Miðvikudagur 27.03.2013 - 17:33 - Lokað fyrir ummæli

Upphlaup Framsóknar eða alvöru lausnir?

Frétt á RÚV með vangaveltum um kaup lífeyrissjóða og annarra á Íslandsbanka og Arion banka hefur orðið Framsóknarflokknum tilefni til upphlaups.  Sigurður Ingi Jóhannsson varaformaður flokksins heldur því þannig fram í bloggpistli„ríkisstjórn á sínum síðustu dögum, sama stjórn og samdi gjaldþrot yfir þjóðina í Icesave málinu, sé að vinna að því að færa  skuldsettan gjaldeyrisvarasjóð þjóðarinnar til hrægammasjóðanna“.

Þessi pistill Sigurðar Inga er raunar með miklum endemum sem innlegg í þjóðmálaumræðu. Varla er sanna staðhæfingu þar að finna, en því meira af gildishlöðnum orðum á borð við „hrægammasjóði“, „ofurgróða“ og „Icesaveklafann“.

Nauðasamningar og aðrar ráðstafanir sem tengjast eignum hinna föllnu banka eru háðar samþykki Seðlabankans, eftir að gjaldeyrishöftin voru hert að þessu leyti í mars 2012. Framsóknarflokkurinn sat hjá við afgreiðslu þess máls, og Sjálfstæðisflokkurinn greiddi atkvæði á móti því. Ef þeir flokkar hefðu ráðið málinu væri Seðlabankinn vopnlaus gagnvart kröfuhöfum. Sem betur fer voru aðrir vakandi yfir þjóðarhagsmunum á þingi þetta marskvöld í fyrra.

Seðlabankastjóri sagði á ársfundi Seðlabankans 21. mars sl. að „margvíslegar kannanir og þreifingar“ væru framundan varðandi úrlausn hinna föllnu banka. Að málinu hefur komið sérstök stýrinefnd sem í sitja fjármála- og efnahagsráðherra, atvinnu- og nýsköpunarráðherra, Seðlabankastjóri og forstjóri Fjármálaeftirlitsins. Þá hefur verið starfandi þverpólitísk nefnd um afnám gjaldeyrishafta, þar sem eiga sæti fulltrúar allra þingflokka, m.a. Framsóknarflokksins. Mikil vinna hefur verið lögð í málið og skriðþungi þess jókst eftir áðurnefnda herðingu haftanna og afnám sólarlagsákvæðis (sem Sjálfstæðisflokkurinn vildi endilega en ranglega hafa inni á sínum tíma).

Ekki veit ég meira en aðrir um hvaða konkret hugmyndir eru til umræðu, en hægt er að velta fyrir sér tækifærum í stöðunni á grundvelli opinberra gagna.

Áttum okkur fyrst á myndinni varðandi föllnu bankana, eignir þeirra og kröfuhafa. Hér er glæra úr kynningu Sigríðar Benediktsdóttur, framkvæmdastjóra fjármálastöðugleika hjá Seðlabankanum, á opnum fundi FVH í vetur; tölur miða við október 2012:

EignirFollnuBankanna

 

Hér sést að innlendir aðilar skulda hinum föllnu bönkum 222 milljarða í íslenskum krónum (blái hlutinn). Að óbreyttu munu 11 milljarðar af þessum 222 koma í hlut innlendra kröfuhafa í bankana, en 211 milljarðar króna koma í hlut erlendra kröfuhafa og bætast við „snjóhengjuna“ svokölluðu.

Samhliða munu innlendir aðilar fá 106 milljarða í erlendum gjaldeyri (græni hlutinn) út úr slitameðferðinni en erlendir aðilar fá 1.978 milljarða í erlendum gjaldeyri. Af þeim peningum eru a.m.k. 1.640 milljarðar (1.584 + 56) þegar fyrir hendi í föllnu bönkunum í erlendum gjaldeyri eða kröfum. Rétt er að halda því til haga að þetta eru erlendar eignir gömlu bankanna sjálfra og útgreiðsla þeirra hefur ekki bein áhrif á gjaldeyrisforða Seðlabankans.

