Mánudagur 31.03.2014 - 00:03 - Lokað fyrir ummæli

Átta rök gegn Stóru Millifærslunni

Stóra Millifærslan, eða „leiðrétting verðtryggðra fasteignaveðlána“ eins og hún heitir formlega, er afskaplega misráðin aðgerð.

Hér á eftir fara átta rök fyrir þeirri fullyrðingu, en nefna mætti fleiri.

 1. Stóra Millifærslan byggir ekki á greiningu á viðfangsefninu. Vönduð vinnubrögð fælust í því að greina hver vandinn er og hvar hann liggur, og finna svo hagkvæmustu leiðir til að bregðast við honum. Markmið og skylda stjórnvalda á að vera að nota skattfé með sem skilvirkustum hætti og tryggja sem best heildarhag ríkissjóðs fyrir hönd almennings og komandi kynslóða. Ekki verður séð að Stóra Millifærslan, jafn stór og hún er, byggi á neinni alvöru greiningarvinnu eða kerfisbundnu mati á valkostum í stöðunni.
 2. Hún byggir hins vegar á misskilningi. Þeir sem taka lán og kaupa fasteign standa uppi með eign og skuld, debet og kredit. Ef krónan okkar blessuð fellur verður verðbólga, sem þýðir að hver króna verður verðminni. Það hækkar á endanum upphæðir bæði eigna og skulda. Stóra Millifærslan gengur út á að „leiðrétta“ nafnhækkun skuldanna, alveg án þess að skoða hvort eignirnar hafi líka hækkað. Það er galið, vegna þess að verðmæti fasteigna langflestra sem keyptu 2004 eða fyrr hefur þrátt fyrir allt hækkað meira en skuldirnar. Stóra Millifærslan afhendir því fólki engu að síður mikla peninga úr ríkissjóði – þó að enginn sé „forsendubresturinn“.
 3. Hún hjálpar alls ekki öllum. Stóra Millifærslan gerir ekkert fyrir leigjendur eða þá sem búa í búseturéttaríbúðum. Húsnæðissamvinnufélög eru raunar sérstaklega undanskilin „leiðréttingu“ í frumvarpinu, sbr. 3. mgr. 3. gr. þess.
 4. Hún tekur ekki til námslána né annarra verðtryggðra lána. Ef hugmyndin er sú að „forsendubrestur“ hafi verið almennur og að hruni krónunnar megi líkja við „ófyrirsjáanlegar náttúruhamfarir“ eins og Framsóknarflokkurinn heldur (ranglega) fram, er erfitt að sjá rökin fyrir því að undanskilja námslán og önnur verðtryggð lán.
 5. Hún hefur ekki verið fjármögnuð. Framsóknarflokkurinn talaði í kosningabaráttunni um að það væri einfalt að sækja fé til hrægamma og vogunarsjóða. Óhjákvæmilegt væri að „svigrúm“ myndaðist, upp á 300-800 milljarða, sem unnt yrði að galdra einhvern veginn til skuldara. Efndirnar á stóru orðunum eru þær að til stendur að afla 80 milljarða í ríkissjóð með nýjum skatti á skuldir (já, skuldir) stórra fjármálafyrirtækja, þar á meðal fallinna banka í slitameðferð. Ríkisstjórnin treysti sér ekki til að ná í þessa peninga í einu lagi, heldur er ætlunin að leggja skattinn á í fjögur ár og afla með því 20 milljarða á hverju ári. Þeim 20 milljörðum verður ráðstafað jafnóðum til niðurfærslu fasteignalána – ef Alþingi samþykkir þá ráðstöfun á fjárlögum hvers árs. Það er síðan háð tvennu: Að skattlagningin standist fyrir dómstólum, en næsta víst er að á það verður látið reyna; og því að föllnu bankarnir verði í slitameðferð í fjögur ár og að skattandlagið verði þar með fyrir hendi. Allt er þetta óvissu háð.
 6. Hún gagnast best þeim betur stæðu og þeim sem eru í minnstum vanda. Stóra Millifærslan er nefnilega hvorki jafnandi aðgerð né hlutlaus (flöt), hún ýkir beinlínis ójöfnuð. Í fyrsta lagi er niðurfærslan í hlutfalli við upphæð láns, þannig að sá sem skuldaði mikið og átti stóra eign fær meira í sinn hlut en sá sem lét sér nægja hóflegra húsnæði og fór varlega í skuldsetningu. Sama gildir um tekjustigann: því meiri tekjur, því meiri niðurfærsla. Yfir 15% niðurfærslunnar, 12 milljarðar króna, fer til heimila með 12 milljónir eða meira í árstekjur. Í öðru lagi er ekkert tillit tekið til þess að eignir margra, einkum fólks á miðjum aldri og eldra, hafa hækkað meira en skuldirnar, eins og áður var minnst á. Í þriðja lagi dragast fyrri aðgerðir frá Stóru Millifærslunni. Þær aðgerðir voru einkum ætlaðar þeim sem voru í mestum vanda, og/eða voru útfærðar með þaki pr. heimili eða einstakling. Það þýðir að þeir sem fá mest núna eru þeir sem ekki voru í miklum vanda fyrir og/eða voru yfir viðmiðunarþaki fyrri aðgerða. Þannig er Stóra Millifærslan beinlínis hönnuð þannig að verst stadda fólkið sem hefur fengið mest hingað til – af því að þar var og er þörfin mest – fær minnst núna.
 7. Hún er líkleg til að auka gjaldeyrisútstreymi, veikja krónuna og valda verðbólgu. Þegar svona stórum fjárhæðum er slakað út í hagkerfið, og þar af vænum hlut til vel stæðra heimila sem eru ekki í neinum fjárhagsvanda, leitar talsvert af þeim í ýmis konar valfrjálsa einkaneyslu ofarlega í þarfapýramídanum. Með öðrum orðum: flatskjái, snjallsíma, utanlandsferðir og Landcruiser-jeppa. Það eykur innflutning og veldur útstreymi gjaldeyris, sem síðan veikir krónuna og er verðbólguhvetjandi. Og þá hækkar aftur fjárhæð verðtryggðu lánanna okkar allra, í þeirri gamalkunnu hringekju sem krónan heldur okkur í.
 8. Hún er á kostnað unga fólksins og skattgreiðenda framtíðarinnar. Ef unnt reynist að innheimta 80 milljarða í ríkissjóð með nýjum sköttum er vissulega möguleiki í stöðunni að verja því fé til að færa niður skuldir fólks sem var með verðtryggð fasteignalán 2008-2009. En annar – og skynsamlegri – valkostur er sá að nota hluta fjárins til að styðja velferðarkerfið, hjálpa þeim sem urðu verst úti vegna fasteignakaupa á árunum 2005-2008 og eiga svo talsverðan afgang eftir til að greiða niður skuldir ríkissjóðs og spara með því vaxtagreiðslur til frambúðar. Það er ungu fólki og skattgreiðendum framtíðar í hag. Sá hópur mun í reynd bera kostnaðinn af Stóru Millifærslunni með hærri sköttum og/eða lakari menntun og heilbrigðisþjónustu í framtíðinni en þyrfti að vera.

