Laugardagur 07.12.2013 - 14:43 - Lokað fyrir ummæli

Tvær rökvillur í Stóru Millifærslunni

Stóra Millifærslan sem ríkisstjórnin kynnti fyrir viku er umfangsmikil efnahagsaðgerð og afdrifaríkt inngrip í hagkerfið. Að sumu leyti minnir hún á  millifærslurnar sem Framsóknarflokkurinn var afar hrifinn af í gamla daga og fólk á mínum aldri og eldra man eftir í tengslum við nöfn á borð við Steingrím Hermannsson og Ólaf Jóhannesson. En það er önnur saga.

Í löndum sem byggja á faglegri stjórn efnahagsmála myndu stjórnvöld í sambærilegri stöðu og hér fyrst setja sér markmið, til dæmis um hagvöxt, atvinnu, jöfnuð og velferð. Síðan væri greint hvar skórinn kreppir helst og forgangsröð ákveðin. Loks væru í ljósi greiningarinnar lagðar til aðgerðir sem ná markmiðunum með eins skilvirkum hætti og unnt er.

Fjármögnun slíkra aðgerða væri að sjálfsögðu tryggð fyrirfram og aðgerðirnar sniðnar að þeim fjármunum sem úr væri að spila. Þar með væri óvissa lágmörkuð og engin óþarfa áhætta tekin fyrir hönd skattborgara.

Á Íslandi leggur ríkisstjórnin hins vegar út í Stóru Millifærsluna án þess að séð verði að vel skilgreind efnahagsleg markmið, stöðugreining eða vitræn forgangsröðun ráði för – hvað þá að fjármögnun sé í hendi með nokkurri vissu.

Spyrja má: Er mikilvægara að greiða niður verðtryggðar húsnæðisskuldir en að örva hagvöxt og fjárfestingu með beinni hætti, ná tökum á verðbólgu, eða greiða niður skuldir ríkissjóðs (tala nú ekki um að taka upp nýjan og stöðugan gjaldmiðil með lágum vöxtum til frambúðar)? Ýmislegt má gera fyrir 80 milljarða, eða 150. Hvernig verður heildarhags okkar í bráð og lengd best gætt með þeim fjármunum sem til skiptanna eru? Það hlýtur að vera verkefni ábyrgra stjórnvalda hverju sinni að svara þeirri spurningu í verki.

Meginréttlæting Stóru Millifærslunnar er reist á rökvillu. Hún er sú að rýrnun krónunnar frá desember 2007 til ágúst 2010 hafi valdið almennum „forsendubresti“ vegna þess að verðtryggður höfuðstóll húsnæðislána hafi hækkað.

ÍbúðaverðÞað er ekki rétt greining.

Vandinn er sá að raunverð fasteigna tók stökk upp á við í bólunni 2005-2008 og hrundi svo aftur mjög skarpt 2008-2010 (sjá grafið hér til hliðar, úr skýrslu sérfræðingahóps ríkisstjórnarinnar). Verðið er núna komið aftur á þær slóðir sem það var í byrjun 2005.

Þeir sem keyptu fasteign 2004 eða fyrr hafa því ekki orðið fyrir neinum „forsendubresti“ miðað við réttmætar væntingar. Krónunum í skuldum þeirra hefur vissulega fjölgað, en krónunum í eigninni hefur fjölgað hlutfallslega jafnmikið eða meira. Verðbólgan kemur jú til lengdar fram bæði skulda- og eignamegin.

Þeir sem eru í raunverulegum vanda eru þeir sem keyptu fasteign 2005-2008, á mestu bóluárunum. Þeir sitja uppi með eign sem hefur rýrnað að raunverðgildi frá því þeir keyptu. Eigið fé þeirra hefur þannig gufað upp eða minnkað mjög. (Margir freistuðust e.t.v. í 90% lán sbr. kosningaloforð Framsóknarflokksins 2003). En vandinn felst í eignarýrnun, verðlækkun að raungildi á fasteignum þessa hóps, ekki krónutöluhækkun skulda í takt við verðbólgu. Á þessu er mikilvægur munur.

Stóra Millifærslan er afar ómarkviss aðgerð til að taka á hinum raunverulega vanda og aðstoða þennan skilgreinda markhóp. Í honum er margt ungt fólk, oft nýkomið á vinnumarkað, sem var að kaupa sína fyrstu eign eða stækka við sig vegna fjölskylduaðstæðna, og full ástæða er til að koma sérstaklega til móts við. Stóra Millifærslan dreifir hins vegar peningum út um allt, til fólks sem er í ágætum málum og varð ekki fyrir neinum forsendubresti. Eigið fé þess í fasteignum sínum er, þrátt fyrir miklar sveiflur upp og niður, í ágætu samræmi við það sem mátti búast við fyrirfram.

Ríkisstjórnin ætlar sem sagt að dreifa allt að fjórum milljónum króna í hverju tilviki til fjölda heimila í landinu sem ekki þurftu að fara 110%-leiðina né fengu sérstakar vaxtabætur, enda dragast þær aðgerðir frá Stóru Millifærslunni. Peningarnir fara til heimila sem eiga „eðlilegt“ eigið fé í fasteignum sem keyptar voru 2004 eða fyrr; fasteignum sem verðbólgan hefur hækkað verðmiðann á í krónum talið, alveg eins og hún fjölgaði krónunum í skuldunum.

