þína niður í ellefuhundruðkall, en 125 krónur að afskrifa hana niður í þúsundkall, og ég tek fyrri kostinn, þá myndi það síðan kosta mig 39 krónur að taka síðan seinni kostinn til viðbótar.

     Aðalatriðið er samt að 125 milljarða talan á að vera horfin út úr umræðunni, hún varð úrelt eftir að 110% leiðin var farin. Mér finnst, og vona að mér leyfist að segja það, að þú eigir að hafa þetta á hreinu.

     Þú ert sem sagt talsmaður Samtaka lánþega en ekki skuldara, ég biðst velvirðingar á þeim merkingarmun.

     • Í september 2011 var niðurfærsla vegna 110% leiðarinnar 31.6 ma.
      Samkvæmt mati Íbúðalánasjóðs þá mun kostnaður sjóðsins við 110% leiðina, að teknu tilliti til annarra aðfararhæfra eigna, verða að hámarki 21,8 ma. Tekur sjóðurinn sérstaklega fram að þar sé um hámarksfjáræð að ræða. þ.e. varfærið mat fyrir sjóðinn. Að gefnum þeim tölum sem settar eru fram í grein þinni um skiptingu milli lánastofnana, þá eru þessir 21,8 ma. tæpur helmingur „heildarkostnaðar“ sem þá væri rétt rúmlega 43,6 ma.
      Það er því bæði rangt og villandi að tala um að heildar“kostnaður“ við 110% sé 86 ma. því þar hefur ekki verið tekið tillit til annarra aðfararhæfra eigna, s.s. eins og „leigðra“ bíla og innistæðna á launareikningum, sem dregnar eru frá við matið.
      125 ma. eru fengnir með því að draga verðmæti fasteigna frá þeim 260 ma. sem þú segir það kosta að fara í almenna leiðréttingu. Þar var ég einfaldlega að reyna að benda á hvað það „kostar“ að gera ekki neitt.
      Ég vona að mér leyfist að segja að mér finnst ég vera búinn að sýna að ég er nokkurn vegin með það á hreinu.
      Og enn skal ítrekað, að ekki er þar, né hjá þér, reynt að gera grein fyrir hvað það „kostar“ að gera ekki neitt.

 • Það liggur þegar fyrir hvar ætti að taka þessa 260 milljarða: Bankarnir hafa grætt um það bil þessa upphæð frá hruni.

  • Það hvar eignamatið var sett milli gömlu og nýju bankanna er tiltölulega „arbitrary“; kröfuhafar eiga þá alla að mestu, nema nýja Landsbankann, en þar er breytilegt skuldabréf sem nýi bankinn skuldar þeim gamla og fer höfuðstóll þess eftir heimtum af lánasafninu. Við skattborgarar eigum hins vegar að fagna því að eignamatið var tiltölulega lágt, sem veldur því að skattskyldur hagnaður myndast í nýju bönkunum vegna endurmats safnanna. Skatturinn rennur jú í ríkissjóð en ekki til kröfuhafanna.

   • Steingrímur Árnason

    Þú segir fyrst: „kröfuhafar eiga þá alla að mestu“ og síðan „Við skattborgarar eigum hins vegar að fagna því að eignamatið var tiltölulega lágt, sem veldur því að skattskyldur hagnaður myndast í nýju bönkunum vegna endurmats safnanna. Skatturinn rennur jú í ríkissjóð en ekki til kröfuhafanna.“

    Viltu sem sagt meina að eigendur bankanna sem þú bendir réttilega á að séu að mestu kröfuhafar muni ekki fá meirihluta þessa hagnaðar ef afkoma er betri hlutabréf virðismeiri?

    Hefði ekki mátt meta þetta enn lægra frekar og nýta það svigrúm til lækkunar? Um leið og eignasöfnin eru endurmetin (af bönkunum sjálfum) er einmitt svo heppilegt að geta sagt. „Hey — ekkert svigrúm eftir“ og hafa orkestrerað það sjálfur, greiða sér svo út arð og halda gott partí.

    Mér skilst nú að upphaflegir lánveitendur bankanna/skuldabréfaeigendur hafi margir selt kröfurnar sínar þegar allt stefndi lóðbeint á hausinn og jafnvel á slikk til að fá eitthvað upp í sínar kröfur. Sumur halda því fram að stór hluti kröfuhafa séu í dag vogunarsjóðir sem hafi einmitt keypt kröfurnar með þessa gríðarlegu og þekktu áhættu til hliðsjónar og hefði vel mátt brenna án sérstakra afleiðinga. Vildi óska að þau gögn væru tiltæk því þau væri örugglega mjög áhugavert að sjá.

    Ef íbúðalán hafa verið flutt inn í nýju bankana á 70% af áður (fyrir hruns) bókfærðu virði og þessir ágætu vogunarsjóðir keypt kröfurnar á ofurlágu gengi má spyrja sig hverjir fari hlæjandi alla leið í bankann.

    • Kröfuhafarnir eru þeir sem lýstu viðurkenndri kröfu í búið áður en kröfulýsingarfrestur rann út. Það eru þeir aðilar sem fá útborgað þegar úthlutað er úr búinu. Hvort þeir hafi síðan framselt kröfu sína öðrum vita menn trauðla, né á hvaða verði, enda skiptir það engu máli gagnvart hinu lögboðna ferli eða gagnvart dómstólunum. Kröfuhafar í þrotabú eiga sinn lögvarða rétt sama hvað þeir heita. (Nú er ég bara að skýra frá grundvallaratriðum í lögfræði, ekki að taka efnislega afstöðu.)

     • Steingrímur Árnason

      Þekki lögfræðina. Það talaði enginn um skaðsemisábyrgð þegar lánin voru flutt yfir og nýju bankarnir stofnaðir einhliða á grundvelli eigna þeirra búa. Kannski fékkst samþykki allra kröfuhafa fyrir þeim gerningi og þá er vel. Kannski voru menn bara hálffegnir að hér fór ekki allt landið á hvínandi kúpuna. Svo má alveg varast að horfa á lögfræðina út frá rétti annars aðila eingöngu. Óðaverðbólga sem lánveitandi tók beinan þátt í að skapa gæti nefnilega kallað á skaðabætur á hinn veginn.

      Ef menn gefa sér það að það sé of seint að taka þetta af þeim með beinum aðgerðum er ekkert sem kemur í veg fyrir lagasetningu um endurmat lánasafna sem þessara. Því þó að húsnæðislán hafi verið flutt yfir á ~0,7 hafa a.m.k. Íslandsbanki og Arion endurmetið þau til hækkunar þó að lán til lögaðila hafi verið hækkuð mun meira.

      Þannig er alveg óþarfi að leyfa bönkunum að hafa frítt spil með að meta eigin eignir svona enda gömul bókhaldsbrella sem ætti að vera fyrir löngu aflögð. Ef það reynist svo til einhver raunhæf regla um endurmat verður Fjármálaeftirlitið að fylgja því eftir af fullum þunga.

      Svo er það hitt. Eins slæmt PR mál það er fyrir banka að skila svo miklum „hagnaði“ þegar allt er hér í rjúkandi rúst þá hlýtur að vakna spurning um það hverjir hafa hag af því að kreista út þennan hagnað svo fljótt.

      En annars vil ég þakka greinarhöfundi og þátttakendum fyrir nauðsynlega og gagnrýna umræðu.

 • Ibba Sig.

  Ég skil ekki af hverju það er ekki í lagi að taka þennan kaleik frá þeim sem skulda húsnæðislán og koma honum yfir á skattgreiðendur. Það vill kannski einhver útskýra það fyrir mér?

  Ég held t.d. að þannig sé byrðunum réttlátlega skipt. Kostnaður við hrunið ætti að dreifast nokkuð jafnt á landsmenn, soldið eins og skattar, þ.e. hlutfallslega eftir greiðslugetu. Það getur ekki verið rétt að sá hópur sem er með ógreitt húsnæðislán eigi að taka á sig stærri hluta af kostnaðinum við þetta hrun en aðrir.

 • Ég efast ekki um að það sé mikið til í röksemdafærslu þinni, Vilhjálmur, ef við gefum okkur þá forsendu að það fjármála- og valdakerfi sem við höfum búið við sé í aðalatriðum í lagi.

  Mér finnst saga síðustu ára hins vegar sýna að þeirri forsendu þurfi að henda út í hafsauga ef á Íslandi á nokkurn tíma að rísa samfélag sem er nokkurn veginn í lagi.

  • Byltingar eru stórhættuleg fyrirbæri og enda oftast á því að éta börnin sín. Þess vegna reyna menn í lengstu lög að finna lausnir innan kerfisins. Þær lausnir eru kannski ekki eins „skjótvirkar“, og reyna á þolinmæðina, en eru mun öruggari, fyrirsjáanlegri og sársaukaminni fyrir rest.

   • Þorvaldur

    Þessi þvæla hjá þér Vilhjálmur er náttúrulega óendanlega vitlaus og dæmir þá sjálfa sem halda þessu rausi fram.

    Ef það er hægt að afskrifa þúsundir milljarða af fyrirtækjum, vel tengdum einstaklingum, sjóðum og aflandsfélögum þá ER HÆGT að gera það sama fyrir heimilin í landinu og það þarf ekki annað en viljan til og svona þvaður og útúrsnúnings hjal breytir engu þar um. Auðvitað er það á endanum fólkið í landinu sem borgar brúsan það sér hvert barn því ekki taka fjármagnseigendur eða hálaunamenn þessa lands upp veskið en að drekkja heimilum í svona skuldasúpu með þessum hætti eru ráð heimskra manna og ekki lagast þau eftir því sem fleiri koma saman.

    Heimilin voru ranglega skuldsett og það ber að leiðrétta það eins og gert er allstaðar annarstaðar og sérstaklega hjá vini aðal þar sem vel er lagt í.

 • Vilhjálmur, mér finnst dapurt að jafn talnaglöggur maður og þú skulir ekki vera gagnrýnni á útreikninga Hagfræðistofnunar. Þess fyrir utan, þá afgreiðir maður ekki hugmyndir sem menn hafa legið yfir dögum og mánuðum saman með fimm lína umfjöllun eða svo. Slíkt er bara fúsk og ekkert annað. Hingað til hef ég ekki staðið þig að slíku fúski og þykir mér leitt að þú skulir láta hafa þig út í þetta rugl, sem þessi færsla þín er.

  Ég skora á þig að skoða hugmyndir manna ítarlega og fjalla um af hverju þér finnst eitthvað ekki ganga upp. Einnig skora ég á þig að skoða sérálit mitt sem ég skilaði í nóvember 2010 og fjalla um það sem þar kemur fram. Segðu mér svo hvort hugmyndir HH séu óraunhæfar, vitlausar, o.s.frv. eða hvort það var 110% leiðin sem var röng nálgun.

  • Ég hef lesið gagnrýni manna á skýrslu Hagfræðistofnunar og almennt fundist lítið hennar til koma. Stærsti vandinn, og sá sem enginn svarar almennilega, er sá hversu lítill hluti íbúðalána er í höndum nýju bankanna. Einhver trix og/eða gífuryrði (sbr. Ólaf Arnarson) varðandi þann part hjálpar bara svo lítið gagnvart heildarmyndinni. Menn verða að svara því hvar á að taka þá 130 milljarða sem lenda á Íbúðalánasjóði, annars er ekkert að marka hinar meintu lausnir.

 • Sæll Vilhjálmur,
  mjög góð og ítarleg samantekt.

 • Ýmislegt hef ég nú við þennan pistil að athuga, en læt hér nægja að spyrja út frá einu atriði: Af hverju 260 milljarðar? Kæmi ekki til frádráttar þar það sem þegar hefur verið gert? T.d. það sem þegar hefur verið gert m.v. 110% leiðina?

  • Friðrik: Það er rétt hjá þér að í skýrslunni er það metið svo að aðgerðir sem þegar hafi verið ráðist í, þar á meðal 110% leiðin, hafi komið til móts við 18,7% lækkunina um sem nemur 60 milljörðum (bls. 18). Þannig að út af standa 200 milljarðar, ekki 260. Stærstur hluti þessara 200 milljarða liggur hjá Íbúðalánasjóði, eða 122 milljarðar, og svo 33 milljarðar hjá lífeyrissjóðum. Þetta hefði mátt vera skýrar hjá mér.