Alþingismenn eru eingöngu bundnir við sannfæringu sína samkvæmt stjórnarskrá lýðveldisins. Ég skora á þá að sníða þetta mál þannig í meðförum þingsins að þeim sem á þurfa að halda verði hjálpað, sérstaklega þeim sem keyptu fasteign eða stækkuðu við sig 2005-8 og eru í skulda- eða greiðsluvanda. Að öðru leyti verði takmarkaðir fjármunir notaðir til uppbyggingar og til að lækka skuldir ríkissjóðs. Það er hin skynsamlega og ábyrga leið í stöðunni.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

«
»

Ummæli (23)

 • Frábær greining

 • Með „Stóru Millifærslunni“ eru stjórnvöld almennt að reyna að leiðrétta misræmi sem varð á milli þróunnar launa og lána. Slík leiðréttinga á eðlilega að koma með hærri launum fólks en ekki miðstýrt af hendi stjórnvalda.

  Þú nefnir réttilega að það ætti að bæta þeim skaðan „sem keyptu fasteign eða stækkuðu við sig 2005-8 og eru í skulda- eða greiðsluvanda.“ Í þeim hóp eru líklega margir sem nutu leiðréttingar 110% leiðarinnar. Nú er það tekið til baka því sú leiðrétting er frádreginn í „Stóru Millifærslunni“.

