Föstudagur 14.11.2014 - 16:43 - Lokað fyrir ummæli

Stóra Millifærslan er galin

Framkvæmd Stóru Millifærslunnar var kynnt í Hörpu þann 10. nóvember sl. með lúðrablæstri og glærusjói. Margir sögðust hrifnir af því sem þar kom fram, enda fagmannlega matreitt. Það þarf þó ekki að rýna lengi í glærurnar og tölurnar til að sjá að Millifærslan er jafn galin og upphaflega leit út fyrir, jafnvel enn galnari ef eitthvað er.

Skoðum fyrst grundvallarforsendu Millifærslunnar, þ.e. að fólk sem átti fasteign með áhvílandi verðtryggðu láni 2008-2009 hafi almennt orðið fyrir tjóni, „forsendubresti“, sem sanngjarnt sé og skynsamlegt að „leiðrétta“ með fé skattborgara nútíðar og framtíðar (unga fólksins).

Tökum sem sýnidæmi hjón sem keyptu íbúð á höfuðborgarsvæðinu í janúar 1998 fyrir 6 milljónir króna (þá). 6 milljóna króna höfuðstóll verðtryggðs láns frá þeim tíma stendur nú í 13,9 milljónum (án vaxta og afborgana), eftir hrun krónunnar. En íbúðin er núna 23,9 milljón króna virði, hafi hún fylgt vísitölu íbúðaverðs. Verðmæti hennar hefur sem sagt aukist um 10 milljónir króna umfram nafnhækkun verðtryggða lánsins vegna verðbólgu.

Hvaða „forsendubresti“ hafa þessi hjón orðið fyrir sem ber að „leiðrétta“ með skattfé?

Skoðum nú sama dæmi almennt. Ef þú hefðir tekið milljón að láni, verðtryggt, og sett hana í fasteign á höfuðborgarsvæðinu á ýmsum tímum frá 1994, hvernig væri staða þín? Jú, höfuðstóll lánsins hefði hækkað að krónutölu í takti við vísitölu neysluverðs. En fasteignin hefði jafnframt hækkað að nafnverði, nokkurn veginn í samræmi við vísitölu íbúðaverðs á höfuðborgarsvæðinu. Ef fasteignin hefur hækkað meira en höfuðstóllinn þá hefurðu fengið ávinning af verðlagsbreytingum umfram það sem þú gast reiknað með í upphafi. Ef þetta er hins vegar öfugt, að höfuðstóllinn hafi hækkað meira en fasteignin, hefurðu tapað umfram það sem þú e.t.v. gerðir ráð fyrir. – Þá má jafnvel rökstyðja að þú hafir „lent í forsendubresti“, a.m.k. ef tapið var mikið og óvænt.

Fyrir þá sem keyptu í janúar 1998 er dæmið þannig að höfuðstóll verðtryggðs láns hefur hækkað um 132% (tæplega tvö-og-hálffaldast) vegna verðbólgu til september 2014, en íbúðaverð á höfuðborgarsvæðinu hefur á sama tíma hækkað um 299% (fjórfaldast). Mismunurinn er ávinningur upp á 167%, þ.e. 1.670.000 kr. vegna verðlagsbreytinga fyrir hverja upphaflega milljón sem fengin var að láni og sett í fasteign. Það er ekki amaleg útkoma – þrátt fyrir hrun og meintan „forsendubrest“.

Á hinni hliðinni er aftur á móti fólk sem keypti t.d. í október 2007. Síðan þá hefur höfuðstóll verðtryggðs láns hækkað um 52% vegna verðbólgu en íbúðaverð á höfuðborgarsvæðinu um 12%. Mismunurinn er tap upp á 40%, þ.e. tæpar 400.000 krónur fyrir hverja upphaflega milljón. Þar má vissulega tala um „forsendubrest“, sem skrifast á reikning krónunnar og hagstjórnarinnar.

Það sér hver maður að himinn og haf er á milli þessara tveggja hópa. Hægur leikur hefði verið að hjálpa síðarnefnda hópnum, jafnvel meira og betur en gert er í Stóru Millifærslunni, án þess að ausa fé í þann fyrrnefnda.

Hér hafa verið rakin tvö dæmi sitt hvoru megin á rófinu. En hvernig er þá heildarmyndin? Hún lítur svona út:

Forsendubrestur-680

Af grafinu sést glögglega að það er tiltekinn, vel afmarkaður hópur sem hefur tapað umfram væntingar á fasteignakaupum með verðtryggðum lánum. Þeir sem keyptu í ársbyrjun 2005 eða fyrr eru enn með ávinning af verðlagsbreytingum – þrátt fyrir hrunið – og fasteignaverð er nóta bene áfram á uppleið með hverju misserinu sem líður.

Grunnforsenda Stóru Millifærslunnar – að eigendur fasteigna með verðtryggð lán hafi almennt tapað á verðbólguskotinu 2008-2009 – er því bersýnilega röng.

Hitt er svo önnur saga, að í hruninu lentum við öll í „forsendubresti“. Margir misstu vinnuna, atvinnuframboð minnkaði, laun og kaupmáttur lækkuðu, húsaleiga hækkaði, námslán ruku upp o.s.frv. Þess vegna er einmitt mikilvægt að nýta takmarkaða fjármuni ríkissjóðs til að hjálpa þeim sem þurfa á hjálp að halda – en helst ekki hátekjufólki, stóreignafólki, eða fólki sem hefur byggt upp fína eiginfjárstöðu í fasteignum sínum þrátt fyrir verðtryggð lán.

En – hvað gerir þá Stóra Millifærslan?