 • sigurður

  En af hverju er vísitalan endilega miðuð við neysluvísitölu? af hverju ekki byggingavísitölu?
  Er ekki sanngjarnt að færa verðtrygginguna til ársins 2007 og núll stilla hana þar? Væri það ekki farsæl lausn?
  Ef það verða þurkar og uppskerubrestur í Evrópu eða að einræðisherra í Mið – Austurlöndum fer vitlaust framúr, og olíuverð fer upp þá hækka húsnæðislánin hjá okkur það getur ekki verið ósangjarnara.

 • Þakka lífleg viðbrögð.

  Varðandi Maastricht-skilyrðin til upptöku evru, þá erum við nær þeim en margur heldur. Þau eru:

  1. Verðbólga ekki meira en 1,5% hærri en meðaltal þeirra þriggja evrulanda þar sem hún er lægst. Ef spár ganga eftir fyrir þetta ár og næsta verðum við nálægt þessu marki.

  2a. Fjárlagahalli má ekki vera meiri en 3%. Hann verður undir því marki á næsta ári skv. áætlunum.

  2b. Ríkissjóðshalli undir 60% af VLF. Nettóskuldir hins opinbera (þar eru sveitarfélög innifalin) verða undir 60% árið 2016 skv. AGS. Brúttóskuldir verða hærri en stór hluti þeirra eru vegna gjaldeyrisforða sem við þurfum ekki eftir upptöku evru.

  3. Aðild að ERM II í tvö ár hið minnsta, þar sem ECB tekur þátt í að halda krónunni innan umsaminna vikmarka frá evru. Þetta gæti verið 2015-6.

  4. Langir vextir mega ekki vera nema mest 2% yfir því sem þeir eru í þeim þremur ríkjum þar sem verðbólga er lægst. Undir gjaldeyrishöftum eru krónuvextir reyndar of lágir en það hjálpar okkur að ná þessu markmiði. ERM II aðildin hjálpar einnig.

  Ergó, ég held að við getum rökstutt evruaðild (að lokinni ERM II aðlögun) 2016-7 eða svo ef við einbeitum okkur að verkefninu.

 • Elías Pétursson

  Einu sleppir þú Vilhjálmur, sem ekki verður hjá komist að fara lítillega yfir, það eru vaxtatekjur þeirra er áttu innistæður í bönkum, og voru fortakslaust verndaðir fyrst með ítrekuðum yfirlýsingum stjórnvalda og síðan neyðarlögunum. Í Tíund frá síðasta ári sést svo ekki verður um það villst að fjármagnstekjur þeirra er voru af stjórnvöldum teknir út fyrir sviga með verndun allra innistæðna fengu ekki bara innistæðurnar, heldur líka óskiptan „hagnaðinn“ af verðbólgu og vaxtaskoti hrunsins.

  Menn geta haft allar sýnar skoðanir á þeirri aðgerð að tryggja allar innistæður…en það hlýtur að minnsta kosti að vera umhugsunarefni (líka jafnaðarmönnum) hvort ekki sé réttlátt að skipta vaxtatekjum þeirra vernduðu með þeim er greiddu vaxtagjöld (urðu fyrir tjóni) og töpuðu þar með umtalsverðum hluta fasteigna sinna í eignatilfærslu vegna vaxtakostnaðar sem beintengist því hinu sama hruni og bjó til tekjurnar.

  Á gögnum RSK má ráða að vaxtatekjur einstaklinga af verðtryggingu sem og vöxtum ´07 til´10 (álagning ´08-´11) voru rétt tæpir tvöhundruð milljarðar, þá er ekki taldar vaxtatekjur fyrirtækja, stofnanna, sjóða og annarra.

  • Þeir sem festu fé sitt í verðtryggðum sparnaði gerðu það m.a. til þess að verja það fyrir áföllum, í góðri trú um að við þá samningsskilmála yrði staðið. Þeir sættu sig við verulega lægra vaxtastig í skiptum fyrir verðtrygginguna. Löglega samninga á að efna; ekki á að setja íþyngjandi lög afturvirkt; og eignarrétturinn er friðhelgur skv. stjórnarskrá. Lausnir á vandanum verða að vera innan þessa ramma. Ef grundvallarreglur réttarríkisins standast ekki áföll þá er það ekki réttarríki. Til lengdar er miklu verra (og dýrara) að búa ekki í réttarríki, það eigum við að hafa lært af mannkynssögunni.

   • Elías Pétursson

    Árni Páll Árnason uppbakkaður af samfylkingu og VG, setti lög sem amk voru síðan án athugasemda útfærð þannig að þau voru/virkuðu afturvirk…en það lentu víst skuldarar í þeirra lagasetningu sem er allt annað og betra en ef þeir sem eiga þurfa eitthvað að gefa eftir af tekjum hrunsins.

    Sumir vilja meina að eignaréttur fólks í heimilum sínum sé jafnverður eignarétti þeirra sem fá vaxtatekjur af hruni…

    • Elías: þú ert að meina lögin sem skýrðu það hvernig fara ætti með gengislánadóma Hæstaréttar og gerðu það ljóst að niðurstaðan tæki til ólíkra lánsforma. Ég held að lánastofnanir hafi einfaldlega valið að gera ekki athugasemdir við þetta enda hefði orðið óheyrilega dýrt og valdið mikilli óvissu að reyna að fara með hverja einustu samningategund í gegn um dómskerfið. Það voru allir guðslifandi fegnir að klára málið á einfaldan hátt úr því sem komið var.

     • Elías Pétursson

      þeir voru nú ekkert „allir guðslifandi fegnir“ amk ekki þeir sem fengu að njóta bakreiknings á lánum sem voru greidd…

 • Ómar Kristjánsson

  það er líklega langbest að segja bara eins og Vilhjálmur Bjarnason gerði einhversstaðar. Hann sagði í umræðuþætti er ,,almenna niðurfærslu lána“ bar á góma, eitthvað á þá leið að: Ég skil ekki þessa umræðu. Og svo sagði hann ekki meir.

  Hérna hafa menn í 3 ár, að því er virðist í fullri alvöru, verið að ræða almenna niðurfærslu lána og umræðan hefur aðallega snúist um hvort það ætti að færa niður 20% eða 30%. Einstaka aðili hefur viljað færa niður 100%.

  Ofanlýst umræða er öll sett fram í frösum og upphrópunum og framkvæmdin á að vera einhvernveginn í hókus pókus stíl sem eðli máls samkvæmt er þá erfitt að rekja eða festa fingur á, því það skilur enginn töfrabragðið nema töframaðurinn.

  Alveg satt hjá Vilhjálmi Bjarnasyni, að þetta er alveg óskiljanleg umræða.

 • Björn Kristinsson

  Sæll Vilhjálmur,

  Í færslunni kemur fram hugmynd varðandi einskiptiaðgerð:

  „Að stefna að upptöku evru með aðild að Evrópusambandinu. Eitt af samningsmarkmiðum okkar gæti verið að skipta krónu yfir í evru á tiltölulega lágu skiptigengi krónu (margar krónur fyrir evruna).“

  Hver er þín hugmynd um tiltölulega lágt skiptigengi. Það væri mjög gott að fá EURIKR krossinn sem þú hefur í huga.

  • Góð spurning Björn, en það þjónar svo sem litlum tilgangi að svara því hvað ég hef í huga – mig grunar að hið ágæta Evrópusamband geri ekki mikið með mína skoðun í samningunum. En mér finnst að við eigum að setja það sem samningsmarkmið að skiptin fari fram á fremur veiku gengi en sterku. Með veiku gengi á ég þá við a.m.k. ekki sterkara gengi en krónan er á núna, og jafnvel eitthvað veikara. (Hafa verður í huga að á núverandi gengi er blússandi jákvæður vöruskipta- og þjónustujöfnuður við útlönd.)

 • snilldar samantekt hjá þér, svona er þetta
  en hókus pókus .. er meira spennandi en hinn bitri sannleikur

 • Þakka ágæta grein. Verð að taka undir með Ómari hér (og jafnvel fleirum) ég skil ekki þessa umræðu um niðurfærslu lána. Er verið að tala um öll lán, verðtryggð, óverðtryggð og gengislán? Ef þetta er hægt mun það ekki kosta neinn neitt?
  Finnst að þeir sem tala fyrir þessu (m.a. HH og fleiri) skuldi skýra útlistun á fyrirbærinu. Minn skilningur er sá, að séu t.d. lánasöfn banka og lífeyrissjóða færð niður af t.d. alþingi, mun það kosta skattgreiðendur sömu upphæð. Er það rétt? Gæti t.d. Marínó svarað þessu, ja eða þú Vilhjálmur? En endilega, talið skýrt um hlutina.

 • Síðuhöfundur segist vilja að samið verði um „afslátt“ af evrunni við upptöku hennar? Því fylgir hinsvegar ekki hver skuli bera kostnaðinn af því að veita slíkan afslátt. Væntanlega yrðu það önnur Evrópuríki því öðrum er ekki til að dreifa. Gangi mönnum vel að selja Þjóðverjum þá hugmynd, þeir myndu vafalaust finna leið til að senda reikninginn til baka í hausinn á okkur, og ef sú leið er ekki fyrir hendi þá búa þeir hana einfaldlega til eins og í tilviki Grikklands.

  Hinsvegar mætti beita svipaðri einskiptisaðgerð og þeirri sem síðhöfundur lýsir, til að leiðrétta ránslánin hér innanlands, með því að leggja niður gjaldmiðilinn sem þau eru skráð í og taka upp nýjan ríkisgjaldmiðill eins og Hagsmunasamtök Heimilanna hafa lagt til (t.d. nISK). Þeim sem ættu eignir skráðar í gamla gjaldmiðlinum yrði boðið þá að skipta þeim yfir í hinn nýja á skiptigengi sem tæki mið af þeirri leiðréttingu sem ætlunin er að framkvæma. Stofnaður yrði nýr Íbúðalánasjóður í þessum tilgangi, enda er fordæmi fyrir slíku kennitöluflakki í bankakerfinu þegar til staðar.

  Fyrir gjaldmiðlaskiptum eru einnig fordæmi árið 1981 þegar íslenska krónan var lögð niður og tekin upp ný, en eigendum eigna sem skráðar voru í þeirri gömlu bauðst að skipta þeim fyrir nýjar krónur á genginu 100:1. Með nýjustu upplýsitækni væri ekkert er því til fyrirstöðu núna að koma á fót skiptmarkaði, nokkurskonar kauphöll, þar sem svona viðskipti gætu farið fram á markaðsverði. Þá gæti (nýr) Íbúðalánasjóður, fjármagnaður í nýjum krónum, til dæmis verið fyrstur til að leggja inn (lágt) kauptilboð í útistandandi kröfur og lánasöfn í gömlum krónum, en aðrir aðilar á frjálsum markaði hefðu jafnframt tækifæri til að bjóða hærra telji þeir verðmyndunina óeðlilega.

  Þar sem eigendum eigna (t.d. lánasafna) í gamla gjaldmiðlun stæði til boða að kaupa fyrir þær nýjar eignir á því markaðsverði sem þá hefði skapast (en eru ekki þvingaðir til þess) þá eru viðskiptin valfrjáls og stangast þar af leiðandi ekki á við eignarrétt eða önnur stjórnarskrárákvæði. Það sem meira er, þar sem þau færu fram á sönnu og óþvinguðu markaðsvirði væru afskipti stjórnvalda af verðmyndun eigna á borð við lánasöfn ekki bara óþörf heldur beinlínis óheimil samkvæmt þeim reglum sem leiða af EES-samningnum.

  Ef við ætlum að gera okkur gildandi leikmenn á hinu evrópska sviði er hvort sem er tímabært að förum að spila eftir þeim reglum sem þar gilda og við höfum nú þegar undirgengist.

  • Guðmundur: Ég er ekki beinlínis að tala um afslátt. Það mun þurfa að ákveða skiptigengið á einhverjum forsendum sem samkomulag er um, og þá skiptir máli hvaða afstöðu við komum með að samningaborðinu í því efni. Ég gæti einmitt trúað að hitt væri algengara, að ríki sæktust eftir því að gjaldmiðill þeirra yrði metinn sterkur en ekki veikur í skiptum fyrir evruna. Þannig hámarka menn eignir. En í okkar (óvenjulegu) stöðu viljum við kannski frekar lágmarka skuldir, það er punkturinn.