Ábyrgt? Skynsamlegt? Markvisst? Röklegt? Meti hver fyrir sig, en það finnst mér ekki.

Hin rökvillan í Stóru Millifærslunni er um aðild föllnu fjármálafyrirtækjanna í slitameðferð, „gömlu bankanna“, að málum. Forsætisráðherra og fleiri halda því fram að gömlu bankarnir beri ábyrgð á falli krónunnar og þess vegna sé réttmætt að þeir gjaldi fyrir með fjármunum til Stóru Millifærslunnar. Enda hafi gömlu bankarnir grætt peninga á verðbólgu og verðtryggingu húsnæðislána heimilanna.

Nú má deila um skiptingu ábyrgðar á falli krónunnar milli bankanna og stjórnvalda. Minna má á að það er lögboðið meginmarkmið Seðlabanka Íslands að stuðla að stöðugu verðlagi, enda stjórnar hann m.a. vöxtum, lausafé bankakerfisins og peningamagni í umferð með stýritækjum sínum, þótt það hafi gjörsamlega misfarist árin fyrir hrun. En það er ekki aðalatriði í þessu samhengi.

Gömlu bankarnir eru fallnir, hluthafar þeirra hafa tapað fé sínu og stjórnendurnir eru farnir frá með skömm. Eftir sitja þeir sem lánuðu bönkunum peninga á sínum tíma og fá að líkum aðeins 5-35% af þeim til baka eftir bönkum, og minna en ella vegna Neyðarlaganna. Lánveitendurnir báru ekki ábyrgð á rekstri bankanna. En þeir tóku vissulega áhættu og töpuðu á því verulegum fjármunum, eins og fleiri. Tap þeirra er hlutfallslega enn meira en t.d. þeirra sem keyptu fasteign á toppi bólunnar 2007. Það eru því fremur öfugsnúin réttlætisrök að lánveitendur bankanna eigi að gjalda fyrir tjón sem verðbólga og verðtrygging hafi valdið húsnæðiskaupendum á Íslandi, sbr. einnig fyrri rökvilluna.

Það stenst heldur ekki skoðun að gömlu bankarnir hafi hagnast stórlega, beint eða óbeint, á verðtryggðum húsnæðislánum landsmanna. Aðeins tæpur fimmtungur slíkra lána (ca. 219 ma. af 1.220) var á bókum bankanna í hruninu, en stærsti hlutinn var hjá Íbúðalánasjóði og í eigu lífeyrissjóða og Seðlabankans (m.a. í gegn um sértryggð skuldabréf með veði í fasteignalánum). Sá fimmtungur sem var á bókum föllnu bankanna er lítill hluti af heildarefnahag þeirra, og ólíklegt að lánasafnið hafi skilað hagnaði frá því fyrir hrun þegar afskriftir og útlánatöp eru tekin með í reikninginn.

Ríkissjóður er fjárþurfi, meðal annars vegna þess að ríkisstjórnin afsalaði honum áformuðum tekjum af virðisaukaskatti af gistingu erlendra ferðamanna og veiðigjaldi, og virðist ekki ætla að tryggja eiganda auðlindarinnar eðlilega rentu þegar makrílveiðar verða kvótasettar. Það þarf því að leita annarra skattstofna. Það getur vel verið að efnahagsreikningar fjármálafyrirtækja, einnig þeirra föllnu, séu árennilegur skattstofn, og ég myndi fagna því ef traustar leiðir finnast til slíkrar skattlagningar (sem er enn óvíst). En það er þá af almennum ástæðum sem byggja á tekjuöflunarþörf ríkissjóðs, og peningana á að nota í almennar þarfir, eftir skynsamlegri forgangsröðun. Að tengja þennan árennilega skattstofn beint við órökrétta úthlutun fjármagns til fólks sem hefur ekki orðið fyrir „forsendubresti“ og þarf ekki á því að halda, er líka órökrétt.

Nú fer Stóra Millifærslan til ráðuneyta, sem undirbúa tilheyrandi lagasetningu, og Alþingis til umfjöllunar. Ég vona að skynsamir þingmenn, þvert á stjórn og stjórnarandstöðu, geti sameinast um að laga hugmyndirnar til þannig að þær komi almannahag best í bráð og í lengd. Það yrði gert með því að koma sérstaklega til móts við þá sem fóru illa út úr raunlækkun fasteignaverðs 2008-2010 og með aðgerðum fyrir þá sem eru í greiðsluvanda og erfiðleikum t.d. vegna fjölskylduaðstæðna eða atvinnumissis. Að öðru leyti verði tekjum af nýjum skattstofnum, sem vonandi finnast, varið til að greiða niður skuldir ríkissjóðs og efla fjárfestingu, hagvöxt, atvinnu og velferð eftir úthugsaðri áætlun með skýrum markmiðum.