Sem kunngt er útdeilir hún 80 milljörðum króna af skattstofnum ríkissjóðs. Þessir 80 milljarðar hefðu getað farið í Landspítalann, til húsnæðisúrræða fyrir ungt fólk og leigjendur, til að efla velferðarkerfið og/eða til að greiða niður skuldir (sem eru skattar framtíðar, með vöxtum). En í staðinn fara til dæmis…

Millifærslan-4

27 milljarðar til fólks sem er 55 ára eða eldra, og þar af leiðandi líklegt til að vera með eldri lán og mikla eiginfjármyndun, sbr. stóra grafið hér fyrir ofan. (Er þetta „kynslóðasátt“? Unga fólkið að borga því eldra?) Jafnframt sjá skattborgarar á eftir…

Millifærslan-5

20 milljörðum króna til fólks sem er – í tilviki hjóna – með yfir 1,3 milljónir í mánaðartekjur (yfir 580 þúsundum hjá einstaklingum). En það sem er mest sláandi: Stóra Millifærslan útdeilir…

Millifærslan-2

36 milljörðum króna til hjóna með eigið fé í fasteign yfir 13 milljónir (og einstaklinga með yfir 4 milljónir), en þar af – og haldið ykkur fast

Millifærslan-3

24 milljörðum króna til hjóna með eigið fé í fasteign yfir 25 milljónir (!!) (og einstaklinga með yfir 11 mkr.). Það er ekki síst fólkið sem er vinstra megin á stóra grafinu, með eldri lán, ávinning af verðlagsbreytingum og í fínum málum.

Svo það sé endurtekið: Auðvelt hefði verið að skilgreina „forsendubrestinn“ og hjálpa þeim sem eru í vanda vegna fasteignakaupa, sérstaklega yngra fólki sem keypti fyrstu eign eða stækkaði við sig á árunum 2005-2008 og varð hvað verst úti. Með réttri greiningu hefði verið hægt að gera enn meira fyrir þá sem eru í raunverulegum vanda, en eiga samt mikla fjármuni afgangs til annarra brýnna þarfa í samfélaginu.

Stóra Millifærslan er meingölluð aðgerð, illa hugsuð og ómarkvisst útfærð. Meðferð ríkisstjórnarinnar á almannafé er að mínu mati forkastanleg. Við öll, og sérstaklega unga fólkið – skattgreiðendur framtíðar – eigum betra skilið en þennan galskap.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

«
»

Ummæli (113)

  • Er þetta nokkuð stóra millifærslan.
    Var hún ekki þegar allar innistæðurnar voru tryggðar ?

    • Trygging innistæðna var ekki á kostnað skattborgara (nema að hluta í SpKef). Sjá þennan pistil: http://blog.pressan.is/vthorsteinsson/2012/07/24/innistaedutryggingar-og-skattborgarar/

      • Já. Trygging innstæða var ekki á kostnað skattborgara. 🙂
        Sem sagt skattborgarar eru ekki ríkið.
        Það hefði nú heyrst eitthvað ef innistæður hefðu horfið nema 3Milljónir á hverjum reikning.
        Ætli það hefði þá ekki verið blóðbað á strætum Reykjvikur.

        • Trygging innistæðna var hvorki á kostnað skattborgara né ríkisins, heldur á kostnað almennra kröfuhafa í bönkunum. Með Neyðarlögunum voru innistæður fluttar fram fyrir almennar kröfur í forgangi til eigna búsins. Þar með áttu öll búin nægar eignir fyrir innistæðunum og ekki kom til þess að Tryggingarsjóður innstæðueigenda og fjárfesta, eða ríkissjóður, greiddi út innistæðutryggingu. (Undantekning var SpKef sem var leyst með öðrum hætti og það var að hluta á kostnað ríkissjóðs.)

          • Borgar Bui

            Það er nú meiri býsnin sem þessi „leiðrétting“ fer fyrir brjóstið á vinstri mönnum.
            Er það vegna svika Jóhönnu Sigurðar um Skjaldborgina og efndir Framsóknar á kosningaloforð eða vegna þess að þeir þola ekki að allir sitji við sama borð? Það var ekki þessi hávaði þegar 110 leiðin var farin eða þegar erlendulánin voru leiðrétt. Hvernig skyldi standa á því.

            Vinstri menn smækka sig enn meir með þessu svekkelski – ef það var þá hægt.

          • 110% leiðin var á kostnað lánveitenda, ekki skattborgara (nema óbeint í tilviki Íbúðalánasjóðs). Gengistryggð krónulán voru dæmd ólögleg í Hæstarétti og kostnaður af því lenti einnig hjá lánveitendum. Þar er grundvallarmunur á þeim niðurfærslum og Stóru Millifærslunni, sem er á kostnað ríkissjóðs.

      • Bogi Ragnarsson

        Frábær grein. Má bæta þvi við að millifærslan úr ríkiissjóði er a.m.k. 100.000 miljónir en ekki 80.000 milljónir þar sem skattaafsláttur sem eru afsal ríkisins af tekjum einstaklinga eru 20 miljarðar.