 • Sig. Kr.

  Mjög góð grein Vilhjálmur.

  Það er ekki hægt að fella niður 125 milljarða eða 200 milljarða ókeypis, með einhverri vúdú-hagfræði frá Tryggva Þór, Hannesi Hólmsteini eða einhverjum rugludalli öðrum!

  Einhvers staðar þarf kostnaðurinn að koma niður. Þeir sem heimta niðurfellingu skulda sinna og annarra þurfa að segja skýrt og klárt hverjir eigi að greiða það sem þarf að fara í Íbúðalánasjóð og jafnvel í lífeyrissjóðina vegna niðurfellingarinnar.

  • Nákvæmlega. Það er ekkert að því að vera þeirrar skoðunar að skattgreiðendur, allir eða einhverjir tilteknir, eða lífeyrisþegar eigi að borga fyrir niðurfellingu skulda. Svo lengi sem stærðfræðin gengur upp og það er ljóst hvað menn eru nákvæmlega að tala um. Þá fyrst er hægt að skipta um gír, komast út úr upphrópunum og lýðskrumi og ræða áþreifanlega kosti og galla hverrar leiðar.

   • Ríkið (skattgreiðendur) þ.m.t. einstaklingar og fyrirtæki eiga að borga skaðann að mínu mati.

    Það er beinlínis heimskulegt þegar menn tala um „að fólk eigi að borga sínar skuldir“. Það snýst nákvæmlega ekkert um það.

    Það snýst um að þeir sem eru með íbúðalán eiga ekki sem sérstakur þjóðfélagshópur að taka á sig kostnað hrunsins umfram aðra. Þeir fengu á sig stökkbreytt lán vegna forsendubrests, bankarnir hrundu allir, krónan hrundi og verðbólgan flaug upp. EN, þeir sem áttu innistæður voru tryggðir 100%.

    Af hverju á þessi hópur sérstaklega að bera stríðsskaða hrunsins?

    Þjóðfélagið verður að bera þetta saman eins og aðrar hrunskuldir, þ.m.t. endurreisn bankanna. HH hafa lýst ferlinu ítarlega.

  • Steingrímur Árnason

   Sig. Kr., þú segir „Það er ekki hægt að fella niður 125 milljarða eða 200 milljarða ókeypis“.

   Viltu meina að bókhald gangi bara í aðra áttina? Bankarnir geti búið til falskan hagnað upp á sirka þessa sömu tölu og það megi ekki endurmeta þessar eignir með tilheyrandi lækkun? Nei ekki ókeypis – því þessi falski hagnaður er geymdur e-s staðar nema menn hafi greitt sér út arð og keypt kampavín fyrir. Þessa óhæfu mætti einfaldlega leiðrétta.

   Þetta eru nefnilega nokkuð snjallir bókhaldsvúdúmenn í bankanum og vissu vel að það væri æskilegt að sprengja upp matið á þessum lánum svo hægt væri að hafna allri umræðu um frekari lækkun með tilvísun í að svigrúm væri uppurið.

 • Ég get auðvitað ekki áfellst þig, Vilhjálmur, fyrir þá skoðun að hægt sé að lappa upp á kerfið þannig að það verði viðunandi. Ég er hins vegar algerlega ósammála þér, enda sé ég ekki betur en að sams konar valdaklíkur hafi töglin og haldirnar eftir hrun eins og fyrir, þótt sumir einstaklingar hafi hrökklast burt.

  Ég tala alls ekki fyrir byltingu í venjulegum skilningi þess orðs, og er algerlega andvígur ofbeldi (og þess vegna afar ánægður með Búsáhaldabyltinguna).

  Ég er hins vegar jafn vonlaus um að núverandi valdakerfi landsins verði lagað innan frá, af þeim sem völdin hafa, enda eru þeir allir skilgetin afkvæmi þess miður geðslega klíkukerfis sem drottnar yfir landinu.

  Þess vegna er ég sannfærður um að við þurfum uppreisn . Góð byrjun væri að þjóðnýta bankana. Segja kröfuhöfum að kröfur þeirra yrðu skoðaðar í rólegheitum, þeir fengju peningana ef til vill til baka, þó aldrei meira en þeir borguðu, og það gæti tekið mörg ár, jafnvel áratugi áður en þeir fengju þá. Alveg sérstaklega myndu engir kröfuhafar sem áttu þátt í að setja Ísland á hliðina fá krónu tilbaka ef þeir hafi verið svo ósvífnir að kaupa kröfur í bankana.

  • Gallinn við þetta, Einar, er sá að þá lánar enginn til íslenskra banka (eða ríkissjóðs) í laaaaangan tíma á eftir. Eitt er að verða gjaldþrota og vinna úr því skv. gildandi lögum og rétti, en annað að svína beinlínis á lánardrottnum og breyta reglum eftir á. Það kemur bara í bakið á manni síðar og bitnar á komandi kynslóðum, beint og óbeint.

   En ég er sammála þér um að margt þarf að laga í kerfinu. Góð byrjun á því verkefni er að samþykkja nýja stjórnarskrá, sbr. frumvarp Stjórnlagaráðs.

 • Ásgeir Brynjar Torfason

  Mjög góð samantekt og áhugaverðar umræður.

  Mikilvægur punktur frá Þórhalli um hina nánast neikvæðu vexti sem við hér úti borgum nú í kreppunni meiri, og höldum því væntanlega áfram næstu ár og jafnvel tugi (ef marka má japanska reynslu). Ekki er víst að vaxtabætur dugi sem lausn á íslandi fram til 2017 þegar Evran kemur vonandi.
  Einn hluti lausnar er leiguíbúðasjóður sem of langt mál er að útskýra hér.

  En aðal vandinn liggur í 3,5% lágmarks ávöxtunarkröfu lífeyrissjóðanna sem gerir húsnæðisvaxtakostnað á íslandi tvöfaldan á við í Evrópu, óháð verðtryggingu eða gjaldmiðli. Afnám þess og vænt gervitap lífeyrissjóðanna af afnámi óeðlilega lögbunins eignarréttar á verðlagshækkunum, fram á við en ekki afturvirkt, t.d. næstu fimm ár, fram að evru, yrði þá kanski á við hluta þess taps sem þeir urðu fyrir síðustu fimm ár. Já það er ljóst að skerða verður lífeyrissjóðina meira til að vinda ofan af vandanum, það er ekki sjálfbær lausn að skattleggja bara fyrir hærri vaxtabótum (og verðbótabótum), það er best að segja það eins og það er, og skerðingin er mun minni en af mörgu öðru nú um stundir. Að halda kerfinu óbreyttu mun knýa æ fleiri til búsetu í útlandi og ekki er það hagstæðara fyrir lífeyrissjóðina.

  Síðan er annar punktur í hluta af lausn að lengja í lánunum – hér úti í Skandinavíu eru menn ekki að greiða upp húsnæðislánin á 25-40 árum, niðurgreiðslan á höfuðstól er ca 1% á ár (enginn talar um 100 ára lán og engar eru verðbæturnar) enda ekkert takmark í sjálfu sér að enda starfsævina með skuldlaust einbýlishús. Þetta gæti létt greiðslubyrgðina og gert húsnæðiskerfið neytendavænna.

  • Góðir punktar frá þér Ásgeir Brynjar.

   Varðandi 3,5% kröfuna sem mikið hefur verið rætt um, þá er hún reyndar ekki „lágmarks ávöxtunarkrafa“. Hún er sú ávöxtun sem notuð er til viðmiðunar til að reikna út hvort sjóðirnir eigi fyrir framtíðarskuldbindingum. Ef sjóðirnir eiga ekki fyrir skuldbindingum (innan tiltekinna fráviksmarka), þótt reiknað sé með 3,5% raunávöxtun til framtíðar, eru réttindin skert. Og öfugt, ef sjóðirnir eru of stórir miðað við réttindin þá eru þau aukin – eins og sumir sjóðir gerðu 2005-6. Ef menn lækka þessa kröfu þá þarf að minnka réttindin talsvert, eða auka iðgjöldin. Það má vel vera að kominn sé tími á það enda e.t.v. ekki sömu hagvaxtarmöguleikar í framtíðinni eins og hér hafa verið síðustu áratugi, maður veit þó aldrei.

 • Vilhjálmur: Ég væri alveg tibúinn að láta reyna á það hvort einhver vildi lána til íslenskra banka (sé þörf á því). Mér dettur ekki í hug að Ísland yrði upphaf nýrra tíma í heiminum, en mér finnst það samt sjálfsagt að segja hingað og ekki lengra. Fjármálakerfi okkar heimshluta er gegnrotið og handónýtt. Þessir voldugu aðilar erlendis sem þú heldur að muni ekki vilja lána „okkur“ ef við yfirtökum bankana munu aldrei gera neitt til að rústa það kerfi sem þeir lifa á.

  Ef enginn þorir að gera neitt þá gerist aldrei neitt. Því ættum við að prófa að standa í lappirnar og bjóða byrginn þessum öflum sem vilja halda áfram að kúga allt og alla undir járnhæl gróðafíknarinnar.

  Það er betra að vera barður þræll en feitur þjónn.

  • Stefán Benediktsson

   Hér er rökfræðilegt ósamræmi Einar. Þú telur að peningaeigendurnir muni ekki vilja eyðileggja tekjulind sína, þegar við þjóðnýtum, hver er að „eyðileggja“ tekjulindina núna?
   Við þjóðnýttum banka í 70 ár, þurftum að betla þar um peninga, sparifé okkar varð að engu af því að það gat ekki farið undir núll, þeir héldu úti óarðbærum atvinnufyrirtækjum og pólitískum gæluverkefnum. Lærum af reynslunni Einar.

 • Jújú, það hafa ýmsir prófað að fara þessar leiðir, Hugo Chavez í Venezúela er nýlegt dæmi og fleiri mætti nefna. Ég er ekki alveg nógu sannfærður um að þetta bæti almenn lífskjör eða hamingju. Við kratar erum líklegri til að vilja beita verkfærum lýðræðisjafnaðarstefnunnar og þá gjarnan í samfloti með skoðanabræðrum og -systrum í Evrópu. Það verður heilmikið verkefni á næstu árum og áratugum að laga það sem aflaga hefur farið í peningakerfi heimsins, og búa til nýjar og betri stoðir undir það, en ég held að jafnaðarmenn í Evrópu muni ekki skorast undan því verkefni – frekar en öðrum erfiðum verkefnum sem þeir hafa leyst með sóma í kjölfar seinni heimsstyrjaldar.

 • Mér þykir þú Vilhjálmur skauta ansi hratt yfir það sem Ólafur Margeirsson hefur verið að tala um og svipaðar hugmyndir sem ég kynnti þegar árið 2009 fyrir ýmsum (Sjá: Uppgreiðsluleiðina: http://thorsteinnhelgi.blog.is/blog/thorsteinnhelgi/entry/1220407/).

  Þú hittir hins vegar naglan á höfuðið þegar þú nefnir að það sé engin ókeypis máltið og að á endanum lendi kostnaðurinn á viðskiptavinum bankanna.

  En það er einmitt málið. Það er gott.

  Með því að búa til þessa tilfærslu þá léttir þú strax greiðslubyrði af einstaklingum og lækkar einnig núvirðingu skulda þeirra.

  Þetta kemur vissulega fram sem tekjutap hjá bönkunum en á móti því hafa þeir sinn hagnað (170 milljarða frá hruni hef ég heyrt) auk þeirra afskrifta sem þeir hvort eð er þurfa að ráðast í. Leiðréttingin er ekki nema um 10% af þeirra vaxtaberandi útlánum og því mætti e.t.v. gera ráð fyrir að vaxtamunur bankanna þyrfti að aukast úr 2-3% í 2,2%-3,3%. Sá vaxtaauki er til muna léttari byrði að bera heldur en 40% hækkun lána og greiðslubyrði eins og nú er. Að ekki sé talað um réttlætið í málinu.

  Með þessari aðgerð færir þú til vandann að miklu leyti (frá þeim sem ekki áttu sök á honum og til þeirra sem áttu sök á honum) og kemur stórum hluta landsmanna aftur af stað í neysluþjóðfélaginu með tilheyrandi atvinnusköpun og hagvexti í kjölfarið öllum til hagsbóta.