Þá væri haldbær ástæða til bjartsýni á nýju ári.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

«
»

Ummæli (34)

  • Björgvin Jóhannsson

    Góð greining hjá þér, Vilhjálmur, og að flestu leyti er ég sammála þér. Það er hins vegar ein grunn villa í forsendunum hjá þér.

    Þú setur upp dæmið þannig að sitjandi stjórnvöld séu að ákveða hvað eigi að gera í „skuldavanda heimilanna“, og taki þessa ákvörðun.

    Það sem gerðist var að stjórnmálaflokkarnir settu fram sínar hugmyndir um aðgerðir og það var kosið um það í lýðræðislegum kosningum. Sú útfærsla sem hlaust mest fylgi var útfærsla Framsóknarflokksins, og því eðlilegt að sá flokkur uppfylli sín loforð, þó að útkoman sé heldur rýrari en það sem lagt var upp með í upphafi.

    Ekki það að ég telji þessa aðferð skynsamlega eða réttláta, en svona er nú blessað lýðræðið.

    • Tja, um 25% kjósenda völdu Framsóknarflokkinn, það eru nú öll ósköpin. Sjálfstæðisflokkurinn hlaut fleiri atkvæði og hann lofaði ekki almennri skuldaniðurfærslu heldur að fólk fengi skattahvata til að borga sjálft eigin skuldir. Svo var niðurfærsluleið Framsóknar aldrei almennilega útskýrð í kosningabaráttunni, enda var hún greinilega ekki til í nákvæmri útfærslu á þeim tíma. Fólk kaus þess vegna mjög almenna ósk eða stefnu, fremur en tiltekna leið.

      • Þorbergur

        Reyndar kusu bara 15 % landsmanna þessa vitlausu leið. 10 % framsóknarfylgisins eru krónískir frmsóknarmenn sem kusu flokkinn af gömlum vana þrátt fyrir þessar vitlausu óljósu hugmyndir. Engir aðrir flokkar sem komu mönnum á þing vildu þessa vitleysu.

        • Ómar Kristjánsson

          Þetta er reyndar rétt ábending hjá Þorbergi. Um 10% kjósa framsóknarflokkinn sama hvað. Þannig að um 15% vildu framsóknarleiðina. En sú leið var auðvitað allt öðruvísi en leiðin núna. Kosningaloforðsleiðin var öll í einhverjum trikkum og um 300 milljarðar áttu að koma ef frosti og sdg myndu smeli fingri í takt. Sú leið sem tillagan núna hljóðar uppá, þ.e. taka 2 á kosningaloforði framsóknarmanna, er allt öðruvísi en stórkarlalegt tal framsóknarmanna fyrir kosningar. Leiðin núna virðist bara vera óskög venjuleg framsóknarleið. Millifærsla frá hinum verr stæðu yfir til hinna betur stæðu. Framsóknarmenn hefðu auðvitað átt að segja þetta fyrir kosningar. Þ.e. ef þeir vildu vera heiðarlegir. Eg er samt farinn að stórefast um að þessar tillögur komist í framkvæmd um mitt næsta ár ef nokkurntíman. Þessir menn virðast voðalega lítið vita hvað þeir eru að gera. En jú jú, þeir eru öflugir í að ráða PR fyrirtæki og leggja í propagandaherferðir oþh. – en það þarf stundum að gera hluti líka. Ekki nóg að tala bara og tala og vera með flottar glærusýningar. Að minnsta kosti tel ég líklegt að þessar tillögur taki nokkrum breytingum. Eg yrði ekki hissa.

  • Helgi Viðar

    Þetta er leið Framsóknarflokksins til að auka vinsældir sínar og ná vopnum sínum eftir mörg mögur ár í pólitíkinni. Málið er vel fallið til vinsælda enda klætt í búning réttlætis, efhagsumbóta og umhyggju fyrir íslenskum heimilum. Allt of margir kjósendur eru svo eins og fíklar sem hugsa bara um næsta fix og láta sig litlu varða hvernig þjóðfélagi þeir vilja búa í og hvað sé skynsamlegt og best fyrir almannahag og afkomendur þeirra í framtíðinni.

    Þessa leið er einfaldlega auðvelt að selja fyrir atkvæði og vinsældir og því er hún farin. Sölurökin eru síðan búin til eftir á, en þau halda fæst vatni eins og glöggir menn sjá. Í rauninni er verið að leiðrétta leiðréttingu á ofurgróða fasteignaeigenda á árunum fyrir hrun með þessari aðgerð sem er auðvitað bara rugl.

  • Hlægilegur málflutningur hjá þeim hérna fyrir ofan – að reyna að troða þessu í þann búning að almenningur hafi yfir línuna verið að offjárfesta í húsnæði. Það er auðvitað algjör þvættingur.

    Þetta er réttlætisaðgerð fyrir þá sem voru með verðtryggð húsnæðislán. Búið er að leiðrétta hjá fyrirtækjum og þeim sem voru með gengislán svo um munar.