  Hugmyndafræðin að baki þessari leiðréttingu er ekki djúpt hugsuð. Svo ekki sé meira sagt.

 • Hrafn Arnarson

  Ég er sammála þessari greiningu. 1) skýrsla nefndarinnar fól ekki í sér neina sjálfstæða rannsóknarvinnu. Hún var hins vegar ágæt samantekt á fyrirliggjandi skýrslum. Skýrsla nefndar um afnám verðtryggingar fjallaði alls ekki um iðfangsefnið. 2)Verðtryggð lán eru á kredit hlið lántakenda. Þau eiga að vera mælikvarði á forsendubrest en aðgerðin verður þá að ná til allra verðtrygðra lána en svo er ekki. 3) Aðgerðin er mjög sértæk en alls ekki almenn. Að halda því fram að aðgerðin sé almenn er annað hvort algert skilningsleysi eða ómerkilegur áróður. 4)Fjármögnun er óviss en aðgerðin sjálf í ríkisábyrgð. 5) Þeir sem skulda mikið, hafa háar tekjur og miklar eingnir fá hlutfallslega mest. Það er óréttlátt og efnhagslega óskynsamlegt. 6)Verðbólguáhrif aðgerðanna eru vanmetin.

 • kristinn geir st. briem

  þessi tilaga er málamiðlun tveggja flokka með sem voru ekki samála um aðgerðir með yfrumsjóm manns sem var ekki hrifin af tilögum framsóknar en niðurstaða er niðurstaða. nú hefur þingið stutta tíma ef á að klára þettað fyrir 15 maí sem mér skilst að séu eftir 10. þíngdagar svo þettað verður tæpt. 1. þettað var sett í nemd á seinasta ári áligtun alþíngis setti þeiri nemd áhveðnar skorður . ekki er en búið að útfæra þettað að fullu. 2. það skiptir ekki máli í sjálfu sér hver eignastaðan er það er greiðslugétan sem skiptir máli. út á hvað gekk 110%. var það ekki að koma skuldum nær eignum manna íbúðarverð lækkaði ekki mikið á þessu tímabili heldur hækkuðu skuldirnar mikið svo það áttu fáir rétt á niðurfærlunni. ef notuð eru rök vilhálms hér að ofan
  3.4. loforðin geingu bara á um húsnæðislán.
  5. framsókn talaði ekki um að þettað yrði einfalt. og talaði um millileiki meðan þessir peníngar yrðu sótir . bankarnir hafa þegar boðið 100ma.kr.
  6. gét verið samála þessu. en græt það ekki þó eldri millifærslur séu séu dreignar frá
  7. þettað fer alt eftir úitfærlsunni hvernig geingur. er reindar þannig stemdur nú um stundir að treista ekki sjálfstæðismönum fyrir fjármunum.
  8.trúirðu virkilega að þettað sé fyrsta húsnæðiskrísan hér á landi þettað hefur gerst með reklulegu millibili gegnum tíðina og yfirleit hafa skattborgarar framtíðarinnar borgað brúsan en nú er ríkisjóður tómur og gétur trauðla tekið ný lán.
  en er samála um að það eigi að hjálpa þeim sem eru hjálparþurfi ekki öðrum. en það er skilda sveitarfélaga að útvega íbúum þaki yfir höfuðið en ekki ríkisins fræðilega séð. og ríkið á í raun ekki að skipta sér að húsnæðismálum en gerir það samt en nú eru aðrir tímar og lífeyrisjóðir hafa bolmagn til að standa straum af ibúðarlánasjóði og ættu í raun að taka hann yfir því það eru þeirra félagsmen sem njóta góðs af honum

 • Þú getur bætt við einu við. Útfærslan á þessum úrræðum kostar þjóðfélagið gríðarlegar fjárhæðir í framkvæmd þessara úrræða, kostnaður sem lendir á aðilum eins og RSK, lánastofnunum og vörsluaðilum séreignarsparnaðar. Gríðarlegur kostnaður fer í þróun á nýjum tölvukerfum. Það er mikil skortur á forriturum í landinu eins og þú þekkir og sorglegt að eyða vinnu þeirra í þróun á kerfum sem hafa svo stuttan líftíma (3 ár).