  • Viðskiptavinir bankanna áttu reyndar almennt enga sérstaka sök á hruninu. En nettó leiðir tillagan sem sagt til þess að bankarnir láti viðskiptavini sína greiða hærri vexti næstu árin og áratugina til þess að borga fyrir niðurfærslu lána. Gott og vel, það er leið sem er alveg hægt að ræða. Og á þá það sama að gilda fyrir Íbúðalánasjóð?

   • Ég var ekki alveg nákvæmur: Bankarnir verða fyrir tekjumissi og munu mæta honum á einhvern máta. Að hluta með minni hagnaði, að hluta með minni afskriftum og að hluta með því að velta kostnaðinum út í verðlagið á sína viðskiptavini (sem auðvitað áttu enga sök á hruninu, en njóta (sumir) á móti lækkunar skulda.

    Hvað varðar Íbúðalánasjóð og lífeyrissjóði þá er mitt svar já (þ.e.a.s. sama aðferð yrði notuð), en það má líka ræða hvernig útfærslan verður hvað þá varðar. Það er hins vegar ljóst varðandi Íbúðalánasjóð að hann þarf að endurfjármagna, þ.e.a.s styrkja eiginfjárstöðu hvort heldur er að óbreyttu eða vegna Uppgreiðsluleiðarinnar.

 • LSR tapaði 100 milljörðum vegna hrunsins.

  Hverjir fengu aftur reikninginn?

  • Skattgreiðendur munu greiða stærstan hluta þess sem upp á vantar af lífeyri ríkisstarfsmanna. Þar eru því miður stórar upphæðir á ferð, að óbreyttu.

 • Það er óþarfi að draga Hugo Chavez inn í þessa umræðu, Vilhjálmur. Þótt ég hafi ekki á reiðum höndum aðferðirnar við að byggja upp eitthvað geðslegra en það valdaklíkukerfi sem tröllriðið hefur íslensku atvinnulífi og stjórnmálum, þá þýðir það ekki að ég vilji fara yfir í einhverjar aðrar öfgar. Og ég neita að samþykkja að aðeins sé um að ræða tvo möguleika, þinn eða Chavez.

  Kratar unnu gríðarlega gott starf við að byggja upp velferðarþjóðfélög, í nokkra áratugi kringum miðja síðustu öld. Tími þeirra er líklega liðinn, því þeir hafa ekki megnað að hemja þann ræningjakapítalisma sem hefur óhjákvæmilega tilhneigingu til að spretta upp í því efnahagskerfi sem við lifum í. En, við verðum að hemja það gegndarlausa rán og þá misnotkun á samfélaginu sem hefur fóstrað þessa ljótu tegund af kapítalisma.

  Ísland er ennþá undirlagt af valdaklíkum sem lítið hafa breyst eftir hrun, þótt einn og einn hafi hrökklast í burtu. Það gildir lĺka um krataflokkinn, sem enn hefur ekki gert upp við fortíð sína úr hruninu, og sem neitar að taka á vandamálum þeirra sem voru sviptir öllum eignum sínum í hruninu og lagður á skuldaklafi sem mun endast í áratugi. Samtímis horfir þessi krataflokkur á ofsagróða bankanna sem fá að blóðmjólka þessa skuldara, í krafti skulda sem bankarnir keyptu með miklum afföllum, en fengu fullt umboð til að kreista eins og þeim sýndist.

  Svona hagar sér auðvitað ekki flokkur sem er hallur undir þær hugsjónir sem kratisminn var reistur á forðum tíð. Því miður virðist honum fremur umhugað um þá sem enn raka saman gróðanum.

  • Þú dettur út í gífuryrði í seinni helmingnum, Einar. Krataflokkurinn er einmitt fremstur í flokki í því að tryggja eignarhald þjóðarinnar (Auðlindasjóðs) á auðlindum sjávar og orku, en um þetta snýst baráttan um Ísland ekki síst. Þá er aðild að ESB til þess fallin að draga úr hinu séríslenska valdaklíkuræði, sem er ekki síst ástæða þess að Sjálfstæðis- og Framsóknarflokkur eru svona mikið á móti aðild.

   „Sviptir eignum“, „lagður á skuldaklafi“, „ofsagróða“, „blóðmjólka“, „kreista eins og þeim sýndist“, „raka saman gróðanum“ – þetta eru ekki orð eða hugtök sem hjálpa málefnalegri rökræðu áleiðis. Ef á að komast áfram í þessu máli þarf að hugsa í lausnum, ekki upphrópunum eða lýðskrumi.

 • Ágúst Þór Ragnarsson

  Átakanlegt að horfa upp á Vilhjálm reyna að víkja sér frá spurningum Ólafs.

  Ótengt þeim góðu uppástungum sem Ólafur hefur komið með þá verða menn að gera sér grein fyrir hlutverki og ábyrgð ríkisins í þessu máli.

  1. Bankarnir keyrðu krónuna í kaf og tóku stöðu gegn viðskiptavinum sínum. Það gátu þeir í skjóli verðtryggðra afleiðusamninga sem skuldarar höfðu skrifað undir í góðri trú að væru hluti af eðlilegu ferli í húsnæðiskaupum.

  2. Bankarnir gerðu þetta í skjóli laga sem sett voru 2001 nr 38 um vexti og verðtryggingu lög sem Alþingi Íslendinga setti.

  3. Verðtrygging er skálkaskjól stjórnvalda sem hafa hvorki vilja né getu til að stjórna peningamálum Íslands. Stjórnvalda sem létu það viðgangast að útlán bankanna jukust um 3450% á árunum 1970 -1979 og frá 1980 -1989 um nær sömu prósentu.

  4. Íslenska ríkið er á ábyrgð íslensku þjóðarinnar og því skal þjóðin í gegnum íslenska ríkið bera ábyrgð á þeim afglöpum sem framin hafa verið af íslenska ríkinu. Ríkið er tæki til að jafna álögur á þjóðfélagsþegna landsins og skal jafna kostnað hrunsins. Það verður aldrei sátt um að undanskilja fjármagnseigendur vegna gallaðrar löggjafar.

  • Það sem er gott í þessu innleggi, Ágúst Þór, er að þú minnir á forsögu verðbólgu og vondrar hagstjórnar hér á landi – sem er ástæða þess að verðtryggingin var tekin upp. Svo er heldur ekki úr vegi að minna á að það var ekki bankahrunið sem slíkt sem hleypti upp skuldum landsmanna, heldur var það hrun gjaldmiðilsins – krónunnar. Enda höfðum við safnað viðskiptahalla sem nam 700 milljörðum, hálfri landsframleiðslu, á þremur árum. – Ég held að sagan sýni áþreifanlega að við þurfum stöðugleika og að komast út úr verðtryggingunni. Það verður ekki gert með krónunni, sú leið hefur verið fullreynd.

 • Það er alveg sama hvernig málum er snúið. „Miðstéttaraulinn“ átti ca 20milljónir þegar hann fór út í það að stækka við sig. Núna skuldar hann nokkrum milljónum meira en virði fasteignar hans gefur upp. Í mínum huga heitir þetta þjófnaður. Leyfður samkvæmt lögum okkar íslenska ríkis. Að halda því fram að með því að taka upp evru (2016) þá kunni ýmislegt að lagast er í besta falli ótrúverðugt. Staðreyndirnar segja að fasteignaverð hafi lækkað um 7-15% frá því í mars 2008. (meira fyrir stærri eignir). Kaupmáttur launa hafi lækkað á sama tíma um 7-12%. En lánin hafa hækkað um 37%. (neysluvísitala, mars 2008 til mars 2012). Ætlum við að leyfa þennan þjófnað?

  • Jóhanna

   Hvernig eignaðist hann þessar 20 milljónir, JT?
   var það ekki bólueign?

   • Án þess að vita það, giska ég á að fyrri fasteignakaup hafi verið þeim að einhverju leyti hagstæð. Þau hafi þó lagt e-ð fram, borgað af lánum en hækkað verð á íbúðinni skilað talsverðu þegar þau selja.

 • Ég hef ekki vantreyst kunnáttu Vilhjálms Þorsteinssonar til að leysa reikningsdæmi fram að þessu – miðað við forsendur sem hann gefur sér – er útkoman örugglega rétt.
  En málið snýst um fleira – það snýst um líf og heilsu fjölda fólks – líf eða dauða í sumum tilfellum – það snýst um að stórir hópar eru í raun þrælar okurs og slíkt rýrir lífsgæði mjög verulega.
  Ég þekki þessa hluti á eigin skinni og veit um hvað málið snýst.
  Ég varð gjaldþrota 1985 í kjölfar þess að verðtryggingin var sett á gildandi lánasamninga í óðaverðbólgu – vorum með rekstu á eigin kennitölu sem ekki þoldi breytinguna með neinum hætti. Algjör forsendubrestur þar og vafalaust á gráu svæði lagalega. Ég (við) var í áratugi að greiða niður lán með persónulegum ábyrgðum vina og fjölskyldumeðlima – svo þau féllu ekki á ábyrgðarmenninga. Á sama tíma keyptum við til baka (því miður) húsið okkar á verðtryggðum lánum frá Húsnæðisstofnum ríkisins samkv lögum frá 1986.
  Skuldafjötrar eru mikið böl og heilsuspillandi – ég ræddi þessa hluti við Sparisjóðsstjórana sem sátu á móti mér við borðið – það var eins og þeir gerðu sér ekki grein fyrir þeirri hlið málsins – því miður – skildu ekki sálarangistina – vissu ekki um kvíðann – magabólguna – svefnleysið og þar fram eftir götunum.
  ÞVÍ SEGI ÉG – ÞAÐ VERÐUR AÐ LEIÐRÉTTA FORSENDUBRESTINN – ÞÓ ÞAÐ KOSTI – ÞAÐ ER SVO RÁNDÝRT AÐ GERA ÞAÐ EKKI.

 • Elvar Örn

  Takk fyrir góða samantekt Vilhjálmur. Það vantar allan fókus í þessa umræðu.

 • Vilhjálmur, þú segir í einni athugasemd þinni hér að ofan að þeir sem hafi fest fé sitt í verðtryggðum sparnaði hafi gert það m.a. til þess að verja það fyrir áföllum, „í góðri trú um að við þá samningsskilmála yrði staðið“. Svo segirðu í framhaldinu að „ekki [eigi] að setja íþyngjandi lög afturvirkt“ þar sem slíkt valdi því að réttarríkið sé ekki lengur réttarríki.

  Þykir þér þetta aðeins eiga við um þá sem lögðu fé inn á reikninga, en ekki um þá aðila sem skrifuðu undir lánaskilmála sem fólk hafði engar forsendur til að ætla að væru ólöglegir? Af hverju eiga umræddir lántakar einir að axla ábyrgð og afleiðingar af því að lánastofnanir gerðu mistök við útbúning skjala sinna? Hvað segir tilfinning þín fyrir réttarríkinu um það?

  Eins og við vitum báðir lagði ríkisstjórnin fram frumvarp sem varð að lögum nr. 151/2010 sem kveða á um afturvirkan útreikning vaxtakjara erlendra lána, þ.e. lögin mæltu svo fyrir að af erlendum lánum skyldu greiddir óverðtryggðir vextir SÍ frá útgáfudegi skuldaskjals. Til stuðnings lagasetningunni vísaði Árni Páll í Hæstaréttardóma um ólögmæti erlendra lána en sleppti að vísu að minnast á það að umræddir dómar Hæstaréttar kváðu ekki á um afturvirkan vaxtaútreikning.

  Hefur ríkisstjórnin með þessu ekki gefið réttarríkinu langt nef?

  Og svo vil ég benda þér á að nýju bankarnir keyptu lánasöfn gömlu bankanna eftir að verðmat fór fram á þeim. Það er því hvorki rétt hjá þér að eignayfirfærsla eða „flutningur“ eins og þú kallar það frá gömlu bönkunum til þeirra nýju hafi ekki átt sér stað né að það hafi verið bótaskylt á nokkurn máta. Lánasöfnin voru seld á verði sem nýju bankarnir annars vegar og skilanefndirnar hins vegar komu sér saman um og því er ekki um neina eignaupptöku að ræða.

  • Ómar: Hvaða mistök við útbúning skjala lánastofnana ertu að tala um? Gengislánin voru dæmd ólögmæt og þau voru reiknuð upp á nýtt eins og óverðtryggð krónulán með vöxtum SÍ. Ég svaraði þessu um Árna Páls-lögin hér fyrr í athugasemd. Ég tel þau vera á gráu svæði en það nennir enginn að véfengja þau fyrir dómi, sýnist mér.