    Skrítið að þeir sem hafa barist harðast gegn réttlátri leiðréttingu verðtryggða hópsins nefna aldrei þá leiðréttingu sem aðrir hafa fengið. Finnst þeim svona sanngjarnt að gera upp á milli hópa?

    Gæti trúað að margir sem eru á móti leiðréttingu núna SÉU ÞEGAR BÚNIR AÐ FÁ LEIÐRÉTTINGU Á SÍNUM GENGISLÁNUM, en geta ekki hugsað sér að aðrir hópar fái samskonar.

    Svona hugsandi fólk myndi styðja „apartheid“ ef það væri í boði á skerinu.

    • Gengislánin voru ólögleg. Þess vegna urðu lánveitendur að taka á sig „leiðréttingu“ þeirra yfir í óverðtryggða Seðlabankavexti (þó þannig að fullnaðarkvittanir giltu vegna innborgana aftur í tímann), bótalaust. Flest gengislán eru frá þeim sama tíma, 2005-2008, sem ég tala um að leiðrétta þurfi vegna snarps falls fasteignaverðs, hjá þeim sem eru í vandræðum vegna þess. Ég myndi því frekar segja að fara ætti í almenna aðgerð vegna 2005-2008 hópsins en draga þar frá leiðréttingu gengislána.

      Fyrirtækin eru ósambærilegt dæmi. Ef hlutafélag getur ekki greitt (óveðtryggð) lán sín þá getur það ekki greitt þau, punktur. Bankanum er því nauðugur sá kostur að afskrifa lánin og annað hvort setja fyrirtækið í þrot eða reyna að koma því aftur í rekstur eftir afskrift.

  • Þetta sá ég hjá ónefndum hagfræðingi í umræðu um fyrri rökvilluna í Stóru Millifærslunni:

    „Tökum dæmi: Hjón keyptu sér hús á 30 Mkr í ársbyrjun 2003. Lögðu 5 Mkr fram af eigin fé en tóku verðtryggt 25 Mkr að láni með 5% vöxtum. Húsið er núna 66 Mkr virði (miðað við þróun húsnæðisverðs á höfuðborgarsvæðinu). Lánið stendur í 32 Mkr. Eigið fé kaupendanna er 34 Mkr, hefur hátt í fjórfaldast að raunvirði. Nú stendur semsagt til að senda þessum hjónum tékka upp á 4 Mkr til að leiðrétta „forsendubrest“!“

    Við þetta er engu að bæta, held ég.

  • Ríkissjóður er ekki fjárþurfi með þeim hætti sem þú telur – vegna yfirráða yfir gjaldmiðlinum.

    Efnahagur ríkis lýtur þannig ekki sömu lögmálum og efnahagur heimila og fyrirtækja – einkageirans.

    Einkageirinn er fjárþurfi í þeim skilningi sem þú tekur ríkissjóð vera.

    Þegar ónæg eftirspurn er til staðar í einkageiranum vegna yfirskuldsetningar hans, þá ber ríkinu að stíga inn og eyða peningum með einhverjum hætti. Annars mun eftirspurnin halda áfram að vera ónæg.

    Skilyrði fyrir auknum fjárfestingum einkageirans – sem eykur svo framleiðslugetu hans og almennt atvinnustig – er hollur efnahagsreikningur einkageirans.

    Efnahagur einkageirans er viðkvæmur í dag vegna yfirskuldsetningar.

    Ríkið eyðir peningum (já, ég veit, kosningasvik) til að lækka skuldir einkageirans.

    Svigrúm til neyslu og fjárfestinga einkageirans eykst. Framleiðsla og framleiðslugeta aukast.

    Atvinnustig eykst.

    Skatttekjur ríkisins aukast.

    Aðgerðin á þannig rétt á sér, þó vissulega megi deila um útfærslu hennar.

    Því ástæða viðkvæms efnahags margra vestrænna ríkja er ekki skuldastaða hins opinbera í hverju landi fyrir sig, eins og ranglega er haldið fram með reglulegum hætti. Nei, það er skuldastaða einkageirans. Einkageirinn drífur áfram þróun hagkerfisins en getur það ekki ef hann er yfirskuldsettur.

    • Hefurðu einhverja greiningu á bak við það að einkaneyslan sé vandamálið, og að höfuðstólsleiðrétting til vel stæðs fólks leysi það vandamál án þess t.d. að auka innflutning, veikja krónuna og valda verðbólgu?

      Er það ekki frekar atvinnuvegafjárfesting sem vantar, og allra helst bein erlend fjárfesting – sem kemur með gjaldeyri inn í landið til nýrra útflutningsaukandi verkefna?

      Á Íslandi er atvinnuþátttaka með því mesta sem gerist og atvinnuleysi er aftur orðið mjög hóflegt. Það er því ekki mikla hagvaxtaraukningu að sækja í aukna atvinnuþátttöku. Það sem vantar er fjárfesting í innviðum og framleiðniaukning, m.a. með auknum virðisauka sem fæst með aukinni menntun (sérhæfðara vinnuafli) og rannsóknum. Ég sé ekki að ríkisstjórnin sé að gera neitt í þessa átt, raunar þvert á móti með beinlínis bjánalegum niðurskurði á fjárfestingaáætlun og til vísinda- og þróunarstarfs.