Föllnu bankarnir eiga hlutafé (eigið fé) í nýju bönkunum, sem hér er metið á 238 milljarða króna, þ.e. á fullu bókfærðu virði (eigið fé er sem sagt mismunur eigna og skulda nýju bankanna skv. reikningum þeirra). Af þeirri upphæð myndu 17 milljarðar koma í hlut innlendra kröfuhafa og 221 í hlut erlendra við slitameðferðina, að óbreyttu.

Ein hugmynd að úrlausn gæti verið þessi:

Erlendir kröfuhafar kæra sig lítið sem ekkert um að fá krónur út úr slitameðferðinni. Því má hugsa sér að gera við þá samning þar sem þeir láta af hendi krónur til innlendra kröfuhafa en fá frá þeim erlendan gjaldeyri í staðinn. Þessi skipti gætu átt sér stað á mun veikara gengi en álandsgengið er. Þar með væri stór hluti krónukrafna erlendra kröfuhafa í reynd afskrifaður.

Þar með væri sagan ekki endilega öll, því stærsti innlendi kröfuhafinn í bankana er Seðlabanki Íslands. Ef til vill væri unnt að semja um, sem hluta af heildarpakkanum, að Seðlabankinn fengi hlutabréf í nýju bönkunum á lægra verði en fullu bókfærðu eiginfjárvirði, gegn greiðslu króna eða gjaldeyris, eða hugsanlega langtíma skuldabréfs.

Seðlabankinn gæti síðan endurselt Arion banka og Íslandsbanka, strax eða síðar, annan hvorn eða báða, til lífeyrissjóða eða í útboði til hæstbjóðenda eftir vandaðan söluferil. Helst þyrfti þá að koma til greiðsla í gjaldeyri. Miðað væri við að söluverðið yrði hærra en kaupverð Seðlabankans.

Þriðja hugsanlega aðgerðin gæti verið að bjóða erlendum eigendum ríkisskuldabréfa í krónum að skipta þeim yfir í löng evrubréf, vaxtalaus eða -lítil, og ef til vill einnig afborgunarlaus framan af. Slík skipti færu fram á gengi sem réðist í útboðum en yrði lægra en álandsgengið. Þar með myndu skuldir ríkisins lækka í krónum talið, endurgreiðsluferill lengjast og snjóhengjan verða viðráðanlegri sem því nemur.

Út úr þessum ráðstöfunum, eða öðrum hliðstæðum, gæti skapast svigrúm sem kemur m.a. fram í hagnaði hjá Seðlabankanum og lægri skuldastöðu ríkissjóðs í krónum, auk viðráðanlegri snjóhengju.

Þetta svigrúm verður ekki notað tvisvar, þ.e. bæði til að lækka skuldir ríkisins og verja því til útgjalda. En sjálfsagt er að skoða hvort til séu skynsamlegar millileiðir, þar sem lunginn úr ávinningnum er notaður til að grynnka á skuldum og bræða snjóhengju, en hluti hans til að koma til móts við þá sem verst fóru út úr húsnæðiskaupum á bóluárunum 2005-2008 eða svo.

Hafa verður í huga að ekki er sopið kálið þótt í ausuna sé komið. Áfram þarf að vinna að raunhæfum lausnum, eins og gert hefur verið af krafti undanfarið. Upphlaup og taugaæsingur eru óþarfi. Málið er í góðum höndum eins og sást ekki síst örlagadaginn 12. mars 2012.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

«
»

Ummæli (22)

 • Vilhjálmur,

  Í fyrsta lagi þá var það Helgi Hjörvar, þingmaður Samfylkingarinnar, sem mælti fyrir þeirri breytingartillögu að kröfuhafar væru undanþegnir gjaldeyrishöftunum. Ég ætla ekki að skammast sérstaklega út í Helga því það voru fleiri þingmenn en hann hrifnir af þessari breytingu. Líklega aðilar tengdir kröfuhöfum(t.d. lögfræðistofan Logos) rætt við þingmennina og sökum þekkingarleysis hafa alþingismenn ekki gáð að sér. Nú eru menn aftur á móti mun upplýstari um þau tækifæri sem eru í núverandi stöðu.

