Á undanförnum vikum og mánuðum hefur talsvert verið rætt um svokallaða „hrægammasjóði“, þ.e. erlenda vogunarsjóði sem sjúgi gjaldeyri út úr þjóðarbúinu og/eða hagnist gríðarlega á kostnað skuldugs almennings. Til þessara sjóða sé jafnvel hægt að sækja fé í ríkissjóð sem nota megi til að lækka skuldir heimilanna, eins og formaður Framsóknarflokksins nefndi í nýlegu sjónvarpsviðtali. Að ekki sé „tekið á þessum sjóðum“ sýni linkind ríkisstjórnarinnar í hagsmunagæslu gagnvart vondum útlendingum.
Nú er best, til öryggis, að taka strax fram að ég er enginn aðdáandi, fylgismaður eða talsmaður svona sjóða, sem á ensku heita vulture funds. Þeir eiga að fara að lögum, borga skatta og hegða sér siðlega og af ábyrgð gagnvart samfélaginu ekki síður en önnur fyrirtæki. Sumir sjóðir af þessari og álíka tegundum eru táknmynd grunngerðarvanda í kapítalismanum, þar sem berlega kemur í ljós að hvatar fárra til skjótfengins hagnaðar geta leitt til stórkostlegs langtímatjóns fyrir marga, öfugt við einfalda túlkun á kenningum Adams Smith.
En það er önnur saga – og óháð því hvort áðurnefnd stefnumið eru raunhæft innlegg í stjórnmálaumræðu á Íslandi eða innistæðulaust og óframkvæmanlegt lýðskrum.
Fyrsta skref í greiningunni er að átta sig á að þarna er ruglað saman þremur viðfangsefnum: 1) snjóhengju innilokaðra króna, 2) viðskiptum með kröfur í þrotabú, og 3) húsnæðislánum almennings. Skoðum þau nánar.
- Snjóhengja krónueigna. Erlendir kröfuhafar í þrotabú banka og fjármálafyrirtækja, aðrir erlendir aðilar og einnig innlendir, eiga eða munu eignast mörghundruð milljarða íslenskra króna, jafnvel 1.000 milljarða. Þeir vilja skipta þessum krónum í alvöru gjaldmiðla og fara með þá úr landi við fyrsta tækifæri. Ef það fær að gerast veikist krónan verulega, innfluttar vörur hækka í verði, verðbólga fer af stað, skuldirnar hækka enn frekar og heimil og fyrirtæki fara í aðra kollsteypu. Með öðrum orðum: Uppgjör þrotabúa einkaaðila úti í bæ (bankanna) og leifar vaxtamunarviðskipta „góðærisins“ verða þarna að risavöxnu vandamáli almennings í gegn um íslensku krónuna. (Það er lykilatriði að átta sig á að ef við værum með t.d. evru í stað krónu væri vandi almennings vegna uppgjörs þrotabúanna sem slíks enginn.)
Til að veita ráðrúm og velta vandanum á undan okkur erum við með fjármagnshöft. Verið er að losa krónueigendur út á lágu gengi með gjaldeyrisuppboðum Seðlabankans, en það gengur hægt. Ekki þarf að reikna lengi til að sjá að með þeim afgangi af vöru- og þjónustuviðskiptum sem nú er, og þeim hagvexti sem raunhæft er að spá, tekur 1-2 áratugi að vinda ofan af snjóhengjunni, að öðrum forsendum óbreyttum – og á meðan yrði krónan veik og í höftum. Leiðin er ekki auðfundin, en hana þarf að þróa í sem mestri pólitískri sátt. Það eru engar hraðvirkar töfra- eða patentlausnir í boði. Ég tel affarasælast að vinna áfram að áætlun með AGS, ESB og evrópska seðlabankanum, og stefna á ERM II og evru myndi hjálpa mjög, en þetta verður eitt af meginviðfangsefnum næsta kjörtímabils.
- Viðskipti með kröfur í þrotabú bankanna. Bankarnir skulduðu miklu meira en þeir áttu. Þess vegna fóru þeir í greiðsluþrot. Fjölmargir, innlendir og erlendir, höfðu lánað bönkunum peninga. Þeir sitja uppi með sárt ennið en fá þó eignir bankanna í sinn hlut, svo langt sem þær ná. Aðeins brot af fjármunum almennra kröfuhafa mun verða endurgreitt, sirka 5-35% eftir bönkum. Eftir stendur tjón upp á mörgþúsund milljarða króna.