        Frá 77.000 til 100.000 milljónir í gjöf til einstaklinga sem hafa séð fasteignir sínar hækka meira en lánin sín.
        Áður en ég fer út að hugsa um eitthvað skemmtilegra en Sigmund Davíð og Bjarna Ben eða æla meira upp í mig þegar ég les um að gjöf til 77% þeirra sem hafa séð fasteignir sínar hækka umfram lán sé réttlæti í stað þess að kynna sér málið og sjá að um gríðarlegt opinbert félagslegt misrétt sé að ræða ætla ég að benda á eina staðreynd úr rannsókn sem ég er að vinna á „skuldaleiðréttingunni“. Samkvæmt ræðu Péturs Blöndal frá 14.maí kemur fram að 13.000 heimili keyptu sína fyrstu íbúð frá des 2004 til júní 2009 en samtals 56.000 heimili sóttu um skuldaniðurfellingu. Það þýðir að 23% af þeim sem sóttu um hafa upplifað að lánin hafi hækkað umfram hækkun á húsnæði. Samtals leggur ríkið a.m.k. 100.000 milljónir til „leiðréttingarinnar“ með beinu framlagi í formi peninga eða skattaafsláttar einstaklinga sem eru tekjur sem ríkið missir af. Þarna er þó ekki hægt að reikna með aðeins 77.milljarðar renni til þess hóps sem hefur séð fasteignir sínar hækka umfram lán þar sem búið að er draga töluvert af hópnum sem keypti frá des 2004 til júní 2009 vegna fyrri úrræða. Þannig verður eitthvað á bilinu 77.000 milljónum til 100.000 milljónum (allt hversu mikið hefur verið dregið af hópnum sem fór verst út úr bólunni vegna fyrri úrræða) dreift til fólks sem hefur grætt hlutfallslega á fasteignum sínum þar sem eignirnar hafa hækkað meira en lánin. Þetta eru 44% Íslendinga ánægðir með samkvæmt könnun fréttablaðsins. Jafnframt hafa hagfræðingar eins og Ólafur Arnaldsson og Ólafur Ísleifsson talað um þetta sem réttlætismál. Ísland hefur komis frá hruni úr 18 sæti upp í annað hvað varðar efnahagslegt jafnrétti (mælt með gini-stuðlinum) meðal 30 Evrópulanda. „Skuldaleliðrétting ríkisstjórnar“ verður líklega mesta opinbera félagslegmismunun hópa á Vesturlöndum síðustu ára. Hver borgar svo reikninginn sem er að jafnaði á bilinu 233.000 til 333.000 kr á hvern íbúa landsins (eftir því hversu mikið hefur verið dregið af 23% hópnum sem varð fyrir forsendubresti vegna fyrir úrræða)? Það erum við öll sem gerum það með t.d. sköttum, gjöldum og niðurskurði.
        Ég hef lokið 200 ects til doktorsprófs í félagsfræði og er byrjaður að leggja grunn að fræðigein um efnið sem verður sérstaklega áhugaverð verði lögin samþykkt aðalega í ljósi þess að ríki eins og Ísland sem í á árunum fyrir hrun mældist sífellt neðar hvað varðar efnahagslegan jöfnuð meðal 30 Evrópulanda hefur síðustu 3 árin verið meðal þeirra þriggja sem standa sig best að þessu leiti standi opinberlega fyrir aðgerðum sem endurspegli líklega mesta efnahagslega og félagslega misrétti milli hópa á Vesturlöndum í nútímanum og meðal annars 44% þjóðarinnar og virtir hagfræðingar styðja.

        • Það verður mjög athyglisvert að sjá þessa rannsókn, Bogi. Og það eru alls ekki öll kurl komin til grafar varðandi tölfræðina í þessu því kynning ríkisstjórnarinnar er full af ósvífnum undanbrögðum, til dæmis eru mörg gröfin sýnd án þess að frádráttur vegna fyrri aðgerða komi þar fram.

        • Kristján Kristinsson

          Ég þreytist ekki að tala um þetta, en…

          Þessir 20 milljarðar sem afsal á sköttum vegna séreignasparnaðarins miðast við að allir þeir 70 milljarðar sem eru í boði verði nýttir – sem er ekki fræðilegur möguleiki. Í dag hafa 30 þúsund einstaklingar sótt um að nýta séreignasparnaðinn, 28 þús. sóttu um fyrir 1. sept og einungis 2 þús. frá 2. sept til dagsins í dag. Það mun ákaflega lítið bætast í þennan hóp úr þessu. Við vitum ekki enn tekjudreifingu þessa hóps (munu allir geta nýtt sér hámarkið eða bara hluti – sem er líklegra) og hversu margir eru einstæðir og hversu mörg hjón sóttu um (skiptir máli því hámarkið er mismunandi fyrir þessa tvo hópa). En ég ætla að fullyrða að sú upphæð sem verður notuð af þessum 70 milljörðum sem í boði eru verður aldrei hærri en 30 milljarðar. Sem þýðir að heildarfjáræð leiðréttingar verður 110 milljarðar og „afsal“ á sköttum innan við 10 milljarðar.

  • kristinn geir st. briem

    flest fólk bír í sínu húsnæði eða skildi alt þettað fólkað selja og flitja inn til foreldrana útaf öllum ímindaða gróðanum hjá vilhjálmi

    • Tek undir þetta.
      Ég myndi samþykkja þessi rök fyrir 2. eign (þ.e. ekki lögheimili). Þetta væru rök fyrir að fjárfestar ættu ekki að fá þessa leiðréttingu en ætti ekki að gilda fyrir fólk í eigin húsnæði.
      Forsendubresturinn felst í því að þurfa borga kostnað við þennan ímyndaða hagnað án þess að geta leyst hann út með góðu móti, ef það kaupir aðra íbúð hefur hún líka hækkað samkvæmt sömu vístölu. Eina leðin til að leysa þetta út er fara úr kerfinu eða minnka við sig.

      • Frekar vildi ég skila hækkunni á íbúðaverði en að þurfa borga kostnaðinn við hana. Ef íbúðarverð hefði hækkað enn meira, þá væri dæmið mun skýrara, fleiri gætu einfaldlega ekki borgað kostnaðinn við að taka við hækkunni.

      • Sigurður M. Grétarsson

        En laun hafa lika hækkað meira en lánin og þar með greiðslubyrin þegar um er að ræða lán tekin fyrir árið 2005. Þessi kostnaðarauki í krónum talið er því ekki vandamál og ekki heldur höfuðstóll skuldarinnar er viðkomandi selur íbúð sína.

          • kristinn geir st. briem

            miðað við hvað miðað við heildarlaun .?. þá erum við tala um öll laun sem menn vinna sér ínn. eða taxtalaun þau hafa ekki hækkað meira en láninn eru að hækka .?. menn verða að vita hvað menn eiga við þegar komið er með svona fullirðíngar en eflaust eru sigurður og vilhjálmur með annan fótin í heitu vatni og hin í köldu. menn borga ekki með meðaltölum heldur með raunverulegum peníngum.