  Persónulega held ég að þú flækir málið um of. Sviðsmyndin er í raun mjög einföld:

  – Kröfuhafarnir vilja komast sem fyrst í burtu með miklar erlendar eignir úr íslenskum þrotabúum.
  – Stjórnvöld þurfa að leysa gjaldeyrishöftin.

  Það þarf bara að semja um þessa hagsmuni beggja aðila þannig að ekki falli ein króna á íslenska ríkið(t.d. í einhverjum löngum skuldabréfum) og hægt sé að fella gjaldeyrishöftin í burtu. Það má ekki gleyma að því að þessar eignir þrotabúanna eru ekki ríkisskuldir og að langflestir þessara kröfuhafa keyptu sig inní gjaldeyrishöft og verða því að hlýta reglum þeirra.

  Nú ef kröfuhafar eru eitthvað tregir til að semja þá ætti að vera einfalt mál að skattleggja vænar fúlgur af erlendum og innlendum eignum þrotabúanna. En ég er viss um að kröfuhafar muni sjá að sér áður en það gerist enda hafa þeir hagnast duglega þökk sé mörg hundruð milljarða greiðslum sem sluppu út áður en höftin voru þétt.

  Pólitískt þá vorkennir enginn kröfuhöfum þrotabúa þegar kemur við neyðarrétt þjóða. ESB hikaði ekki við að reiða grimmilega til höggs í Grikklandi og Kýpur og ég er sannfærður um að næsta ríkisstjórn mun ekki hika heldur.

  • Þú misskilur það sem gerðist 12. mars 2012, Karl. Aðaltillagan í málinu var sú að herða höftin og fækka undanþágum, til að ná betur utan um nauðasamninga og eignir föllnu bankanna. Við meðferð málsins kom svo fram breytingartillaga þar sem gjaldeyriseignir búanna sem innheimst höfðu fyrir 12. mars og voru á erlendum reikningum voru undanþegnar hinum hertu höftum. Það var gert vegna sjónarmiða um að lokun á þær eignir hefði verið afturvirk íþyngjandi ráðstöfun sem hefði sennilega ekki staðist fyrir dómstólum. En meginefni laganna var sem sagt að herða höftin og það var gert, gegn atkvæðum Sjálfstæðisflokksins og hjásetu Framsóknar.

   Myndin sem dregin er upp í færslunni er öll óháð íslenska ríkinu, þetta eru einkaréttarleg skipti á eignum föllnu bankanna og koma skattborgurum ekki við með neinum beinum hætti. Vandinn stafar hins vegar af krónunni; í gegn um hana verður úrlausn málsins að vandamáli almennings í landinu.

   Almennir kröfuhafar hafa vitaskuld ekki „hagnast duglega“ heldur tapað 65-95% eigna sinna, mismunandi eftir bönkum. Einhver viðskipti hafa vissulega átt sér stað með kröfur en hafi einhverjir hagnast á þeim er það vegna þess að aðrir kröfuhafar hafa selt kröfur sínar og þá „tapað“ á móti.

   Tækifærið í málinu liggur í því að beita gjaldeyrishöftunum á krónukröfur og freista þess að ná fram afskrift þeirra í „frjálsum“ samningum, þó með kylfu að vopni og önnur þau verkfæri í höndunum sem bjóðast innan ramma réttarríkisins. Að því er unnið.

 • Vilhjálmur,

  Breytingartillagan var sú kröfuhafar máttu taka reiðufé úr þrotabúunum. Man ekki nákvæmlega töluna en hún var nokkur hundruð milljarðar sem voru borgaðar til kröfuhafa þrátt fyrir að það átti ekki að vera leyfilegt sökum gjaldeyrishafta. Þetta var gert vegna þrýstings frá fulltrúum kröfuhafanna.

  Varðandi það að nota kylfu í viðræðum við kröfuhafana þá get ég ekki verið þér meira sammála.

