Fimmtudagur 29.03.2012 - 23:34 - Lokað fyrir ummæli

Spurningarnar sem ekki mátti spyrja

Hér eru spurningarnar sem Sjálfstæðisflokkurinn beitti málþófi í yfir 12 klukkutíma á Alþingi í dag til að koma í veg fyrir að spyrja mætti kjósendur samhliða forsetakosningunum í sumar:

‎1. Vilt þú að tillögur stjórnlagaráðs verði lagðar til grundvallar frumvarpi að nýrri stjórnarskrá? 

 • Já, ég vil að tillögur stjórnlagaráðs verði lagðar til grundvallar frumvarpi að nýrri stjórnarskrá.
 • Nei, ég vil ekki að tillögur stjórnlagaráðs verði lagðar til grundvallar frumvarpi að nýrri stjórnarskrá.

2. Vilt þú að í nýrri stjórnarskrá verði náttúruauðlindir sem ekki eru í einkaeigu lýstar þjóðareign? 

 • Já.
 • Nei.

3. Vilt þú að í nýrri stjórnarskrá verði ákvæði um þjóðkirkju á Íslandi? 

 • Já.
 • Nei.

4. Vilt þú að í nýrri stjórnarskrá verði persónukjör í kosningum til Alþingis heimilað í meira mæli en nú er? 

 • Já.
 • Nei.

5. Vilt þú að í nýrri stjórnarskrá verði ákvæði um að atkvæði kjósenda alls staðar að af landinu vegi jafnt? 

 • Já.
 • Nei.

6. Vilt þú að í nýrri stjórnarskrá verði ákvæði um að tiltekið hlutfall kosningarbærra manna geti krafist þess að mál fari í þjóðaratkvæðagreiðslu? 

 • Já.
 • Nei.

Þetta eru sem sagt hinar ógurlegu spurningar sem ekki mátti spyrja og þú máttir ekki fá að svara í sumar. Af því að Sjálfstæðisflokkurinn óttast svörin?

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

«
»

Ummæli (31)

 • Það er spurning nr. 2 sem fór mest fyrir brjóstið á þeim, enda fyrir löngu búnir að ákveða hverjir fá að sitja að þessum auðlindum okkar og hverjir ekki. Það er böl okkar Íslendinga að stór hluti þjóðarinnar heldur að íbúar í Valhöll séu stjórnmálaflokkur, en það er langt því frá. Þetta er bissnismódel fjögurra fjölskyldna, en þessar fjölskyldur ákveða hverjir fá að vera með í klíkunni og hverjir ekki. Það að 30% þjóðarinnar skuli ekki sjá þetta gerir það að verkum að landinu mun alltaf verða stjórnað með þessum hætti.

 • 220 milljarða gjaldeyristekjur af útflutningi sjávarafurða á hverju ári. 40-70 milljarða umframhagnaður (auðlindarenta) árlega, í beinhörðum gjaldeyri. Að fjármagna einn stjórnmálaflokk og halda úti einu dagblaði kostar bara klinkið í neðstu skúffunni í samanburði. Um þetta snýst baráttan um Ísland – og þess vegna mátt þú ekki fá að svara spurningu nr. 2.

 • „Málþóf í 12 klukkutíma“?
  Er ekki í allt í lagi?
  Finnast þér 12 klukkustundir í umræðu um sjálfa Stjórnarskrána raunverulega vera „málþóf“?
  Þú hlýtur að vera að grínast.

  Síðan er það spurningin, af hverju reddið þið ekki klúðri ríkisstjórnarinnar, og haldið þessa skoðanakönnun ykkar síðar? Hentar 15. júlí? 19. ágúst?
  Hvað er málið?
  Óttist þið aðra útreið í mætingu á kjörstað?
  Eru þið hrædd um að einungis þriðjungur þjóðarinnar, eins og með kosninguna í ólöglegu stjórnarskránefndina, sjái ástæðu til að mæta?
  Jafnvel minna?