  • Þórhannes Axelsson

    Vilhjálmur lítur svo á að heimili fólks sé eins konar ehf. Best að setja þau á markað í Kauphöllinni!! Þessi meinloka Samfylkingarinnar hefur orðið flokknum dýrt. Þetta er svona í mörgum málum – ekki tekið tilllit til heildarmyndarinnar. Reiknistokkurinn og Excel geta verið ágæt tæki til sín brúks en í höndum Samfylkingarfólks eru þessi tæki stórhættuleg og fjandsamleg alþýðu þessa lands.

    • Reiknistokkurinn og Excel geta verið ágæt tæki til sín brúks en í höndum Framsóknarflokksins eru þessi tæki stórhættuleg og fjandsamleg alþýðu þessa lands.

      • kristinn geir st. briem

        áhvað að setj þetað hér. men skrifa um að laun hafi filt eða orðið hærra en greiðslubyrðinn önnur vara og þjónusta hefur hækkað líka og oft meira en launavisitala taxtavisitölunar vem míngar þá greiðslugétuna. um. um exel og reiknistokin þá er hann hætulegur öllum sem kuna ekki með hann að far hann seigir alltaf satt miðað við þær forsendur sem settar eru inní þá en það er altof sjaldan mann ekki eftir nokuri ríkistjórn sem kuni á reikistokk hvaðá exel eftie að hann kom. um 110%. leiðin borguðu bankarnir líka fyrir íbúðarlánasjóð .?. ef ekki er það skrítinn fullyrðíng því ibúðarlánasjóður er á abyrð ríkisins seinast þegar ég vissi

    • Ásmundur

      Þórhannes, hvernig getur það verið fjandsamlegt alþýðu þessa lands að fara vel með ríkisfé?

      Er það td fjandsamlegt gagnvart almenningi að styrkja veika innviði samfélagsins í stað þess að greiða niður lán þeirra sem hafa hagnast á lántökunni eða geta auðveldlega greitt sín lán sjálfir?

      Lánalækkun er í sjálfu sér ekki endilega vitlaus aðgerð. Hvernig hún er framkvæmd er hins vegar fullkomlega galið.

  • kristinn geir st. briem

    ps, var að lessa greinina eftir svandísi svavarsdóttur þar skrifar hún um leiðréttíngu sem ég þoli ekki vegna 4.milljóna þaksins er meir á þeirri skoðun að kalla þettað millifærsla. þar sem ég var á móti þessari útgáfu er þettað skásta útgáfan sem kom. en leisir engan vanda fyrir því. bara enn ein frestuninn

  • Jens Jónsson

    Er leiðrétting Framsóknar og Sjálfstæðisflokksins stærri millifærsla en átti sér stað þegar Skjaldborgarríkisstjórnin neitaði að aftengja vísitöluna eftir hrun?

    • Ekki er unnt, vegna ýmissa helstu meginreglna réttarríkisins, að „aftengja vísitölu“ af þegar gerðum löglegum lánasamningum. Nýjasta verðtryggingarnefndin sem sú ríkisstjórn sem nú situr skipaði staðfesti þetta einnig í skýrslu sinni.

      • Ekki hægt að aftengja vísitöluna? nú? hversu oft hefur þeim þáttum sem telja vísitöluna verið breytt á síðastliðnum 30 árum?

        • Sigurður M. Grétarsson

          Þeim þáttum hefuir aldrei verið breytt með þeim hætti að lánveitandi tapi á því. Einu sinni var launavísitölu bætt inn í lánskjaravísitölu og það var strax ljóst að það myndi leiða til meiri hækkana til lengri tíma litið en að hafa hana óbreytta. Ástæða þess að lántakar voru samt sáttir við þetta var að það var líka ljóst að til skamms tíma minnkaði þeta bilið milli launahækkana og hækkana lánana þegar kaupmáttarskerðing ætti sér stað.

      • Jens Jónsson

        Það var heldur ekki hægt að breyta kröfuröð í þrotabú fyrr en það var gert með neyðarlögunum?

        Það var þá heldur ekki hægt að tryggja allar innistæður að fullu eftir á

        Hvað breyttist?

        Skjaldborgarríkisstjórnin ákvað að láta lánþega þá sem höfðu minnst endurreisa bankakerfið umfram aðra í samfélaginu, þessvegna var „ekki hægt“ að aftengja vísitöluna.

        • Vilhjálmur Þorsteinsson segir
          ,,Ekki er unnt, vegna ýmissa helstu meginreglna réttarríkisins, að „aftengja vísitölu“ af þegar gerðum löglegum lánasamningum. Nýjasta verðtryggingarnefndin sem sú ríkisstjórn sem nú situr skipaði staðfesti þetta einnig í skýrslu sinni.“

          Fannarh svarar
          ,,Ekki hægt að aftengja vísitöluna? nú? hversu oft hefur þeim þáttum sem telja vísitöluna verið breytt á síðastliðnum 30 árum?“

          Vilhjálmur, þetta er einmitt málið. Vísitölunni er búið að breyta og þannig ,,aftengja“ og tengja með nýjum hætti mörgum sinnum.

          Þetta er bara bull hjá þér.

          Eins er hægt að aftengja þessa tilteknuvísitölu og binda hana eins og hún mun vera 1.1. 2015 (það er fram í tímann). Þá munu hækkanir verða x/x það er engar vegna vísitölunnar.

          Þetta er vel hægt og er eitt form þess sem Fannarh segir, þ.e. að ,,breyta“ vísitölunni.

          Hvert er tjónið hjá fjármálastofnunum við að festa visitöluna, sem er fram í tímann?