  Nokkrar góðar tilvitnanir fyrir tilvonandi orrustu:

  „Fullt af kröfuhöfum er nákvæmlega sama um krónueignir gömlu bankanna og þeir vilji bara fá erlendu eignirnar.“
  Már Guðmundsson

  „The market moves so fast. Hedge funds have the attention span of a Peruvian chinchilla“
  Lee Buchheit

  • Kröfuhafar máttu taka fé út úr þrotabúunum fyrir 12. mars. Með lagabreytingu þann dag var lokað fyrir það, nema með sérstakri undanþágu Seðlabankans. Lokunin náði þó ekki til erlendra innistæðna sem safnað hafði verið, í góðri trú, fyrir 12. mars, enda hefði lögmæti slíks verið vafa undirorpið. Allar innistæður sem til féllu eftir 12. mars eru undir höftum. Þetta er ósköp einfalt og auðskilið, nema hjá Sjálfstæðis- og framsóknarmönnum sem reyna að þyrla upp ryki til að breiða yfir eigin flónsku í umræddri atkvæðagreiðslu.

   • Vilhjálmur,

    Eins og kom fram í máli Arnórs Sighvatssonar þá var það að frumkvæði Seðlabankans sem þrotabúin voru færð frekar undir lög um gjaldeyrismál í mars árið 2012. Fram að þeim tíma var ríkisstjórnin sofandi alveg eins og þingmenn stjórnarandstöðunnar.

    Það sem er ámælisvert til viðbótar er að þessi breytingartillaga hans Helga Hjörvars var sett vegna þrýstings frá kröfuhöfum. Þar var ekki verið að hugsa um hagsmuni Íslands heldur hagsmuni kröfuhafa. Þetta kom skýrt fram í máli Arnórs.

    Því til viðbótar hafa birtust fyrir nokkrum vikum greinar í Fréttablaðinu þar sem sagt var að samningaviðræður á milli stjórnvalda og kröfuhafa stæðu sem hæst. Samningaviðræður þar sem sviðsmyndin var að kröfuhafar tæku mest allan gjaldeyri úr landinu ásamt erlendum eigum þrotabúana í skiptum fyrir óskýran afslátt af verði bankanna. Afsláttur sem teldist um 4% af heildarverði eigna þrotabúanna. Við lestur þeirrar fréttar er ekki nema von að menn hafi brugðist til varnar enda hefði sú niðurstaða verið á mörkum þess að vera hlægileg.

    Kröfuhafarnir hafa verið með stærstu lögmannsskrifstofu landsins, Logos, á sínum snærum undanfarin ár og sagt er að þeir hafi ráðið marga almenningstengsla til að berjast fyrir sig í fjölmiðlum. Það er því algjört lágmark að stjórnvöld taki vel á móti með öllum þeim vopnum og neyðaraðgerðum sem hægt er að beita.

 • Þórhallur Kristjánsson

  Ríkisstjórnin og Seðlanankinn stjórna gjaldeyrishöftunum og því koma þessar stofnanir alltaf að samningum varðandi uppgjör við kröfuhafa. Lífeyrissjóðirnir geta ekki einhliða keypt bankana með afföllum nema með samþykki SÍ og ríkisstjórnarinnar. Seðlabankastjóri hefur talað um að það verði engir samningar nema fundin verði heildarlausn.

  Erlendar eignir þrotabúanna eru tæplega 1600 milljarðar. Kylfan sem Framsóknarflokkurinn talar um gengur út á að bjóða kröfuhöfum að gefa eftir innlendar eignir gegn því að fá að fara með þessa 1600 milljarða af gjaldeyri út. Ef kröfuhafar vilja ekki þennan samning þá verður þessum 1600 milljörðum skipt í krónur og þessi upphæð yrði lokuð hér í gjaldeyrishöftum um óþekkta tíð.

  Ef kröfuhafar ganga að þessu tilboði þá mundi ríkið eignast bankanna. Ríkið gæti síðan selt lífeyrissjóðum bankanna með einhverjum afföllum og fengið þannig peninga til þess að koma til móts við skuldsett heimili.

  Það sem menn óttast nú er að núverandi stjórnvöld muni klúðra þessum samningum. Sporin hræða eftir IceSave samninganna. Það skiptir engu máli að bíða með þessa samninga fram yfir kosningar og láta ný stjórnvöld taka til sín.

  Um þetta snýst málið sýnist mér. Fólk treystir ekki núverandi stjórnvöldum til þess að gera þessa samninga.