   Nýju bankarnir „keyptu“ ekki lánasöfnin heldur voru tilteknar eignir og skuldir fluttar úr gömlu bönkunum yfir í þá nýju með ákvörðun FME. Það fór í gang matsferli sem á endanum skilaði þeirri niðurstöðu að erfitt væri að ná niðurstöðu og best færi á því að gömlu bankarnir ættu þá nýju, það lágmarkaði hættu á eftirmálum. Þetta gekk eftir og Arion og Íslandsbanki eru að langstærstum hlut í eigu þrotabúanna. Landsbanki er í eigu ríkisins en hann skuldar gamla bankanum breytilegt skuldabréf sem fer eftir innheimtu lánasafna. Allt þetta mótast af því að eigur þrotabúanna eru eigur kröfuhafa skv. gildandi gjaldþrotarétti og það er ekki hægt að taka þá eign af þeim bótalaust.

   Úr því að lánasöfnin voru stofnuð á tiltölulega lágu mati í reikningum nýju bankanna, myndast hagnaður á þeim sem er skattlagður með tekjuskattsgreiðslum í ríkissjóð. Sú ráðstöfun er því hagkvæm fyrir skattborgara og lántakendur.

 • Hrekkjalómur

  Forsendubrestur er ekki til. Menn gefa sér forsendur. Annað hvort standast þær eða ekki. Þær bresta ekki.

  Hrekkjalómur

  • Steingrímur Árnason

   Reyndar er hér átt við lögfræðihugtakið forsendubrest sem kemur úr samningarétti. Það er sannarlega ein ástæða þess er samningar verða ógildir.

   Merkilegt er að þá er yfirleitt gert ráð fyrir að báðir aðilar séu ekki með upplýsingar um þessar óvæntu og yfirvofandi aðstæður.

   Það sem er svo annað mál er að samningar gerðir rétt fyrir hrun gætu fallið undir svik ef yfirmönnum banka var ljóst hvert stefndi. Þá er það sérstaklega t.d. sala á skuldabréfum bankanna sem menn gerðu ekki ráð fyrir að geta greitt til baka.

   Gott er að spyrja sig hvort nokkur myndi hafa tekið verðtryggð lán með yfirvofandi 40%+ hækkun næstu árin. Efast um að nokkur ábyrgur bankastarfsmaður hefði haft geð til að bjóða slíkt heldur.

   Forsendubrestur? Svo sannarlega.

   • Forsendur hefðu getað verið (a) 700 milljarða viðskiptahalli 2005-7 vegna ofriss krónunnar; og (b) sú staðreynd að 40-50% af neysluverðsvísitölunni er tengd gengi krónunnar beint og óbeint. Af (a) og (b) leiðir að 2007-8 var orðið mjög áhættusamt að taka verðtryggt eða gengistryggt lán, vegna uppsafnaðs þrýstings á krónuna. Em rót vandans er hagstjórnin 2003-2008 sem var vægast sagt vond.

 • Árni Guðmundsson

  Sæll Vilhjálmur, þú segir:

  (1) „Með neyðarlögunum var forgangi krafna í þrotabú banka breytt, þannig að innistæður fóru fram fyrir almennar skuldir bankanna í kröfuröðinni. Þetta olli því að meirihluti eigna bankanna gekk til innistæðueigenda í stað þess að fara til almennra kröfuhafa. Þessi aðgerð kostaði ríkissjóð ekki krónu. Þvert á móti var hún bráðnauðsynleg fyrir almannahag og einnig gagnvart hagsmunum Tryggingasjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.“

  (2)“Þeir sem festu fé sitt í verðtryggðum sparnaði gerðu það m.a. til þess að verja það fyrir áföllum, í góðri trú um að við þá samningsskilmála yrði staðið. Þeir sættu sig við verulega lægra vaxtastig í skiptum fyrir verðtrygginguna. Löglega samninga á að efna; ekki á að setja íþyngjandi lög afturvirkt; og eignarrétturinn er friðhelgur skv. stjórnarskrá. Lausnir á vandanum verða að vera innan þessa ramma. Ef grundvallarreglur réttarríkisins standast ekki áföll þá er það ekki réttarríki. Til lengdar er miklu verra (og dýrara) að búa ekki í réttarríki, það eigum við að hafa lært af mannkynssögunni.“

  Vandinn:

  Afar erfitt að halda því fram að (1) fari vel með (2) sökum þess að með neyðarlögunum var reglunum breytt eftir á til að vernda suma. Mundu að hér var um afar mikla tilfærslu á eignum að ræða. Ætla má að hún hafi skipt einhverjum hundruðum milljarða (þegar tekið er tillit til skuldajöfnunar á hverja kennitölu innan sömu fjármálastofnunar).

  Hvað ætti frjálslyndur jafnaðarmaður að segja við slíkri eignatilfærslu? Að minnsta kosti þetta:

  A) Ef þú setur tiltekin lög sem breyta reglunum eftir á til að snúa lélegri „option luck“ í góða fyrir hóp X en gætir hafa sett (en gerðir ekki) lögin þannig að „option luck“ Y hefði í staðinn verið breytt í góða (úr lélegri) stendur upp á þig að gera eitthvað sambærilegt fyrir Y.

  B) Ef ekki er til önnur gæði til að ganga í til að jafna hlut Y en að ganga í þau gæði sem var bjargað (með afturvirkum hætti) fyrir X þá verður að ganga í þau gæði. Hér af flýtur vitanlega að ekki þýðir fyrir jafnaðarmann að vísa í „afturvirkt“ með öðrum hætti nú en þegar björgun á slæmri „option luck“ X stóð yfir.

  Með kveðju,

  Árni Guðmundsson.

  • Það er einhver rótgróinn misskilningur í gangi varðandi neyðarlögin sem virðist erfitt að uppræta. Neyðarlögin fólu í sér breytingu á því hvernig eignum bankanna (þrotabúanna) var ráðstafað til kröfuhafa. Innlánseigendur fengu sína fjármuni til baka 100% en aðrir kröfuhafar, sem eru einkum erlendir bankar og að hluta lífeyrissjóðir og Seðlabanki, fengu fyrir vikið minna. Ríkissjóður er ekki beinn spilari í þessu, þ.e. innistæðueigendur fengu ekkert úr ríkissjóði (eins og margir virðast halda). Vissulega tapaði ríkissjóður óbeint á þessu í gegn um Seðlabankann en hinn valkosturinn – að setja ekki Neyðarlögin – var algerlega ófær. Enda hefur Hæstiréttur staðfest að neyðarréttur hafi gilt í þessum kringumstæðum og að Neyðarlögin haldi gildi sínu.

   Þeir sem setja sig á móti Neyðarlögunum eru að berjast fyrir því að upphæðir af þúsunda milljarða stærðargráðu séu teknar af íslenskum (og erlendum) innlánseigendum (og þar er átt við einstaklinga, fyrirtæki, ríkisstofnanir, félög…) og færðar aðallega erlendum kröfuhöfum, þá helst Deutsche Bank og félögum, og að einhverju leyti hinum heittelskuðu vogunarsjóðum, en að minnihluta íslenskum aðilum á borð við lífeyrissjóði og Seðlabanka.

   Ert þú á þessu máli, Árni?

   • Árni Guðmundsson

    Vilhjálmur, ef þú vilt gagnlega umræðu þá verður þú að vanda þig betur við að svara því sem beint er að þér. Annars er þetta til lítils.

    (1) Enginn rótgróinn misskilningur á ferð hjá mér. Segi ekkert um að peningar hafi farið úr ríkissjóði til bjargar innistæðueigendum né að ég sé á móti Neyðarlögunum.

    (2) Eftir stendur það sem ég beindi til þín. Og hafðu í huga i) Neyðarlögin hefðu getað verið með margvíslegu móti (t.d. með ákvæði um hámark verðtryggingar á húsnæðislánum) ii) ekki augljóst að sú útgáfa sem varð fyrir valinu hafi þjónað almannahagsmunum best iii) það að Hæstiréttur hafi samþykkt lögin eins og þau voru útfærð dregur síður en svo úr vægi þess sem ég ætla frjálslynda jafnaðarmanninum.

    Hvað ætti frjálslyndur jafnaðarmaður að segja við slíkri eignatilfærslu? Að minnsta kosti þetta:

    A) Ef þú setur tiltekin lög sem breyta reglunum eftir á til að snúa lélegri „option luck“ í góða fyrir hóp X en gætir hafa sett (en gerðir ekki) lögin þannig að „option luck“ Y hefði í staðinn verið breytt í góða (úr lélegri) stendur upp á þig að gera eitthvað sambærilegt fyrir Y.

    B) Ef ekki er til önnur gæði til að ganga í til að jafna hlut Y en að ganga í þau gæði sem var bjargað (með afturvirkum hætti) fyrir X þá verður að ganga í þau gæði. Hér af flýtur vitanlega að ekki þýðir fyrir jafnaðarmann að vísa í „afturvirkt“ með öðrum hætti nú en þegar björgun á slæmri „option luck“ X stóð yfir.

 • Haraldur Ólafsson

  Hér þurfum við að staldra við:

  „Við gjaldmiðlaskiptin væri unnt að fara í frjáls skipti, í kjölfar skiptiútboðs, á verðtryggðum krónulánasamningum yfir í nýja óverðtryggða evrusamninga á vöxtum sem eru nær því sem almennt tíðkast í húsnæðislánum á evrusvæðinu. Þarna fengist fram nokkur höfuðstólslækkun, veruleg lækkun vaxta og afnám verðtryggingar.“

  Eins og þú og flestir sem lesa þetta gera sér líklega grein fyrir er sú breytistærð sem skiptir máli raunvextir, þ.e. vextir umfram breytingar á launum, vörum og þjónustu. Nú er staðan sú að hægt er að fá íbúðalán í banka á Íslandi með 0% raunvöxtum. Í til að mynda Frakklandi, einum af hreppum sælurikisins fyrirheitna, kostar dæmigert húsnæðislán með öllum misföldum kostnaðarliðum um 5%. Það eru 3 prósentustig umfram verðbólgu og jafnmikið umfram það sem er á Íslandi í dag.

  Svona má reikna með ýmsum tölum. Meðalraunvextir húsnæðislána í Svíðþjóð sem er líka hreppur í fyrirheitna landinu hafa verið 4,2% sl. 15 ár, en það er mjög svipað því sem Íbúðalánasjóður hefur boðið upp á um langa hríð (og vel yfir því sem núna er í boði).

  Að hlusta á sífelld loforð um ódýra peninga bara ef gengið verður nýja stórríkinu á hönd er eins og að hlusta á trúboða lofa eilífri sælu í himnaríki, menn bara brosa og vona að manninum versni ekki.

  • Stefán Benediktsson

   Það er mikill útúrsnúningur að til séu lán á Íslandi með 0% vöxtum. Þau lán eru með breytilegum vöxtum sem geta bitið mjög harkalega af því að þau fást ekki á jafngreiðlukjörum og 4,2% vaxta lán í Svíþjóð eru óverðtryggð á jafngreiðslukjörum.

   • Haraldur Ólafsson

    Svar við aths. Stefáns

    1. Það er bara staðreynd og enginn útúrsnúningur að Arionbanki býður 6,45% fasta vexti til 5 ára og verðbólga núna er 6,5%. Þannig fást um 0% raunvextir miðað við stöðuna í dag. Ef kjörin versna árið 2017 geta menn leitað til Íbúðalánasjóðs, ef embættismenn sæluríkisins verða ekki búnir að taka hann af.

    2. Það er líka staðreynd að ofangreindur banki býður upp á jafnar greiðslur.

    3. Sl. áratug hafa húsnæðislánavextir (Nordea Hypotek, Svíþjóð) verið 5,6% að meðaltali og verðbólgan (konsumprisindex) verð um 1,4% á ari. Raunvextir hafa með öðrum orðum verið um 4,2%.

    Það er afrek að koma fyrir 3 útúrsnúningum eða rangfærslum í 3 línum. Mikill má trúarhitinn vera!

    • Ásgeir Brynjar Torfason

     Haraldur,
     þú ert að bera saman fimm ár fram í tíman á Íslandi við 10 ár aftur á bak í Svíþjóð með sérkennilega valinni forsendu. Við skulum vona allra vegna að verðbólga verði ekki 6,5% á ári á Íslandi næstu 5 árin. En það má alltaf velja sér tímapunkta sem henta til að fram eða bakreikna út frá þeim þá niðurstöðu sem maður vill.