          Tjónið er ekkert. Því þessi eign er ekki skráð með vísitölu. Ef menn ætla að skrá 1.000.000kr. lán mv 3% árlegri verðbólgu til langs tíma. Þá eru menn bara í hreinni ágiskun.

  • Ásmundur

    Ef eðlilega hefði verið staðið að lækkun lána hefðu þeir sem hafa ekki orðið fyrir neinum „forsendubresti“ og þeir sem geta auðveldlega greitt sín lán aldrei fengið neina lækkun.

    Ljóst er að þá hefði megnið af upphæðinni sparast jafnvel 60 milljarðar sem er áætlaður byggingarkostnaður nýs spítala. Hér er því verið að kasta út um gluggann andvirði heils spítala á sama tíma og menn sjá engin ráð til að byggja hann þrátt fyrir að þörfin sé brýn.

    Ríkisstjórn sem fremur slík afglöp hlýtur að vera versta ríkisstjórn sögunnar jafnvel þó að fyrri afglöp séu ekki tekin með í reikninginn.

    Störf ríkisstjórnarinnar hafa einkennst af tilfærslu á fé frá hinum verr settu til hinna betur settu. Lækkun veiðigjalda, afnám auðlindarskatts og hækkun á matarskatti eru dæmi um það. Stóra millifærslan er einnig slík aðgerð þegar á heildina er litið.

  • Ragnheiður

    Kærar þakkir fyrir þessa góðu samantekt. Dæmið lítur enn verr út ef greiðslubyrði leiðrétta fólksins er borin saman við greiðslubyrði leigjenda. Það væri líka gott að fá að vita hvernig þetta dreifist um landið.

  • Hjalti Atlason

    Markmiðið með leiðréttingunni var bara eitt að leiðrétta forsendubrest. Það er því skrítið að vera gagnrýna aðgerðina út að því að hún lagfærði ekki eitthvað sem hún átti aldrei að laga. Þjóðin kaus þessa aðgerð enda mikið réttlætismál. Ef menn vilja leita að illa eyddum krónum þá sé ég mun meira eftir þeim 100 milljörðum sem við erum búin að eyða í gjaldeyrisvaraforðan í miðjum höftum, þeir fara beint út úr landinu og hafa laskað óskuldsetta forgangi. Hitt er þó mest millifærsla sem ríkið nær að einhverju marki aftur gegnum neyslu.

    • Ásmundur

      Hvernig getur það verið réttlætismál að þeir sem högnuðust á sinni lántöku, og urðu því ekki fyrir forsendubresti, fái greitt samtals tugi milljarða úr ríkissjóði?

      Hvernig getur það verið réttlætismál að þeir sem eiga auðvelt með að greiða sínar skuldir fái lánalækkun meðan hækkuð greiðslubyrði leigjenda er óbætt?

      Hvaða rettlæti er í því að leigjendur þurfi með sköttum að taka þátt í að greiða niður lán þeirra sem eru fjárhagslega miklu betur staddir en þeir?

      Nei, þetta er ekki réttlæti heldur yfirþyrmandi ranglæti. Sérstaklega er blóðugt hvernig ríkisfé er sóað í þeim mikla niðurskurði sem heilbrigðis- og menntakerfin ofl búa við.

      • Hjalti Atlason

        Ásmundur þú hefur mikið til þína máls. Í mínum huga er ekki spurning að það þarf einnig að koma til móts við leigjendur og aðra sem sátu eftir í góðærinu. Að dreifa réttlæti milli 300 þúsund manns verður aldrei fullkominn aðgerð. Ég sæi fyrir mér að fólk sem gæti sýnt fram á að hafa fengið enga aðstoð hvorki vegna innistæðna né lána gæti sótt um réttlætisbætur. Við erum ein ríkasta þjóð heims við höfum efni á þessu.

        • Ásmundur

          Hjalti, það er hringavitleysa ef ríkið fer að greiða flestum eða öllum bætur því að það hlýtur að vera á kostnað allra með skattgreiðslum. Þess vegna er svo mikilvægt að vandað sé til valsins þegar ríkið ákveður að ráðstafa fé til einstaklinga.

          Það er rangt að úthluta slíku fé eingöngu til skuldara og fullkomlega galið að gera það með þeim hætti sem gert er þar sem upphæðin er gífurleg og mikill meirihluti hennar fer til þeirra sem hafa hagnast á sinni lántöku og þeirra sem gátu auðveldlega greitt sín lán.

          Það er rangt að leysa tímabundinn vanda með lækkun lána til langs tíma. Þrátt fyrir tímabundinn vanda gætu lánin reynst hagkvæm þegar upp er staðið. Það veit enginn fyrr en í lok lánstímabilsins.

          Auknar vaxtabætur og húsaleigubætur er rétt leið í þessari stöðu. Aðferð ríkisstjórnarinnar getur leitt til þess að margir, ekki síst þeir best settu, muni beinlinis græða á hruninu meðan tjón hinna verður þeim mun meira.

          • Hjalti Atlason

            Ef ekki hefði verið fyrir ótakmarkaðar innistæðutryggingu og afskriftir erlendra lána sem báðar voru almennar aðgerðir til broddborgara þessa lands þá hefði ég aldrei stutt þessa leiðréttingu. Meðalverðbólga frá stríðslokum er 14% sem lætur þennan 18% forsendubrest líta nokkuð heimilislega út.

            Þetta snýst um samfélagslegt réttlæti, húsnæðiskaup eiga ekki að vera eitthvað lotterí þar sem einn hópur fær gefins áratugs vinnulaun á meðan nágranninn er settur í 110% skuldafangelsi.

            Myndi vilja sjá fólk sem var á leigumarkaði gegnum hrunið fá sambærilega leiðréttingu.

  • Ragnheiður

    Hjalti ! Þjóðin kaus ekki framsóknarflokkinn. Flokkurinn bætti hins vegar við sig um 10 til 12% vegna þessa bulls. Varðandi forsendubrestinn ,lastu ekki greinina?

