Föstudagur 17.10.2014 - 18:08 - Lokað fyrir ummæli

Engar áhyggjur

Aðstoðarkona forsætisráðherra, Margrét Gísladóttir, setti í gær inn á Fésbók tilraun til að svara ýmsum áhyggjum sem fram hafa komið vegna Stóru Millifærslunnar, öðru nafni „Leiðréttingarinnar“.

Full ástæða er til að fara yfir svör Margrétar (feitletruð hér á eftir í sjö liðum) og skoða raunveruleikann að baki.

1. Já, framkvæmd leiðréttingarinnar er á áætlun, engar áhyggjur.

Hvaða áætlun? Í glærukynningu „Leiðréttingarinnar“ 30. nóvember sl. var ítrekað talað um „mitt ár 2014“, t.d. „Áhrif um 13% höfuðstólslækkunar koma fram um mitt ár 2014 í lægri greiðslubyrði lántaka“ (glæra 59). Tryggvi Þór Herbertsson sagði 29. september að flestir ættu að geta séð „um miðjan október“ hvað leiðréttingin verði mikil hjá þeim. Í dag er 17. október og upplýst hefur verið að ekki er ennþá búið að semja við bankana um framkvæmd leiðréttingarinnar. Viðbótarlagafrumvarp er í vinnslu á Alþingi, en það er ein af forsendum útreikninga og útgreiðslu.

2. Já, EFTA fylgist með framkvæmdinni. Miðað er að því að hvorki skapist hagnaður né tap hjá samningsaðilum vegna greiðslu leiðréttingarhluta láns, svo engar áhyggjur.

ESA, eftirlitsstofnun EFTA, fylgist með framkvæmdinni vegna þess að í henni má ekki felast ólögmætur ríkisstyrkur til bankanna, hvorki beinn né óbeinn. Það er miklu flóknara mál en sýnist. Til dæmis mun ríkissjóður staðgreiða bönkunum upphæðir sem annars hefðu ekki komið til greiðslu fyrr en eftir langan tíma, í sumum tilvikum áratugi (t.d. svokallaðan greiðslujöfnunarhluta láns). Hvaða ávöxtunarkröfu er rétt að nota á slíkar greiðslur? Einnig mun ríkissjóður greiða bönkunum niður höfuðstól lána sem léleg veð eru bak við og þeir hafa hugsanlega þegar afskrifað að hluta eða öllu leyti í bókum sínum. Gefur bankinn afslátt af greiðslum þegar þannig háttar til? Hver á sá afsláttur að vera? Þetta getur verið mjög flókið, enda um að ræða tugþúsundir lána á misseljanlegum eignum og á mismunandi veðréttum. Samningar um þetta gætu hæglega tekið marga mánuði, jafnvel misseri – og hér er ekki um að ræða einfaldar ákvarðanir stjórnenda bankanna og fulltrúa ríkisins, heldur verður allt að standast hlutlægar kröfur ESA.

3. Já, bankaskattur er lagður á bankana og í fyrsta sinn, þrotabú föllnu bankanna. Skatturinn nemur því sem leiðréttingin hljómar uppá. Vissulega fer skatturinn inní ríkissjóð og leiðréttingin útúr ríkissjóð, það er eðlilegt ferli, engar áhyggjur.

„Eðlilegt ferli“ – tja, þetta eru tekjur ríkissjóðs eins og hverjar aðrar og þær hefði verið unnt að nota til að efla Landspítalann, greiða áfram fullar vaxtabætur, borga niður skuldir ríkisins, bæta hag láglaunafólks og leigjenda o.s.frv. Peningarnir koma ekki frá „hrægammasjóðum“ eins og um var rætt í kosningabaráttunni heldur úr sameiginlegum sjóði okkar allra.

4. Leiðréttingin snýst um sanngirni og réttlæti, að lántakendur sem urðu fyrir forsendubresti í kjölfar hrunsins fái stökkbreytt lán sín leiðrétt. Því ber að fagna.

Fjölmargir lántakendur, raunar nánast allir sem tóku lán 2004 eða fyrr, hafa ekki lent í neinum „forsendubresti“. Fasteignir þeirra hafa hækkað að raunverði, og umfram höfuðstól lána, þrátt fyrir hrunið 2008. Fjöldi fólks fær nú mikla peninga, milljarðatugi, úr ríkissjóði án þess að hafa orðið fyrir teljandi áfalli og án þess að þurfa sérstaklega á fé að halda. Þeim peningum hefði verið miklu betur varið öðru vísi og til þess að hjálpa betur þeim sem eiga í raunverulegum vanda.

5. Nærri helmingur fjármagnsins fer til heimila með tekjur undir 6 m. á ári og 60% til heimila með undir 8 m. á ári. Það er staðreynd, engar áhyggjur.

