Föstudagur 19.04.2013 - 18:03 - Lokað fyrir ummæli

Seðlabankinn rústar tillögum Framsóknar

Framsóknarflokkurinn hefur sópað að sér fylgi í kosningabaráttunni með loforðum um niðurfærslu höfuðstóls verðtryggðra lána, til að „leiðrétta forsendubrest“ sem orðið hafi í hruninu. Einn frambjóðandi flokksins tók af öll tvímæli um það í útvarpsviðtali að til stæði að fella niður skuldir óháð efnahag skuldaranna eða stöðu þeirra að öðru leyti.

Þessar hugmyndir eru gríðarlega rótttækar og stórar. Almennt hefur verið rætt um 20% niðurfellingu af 1.300 milljarða höfuðstól verðtryggðra íbúðalána (m.v. desember 2010), eða 260 milljarða króna. Það jafngildir rekstri allra sjúkrahúsa í landinu í 5 ár, eða rekstri Háskóla Íslands í aldarfjórðung. Á sama tíma skuldar ríkissjóður yfir 1.600 milljarða og vaxtagreiðslur nema 80-90 milljörðum á ári.

Það sem er þó undarlegast: Svo virðist sem Framsóknarflokkurinn hafi ekki kynnt sér ítarlega skýrslu Seðlabanka Íslands um skulda- og greiðsluvanda íslenskra heimila, sem kom út í júní í fyrra. Skýrslan er byggð á samkeyrðum skattframtölum og gögnum frá bönkum, Íbúðalánasjóði, lífeyrissjóðum og fleiri aðilum, með leyfi Persónuverndar, og hefur annar eins gagnagrunnur um nákvæma fjárhagsstöðu heimila aldrei verið tekinn saman á landinu og þótt víðar væri leitað. Skýrslan hlýtur að vera grundvöllur stefnumótunar og umræðu um þessi mál, ef menn vilja á annað borð taka mið af bestu fáanlegu tölum og greiningu og setja fram mál sitt af ábyrgð.

Ein af meginniðurstöðum skýrslunnar er þessi (bls. 6):

We assess the effects of a hypothetical 20 per cent reduction of the principal of indexed mortgages and find that roughly 75 per cent of the write-offs would be granted to households not in distress. Two-thirds of distressed households would not escape distress despite the implementation of such an extensive measure.

(Við metum áhrif hugsanlegrar 20% niðurfærslu höfuðstóls verðtryggðra íbúðalána og komumst að því að um 75% niðurfellinganna myndu falla í skaut heimila sem eiga ekki í vanda. Tveir þriðju heimila í vanda myndu ekki komast út úr honum þrátt fyrir svo víðtæka aðgerð.)

Ég endurtek: 75% niðurfellingarinnar fer til heimila sem þurfa hana ekki. 2/3 þeirra sem eru í vanda myndu hins vegar vera áfram í vanda eftir slíka niðurfærslu.

Til að sýna hversu ómarkviss – og ósanngjörn – þessi aðgerð er má skipta heimilum landsins í tekjufimmtunga. Sá fimmtungur heimila sem lægstar hefur tekjurnar er í fyrsta fimmtungi, svo kemur næsti fimmtungur þar fyrir ofan, síðan sá fimmtungur sem er með meðaltekjur og þar um bil, og svo tveir hæstu tekjufimmtungarnir. Hvernig myndi 260 milljarða niðurfærslan skiptast á þessa fimmtunga? Myndi hún gagnast þeim sem lægstar hafa tekjurnar? Nei, þvert á móti. Hún gagnast mest þeim sem eru með hæstar tekjur. Efsti tekjufimmtungurinn fengi um 80 milljarða niðurfellingu skulda, en sá neðsti fengi 20 milljarða. Hér er mynd úr skýrslunni (bls. 91) með íslenskum texta:

TekjufimmtungarSmallest

Er þetta boðlegt réttlæti? Það finnst Framsókn. En það finnst jafnaðarmönnum ekki.

Koma þarf til móts við þá sem á því þurfa að halda, og fóru verst út úr íbúðakaupum á árunum 2005-2008. Að öðru leyti er mikilvægt að nýta svigrúm til að lækka skuldir ríkissjóðs, vinda ofan af snjóhengjunni og verja þannig velferðarkerfið og efnahagslegan stöðugleika til framtíðar. Í því felst mesti ávinningurinn, í bráð og lengd, fyrir allan almenning í landinu. Það er leið jafnaðarmanna.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

«
»

Ummæli (56)

 • Það stendur náttúrlega ekki steinn yfir steini í þessari grein hjá þér. Fyrst býrðu til strámann úr kosningamáli Framsóknar frá því fyrir 4 árum um 20% flata niðurfellingu. Sigmundur hefur talað skýrt um að það sé ekki á döfunni núna vegna þess bútasaums sem þegar hefur verið ráðist í. Í öðru lagi slærðu um þig með sama misskilningi og Árni Páll á hugtakinu réttlæti. Það eru til ýmsar útfærslur af því og það hugtak sem þú og ÁP notið er aðeins eitt af þeim, þ.e., utilitarian útfærslan. Hugmynd Framsóknar frá því fyrir 4 árum um flatan niðurskurð er alveg jafn réttlátt, nema bara í samræmi við egalitarian útfærsluna á réttlæti. Í sjálfu sér er það áhugavert að menn takist á um grundvallarhugtök eins og rétta útfærslu á réttlæti. Það að ÁP útfærslan sé augljóslega rétt en ekki 4 ára gömul hugmynd Framsóknar er hins vegar langt því frá augljóst nema þá að Samfylkingin hafi á fundi hjá sér leyst þennan grundvallar ágreining stjórnmálaheimspekinnar sem staðið hefur síðustu aldir.

  • Haukur: Það kemur skýrt fram hjá Frosta Sigurjónssyni í tilvitnuðu útvarpsviðtali að til standi að „leiðrétta“ hækkun verðtryggðra lána. Ef leiðrétta á þá hækkun sem varð frá janúar 2008 til október 2011, að frádregnu 4% verðbótaþaki, er leiðréttingin 18,7% af höfuðstól. Ef draga á frá 2,5% verðbótaþak (þ.e. verðbólgumarkmið Seðlabankans) yrði leiðréttingin 24,3%. (Sjá skýrslu Hagfræðistofnunar HÍ, http://hhi.hi.is/sites/hhi.hi.is/files/C-Series/2011/C11_08_Greinargerd_um_affoll_ibudalana_vid_stofnun_nyju_bankanna_og_kostnad_vid_nidurfaerslu_lana.pdf bls. 15).

   Ef taka á tillit til niðurfærslna sem þegar hafa átt sér stað þá eru þær 134 milljarðar en skiptast á mismunandi hátt milli lánveitenda og -forma. Eftir stæði 200 milljarða kostnaður til að ná 18,7% niðurfellingunni á öllum lánum, þar af yfir 120 milljarðar hjá Íbúðalánasjóði. (Sjá töflu 5, bls. 18 í sömu skýrslu.)