  • Það er margt fleira sem mætti einnig nefna, svo sem áhrifin á Íbúðalánasjóð sem hafa lítt verið metin. Þarna verður jú uppgreiðsla á hluta lánanna hjá ÍLS sem þýðir að hið fræga óinnleysta tap hans innleysist. Þar með mun ríkissjóður þurfa að bæta tjónið með eiginfjárframlagi inn í sjóðinn. Það framlag er hvergi á fjárlögum ennþá né er það innifalið í kostnaðarútreikningi aðgerðanna.

 • Kristinn Geir St. Briem:

  Þú ferð með tvær veigamiklar rangfærslur. Þú segir:

  „framsókn talaði ekki um að þettað yrði einfalt.“

  Jú. Framsókn gerði nákvæmlega það. Í sinni kosningabaráttu lögðu þau í Framsókn mikla áherslu á hvað þetta væri sáraeinfalt og „óumdeilt“. (Svo einfalt og sjálfsagt raunar, að óþarft var að ræða um smáatriði svo sem nákv. útfærslu.)

  „talaði um millileiki meðan þessir peníngar yrðu sótir“

  Nei. Framsókn talaði sko alls ekki um neina millileiki, ekki orð um slíkt FYRIR kosningar. Þvert á móti var hamrað á því aftur og aftur að það þyrfti bara að fara og sækja þessa peninga, „svigrúmið“ væri til staðar.

  Sjá t.d. hér, frá apríl 2013:

  http://www.visir.is/svona-segist-sigmundur-david-aetla-ad-efna-kosningalofordid/article/2013130409393

 • kristinn geir st. briem

  einar karl: nú hlít ég að vera torlæs. en sé hvergi í greininni að þettað yrði auðvelt.nú fór ég á hinna ýmsu fundi hjá framsókn þar kom hvergi fram að þettað yrði auðvelt verk. nú kom það fram í barátuni að framsókn væri opin fyrir ýmsum hugmindum til að minda h.grænum og svo skoðuðu þeir hugmindir dögunar með opnum huga svo útfærslan var ekki fullfrágeingin í kosníngunum en fjármagnið átti að koma frá bönkunum. ég fór á fundi hjá framsókn en það er greinilegt að einar fór ekki á þá.

 • kristinn geir st. briem

  gleimdi um millileikin nú verð ég að játa að þettað sá ég í sjónvarpskappræðum en gét ómögulega munað hjá hverjum eflaust gétur vilhjálmur fundið það hann er fundvís á ymsa hluti

  pétur: ekkert er ókeipis og útfærslan er varla komin fram t.d. hvernig á að færa 70-80.ma.kr. frá ríki til kröfuhafa

 • Ómar Kristjánsson

  9. Auk þess að vera millifærsla frá hinum verr stæðu til hinna betur stæðu, þá er líka um að ræða millifærslu frá landsbyggð til reykjavíkursvæðis.

 • jon ó Vilhjálmsson

  Það vantar eii í stóru millifærsluna sem gert var strax það var að tryggja allar innistæður ó háð upphæð hvað kostar það þegar upp er staðið?.
  Þá voru þeir sem höfðu stöðu skuldara skyldir eftir nú er verið að greiða þeim sangirnisbætur að hámarki 4000000 en innistæðut voru greiddar án þaks sumir fengu ómældar upphæðir.

  • Trygging innistæðna var ekki á kostnað skattborgara, Jón, nema að litlu leyti í SpKef. Sjá nánar: http://blog.pressan.is/vthorsteinsson/2012/07/24/innistaedutryggingar-og-skattborgarar/

   • Gunnar Egilsson

    Þú veist mæta vel Vilhjálmur að trygging innistæðna var að stórum hluta á kostnað almennings.
    Getur þú svarað hvaða sanngirni fellst í að bæta einum hóp sitt „tjón“eða jafnvel tryggja alveg gagnvart tjóni eins og gert var með þessari aðgerð?
    Af hverju máttuð þið fjárfestar ekki taka skellinn eins og allur „almenningur“
    Ég held að rétt sé að 11% þjóðarinnar hafi átt 90 þessara innistæðna.
    Það er jú fyrst og fremst græðgi ykkar fjárfesta og andstaða ykkar við afnám og eða leiðréttingu á útreikningi vísitölu sem veldur þessari gífurlegu hækkun lána .Það er margsannað að vísitalan er rangt reiknuð og það verjið þið með öllum ráðum .