Það þýðir með öðrum orðum að 40% fjármagnsins, 30 milljarðar króna, fara til heimila með yfir 8 milljón króna árstekjur – og talsvert af því til heimila með enn hærri tekjur en það. Sú forgangsröðun veldur áhyggjum.

6. Þetta er almenn aðgerð og dreifist leiðréttingin jafnar á tekjuhópa en fyrri úrræði. Frábært.

Fyrri úrræði fóru fyrst og fremst til fólks með lægri og meðaltekjur. „Að dreifast jafnar á tekjuhópa“ þýðir að efsti tekjuhópurinn fær nú mun meira í sinn hlut en í fyrri aðgerðum. Raunar er það svo að fyrri, tekjutengd, úrræði sem gögnuðust lágtekjufólki dragast beinlínis frá „leiðréttingunni“. Er það frábært?

7. Já, auðvitað verður staðið við þessa aðgerð, engar áhyggjur.

Því miður vekja margir fletir þessa máls áhyggjur. Það leiðir í ljós ákveðna galla í lýðræðinu og stjórnkerfinu. Stóra Millifærslan er dæmi um hvernig illa undirbúið kosningaloforð með lágmarks greiningu að baki getur engu að síður komist í gegn um kerfið – m.a. í krafti hrossakaupa stjórnarflokka. Aðgerðin hefði getað verið miklu markvissari og nýst betur til hagsbóta fyrir íslenskan almenning, ef hún hefði verið betur hugsuð.

Reynum svo að njóta lífsins og vera næs við hvert annað.

Já, endilega. Lýðræðið þrífst hins vegar ekki án gagnrýni og öflugs aðhalds með stjórnvöldum hverju sinni, hver sem þau eru. Stundum er nefnilega full ástæða til að hafa áhyggjur af því sem gert er.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

«
»

Ummæli (34)

  • Ágæti Vilhjálmur.

    Ég les jafnan skrif þín á þessari síðu. Mér þykja þau upplýsandi og raunar ágæt sönnun þess að „blogg“ geti verið framlag til upplýsingar í heiminum og því einhvers virði.

    Ég tek fram að ég er þér hjartanlega sammála; leiðréttingin er rugl þó svo færa megi ákveðin „sanngirnisrök“ henni til réttlætingar og í því efni blasa við þær „leiðréttingar“/ afskriftir sem þeir sem tóku gengislán hafa notið.

    En í haglegu tilliti er „leiðréttingin“ rugl og hún mun valda miklum skaða síðar þar sem hún skekkir markað og fjárstöðu.

    Almennt þykja mér athugasemdir þínar gagnvart aðstoðarmanni þessum litaðar af pólitík og neikvæðri afstöðu. Mér þykja skrif aðstoðarmannsins almennt lýsa lítilli menntun og þekkingu en fyrst og fremst eru þau afurð einstaklings sem sinnir ákveðnu starfi og reynir að gera það sem best en glímir við pólitíska blindu sem er afleiðing lítilla hæfileika og erindisleysis.

    Það fer eftir líðan hvers og eins hverju sinni hvort hann hlær að þessum barnalegu skrifum aðstoðarmannsins eða æsir sig og nær því marki að viðkomandi getur ekki annað en tjáð sig um þau – og þá hér – á „blogginu“.

    Ha?

    Öll nálgun þín í þessu stóra máli einkennist af pólitískri afstöðu þinni. Hvergi örlar á viðleitni til að fjalla með gagnrýnum hætti um það sem stjórn jafnaðarmanna og þjóðernissósíalista tók sér fyrir hendur á árunum 2009-2013. Þar voru unnin hrein myrkraverk með gríðarlegu tapi fyrir ríkssjóð og skattgreiðendur í þessu landi,

    Við, dyggir lesendur þínir, bíðum eftir djúpu og heiðarlegu uppgjöri við þá hryllilegu ríkisstjórn.

    Þakkir og kveðja
    Rósa Guðrún.

    • Takk fyrir athugasemdina Rósa. Ég skil hins vegar ekki alveg hvað þú ert að fara. Þú virðist sammála mér um að Stóra Millifærslan sé vanhugsuð aðgerð, en gengur miklu lengra en ég geri í að segja að aðstoðarmaður forsætisráðherra hafi „litla menntun og þekkingu“ og sé sleginn „pólitískri blindu sem er afleiðing lítilla hæfileika og erindisleysis“. Ég gagnrýni ekki aðstoðarmanninn heldur rök hennar, málefnalega að því er ég tel.