  • Þetta er nokkuð rétt lýsing hjá þér Þórhallur. Um þessar hugmyndir er enginn stórkostlegur ágreiningur, held ég, þegar gífuryrðin, ýkjurnar og einfaldanirnar eru skornar utan af opinberum málflutningi Framsóknar.

   Þú tengir Icesave-samningana inn í þetta. Þeir eru af margvíslegum ástæðum allt annars eðlis en þetta viðfangsefni. En það má alveg eins spyrja á móti: á þjóðin að treysta Sjálfstæðis- og Framsóknarflokkum, sem einkavæddu bankana á sínum tíma í helmingaskiptum og í ferli sem var svo ófaglegt að Steingrímur Ari Arason sagði sig úr framkvæmdanefnd um einkavæðingu meðan á því stóð? http://www.mbl.is/frettir/innlent/2002/09/11/steingrimur_ari_arason_segir_sig_ur_einkavaedingarn/

   Það má aldeilis vera gullfiskaminnið ef menn vilja þau vinnubrögð aftur, með Hauck & Aufhäuser og öllu því ótrúlega bixi sem er beinlínis sársaukafullt að rifja upp.

   • Þórhallur Kristjánsson

    Núverandi stjórnvöld kalla þessar hugmyndir framsóknarmanna töfralausnir.
    Það virðist ekki vera mikill baráttuvilji á þeim bænum fyrir að kýla á þetta. Hvernig stendur á því?

    • Í fyrsta lagi er ávinningurinn ekki í hendi og því óábyrgt að lofa honum núna og láta kjósa sig út á hann.

     Í öðru lagi er sú leið að taka allan ávinninginn (eða langstærstan hluta hans) og verja í almenna höfuðstólslækkun verðtryggðra lána ekki skynsamleg. Þar með væru skuldir ríkissjóðs ekki lækkaðar eins og þarf til að reka hér gott velferðarkerfi og lækka skatta. Margir fengju þar mikla peninga í hendur sem eiga stórar eignir og ráða vel við sínar skuldbindingar. Það er óskynsamleg forgangsröðun þegar margar aðrar mikilvægar þarfir eru fyrir hendi.

     Í þriðja lagi hefur Samfó ítrekað lýst vilja sínum til að koma til móts við þá sem á þurfa að halda, um leið og svigrúm skapast. Síðast í ályktunum landsfundar í vor.

     • Þórhallur Kristjánsson

      Þessi pistill heitir „Upphlaup Framsóknar eða alvöru lausnir?“

      Ég fylgist ágætlega með þjóðmálunum og hef ekki heyrt neinn Samfylkingarmann taka undir þessar hugmyndir Framsóknarflokksins.

      Mér finnst þessar hugmyndir framsóknarmanna vera harla einfaldar. Samt virðast margir þungaviktar stjórnmálamenn ekki átta sig á þessu til dæmis Árni Páll.

      Því væri forvitnilegt ef þú svaraðir spurningunni sem þú spyrð að.

 • kristin geir st briem

  þú verður að útskyra betur um að varla um sana staðhæfíngu að finna kanski hráir okkur sama blindan
  En um þína grein veit seðlabankin hver á erlenda kröfuhafa gæti það verið ílendíngar.hver geimir erlendar eignir bankana og hver fær arðin af þeim um gjldeyri bankanna hugsa að það komi seðlabankanum við. Vilhjálmur á að vita það að kröfu hafar fá ekkert útúr búunum fyrr enn þeir eru gerðir upp það verður aldrei bókfært verð en gott og vel einhverjar tölur verða menn að hafa.
  Þessar hugleiðíngar eru góðrargjaldrar verðar en eigum ið ekki kröfu á að næsta ríkistjórn birji ferlið því ef núveran stjórn birjar ferlið gétur verð að næsta sé ekki samála þá gæti komið kerkja í ferlið

 • Ómar Kristjánsson

  Framsóknarmenn vinna (viljandi sennilegast) útfrá einfaldri hugsanavillu þar sem sami peningurinn er notaður tvisvar. Þessi villa er svo sneddý að afar erfitt er að festa fingur á henni. Styrkur villunnar er flækjustigið í einfaldleikanum. Þessvegna hentar þetta prýðilega til pólitísks loddaraskapar og lýðskrums. That said, þá er ekkert sjálfsagt að pólitíkusar noti það til atkvæðaveiða með svo ómálefnalegum hætti sem Framsókn gerir. Manni liggur við að segja, að til þess að pólitíkusar fari að nota svona hugsanavillu og með þessari framsetningu – þurfi hreinlega ákveðið innræti.

