Mánudagur 26.03.2012 - 15:21 - Lokað fyrir ummæli

„Stöðutaka gegn krónunni“

Í tilefni af nýlegum skrifum og getgátum DV verður í þessum pistli fjallað um tvennt: „Stöðutöku gegn krónunni“ og orsakir falls hennar, og skattalega meðferð hagnaðar og arðs úr fyrirtækjum.

Stutta útgáfan: Fjárfestingarfélag sem ég er hluthafi í, Teton ehf., tók ekki „stöðu gegn krónunni“ í hruninu eða aðdraganda þess, og hagnaðist þar af leiðandi ekki á slíkri stöðutöku, eins og DV gefur í skyn. (En krónan féll heldur ekki vegna slíkrar stöðutöku.)  Af hagnaði Teton ehf. og arðgreiðslum var að sjálfsögðu greiddur tekjuskattur og fjármagnstekjuskattur (afdráttarskattur) í ríkissjóð, og var félagið meðal hæstu skattgreiðenda af lögaðilum á landinu árið 2009 vegna ársins 2008. Teton er eitt örfárra fjárfestingarfélaga hérlendis sem fór óskaddað í gegn um hrunið, skilaði hagnaði, greiddi sína skatta og stóð við allar sínar skuldbindingar.

Lengri útgáfan:

1. Fall krónunnar varð ekki vegna „stöðutöku gegn krónunni“. Það er kenning sem er m.a. haldið fram til að afsaka andvara- og aðgerðaleysi Seðlabankans og annarra yfirvalda. Hrun krónunnar varð vegna þess að við söfnuðum upp erlendum skuldum og fáheyrðum viðskiptahalla, yfir 700 milljörðum króna (50% af VLF), á aðeins þremur árum 2005-2007. Sem sagt, peningalegar kröfur útlendinga á íslenska hagkerfið uxu um 700 milljarða umfram kröfur okkar á útlendinga, á þremur árum. Enda var krónan í samfelldu ofrisi á þessum tíma. Slíkri uppsöfnun getur aldrei fylgt annað en veruleg gengisleiðrétting, samkvæmt viðteknum hagfræðilögmálum og raunar einnig lögmálum stærðfræðinnar. Á meðan var Seðlabankinn, sem átti að gæta að krónunni og fjármálastöðugleika, sofandi við stýrið. Þarna lá vandinn.

2. Þegar hlutafélag hagnast greiðir það tekjuskatt í ríkissjóð. Uppsafnaðan hagnað í félagi, svokallað óráðstafað eigið fé, má greiða út sem arð til hluthafa ef hluthafafundur samþykkir slíka arðgreiðslu. Þegar félag greiðir út arð dregur það fyrst frá arðgreiðslunni fjármagnstekjuskatt og skilar í staðgreiðslu til ríkissjóðs, en það sem eftir stendur gengur til hluthafanna. Ekki skiptir máli í því sambandi hverjir hluthafarnir eru, einstaklingar eða lögaðilar, innlendir eða erlendir; afdráttarskatturinn er sá sami. Til dæmis má nefna að ef íslenskt hlutafélag hagnast um 100 krónur og skilar þeim til hluthafa með arðgreiðslu ganga nú 36 krónur til ríkissjóðs (fyrst 20 krónur af hagnaðinum m.v. núgildandi 20% tekjuskatt lögaðila, og svo 16 krónur af 80 krónunum m.v. núgildandi 20% fjármagnstekjuskatt). Í tilviki Teton ehf. greiddi félagið á árinu 2009 tæpar 240 milljónir í tekjuskatt og 60 milljónir í afdreginn fjármagnstekjuskatt af arðgreiðslu f.h. hluthafa eða samtals 300 milljónir króna í ríkissjóð.

Nóg er af neikvæðum fréttum um stórtöp, skuldafjöll og afskriftir. Það er hins vegar jákvæð frétt fyrir skattborgara að einhverjir hafi, þrátt fyrir allt, náð að haga sínum málum og fjárfestingum á árinu 2008 þannig að hagnaður yrði af. Dæmi um slíkt hefðu gjarnan mátt vera fleiri, fremur en færri.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

«
»

Ummæli (23)

  • Þorsteinn Úlfar Björnsson

    Af séreignar lífeyrissparnaði að upphæð kr. 1770 þúsundum greiðist 793 þúsund í staðgreiðslu skatta. Hættu svo að væla yfir 36 kr. af hverjum hundarðkalli. Ég vildi óska að ég hefði fengið sama díl. 🙂

  • Ef þér finnst þú hafir unnið fyrir þessum hundruðum milljóna á þessum skamma tíma og að sú vinna hafi skilað sér til þeirra sem raunverulega greiða þessa fjárhæð, þarftu þá nokkuð að vera að afsaka þig?