   Bloggpistillinn fjallar einmitt um skilgreiningar á réttlæti. Ég tel það af og frá að það sé réttlátt eða sanngjarnt í stöðunni að gefa efsta tekjufimmtungi heimilanna á Íslandi 80 milljarða króna eða langleiðina í þá upphæð. Raunar tel ég það þvílíkt óréttlæti, í ljósi stöðu hópa á borð við atvinnulausa, einstæða foreldra, öryrkja, aldraðra og lágtekjufólks, og ungs fólks í leiguhúsnæði, að jaðri við siðblindu að láta sér detta slíkt í hug.

   • Það sem ég vísa til eru ummæli Sigmundar í leiðtogaþættinum á RÚV um daginn um að fyrir fjórum árum hefði Framsókn viljað 20% flata niðurfærslu sem ekki væri hægt að fara í núna. Hann sagði líka að hann vildi ekki útfæra nákvæmlega hvernig yrði komið til móts við skuldara þar sem að einmitt það sem þessi pistill reynir að gera varð aðal málið fyrir fjórum árum, þ.e., að fara í smásmugulega gagnrýni á útfærslu í stað þess að sættast í grófum dráttum á hvert verkefnið væri og leysa svo úr því í samvinnu við aðra flokka eftir kosningar. Það má vel vera að aðrir frambjóðendur hafi talað á öðrum nótum, en svona skildi ég allavega Sigmund og hef ég ekki heyrt hann tala öðruvísi.

    Það er gott að heyra að þú sért meðvitaður um réttlætishugtökin. Ég leyfi mér að halda því fram að þeim sem ekki hafi fengið neina leiðréttingu hingað til finnist það óréttlátt gagnvart sér sjálfum. Jafnvel svo óréttlátt að þeir eru til í að kjósa flokk sem lofar þeim því réttlæti.

    Í þessu kemur einmitt fram gallinn á réttlætiskenningunni sem þú heldur fram, þ.e. utilitarianism-anum. Hann sér samfélagið sem eina heild þar sem markmiðið er að ná fram mestri heildarhagkvæmni án tillits til hlutfallslegrar dreifingar gæðanna. Samkvæmt þessu sjónarmiði er rétt að taka frá þeim ríku og gefa þeim fátæku þar sem gæðin hafa meira heildargildi þannig (sá atvinnulausi hefur meiri not af 5000 kr en útrásarvíkingurinn).

    Vandamálið er hins vegar að einstaklingar vilja gjarnan að gæðunum sé jafnt skipt, ekki ójafnt, jafnvel þó það þýði minni heildarhagkvæmni. Fólk hugsar flest út frá sjálfu sér og er ekki til í að vinna að hlutum með öðrum nema fá sinn hlut af afrakstrinum. Eina leiðin til þess að viðhalda ójafnri skiptingu, líkt og utilitarianisminn leggur upp með, er í gegnum þvingun af einhverju tagi. Kosningarnar núna virðast ætla að sanna þetta. Fóllk leyfir sér í frjálsum kosningum að kjósa út frá sjálfu sér og þá velur það að sjálfsögðu jafna skiptingu gæðanna í stað þess að kjósa með því að það sjálft fái ekki neinn hluta af því sem er til skiptana. Það gerir þetta jafnvel þó það komi niður á hagkvæmni af þeirri einföldu ástæðu að heildarhagkvæmni gefur verri persónulega niðurstöðu en jöfn skipting.

    Svona er þetta í grófum dráttum og þetta er veggurinn sem ríkisstjórnin er núna að reka sig á. Hún hefur misboðið réttlætiskennd þjóðarinnar með því að beita utilitarian lausnum í þessum hrunmálum þar sem sumir fá allt en aðrir ekkert, í stað þess að taka á þessu í samræmi við hugmyndir Framsóknar um jafna skiptingu þar sem allir fá eh en kannski enginn allt.

    Tal um siðblindu í þess samhengi dæmir sig sjálft. Það er enginn að tala um að henda minnimáttar út á guð og gaddinn. Þetta er fyrst og fremst spurning um hvort við deilum gæðunum jafnt, eða gefum sumum allt og öðrum ekkert innan þessa húsnæðismála samhengis. Innan þess samhengis getur verið erfitt að greina hverjir yfirhöfðu hafa móralska réttlætingu á hjálp umfram aðra. Persónulegur skuldavandi er í sjálfu sér ekki mórölsk réttlæting og getur því ekki talist siðferðislegur grundvöllur fyrir misskiptingu gæðanna sem þú kallar eftir.

    • Ólöf Embla Eyjólfsdóttir

     Haukur – þú ert að slá saman réttlætishugtökum. „Egalitarian“ réttlæti myndi þvert á móti krefjast þess hér að skuldir þeirra efnamestu væru því og þá aðeins lækkaðar ef það kæmi þeim verst settu til góða. Í þessu tilviki teldi ég líklegt að svo væri ekki, fremur væri peningunum betur varið í að hjálpa tekjuminnstu hópunum meira og þeim tekjumestu minna (eða ekki). Sú réttlætis-hugmynd sem þú kallar „egalitarian“ á meira í ætt við frjálshyggju (libertarianism).

     Raunin er sú að flestar réttlætishugmyndir (þ.m.t. bæði egalitarianismi og nytjastefna) myndu telja það óréttlátt að gefa hinum ríku almannafé til jafns við (ég tala nú ekki um fram yfir) þá sem þurfa meira á því að halda. Einungis gallharðar hægri-stefnur sem grundvalla réttlæti á einstaklingshagsmunum reyna að halda slíku fram.

  • Elvar Sævarsson

   Haukur þú snýrð þessu á hvolf. Framsóknarflokkurinn er utilitarian. Kratar eru egalitarian. Feis á þig!

   • Vá, ég er sammála Vilhjálmi. Ekki gerist það oft. Það er vissulega áhyggjuefni hvernig Framsókn kemur fram með sínar tillögur og ég vona innilega ekki að flöt niðurfærsla verði fyrir valinu, ef fjárhæðir fást til verksins það er að segja, sem ég set stórt spurningamerki við. Nauðsynlegt að þrýsta á um nánari svör fyrir kosningar.

    Í fyrsta lagi talar fólk alltaf um að það verði einhver peningur til ráðstöfunar yfirhöfuð. Reyndar hefur Már talað um að kröfur verði afskrifaðar um allt að 75% að mig minnir. Eitthvað af því er froða þó.

    Í öðru lagi, ef einhverjar upphæðir fást, þá ræðir fólk ávallt um að það sé hollast fyrir okkur að greiða niður skuldir heimila í stað skuldir ríkissjóðs þegar vitað er að vaxtakostnaður ríkis mun e.t.v. aukast töluvert þegar höftin verða afnumin. Á hinn bóginn er hærra hlutfall skulda heimila verðtryggt sbr. við skuldir hins opinbera og því hættulegra fyrir heimilin þegar höftin verða afnumin. Þetta er eitthvað sem þarf að skða. En auðvitað er það svo að aðgerðin ,,að leiðrétta skuldir heimila“ er gífurlega sterkt inn í kosningar, sér í lagi ef það er orðað eins og Framsókn orðar það.