  Kostnaðurinn?
  Er hann of hár?
  Capacent tekur nokkra hundrað þúsundkalla fyrir skoðanakannanir.

  Nú, ef þið viljið fara hina leiðina, að halda þetta bara sér, fyrir 100 miljónir, gætir þú ekki séð um reikninginn. Bara 20% af arðinum sem þú varst að greiða þér.
  Þú þarft væntanlega ekki allt þetta fé, og ef lýðræðisástin er þér efst í huga, þá er þetta ekkert mál fyrir þig?

  • Það var ekki verið að ræða stjórnarskrána sjálfa heldur þingsályktunartillögu um að spyrja þessara 6 spurninga í þjóðaratkvæðagreiðslu meðfram forsetakosningnum í sumar. Frumvarp Stjórnlagaráðs var rætt um daginn sem skýrsla til Alþingis. Það verður svo lagt fram formlega sem frumvarp til stjórnarskipunarlaga í haust og þinginu gefst allur næsti vetur til að ræða það. Og svörin við spurningunum 6 hefðu verið mjög gagnleg í þeirri umræðu og vinnu.

   En nú fara menn bara í Plan B og finna aðrar leiðir, þær eru margar í stöðunni. Sjálfstæðisflokkurinn, næststærsti þingflokkurinn, mun ekki komast upp með það að taka þetta mál af þjóðinni enda í minnihluta með það, bæði á þingi og meðal kjósenda.

  • Halldór Björnsson

   ‘ „Málþóf í 12 klukkutíma“?
   Er ekki í allt í lagi? ‘

   Ragnheiður Elín beitti sömu lógikk í morgun í útvarpinu (nema hún talaði um 18 tíma). Þetta er furðulegur útúrsnúningur. Málþóf á þingi er það þegar menn þæfa mál til lengdar svo komið verði í veg fyrir atkvæðagreiðslu. Sama fyrirbæri á ensku heitir ‘filibuster’, og vel þekkt fyrirbæri í þingum margra ríkja. Það kemur ekki málinu við hversu lengi er talað, heldur er það tilgangurinn að koma í veg fyrir atkvæðagreiðslu sem greinir málþóf frá umræðu. Ragnheiður sagði líka að umræðan hafi verið málefnaleg, og átti þá líklega við ummæli Jóns Gunnarssonar um að það væru kommúnistarnir sem vildu þjóðaratkvæði…..

 • Jón Steinar

  Ég sakna spurningar um það hvort ákvæði um framsal fullveldis til erlendra ríkja og stofnanna fái að vera í nýrri stjórnarskrá. Pöntunarliður Jóhönnu númer 7 í lögum um stjórnlagaþing.
  Er það lykilatriði eitthvað feimnismál? Ég tel fátt vera mikilvægara í þessu öllu enda er allr sirkusinn spunninn upp fyrir þennan lið þar sem að innganga í ESB er ómöguleg án þess að opna á þetta.
  Ef sá liður yrði inni, þá þyrftum við enga stjórnarskrá og þaðan af síður að velta fyrir okkur einhverri þjóðareign auðlinda.
  Þú veist þetta náttúrlega Villi, en treystir okkur próletaríinu ekki fyrir svona djúpu dilemma, eða hvað?

  • Það er ekki nauðsynlegt að spyrja um þetta, Jón Steinar, vegna þess að það er skýrt í stjórnarskrárfrumvarpinu að framsal fullveldis verður aðeins að undangenginni þjóðaratkvæðagreiðslu. Þar af leiðandi er það fullveldishafinn og stjórnarskrárgjafinn, þjóðin, sem ákveður slík mál í öllum tilvikum. Ég held að það séu afar fáir að berjast fyrir því að þetta verði einhvern veginn öðru vísi.