  • Ómar, hvaða peningur er notaður tvisvar? Ef þú ert að tala um að nota krónueignir þrotabúanna til skuldaleiðréttingar þá er verið að nota þá eign einu sinni ekki tvisvar.

   • Ómar Kristjánsson

    Það er sem eg segi, að þetta er svo flókið í einfaldleik sínum – að það tær snilld, eins og maðurinn sagði. Í stuttu og einföldu máli, ef þú ætlar að nota krónueignir þrotabúa til skuldaleiðréttingar – þá ertu bara að láta ríkið taka þá upphæð á sig. þegar talað er um að möndla með krónueignirnar í samningum við kröfuhafa – þá er það í þeim skilningi að ríkið auki ekki skuldir sínar í gjaldeyri. þú getur ekki haft þetta both ways. þú getur ekki bæði niðurskrifað snjóhengju á þann hátt að ríkið auki ekki skuldir sínar – og snúið þér svo við og farið að gera eitthvað sniðugt fyrir heimilin í landinu fyrir sama pening. Cant be done.

    Framsóknarmenn vita þetta alveg. það er bara látið óátalið að þeir vaði uppi allstaðar þessir peyjar með ómálefnalegheitum og rangfærslum – en um leið og tekið er á móti þeim með rökum og gögnum þá lyppast þeir niður undireins og það sást afar vel á rimmu þeirra Sigurðar Inga og Vilhjálms Bjarnasonar í Silfrinu síðast. Sigurður Ingi vissi alveg að hann var bara að lýðskrumast og það sást alveg að hann skammaðist sín soldið fyrir það – enda virðulegur bóndi úr Hrunamannahreppi sem hentar alls ekki að leika einhvern lýðskrumara á mölinni.

    Jafnframt er ágætt þessu viðvíkjandi að hugleiða þessa klausu seðlabankastjóra sem er úr ræðu sem hann hélt 21. mars. Þegar sumir tóku upp eftir honum ,,75% afskrift“ eða ,,niðuskrift“ – þá var það í raun villandi. Það var þetta sem hann meinti:
    ,,Það er hlutverk búanna að koma eignunum í verð og greiða kröfuhöfum út. Spurningin snýst því ekki um niðurskrift krónueigna eins og ætla mætti af opinberri umræðu um þessi mál heldur hitt hvert sé raunhæft verð eigna og á hvaða gengi þeim verður skipt í erlendan gjaldeyri. Það veltur á því hverjir vilja kaupa og geta og vilja koma með þann nýja gjaldeyri sem þarf, því að hann getur ekki komið af útflutningstekjum þjóðarinnar né gjaldeyrisforða Seðlabankans.“

    • Ómar ertu ekki að misskilja hvernig að þessar afskriftir munu ganga fyrir sig?

     Ef þrotabúið afskrifar 100kr þá þýðir það að einhver annar fær þessar 100kr. Ríkið myndi þá eignast þessar 100kr sem væru færðar yfir til t.d. íbúðarlánasjóðs til leiðréttingar á útistandandi lánum. Ríkið er ekkert að auka skuldir sínar, það er þrotabúið sem er að minnka eignir sínar.

     Það er einungis verið að nota þessar 100kr einu sinni.

 • Þorbergur Leifsson

  Sæll Vilhjálmur

  Gott væri að fá betri útskýringar á þessu stótra máli hjá Vilhjálmi eða öðrum, ég er alls ekki að skilja þetta.

  Er það virkilega þannig, og óumdeilt, að ríkisstjórnin gæti tekið erlendar eignir þrotabúanna og breitt þeim í íslenskar krónur og afhent kröfuhöfum þær og neitað að skipta þeim í gjaldeyri á skráðu gengi ?