    Í þriðja lagi, eins og einhverjir hafa nefnt hér, þá er það e.t.v. alveg jafn réttlætanlegt að öll heimili fái hlutfallslega jafn mikið niðurfellt. Það vekur einfaldlega upp þá spurningu hvort ekki sé hreinlega hollast að nota mögulgar fjárhæðir í að greiða niður opinberar skuldir, sér í lagi þegar litið er til þess að á þessu kjörtímabili hafa skuldir heimila verið færðar nokkuð niður. Slíkt gæfi ef til vill almennilegt svigrúm fyrir skattalækkanir.

    • Ómar Kristjánsson

     Það sem skiptir máli við þesi ,,75%“ seðlabankastjóra – sem ég heyrði m.a. Dr. Sigmund vitna til sem hann hefði ,,lesið í blaði“ og taldi seðlabankastjóra vera að segja að þarna væri böns of money – að þá er furðulegt að fólk lesi ekki það sem seðlabankastjóri sagði. Merking orða seðlabankastjóra er alveg örugglega ekki að þarna verði einhver stabbi af peningum sem hægt er að gera eitthvað skemtilegt fyrir. Hann er augljóslega að meina allt annað og ég nenni ekki að útskýra það enda virðast framsóknarmenn ekkert mikið fyrir útskýringar eða rök:

     ,,Eins og áður sagði var það hluti af ræðu minni að útskýra að orðið niðurskrift væri ekki gott til að lýsa því sem þarf að gera. Málið snerist miklu frekar um raunhæf verð við sölu krónueigna út úr búunum og raunhæft gengi varðandi umbreytingu þeirra í gjaldeyri. Í þessu sambandi tók ég dæmi um hvaða áhrif það hefði á núverandi mælingu á skuldastöðu þjóðarbúsins ef þessar eignir færðust úr landi með 25 eða 75% afföllum frá núverandi bókfærðum verðum og álandsgengi.“

     http://www.mbl.is/vidskipti/frettir/2013/03/16/athugasemd_fra_sedlabankastjora/

     Samt get ég ekki sleppt smá útleggingu. Augljóslega er enginn stabbi af peningum sem kemur úr þessari aðferðarfræði. það er verið að tala um á hvaða virði eignir eru keyptar og á hvaða gengi krónueignunum verður skipt í alvöru gjaldmiðil.

     Framsóknarflokkurinn notar ekkert þetta síðan til að fella niður skuldir flatt á dæmið. það er enginn stabbi af peningum sem myndast þarna. Augljóslega.

     þetta verður því að gerast öðruvísi. þar kemur tvennt til álita. 1. Skattlagning og þá líka á erlendu eignirnar. 2. Hrein eignaupptaka.

     • Á þessi grein að segja mér eitthvað hvort peningar fáist út úr nauðasamningum eða ekki? Ef engir peningar eiga að fást, getur þú þá sagt mér af hverju allir stærstu flokkarnir taka undir með Framsókn að peningar fáist?

 • Guðmundur Guðmundsson

  Þetta snýst sem sagt um skilgreiningu á réttlæti. Flöt skuldaniðurfelling með tilfærslu frá þeim fátæku til hinna ríku er „alveg jafn“ réttlát.

  Það er eins gott að fátæku þöngulhausarnir geri sér grein fyrir því þegar harðna fer á dalnum.

 • Ómar Kristjánsson

  Hér á orðtakið ótrúlegt en satt vel við. Upplegg framsóknar er ótrúlegt. Mest allt til vel stæðra og þeirra sem þurfa ekki aðstoð. Kosningaslagorð framsóknar ætti að vera: Borgum skuldir auðmanna! Svo var eg að lesa stóru kosningaloforðarullubók framsóknar – heyrðu! þá eru þeir líka búnir að taka upp kosningaloforð Sjallaflokks með skattaafsláttinn! Og upphæð afsláttarins fari inná höfuðstólinn. Maður spyr sig hvar þetta endi.

 • Ragnar Thorisson

  Athyglisvert,, hvernig skuldarar vísutölutryggðra lána hafa komist upp með að misnota orðið „forsendubrestur“, því nákvæmlega allar forsendur lánasamningsins standa.

 • Stefán Ólafsson

  Er ekki ráð fyrir forystu Samfylkingarinnar að fylgja fordæmi Össurar Skarphéðinssonar og byggja brýr til Framsóknar um alla möguleika á að bæta hag heimilanna áfram, annað hvort með einhverri útfærslu af leið Framsóknar ef fær reynist, eða með beitingu skattaleiðarinnar sem Össur mælir fyrir – eða blöndu beggja leiða? Hver haldið þið forystumenn í Samfylkingunni að verði örlög aðildarviðræðna við ESB ef Sjálfstæðisflokkur og Framsókn mynda næstu stjórn? Samfylking með 15% fylgi dugir varla til að halda málinu lifandi…

 • Rúrik Vatnarsson

  Sjaldan hefur rökvilla jafnaðarmanna komið fram eins skýrt eins og í þessum pistli hjá Vilhjálmi sem er rökfastur og skynsamur eins og kunnugt er, en „jafnaðarmennskan“ blindar hann gersamlega hér að mínu mati.

  Við skulum gefa okkur í dæmaskyni að allir væru sammála um að „leiðrétting“ á verðtryggðum lánum væri almennt sanngjörn, vegna þess t.d. að lánið hefði verið ólögmætt, eða hækkun þess valdið með ólögmætum hætti (og hætta að rífast um það í bili).

  Mjög einfaldað dæmi: A, litli Kláus tók verðtryggt 5 millj. kr. lán og skuldar nú 9 milljónir. B, stóri Kláus tók samskonar 50 millj. kr. lán og skuldar nú 90 millj. Báðir fá 20% lækkun á láninu frá núverandi stöðu. A, litli Kláus skuldar eftir „leiðréttingu“ 7,2 millj. B, stóri Kláus skuldar 72 milljónir.

  Í huga jafnaðarmannsins þá er þetta algjör ósvinna vegna þess að stóri Kláus, B, fær svo miklu meira afskrifað en litli Kláus!!!. Heilar 18 millj. á meðan litli Kláus greyjið fær aðeins 1,8 millj. afskrifaðar!! Það er verið að gefa þessum stóreignamanni stórfé!!! „Jafnaðarmaðurinn“ er strax búinn að gleyma því að hið ólöglega lán (já það er ólögmætt hér í dæmaskyni, kemur jafnt niður á báðum ekki satt) hefur hækkað hjá Stóra Kláus um 22 milljónir en lán litla Kláusar hækkaði aðeins um litlar 2,2 milljónir.

  Hvor þessara manna fór verr út úr lántökunni?

  • En það er einmitt punkturinn í skýrslu Seðlabankans: að það er talsverður munur á skuldavanda heimila annars vegar og greiðsluvanda heimila hins vegar. Er það endilega réttlátt að útdeila „leiðréttingu“ á grundvelli skuldavanda fremur en að gera það á grundvelli greiðsluvanda? Það er greiðsluvandinn sem er mest akút, það er undan honum sem svíður fyrst og fremst, og það er hann sem heldur aftur af kaupmætti og hagvexti.