      Nálgun mín í þessu stóra máli „litast vissulega af pólitískri afstöðu“ minni, en ekki hvað? Þetta er mitt persónulega blogg um stjórnmál, efnahagsmál og önnur málefni líðandi stundar og lýsir skoðunum mínum á þeim hverju sinni. Aðrir verða að sjá um að skrifa um sínar skoðanir, ég geri það ekki fyrir þá. Svo er það lesenda að dæma hvaða rök þeim finnst vera sannfærandi og hver ekki.

      Ég er ekki líklegur til að gagnrýna fyrri ríkisstjórn harðlega þar sem ég er þeirrar skoðunar að hún hafi unnið afrek í rústabjörgun við mjög erfiðar aðstæður. Ég tel að sú stjórn muni fá mjög góða einkunn í sögubókunum og get rökstutt það ítarlega. Ég sýti það mest að stjórnin hafi ekki fengið lengri tíma til að ljúka þeim róttæku umbótum sem hún vildi gera. Því miður var þingmeirihluti hennar ekki heldur nógu sterkur og í honum fólk á borð við Lilju Mósesdóttur sem þraut örendið á seinni hluta kjörtímabilsins, varðmönnum óbreytts ástands til yndisauka.

      Þeir sem bíða eftir gagnrýnum texta um fyrri ríkisstjórn ættu því að leita annað eftir ull en í mitt geitarhús.

      • Þakka þér fyrir svarið, Vilhjálmur

        Við verðum víst seint sammála um þetta en ég ætla að leyfa mér að hvetja þig til að lesa ummæli mín aftur.

        Ég fæ ekki séð að í þeim felist nein mótsögn. Ég er þér sammála um „leiðréttinguna“ en skrif aðstoðarmannsins lýsa vitanlega fyrst og fremst bernsku og svart-hvítri sýn á heiminn.

        Mér finnst – og ég biðst afsökunar á því – sýn þín svipuð – hún mótast algjörlega af pólitík og hollustu við ákveðið fólk og ákveðinn flokk.

        Ég get ekki sagt annað en að mér finnst slík afstaða ekki sæma menntuðu og þroskuðu fólki.

        En hvað um það.

        Leyfðu mér, vinsamlegast, að þakka þér aftur fyrir þín áhugaverðu skrif.

        Ég mun fylgjast með þeim áfram – en læt sennilega ógert að tjá mig um þau!

        Bestu kveðjur
        Rósa Guðrún,

  • rafn guðmundsson

    áráður í lið 3 segir allt sem segja þarf. við borgum

    • Já, við borgum. Sérstaklega unga fólkið sem fær ekkert út úr Stóru Millifærslunni en þarf að borga skuldir ríkissjóðs og leigja sér fágætar íbúðarholur á uppsprengdu verði.

  • Ásmundur

    Rósa, hvað var svona hryllilegt við síðustu ríkisstjórn? Að mínu mati stóð hún sig mjög vel.

    Auðvitað var margt að þegar hún fór frá. En við öðru var ekki að búast eftir hrun efnahagslífsins. Staðan var í raun mjög góð miðað við aðstæður og vakti árangur ríkisstjórnarinnar heimsathygli.

    Norskur hagfræðingur sagði eftir að langt var liðið á kjörtímabilið að Íslendingar hefðu gert allt rangt fyrir hrun en eftir hrun hefðu þeir gert allt rétt.

    Síðasta ríkisstjórn var ekki síst gagnrýnd fyrir að vera ríkisstjórn fjármálafyrirtækja á kostnað heimilanna. Þegar grannt er skoðað er sú gagnrýni mjög ósanngjörn.

    Vissulega högnuðust bankarnir vel. En það var ekki rekstrarhagnaður heldur fyrst og fremst hagnaður vegna hækkunar á verðmæti eigna þeirra.

    Eftir því sem aðgerðir ríkisstjórnarinnar báru meiri árangur jókst trúin á íslenskt efnahagslíf. Við það hækkaði verðmæti skuldabréfaeignar bankanna mikið en það var metið mjög lágt eftir hrunið.

    Síðasta ríkisstjórn hafði vit á að leggja áherslu á að treysta undirstöður íslensks efnahagslífs eftir hrun þess. Það var nauðsynlegt áður en frekari uppbygging gæti átt sér stað.

  • Sigurđur

    Mér sýnist allt sem hún segir standa óhaggađ, nema ađ þetta er sennilega einhverjum mánuđum á eftir áætlun.

    Allt annađ stendur.

    Þađ er veriđ ađ sækja þessa fjármuni til hrægamma eins og lofađ var.

    Vonandi sjá sem flestir hvađ þađ fer í taugarnar á ykkur ađ þađ sé veriđ ađ sækja tugi milljarđa til þeirra sem rústuđu Íslandi.

    Hvort peningurinn sé sóttur međ skatti eđa einhverri annari ađferđ skiptir auđvitađ engu máli.