     Hér er sögulega vaxtakúrvan hjá Nordea: http://www.nordea.se/Privat/Boende/Köpa+bostad/Nordeas+boräntor+2001-2011/1456882.html

     Hafir þú tekið húsnæðislán með helmingi upphæðar á 5 ára bundnum vöxtum festum tvisvar sinnum á síðasta áratug og hinn helming lánsins með 3 ára bundnum vöxtum festum þrisvar á sama áratug hér hjá Nordea þá er vaxtakostnaðurinn með venjulegum afslætti í kringum 3,6% (en fer eftir upphafstímasetningu) sem maður fær svo þriðjung endurgreiddan í vaxtabætur af, og með 1,4% verðbólgu á ári þá er því greitt ca 1% í raunverulega húsnæðisvexti. Ég læt þér eftir að bera saman þá tölu við raunverulegan fjármagnskostnað húsnæðis á Íslandi á sama síasta áratug.

     Nú er líka mánaðarlega afborgunin mikilvægur þáttur, og hér úti er lánið ótímabundið en með 1% afborgun af höfuðstól (í viðbót við vexti, sem sagt 1+1=2% heildargreiðsla af lánsupphæð að teknu tilliti til verðbólgu á ári) á meðan að verið er að greiða niður lán með fullri verðtryggingarhækkun á 25-40 árum á Íslandi sem gerir lífið mun erfiðara (4,2+6,5=10,7%+niðurgreiðsla höfuðstóls nú hjá ÍLS).

     Það virðist því vera hæst að sýna fram á allt að fimmfalt hærri greiðslubyrði á Íslandi (en í styttri tíma) en að minsta kosti er hún 50% hærri, miðað við verðlista 6,5% á móti 4,3% fimm ára fasti vextir teknir núna og 2% verðbólgumarkmið beggja seðlabankanna.

     En ætlir þú að nota verðbólguna til kjarabóta á húsnæðislánakostnaðinn þá verður að geta þess að 3% launahækkun hér hjá mér þýðir kjarabætur um 1,5% umfram verðbólgu, á meðan að sama launahækkun hjá þér þýðir 3,5% kjaraskerðingu miðað við verðbólguna núna (munurinn á kjarabreytingunum á milli okkar er því heil 5 prósentustig á ári, þannig að eftir fimm ár með sömu verðbólgu verð ég með 27,5% hærri laun en þú hafi við byrjað með sömu tölu).

     Þeir sem vilja halda áfram með krónuna og verðbólguna og peningalegasjálfstæðið og verðtrygginguna ættu að velja sér annan samanburð en Norðurlöndin, enda stendur Ísland þeim framar á flestum sviðum 🙂 En til að gæta allrar sanngirni, þá skal viðurkennt að hér úti fást 1-3% vextir á sparnaðinn inn á bankareikningi á meðan þú hefur kannski haft 5-15% á Íslandi. En það er annað dæmi sem við skulum sleppa hér.

     • Haraldur Ólafsson

      Þökk fyrir innlegg Ásgeir Brynjar

      Sænsku gögnin sem ég lagði til grundvallar enda 2009. Sjálfsagt væri að uppfæra með nýjustu tölum. Vextir hafa lækkað, en verðbólgan var líka lág 2010. Þá þykir mér rétt að miða við fasta vexti því þannig er það hjá Íbúðalánasjóði. Vaxtabótareikningum þykir mér eðlilegt að sleppa í þessu samhengi. Eftir sem áður stendur að raunvextir á íbúðalánum Nordea í Svíþjóð hafa að jafnaði ekki verið fjarri raunvöxtum Íbúðalánasjóðs á Íslandi í allnokkur ár.

      Núna þegar aðstæður eru vissulega dálítið sérstakar eru raunvextir 0% á Íslandi en 2% í Svíþjóð ef litið er til 5 ára íbúðalána Aríon á Íslandi og Nordea í Svíþjóð og miðað er við 12 mánaða verðbólgu.

      Ódýru peningarnir sem Evróputrúboðið á Íslandi lofar rötuðu semsagt ekki til Svíþjóðar þrátt fyrir að hálfur annar áratugur sé frá því landið gekk í Evrópusambandið og sænska krónan hafi verið harla stöðug.

      Er kannski kominn upp söfnuður þarna austurfrá sem heimtar úrsögn úr Evrópusambandinu til að fá íslenska vexti?

     • Ásgeir Brynjar Torfason

      Aftur velurðu þér vissar staðreyndir til að komast að rangri niðurstöðu Haraldur.

      Ef þú ætlar að miða við fasta vexti ÍLS þá eru þeir núna 4,2-4,7% plús verðbólga (sem er nú 6,5% á Íslandi sem gerir >10%) á meðan Nordea býður vexti sem eru 3.75-4,3% mínus verðbólga (sem er nú 2,3% í Svíþjóð) og það gerir 1,45-2,0% raunvexti sem er margfalt minna en flestir eru að borga á Íslandi.

      Ekki kemur þú með samanburðartölur 10 ár aftur í tímann með raunvöxtum á Íslandi, skiljanlega vegna verðtryggingarinnar.

      Það að þú haldir því samt ennþá fram að raunvextir hjá Nordea síðastliðin tíu ár geti talist sambærilegir við fasta vexti ÍLS er einfaldlega rangt, vegna verðtryggingarinnar sem þú verður að bæta við vexti ÍLS.

      Síðan velurðu í næstu setningu Arion vextina í dag, sem eru allt niður að núlli en þú getur giskað á hve lengi það verður í boði, og það eru ekki margir sem njóta þeirra vaxta nú. Verðlistavextir Arion eru 6,45-7,55% og verðlistavextir Nordea 3,75-4,3%. Það er einfalt bragð hjá þér að nota verðbólguna til að lækka þessa vexti núna en sleppa því að bæta verðbólgunni við verðtryggðu ÍLS lánin áður.

      Vaxtamunur hefur vissulega hækkað hér úti, en bankarnir hér skiptu ekki um kennitölu, heldur eru að taka á sig aukinn kostnað sem við neytendur greiðum á endanum, en það er ekkert í líkingu við það sem húsnæðislánþegar á Íslandi hafa þurft að borga fyrir verðtrygginguna.

      Það var fjármálakreppa hér í Svíþjóð fyrir tæpum tveimur áratugum, og vextir fóru í allt að 15%, síðan gengu Svíar í Evrópusambandið stuttu síðar. Eftir það hefur húsnæðislánakostnaður lækkað og efnahagsástandið haldist stöðugt.

      Þú getur ekki breytt þeirri staðreynd, þó þú finnir ný lán í nokkra mánuði á 0% vöxtum núna. Ég get alveg fundið viss tímabil, mun lengri, með 0 raunvöxtum hér. Það má vel vera að gjaldeyrishöft geti lækkað vextina áfram á Íslandi en enginn banki getur boðið 0% vexti til lengdar. Þess vegna skipta stýrivextirnir máli.
      Stýrivextir hér í Evrópu eru 0,5-1,75% á meðan að þið hafið 3,75-5,75%.

      Húsnæðislánakostnaður lækkar ekki sjálfkrafa vegna ESB en margir þættir spila þar saman. Hins vegar er erfitt að sjá hvernig eigi að leysa vandamálin með krónuna og verðtrygginguna á Íslandi nema með aðild að ESB. Um það ættum við að vera að rökræða frekar en þessa talnaleiki.

      Hér úti er bara hlegið að íslenskum vaxtatölum og hinum svokölluðum bönkum. Enginn er að tala um að ganga úr ESB, verðtryggð lán eða gjaldeyrishöft. Sumir prófuð að fá íslenska innlánsvexti fyrir nokkrum árum en munu ekki endurtaka það.

     • Haraldur Ólafsson

      Sæll aftur Ásgeir Brynjar

      Ekki veit ég hvort nokkur fylgist með þessu lengur, en ég sendi línu engu að síður.

      Við samanburð á raunvöxtum tek ég vexti Nordea, dreg frá verðbólgu og ber saman við vexti Íbúðalánasjóðs. Í því dæmi á vitaskuld ALLS EKKI að bæta við verðbótum á lánið frá ÍLS. Útkoman verður dálítið misjöfn eftir tímabilum, en munurinn er ekki mikill.

      Staðan í dag er sérkennileg. Nordea í Svíþjóð býður lægri raunvexti en Íbúðalánasjóður en mun hærri raunvexti en Aríon og er þá miðað við verðbólgustigið í báðum löndum í dag. Það minnir á að munurinn á verði á epli er oft meiri milli búða í sama hverfi en milli tveggja búða í ólíkum löndum.

      Þú segir, ugglaust réttilega:

      „Það var fjármálakreppa hér í Svíþjóð fyrir tæpum tveimur áratugum, og vextir fóru í allt að 15%, síðan gengu Svíar í Evrópusambandið stuttu síðar. Eftir það hefur húsnæðislánakostnaður lækkað og efnahagsástandið haldist stöðugt.“

      Því er við að bæta að það var fjármálakreppa í Noregi fyrir
      um 2 áratugum og vextir háir. Síðan gekk Noregur EKKI í Evrópusambandið og nú eru peningar fyrir íbúðakaupendur á útsölu og efnahagsástandið hefur haldist stöðugt.

      Það skyldi þó aldrei vera að Evrópusambandið væri ekki breytistærð í þessu dæmi? Reyndar kemstu að þeirri niðurstöðu seinna í skeytinu. Ég spái því að Evróputrúboðarnir engist um af óþægindum við að lesa þann kafla.

 • Vilhjálmur. Langt síðan ég hef sett til þín athugasemd. Og þ.e. þvílíkur bunki, að líklega tekur þú ekki eftir þessari:

  Það eru margvíslegir fræðilegir valkostir – einn getur verið leið sú er Franklin Delano Roosvelt fór á 4. áratugnum. En þá yfirtók ríkið fj. lána af bönkum. Þau voru færð yfir í stofnun sem búin var til utan um þær eignir.

  Innan þeirrar stofnunar var lánþegum boðið upp á þann valkost, að lánin yrðu afskrifuð 100%, en ekki frýtt. Á móti eignaðist stofnunin húseignina.

  Þannig ríkið fær eign á móti afskrifuðu láni – það lækkar verulega áhættu þess.

  Þeir sem samþykktu þetta, fengu vanalega að búa áfram gegn því að borga leigu, en ath. sú leiga var nokkuð niðurgreidd miðað við markaðsleigu. En þetta var hugsað allt saman sem félagslegt úrræði.

  Síðan var gefinn tiltekinn tími, það voru árafjöld, en segjum eftir 3-5 ár, það sé metið að eftir þann tíma verði hagkerfið komið aftur á gott ról.

  Þá fá íbúarnir nýja vakosti:

  A)Fulla markaðsleigu.

  B)Kaupa húseign gagnvart nýju láni.

  C)Flytja út.

  Roosvelt leysti þessa stofnun fyrir rest upp með hagnaði.

  Það er mikilvægt að sjálfsögðu, að kaupa lánin á einhverjum afföllum frá fullu kröfuvirði.
  ————————–

  Ég held að leiðin hans Rooevelts sé vel fær.

  Íbúðalánasjóður getur þá gegnt hlutverki í þessu.

  Eins og þú bendir á, á ríkið þegar slatta af eingum í gegnum þá stofnun.

  Mér lýst ekki á þá hugmynd, að leysa þetta eftir 20 ár ef við náum þeim nýju skilyrðum sem þá munu gilda um evru nokkru sinni. Það efa ég reyndar, og legg það svo að þú sért þá að segja „aldrei“.

  Kv.

 • Ómar Kristjánsson

  Ok. Eg er búinn að finna lausn á þessu. Að vísu gömul lausn. Má lesa um hér: http://en.wikipedia.org/wiki/October_Revolution

  1. All banks were nationalized.
  2. Private bank accounts were confiscated.
  3. All foreign debts were repudiated.

  Er þetta ekki bara málið?

  Sko, eins og rakið hefur verið, þá er umræða HH og fleiri tóm steypa. það var nú frægt er þeir komu upp með það að marföldunartaflan væri vitlaus og hvort þeir ætluðu ekki með það fyrir dómsstóla. Öll umræðan er svona. Einhver þvæla bara.