  Ef svo er, væri þá hægt að gera þetta líka við kröfur Breta og Hollendinga í þrotabú LB, þannig að þeir fengju bara krónur í höftum upp í Icesave. Er ekki þegar búið að greiða út hluta af erlendum eignum þrotabús Landsbankans.

  Verður ekki eitt yfir öll þrotabúin að ganga. Eiga þrotabúin ekki þær eignir sem í þeim eru, í þeim gjaldmiðlum sem koma inn. Þó ríkisstjórnin setji lög sem setja þrotabúin undir gjaldeirishöft er ekki þar með sagt að við getum tekið Pund og Evrur úr þeim og sett krónur í staðinn. Er ekki mjög líklegt að kröfuhafar gætu farið í mál út af svona vinnubrögðum og ítrekaðri eignaupptöku. (ekki gleyma að þessir sömu kröfuhafar greiddu nær allar innistæður hér á landi úr eigin vasa)

  Kveðja með von um skýr svör

  • Þórhallur Kristjánsson

   Eftir að gjaldeyrishöftin voru hert þá var lokað á að kröfuhafar geti tekið gjaldeyriseignir út nema með samþykki stjórnvalda.

   „Í frumvarpinu er lagt til að felldar
   verði niður undanþáguheimildir í lögum er varða útgreiðslu í íslenskum krónum úr innlendum þrotabúum til erlendra aðila, sérstaka heimild búa föllnu fjármálafyrirtækjanna til fjármagnshreyfinga í erlendum gjaldeyri, sem m.a. gerir föllnu fjármálafyrirtækjunum mögulegt að greiða kröfuhöfum sínum í erlendum gjaldeyri, og að síðustu heimild til að eiga gjaldeyrisviðskipti vegna jafngreiðslna og verðbóta af höfuðstól skuldabréfa.“

   http://www.sedlabanki.is/library/Skr%C3%A1arsafn/Gjaldeyrismal/Greinarger%C3%B0%20me%C3%B0%20l%C3%B6gum%20nr%2017%202012.pdf

   • Þorbergur Leifsson

    „felldar verði niður undanþáguheimildir í lögum er varða útgreiðslu í íslenskum krónum úr innlendum þrotabúum til erlendra aðil“

    Ég var aðallega að spyrja um erlendar eignir, er hægt að taka þær af búunum og breyta í krónur, er það ekki það sem verið er að hóta ??

    • Þórhallur Kristjánsson

     Þú verður að lesa alla greinina.

     „felldar verði niður undanþáguheimildir í lögum er varða sérstaka heimild búa föllnu fjármálafyrirtækjanna til fjármagnshreyfinga í erlendum gjaldeyri, sem m.a. gerir föllnu fjármálafyrirtækjunum mögulegt að greiða kröfuhöfum sínum í erlendum gjaldeyri.“

     Lagalega getum við greitt út í krónum sem væru fastar hér inni þar til höftunum yrði aflétt.

     • Þorbergur Leifsson

      Takk fyrir þetta Þórhallur, loksins sá eg þetta.

      Erfitt að lesa þennan texta með nægri einbeitingu.

      Þrotabúin þurfa leifi Seðlabankans til að greiða út erlendann gjaldeiri sem er í búunum, ok. það er kanski eðlilegt amk formlega, þó ég skilji ekki af hvaða ástæðu Seðlabankinn gæti neitað. En hvernig getur verið leifilegt að breita eignum þrotabús í annann gjaldmiðil sem er í höftum. Eru eignir þrotabúanna ekki varðar með eignarrétti stjórnarskrárinnar. Er þessi lagasetning ef henni yrði beitt eins og talað er um til að neyða þrotabúin til að gefa frá sér innlendar eignir ekki kolólögleg, er engin umræða um það hjá lögfræðingum kröfuhafanna.

      Hvernig yrði tekið á því ef Íslendingar hirtu allann ICESAVE gjaldeyri úr LB og letu Breta og Hollendinga bara fá krónur í höftum. Kemur þetta ekki inn í Icesave dóminn. Og ef greitt er út úr LB þarf þá ekki að gæta samræmis við aðra banka og greiða gjaldeyririnn út úr þeim.