   Þessi áróður um 111. gr. virðist byggjast á því að fólk lesi ekki frumvarpið. Hér er 3. mgr. 111. gr.: „Samþykki Alþingi fullgildingu samnings sem felur í sér framsal ríkisvalds skal ákvörðunin borin undir þjóðaratkvæði til samþykktar eða synjunar. Niðurstaða slíkrar þjóðaratkvæðagreiðslu er bindandi.“

 • Jón Steinar

  Þú veist það annars jafn vel og allir aðrir að þetta mál snýst ekki um þessa skoðanakönnun sem virðist gerð til að gengisfella þjóðaratkvæði í aðra röndina.

  Hvað heldur þú annars að hafi valdið allri þessari móðursýkislegu geðshræringu hjá stjórnarliðinu? Loðið hgtak um þjóðareign auðlinda? Gettu nú.

  Þetta snýst um það hvort stjórnin skrimti, því á þessu eina máli hangir hún. Þ.e. á stuðningi Saari með Sladeskóm og öllu tilheyrandi. Allt annað er sprungið í loft upp…púff!

  • „Loðið hugtak um þjóðareign auðlinda“? Það er þá jafn loðið og í tillögu Auðlindanefndar frá 2000 sem Jóhannes Nordal veitti forstöðu og Styrmir Gunnarsson var í. Eða jafn loðið og 2. mgr. 1. gr. laga nr. 47/2004 um þjóðgarðinn á Þingvöllum: „Hið friðlýsta land skal vera undir vernd Alþingis og ævinleg eign íslensku þjóðarinnar. Það má aldrei selja eða veðsetja.“ Er það eitthvað loðið að Þingvellir séu þjóðareign?

 • Jón Ingi

  Hvað segir þetta okkur um Sjálfstæðisflokkinn ? Það er spurning sem allir íslendingar ættu að spyrja sig að í þessu samhengi.

 • Sæll.

  Það hafa margir bent á að núverandi tillögur að stjórnarskrá eru ófullkomnar.

  Persónulega þá finnst mér tillögur á stjórnskrá sem nú liggja fyrir vera ónýtar þar sem ekki er tekið á þrískiptingu valdsins. Það á enn að halda við flokksvaldinu á kostnað Alþingis.

  Af hverju er ekki spurt hvort þjóðin vilji að hér sé raunveruleg þrískipting valdsins.

  Af hverju er ekki spurt hvort þjóðin vilji auka eða minnka vald forseta.

  Og svo mætti lengi spyrja.

  Að mínu áliti er grundvöllur á nýju stjórnfari hér á landi að þingmenn séu ekki ráðherrar og ábyrgð og vald fari saman auk þess að skýrt sé gagnvart hverjum ráðherra beri ábyrgð. Nú ber ráðherra ábyrgð gagnvart eigin þingflokki en ekki öðrum. Við sjáum hvert það hefur leitt okkur á undanförnum árum. Og enn skal haldið áfram á þeirri braut.

  • Frumvarp Stjórnlagaráðs skerpir mjög aðskilnað valdþáttanna. Þar skiptir m.a. miklu máli að ráðherrar munu ekki lengur sitja á þingi. Þingræðið er jafnframt gert skýrara með því að Alþingi kýs forsætisráðherra með formlegum hætti. Pólitísk ábyrgð er einnig skýrð með ítarlegum ákvæðum um vantraust á einstaka ráðherra eða ríkisstjórn í heild. Varðandi flokksræði þá gerir frumvarpið ráð fyrir stórauknu vægi persónukjörs sem þýðir að þingmenn munu sitja í mun meira mæli í skjóli kjósenda beint, í stað þess að sitja í skjóli flokka.

   Um þetta og önnur atriði var tekið mikið tillit til niðurstaðna Þjóðfundar, þar sem 1000 Íslendingar valdir af handahófi komu saman og ræddu um stjórnarskrá og grunngildi þjóðarinnar.