    • Rústuðu lánardrottnar bankanna Íslandi? Þú ert eitthvað að misskilja málið. Þeir sem lánuði íslensku bönkunum peninga töpuðu allra mest á hruninu, fleiri þúsundum milljarða króna.

      Bankaskattur sækir ekki fé til fyrrum eigenda eða stjórnenda bankanna. „Hrægammasjóðir“ áttu heldur hvorki né stjórnuðu bönkunum. Einhverjir slíkir sjóðir hafa hins vegar keypt kröfur í bankana eftir að þeir féllu. Það er allt annað og óskylt mál.

  • Sigurður

    Hagnaður bankanna frá hruni er EKKI vegna þess að trúin á íslenskt efnahagslíf hafi lagast svo mikið, þetta veit allt hugsandi og vakandi fólk í landinu.

    Síðasta ríkisstjórn lagði mikið undir að hámarka þennan hagnað vogunarsjóðanna, t.d. með því að beita sér fyrir því þvert á neytendavernd ESB að vogunarsjóðirnir skyldu fá að margfalda vaxtakjör á ólöglegum lánunum, og reyndar gekk síðasta ríkisstjorn svo langt að ætla sér að breyta þessum vaxtakjörum aftur í tímann, sem síðar var dæmt brot á Stjórnarskránni.

    Síðasta ríkisstjórn sat svo aðgerðarlaus hjá þegar fjármálafyrirtæki sópuðu til sín eignum fólks vegna þessara ólöglegu lána, bæði heimilum og fyrirtækjum.

    Ekki kom til greina að setja lög um flýtimeðferð á dómsmál á meðan þessi þjófnaður fór fram.

    Síðasta ríkisstjórn gerði síðan allt sem hún mögulega gat til að veita ríkisábyrgð á skuld einkaaðila sem á þeim tíma var metin á 3-400 milljarða króna í erlendri mynt sem allt hugsandi fólk sá að var útilokað að borga, og er staðfest í dag.

    Síðasta ríkisstjórn þvertók fyrir að kippa verðtryggingunni úr sambandi, eða breyta samsetningu hennar til að deila afleiðingum af hruni krónunnar sanngjarnt milli þeirra sem ollu hruninu, og þeirra sem skulduðu verðtryggð lán.

    Síðasta ríkisstjórn sem hafði talað fyirr afnámi verðtryggingar í áratugi, steinþagnaði í þeim málaflokki samdægurs og talningu lauk úr kjörkössunum og hún tók við völdum.

    Síðasta ríkisstjórn réðst síðan í hallarbyggingar og jarðgangaboranir út um hvippinn og hvappinn á sama tíma og t.d. landspítalinn var flægður lifandi í sparnaðarskyni.

    Aldrei var einum fingri lyft til að verja heimilin fyirr yfirgangi glæpamanna í bankakerfinu, en nær samfellt í 4 ár voru alli hnefar á lofti til að verja glæpamenn í bönkum fyrir rétindum almennings.

    Vonandi fara landsmenn að átta sig á því að Bjartri framtíð fjórflokksins er sktísama um allt nema sjálfa sig og peningaöflin.

    • Það er magnað að sjá svo mikinn misskilning samanþjappaðan í stuttum texta!

      Skoðum til dæmis þetta: „Síðasta ríkisstjórn lagði mikið undir að hámarka þennan hagnað vogunarsjóðanna, t.d. með því að beita sér fyrir því þvert á neytendavernd ESB að vogunarsjóðirnir skyldu fá að margfalda vaxtakjör á ólöglegum lánunum, og reyndar gekk síðasta ríkisstjorn svo langt að ætla sér að breyta þessum vaxtakjörum aftur í tímann, sem síðar var dæmt brot á Stjórnarskránni.“

      Sko. Hæstiréttur Íslands dæmdi gengistryggð krónulán ólögmæt. Í staðinn fyrir gengistryggingu og erlenda vexti skyldu koma óverðtryggðir Seðlabankavextir í krónu. Þetta var ákvörðun Hæstaréttar, ekki ríkisstjórnarinnar. Hæstiréttur dæmdi aðeins um eitt lánsform í upphafi. Ríkisstjórnin reyndi með Árna Páls-lögunum að láta það sama gilda um önnur sambærileg lán, afturvirkt. Það var tilraun til að bæta stöðu sem flestra og einfalda endurútreikning. Ég ítreka að þau lög fólu í sér að færa fleirum sömu réttarbót og Hæstaréttur hafði dæmt, þ.e. óverðtryggða Seðlabankavexti. En í síðari dómum sínum leit Hæstiréttur fram hjá afturvirkni Árna Páls-laganna. Það var hans ákvörðun (og í hans valdi), ekki ríkisstjórnarinnar.