 • Marinó G. Njálsson

  Margs konar misskilnings gætir í grein þinni, Vilhjálmur.
  1. Að leiðréttingin byggi ekki á vandaðri greiningu er mikill misskilningur. Fyrsta vandaða greiningin á þessu var gerði í október og nóvember 2010. Þá var skilað skýrslu til ríkisstjórnar Jóhönnu og Steingríms um málið. Ég tók þátt í þeirri vinnu og þó svo að fulltrúar fjármálageirans hafi ekki komist að sömu niðurstöðu og ég, þá get ég mjög vel rökstutt mína niðurstöðu að byrja á leiðréttingu eins og þeirri sem núna er ætlunin að gera.
  2. Gott að geta gripið til skýringa hagfræðinga sem eru að verja verðtrygginguna. Leggðu þessi rök fyrir hagfræðinga í Þýskalandi, Svíþjóð eða Spáni (svo tekið sé af handahófi) og þeir myndu hrista hausinn.
  3. Þessari aðgerð var aldrei ætlað að hjálpa öllum. Henni er beint að heimilum með verðtryggð húsnæðislán. Hvað er svona erfitt við að skilja þetta?
  4. Aftur: Þessi aðgerð er vegna húsnæðislána. Hvers konar tregða er að skilja það ekki og blanda einhverju allt öðru inn í umræðuna? Vilji menn leiðrétta verðtryggð námslán, þá er það allt önnur aðgerð. Hún á fullan rétt á sér, en kemur þessari aðgerð ekkert við.
  5. Hún hefur víst verið fjármögnuð. Búið er að hækka með lögum skatt á fjármálafyrirtæki. Með sömu rökum hafa laun þingmanna ekki verið fjármögnuð eða starfsemi lögreglu eða starfsemi Haga eða hvaða starfsemi þar sem kostnaður við reksturinn er greiddur af tekjum sem koma síðar á árinu. Þetta er barnalegt viðhorf.
  6. Allir sem skulduðu verðtryggð húsnæðislán urðu fyrir því að lán þeirra hækkuðu. Þeir sem skulda mest eru líklegast þeir sem höfðu mestu greiðslugetuna. Rökin þín eru að maðurinn sem lendir í tjóni á dýra bílnum eigi ekki að fá tjón sitt bætt vegna þess að hann er á dýrum bíl og á hugsanlega sand af seðlum. Kannski að þú látir tryggingafyrirtækið þitt vita af því, ef þú lendir í tjóni, að þú sért vel ríkur og ráðir við að bera tjón þitt sjálfur.
  Annað varðandi þetta atriði, er að 4 m.kr. mörkin gera það að verkum, að minna misvægi verður. Þriðja er að þessir „óverðugu“ eru líklegast búnir að nýta sér alls konar úrræði nú þegar, vegna þess að þeir hafa peninga til að kaupa sér ráðgjöf sérfræðinga.
  Hafi eignirnar hækkað í verði, þá mun ríkið fá fjármagnstekjuskatt af þeirri hækkun við sölu. Fólk mun ekki endalaust stækka við sig. Það kemur að því að það fer í ódýrara húsnæði og þá fær skatturinn sitt.
  Varðandi að fyrri aðgerðir hafi verið ætlaðar þeim sem voru í mestum vanda, þá er það að hluta rangt. Já, 2 ára fyrning vegna gjaldþrots og greiðsluaðlögun var fyrir þá sem voru í mestum vanda, en 110% leiðin og sértæk skuldaaðlögun voru það ekkert endilega. Þær voru nákvæmlega sama marki brenndar og sú aðgerð sem þú gagnrýnir. 110% leiðin nýttist best þeim sem höfðu yfirskuldsett sig fyrir hrun. Og hverjir voru það? Jú, efnaðasti hluti þjóðarinnar. Fólkið sem var með tryggingar og gott greiðslumat. Fólkið sem gat fengið lán fyrir hlutabréfum, eins og enginn væri morgundagurinn. 