Skiptaferli eignanna er skilgreint í íslenskum gjaldþrotalögum og lögum um fjármálafyrirtæki. Það byggir á því að menn lýsi kröfum í þrotabú bankanna með stöðluðum hætti fyrir tiltekna dagsetningu. Slitastjórnir, sem tilnefndar eru af héraðsdómi, útbúa kröfuskrá og annast innheimtu útlána og fullnustu eigna og greiða kröfuhöfum að réttri tiltölu upp í samþykktar kröfur, í áföngum.
Nú er það svo að einhverjir kröfuhafar hafa síðan á árinu 2009, þegar kröfulýsingarferlinu lauk, gefist upp á að bíða eftir peningunum sínum. Þeir hafa í staðinn kosið að framselja kröfur sínar til annarra, á verði sem aðilar koma sér saman um. Þannig hafa kröfur gengið kaupum og sölum enda ekkert sem bannar slíkt.
Hafi „hrægammasjóður“ t.d. keypt kröfu á íslenskan banka á 10% af nafnvirði kröfunnar árið 2009, en gæti nú selt hana á 30% af nafnvirði (af því að horfur um endurheimtur hafa batnað), hefur hann þrefaldað fjárfestingu sína á tæpum fjórum árum. En sá hagnaður er ekki á kostnað íslenska ríkisins, skattgreiðenda eða almennings, heldur „á kostnað“ þess kröfuhafa sem seldi sjóðnum kröfuna á 10% árið 2009.
Viðskipti af þessu tagi er ekki unnt að fyrirbyggja, þótt íslenskir stjórnmálamenn vildu, því í mörgum tilvikum eiga þau sér stað milli tveggja erlendra aðila og eru ekki undir íslenskri lögsögu. (Enda má spyrja sig hvaða tilgangi bann við framsali krafna í þrotabú ætti að þjóna. Slíkt framsal breytir almennt séð engu um úrvinnslu þrotabúsins eða störf slitastjórnar skv. lögum.) Íslensk löggjöf getur heldur ekki mismunað innlendum og erlendum aðilum í þessu efni, a.m.k. ekki innan EES-svæðisins.
Varðandi hugsanlega skattlagningu hagnaðar af verslun með kröfur í þrotabú, þá er slíkur hagnaður ótvírætt tekjuskattskyldur hjá íslenskum lögaðilum og einstaklingum. Hann er á hinn bóginn ekki skattskyldur á Íslandi hjá erlendum lögaðilum sem eru skattskyldir í sínum heimaríkjum. Hugsanlega mætti búa til einhvers konar takmarkaða skattskyldu erlendra aðila af hagnaði af verslun með kröfur í íslensk þrotabú, en hún yrði erfið í framkvæmd og auðvelt að skjóta sér undan henni. Þeir sem tala fyrir slíkri skattlagningu þurfa að útskýra með sannfærandi hætti hvernig hún ætti að virka. Í öllu falli yrði hún ekki afturvirk því stjórnarskráin bannar afturvirka skatta.
Sem sagt: Erfitt er að festa hendur á því hvað hér er verið að tala um nákvæmlega, bæði hver vandinn er og hvaða lausnum yrði við komið, í ljósi staðreynda máls, almennra réttarreglna, EES-samningsins og gildandi skattaréttar. Við eigum heimtingu á að stjórnmálamenn sem tala fjálglega um að skattleggja erlenda hrægamma o.s.frv. setji fram skýrar leiðir í stað þess að vekja upp falsvonir, kasta ryki í augu fólks og ætlast til þess að fá atkvæði út á það.
- Húsnæðisskuldir almennings. Það er lífsseig mýta í umræðunni að bankarnir skipti markverðu máli þegar kemur að húsnæðisskuldum almennings í hruninu og í kjölfar þess. Staðreyndin er sú (sbr. m.a. skýrslu Hagfræðistofnunar Háskóla Íslands) að einungis um fimmtungur (20%) húsnæðislána var á bókum bankanna í hruninu, en fjórir fimmtu (80%) annars staðar, m.a. hjá Íbúðalánasjóði, lífeyrissjóðum og Seðlabanka Íslands, en húsnæðislán Kaupþings voru lögð að veði hjá Seðlabankanum haustið 2008. Þetta þýðir að húsnæðisskuldir og meintur hagnaður bankanna af þeim er hverfandi hluti af þeirri virðisaukningu krafna í þrotabúin sem orðið hefur frá hruni. Raunar er beinlínis langsótt að tengja þetta tvennt saman eins og gert hefur verið.