   Hafið líka í huga að Stóri Kláus gæti hafa keypt húsið sitt 1995 og verið bara í fínum málum í nettó eign þrátt fyrir hrunið, kominn vel í gegn um upphafsskaflinn í jafngreiðslunum og farinn að borga höfuðstólinn hraðar niður – meðan Litli Kláus keypti 2005 og er bæði eignalaus og í greiðsluvanda. Samt á Stóri að fá 20% niðurfellingu af sínum stóra höfuðstól, meðan Litli Kláus er þannig staddur að 20% koma honum ekki einu sinni út úr greiðsluvandanum?

   Tölurnar frá Seðlabankanum segja sína sögu, og þær eru ekki einhver sótthreinsuð meðaltöl, heldur byggðar á raunverulegri stöðu hvers einasta heimilis í landinu, reiknaðri út í hörgul út frá skattskýrslum og lánastöðu. Niðurstaðan er sú að 75% þeirra sem fá niðurfærslu eru ekki í neinum vanda, og 2/3 þeirra sem eru í vanda og fá niðurfærslu verða enn í vanda. Ég sé bara ekki hvernig nokkur getur talið þetta „sound policy“, vitræna stefnu. Hljómar meira eins og óðs manns æði.

   • Jens Jónsson

    Vilhjámur þessi röksemdarfærsla er með ólíkindum hjá þér:

    „Hafið líka í huga að Stóri Kláus gæti hafa keypt húsið sitt 1995 og verið bara í fínum málum í nettó eign þrátt fyrir hrunið, kominn vel í gegn um upphafsskaflinn í jafngreiðslunum og farinn að borga höfuðstólinn hraðar niður – meðan Litli Kláus keypti 2005 og er bæði eignalaus og í greiðsluvanda. Samt á Stóri að fá 20% niðurfellingu af sínum stóra höfuðstól, meðan Litli Kláus er þannig staddur að 20% koma honum ekki einu sinni út úr greiðsluvandanum?“

    Til þess að reyna koma með mótrök við dæmisögunni um litla og stóra Kláus dettur þér í hug að láta þá kaupa á misjöfnum tíma, hversvegna lætur litla Kláus ekki hafa keypt húsið sitt 1995 og stóra Kláus 2005 er það vegna þess að þá myndu rökin hrynja hjá þér.

    Framsóknarflokkurinn er með lang réttlátustu tillögurnar í þessu máli, þeir vilja ekki þjóðnýta ákveðin hóp lánþega til að endurreisa bankakerfið.

    • Pistillinn fjallar ekki um hýpótetísk dæmi og styðst ekki við þau. Í skýrslu Seðlabankans er greint frá niðurstöðum úrvinnslu á öllum skattframtölum og lánasamningum heimila í landinu. Raunveruleg gögn, eins og þau eru. Niðurstaðan er sú sem ég dreg fram: 75% heimila sem fengju niðurskrifaðan höfuðstól þurfa ekki á því að halda, af því að þau eru ekki í skuldavanda eða greiðsluvanda. En 2/3 þeirra sem eru í vanda yrðu áfram í vanda eftir slíka niðurskrift, þ.e. ættu í erfiðleikum með að láta enda ná saman og væru enn yfirskuldsett. Endurtek að þetta er ekki einhver líkindareikningur eða ágiskanir, heldur rauntölur úr rekstri heimila í landinu. Menn hljóta að laga stefnu og aðgerðir að þessum raunveruleika, annað væri bara fúsk.

 • Orri Eiríksson

  Rúrik, kannski eru það ekki endilega tölurnar sem skipta höfuðmáli heldur frekar þessi feitletraða setning í niðurlagi pistilsins. Að þeir fái aðstoð sem þurfa á því halda.

  • Einmitt. Og ég hef fulla samúð með þeim sem þurftu að kaupa húsnæði eða stækka við sig á bóluárunum 2005-2008, hafa horft á eigið fé sitt brenna upp og sjá enga leið upp úr pyttinum. Slíkt er hvorki gott fyrir viðkomandi fjölskyldur né fyrir þjóðfélagið í heild, að missa heilu kynslóðirnar af fólki í byrjun starfsævinnar út í vonleysi um hag sinn og framtíð. Þannig að á því ástandi þarf tvímælalaust að taka, um leið og svigrúm gefst. En það er allt annar handleggur en að færa tekjuhæsta fimmtungi landsmanna 80 milljarða að gjöf, bara af því bara.

 • Forsendubrestur og leiðrétting.
  Hvaða forsendubrestur hefur átt sér stað í þeim tilfellum þar sem eignin hefur hækkað meira en lánið ?
  Felst leiðrétting á láni þar sem eignin hefur hækkað meira en lánið í því að hækka lánið til samræmis við hækkun eignarinnar ?

 • Er ég að misskilja en eru tillögur framsóknar ekki á þessu leið?

  Þeir sem lentu í „forsendubresti“ og þá meina ég allir, sama hverju ríkir eða hversu stór lánin voru, fá 20% af lánum sínum niðurfellt. Mér finnst ekki sanngjarnt að Litli Klás fái hærri prósentu afskrifaða bara af því hann tók minna lán og fær þar af leiðandi færri krónur afskrifaðar. Finnst það bara ekki vitund sanngjarnt.

  Þegar svona aðgerð er framkvæmd er ómögulegt að finna akkúrat þá sem þurfa á peningnum að halda og hverjir gætu komist af án niðurfellingar. Það eina sanngjarna er að allir sem lentu í „forsendubrestinum“ fái sömu meðferð.

  Svo má rökræða hvort yfir höfuð einhver forsendubrestur hafi orðið og hvort hótanir til gammanna séu rétta leiðin. Mig minnir að Sigmundur hafi talað um að þeir sem tóku lán um 2006-7 og höfðu í raun engan valmöguleika nema verðtryggt lán og lent strax í sjúkasta verðbólguskoti seinni tíma séu þeir sem þeir líta til. En ég gæti verið að bulla.

  Punkturinn er sá að til að hafa þetta sanngjarnt eins og menn virðast vera að ræða hér þá sé ég ekki hvernig það á vera sanngjarnt að taka mismunandi á málum eftir því hve há lánin voru. Ef það var forsendubrestur þá eiga allir sem lentu í því að vera í sömu sporum.

 • Baldur Kristinsson

  Ég man ekki betur en þurft hafi að hjálpa sjálfum Seðlabankanum úr sínum eigin rústum fyrir nokkrum árum á kostnað skattborgarinnar vegna óstjórnar. Er ekki megnið af því fólki sem setti hann á hausinn starfandi ennþá?

  • Guðmundur Guðmundsson

   Áttu við að skýrslan sé illa unnin? Hvernig þá? Rök óskast! Hefurðu einhver gögn sem sýna að niðurstöður skýrsluhöfunda séu rangar? Ef ekki hver er þá tilgangurinn með þessari athugasemd?