   • Við höfum í dag „persónukjör síns tíma“ þar sem af tæknilegum og fræðilegum ástæðum var ekki hægt að einstakir menn byðu sig fram. Til að einfalda kerfið þurfa menn að bjóða sig fram á s.k. framboðslistum. Nú hafa stjórmálaöfl verið afar dugleg að setja saman slíka lista en það þarf ekki þau til, Jón og Gunna úti í bæ geta gert það.
    Það eru svo einstakir listar sem hljóta atkvæði kjósenda. Þingmenn eru þannig fulltrúar kjósenda í hverju kjördæmi, ekki fulltrúar stjórnmálaafla eins og oft er, og þeir sitja í skjóli þeirra og þeirra framboðslista sem þeir eru á.

    Nú höfum við bæði tækni og þekkingu til að útfæra kosningar þar sem einstaklingar geta boðið sig fram með sangjörnum hætti og það er vel, en ég held að við mættum vel minna á að núverandi fyrirkomulag er í raun annað en margir virðast halda. Kjósendur eiga þingmennina, ekki stjórnmálahreyfingar.

 • Kjartan Vídó

  Afhverju lögðu stjórnarliðar málið ekki fyrr fram? Það er ekki nýtilkomið að forsetakosningar yrðu haldnar þennan dag. Verkstjórn Jóhönnu brást enn og aftur og það á að klína því á sjálfstæðisflokkinn að málið stopppar.
  Það tóku 10 þingmenn Sjálfstæðisflokksins til máls í gær um málið og ræddu málið í samtals 8 klst. Jóhanna Sigurðardóttir á skráða ræðu yfir 6 klst á þingi og það er ræða sem flokkast undir málþóf.
  Þetta mál þarf að vinna vel og tryggja að málið fái vandaða meðferð inni á Alþingi. Síðan mætti líka bæta við spurningu um það hvort að þjóðin vilji halda áfram umsóknarferlinu í ESB

  • Það er heldur ekki nýtilkomið að Sjálfstæðisflokkurinn reyni að bregða fæti fyrir þetta mál. Í fyrsta lagi seinkaði óvænt tillaga Bjarna Ben. um að afturkalla málshöfðun fyrir Landsdómi störfum í Stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd. Í öðru lagi neituðu þeir um afbrigði til að málið kæmist á dagskrá degi fyrr í síðustu viku. Í þriðja lagi beittu þeir gambít til að krefjast atkvæðagreiðslu um að vísa málinu til nefndar eftir fyrri umræðu, sem hefur aldrei áður gerst með þingsályktunartillögu. Og núna tala þeir allt í drep, eftir því sem ný þingsköp leyfa, en langar ræður eins og áður voru eru ekki lengur leyfilegar. – En hafðu ekki áhyggjur, það verða fundnar aðrar leiðir.

 • Ég væri til í að taka þátt í að kjósa í burt sjallana í næstu kosningum – vegna þessara sérhagsmuna sem þeir eru að verja – EF það væri til leið sem snérist um eitthvað annað en að troða Íslandi inn í ESB. Þar sem 1/3 af Íslandi heldur hinum 2/3 í gíslinu vegna aðstæðna sem sköpuðust eftir hrun (og má með engu móti sannreyna með lýðræði – meiri lýðræðisástin þar) þá er í landinu pattstaða sem er engum til góðs. Fyrir mig er því engin kostur á borðinu – enn sem komið er og ég held að blessunin hún Auður verði vinsæl í næstu kosningum. Ég get ekki séð annað en Vilhjálmur taka fullan þátt í þessum skotgrafahernaði (það þarf tvo í tangó) – meðan fókusinn ætti að vera á að búa til nýja skapandi lausn, sem ekki er enn kominn upp á yfirborðið.

 • Þetta er sorgardagur í sögu Íslands.
  Sjálfstæðisfólk þið megið skammast ykkar.