Brýnt er að koma til móts við þau heimili sem verst fóru út úr húsnæðiskaupum á árunum 2005-8 og eiga í erfiðleikum. En það viðfangsefni tengist ekki með neinum beinum hætti „hrægammasjóðum“ eða viðskiptum með kröfur í bankana. Tal um slíkt beinir einungis athygli frá hinum raunverulega vanda.
Þegar flóknar áskoranir eru framundan, til dæmis það risavaxna verkefni að „taka til eftir krónuna“ og bræða niður snjóhengjuna í áföngum, er freistandi að slá fram „einföldum“ lausnum á borð við það að sækja peninga með óskilgreindum hætti til „vondra útlendinga“ í „hrægammasjóðum“. Vitaskuld á að halda eins vel og unnt er á hagsmunum íslenska þjóðarbúsins þegar kemur að því að hleypa krónueigendum út, og beita þeim verkfærum sem tiltæk eru og gagnleg í stöðunni. En verkefnið þarf að nálgast af ábyrgð og segja kjósendum satt, rétt og skýrt frá. Aðeins þannig geta þeir tekið upplýsta afstöðu í næstu kosningum og valið leiðir sem skila okkur áfram en ekki aftur á bak á næsta kjörtímabili.
Til einföldunar tala ég í pistlinum um „þrotabú“ banka og fjármálafyrirtækja en strangt til tekið heitir það „fjármálafyrirtæki í slitameðferð“ sbr. XII. kafla laga 161/2002.
Ég held að það sé mikilvægt að átta sig á því að það verður ekki farin nein Evru/ERM2 leið nema gríðarlegar fylgisbreytingar verði á næstu vikum.
Í sinni einföldustu mynd er það þannig að kröfuhafar þrotabúanna vilja komast í burtu með eignirnar (sérstaklega þær erlendu) en íslensk stjórnvöld hafa lykilinn. Það er bara spurning hvað sá lykill kostar.
Hvort borgað verður fyrir lykilinn með lágu skiptigengi, útgönguskatti eða innlendum eignum, aðgengi að fjármögnun eða blöndu af þessu öllu á bara eftir að koma í ljós.
Annað sem er mikilvægt að átta sig á er að það að illa sé farið með kröfuhafa er ekki séríslenskt fyrirbæri. Þeir sem áttu kröfur á gríska ríkið á síðasta ári voru nefnilega píndir af Evrópubankanum, EB og AGS að taka á sig 70% afskriftir. Og það voru ríkisskuldir.
Kalli. Það var hægt að gera kröfur til lánadrottna Grikklands af því að það voru ríkisskuldir, sem ekkert verðgildi höfðu á markaði vegna stöðu ríkissjóðs Grikkja!
Það er sama staða hér Stefán. Krónueignir erlendra aðila eru verðlausar meðan þær eru lokaðar inni.
Stjórnvöld hafa lykilinn að krónueignunum (í gegn um fjármagnshöftin), en myndin er ekki alveg jafn einföld varðandi erlendu eignirnar. Kröfuhafarnir eiga þær, eða tilkall til þeirra sem nýtur eignarréttarverndar. Tilraunir íslenskra stjórnvalda til að kasta eign sinni á þær með einhverjum hætti yrðu alltaf véfengdar fyrir dómstólum og ættu þar erfitt uppdráttar.
Reyndin er síðan sú að þrotabúin eru þegar búin að greiða út talsverðan hluta eigna sinna. Ég hef heyrt þá hugmynd að skipta eigi í miðju kafi yfir í útgreiðslur í krónum, en láta Seðlabankann eignast gjaldeyrinn í staðinn. Ef það er lögfræðilega gerlegt, sem er stórt „ef“ á þessu stigi, þá stækkar það vitaskuld snjóhengjuna sem því nemur. Menn væru þá væntanlega að spá í að kröfuhafar kæmust aðeins út úr krónueigninni með afslætti og að Seðlabankinn eignaðist þannig hluta af gjaldeyrinum, með „de facto“ eignaupptöku. Gott og vel, ef svona leið er (1) fær og (2) skynsamleg í heildarsamhenginu þá þarf að koma því betur á hreint.