      • Því má bæta við að ég er hér sammála greiningu McKinsey í skýrslunni Creating a Growth Path for Iceland og áherslum samráðsvettvangs um aukna hagsæld sem var skipaður í kjölfar þeirrar skýrslu.

      • Kjarni málsins er veikt atvinnulíf sem má rekja með beinum hætti til yfirskuldsetningar einkageirans.

        Vegna yfirskuldsetningar einblínir einkageirinn á niðurgreiðslu sinna skulda umfram allt annað.

        Án inngripa hins opinbera í okkar tilfelli verður atvinnulíf því veikt áfram.

        Minni skuldsetning einkageirans er skilyrði fyrir aukinni neyslu og aukinni atvinnuvegafjárfestingu en orsakasamhengi milli tveggja síðastnefndu atriðanna virkar í báðar áttir.

        Hins vegar er ég alveg sammála þér í því að hið opinbera eigi að stíga inn og leggja til fé í innviði. Það var lítið sem ekkert um það á síðasta kjörtímabili og áframhald er á því á þessu kjörtímabili, vegna þeirrar ranghugmyndar um að hið opinbera eigi að skera niður þegar skuldakreppa einkageirans á sér stað.

        Vegna fjármögnunarleiðar skuldaleiðréttinga eru áhyggjur varðandi greiðslujöfnuð og verðbólgu réttmætar. Það breytir þó ekki kjarna málsins – sjálf yfirskuldsetning einkageirans.

        Tvær athugasemdir:

        Þú telur að skuldalækkanir munu helst gagnast vel stæðu fólki. Starfshópurinn telur það ekki. Hvað er það við niðurstöður starfshópsins sem ekki standast að þínu mati?

        Atvinnuþáttaka er hlutfall vinnuafls af heildarmannfjöldanum. Vinnuafl samanstendur af starfandi og atvinnulausu fólki. Atvinnuleysi er hlutfall atvinnulausra af vinnuaflinu. Í ljósi hve margir (1) hafa flutt af landi brott, (2) eru í háskólanámi og utan vinnumarkaðs vegna þess og (3) eru á framfæri sveitarfélaga því réttur til atvinnuleysisbóta er liðin vegna langtímaatvinnuleysis, er sú staðhæfing að ekki megi sækja meiri hagvöxt í aukna atvinnuþátttöku afar villandi. Sér í lagi í ljósi aukinnar framleiðslugetu hagkerfisins með minni skuldsetningu einkageirans.

  • kristinn geir st. briem

    þessi hefur sömu galla og kosti og 110% leiðin og var ég ekki sérstaklega hrifinn af þeirri leið það er ekki verið að taka á vandanum heldur að koma með deifilyf til að viðhalda greiðsluvilja eflaust eikur þettað eigiðfé íbúðarlánasjóð hef miklu meira trú á verðtryggíngarnemdinni og nýja húsnæðiskerfið sem vonandi verður hægt að skuldbreita gömlum lánum til 40 ára á lægri vöxtum þanig að fólk ráði við greiðslurnar

  • Torfi Hjartarson

    Allt orkar tvímælis þá er gert er. Þær almennu aðgerðir sem stjórnvöld hafa kynnt eru þó ótvírætt skref í rétta átt og koma líka sannarlega úr óvæntri átt. Staðreyndin er sú að í kjölfar falls krónunnar þá er sá hópur sem hefur það ágætt orðinn mjög lítill og all flestir, jafnvel þeir skuldlitlu, hafa úr litlu að moða eftir hver mánaðarmót. Almenn skuldaniðurfærsla mun lækka greiðslubyrði fjöldans og við það mun neysla og fjárfesting vaxa og þar með stuðla að hagvexti. Það hvort eigið fé fólks í íbúðum hefur eitthvað hækkað tímabundið breytir ekki öllu í þessu sambandi enda fæstir á þeim skónum að fara að selja ofan sér húsnæðið til að nota eignaaukninguna í neyslu og fjárfestingar enda kaupir fólk sér jafnan heimili til áratuga. En þessi mantra hefur heyrst áður og nú síðast þegar skuldaauking OR var rædd á árunum fyrir hrun. Þá var gagnrýnisröddum svarað með því að fólk yrði að líta á eignaaukninguna. Það vita flestir að hún hjálpar OR lítið í þeim vandræðum sem hún er að glíma við í dag.
    Varðandi fjármálafyrirtæki í slitameðferð þá hef ég ekki heyrt neinn annan en gagnrýnendur aðgerðanna halda því fram að í tillögunum felist ásökun um að kröfuhafar hafi borið ábyrgð á rekstri bankanna. Hvernig ætti einhverjum að detta það í hug? NIðurfelling á undanþágunni til þeirra er löngu tímabær enda skattfrelsi fyrirtækjanna stórundarlegt. Vonandi fara menn að skoða mál þessara fyrirtækja í stóra samhenginu núna þegar rykið er að setjast eftir hrunið. Þegar neyðarlögin voru sett lá hvorki fyrir skýrsla RNA né dómsmál sem hafa verið höfðuð í kjölfar hennar. Það lá ekki fyrir að það var ofvöxtur bankanna sem leiddi til falls þeirra og dró Seðlabankann með sér í fallinu. Fram hefur komið að eigið fé þeirra byggðist á lánsfé úr kerfinu og stærstu skuldararnir voru eigendurnir. Rýrnun á útlánasafni var ekki færð í ársreikninga. Rökstuddur grunur er um að hlutabréfaverði hafi verið haldið upp með útbreiddri markaðsmisnotkun miðað við þau dómsmál sem hafa verið höfðuð. Þegar starfsemi bankanna verður skoðuð í kjölinn og afleiðingar hennar á landshagi þá held ég menn eigi eftir að komast að þeirri niðurstöðu að fyrirtækin séu skaðabótaskyld gagnvart íslenska ríkinu og Seðlabankanum vegna vísvitandi blekkinga o.s.frv. Hagstjórnin í aðdraganda hrunsins ýkti vissulega afleiðingar þess og vissulega má gagnrýna Seðlabankann fyrir 250 milljarða tap en pólitík má ekki verða til þess að það tjón liggi óbætt hjá garði.