   • Mér finnst það stór spurning hvort tekið sé tillit til 65 milljaðra króna úttektar af séreignasparnaði þegar Seðlabankinn talar um kaupmátt og greiðsluvanda heimila

 • Ásmundur

  Þessar hugmyndir Framsókarflokksins ganga í raun út á að auðmenn haldi hagnaði af sínum fjármálagjörningum en ríkið greiði töpin.

  Þannig er kreppan notuð til að auka ójöfnuðinn í stað þess að hinir best settu taki á sig mestu byrðarnar.

  Þeir sem tóku lán fyrir 2006 hafa ekki orðið fyrir neinum forsendubresti. Þeirra skuldabyrði hefur almennt ekki hækkað að ráði meira en hún lækkaði fram að hruni.

  Framsókn heldur því fram að ríkið muni ekki fjármagna skuldalækkunina þó að það sé augljóst að það fé sem er ætlað í hana væri eins hægt að nota í annað eins og td að greiða niður skuldir ríkissjóðs.

  Þannig er gefið í skyn að allir skuldarar njóti góðs af almennri skuldalækkun þó að það sé ljóst að aðeins þeir tekjuhæstu og skuldugustu hagnist á gjörningnum.

  Hlutdeild hinna í hærri sköttum er meiri og oftast miklu meiri en sem nemur skuldalækkun þeirra.

  Að ríkið veiti hundruðum milljarða í að auka ójöfnuðinn í landinu væri til vitnis um ótrúlega spillingu sem getur hæglega gert það gjaldþrota.

 • Ásmundur

  Í tillögum Framsóknarflokksins felst algjört vantraust á krónunni enda er verið að leggja til að ekki skuli tekið mark á henni.

  Ef tillögurnar ná fram að ganga eru þær fordæmisgefandi. Í hvert sinn sem gengi krónunnar hrynur verður slík leiðrétting að fara fram.

  Ljóst er að slíkt getur hæglega leitt til gjaldþrots ríkisins auk þess sem gengishrun verða mun algengari en ella.

  Það er furðulegt að skuldarar skuli ekki berjast fyrir ESB-aðild og upptöku evru. Með því móti myndi greiðslubyrði lána lækka mun meira en 20% lækkun höfuðstóls leiðir til.

  Með ESB-aðild og upptöku evru eru þeir verr settu ekki að greiða skuldir hinna betur settu. Þetta er einnig varanleg lausn.

  Tillögur Framsóknarflokksins eru gott dæmi um hvernig ósvífnir auðmenn reyna að notfæra sér ónýta krónu til að hagnast á kostnað almennings.

 • Þetta snýst um réttlæti Vilhjálmur.

  Innistæðueigendur fengu sýnar innistæður að fullu bættar í gjaldþrota bönkum. Það var almenn aðgerð en ekki sértæk eins og skuldarar hafa þurft að gangast undir.

  Ef innistæðu eigendur hefðu farið í gegnum sértæka leið hefðu þeir sem voru með innistæður yfir 3,5 milljónir þurft að sýna fram á greiðsluvanda til að fá meira af innistæðum sýnum. Hefði sú leið hugnast þér?

  Til að bæta gráu ofan á svart þá sköpuðu lánadrottnarnir (bankarnir) sjálfir forsendur brestinn og ætla síðan og rukka hann upp í topp.

  • Hjalti: Trygging innistæðna hefur ekki kostað ríkissjóð eða skattborgara neitt með beinum hætti. Sjá nánar: http://blog.pressan.is/vthorsteinsson/2012/07/24/innistaedutryggingar-og-skattborgarar/

   Að mínu mati er það einkum arfaslök hagstjórn, frá a.m.k. 2001, sem olli fyrst ofrisi krónunnar og síðan falli hennar. Það var þetta ofris og fall sem framkallaði þann pytt sem við erum hér að tala um: fasteignaverðbólu 2005-2008, snöggt hrun krónunnar, verðbólguskotið sem af því leiddi og kjararýrnun í kjölfarið. Svo má um það deila hvort yfirleitt sé unnt að hafa nægilegan aga á krónunni og hvort nokkur pólitískur stuðningur sé fyrir slíkum aga, þegar á reynir. Það er ein af ástæðum þess að ég vil stefna á ERM II (myntsamstarf sbr. dönsku krónuna) og síðan upptöku evru.

   • Hjalti Atlason

    Ríkið borgaði beint vegna innistæðutrygginga til Spkef og Byrs.

    Óbeinn kostnaður var til dæmis Icesave en mismunun vegna fullrar tryggingar var sterkasta vopnið gegn okkur í því máli. Einnig var tap íslenskar skuldabréfaeigenda í bönkunum vegna neyðarlaga talsvert.

    Þannig að full trygging innistæðna kostaði tugi milljarða og hefði getað kosta hundruð milljarða í gegnum Icesave.

    Þær sértækuaðgerðir sem farið hefur verið í fram til þessa fyrir fólk með verðtryggð lán hafa fyrst og fremst snúist að því að auka innheimtur lánadrottna. Í flestum tilfellum hefði verð betra fyrir skuldara og vera gerðir upp og geta byrjað upp á nýtt í stað þess að hanga árum saman í skuldanöru og búnir að eyða séreignarsparnaði sýnum í hítina í þokkabót. Það hefur því verið dekrar við fjármagnseigendur og nú er kominn tími til að hugsa um hina hlið peningsins.

    Þetta er í grunninn réttlætis og prinsip mál en ekki reiknisdæmi. Það mun líka seint vera hægt að reikna hvort er hagstæðara fyrir ríkið að borga niður skuldir eða leiðrétta verðtryggðar skuldir með tilheyrandi auknum kaupmætti hjá heimilum sem skilin hafa verið eftir.

    Við hljótum að geta verið sammála um að bankarnir voru í lykilhlutverki þegar kemur að falli krónunar með góðri hjálp seðlabanka og stjórnvalda.

    Varðandi evruna þá hugsa ég að jaðarríki evrusvæðisins sem hafa ólíka hagsveiflu við Þýskaland fari að hugsa sinn gang. Við verðum því að synda á móti straumnum ef við ætlum að álpast í evruna.

 • Ég minni menn á að lesa Rannsóknarskýrsluna aftur. Þar kemur fram að bankarnir stunduðu fullkomna glæpastarfsemi sem varð til þess að hér varð hrun sem lenti sérstaklega illa á þeim sem skulda.

  Neyðarlögin tryggðu innistæðueigendum allt sitt 100%. Sú leið var algjörlega óþörf. Þar hefði mátt fara Kýpversku leiðina og setja þak á útgreiðslur og hámarksupphæð jafnframt því að jafna aðstöðuna milli innistæðueigenda og skuldara.

  Það hefur komið í ljós að sú leið sem var farin voru stórkostleg mistök og er frekar í anda einhverskonar „apartheid“ stefnu, þar sem gert er upp á milli hópa.

  Hættið að bera þetta saman við verðbólguskot fyrri ára – það er ekki sambærilegt. Það varð ekki algjört hrun eins og í þetta skiptið.