Ríkið mun ekki kasta eign sinni á eignir þrotabúanna(nema í algjörri Grikklandsneyð) heldur verður samið um góða lendingu. Ísland á við ákveðin gjaldeyrisvandamál að stríða sem tengjast endurfjármögnun Orkuveitunnar og Landsbankans og snjóhengjunni sem vill út. Vandamál kröfuhafanna er aftur á móti að þeir komast ekki í peningana sína vegna þess að stjórnvöld vilja ekki láta þau fá lyklana.
Mig grunar sterklega að samið verður um vel ásættanlega lausn sem leysir vandamál beggja aðila.
Sæll Vilhjálmur, af hverju telur þú að ekki sé hægt að fara skiptigengis-nýkrónuleið?
Sæll Hákon! Ég fjalla dálítið um þessa skiptigengis/nýkrónuleið í þessum pistli: http://blog.pressan.is/vthorsteinsson/2012/04/14/leidir-ur-hoftum/
Leiðin sem Sigmundur Davíð benti á er sú að kröfuhöfum bankanna verði ekki greitt út í gjaldeyri heldur í krónum.
Við þetta mundi svokölluð snjóhengja stækka sem nemur þessum krónum.
Vogunarsjóðirnir sem keyptu kröfurnar vissu að hér væru gjaldeyrishöft. Þeir tóku áhættu með þessum kaupum. Sigmundur talaði um að fyrst yrði þeim boðin gulrót sem fæli í sér að hleypa þeim út með hluta af þessum peningum í gjaldeyri,
Ef þeir vilja ekki gulrótina þá talaði hann um að beita á þá kilfu. Sú aðferð gengur út á að skattleggja útflæði verulega eða halda hér áfram höftum um ókomin ár og hleypa þessum peningum ekki út.
Það er hægt að gera ýmislegt ef vilji er til þess. Það virðist vera að núverandi stjórnvöld hafi lítinn vilja til þess að taka á þessu máli. Eina stefnan er að fara í ESB og ERM2. Sú leið er blindgata þar sem íslendingar hafa ekki áhuga á því að fara í ESB
Samt tala menn eins og þetta sé eina lausnin sú sem er langsóttust.
Það styttist í að ný stjórnvöld taki við. Vonandi verður meiri dugur í þeim en þessum sem eru að fara.
Raunverulega snjóhengjan er ekki krónan heldur verðtryggingin.
Tja, krónan og verðtryggingin virðast óaðskiljanleg fyrirbæri. Það er engin samstaða á Íslandi um þá hagstjórn sem þyrfti til að halda krónunni sterkri. Það þýddi háa vexti, aðhaldssama peningastefnu að öðru leyti og mikinn aga á ríkisrekstri. Fyrir því er ekki pólitískur vilji, sérstaklega ekki í Framsóknarflokknum sem þó vill krónuna, né í Sjálfstæðisflokknum sem heldur í krónuna vegna hagsmuna LÍÚ og annarra hráefnisútflytjenda sem vilja geta lækkað innlendan tilkostnað (laun) þegar hentar með gengisfalli.
Tal um krónu og bætta hagstjórn er því útgáfa af því að vilja eiga kökuna og borða hana líka. Þeir sem tala um þetta eru alls ekki tilbúnir í afleiðingarnar heldur munu fyrstir manna gera hróp að Seðlabankanum þegar vaxtahækkanirnar byrja að bíta.
Að krónan og verðtryggingin séu óaðskiljanleg fyrirbæri er örugglega mesta, og ef til vill besta, mýta Íslandssögunnar.
Þú talar um mýtu varðandi húsnæðisskuldir almennings, að þar séu bankarnir aðeins 20%. Um leið lýsirðu húsnæðisskuldunum sem 3. stóra vandanum. Þarna gleymirðu að vandi stökkbreyttu lánanna er ekki eingöngu falinn í stökkbreyttum húsnæðisskuldum heldur líka hverskonar lánagerningum landsmanna. Ekki síst er vandi fjölda smærri fyrirtækja stór vegna stökkbreyttra lána og þar eru bankarnir með gott betur en 20% skuldanna!