  • Framúrskarandi grein!

    Veikleikar eru hins vegar þau gildi sem höfundur gefur sér.

    Hann gengur t.d. út frá því að ALLIR vilji:

    „hagvöxt, atvinnu, jöfnuð og velferð.“

    Sjálf hef ég miklar efasemdir um hagvöxt – hann er ekki nauðsynlega ávísun á betra líf – hagvöxtur er ekki það sama og vellíðan og hagsæld, stöðugleiki og mannlíf.

    Atvinna -sífellt fleiri Íslendingar nenna ekki að vinna. Þess vegna eru til stjórnmálaflokkar sem gera út á að fá atkvæði þeirra sem treysta á bótakerfið og tryggingakerfið. Þetta eru sérhagsmunir sem vinstri flokkar og menn á borð við síðuhöfund standa vörð um til að kaupa atkvæði – alveg eins og Sjálfstæðisflokkur og Framsókn kaupa atkvæði kvótafólks og ríkisbænda. Sérhagsmunir vs. almannahagsmunir – þetta er stærsta lygi íslenskra stjórnmála.

    Jöfnuður? Jú gagnvart lögum og möguleikum – en við viljum ekki algjöran jöfnuð sem kommúnistar og velferðarskátar Samfylkingar standa fyrir. Þetta er einfaldlega búið – out – skráið ykkur inn í heiminn á ný og hendið hatri og einelti Jóhönnustjórnarinnar. Þetta er búið mál.Jafnræði – já – jafnrétti -já – algjöran jöfnuð – NEI!

    Velferð?
    Örugglega. En við munum „norrænu velferðarstjórnina“.
    Getið þið bara ekki látið okkur í friði – ha?

    Hvernig væri það?

    Þakkir og kveðja
    Rósa G.G.

    • Ég segi „til dæmis um hagvöxt, atvinnu, jöfnuð og velferð“. Það eru þau gildi sem ég hygg að flestir séu sammála um að séu meðal helstu markmiða stjórnmála og hagstjórnar, en eflaust ekki allir.

      Þegar sagt er „jöfnuður“ þá er átt við jöfn tækifæri, til dæmis staðgóða menntun fyrir alla óháð efnahag, jafnrétti, að unnið sé gegn forréttindum og mismunun, og borgaraleg, efnahagsleg, menningarleg og félagsleg réttindi tryggð. Það þýðir líka að þeir sem betur mega sín leggja meira til samfélagsins en þeir sem standa höllum fæti.

  • „Tja, um 25% kjósenda völdu Framsóknarflokkinn, það eru nú öll ósköpin.“ – að sama skapi hvað var stór hluti kjósenda sem samþykkti að fara út í að sækja um ESB á sínum tíma?

    • Það var rúmur meirihluti þess Alþingis sem kjörið var 2009 sem samþykkti að sækja um aðild að ESB. Já sögu 33 og Nei sögðu 28.

      • Epli og appelsínur voru sjónvarpsefni á RÚV einu sinni, en það þýðir ekki að þú getir notað það í röksemdarfærslu. Þú talar fyrst um 25% sem er fylgi í alþingiskosningum og svo talarðu um niðurstöðu á alþingi. Þú veist að það er ekki það sama. Eigum við þá að tala um hver niðurstaðan verður þegar þetta frumvarp verður samþykkt á Alþingi. Telurðu að það verði bara 25% af alþingismönnum! Nei það verður væntanlega vel yfir meiri hluta. Þú notar alltaf röksemdarfærslur sem henta þínum málstað eingöngu og fólk er orðið þreytt á að hlusta á skotgrafarhernað endalaust.

        Og nóta bene nú fáið þið mistökin beint í andlitið að hafa ekki lagt það fyrir þjóðina hvort ætti að fara í umsókn um ESB, því þegar það er trash in þá er trash out og klárt mál að það á að nota sama form af lýðræði og tók þessa vitleysu af stað – þeas fulltrúarlýðræði. Málið er sem betur fer dautt.