    • Hjalti Atlason

      Ragnheiður þetta er mjög góð grein hjá Vilhjálmi að vanda og það er engum vafa undirorpið að þessi leiðrétting dreifist yfir alla flóruna, enda 90 þúsund manns að njóta góðs. Það má hinsvegar ekki vanmeta réttlætiskennd fólks. Bakkabræður fengu 170 milljarða afskrifaða og eru sterkefnaðir í dag o s fr. Sparifjáreigendur voru tryggðir í top það voru kannski mest þýskir sparifjáreigendur sem tóku þann skell en það má ekki vanmeta aðra kröfuhafa eins og lífeyrissjóði sem fengu mun minni endurheimtur vegna neyðarlagana. Það er því mikil einföldun hjá Vilhjálmi að spkef hafi verið eini innlendi kostnaðurinn. Með þessari aðgerð er verið að koma til móts við gríðarlega mikið af vonsviknu fólki sem var skilið eftir og getur nú rifið sig upp. Þegar innistæðurnar voru tryggðir að fullu þá var ekki spurt að því hver þyrfti á því að halda 15 milljóna trygging hefði dugað 95% sparifjáreigenda, er restin fátæk þurfti hún á því að halda að fá milljarðinn sinn tryggðan? Þessi neyðarlög kostuðu okkur icesave til viðbótar, þannig að mér finnst menn nokkuð brattir í sinni gagnrýni á þetta þjóðþrifamál.

  • Sigurður

    Þetta er alveg stórfurðuleg afstaða sumra, að forsendurnar fari eftir fasteignaverði, en EKKI vöxtum og verðbólgu sem ráða afborgunum.

    Það má hækka höfuðstólinn að vild, alveg út í hið óendanlega svo fremi að fasteignaverð hækki lika svipað.

    Fólki eru birtar greiðsluáætlanir, áætlanir um hverjar afborganir verða, og hvað lánið muni kosta.

    Ef þróun fasteignaverðs er ein forsenda lánsins, hvers vegna er þá ekki líka birt spá fyrir þróun fasteignaverðs þegar lánið er tekið????

    Þetta eru svo víðáttuheimskuleg rök sem menn nota, að það sé enginn forsendubrestur þegar afborgarnir hækka um 50% umfram spár, því fasteignaverðið hafi lika hækkað?

    Fólk borgar enga reikninga með fasteignamati.

    Það er nákvæmlega jafn erfitt og áðuru að borga af þessum stökkbreyttu lánum þótt fasteignamatið hafi hækkað.

    Hvers vegna voru tugir milljarða settir í leiðir fyrri ríkisstjórnar?

    Afhverju hækkuðuð þið ekki bara fasteignamatið, og málið leyst?

    • @Sigurður:

      Húsnæðiskostnaður hækkaði líka hjá öðrum en þeim sem höfðu tekið fasteignalán. Þeir eru í flestum tilfellum með lægri tekjur og þurfa svo núna að borga fyrir þetta líka með sköttunum sínum. Er það ekki jafn mikill forsendubrestur?

      Það sem er víðáttuheimskulegt er að ímynda sér að allir séu að borga af húsnæðisláni—ætli það sé ekki það sem þarf til að teljast vera manneskja í þessu landi?

      Framsóknarmenn, og sérstaklega Sjálfstæðismenn, ættu að skammast sín fyrir þessu óréttláttu og heimskulegu ráðstöfun.

    • Sammála J. Ef það varð erfiðara að borga af lánum, þá er það vegna þess að kaupmáttur launa dróst saman. En það er nokkuð sem allir (eða langflestir) lentu í, líka leigjendur, ungt fólk og aðrir sem ekki áttu fasteign með verðtryggðu láni 2008-9. Að eyða 80 milljörðum bara í þann hóp er galið.

    • Þorbergur

      Sigurður

      Afborganir af lánum er bara einn hluti af neyslu fólks, kannski 20 til 40 % af heildinni. Hitt fer í mat, föt, heilsugæslu menntun, afþreyingu og fl. og leigu hjá þeim sem leigja. Allir þessir liðir hækkuðu við hrun krónunnar og að meðaltali jafn mikið og afborganir lána, því þannig er vísitalan sem afborganir eru hækkaðar með reiknuð út. Af hverju að bæta bara einn hluta útgjaldanna en ekki aðra. Þetta er sérstaklega óréttlátt þegar tekið er mið að því að allir húsnæðiseigendur sem ekki keyptu sína fyrstu íbúð á árunum 2005 til 9 eru með eign sem hefur hækkað meira en skuldin frá því hún var keypt. Það mætti jafnvel halda því fram að það ætti frekar að bæta allt annað en húsnæðislán (nema þeirra sem keyptu sína fyrstu íbúð 2005-9, þeir hafa orðið fyrir mikilli lækkun húsnæðisverðs). Húsnæði hækkar að jafnaði um 2% á ári umfram vísitölu og tvöfaldast .því í verði umfram vísitöluna á 30 árum. Þeir sem eiga húsnæði eru því alltaf á grænni grein ef þeir geta haldið húsnæðinu. Við það miðuðust margar aðgerðir síðustu stjórnar td. 110 % leiðin og lengingin í lánunum.

  • thorhildur lilja thorkelsdottir

    LAUNIN. Það er forsendubresturinn.

  • Borgar Bui

    Það er nú meiri býsnin sem þessi „leiðrétting“ fer fyrir brjóstið á vinstri mönnum.
    Er það vegna svika Jóhönnu Sigurðar um Skjaldborgina og efndir Framsóknar á kosningaloforð eða vegna þess að þeir þola ekki að allir sitji við sama borð? Það var ekki þessi hávaði þegar 110 leiðin var farin eða þegar erlendulánin voru leiðrétt. Hvernig skyldi standa á því.