      Aldrei stóð til boða að reikna jenavexti ofan á íslenska krónu, Hæstiréttur var alveg skýr með það. Þú getur beint reiði þinni varðandi það atriði að réttinum en ekki ríkisstjórninni.

      Verðtryggingu er ekki unnt að kippa úr sambandi afturvirkt, eins og nefnd á vegum núverandi ríkisstjórnar komst að. Þú ættir e.t.v. að lesa skýrslu hennar og velta fyrir þér af hverju ríkisstjórn SDG hefur ekkert gert til að afnema verðtryggingu.

      • Sigurður

        það er rétt, það var Seðlabankinn og FME sem beittu sér fyrir seðlabankavöxtunum, en ekki ríkisstjórnin beint.

        Þetta var löngu áður en nokkur dómur hafði fallið um slíka útreikninga.

        Þetta er alveg skýrt brot á neytendavernd ESB sem ykkur er stundum svo annt um að fylgja, þar sem evrópudómstóllinn hefur margítrekað dæmt svo að þótt einhver einn skilmáli láns sé dæmdur úr leik, skuli restin halda sér óbreytt sé það tæknilega mögulegt.

        Ég talaði svo ekkert um að afnema verðtryggingu afturvirkt, það er vísvitandi útúsnúingur hjá þér, ég talaði um að kippa henni úr sambandi, eða breyta samsetningu hennar á meðan höggið reið yfir.

        Það hefur ekkert með neina afturvirkni að gera.

        • „það er rétt, það var Seðlabankinn og FME sem beittu sér fyrir seðlabankavöxtunum, en ekki ríkisstjórnin beint. Þetta var löngu áður en nokkur dómur hafði fallið um slíka útreikninga.“

          Seðlabankavextir eru þeir vextir sem skv. lögum skulu brúkast ef vaxtaákvæði lánssamnings eru af einhverjum ástæðum ónothæf. Enda var það niðurstaða Hæstaréttar þegar á reyndi. En það er gott að þú viðurkennir að ríkisstjórnin átti ekki hlut að máli í þessu efni.

        • …og varðandi afturvirkni þá er það afturvirkni að „kippa verðtryggingu úr sambandi“ á lánasamningum sem fyrir eru og voru löglegir þegar þeir voru gerðir.

    • Ásmundur

      Sigurður, það var aldrei gert ráð fyrir að „skila afslættinum til lántakenda“. Það væri fróðlegt að sjá þau gögn sem þú hefur skilið þannig. Skuldarar voru aldrei þátttakendur í þessum viðskiptum.

      Vaxtakjörin voru skv lánasamningum þangað til dómstólar breyttu þeim í undantekningartilvikum. Vaxtakjörin voru aldrei hækkuð hvað þá margfölduð. Þú mátt gjarnan sýna gögn um annað.

      Niðurstaða Seðlabankans upp á 340 milljarða voru áætlaðar greiðslur sex ár fram í tímann með vöxtum. Núvirði upphæðrinnar var 240 milljarðar eða 17% af landsframleiðslunni 2009.

      Þetta var bara brot af gjaldeyrisforðanum um þetta leyti. Í versta falli hefði þurft að fella gengið til að fá gjaldeyri í þetta eða herða höftin.

      Ekkert kemur fram um að ríkið hafi verið tilbúið til að greiða þetta. Samningurinn var ekki samþykktur á þingi fyrr en nokkrum mánuðum seinna þegar horfur voru orðnar betri.

      Það voru sterk rök fyrir því að samþykkja samninginn vegna þess að ef honum hefði verið hafnað og málið farið fyrir EFTA-dómstólinn og við tapað, hefði upphæðin sem við hefðum þurft að borga orðið miklu hærri.

      ÓRG synjaði undirritunar þessa samnings sem var kannski ekki óheppilegt. Hann hefði hins vegar tvímælalaust átt að undirrita Buchheit-samninginn.

  • Ef Margrét Gísladóttir aðstoðarkona forsætisráðherra les grei þína Vilhjálmur, þá angrar hún ørugglega þetta bull sem hún setti á facebook, en það breitir samt ekki því að bullið í Sigmundi fyrir kostningar gaf xB tvøfalt fleiri atkvæði en xS fékk, svo sorglegt sem það er þá virðist bull borga sig.

    kveðja Baugur

  • Hér er hátt reitt til höggs í gagnrýni á aðstoðarmanninn, og mun hærra en þörf er á. Aðstoðarmaðurinn er hér á „almúgamáli“ að gera tilraun til að slá á áhyggjur þeirra sem finna fyrir óöryggi yfir því að leiðréttinging ekki sé komin til framkvæmda. Í gagnrýni þinni VÞ er nánast eins og umræddur aðstoðarmaður beri ábyrgð á málinu í heild sinni og að þessi „saklausi“ teksti frá Facebook sé hluti af stefnuræðu forsætisráðherra. Ég get verið sammála þinni gagnrýni að mestu leyti, en hún á sennilega heima annarsstaðar. Oft er betra að spara kúlurnar þar til hjólað er í kanónurnar.