  • Þorvaldur Logason

    Stóra spurningin er þá Vilhjálmur af hverju afhjúpaði Samfylkingin ekki fyrir löngu þessa veikleika í röksemdinni fyrir forsendubrestinum?

    Að kröfuhafarnir bæru ekki ábyrgð á rekstri gömlu bankanna, „forsendubrestur“ hafi ekki orðið hjá þeim sem keyptu húsnæði fyrir 2004-2005 og bankarnir hafi ekki hagnast á verðtryggðum húsnæðislánum (né gengistryggðum) – en því hefur her manns í kringum HH og framsókn haldið fram.

    Mætti tala um þann sláandi „ályktunarbrest“að ef það var forsendubrestur á verðtryggðum lánum þá gildir það um öll verðtryggð lán, annað er sérhagsmunagæsla, ekki réttlætiskrafa.

    P.S.

    Svo mætti bæta við úttekt á stóru blekkingunni um að til séu tvö stór og skýrt aðskilin mengi: 1. Heimili sem skulda í fasteign 2. Heimili sem áttu sparifé (yfir innistæðutryggingarmörkum) í hruninu

  • Það er hægt að setja þetta fram á ýmsan máta og gefa sér ýmsar staðreyndir.

    Oftast til að skapa ólgu og reiði.

  • Hjalti Atlason

    Vilhjálmur það er ekkert til sem heitir gallalaus almenn aðgerð.
    Þegar innlánsreikningar almennings var tryggður í topp í almennri aðgerð var talaðu um að skynsamlegt hefði verið að stopp í 15 milljónum því þá hefði 95% fólks fengið sitt til baka. Það var hins vegar ekki gert enda almenn aðgerð.
    Það er búið að vinna í sértækum lausnum síðustu 5 árin og árangurinn hefur látið á sér standa. Þessi aðgerð er almenn og hún er í stjórnarsáttmála lýðræðislega kjörina fulltrúa.
    Er sammála þér að það á að nýta bankaskattinn til að greiða niður skuldir ríkis og minnka þar með þær álögur sem verða sendar á börnin vegna hrunsins. Þessa leiðréttingu hefði átt að prenta enda eigum við sem kusum þetta yfir okkur að finna fyrir leiðréttingunni með lækkuðum kaupmætti í stað þess að senda reikningin óbeint á börnin okkar.
    Þannig að sammála þér með skattinn en þess leiðrétting er einfaldlega samfélagssátt sem þarf að klára.

    • Skattgreiðendur borguðu ekki fyrir tryggingu innistæðna (nema að litlu leyti og óbeint). Sjá: http://blog.pressan.is/vthorsteinsson/2012/07/24/innistaedutryggingar-og-skattborgarar/

      Þessi aðgerð hefði verið mun skárri og nýst miklu betur ef til dæmis hefði verið sleppt heimilum þar sem fasteignamat húsnæðis hefur hækkað meira en segjum 10% umfram lánskjaravísitölu (þ.e. verðtryggðar skuldir) frá því að fasteignin var keypt. Af hverju á fólk sem er með fína eignamyndun í fasteigninni sinni að fá milljónir í millifærslu frá ríkissjóði (=okkur öllum)?

  • Hrafn Arnarson

    Stóra millifærslan eer ekki almenn aðgerð og hún gagnast ekki öllum heimilum landsins hafi það nokkurn tíma verið ætlunun þrátt fyrir margendurteknar yfirlýsinar að gera eitthvað fyrir heimili landsins. 20000 heimili skulda ekkert. 30000 heimili leigja. 70000 heimili skulda verðtryggð fasteignalán. Sum eru í greiðsluvanda en önnur ekki. Sum eru með neikvætt eigið fé en okkur ekki. Sum eru bæði í greiðsluvanda og með neikvætt eigið fé. Þeir sem keyptu húsnæði á árunum 2002 til 2005 og tóku verðtryggð lán ættu langflestir að vera með mjög góða eiginfjárstöðu,þ.e. ávöxtun eiginfjár var afbragðs góð. Þessi hópur var niðurfærslu sinna verðtryggðu skulda verði tillögur að lögum. Það er hvorki réttlátt né efnahagslega skynsamlegt. Hvað um leigjendur? Þeim er náðasamlegast bent á séreignasparnað. Það eru helst þeir sem hafa meir en miðlungstekjur eða háar tekjur sem eiga nú séreignasparnað. Er þetta raunhæfur kostur fyrir leigjendur?

  • Rósa segir að ofan:

    Hann ( Vilhjálmur ) gengur t.d. út frá því að ALLIR vilji:

    “hagvöxt, atvinnu, jöfnuð og velferð.”

    Sjálf hef ég miklar efasemdir um hagvöxt – hann er ekki nauðsynlega ávísun á betra líf – hagvöxtur er ekki það sama og vellíðan og hagsæld, stöðugleiki og mannlíf.

    Algerlega sammála.