  það sem sumir eru að segja, er í raun beisiklí það sem farið er yfir í 3 liðum hér ofar. þ.e. þeir eru að tala um að skipta um kerfi. Að hafa ekki lengur kapítalisma kerfi. En það er eins og þeir fatti það ekki eiu sinni. Alveg fáránleg umræða og í rauninni móðgun við fólk.

  • Það fyndna er að sumir þeirra sem eru í reynd að leggja til (1), (2) og (3) segjast vera hægrimenn! 😉

   Við lifum jú á skrýtnum tímum, þegar SUS er meðal helstu aðdáenda Ólafs Ragnars Grímssonar forseta.

  • Fullyrðingar þínar Ómar eru algerlega út í hött.

   Var það innihald erindis til Umboðsmanns Alþingis frá HH að efast um margföldunartöfluna? Hvernig kemstu að þeirri niðurstöðu?

   Orð þín eru eingöngu til marks um að þú virðist ekki hafa kynnt þér almennilega tillögur né málflutning Hagsmunasamtaka heimilanna né heldur erindi til Umboðsmanns Alþingis um framkvæmd verðtryggingar sem snýst alls ekki um hvort A*B gefi sömu niðurstöðu og B*A né heldur um hvort sé rétt reiknað, heldur hvort reiknireglur seðlabankans hafi stoð í lögum. Spurningin var semsagt alls ekki um hvort ætti að margfalda saman tölur í einni eða annari röð – heldur um það hvort framkvæmdin á verðtryggðum lánum með að færa stærstan hluta verðbótanna á höfuðstól lánsins standis lög. Við komumst að því við skoðun laganna að fyrir því er engin heimild. Við erum að biðja Umboðsmann um að skoða lögin og sjá hvort framkvæmdin og reiknireglur seðlabankans sem segja til um þessa framvkæmd standist lög.

   Mér virðist sem Vilhjálmur hafi ekki dyggilega kynnt sér tillögur HH og vil benda honum á að þær standast fyllilega lög og stjórnarskrá, enda eru mörg fordæmi fyrir því að eignarréttur er skertur ef um almenna aðgerð er að ræða, t.d. í currency reform í Þýskalandi.

   Ég á reyndar ekki von á því að Vilhjálmur ætli sér eða hafi áhuga á að kynna sér kröfur HH, en bendi öðrum þeim er heimsækja þessa síðu á að gera það.
   http://www.heimilin.is/varnarthing/rammaadgerdir/undirskriftasofnun/hvernig

   Hér mætti síðan lesa um hvers vegna þessar aðgerðir eru bæði réttlátar og nauðsynlegar.
   http://www.heimilin.is/varnarthing/rammaadgerdir/undirskriftasofnun/hversvegna

   Margir hagfræðingar og sérfróðir menn um peningakerfi hafa tekið undir með okkar málflutningi.

   Síðan mætti líka benda Vilhjálmi, gjaldkera Samfylkingarinnar, á það að niðurstöður Hagfræðistofnunar HÍ eru í besta falli vafasamar og ófaglegt og óvandað fúsk miðað við það að vera akademísk stofnun sem leggur mat á tölur án þess að hafa aðgang að raunverulegum tölum. Bendi ég því fólki á að lesa athugasemdir HH við skýrslu HHÍ.

   https://docs.google.com/viewer?a=v&pid=explorer&chrome=true&srcid=0B2259XvAKbLpOTgzYmI4MWQtMTgwMS00MjA4LWEwMmItNGIyNmUzYmFiM2Jh&hl=en_GB

 • 1. Eignaréttur var skertur þegar neyðarlögin voru sett og einum hópi bætt fyrir sína áhættusækni. Lögin hafa haldið og gætu það líka við verndun á eignum í steypu.
  2. Íbúðalánasjóður lánar bara í íslenskum krónum á 1 veðrétti að hámarki 20 milljónir. Vandmálið er frekar hvernig sjóðurinn hefur verið nýttur til að lána til atvinnusköpunar þar sem íbúðaverð er hátt.
  3. Skuldarar halda í dag uppi lánastofnunum með því að greiða verðtryggða handstýrða vexti á markaði þar sem eftirspurn og vilji til að lána er engin. Hver er eignaréttur skuldarans
  4. Prentun peninga getur skapað verðbólgu og má alveg gera.
  5. Alltof mikið er horft á stóru langtímalanin og mögulegar afskriftir hjá þeim. Lífeyrissjóðir og ríkið eiga frekar að endurfjármagna heimilin þar sem stærsta vandamálið er oft skammtímalán fra fleiri en einni fjármálastofnun. T’imabundið alsherjarveð í eignum með einu skuldabréfi og láni til 40 50 ára gæti verið lausn sem hentaði einhverjum

 • Benedikt Guðmundsson

  Sæll Þorsteinn

  Þú virðist hafa mikinn áhuga á skuldavandanum en finnur öllum þeim hugmyndum sem fram hafa komið til lausnar hans óraunhæfar og vissulega er nokkuð til í því. Þær lausnir sem þú leggur hinsvegar til gætu tekið langann tíma og spurning hvort skuldavandi heimilana verði ekki þá orðin eignavandi lánastofnanna þegar þær loksins koma til framkvæmda. Hjálagt er grein sem Ólafur Margeirsson skrifaði á pressunni fyrir skömmu. Hvaða skoðun hefur þú á þessari „töfraleið“

  http://www.pressan.is/pressupennar/Lesa_Olaf_MArgeirsson/framkvaemd-skuldanidurfellingar-

  • Ég minnist á leið Ólafs í pistlinum og í svörum við athugasemdum hér að ofan. Vísa til þess. Á eftir að skoða þátt með Steve Keen sem þar er bent á. Kannski skipti ég um skoðun á þessu ef Keen er með sannfærandi rök.

 • Það er þyngra en tárum tekur að horfa upp á þessa endalausu umræðu um hvort og hvernig eigi að taka á skuldastöðu heimilana.
  Staðan er einföld:
  40% heimila búa eftir hrun við neikvæða eiginfjárstöðu. Í áratugi fyrir hrun virtist þjóðfélagið í sæmilegu jafnvægi með ca 20% heimila með neikvæða stöðu.
  Þeir sem skulduðu 70% eða meira í húsnæði sínu fyrir hrun eru núna í neikvæðri stöðu.
  Við þetta bætist gengishrun (og þar með kaupmáttarhrun), atvinnuleysi og skattahækkanir.
  Einföld demógrafía segir manni að líklegast sé að stærstur hluti þessara heimila í neikvæðri stöðu séu ungt fólk, sennilega að stærstum hluta barnafjölskyldur á aldrinum 25-45 ára.
  Sumu fólki (les. Ómar Kristjánsson o.fl.) finnst í lagi að þessi hópur skuli taka skellinn af hruninu að fullu og/eða ekkert sé hægt að gera.
  Ég er ekki sammála og mér finnst þetta stórt vandamál og geti orðið til langrar framtíðar (sbr. Japan).
  Það verður að dreifa þessum byrgðum á allt þjóðfélagið í stað þess að dæma þarna heilu kynslóðirnar úr leik. Eða hvernig halda menn að fólk sem sér fram á neikvæða stöðu næstu 10-20 árin a.m.k. muni taka þátt í uppbyggingu hagkerfisins? Þetta fólk er ekki að fara í fjárfestingar, framkvæmdir, að stofna fyrirtæki eða nokkra neyslu umfram lágmarkið. Hluti mun flýja land, stærri hluti mun halda að sér höndum og reyna að þrauka, einhver hluti fer í gjaldþrot og/eða segir sig úr lögum við kerfið (svarta vinnan).
  Það sorglega er hvernig stjórnvöld hafa spillt fyrir mögulegri sátt um þessi mál á ýmsan hátt, t.d. með því að þrjóskast við að styðja lánþega gengislána, og núna með því að neita að taka á verðtryggingunni með róttækum leiðum.
  En vonandi næst sátt um alvöru leið til lausnar, annars er ég hræddur um að þjóðfélagið verði brotið og veiklað um langa framtíð.

  • „Þrjóskast við að styðja lántakendur gengislána“? Gengistryggð lán voru dæmt ólögmæt og Hæstiréttur úrskurðaði að í staðinn yrðu þau reiknuð eins og óverðtryggð krónulán á viðmiðunarvöxtum Seðlabankans hverju sinni. Þetta lækkaði stöðu lánanna verulega. Sjá einnig: http://vthorsteinsson.blog.is/blog/vthorsteinsson/entry/1096194/

   • Eyjólfur Jónsson

    Sæll Vilhjálmur,
    þú seigir,
    „Þrjóskast við að styðja lántakendur gengislána“? Gengistryggð lán voru dæmt ólögmæt og Hæstiréttur úrskurðaði að í staðinn yrðu þau reiknuð eins og óverðtryggð krónulán á viðmiðunarvöxtum Seðlabankans hverju sinni. Þetta lækkaði stöðu lánanna verulega.
    ég spyr: hvaða kostar það viðkomandi aðila að skipta yfir í hærri vexti (sem einginn veit hverjir verða). Hækkun vaxta hefur áhrif á afborgun og heildargreiðslu láns þó það lækki olöglega höfuðstólinn í dag. þannig að ef þú lækkar lánið mitt um eina milljón, í dag, en ég borga þegar upp er staðið tvær milljónir er það þá lækkun? þú gefur mér milljón og ég læt þig fá tvær í staðinn. Svakalega ertu örlátur maður.

    takk fyrir mig.

    Er þetta það sem þú kallar að „lækka stöðu verulega“?

    • Það sem þú vilt í reynd, Eyjólfur, og ert spældur að fá ekki, er lán í íslenskum krónum með vöxtum japanskra jena og svissnesks franka. Slíkt er ekki í boði og verður aldrei. Það næsta sem við komumst þessu er að taka upp evru og fá evruvexti á lánin okkar. Í millitíðinni verðum við að lifa við íslenska vexti, óverðtryggða eða verðtryggða. Þeir eru hærri en hinir af því að krónan er lítill og mjög óstöðugur gjaldmiðill með mikla verðbólgu- og kollsteypusögu. Menn geta alveg eins afneitað þyngdarlögmálinu eins og þessu.

 • Haraldur Ólafsson

  Það verður ekki annað sagt en að þessi grein þín hafi skapað fjörugar umræður, Vilhjálmur. Eins og jafnan er stutt dvalið við það sem fróðlegt er en staldrað við það sem vekur upp spurningar. Í niðurlaginu segir:

  „Að nýta góðan árangur og betri horfur í ríkisfjármálum til þess að koma til móts við vanda þeirra sem á þurfa að halda í gegn um skattakerfið, jafnt og þétt á næstu árum. Þá er átt við t.d. sértækar vaxtabætur og aðrar leiðréttingar til þeirra sem verst fóru út úr misgengi eignaverðs og skulda.“

  Það má vel vera að rétt sé og skynsamlegt að ríkissjóður taki á sig lækkun fasteignaverðs, en er þá hugmyndin að ríkið taki líka hækkun í bólum? Eða er hugmyndin að fasteignaeigendur hirði gróðann í bólu en ríkið sjái um tapið þess á milli? Ef ríkið á að jafna allt út, væri þá ekki nærtækast að miðstýra fasteignaverði?

 • Ég man ekki betur en Steingrímur Hermannsson hafi á sínum breytt forsendum í útreikningi lánskjaravísitölunnar lántakendum til hagsbóta. Bankarnir mótmæltu, fóru með málið fyrir Hæstarétt og töpuðu þar. Hvers vegna er ekki hægt að gera það sama núna og taka út hækkunina á verðtryggðum lánum sem stafar af bankahruninu?

  Ef hægt er að tala um forsendubrest hlýtur hrun á heilu bankakerfi og hrun gjaldmiðils í framhaldinu að flokkast undir það. Forsendubresturinn varð líka hjá þeim geta ekki nýtt 110% leiðina.

  Hefðbundin hótun bankanna gegn raunhæfum aðgerðum til að leiðrétta hag lántakenda er að hóta því að engin lán verði veitt í langan tíma. Þessi hótun svínvirkar á núverandi stjórnvöld. Ég held að lánveitendur ættu að hafa meiri áhyggjur af síminnkandi vilja lántakenda til að taka lán, hvar ætla þeir að fá vexti á peningana sína ef lántakendur vantar eins og staðan er núna.