  • Hversu jákvætt skattborgarar myndu meta þetta (hefðu þeir allar nauðsynlegar upplýsingar) kannski eftir því hvernig hagnaðurinn var tilkominn. Eigendur og æðstu stjórnendur bankanna sem hrundu (og væntanlega bankarnir sjálfir) greiddu líka mikinn skatt fyrir hrun.

    Ég hef auðvitað ekki hugmynd um hvernig þessi hagnaður varð til. En hefði hann t.d. orðið til á hátt sem gróði af stökkbreytingu húsnæðislána (sem einhverjir hafa auðvitað grætt gríðarlega á), þá er ekki víst að það gerði skattgreiðendur sérlega hamingjusama að lítill hluti af gróðanum skilaði sér í ríkissjóð, samtímis því sem eigendur fyrirtækisins tóku til sín mun hærri fjárhæðir.

  • Ég fagna því, Vilhjálmur, að þú sért farin að horfa á þetta þessum augum. Um daginn fór inn hjá þér pistill, sem ég finn ekki lengur, þar sem þú skrifaðir á allt annan hátt um þessi mál. Þá einmitt benti ég þér á viðskiptajöfnuðinn og hann væri fyrst og fremst ástæðan fyrir sveiflum í gengi krónunnar, en ekki krónan sjálf. Fyrir það fyrsta, hvað varð um hinn pistilinn? Og síðan, hvað varð til þess að þú snerist frá því að kenna krónunni um og lítur á þetta, að mínu mati, raunsærri augum?

  • Arðgreiðslur milli fyrirtækja (líka innan EES) eru ekki skattlagðar. Jú, það er greidd staðgreiðsla (afdráttaskattur), en hann er endurgreiddur – sem sagt Lúx HoldCo-ið hefði verið raunskattlagt um núll krónur. Plús að afdráttur til Lúx er lækkaður niður í 5% þegar greiðsla á sér stað vegna tvísköttunarsamnings. Skattlagning kæmi aftur til við móttöku einstaklinga af arði ef þið eruð beinir eigendur að Lúx Co-inu. Kostur þessa félagastrúktúrs er auðvita að þið fenguð gjaldeyri inn í LúxCo enda arðgreiðslur undanþegnar gjaldeyrishöftum. LúxCo gæti tæknilega séð, án skattlagningar sjálft komið aftur inn á uppboðsgengi hjá SÍ. Bottom line er að upplýsingarnar segja ekki nægjanlega til um raunverulega skattlagningu né tilgang (og hugsanlega fjármögnun) í þessum strúktúr.

    Nú er hins vegar ekkert að því að hagnast um þessa fjármuni og ekkert að því að greiða arð upp til lúx. Þegar einstaklingarnir taka hann út verður alltaf raungreiðslan þessar 36 krónur sem þú bendir á (nema um hafi verið að ræða hagnað af hlutabréfum, þá er skattlagningin í raun í hinu selda félagi). Sá sem kvartar hér skattlagningu séreignasparnaðar er á villigötum, enda nettó skattlagning tekna yfirleitt lægri en 36% vegna áhrifa persónuafsláttar.

    Spurningin er samt af hverju þessi villandi framsetning? Og hvar var samfylkingarkórinn á DV.is sem ver þetta (réttilega) þegar fjallað hefur verið með sambærilegum hætti um aðra aðila – nú eða kapitalistarnir þegar fjallað er um samfylkingarmann. Tvískinnungurinn í umræðunni hér á landi er algjörlega óþolandi. Það breytir því hins vegar ekki að þessi skrif þín gefa engan vegin rétta mynd af raunskattlagningunni.

  • Marínó: Ég hef engum pistli eytt, þannig að það kemur á óvart ef eitthvað vantar. En varðandi punktinn frá þér, þá eru viðskiptahallinn og krónan nokkurs konar yin og yang, og samband orsaka og afleiðinga gengur í báðar áttir. Ef við værum með (alvöru) evru í stað krónu hætti viðskiptahalli að skipta máli sem slíkur, þ.e. sem sjálfstætt vandamál í hagstjórn.