    Almennt er umræðan um nauðsynlegar umbætur í íslensku þjóðfélagi í dag allt of flöt og einhliða.

    Hagvöxtur er ofnotað hugtak sem einhver lausn á okkar vandræðum.

    Það er löngu kominn tími til að huga sinna betur að þeim sem minna mega sín – siðferðið er bara ekki í lagi þessa dagana

  • Þór Saari

    Gjaldkeri Samfylkingarinnar að afneita Hruninu. Það varð enginn forsendubrestur segir hann. Ehemmm… Ó já, Samfylkiingin var í ríkisstjórn á þessum tíma.

  • Lastu það sem Þorsteinn skrifaði, Þór? Ef svo er, þá ættirðu að lesa það aftur og betur.

  • Úlfur Eldjárn

    Sæll Vilhjálmur. Ég tek eftir því að þú talar um að aðgerðirnar skili peningum til fólks sem ekki ÞURFTI að fara 110% leiðina. Hið rétta er, svo ég leiðrétti eina „rökvillu“ á móti, að fjöldi fólks var ekki með nógu háar tekjur til að GETA farið í 110% leiðina. Hún hentaði eingöngu fólki sem stóðst afar hátt miðað greiðslumat. Hugsanlegt er að lágtekjufólk sem var með lán hjá lífeyrissjóði eða Íbúðalánasjóði, og hafði þó vit og tök á að leita ekki eftir hinum kafkaísku úrræðum sem var boðið upp á hjá Umboðsmanni skuldara, sé nú að fá sína fyrstu leiðréttingu eftir hrun.

    Bestu kveðjur,
    Úlfur Eldjárn.

  • Úlfur Eldjárn

    Þeir sem gátu farið í 110% fengu höfuðstólinn færðan niður. Mikill munur á því og að fá vexti endurgreidda. Ertu nokkuð ósammála því. 110% lausnin var eingöngu í boði fyrir hátekjufólk, en að vísu buðu bankarnir (semsagt ekki Íls og lífeyrissjóðirnir) upp á fjölbreyttari lausnir fyrir sína viðskiptavini sem þýðir að fólki var einnig mismunað eftir því hvar það var í bankaviðskiptum. Ég á mjög erfitt með að sjá jafnaðarmennskuna í því hvernig fólk með háar tekjur fékk fljótt og örugglega greitt úr sínum málum á meðan tekjulágir eða atvinnulausir skuldarar voru annað hvort „gerðir upp“ eða haldið í pattstöðu af kröfuhöfum sem neituðu að semja um niðurfellingar. (Margir fastir í því enn.)

    Það er ekki lítil hræsni fólgin í því að maðurinn sem bar pólítíska ábyrgð á því að leið ójafnaðar skyldi farin í aðgerðum fyrri ríkisstjórnar, skuli nú sem formaður Samfylkingarinnar, gagnrýna aðgerðir nýju ríkisstjórnarinnar fyrir að gagnast einkum tekjuháu fólki!!! Hafa ber í huga að þeir sem voru með háar tekjur og háar skuldir eru sennilega flestir búnir að fara í gegnum 110% leiðina eða sambærileg úrræði og eru því löngu búnir að fá Stóru Millifærsluna. Og ekki gleyma öllu ríka fólkinu sem fékk Stóru Millifærsluna í gegnum afskriftir á skuldum rekstrarfélaga og eháeffanna sinna. Það þurfti engar almennar aðgerðir til að koma til móts við þann hóp. Sá hópur þurfti ekki að bíða lengi eftir aðgerðum.

    Það er með öðrum orðum löngu búið að leiðrétta forsendubrestinn hjá þeim sem voru með háar tekjur og háar skuldir á villunum sínum og fjórhjólunum. Það var líka komið í veg fyrir „forsendubrest“ hjá sparifjáreigendum, og jafnvel gengið í að bæta þeim sem áttu peninga verðbréfasjóðum tjón sitt! Sé ekki að það sé óeðlileg krafa að forsendubresturinn sé leiðréttur hjá öðrum líka.

  • Ásmundur

    Þetta er mest bull hjá þér, Úlfur.

    Flestir velstæðir einstaklingar voru með lán sem voru undir 110% af verðmæti íbúaðarinnar. Þeir fá nú allir leiðréttingu óháð og öðrum eignum og tekjum og óháð því hve skuldin er hátt hlutfall af íbúðinni. Flestir þeirra hafa auk þess ekki orðið fyrir neinum „forsendubresti“ enda var stofnað til skuldanna fyrir 2005.

    Meðan fyrri aðgerðir voru á kostnað fjármálastofnana eru þessar aðgerðir að öllu leyti á kostnað ríkissjóðs. Hér er þvi um að ræða gífurlega sóun á fé þegar síst skyldi. Þessu fé væri miklu betur varið í að greiða skuldir ríkisins og efla heilbrigðis- og menntakerfið.

    Það fengu allir að njóta 110% reglunnar óháð tekjum svo framarlega sem hún var talin koma að gagni. Það var ekkert gagn í henni í þeim tilvikum þegar gjaldþrot var hvort sem var talið óhjákvæmilegt.

Höfundur