110% leiðin var EKKI að bjarga láglaunamanninum, þar sem hann var hvort eð er ekki með greiðslugetu fyrir svo háu láni og þó hann hefði hana við lántöku, þá var hann ekki með greiðslugetu fyrir 110%. Þess vegna fengu flestir þeir verst stöddu ekki úrlausn í gegn um 110% leiðina. Þeir fengu hana ekki heldur í gegn um sértæka skuldaaðlögun vegna þess að til þess þurfti fólk að geta staðið að lágmarki undir skuldum sem jafngiltu 80% af öllum eignum sínum. Í skýrslu sérfræðingahópsins svo kallaða sem ég sat í, þá kom í ljós að um 7.000 heimila með húsnæðisskuldir áttu ekki fyrir neyslu í samræmi við neysluviðmið umboðsmanns skuldara! Ég kannast ekki við að aðgerðir fyrri ríkisstjórnar hafi tekið á vanda þessa hóps. Það er því kolrangt hjá þér að þeir verst settu hefðu fengið mest út úr aðgerðum fyrri ríkisstjórnar. Það voru þeir ríkustu sem fengu mest út úr þeim. Fólkið sem skuldaði 170% og þar yfir af eignamati, það kom best út og það voru ekki þeir verst settu, eins og mér sýnist þú vera að skilgreina þá.
  7. Hvers vegna hefur 200 milljarða króna leiðrétting lána heimilanna nú þegar og 1.500 milljarða króna leiðrétting lána fyrirtækjanna síðustu ár þá leitt til styrkingar krónunnar? Þessi rök halda ekki vatni.
  8. Athyglisverður punktur sem snýst að mestu um eitthvað allt annað en feitletraði textinn. En varðandi feitletraða textann. Hér er um tvö mál að ræða: 1. Skatttekjur núna væri hægt að nota í eitthvað annað: Rétt er það, en þetta er hugsað sem efnahagsaðgerð og fjármagninu er stýrt á ákveðna braut. Aðgerðin mun leiða til þess að staða Íbúðalánasjóðs batnar og því mun ekki verða sama þörf fyrir ríkissjóð að leggja honum til pening. Lýsa má aðgerðinni gagnvart ÍLS, að í staðinn fyrir að greiða 60 ma.kr. beint til ÍLS, þá hefur greiðslan viðkomu í lánum skuldara sem greiða inn á skuld sína við ÍLS. Ég held að ríkissjóður sé að spara sér mjög hátt framlag til ÍLS og því verði aðgerðin ríkissjóði að stórum hluta að kostnaðarlausu miðað við hinn kostinn að borga beint inn í ÍLS. Kostnaðurinn vegna ÍLS liggur þegar fyrir, en ríkið hefur ekki greitt inn til sjóðsins í samræmi við þarfir. 2. Skatttekjur framtíðarinnar koma ekki og því þurfa komandi kynslóðir að greiða: Þetta á bara við um skattaafslátt af séreignarsparnaði. Já, fær má rök fyrir því að skattleysi séreignarsparnaðar skili sér ekki í skatttekjum síðar. Hin hliðin er að fleiri munu taka út séreignarsparnað en annars og því sé ríkið að verða af skatttekjum strax. En segjum sem svo að eingöngu sé verið að tala um skatttekjur til framtíðarinnar. Í fyrsta lagi, þá verða þeir sem nýta séreignarsparnaðinn enn þá skattgreiðendur, þegar kemur að því að sparnaðurinn er tekinn út. Þeir tækju því þátt í því að bæta ríkinu hugsanlegt tekjutap. Í öðru lagi, þá mun niðurgreiðsla lána flýta fyrir því að fólk greiði skatt af eignum sínum. Ríkið mun því fyrr fá slíkar tekjur inn. Í þriðja lagi, þá vitum við ekkert hvaða skattkerfi verður við lýði í framtíðinni og kannski verður lífeyrir skattfrjáls þegar þar að kemur. Í fjórða lagi, þá getur vel verið að þessi lífeyrir verði skattlaus vegna þess að skattur af honum er greiddur með persónuafslætti. Í fimmta lagi, gæti verið að efnahagsleg áhrif af aðgerðinni verði þau, að ríkið geti dregið úr skattheimtu. Í sjötta lagi, gæti verið að eitthvað allt annað hafi gerst, t.d. olíufundur, og allar launatekjur á Íslandi verði undanþegnar tekjuskatti þegar þar að kemur. Í sjöunda lagi, verður kannski búið að finna upp leið til að skattleggja þá sem eru svo ríkir, að þeir borgi 30% skatt af öllum tekjum sínum, en komist ekki undan skattgreiðslum vegna þess að þeir hafa falið fé sitt í skattaparadísum. Það er svo margt sem gæti gerst í framtíðinni, að vafasamt er að fullyrða að „unga fólkið“ greiði, þegar aðgerðinni er einmitt ætlað að aðstoða þetta sama unga fólk við að koma þaki yfir höfuðið.

