Fimmtudagur 16.10.2014 - 16:17 - Lokað fyrir ummæli

248 krónurnar eru 206

Ríkisstjórnin áformar sem kunnugt er að hækka virðisaukaskatt af matvælum úr 7% í 12%. Hún heldur því fram að með lækkun VSK af öðrum vörum úr 25,5% í 24% og breytingum á vörugjöldum verði hagur heimila í landinu jafngóður eða betri en áður.

Þetta byggir á því að fólk kaupi ekki mjög mikið af almennum matvælum, sem munu hækka í verði, og/eða að fólk kaupi mikið af öðrum vörum, svo sem heimilistækjum og sykruðum mat og drykk (flatskjám, nuddpottum og kóki), sem munu lækka í verði.

Svona reiknar fjármálaráðuneytið dæmið í eigin glærukynningu um fjárlögin (sjá glæru 29):

Fjarlagafrv-kynning-14-vefur

Þessir útreikningar hafa vakið athygli enda ekki sérlega trúverðugir. Skoðum það nánar.

Fjölskyldan í dæminu er með heildarútgjöld á mánuði upp á 465 þúsund krónur. Af þeirri tölu gefur ráðuneytið sér að 16,2% fari í matvæli og drykkjarvörur. Það eru þá 75.330 krónur á mánuði. Hækkun VSK úr 7% í 12% hækkar þá tölu í 78.850 kr (75.330/107*112). Það er hækkun um 3.520 kr eins og ráðuneytið sýnir á glærunni.

Talan 75.330 kr er hins vegar augljóslega of lágt viðmið. Hún þýðir að fjölskyldan er talin verja 2.477 krónum á dag í matvæli (75.330 * 12 / 365). Það eru 619 kr á mann eða 206 kr. á hverja máltíð miðað við þrjár máltíðir á dag.

Það sjá allir í hendi sér að þessi forsenda er vanmetin og röng. Raunverulegur matarkostnaður fjögurra manna fjölskyldu á Íslandi í dag er miklu hærri, hvað sem líður meiningum og greiningum fjármálaráðuneytis og jafnvel Hagstofu (sem raunar sver af sér ábyrgð á tölum ráðuneytisins). Það vita allir sem á annað borð reka heimili og kaupa inn mat og drykk.

Nefna má að niðurgreidd skólamáltíð í grunnskólum Reykjavíkurborgar kostar foreldrana þessa dagana 330 kr og hefur ekki hækkað í verði síðan 1. janúar 2013 – en mun væntanlega hækka þegar VSK á matvæli hækkar.

Alþingi hlýtur í ljósi þessa að þurfa að skoða forsendur fjárlagafrumvarpsins ofan í kjölinn. Afdrifarík ákvörðun á borð við þá að hækka matarverð á einu bretti um nær 5% verður að byggja á vandaðri og trúverðugri greiningu á því hvernig hún kemur við fjölskyldur í landinu, sérstaklega þær sem hafa lægri og meðaltekjur. – Slík greining liggur ekki ennþá fyrir, það er ljóst.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

«
»

Ummæli (13)

 • Mér var bent á það eftir á að RÚV var með nákvæmlega sömu útreikninga og ég fyrir þremur dögum: http://www.ruv.is/frett/%E2%80%9Eeg-fae-thetta-ekki-til-ad-ganga-upp%E2%80%9C

  Enda er erfitt að rífast lengi um stærðfræði!

 • Þetta er ekki svakalegasta dæmið sem er gefið í frumvarpinu. Þar er einnig dæmi um einstætt foreldri með tvö börn. Í dæminu eyðir sú fjölskylda 14,9% af kr. 300.000 ráðstöfunartekjum eftir skatta í mat og drykk. Það gerir kr. 44.700 á mánuði sem eru 1.490 á dag (miðað við 30 daga í mánuði), 497 kr á hvern heimilismann á dag og þá 166 kr. á máltíð miðað við þrar máltíðir á dag.

  • Vó! Þessar VSK-hækkanir munu hitta verst stadda fólkið mun verr fyrir en ráðuneytið gefur til kynna. Hverjum er verið að þjóna með svona blekkingum?

   • Björgvin Jóhannsson

    Sama ranga röksemdafærslan og ég benti á. Er ekki líklegra að t.d. börnin tvö fái máltíðir í skólanum/leikskólanum ? Þá fer sá kostnaður í liðinn „annað“ en ekki matvæli.