    • Gagnrýni mín og mótrök beinast að málflutningi og rökum aðstoðarmannsins, ekki aðstoðarmanninum sjálfum. Ef aðstoðarmaður forsætisráðherra tjáir sig á opinberum vettvangi, eins og opin („public“) skilaboð á fésbók eru, þá er ekki við öðru að búast en að það geti kallað á andsvör. Þannig virkar opin umræða í lýðræðisþjóðfélagi.

  • Ásmundur

    Voðalegt bull er þetta í þér, Sigurður. Fylgistu ekkert með eða gerirðu þér enga grein fyrir hvernig breytt verðmat á eignum hefur áhrif á hagnað eða tap?

    Gerirðu þér enga grein fyrir að skuldabréfaeignir bankanna sem voru metnar mjög lítils virði eftir hrunið hækkuðu gífurlega í verði eftir því sem frá leið á kjörtímabilinu vegna aukins trausts.

    Siðasta ríkisstjórn hafði auðvitað engin áhrif á vaxtakjör enda eru þau utan hennar verksviðs. Fordæmalaus staða eftir hrun olli því að upp komu mál sem var vísað til dómstólanna sem einir geta úrskurðað í slíkum deilumálum.

    Ríkisstjórnin vildi eðlilega ekki beita sér fyrir setningu laga sem síðar hefðu að áliti færustu sérfræðinga getað reynst ólögleg og kostað illa staddan ríkissjóð fúlgur fjár.

    Auk þess hefði áunnið traust á íslenskt efnahagslíf hæglega getað hrunið og bankarnir komist í veruleg vandræði og líkur á nýu hruni aukist mikið.

    Að halda því fram að ríkisstjórnin hafi beitt sér fyrir því að hámarka hagnað vogunarsjóða er því algjörlega fráleitt og gerir ekki annað en rústa trúverðugleika þess sem heldur slíku fram.

    Verðtryggingu verður ekki breytt aftur í tímann né heldur er hægt að kippa henni úr sambandi tímabundið. Það er brot á lánasamningum og mundi skapa ríkinu skaðabótaskyldu.

    Þó að Jóhanna hafi talað fyrir afnámi verðtryggingar fyrir áratugum, er rangt að ríkisatjórnin hafi barist fyrir því áratugum saman. Afnám verðtryggingar var ekki í málefnasamningnum.

    Opinberar framkvæmdir eru æskilegar í kreppu til að minnka atvinnuleysi. Meðal þess sem var farið af stað með var undirbúningur og hönnun á nýjum spítala. Sú vinna tekur það langan tíma að ekki var hægt að hefja byggingarframkvæmdir á síðasta kjörtímabili.

    Skuldalækkanir síðustu ríkisstjórnar gerðu miklu meira gagn en þær sem nú standa fyrir dyrum en kostuðu þó ríkið miklu minna.

    Sem betur fer hafði síðasta ríkisstjórn vit á „að lyfta ekki fingri““ til að hafa áhrif á réttarkerfið. Þrískipting valds var henni fyllilega ljós.

    Almennt má segja um síðustu ríkisstjórn að öfugt við núverandi stjórn, sem hugsar fyrst og fremst um hag hinna ríku, bar hún hag almennings fyrir brjósti.

    Staðan var hins vegar fordæmalaus og mjög erfið. Vandinn fólst ekki sist í að gera ekkert sem hefði slæmar afleiðingar eða bakaði ríkinu skaðabótaskyldu. Ríkisstjórnin slapp vel frá því að mati hæfustu sérfræðinga.

    Sigurður hvaða skuld einkaaðila upp á 300-400 milljarða reyndi ríkisstjórnin að þínu mati að veita ríkisábyrgð? Ég kannast ekki við þetta og trúi ekki að þetta geti staðist. Það væri hins vegar fróðlegt að vita hvað þú átt við.

    Ef þú ert að tala um Icesave þá voru þetta um 12 milljarðar sem áætlað var að félli á rikið. Upphæðin hefði þó orðið nokkuð hærri eða um 30 milljarðar eftir því sem ég kemst næst.

    70% þingmanna vildi samþykkja þennan samning þar á meðal flestir þingmenn sjálfstæðisflokksins. Einnig allir í sérfræðinganefndinni sem samanstóð af færustu sérfræðingum.