 • Albert – þó ég sé ekki sjalli, þá er ég einfaldlega ánægður með að þetta tókst ekki í gær. Meðan það eru svona sterk öfl í landinu sem hafa það eitt að áætlun eða að troða Íslandi inní ESB – þá einfaldlega treysti ég ekki því fólki til að taka á jafn stóru máli og stjórnarskrábreytingum. Þarna er teymi af sérfræðingum – sem fá nægan tíma ti að setja sig ofan í málið – sem er ekki fræðilegur fyrir mig „normal joe“ því ég þarf að strita alla daga við að hafa salt í grautinn – og þegar það er svona augljós ásetningur með ESB hjá þeim, þá eru þeim allir vegir færir að útbúa allt þannig að þetta eina verk þeirra gangi betur upp (þar með talið ákvæði í stjórnarskrá). Mín skoðun er því sú að þetta eigi að gera við betri aðstæður í þjóðfélaginu OG þegar búið er að kjósa í burt þessa ESB vitleysu sem tröllríður öllum vötnum hér.

 • Gunnar,
  Veistu að þessi stjórnarskrá hefur bara ekkert með ESB aðild að gera og .
  Ef þú myndir nú í alvöru spá i hvernig það hefur verið fyrir fólk að strita í þessu landi og koma sér upp þaki yfir höfuðið og hafa krónu sem er búin að falla yfir 2000% frá því hún var tekin upp. Engum stjórnmálaflokki hefur tekist að stjórna þessu ör efnahagskerfi. Það er fullt af fólki sem vill taka upp annan gjaldmiðil eins og norska krónu eða kanadollar, en Sjálfstæðismenn koma í veg fyrir allt.

 • Valið á þessum spurningum virðist afar tilviljunarkennt. Spurningar nr. 4 og 5 eru þannig nánast óþarfar, því að nokkuð augljóst er að langflestir vilja jafnt atkvæðavægi og meira persónukjör. Forvitnilegra hefði verið að spyrja fólk álits á fjölda kjördæma. Hvað þjóðaratkvæði varðar hefði ekki síður verið ástæða til að spyrja hvort tiltekið hlutfall þingmanna eigi að geta krafist þjóðaratkvæðagreiðslu (eins og í Danmörku) – og hvort forsetinn eigi áfram að geta vísað málum þá leið.

 • Ég sé ekki betur en að vel megi spyrja þessara spurninga í almennri skoðanakönnun, sem kostar miklu mun minna en að setja þetta í kosningu. Hvers vegna þetta offors að akkúrat þessara spurning þurfi endilega að spyrja með kosningum? Það á enn eftir að semja frumvarpið um breytingar á stjórnarskránni, þannig að þótt svarið við þessum spurningum skipti einhverju máli fyrir þá vinnu (ekki að ég sjái að þær séu þær tímamótaspurningar að þær skipti neinu) þá er hægt að fá þau svör miklu mun fyrr og miklu mun ódýrar en að senda þær í kosningar.
  Sé ekki betur en að þessi framgangsmáti sé enn eitt klúrið í þá veru að eyða peningum skattborgaranna (þ.e. þjóðarinnar) sem nóg hefur verið af á þessum síðustu 3 árum. Ef þjóðin á að ráða öllu í þessu landi af hverju dettur þá engum í hug að spyrja hana um það hvort hún samþykki allt þetta bruðl og tilheyrandi skattpíningu???

 • Mér finnst sjálfsagt að kjósa um þessi atriði – ég hefði reyndar viljað sjá þetta eilítið betur hugsað. Það geta komið upp mótsagnir eftir þessa kosningu, þó þetta sé betra en fyrstu fréttir bentu til.

  En eitt finnst mér athyglisvert – kannski smá „vænisýki“ – að með því að svara öllum spurningum játandi eru tillögur stjórnlagaráðs samþykktar, nema ákvæðið um þjóðkirkjuna. Hefði ekki verið öruggara til að forðast misskilning að samþykki við tillögum stjórnlagaráðs væri alltaf „já“?