  Verð að viðurkenna, Vilhjálmur, að ég átti von á betri og sterkari rökum frá þér en þessum.

  • „Rökin þín eru að maðurinn sem lendir í tjóni á dýra bílnum eigi ekki að fá tjón sitt bætt vegna þess að hann er á dýrum bíl og á hugsanlega sand af seðlum.“ Nei, rök mín eru að það er fullt af fólki sem varð ekki fyrir neinu tjóni miðað við upphaflegar og réttmætar væntingar þegar það keypti fasteignina sína. Þvert á móti: flestir sem keyptu 2004 eða fyrr hafa aukið eigið fé sitt í fasteigninni umfram það sem þeir gátu gefið sér fyrirfram.

   Það er yfirleitt þannig að ef menn ætla að fá bætur úr tryggingum þá þurfa menn fyrst að sanna tjón sitt. Stóra Millifærslan sleppir hins vegar þeim þætti málsins. Þar að auki eru greiðslur úr ríkissjóði almennt engan veginn sambærilegar við útgreiðslu frá tryggingafélagi, hvernig sem á það er litið.

  • Marínó segir:
   „3. Þessari aðgerð var aldrei ætlað að hjálpa öllum. Henni er beint að heimilum með verðtryggð húsnæðislán. Hvað er svona erfitt við að skilja þetta?“

   Þetta mætti umorða svo: „Þessi risa-millifærsla úr ríkissjóði var aldrei ætluð öllum. Bara sumum. Hvað er svona erfitt við að skilja það?“

   Er nema von að spurt sé – er það eðlileg, hagkvæm og RÉTTMÆT ráðstöfun fjár úr sameiginlegum sjóði okkar allra??

   Að sumir fái bætt eitthvert meint tjón (sem eins og Vilhjálmur á í kommenti sínu, er EKKERT tjón fyrir marga) á meðan aðrir fá ekkert bætt, með lán (t.d. námslán) sem urðu fyrir sama forsendubresti??

 • Þeir myndu hrista hausinn á þér Marino, spánverjarnir, þyskararnir og svíarnir, þar sem þú greinilega fattar ekki hvernig verðtrygging fúnkerar, enfaldast hefði verið að prísa fasteignir í evrum fyrir og eftir hrun, og skuldirnar sømuleiðis, og þetta med dýra bílinn var kanski fyndið hjá þér, því þú gleimdir að nefna hvort tjónið var kasko eða orsakað af øðrum, því ódýrir bílar eru yfirleitt aldrei í kaskó.

 • Óskar Guðmundsson

  Þessari greiningu verður í raun best svarað með litlu dæmi.

  Brotist hefur verið inn hjá tveimur aðilum (A og B) og nákvæmlega eins sjónvarpstæki stolið.
  Munum einnig að A var gjaldgengur í 110% leiðinni og „Skjaldborginni“ sem B var ekki sem mótvægi við mun þeirra að aðgerðum nú.

  A keypti sitt sjónvarp á raðgreiðslum og vanefnum og hefur í dag ekki efni á nýju tæki.
  B staðgreiddi sitt sjónvarp og hefur í dag efni á að kaupa nýtt tæki.

  Ef að lögreglan er kölluð á staðina, hver er þá munur aðilanna?
  Skv dæmum þínum ætti B í raun bara að „gleyma þessu“ og kaupa sér nýtt „sjónvarp“ þar sem að hann hefur efni á því.

 • Þú ert greinilega A Óskar, jeg gæti verið B, jeg hringi ekki á løgguna nema að heimilistryggingin krefjist þess, svo kaupi jeg mér nýtt tv, sverari útihurð með øfflugri lás, og stóra hafnaboltakylfu. Þú getur farið nyður á félagsmálastofnun og grenjað út nýtt sjónvarp af því að þú kaust framsóknarflokkinn.

Höfundur