    Það hefði farið betur á því að samþykkja samninginn enda var mikið ábyrgðarleysi fólgið í því að gera það ekki vegna mikillar hættu á að við þyrftum að greiða margfalt meira með því að hafna honum.

    Auk þess er tafakostnaður og annar kosnaður vegna málsins eflaust meiri en 30 milljarðar. Verstu afleiðingar þess að hafna Icesave eru þó sú skelfilega ríkisstjórn sem við sitjum upp með væntanlega fram á vor 2017.

  • Sigurður

    Ég sé enga ástæðu að endurtaka hvernig verðmæti lánasafnsins jókst við það að skila ekki afslættinum til lántakenda eins og gert var ráð fyrir ásamt því að margfalda vaxtakjörin á ólöglegu lánunum.

    Þú spyrð hvaðan ég hafi þessa tölu um 3-400 milljarða króna vegna Icesave.

    Ég hef hana úr áliti Seðlabankans frá þessum tíma.
    „Skuldir vegna Icesave
    Þegar Icesave-samningarnir eru metnir er gert ráð fyrir að í lok árs
    2015 verði búið að selja allar eignir gamla Landsbankans erlendis en þá
    verði skuld íslenska ríkisins vegna samninganna 340 milljarðar króna“

    http://sedlabanki.is/lisalib/getfile.aspx?itemid=7199

    Og bara svo það sé á hreinu, þá átti þetta ekki að greiðast í krónuruslinu, heldur í alvöru erlenum gjaldeyri, sem allir eru sammála í dag um að útilokað er að útvega.

    • Icesave-textinn sem þú vitnar til er frá umræðu um fyrsta Icesave-samninginn, sem á endanum var afgreiddur frá Alþingi með fjölmörgum efnahagslegum fyrirvörum, raunar svo viðamiklum að Bretar og Hollendingar höfnuðu samningnum (eftir að forsetinn hafði skrifað undir lögin um hann). Þegar kom að Buchheit-samningnum var orðið ljóst að heimtur forgangskrafna í Landsbankann yrðu líklega 100% (sem svo kom á daginn) og ýmsar aðrar forsendur höfðu skýrst, í jákvæða átt. Buchheit-samningur hefði því sennilega kostað 35-40 milljarða á endanum, eða svipaða tölu og Seðlabankinn tapaði á því að lána Kaupþingi lungann úr gjaldeyrisforðanum þann 6. október 2008.

      • Sigurður

        Það breytir því ekkert að ríkisstjórnin beitti sér hart fyrir því að ríkisvæða skuldir einkaaðila sem á þeim tíma voru að mati Seðlabankans áætlaðar 340 milljarðar króna.

        Staðreynd.

        • Nei, Icesave málið snérist ekki um innistæðurnar sjálfar heldur um lágmarkstryggingu þeirra, þ.e. skuldbindingu Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta. Deiluefnið var hvort sjóðurinn væri með bakábyrgð ríkisins skv. túlkun innistæðutilskipunar ESB/EES frá 1994. Það var ekki um að „ríkisvæða skuldir einkaaðila“. Svo er athyglisvert að bakábyrgð ríkja á innistæðutryggingasjóðum er orðin alveg skýr skv. nýrri innistæðutryggingatilskipun frá 2009, sem Íslandi er skylt að leiða í lög skv. EES samningnum.

  • Ásmundur

    Ég hef lengi velt fyrir mér eftirfarandi án þess að fá svar:

    Mér skilst að skuldalækkunin eigi að fara þannig fram ríkið greiði bönkunum 20 milljarða á ári í fjórum greiðslum. Þrátt fyrir það á öll upphæðin að koma til lækkkunar hjá skuldurum strax en ekki í fjórum áföngum.

    Ríkið þarf þá væntanlega að greiða bönkunum vexti og verðbætur af 20 milljörðum í þrjú ár, 40 milljörðum í tvö ár og 60 milljörðum í eitt ár? Ekki trúi ég því að bankarnir samþykki að taka á sig þetta vaxtatap. Auk þess er ljóst að ESA myndi ekki samþykkja það.

    Miðað við að vextir og verðbætur séu 7% á ári eru þetta samtals 14 milljarðar. Talsmenn ríkisstjórnarinnar hafa sagt að 72 milljarðar komi til skipta milla skuldara og að 8 milljarðar sé kostnaður við lækkunina. Hvar eru þessi 14 milljarða vaxtakostnaður? Getur verið að þegar upp er staðið verði aðeins 58 milljarðar eða jafnvel enn minna til skiptanna handa skuldurum?

    Vilhjálmur, veistu svarið við þessu? Eða einhver annar?