    • „Ef við værum með (alvöru) evru í stað krónu hætti viðskiptahalli að skipta máli sem slíkur, þ.e. sem sjálfstætt vandamál í hagstjórn.“

      Nú fórstu alveg með það Vilhjálmur. Þetta er stórkostlega kolrangt!

      Það er einmitt sú staðreynd að ekki er jafnvægi á viðskiptum milli landa innan evrusamstarfsins sem er ástæðan fyrir evrukreppunni. Það er ekki tilviljun að GIPS löndin, sem lentu í mestu vandræðunum, voru sömu lönd og voru með viðskiptahalla innan evrusamstarfsins, allt frá því evran var tekin upp á millibankamarkaði 1999.

      Ef þú trúir mér ekki máttu t.d. skoða þetta:
      http://rwer.files.wordpress.com/2012/03/1a1.png

      og þetta:
      http://icelandicecon.blogspot.co.uk/2012/03/post-keynesian-view-on-euro-crisis.html

      Nota bene: það er ekkert sem stoppar Ísland að lenda ekki í viðskiptahalla-vandræðum þótt við notum aðra mynt, sama hver hún er. Viðskiptahallinn myndast vegna skuldamyndunar innan bankakerfisins og það er sjálfstætt vandamál sem kemur myntfyrirkomulaginu ekki við.

  • Ef Vilhjálmur fengist til þess að upplýsa fólk um hverskonar fjárfestingar Teton stundaði og hvernig hagnaðurinn var fenginn, þá gæti það e.t.v. orðið til þess að draga úr tortryggni fólks. Tortryggnin verður þó áfram fremur mikil í ljósi þess að á meðal viðskiptaleikfélaga Vilhjálms eru t.d. þeir Björgólfur Thor og Skúli Mogensen.

  • Birgir: Punkturinn er að það skiptir engu máli á endanum fyrir íslenska ríkið eða skattgreiðendur hvort eignarhaldsfélag er íslenskt eða erlent (EES). Upphæð skattgreiðslna í keðjunni er sú sama í báðum tilvikum. En þetta sem þú talar um varðandi arðgreiðslur sem séu undanþegnar gjaldeyrishöftum stenst ekki. Það er engin leið fyrir erlent félag sem fær krónur í arð að skipta þeim í erlendan gjaldeyri, svo mér sé kunnugt um (nema félagið hafi upphaflega komið inn með gjaldeyri og fengið „gulan miða“ með heimild til að taka höfuðstól og arð aftur úr landi). Það væru a.m.k. fréttir fyrir mig ef þetta gengi upp eins og þú lýsir.

  • 13. gr. j. í lögum um gjaldeyrismál. Verið í reglum SÍ frá upphafi. Ertu að segja að LúxCo hafi fengið þetta greitt í ISK inn á reikning í Lúx? Það væru fréttir fyrir mig.

    Það sem þú segir punktinn er gott og vel um heildarkeðjuna – en greinin þín sýnir ekki raunverulega skattlagningu í dæmi Teton og LúxCo eins og ég benti á. Hafi t.d. LúxCo fjárfest aftur eða situr á fjármunum hafa engin 36% verið greidd eins og þú gefur í skyn, heldur einungis 15% (þáverandi tekjurskattur fyrirtækja). Það er því rangt að 330 milljónir hafi skilað sér í ríkissjóð. Þessi setning er þannig mjög villandi: „Ekki skiptir máli í því sambandi hverjir hluthafarnir eru, einstaklingar eða lögaðilar, innlendir eða erlendir; afdráttarskatturinn er sá sami.“. Munurinn auðvita verandi sá að í tilviki lögaðila er afdrátturinn allur endurgreiddur!

    Ekki misskilja mig – ég vona að þér gangi sem best og ég sé ekkert að þessari arðgreiðslu, hagnaðinum né að vera með LúxHoldCo yfir íslenska félaginu. Ég var bara að hnýta í að það var villandi sem gefið var til kynna að LúxCo þyrfti að greiða skatt hér á landi (þ.e. þessar 90m), svo er ekki. En mér sýnist þú vera að segja að þið hafið greitt það persónulega þannig að flott mál.

  • Ég er nú svo gamall að ég man þá tíð, fyrir október 2008, að hver sem vildi mátti kaupa gjaldeyri fyrir eins mikið og honum sýndist.