    Vinstri menn smækka sig enn meir með þessu svekkelski – ef það var þá hægt.

    • 110% leiðin var á kostnað lánveitenda, ekki skattborgara (nema óbeint í tilviki Íbúðalánasjóðs). Gengistryggð krónulán voru dæmd ólögleg í Hæstarétti og kostnaður af því lenti einnig hjá lánveitendum. Þar er grundvallarmunur á þeim niðurfærslum og Stóru Millifærslunni, sem er á kostnað ríkissjóðs.

      • Merkilegt hvað Vilhjálmur hefur verið tilbúinn að réttlæta þá STÓRKOSTLEGU leiðréttingu sem ákveðnir hópar fengu í gegnum 110% leiðina og leiðréttingu gengislána – bara af því að það var greitt af kröfuhöfum eða lánveitendum. Virðist alveg líta framhjá því að bankarnir taka þetta „áfall“ algjörlega til baka í gegnum vexti og þjónustugjöld.

        Vilhjálmi finnst hið besta mál að „sumir“ hópar (100%, gengislán) fái bættar miklu hærri upphæðir en með millifærslu ríkisstjórnarinnar (per einstakling eða fjölskyldu). Þeir eiga ekkert að fá að því að það er greitt úr „ríkissjóði“ frekar en frá lánveitendum.

        Vilhjálmur nefnir ekki að lánveitendur taka allt „tapið“ sitt til baka í gegnum vaxtaokur og þjónustugjöld frá skattgreiðendum. Hinsvegar er réttlætanlegt að mismuna hópum algerlega eftir því hvaðan peningarnir koma OG hvaða leið lántakendur fóru (sbr. gengislán).

        Það hefur heldur betur komið í ljós hvað þeir voru „heppnir“ sem tóku gengislán. Þjóðin borgar líka kostnað vegna þeirra.

      • Hvaðan komu peningarnir þegar Ó.Ó.Samskip fékk niðurfellt 65 milljarða í tíð vinstri stjórnar, var það úr vasa „auðmanna“ finnst flott þegar eitthvað er gert fyrir litla fólkið þá gleymist allt sem auðmenn fengu afskrifað í tíð vinstri stjórnar, hvernig vogið þið ykkur að setja út á þessa leiðréttingu þegar allir skattar og fleiri til voru hækkaðir á einmitt launamanninn í þessu landi, held að þið ættuð að halda ykkur við Excelið og ekki láta sjá ykkur í stjórnmálum. SDG benti á mjög auðvelda leið fyrir ykkur strax í upphafi með 20% niðurfellingu sem hefði hjálpað mjög mörgum ÞÁ en ekki fór vinstri stjórnin eftir henni því miður, þeir höfðu öll tök á að halda hér um stjórnartaumana næstu áratugi en þeir klúðruðu því eins og skjaldborginni(tjaldborginni), Icesave og nánast öllum öðrum málum sem þeir komu að.

        • Afskriftir fyrirtækja og auðmanna voru á kostnað fjármálastofnananna sem veittu lánin, en ekki á kostnað eða forræði ríkissjóðs.

          • Einmitt, rétt hjá Önnu. Það er ekki ríkisstjórn hvers tíma sem tekur ákvarðanir um afskriftir lána í bönkum. Það er einfaldlega svo, eins og stendur í 1. gr. hlutafélagalaga nr. 2/1995, að „enginn félagsmanna [þ.e. hluthafa] ber persónulega ábyrgð á heildarskuldbindingum [hlutafélagsins]“. Ef hlutafélag á ekki eignir fyrir skuldbindingum sínum er ekkert annað að gera en að afskrifa lán sem því hafa verið veitt, og eftir atvikum að knýja það í gjaldþrotaskipti ef það er lánardrottni hagstæðara en að láta reka félagið áfram. Þannig eru bara lögin í landinu og þannig virka hlutafélög hvarvetna.

          • Þú meinar í gegnum sérstakan bankaskatt sem var ekki til áður. Hvar er ósanngirnin í því?

            Ekki gleyma að þú borgar líka óbeint 100% fyrir 110 leiðina og gjöfina frá Hæstarétti

          • Hver borgar brúsann og hver hefði getað komið í veg fyrir þetta voru það ekki Skattgrímur og Jóhanna á þeim tíma, skil ekki hvernig þið getið varið gerðir þeirra í fjögur ár. Þegar þau tóku þegna þessa lands í ósmurt aftur og aftur og aftur.

  • Torfi Hjartarson

    Þvert á móti. Þessi aðgerð á sér fjögurra ára aðdraganda og er mjög vel ígrunduð. Hún mun auka jöfnuð í samfélaginu með þeim hætti að það dregur saman með millistéttinni og þeim efnameiri. Hin leiðin er að jafna kjör millistéttar niður á við að þeim sem lökust hafa kjörin en þeirri leið var alfarið hafnað í síðustu kosningum.
    Það sem er galið er hins vegar viðbrögð eins og birtast í þessum pistli.
    Í fyrsta lagi vilja þeir sem ekki vildu sá útsæðinu með litlu gulu hænunni ekki einungis borða brauðið sem hún bakaði heldur líka ráða því hverjir eiga að borða það. Það liggur fyrir að þeir fjármunir sem fara í rúmlega helming leiðréttingarinnar eru sóttir til fjármálafyrirtækja í slitameðferð með því að fella niður undanþágu þeirra frá skattlagningu. En það var einmitt stjórn Samfylkingar og VG sem setti þessa undanþágu í lög nr. 155/2010. Það er svo á flestra vitorði að helstu fjármálafyrirtækin í slitameðferð hér á landi eru í eigu sterkefnaðra aðila, ef ekki ríkustu einstaklinga í heimi. Þeir hafa ábyggilega ekki fúlsað við þessum skattfríðindum á meðan almenningur hér á landi herti sultarólarnar. Samfylkingin og VG hækkuðu nefnilega hundrað skatta á síðasta kjörtímabili skv. fréttum og fullyrtu að það væri ekki hægt að gera meira fyrir heimilin í landinu.
    Í öðru lagi er það “forsendubrestur” og akkilesarhæll röksemdafærslunnar að bera sveiflur í fasteignavirði saman við leiðréttingu á skulda- og greiðslubyrði lántakenda. Venjulegir fasteignaeigendur stunda það ekki að innleysa söluhagnað af heimilum sínum með sölu við heppilegar markaðsaðstæður – enda er það líka óraunhæft nema að þú ákveðir að flytja frá Reykjavík til Raufarhafnar. Fólk flytur tiltölulega sjaldan, helst þegar brýna nauðsyn ber til vegna fjölskylduaðstæðna og þá er aldrei að vita hvert markaðsástandið er. Þá er alveg eins hægt að fara alla leið og draga fram allar fjárfestingar fasteignaeigenda s.s. skuldabréfakaup á mismunandi tímum og úthluta lánaleiðréttingum í samræmi við almenna lánsemi í fjárfestingum.