  • Er sammála þér Valgarður að það hefði verið rökréttara að snúa þjóðkirkjuspurningunni öfugt, þannig að „já“ þýddi þá breytingu sem felst í frumvarpi Stjórnlagaráðs. Sem er sú að aðeins yrði kveðið á um kirkjuskipan í almennum lögum og evangelísk-lútersk þjóðkirkja ekki nefnd á nafn. (Sbr. 19. gr., „Í lögum má kveða á um kirkjuskipan ríkisins.“)

 • siguróli kristjánsson

  bara ein spurning til þín sem trúr samfylkingarmaður og lýðræðis og þjóðar atkvæða sinni, af hverju mátti icesave ekki fara í þjóðaratkvæði? og af hverju má ekki spyrja þjóðina núna, hvort við eigum að halda áfram að innlima okkur í esb eða ekki?

  • Ég hygg að jafnvel harðir andstæðingar beins lýðræðis og þjóðaratkvæðagreiðslna myndu samt ekki vera á móti því að spyrja þjóðina um stjórnarskrána – hún er jú samfélagssáttmáli fólksins við sjálft sig. Ef beint lýðræði á einhvers staðar við, þá er það um þessi grundvallaratriði.

   Icesave, aftur á móti, var gríðarlega flókið tæknilegt úrlausnarefni sem snerti innlendan rétt, EES-rétt, Evrópurétt, þjóðréttarskuldbindingar, siðferði, orðspor, mat á fjölbreyttum áhættuþáttum (virði eignasafns, endurgreiðslutíma, vaxtaþróun, gengisþróun, lánshæfismat, viðskiptajöfnuð…), flókna útreikninga og líkön, líkindamat, leikjafræði o.s.frv. o.s.frv., allt í einum pakka. Það er erfitt að ímynda sér annað mál sem væri jafnerfitt fyrir almennan kjósanda að leggja mat á. Kannski val á milli kosta um hönnun kjarnorkuvera?

 • Öll vinna og vera sjálfstæðisflokksins snýst um að verja sérhagsmuni fyrir fjármálaöflin og klíkuklúbba þessa lands !!!

  Ekki vera að reyna skilja eða skilgreina gjörðir sjálfstæðisflokksins, þetta er í raun ,,glæpaklíka“ í mismunandi formum !

  Það er með ólíkindum að venjulegur íslendingur sjái ekki gegnum sjálfstæðisflokkinn, og hvað hann stendur fyrir ?

 • Ragnar Böðvarsson

  Enda þótt ég sé mjög hlynntur því að setja þjóðinni nýja stjórnarskrá og sjálfsagt sé að spyrja hana um ýmis atriði í tillögum stjórnlagaráðs, get ég alls ekki séð að endilega þurfi að gera það nú í vor. Öll þjóðin verður upptekin af slag forsetaframbjóðenda og hún þarf betri tíma til þess að lesa tillögurnar yfir og velta þeim fyrir sér.
  Og þótt sjálfsagt sé að horfa vel í aura ríkisins, finnst mér kostnaðurinn við skoðanakönnun án sambands við einhverja kosningu, í rauninni algert aukaatriði.

 • Mér finnst þetta nú varla boðlegt. Sérvelja aðeins einhverjar 5 spurningar sem sumar eru harla óljósar hvaða gildi hafa. Síðan bara gefin kostur á hvort fólk vilji að tillögur nefndarinnar séu samþykktar eða þeim synjað. Auðvitað átti að leyfa fólki að segja skoðanir sínar á öllum liðum frumvarpsins, líka hinni umdeildu 111 grein um fullveldisframsal. En það er passað vel upp á það að læða því þarna inn án þess að fólk eigi neitt um það að fá að segja.
  Enda var það einn megin tilgangur með þessu Stjórnlagharáðs brölti að breyta stjórnarskráni til þess að leyfilegt yrði að framselja fullveldi til yfirríkjabandalags eins og ESB !