 • „Þriðja hugsanlega aðgerðin gæti verið að bjóða erlendum eigendum ríkisskuldabréfa í krónum að skipta þeim yfir í löng evrubréf, vaxtalaus eða -lítil, og ef til vill einnig afborgunarlaus framan af. Slík skipti færu fram á gengi sem réðist í útboðum en yrði lægra en álandsgengið. Þar með myndu skuldir ríkisins lækka í krónum talið, endurgreiðsluferill lengjast og snjóhengjan verða viðráðanlegri sem því nemur.“
  —————————-

  Ég mundi vara við þeirri aðferð að hækka gjaldeyrisskuldir ríkisins. Því þá myndi vaxtagjöld þess hækka, þá á ég við þegar erlendir aðilar skoða veitingur framtíðar lána til ríkisins í öðrum gjaldmiðlum. Vegna þess að erlendir aðilar myndu líta svo á að gjaldþrotslíkur ríkisins hefðu aukist.

  Ríkið á aldrei í vanda með að greiða innan síns eigin gjaldmiðils. Getur það í reynd ekki. Það sama á ekki v. um þá gjaldmiðla sem ríkið getur ekki prentað.

  Þess vegna er það mjög varasamt að auka skuldsetningu þess í þeim gjaldmiðlum.
  —————————-

  Þú sagðir hlutverk gjaldmiðla að vera leið til að varðveita verðmæti – ég er öldungis ósammála því. Á því að hlutverk gjaldmiðla sé einungis það að vera tæki, til að auðvelda viðskipti manna á milli.

  Getum séð þetta t.d. á Kýpur í dag þ.s. skyndilega var lokað á öll rafræn viðskipti, mjög takmarkað magn af seðlum var unnt að nálgast.

  Og mikill fj. viðskipta hafa ekki farið fram á Eyjunni af þessa völdum. Af því leiðir mjög snögga og samtímis djúpa hagkerfisdýfu.

  —————————-
  Upphlaupið snýst um það, að tryggja það að unnt verði að beita þeirri hugmynd á kröfuhafa. Að neiða þá eins og Karl útskýrir að ofan til að afsala sér innlendum eignum. Gegnt því að fá að fara út með lausafé.

  Að ríkisstj. láti ekki þetta tækifæri fara forgörðum, með beinni sölu til sjóðanna fyrir kosningar.

  Að auki líst mér ekki á það að þeir flytji svo mikið fé heim. Þegar er líklega of hátt hlutfall eigna þeirra fjármagnaðar hér innanlands. Að auki eru þær erlendu eignir, tiltekin trygging greiðsla til aldraðra ef stór áföll verða hérlendis.

  Kv.

 • Er ekki eðlilegt að „sporin hræði“ þegar sitjandi embættismenn fóru með IceSave samningana einsog gert var ? Hér er ekki einu sinni um þjóðréttarlega skuldbindingu að ræða heldur einhver fallin einkafyrirtæki með einhverja einkaaðila (vogunarsjóði) sem kröfuhafa ? Hvaða meðaumkun eða vorkunn eiga slíkir aðilar sem kaupa sig inn í efnahag gjaldeyrishafta og gríðarlegs ójafnvægis ?

  Er svo bara sjálfsagt að þeir fái að taka út sinn hagnað miðað við að hagkerfið er í einhverju „jafnvægi“ í boði gjaldeyrishafta ?

  Framsókn er eini flokkurinn sem hefur talað fyrir ákveðinni og þjóðhagslega hagkvæmri samnings afstöðu í stærstu samningaviðræðum lýðveldistímans….aðrir þurfa einfaldlega að skýra sína afstöðu betur, en ljóst er að þessi gríðarlega eignatilfærsla mun fara fram.

  Vert er að halda því til haga að þessi staða er ekki bara vandamál sökum krónunnar, þó undirritaður sé ekki talsmaður hennar. Þessi staða væri til staðar þó við værum í guðs lofandi Evru umhverfi Vilhjálms, en þá bara skuld Seðlabanka Íslands við Seðlabanka Evrópu (og ber vexti)….mér huggnast núverandi staða betur…….Seðlabanka Evrópu gæti dottið í hug að gera upptæk 40% innlána einsog á Kýpur.

Höfundur