Þarna ertu að búa til þá mýtu að vandi vegna stökkbreyttra skulda sé ekki nema 20% af hálfu bankanna!
Hitt er svo annað mál að þó svo að íbúðalánasjóður og lífeyrissjóðirnir séu með 80% húsnæðisskulda þá er eignatilfærsla frá skuldurum til þeirra jafn röng og ber vitanlega að leiðrétta,þannig að vandamálið sitji þar sem það á heima og verði leyst (eða ekki) á þeim vetvangi!
Bjarni, ég er ekki að tala hér sérstaklega um verðtryggingu eða meinta „stökkbreytingu“ verðtryggðra lána. Að sjálfsögðu eru húsnæðislán ÍLS og lán lífeyrissjóða og þau sem Seðlabankinn yfirtók líka (langflest) verðtryggð, ekki bara þau 20% sem fluttust milli gömlu og nýju bankanna í kjölfar hrunsins.
Vilhjálmur, krafa íslenskra skuldara hefur ekki verið sú svo ég best viti, að losna við að greiða skuldir sínar. Heldur hitt að verða ekki fyrir eignaupptöku vegna A. ólöglegra gengistryggðra lána (það mál er komið í einhvern lögformlegan farveg) og B. Stökkbreyttra lána sem stökkbreyttust við það að við gengisfallið þegar hagkerfið drógst saman, þá rauk neysluverðsvísitalan upp. Þetta olli því að neysluverðsvísitölugryggð lán stökkbreyttust.
Þó neysluverðsvísitalan geti verið ágæt til síns brúks, þá er hún óhæf til verðtryggingar lána af þessum orsökum, þ.e. lántaki er látinn tryggja lánveitanda fyrir áföllum hagkerfisins og erlendum kosntaðarhækkunum.
Þegar þú ert að gagnrína þá sem telja að leiðrétta þurfi þessa oftöku fjármálastofnanna, þá ertu m.a. að tala um verðtrygð lán hvort sem þú gerir þér grein fyrir því eða ekki.
Fjármálastofnanirnar sem meint skuld (umfram það sem tekið var að láni) almennings er við, eru bankarnir þrír (ræningjarnir þrír?) íbúðalánasjóður og lífeyrissjóðirnir (a.m.k. í gegnum íbúðalánasjóð).
Það er annaðhvort ómerkilegur áróður af þinni hálfu eða vanskilningur að reyna að gefa þeirri mýtu undir fótinn að ekki sé hægt að leiðrétta stökkbreyttar skuldir almennings vegna þess að sú leiðrétting lendi á stofnunum almennings (íbúðal.sj. og lífeyrisk.) en minnst á bönkunum.
Raunin er sú að bankarnir bera þarna þunga sök, miklu meir en 20% ef horft er á fleira en bara húsnæðisskuldir.
Varðandi íbúðal.sj. og lífeyrisk. þá er rétt að leiðrétting skulda sem eykur sýndartap þeirra „veldur“ auknum kostnaði sem fellur að nokkru á þann sama almenning og leiðréttinguna fær, en það er siðferðilega rangt að ætla að sópa vanda þeirra undir teppi uppblásinna skulda almennings. Lífeyriskerfið er líklega nú þegar handónýtt og engum til hagsbóta að falsa stöðu þess á kostnað skuldara.
Sundurliðun á íbúðalánum heimila í lok september 2008
Heimildir: Seðlabankinn
– Bankakerfið: 607 milljarðar (45,6%) http://data.is/Pnb192
– Íbúðalánasjóður: 569 milljarðar (42,7%) http://data.is/Zuu995
– Lífeyrissjóðir: 156 milljarðar (11.7%) http://data.is/ZuttR2
Samtals: 1.332 milljarðar (100%)
Skýrsla Hagfræðistofnunar sem Vilhjálmur vísar í er álíka traust heimild og þjóðsögur Jóns Árnasonar þegar kemur að skuldavanda heimilanna. Hún er hinsvegar mjög hentugt málgagn þeirra sem hafa ekki hug á að gera neitt til að leysa þann vanda, enda var hún pöntuð sérstaklega í þeim tilgangi af samflokksfólki Vilhjálms í stjórnarráðinu til að bregðast við því að 37.000 Íslendingar skyldu hafa skrifað undir kröfu um að þetta verði lagað. Meginniðurstaða skýrsluhöfunda er að Ísland, þjóðin sem átti að fara létt með að borga Icesave vexti upp á fleiri hundruð milljarða í erlendum gjaldmiðlum, er sögð ekki ráða við að framkvæma leiðréttingu innalands í eigin gjaldmiðli á húsnæðisskuldum sem nemur 260 milljörðum. Slíkar rökleysur dæma sig sjálfar sem ómerkar.