    Ég dauðsé eftir að hafa ekki keypt gjaldeyri fyrir sparifé mitt á vordögum 2008. Þar með hefði ég verið að „taka stöðu“ gegn krónunni. En það var hvorki ósiðlegt né ólöglegt þá, áður en þjóðin neyddist til að taka upp núverandi austur-þýskt fyrirkomulag á gjaldeyrisverslun.

  • Magnús Magnússon

    Ég bíð spenntur eftir svari Vilhjálms við athugasemd Þórarins Einarssonar.

  • Magnús og Þórarinn: Teton er fjárfestingar- og eignastýringarfélag. Það ávaxtar peninga með því að kaupa og selja verðbréf á markaði, þ.e. skuldabréf, hlutabréf og hlutdeildarskírteini í sjóðum. Stefnan er að kaupa ódýrt og selja dýrt, fremur en hitt.

  • Haukur Kristinsson

    „Sjáið ekki veisluna strákar“, sagði Árni Matt. Og í dag segir Vilhjálmur; „munið ekki veisluna strákar“. Hinsvegar var erfitt , ef ekki útilokað að græða mikið fé á þessum tímum án innherjaupplýsinga.

  • Finnst þér ekki þurfa meiri gögn til að byggja á aðdróttanir um refsivert athæfi, Haukur? Þú ættir að kynna þér 235. og 236. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, og þvo svo munninn á þér með sápu.

  • Haukur Kristinsson

    Þvoðu þér sjálfur með sápu Vilhjálmur, grænsápu. Ef þú tekur þetta til þín, þá er það þitt mál. Innherjaviðskipti voru daglegt brauð í þeim rugl viðskiptum, sem tíðkuðust hér á skerinun fyrir hrun. Láttu ekki eins og þú vitir þetta ekki, láttu ekki eins og fífl, drengur.

  • Þorbergur Leifsson

    Vilhjálnmur getur þú skilgreint hvað þú átt nákvæmlega við með „tók ekki „stöðu gegn krónunni““. ‘Attu við að fyrirtækið hafi ekki nýtt sér þá augljósu staðreynd að krónan var allt of hátt metin 2006-2008 og hlaut að falla. ??????

  • Þorbergur: Ég er reyndar sammála þér um að það var nokkuð augljóst a.m.k. frá janúar 2008 að krónan myndi falla. (Sjá t.d. þetta blogg mitt frá 21. janúar 2008: http://vthorsteinsson.blog.is/blog/vthorsteinsson/entry/421043/ ) En ég á við að félagið var ekki með neina fjármálagjörninga sem gerðu út á að krónan myndi falla, til dæmis skiptasamninga. En hins vegar átti félagið erlendar eignir, sem vitaskuld „hækkuðu“ í verði í krónum, og í því fólst hluti hagnaðarins. Það kalla ég hins vegar ekki „stöðutöku gegn krónunni“, frekar en óverðtryggt krónulán – sem mætti alveg eins kalla „stöðutöku gegn krónunni“ enda þarf þá færri evrur til að endurgreiða lánið en fengust fyrir krónurnar í upphafi, ef krónan fellur.

  • Hjalti Atlason

    Ætli stórtækasta krónuprentun fyrr og síðan upp á 300 milljarða í boði ástarbréfa Davíðs hafi nú ekki ýtt aðeins við krónunni.
    Þetta er eins og allar fjölskyldur landsins hefðu keypt sér nýja bíl, það munar um minna.

  • Vilhjálmur, ég átti reyndar ekki von á því að þú myndir gera verulega grein fyrir starfsemi félagsins umfram aðra sambærilega verðbréfaspilakassa. Eftir situr tortryggnin sem þú sjálfsagt losnar aldrei við með öll þín miklu hagsmunatengsl og stöðutökur.

  • Þða er auðvitað betra að stjórnarmaður í samfylkingu VINSTRI manna deili kjörum með Kögunaraðlinum en alþýðu manna.

    Ekki nema sjálfsagt að svona spaðar graðki til sín ævilaunum verkamanns með bréfabralli á nokkum dögum.

  • Halldór Halldórsson

    Það voru ansi margir morðingjar og stríðsglæpamenn eftir Heimsstríðið 1939 – 1945 sem komust upp með; „mér var bara skipað fyrir / þetta voru lög og reglur“!!!

  • Halldór: Og tengingin við það sem hér er til umræðu er… hver?

Höfundur