    • Já, Ásmundur, ég skil málið þannig að ríkið greiði vexti og verðbætur af hinum svokallaða „leiðréttingarhluta“ lána fólks. Það gerir að verkum að hluti fjárhæðarinnar fer ekki í eiginlega höfuðstólslækkun heldur, sem sagt, í vexti og verðbætur – sem bankarnir fá.

    • Ásmundur

      Vilhjálmur, ég misreiknaði vextina. Þeir eru 8.4 milljarðar miðað við 7% ársvexti sem er um það bil sama upphæð og kostnaðurinn sem er dreginn frá heildarupphæðinni. Þá er ekkert eftir í kostnað við framkvæmd lækkunarinnar.

      • kristinn geir st. briem

        átta mig ekki á þessum vaxtaskrifum ef lán eru niðurgreid hlóta vaxtagreiðslur að lækka. því ríkisjóður skattleggur bankana um þessa upphæð. hvenær fóru menn að reikna vexti af sköttum. ef ég ski þettað rétt er þettað kosnaður við breitíngar á lánum kemur vöxtum ekkert við. mér þykir 8.ma.kr nokkuð mkill kosnaður .

        • Ásmundur

          Skuldirnar lækka strax þó að ríkið greiði bönkunum upphæðina í fjórum árlegum greiðslum. Með öðrum orðum þá lána bankarnir ríkinu það sem þeir fá ekki strax. Ríkið þarf að greiða vexti af þessu láni.

          • kristinn geir st. briem

            skrítið verð að kynna mér þetað betur.

  • kristinn geir st. briem

    nú er vilhjálmur betri en ég í þessum lánamálum en er ekki stæðstur hluti lána hjá íbúðarlánasjóð sem er með ríkisábirð. það mun þíða að ríkið mun að öllum líkindum þurfa að greiða minna inní sjóðin á næstu árum og sjóðurin ekki þurfa ný lán en auðvíta eru lán hjá bönkunum sem hefðu meiri en ella verið afskrifuð . trúir viljalmur því að 1.5.milljón muni skipta einhjverjum sköpum í því sambandi, þó þær verði 4.milljónir sem mér skilst að sé hámarkið

    • Svo merkilegt sem það er þá tapar ÍLS frekar en hitt á uppgreiðslu lána hjá sjóðnum. ÍLS er ókleift að ávaxta fé sem hann fær inn frá lántökum á sömu vöxtum og hann hefði fengið af þeim lánum, en þarf að borga fasta vexti af óuppgreiðanlegum löngum skuldabréfum sem hann gaf út á sínum tíma. Eftir því sem fleiri greiða upp ÍLS-lán vex þetta vaxtamisræmi og sjóðurinn endar á því að fá lága vexti af peningafjalli en þurfa að greiða hærri vexti af álíka stórum skuldabagga. Svona var nú ÍLS gáfulega stjórnað – og ég þarf varla að taka fram hvaða stjórnmálaflokkur hefur ráðið þar mestu lengst af.

      • kristinn geir st. briem

        auðvitað er það hægt. seðlabankinn gétur tekið við inngreiðsuni og sett næga vexti á innistæðuna .féð fer ekki í umferð, ibúðarlánasjóður þarf ekki að leita ávöxtunar og lífeyrisjjóðir fá sitt. svo gétur ríkið skattlagt lífeyrisjóði. allir ánægðir. þá skiptir ekki máli hve margir greiða upp láninn það var ástæða fyrir því að það var ekki gert á sinum tím sjálfstæðisflokkurinn vildi gera ibúðarlánasjóð að heildsölubanka því þjónaði það ekki tilgangi flokksins að gera sjóðnum auðvelt fyrir. skemtileg hver var ráðgjafi við stofnun sjóðsins hugsa að vilhjálmur þekki hann

        • Ásmundur

          Þetta er ein aðalástæðan fyrir miklu tapi ÍLS skv skýrslu rannsóknarnefndar um starfsemi ÍLS.

          Lántakendum var leyft að greiða upp lán sín án uppgreiðslugjalds án þess að ÍLS gæti greitt upp sín lán.

          ÍLS tókst ekki að ávaxta þetta fé áfram á jafngóðum kjörum svo að það myndaðist tap.

          • kristinn geir st. briem

            ásmundur: ibúðarlánsjóður reindi að að koma fénu inní seðlabankann en seðlabankin neitaði á þeim forsendum að íbúðarlánasjóður væri ekki fjármálastofnun því fékk hann ekki sömu vexti og aðrar fjármálastofnanir á þeim tíma. það er mín skoðun þarf ekki að vera annara að vegna þess að sjálfstæðisflokkurinn var búin að áhveða að gera íbúðarlánasjóð að heildsölubanka fékk hann ekki þá fyrirgreiðslu í seðlabankanum sem hann þurfti.

Höfundur