  Hvaða réttlæti er að þeir sem voru með verðtryggð lán séu sérstaklega látnir taka á sig allar byrðar sem bankahrunið olli?

  Eiga þeir sem voru svo „heppnir“ að vera með gengistryggð lán að vera einir að fá leiðréttingu lána sinna (í gegnum dómskerfið)? Hinir sem voru með verðtryggð lán sitja eftir í súpunni? Er það réttlæti stjórnarflokkanna?

  Ég veit ekki betur en hugmyndir Framsóknar gangi út á að hafa hámarksupphæð í mögulegum endurgreiðslum. Það er því óþarfi að fara á taugum um að einhverjir fái alltof mikið.

  Framsókn hefur a.m.k. kjark og þor til að taka á þessum málum og gera sér grein fyrir réttlæti þessa máls. Það er meira en hægt er að segja um flesta aðra flokka nema kannski Dögun.

  • Vísa til svars við Hjalta hér að ofan.

   Varðandi gengistryggðu lánin þá er staðan einfaldlega sú að þau voru dæmd ólögleg fyrir dómstólum. Það þýðir að lánveitendurnir bera skaðann, ekki ríkissjóður. Verðtryggðu lánin virðast hins vegar vera lögleg (þó með fyrirvara) og þá gildir ekki það sama um þau. Lánveitendur tóku reyndar sjálfviljugir á sig að niðurskrifa þau í 110%, en að öðru leyti lendir „leiðrétting“ þeirra á skattborgurum.

   Hafa þarf í huga að aðeins um fimmtungur íbúðalána heimila var á reikningum bankanna í hruninu. Restin, fjórir fimmtu, var hjá Íbúðalánasjóði, lífeyrissjóðum, Seðlabankanum og öðrum aðilum.

  • P.S. Ég hef hvergi heyrt Framsókn tala um hámarksupphæð á endurgreiðslum. Þvert á móti talar Frosti Sigurjónsson um almenna niðurfærslu í tilvitnuðu útvarpsviðtali og gerir enga fyrirvara enda hafi allir orðið fyrir sama forsendubrestinum óháð upphæð og stöðu.

 • Jón Vilberg

  Forsendubrestur varð til þess að sparnaður sem lagður var í íbúðarkaup, brann upp á nokkrum mánuðum. Núverandi stjórnaflokkar sjá hér tækifæri að grípa þessa peninga og nýta þá í „jöfnuð“ sem felst í því að gefa þeim sem skulda mest 110% niðurfellingu. Össur var að tala um að stefna SF væri að skattleggja hagnað bankana og nota þá í að aðstoða þá sem standa verst (og væntanlega þá óháð tekjum). Þannig að hátekjumaður sem tók 50mkr lán fyrir 55mkr húsi og stendur í dag með 40mkr hús og 70mk lán fær niðurfellingu niður í 45mkr. Meðaltekjumaðurinn sem keypti sér hús fyrir 30mkr og lagði sjálfur 15mkr í það, stendur í dag með 25mkr hús og lán upp á 25mkr. Sá maður fær enga niðurfellingu af því að hann er ekki í greiðlsuvanda. Ég sé ekki alveg jöfnuðinn í þessu.
  Eina réttláta leiðréttingin er flöt niðurfelling sem er þá „jöfnuður“ á forsendubrestinum.
  Lögmæti verðtryggingar er fyrir dómstólum í dag og ekki ólíklegt að hún verði dæmd ólögmæt. Með því kæmi þessi leiðrétting inn á öll lán. Ég geri ekki ráð fyrir að núverandi stjórnarflokkar hafi komið upp með plan hvernig taka ætti á þeirri niðurfellingu. Gott að það er einhver flokkur að leita að möguleikum.

  • Ef verðtrygging verður dæmd ólögmæt lendir kostnaðurinn af því á lánveitendum, eins og með gengistryggðu lánin, en þó verður hlutur Íbúðalánasjóðs þar verulegur og hann lendir á skattgreiðendum. Einnig myndu lífeyrisþegar nútíðar og framtíðar missa réttindi í lífeyrissjóðum sem svarar til þess kostnaðar sem sjóðirnir myndu bera.

   Þegar Össur og Samfó tala um aðgerðir fyrir þá sem keyptu á bóluárunum fyrir hrun og verst standa, þá skil ég það þannig að átt sé við þá sem skýrsla Seðlabankans sýnir að eiga í skulda- og greiðsluvanda, vegna kaupa á fyrstu eign eða stækkun vegna fjölskylduaðstæðna. Þetta eru kynslóðirnar sem þjóðfélagið hefur ekki efni á að missa út í vonleysi og svartsýni um framtíðina.

 • Ég er líka fylgjandi ESB aðild og upptöku evru. Það er hinsvegar ekki nóg til að ég muni kjósa Samfylkinguna sem hefur algerlega brugðist þegar kemur að réttlæti í skuldamálum heimilanna með verðtryggð lán.

  Skrítið að stjórnaflokkarnir skuli ávallt hafa farið þá leið að tala um skuldamál heimilanna með þeim hætti að ekkert sé hægt að gera til að leiðrétta forsendubrest sem varð vegna hruns bankanna.

  Þegar hinsvegar dómsstólar komast að þeirri niðurstöðu að gengistryggð lán hafi verið ólögleg og endurgreiða skuli skuldurum með gengistryggð lán tugi milljarða þá heyrist ekki múkk frá stjórnarflokkunum um það STÓRKOSTLEGA óréttlæti sem felst í meðhöndlun ólíkra lánaforma.

  • Jónas, þú talar nánast eins og ekkert hafi verið gert. Með 110% leiðinni, sértækri skuldaaðlögun, sérstökum vaxtabótum o.m.fl. hefur verið komið til móts við þá sem skulda verðtryggð lán (og reyndar öll lán) um milljarðatugi og -hundruð. Hjá tekjulægri fjölskyldum hafa sérstöku vaxtabæturnar numið yfir 30% af öllum vaxtakostnaði þeirra. Vandinn er hins vegar, og augljóslega, sá að ríkissjóður var með 216 milljarða halla 2009 sem varð að rétta af eins fljótt og auðið var. (Hallinn er nú rúmir 3 milljarðar.) Þess vegna var ekki hægt að gera allt fyrir alla, heldur þvert á móti, það þurfti að fara í sársaukafullan niðurskurð og skattahækkanir til að loka þessu gati. Gatið kom til vegna hrunsins og er að sjálfsögðu ekki núverandi ríkisstjórn að kenna, heldur er einmitt afleiðing af óráðshagstjórn og slælegu fjármálaeftirliti 6-8 ára fyrir hrun.

   • Veist þú Vilhjálmur hvort það hafi verið skoðað hvernig 110% leiðin kemur í hlut hvers tekjufimmtungs í milljónum talið? Það væri forvitnilegt að vita í ljósi yfirlýsinga um „jafnétti jafnaðarmanna“

 • Þetta er skýrsla gefin út af Seðlabankanum og er á ábyrgð höfunda.