 • Eins og flestir islenskir stjórnmálamenn er Bjarni Benediktsson algjörlega á valdi excel-skjala, meðaltala, gaussískra-línurita og þess rugls sem tölfræði getur framkallað í tölvumódelum.

  Þetta fólk trúir á skýrslur og meðaltöl!

  Ferlið vegur þyngra en inntakið.

  Þetta vekur athygli og eru mikil vonbrigði.

  Rétt eins og aðrir íslenskir stjórnmálamenn er Bjarni skólagenginn en ómenntaður.

  Hann skortir lágmarksforsendur fyrir gagnrýninni hugsun.

  Þessi fáránlegi gjörningur á eftir að verða honum og ríkisstjórninni dýr.

  Hann er að fremja pólitískt harakírí.

  Og sennilega er það aðeins bein afleiðing hæfileikaleysis og lélegrar menntunar.

 • kristinn geir st. briem

  það má endalaust rífast um stærðfræði en ef það kostar þessa fjölskildu um 130.000, kr . þá er nokkuð lítið eftir hjá örirkjanum sem hefur um 180.000. kr fyrir öðrum útgjöldum. senilega er til fjármagn í ríkisbókhaldi fyrir súpueldhúsi vil bjarni ekki hafa þetað eins og í bandaríkjunum

 • Björgvin Jóhannsson

  Þetta er ekki rétt. Skólamáltíðir, veitingar, matur í mötuneytum á vinnustað o.þ.h. reiknast EKKI inn í kostnaðarliðinn „matvæli“ heldur „annað“ sem hækkar úr 7% í 12%.

  Ef þú ætlar að gera ráð fyrir því að allar máltíðir séu heimatilbúnar, börn borði aldrei skólamáltíðir heldur taki alltaf með sér heimatilbúið nesti, enginn borði í mötuneyti á vinnustað, enginn kaupi sér tilbúinn mat í hádeginu o.s.frv. þá þarft þú að taka góðan slurk af því sem fer í „annað“ og færa yfir í „matvæli“ miðað við hefðbundið neyslumynstur dæmigerðrar íslenskrar fjölskyldu.

  • Ekki rétt hjá þér heldur Björgvin. Hagstofan segir að samkvæmt sínum tölum eigi 75.330 krónurnar að vera 107 þúsund, skv. nákvæmlega sömu flokkun og ráðuneytið er með. Það er mun trúverðugri tala.

   • Björgvin Jóhannsson

    Hvað er það sem er rangt hjá mér ? Þú segir að þetta sé „ekki rétt“ en ég átta mig ekki á því hvað það er sem er rangt hjá mér. Ég er einfaldlega að benda þér á að þær forsendur sem þú gafst þér eru ekki réttar og þar með niðurstaðan ekki rétt. Ég held hvergi fram neinni tölu.

 • thorhildur lilja thorkelsdottir

  Það þarf byltingu. Svokölluð busahaldabylting var engin bylting. Nu er bara að mæta a Austurvöll, og kasta hitapottum og isskapum i þinghusið. Þvi að, svo til allir þar innanhuss eru SÖKUDOLGAR.

 • thorhildur lilja thorkelsdottir

  Og, EKKI henda matvælum. Það er eitthvað sem þingheimur getur sjalft skaffað ser. I odyra mötuneytinu

 • Ásmundur

  Hver borðar aðeins þrjár máltíðir á dag? Ég held að fimm væri nær lagi.

  Hita- og rafmagnskostnaður er einnig óhjákvæmilegur kostnaður og ætti því að koma fram sérstaklega enda hækkar hann einnig úr 7% í 12%.

  Margir búa einir. Þeir hafa mun hærri kostnað á mann í mat, hita og rafmagn en fjögurra manna fjölskylda.

  Öryrkjar og ellilífeyrisþegar eru fjölmennir í hópi þeirra sem búa einir. Margir þeirra, jafnvel flestir, eiga erfitt með að láta enda ná saman.

  Þeir verða því illilega fyrir barðinu á hækkun á 7% vsk upp í 12% enda njóta þeir ekki mótvægisaðgerða nema í mjög litlum mæli.

  Þetta er því enn ein aðgerð af hálfu ríkisstjórnarinnar þar sem fé er flutt frá hinum verr settu til hinna betur settu.

Höfundur