 • Gunnar Ársæll

  Lífeyrissjóðsspeki. Ef 10 millu íbúðarlán hækkaði í 20 millur en er lækkað aftur í 10 millur er þá ekki rjómin bara flotinn burt? Og tapið ekkert? Eða er það speki sem ekki stenst skoðun?

  • Ef þessir tveir viðburðir eiga sér stað á sama degi er nettóstaðan eins og þú segir. Ef nokkrir mánuðir eða ár líða á milli þessara viðburða koma inn í myndina ávöxtunarkrafa og verðbólga.

 • Hákon Hrafn

  Sæll Vilhjálmur

  Þú skrifar:
  Löglega samninga á að efna; ekki á að setja íþyngjandi lög afturvirkt; og eignarrétturinn er friðhelgur skv. stjórnarskrá. Lausnir á vandanum verða að vera innan þessa ramma. Ef grundvallarreglur réttarríkisins standast ekki áföll þá er það ekki réttarríki. Til lengdar er miklu verra (og dýrara) að búa ekki í réttarríki, það eigum við að hafa lært af mannkynssögunni.

  Skömmu síðar ferðu að verja það að samfylkingin hafi sett afturvirk lög sem voru verulega íþyngjandi fyrir neytendur. Þar dregur þú upp góða lýsingu á sjálfum þér.

  • Íþyngjandi fyrir neytendur? Þvert á móti, þetta var löggjöf sem lækkaði stöðu gengistryggðra lána verulega, óháð samningsformi. Spurningin var ekki hvort hún væri íþyngjandi fyrir neytendur, heldur hvort lánveitendur myndu sækja rétt sinn. Það kusu þeir að gera ekki, eins og ég útskýrði hér að ofan, væntanlega vegna þess að kostnaður, óhagræði og vesen við ítrustu dómstólaleiðir hefði verið gríðarlegur.

   • Hákon Hrafn

    Sæll Vilhjálmur, ég hefði búist við málefnalegri og röklegri svörum frá þér. Þú gefur þig amk út fyrir að vilja málefnalega umræðu og hlýtur að meina eitthvað með því.

    Lánin voru ólögleg, veitt af fjármálafyrirtækjum í vondri trú þeirra þar sem þau vissu það (sjá bréf undirritað af Guðjóni Rúnarsssyni, framkvæmdastjóra SBV (nú SFF) frá 24. apríl 2001, innsend umsögn um vaxtalögin 38/2001 sem voru í fullu gildi þegar lánin voru veitt). Fjármálafyrirtækin voru brotleg og áttu því engan rétt nema að endurgreiða lántökum það sem þau höfðu ranglega innheimt skv. lögunum. Þar sem samfylkingin er eign fjármálafyrirtækja voru sett afturvirk, íþyngjandi lög þeim til bjargar. Tjónþoli var látinn borga tjónvaldi. Ef grundvallarreglur réttarríkisins standast ekki áföll þá er það ekki réttarríki. Gengislána- og vaxtadómar hæstaréttar sögðu ekkert um afturvirkni enda engin fordæmi fyrir slíku rugli.

    Þú talar um löggjöf sem lækkaði stöðu gengistryggðra lána verulega. Hvort er betra að skulda 30 milljónir á 2% vöxtum eða 23 milljónir á 5,3% vöxtum ef lánin eru jafngild að öðru leyti? Til að einfalda spurninguna -> hvort lánið er auðveldara að borga?

    Þar sem þú er fjárfestir og situr í stjórn fjármálafyrirtækis þá veit ég hvort er betra fyrir þig en hvort er betra fyrir lántakandann? almenna neytendur í þessu tilfelli?

    • Hákon: Það var Hæstiréttur sem dæmdi gengistryggingu krónulána ólögmæta, og úrskurðaði hvernig skyldi reikna lánin (þ.e. með því að meðhöndla þau sem óverðtryggð krónulán með Seðlabankavöxtum). Það var ekki Samfylkingin sem ákvað þetta, eins og þú virðist halda, heldur æðsti dómstóll landsins. Það sem Árni Páll hafði frumkvæði um að gera í framhaldi af þessu var lagasetning um að sömu skilmálar og Hæstaréttur hafði ákveðið skyldu gilda um öll gengistryggð krónulán óháð samningsformi. Þessi lög tryggðu fleiri lántökum sömu réttarbætur (lækkun höfuðstóls) og dómurinn hafði gert. Án þeirra hefðu aðrir lántakar þurft að fara í mál í hrönnum til að reyna að ná fram sömu niðurstöðu. Lögin voru nóta bene samþykkt á þingi með öllum greiddum atkvæðum á móti þremur atkvæðum Hreyfingarinnar.

     • Hákon Hrafn

      Sæll Vilhjálmur, þú segir
      Það var Hæstiréttur sem dæmdi gengistryggingu krónulána ólögmæt og úrskurðaði hvernig skyldi reikna lánin (þ.e. með því að meðhöndla þau sem óverðtryggð krónulán með Seðlabankavöxtum)
      -> það er rétt en dómurinn sagði ekkert um að skyldi gert aftur í tímann, sjá dóm 604/2010.

      Dómurinn dæmdi eftir lögum frá Alþingi 38/2001 sem voru skýr. Dómari dæmir eftir lögum, lög er ekki sett eftir dómum. Fjármálafyrirtækin reyndu að komast hjá þessum lögum. Samfylkingin, eða Ingvi Örn ef þú vilt það frekar, skrifaði þá frumvarp að nýjum lögum þar sem réttindi neytenda voru tekin af þeim og ný túlkun sett fram á dómi Hæstaréttar. Þess má geta að Ingvi Örn er nú starfsmaður SFF og hefur sennilega alltaf verið það síðan hann hætti í Landsbankanum. Frumvarpið átti að fara í viðskiptanefnd sem hefur með banka og neytendur að gera en þar var ekki meirihluti fyrir málinu þar þannig að það var sent í efnahags- og skattanefnd þar sem eiginkona lögmanns Lýsingar í gengislánamálinu (153/2010) tók við því og afgreiddi það alveg bullandi vanhæf (Álfheiður).

      Um frumvarpið sagði Umboðsmaður skuldara m.a. „Telja má að reglur frumvarpsins sem hafa íþyngjandi afturvirk áhrif fyrir hagsmuni skuldara stangist í veigamiklum atriðum á við réttlætissjónarmið og réttmætar væntingar skuldara.“ Tveir óháðir lagasérfræðingar úr Lagadeild HÍ skiluðu líka inn umsögn um frumvarpið og töldu það ótækt. Ég held að ég geti því sagt það með mikilli sannfæringu að þín skoðun um að þessi breyting á vaxtalögum hafi verið til hjálpar neytendum sé byggð á miklum miskilningi. Lántakar hafa hvort sem er þurft að fara í mál við fjármálafyritæki sem alltaf halda því fram að dómur Hæstaréttar (153/2010) eigi ekki við um hin og þessi lánaform.

      Þú ert nógu klár til að átta þig á því að í endurútreikningi er mikill munur á 5 ára bílaláni með háum vöxtum sem tekið er árið 2008 og svo 40 ára húsnæðisláni með 2% vöxtum tekið árið 2005. Lögin gera ekki greinarmun á þessu. Spurning mín stendur ennþá ósvöruð frá fyrra innleggi.

 • Hér má lesa um áætlun sem franskir hagfræðingar hafa gert um hvernig leggja megi niður evruna og taka að nýju upp ríkismyntir. Á breytilegu gengi að sjálfsögðu, sem tæki mið af undirliggjandi efnahagslegum veruleika í hverju tilviki fyrir sig. http://www.evropuvaktin.is/frettir/22325/

  Þessi hugmynd er í eðli sínu alls ekkert frábrugðin þeirri gjaldmiðlaskiptaleið sem Hagsmunasamtök Heimilanna hafa lagt til sem mögulega til leiðréttingar á efnahagskerfinu hér á Íslandi, og sem fyrri athugasemd mín hér að ofan fjallar um.

  Það er því í besta falli villandi að tala um að þetta sé ekki hægt, þó blæbrigðamunur sé á útfærslunni. Ekki virðist það standa í frönskum hagfræðingu að hugsa upp slíka leiðir, burtséð frá persónulegum skoðunum gjaldkera Samfylkingarinnar, málsvara BTB & co.

  Hinsvegar langar mig að beina spurningu til Vilhjálms: Hvenær var ársreikningi Samfylkingarinnar vegna ársins 2010 skilað til Ríkisendurskoðunar? Var það innan lögboðins tímafrests þann 1. október 2011, sem er skilyrði fyrir útgreiðslu á ríkisstyrk til flokksins? Ef ekki, munt þú sem gjaldkeri Samfylkingarinnar engu að síður veita styrknum viðtöku og ráðstafa honum, í trássi við þessi lög?

 • Ómar Kristjánsson

  ,,Nýju bankarnir „keyptu“ ekki lánasöfnin heldur voru tilteknar eignir og skuldir fluttar úr gömlu bönkunum yfir í þá nýju með ákvörðun FME.“

  það segir alveg sitt að eftir 3 ár, 3 ár, þá hefur fólki ekki enn tekist að skilja þetta. það er bara staðreynd að fólk skilur þetta ekki. það talar og talar um að einhver hafi ,,keypt“ einhver lánasöfn. þessi Kaupkenning virðist styrkjast og festa dýpri rætur með árunum. Fólk skilur ekki eðli Neyðarlaganna. Nei nei, það var bara einhver útí bæ sem ,,keypti“ lánasöfnin!

  Og fólk hafi í huga að FME hefði ekkert getað gert þetta nema ákvörðun stjórnvalda hefði legið að baki.

 • Ég hef fengið þetta svar frá lögfræðingi varðandi tillögur HH;
  „Hér skiptir útfærslan máli – ef skattur er lagður á með ákveðinni prósentu í eitt skipti á alla eigendur verðtryggðra lána jafnt og andvirði hans notað til þess að greiða niður lánið stæðist það sennilega eignarréttarákvæði stjórnarskrárinnar. “

  „Það má takmarka eignarréttinn með almennum lögum sem byggja á málefnalegum sjónarmiðum og jafnræðisreglu og gilda þá lögin um ástandið framvegis (aftenging vísitölunnar). Það þýðir að engar bætur greiðast. Að kippa vísitölu úr sambandi myndi væntanlega ganga upp gagnvart stjórnarskrá. Að taka að eignarnámi lánasöfn þýðir fullar bætur þurfa að koma fyrir. Að skattleggja gæti gengið gagnvart stjórnarskrá.“

  • Meginregla samningaréttar: efna skal löglega samninga, pacta sunt servanda.

   1. mgr. 72. gr. stjórnarskrárinnar: Eignarrétturinn er friðhelgur. Engan má skylda til að láta af hendi eign sína nema almenningsþörf krefji. Þarf til þess lagafyrirmæli og komi fullt verð fyrir.

   2. mgr. 77. gr. stjórnarskrárinnar: Enginn skattur verður lagður á nema heimild hafi verið fyrir honum í lögum þegar þau atvik urðu sem ráða skattskyldu.

   Málefnalegur og hóflegur skattur á jafnræðisgrundvelli gengur upp, en það þýðir ekki að það megi dulbúa eignaupptöku (að taka eignir af einum einkaaðila úti í bæ og færa þær öðrum) sem skatt.

 • Jón Halldór

  Mestu efnahagsmistök Íslandssögunnar, voru þau að taka ekki víxitöluna úr sambandi, allavega tímabundið, strax eftir Hrun.

  Lög um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga Nr. 7/1936 og er 36. gr. sérlega áhugaverð.
  „Samningi má víkja til hliðar í heild eða að hluta, eða breyta, ef það yrði talið ósanngjarnt eða andstætt góðri viðskiptavenju að bera hann fyrir sig“
  Við Hrunið varð algjör Forsendubrestur fyrir útreykningi víxitölunnar. Og nú er bara að bíða niðurstöðu ESA um breytilega vexti, verðtryggingu, og afturvirkni laganna hans Árna Páls, síðan hlýtur Umboðsmaður Alþingis vera á leiðinni með niðurstöðu, um ólögmæti á útreykningi verðtryggðu lánanna, þar sem hluti afborgunar er hlaðið ofan á höfuðstólinn og vaxtareyknað þó gjalddagi sé ekki kominn.

Höfundur