  „Central Bank of Iceland Working Papers are published by the Economics Departments of the Central Bank of Iceland. The views expressed in them are those of their authors and not necessarily the views of the Central Bank of Icleand.“

  Undarlegt að gefa til kynna að í henni felist „rústun“ Seðlabankans og Más á tillögum Framsóknarflokksins.

  • Guðmundur Guðmundsson

   Er þetta ekki tittlingaskítur? Ertu með einhver RÖK fyrir því að þessi skýrsla sé óvönduð? Áttu í fórum þínum einhver GÖGN sem stangast á við niðurstöður skýrslunnar?

  • Þetta eru lélegustu rök til þessa í annars góðri umræðu hér.

 • Júlíus Sólnes

  Þau rök, að ekki eigi að fara í almenna skuldaleiðréttingu vegna þess, að sumir þurfi ekki á henni að halda, eða fái of mikið, af því lán þeirra séu svo há, halda ekki. Ef farin yrði sú leið sem ég tel vænlegri og hefði skilyrðislaust átt að fara haustið 2008, þ.e. að milda vísitöluna, hreinsa innlendar skattaálögur út úr henni og nota framvirkt meðatal í stað hrárrar vísitölu, myndu skuldir lækka sjálfkrafa án þess, að ríkið verði skaðabótaskilt. Við slíka aðgerð, sem ég vona að næsti efnhagsráðherra beiti sér fyrir, myndu öll lán lækka, einnig þeirra ríku. Síðan má bæta við, að ef fjármunum er stolið af hópi fólks (eins og gerðist í hruninu í boði ríkisvaldins) og það finnst leið til að greiða þýfið til baka, á þá ekki að endurgreiða þeim, sem höfðu efni á því að láta stela frá sér?

  • Það eru dómafordæmi fyrir því í Hæstarétti, Júlíus, að stjórnvöldum er ekki heimilt að krukka í vísitölur sem notaðar eru til verðtryggingar fjárskuldbindinga nema með mjög afmörkuðum og málefnalegum hætti. Menn verða að þekkja takmörk réttarríkisins og stjórnarskrár í þessu efni, það eru ekki allar aðgerðir í boði.

   • Júlíus Sólnes

    Það hafa fallið tveir hæstaréttardómar, þar sem ríkinu var talið heimilt að breyta verðtryggingarvísitölu með einfaldri auglýsingu Seðlabankans, Rökstuðningur dómsins var einhvern veginn á þá leið, að ríkið hefði komið verðtryggingunni á með lögum og reglugerð og gæti því breytt henni að vild.

 • Líklega birtist hérna grundvallarmunurinn á hægri- og vinstrimönnum:

  Framsóknarflokkurinn vill leiðrétta ranglætið óhað tekjum á meðan Samfylkingin vill taka féð til ríkisins og útdeila því til þeirra sem „þurfa á því að halda“ í formi bóta!

  • Við værum sammála, Kalli, ef það væri til skítnóg af peningum og hægt að gera allt fyrir alla. En svo er ekki, ríkissjóður er stórskuldugur, snjóhengjan vofir yfir og margir eiga um sárt að binda eftir hrunið. Þá þarf að forgangsraða. Að gefa hæsta tekjufimmtungnum 80 milljarða án þess að hann þurfi á því að halda er galin forgangsröðun við þessar aðstæður. Eiginlega ótrúlegt að nokkrum heilvita manni detti slíkt í hug.

   • Skuldaleiðréttingin er réttlætismál þessa hóps og ríkið á einungis að vera milligönguaðili. Bótaleiðin er svipuð því og að viðskiptavinur hafi verið ofrukkaður í Bónús og í stað þess að greiða honum tilbaka þá sé mismuninum dreift meðal fátækustu viðskiptavina Bónus!

    Vil taka fram að ég væri ekkert að njóta þessarar leiðréttingar persónulega.

    Varðandi skuldamál ríkisins þá er mjög stór hluti vaxtagreiðslna ríkisins vegna skuldsetta gjaldeyrisvarasjóðsins sem mun minnka verulega á næstu misserum og síðan ríkisskuldabréfa í eigu lífeyrissjóðinna aðalega. Er sannfærður um að tilvonandi hægri stjórn muni lækka vaxtakostnaður hratt á tilvonandi kjörtímabili.

 • Ásmundur

  Júlíus Sólnes:
  „Þau rök, að ekki eigi að fara í almenna skuldaleiðréttingu vegna þess, að sumir þurfi ekki á henni að halda, eða fái of mikið, af því lán þeirra séu svo há, halda ekki“.

  Þetta er fyllyrðing án raka. Á undanförnum árum hefur þess leið verið könnuð oftar en einu sinni af til þess bærum mönnum á vegum stjórnvalda.

  Niðurstaðan hefur alltaf verið að þessi leið sé mjög óskynsamleg enda er hún mjög dýr og leysir aðeins vanda fárra.

  Skv skýrslu seðlabankans þurfa aðeins 25% skuldara á aðstoð að halda. Þessi leið er hins vegar lausn fyrir aðeins þriðjung þeirra eða 8% þjóðarinnar.

  Þetta er heldur ekki rétt leið til að örva efnahagslífið enda myndi stór hluti fjármunanna lenda hjá auðmönnum án þess að hafa mikil áhrif á neyslu.

  Það myndi skila miklu betri árangri að aðstoða þá skuldara sem þurfa aðstoð, hækka laun heilbrigðisstétta ofl og greiða niður skuldir ríkisins. Allir þessir liðir myndu auka neyslu.

  Skuldarar eru ekki þeir einu sem hafa tapað á hruninu. Sumir hafa tapað miklu meira eins og eigendur hlutabréfa og flestra sjóða bankanna.

  Ríkið getur ekki greitt tap allra. Það eru engin rök fyrir því að skuldarar eigi að njóta sérréttinda. Þeir sem keyptu sína fyrstu íbúð 2006-2008 mættu þó fá fyrirgreiðslu.

  Það er ekki rétt að tala um tap skuldara. Skuldir þeirra hafa aðeins verið leiðréttar til núverandi verðlags í samræmi við lánaskilmála.

  Það verður aðeins tap ef menn hafa orðið að selja húsnæðið á lægra verði en kaupverðið uppfært til núvirðis án þess að kaupa stærra í staðinn.

  Hugsanlegt tap kemur ekki ljós fyrr en íbúðin verður seld. Þá gæti verð íbúðarinnar hafa hækkað svo mikið að hagnaður sé af láninu.

  Almenn lækkun lána er því spilling sem leiðir til ójöfnuðar og getur hæglega leitt til gjaldþrots ríkisins.

 • Guðmundur Guðmundsson

  Á Íslandi búa 300 þúsund manns. Líf þeirra allra tók miklum breytingum við hrunið. Breytingum sem enginn sá fyrir. Matvara, bensín og aðrar nauðsynjar snarhækkuðu í verði. Um leið voru laun lækkuð. Margir misstu vinnuna og fjöldi flúði land. Skorið var inn að beini í ríkisrekstrinum, ekki síst í heilbrigðiskerfinu þar sem starfsmönnum var fækkað stórlega og álagið að sama skapi aukið á hinum. Lífskjörin snarversnuðu á öllum sviðum. Það varð allsherjar forsendubrestur hjá öllum landsmönnum. Og þá auðvitað ekki síst hjá þeim sem stóðu höllum fæti, hjá bótaþegum og láglaunafólki. Hjá þeim sem meira að segja í viltasta góðærinu höfðu ekki haft efni á því að sjárfesta í húsnæði.