  Ég treysti ekki fólki sem viðhefur svona lymskuleg og óvönduð vinnubrögð.

  Það er því ekkert að gera nema að kolfella þetta í heild sinni og ekki taka neina afstöðu til þessara 5 sérvöldu spurninga. Það þýðir samt ekki að öll vinna Stjórnlagaráðs sé með öllu ónýt, því að vinna má áfram með tillögurnar og vanda og dýpka ferlið !

  • Gunnlaugur: 111. gr. frumvarps Stjórnlagaráðs er mér vitanlega alls ekki umdeild. Við hana eiga allir að geta verið mjög sáttir. Hún setur ströngustu mögulegu skilyrði fyrir framsali fullveldis, þ.e. (a) samþykki þjóðarinnar sjálfrar í atkvæðagreiðslu og (b) að framsal fullveldis sé ávallt afturkræft. Það er ekki unnt að setja strangari skilyrði vegna þess að þjóðin er sjálf fullveldishafinn og stjórnarskrárgjafinn, og gæti alltaf hvort sem er breytt stjórnarskrárgrein sem væri enn strangari með einföldum meirihluta. Það væri því merkingarlaust í reynd að hafa enn strangari grein um fullveldisframsal.

   Ég hefði haldið að ESB-andstæðingar ættu að fagna þessari grein eins og hún er, fremur en hitt – sérstaklega miðað við núgildandi stjórnarskrá, sem segir ekki orð um framsal fullveldis.

 • 1958-59 breyttu þingmenn stjórnarskránni. Í kjölfarið fóru kosningar í hönd þar sem nýtt þing staðfesti breytingarnar. Síðan var kosið aftur samkvæmt nýrri stjórnarskrá. Viðreisnarstjórnin tók við í kjölfarið.

  Ómöldur ræðutími. Tvær kosningar. Besta ríkisstjórn Íslands fyrr og síðar.

  Og núna gerið þið kratarnir veður út af 12 klukkutímum og skoðanakönnun? Hvað hefur eiginlega orðið um Alþýðuflokkinn sem var eitt sinn sómi Íslands, sverð og skjöldur? Gylfi Þ. Gíslason og Emil Jónsson snúa sér áreiðanlega við í gröfinni.

 • Sýnist að koma hefði mátt til móts við FLokkinn með því að umorða spurningarnar lítillega, svona í stíl DeGaul:

  1. Vilt þú ekki að tillögur stjórnlagaráðs verði lagðar til grundvallar frumvarpi að nýrri stjórnarskrá?
  ▪ Já, ég vil ekki að tillögur stjórnlagaráðs verði lagðar til grundvallar frumvarpi að nýrri stjórnarskrá.
  ▪ Nei, ég vil að tillögur stjórnlagaráðs verði lagðar til grundvallar frumvarpi að nýrri stjórnarskrá.

  2. Vilt þú að í nýrri stjórnarskrá verði náttúruauðlindir sem ekki eru í einkaeigu ekki lýstar þjóðareign?
  ▪ Já.
  ▪ Nei.

  3. Vilt þú að í nýrri stjórnarskrá verði ákvæði um þjóðkirkju á Íslandi?
  ▪ Já.
  ▪ Nei.

  4. Vilt þú að í nýrri stjórnarskrá verði persónukjör í kosningum til Alþingis ekki heimilað í meira mæli en nú er?
  ▪ Já.
  ▪ Nei.

  5. Vilt þú að í nýrri stjórnarskrá verði ákvæði um að atkvæði kjósenda alls staðar að af landinu vegi ekki jafnt?
  ▪ Já.
  ▪ Nei.

  6. Vilt þú að í nýrri stjórnarskrá verði ákvæði um að tiltekið hlutfall kosningarbærra manna geti krafist þess að mál fari ekki í þjóðaratkvæðagreiðslu?
  ▪ Já.
  ▪ Nei.

Höfundur