Við skulum bara fara dómstólaleiðina.
Þessi kosningaloforð Framsóknarflokksins er klassísk popúlísk leið til að ná í atkvæði með því að lofa að færa eignir frá minnihluta til meirihluta. Hún gengur út á að færa eignir í gegnum skattkerfið frá eigendum óskuldsettra húsa og þeim sem leigja húsnæði til þeirra sem eiga skuldsettar fasteignir, þeir dulbúa þetta með því að „ljúga“ að fólki að hægt sé að gera þetta á kostnað „erlendra kröfuhafa“ en raunin er allt önnur.
Þetta er alveg jafn vont og stefna Samfylkingarinnar um að færa eignir og tekjur frá fólki sem hefur lifibrauð af sjávarútvegi til þeirra sem gera það ekki, taka af fólki arð af vinnu sinni og færa öðrum og nota til þess einhvern rugl rökstuðning frá hagfræðingum eins og Þórólfi Matthíassyni, lygin sem búin er til í þessu tilviki er „umframhagnaðurinn“ af greininni.
Þetta er ein elsta aðferð vondra stjórnmálamanna til að ná sér í völd og misnota þau og það hafa allir flokkar notað þetta með einhverjum hætti í gegnum tíðina bæði hér á landi og annar staðar.
Dude, þú skilur ekki.
Það er nú þegar búið að gera þetta. Einmitt á kostnað erlendra kröfuhafa.
Þeir sem eru núna kröfuhafar og fengu þetta eignasafn á hálfvirði eru hinsvegar allir innlendir. Það yrði ekki neitt á kostnað þeirra þó þeim yrði greitt hálfvirði fyrir það sem þeir keyptu á hálfvirði.
Ef ég kaupi af þér mjólkuportt fyrir mjólkurpott, hver er þá kostnaður þinn?
Enginn.
Þetta eru ekki neinir galdrar heldur er þetta í alvörunni bara svona einfalt. Það er líklega þess vegna sem fólki finnst erfitt að trúa, en þetta er samt satt.
Trust me I have done the math.
Geturðu bent á heimildir fyrir staðhæfingunum um að kröfuhafar séu „allir innlendir“ og hafi „fengið þetta eignasafn á hálfvirði“? Það rímar engan veginn við opinber og hálfopinber gögn sem fram hafa komið.
Þú hefur nákvæmlega ekkert fyrir þér í því að kröfuhafarnir séu í raun innlendir enda skiptir það í raun engu máli.
Leiðrétting húsnæðislána yrði eingöngu í gengum Íbúðalánasjóð og þar eru kröfuhafarnir íslenskir lífeyrissjóðir og ríkisábyrgð á bak við.
Eldri borgarar og skattgreiðendur myndu því borga brúsann. Annars vegar eldri borgarar sem eiga skuldlaust húsnæði og hins vegar yrði millifærsla frá skattgreiðendum í leiguhúsnæði til skattgreiðenda í skuldsettum fasteignum.
Held þú sért ekki eins sterkur í stærðfræði og þú heldur…
nú komumst við tæplega inní erm.2. á næstuni tæplega á næsta kjörtímabili nema að menn gjeta skuldbreitt stórum lánum kanski er það að koma ef ég væri E.B. myndi ég tæplega taka yfir þessar snjóheingjur afhverju skiltu þeir bæta við sín eigin vandamál var að velta því hugmynd hægri grætna um að menn seu skikkaðir til að koma með kennitölur því að við erum með ymsa samnínga við önnur lönd um skattaeftirlit ef kröfur lækka í verði myndu lífeyrisjóðir kaupa kröfurnar á miklum afslætti síðan gætu sjóðirnir lækað kröfur sínar í íbúðarlánasjóð. ágæt grein en.