  Framsóknarflokkurinn hefur með stefnu sinni tekið einn hóp upp á sína arma. Þá sem voru við hrun með miklar ibúðaskuldir. Þeirra hlutur skal bættur með myndarlegum hætti. Skítt með alla hina. Atvinnulausa, aldraða, sjúklinga, öryrkja og láglaunafólk.

  Þessi stefna er skelfilega ranglát. Skýrsla Seðlabankans sýnir að hún er að auki fádæma ómarkviss.

  • Hjalti Atlason

   Guðmundur:

   Innistæðueigendum voru tryggðar fullar innistæður í gjaldþrota bönkum með neyðarlögunum og í þeim hópi eru eðli málsins samkvæmt mikið af öldruðum.

   Þeim sem níðst hefur verið á eru barna fjölskyldur sem voru að kaupa sitt fyrsta hús eða stækka við sig með verðtryggðum lánum. Það er búið að hirða af þeim margra ára sparnað á meðan sparifjáreigendur og skuldarar með erlend lán eru kominn með sitt.

   Það er verið að gera upp hrunið með þessari aðgerð en ekki að skoða einhverja punktstöðu núna.

   Þessar aðgerðir myndu ekkert síður nýtast öryrkjum og atvinnulausum enda eru öflug heimili hagvaxtarhvetjandi sem eykur vinnu og tekjur ríkissins.

 • Finnur Hrafn Jónsson

  A leggur 20 miljónir inn í banka. Bankinn reynist síðan vera skálkaskjól fyrir skipulagða glæpastarfsemi og stelur 10 miljónum af innstæðunni. Ríkið hleypur til, setur neyðarlög til að A tapi ekki þessum 10 miljónum. Gerir það með bæði ríkisframlagi og breytingu á forgangi kröfuhafa, sem felur í sér að verðmæti eru flutt frá einum til annars.

  B tekur 20 miljóna lán í sama banka. Sama gerist, glæpsamleg starfsemi bankans sem starfar undir eftirliti ríkisins veldur B 10 miljóna tjóni. Ríkið segir við B að hann verði að bera tjón sitt óbætt vegna þess að hann eigi peninga til að þola áfallið.

  Ef forsendubrestur átti sér stað varð hann hjá öllum sem tóku verðtryggð lán, óháð því hvort þeir þola áfallið.

  Viðurkenning Framsóknar á þessum forsendubresti veldur auknum stuðningi við flokkinn þó að margt annað hjá flokknum sé ekki fallið til að auka traust á honum.

  Ef viðurkenning á þessum forsendubresti er orðin að kostnaði fyrir ríkissjóð í gegnum eignarhald á Landsbankanum er það að fullu á ábyrgð núverandi stjórnvalda sem stýrðu því hvernig nýi Landsbankinn tók yfir kröfur gamla bankans.

  Einfaldasta aðferðin til að leiðrétta þennan forsendubrest er að breyta útreikningi vísitölunnar. Fordæmi fyrir því er frá ca 1983, bankarnir fóru í mál og töpuðu því fyrir Hæstarétti.

  • Ómar Kristjánsson

   Þetta er nálgun sem skilar engu. það í raun var enginn ,,forsendubrestur“ að þessu leiti. Meðalverðbólga frá lýðveldisstofnun hefur verið eitthvað 15% eða meira. Lánin fyldu bara verðbólgu. það væri alveg ein hægt að koma með það að vöruverð ætti núna að vera það sama og 2007. Eg hef tekið eftir að vöruverð hefur allt hækkað! Afhverju að verja kaupmannavaldið? það þarf augljóslega að vinda ofan af vöruverði.

   Jafnframt getur það að kaua húsnæði í húsnæðisbólu alltaf verið vandasamt. þetta er alþekkt víða á þessum tímum. Sérstaklega í þéttbýli. Húsnæðisverð getur alltaf hrokkið til baka.

   því miður er þetta tal um ,,forsendubrest“ bara frasi. því miður. Og ég ítreka að það er leiðinlegt að þurfa að segja þetta.

 • Guðmundur Guðmundsson

  C lepur dauðann úr skel. Hann lagði ekkert inn fyrir hrun vegna þess að hann átti ekkert. Hann tók ekki lán vegna þess að hann hafði ekki tekjur til þess að kaupa sér húsnæði. Staða hans í dag er enn verri en fyrir hrun.

  Nú gerist það að ný ríkisstjórn fyrir snilldarmálatilbúnað Frosta og Sigmundar Davíðs nær 200 hundruð milljörðum út úr gömmunum. Hún ákveður að nota þá til þess að rétta hlut B.

  Er það réttlátt?

  Það má ekki skilja málflutning minn svo að ég hafi ekki samúð með B. Mismunurinn á hlutskipti A og B er æpandi. En glæpamennirnir sem margir hverjir þáðu auðæfi sín úr hendi Framsóknarflokksins (Vigdís Hauksdóttir kann sögu að segja af því) stálu af ALLRI þjóðinni, ekki eingöngu B.

  Fordæmið sem þú vísar í frá 1983 fólst í því að vísitala launa var tekin úr sambandi. Afleiðingin var sú að launin lækkuðu um 20% á einu bretti. Á sama tíma voru vextir gefnir frálsir og lánskjaravísitalan óð áfram. Það voru launamenn og ekki lánastofnanir sem tóku þann skellinn. Hvaða ríkisstjórn skildi hafa staðið að þeim aðgerðum?

  • Finnur Hrafn Jónsson

   Nei, það sem ég meinti var þegar Steingrímur Hermannsson breytti samsetningu lánskjaravisitölu lántakendum í hag.

   • Þetta held ég að sé ekki rétt hjá þér Finnur Hrafn. Dómafordæmin sýna einmitt að það þarf að fara mjög varlega við breytingar á vísitölugrunni.

 • Menn segja að ríkið hafi tryggt innistæður 100%en mér vitanlega fór ekki króna af opinberu fé til þess.Allar eignir voru teknar úr gömlu bönkunum og færðar í nýju bankanna og skuldir skildar eftir í þeim gömlu ,þess vegna halda rök þeirra sem tala um að innistæðueigendum hafi fengið allt sitt því eigi þeir að fá niðurfellingu sinna lána ekki vatni

  • Finnur Hrafn Jónsson

   Hundruðir miljarða komu úr vasa skattgreiðenda með skellinum sem Seðlabankinn fékk, SPkef björguninni, Sjóvá og stofnun nýju bankanna sem óvíst er hversu gjaldfærir þeir eru. Ef ekkert af þessu rann til innistæðueiganda væri gaman að vita hvert féð hefur runnið.

Höfundur