    • Þvílíkt bull.

      Ef eitthvað mætti kalla „forsendubrest“, þá er það lækkaður kaupmáttur allra, ekki bara fólks sem komst í gegnum greiðslumat og átti fyrir útborgun í íbúð (og gat þannig lækkað sinn húsnæðiskostnað).

      Fasteignaeigendur eru ekki almenningur.

    • Sammála J. varðandi afborganir lána sem urðu erfiðar vegna þess að kaupmáttur þvarr – en það er „forsendubrestur“ alls launafólks, ekki bara þeirra sem áttu fasteign með verðtryggðu láni.

      Torfi gleymir því líka að það var þrátt fyrir allt síðasta ríkisstjórn sem setti á sérstakan bankaskatt með lögum 155/2010. Vissulega voru slitabú föllnu bankanna þá undanþegin lögunum enda lagðist skatturinn á skuldir fjármálafyrirtækjanna og á þeim tímapunkti voru kröfur í föllnu bankana (skuldir þeirra, þ.e. skattstofninn) enn óljósar. Margvísleg álitaefni voru enn fyrir dómstólum og stórar kröfur enn óútkljáðar. Slík skattlagning varð fyrst raunhæfur möguleiki 2013. Raunar er enn óvíst að takist að skattleggja skuldir slitabúanna eins og ríkisstjórnin áformar, og munu dómstólar hafa síðasta orðið um það.

      • Torfi Hjartarson

        Skattstofnar eru alltaf háðir einhvers konar mati sem fram fer árlega. En það að láta skattstofn sem liggur upp undir 2500 milljarða liggja ónýttan í fjögur ár í kreppuástandi vegna óvissu um hvað síðara mat myndi leiða í ljós o.s.frv. er ekkert annað en mismunun og spilling sem fer í annála.

  • Ánægjulegt að sjá að stjórnmálamenn reyni að standa við kosningaloforð. Eitthvað sem VG (aldrei nokkurn tímann í ESB) og Samfylking (skjaldborg um heimilin) ættu að hafa í huga.

    En – allt orkar tvímælis þá gert er. Jafnaðarmenn eiga erfitt með að sætta sig við að einhver fái sem ekki þurfi.

    En, hæstiréttur felldi niður allt gengistap þeirra sem fóru glannalegast og tóku erlend lán til neyslu eða fjárfetinga. Þá fengu margir mikið – sem ekki þurftu.

    Getur það ekki verið jafnaðarmennska að laga eitthvað skuldastöðu þeirra sem fóru þó hvað varlegast og tóku lán í íslenskum krónum?

    Og það sem fer í þetta er ekki nema brot af Icesave vöxtunum, sem flestir talsmenn íslenskra jafnaðarmanna vildu borga, svona til öryggis.

    En tala nú fullir hneykslunar um óábyrga ráðstöfun á skattfé…!!

    • Dómur Hæstaréttar um ólögmæti gengistryggðra krónulána og afskrift þeirra á kostnað lánveitenda í kjölfarið er að sjálfsögðu allt annars eðlis en útgreiðsla stórra fjárhæða úr almannasjóðum, með frjálsri ákvörðun stjórnvalda.

      Icesave-vextir hefðu numið vel innan við helmingi af þeirri upphæð sem nú er ráðstafað til Stóru Millifærslunnar. Þeir hefðu verið álíka upphæð og Seðlabankinn tapaði, í erlendum gjaldeyri, á lánveitingu til Kaupþings 6. október 2008.

      • Vilhjálmur, það er ekki hægt að slíta sundur þá gjöf sem þeir sem fóru glannalegast fengu í gegnum dóm Hæstarétt frá leiðréttingunni núna.

        Það er fullkomlega óeðlilegt að líta svo á að þeir sem spiluðu djarfast fái allt sitt bætt bara af því að Hæstiréttur dæmir lánaformið ólöglegt. Það er eins og að kasta teningi og segja að sumir fái allt sitt bætt en hinir ekkert. Fullkomið óréttlæti og til þess að slíta þjóðina í sundur.

      • Svavarssamningurinn hefði verið miklu dýrari – tvö- ef ekki þreföld þessi upphæÞð – og það út úr íslenska hagkerfinu yfir til þeirra í London og Amsterdam.

        Svo er það hitt – ef löggjafinn ákveður að bæta tjón vegna jarðskjálfta, eldgosa, flóða, forsendubrests eða einhvers annars þá er tjónið einfaldlega metið og bætt – en ekki spurt hvort viðkomandi geti komist af án þess að tjón hans sé bætt.

        Nema ef SF mundi ráða – þá mundi hún hafa það þannig að þeir sem urðu fyrir tjóninu og hafa litlar tekjur og eiga litlar eignir og eiga fátæka foreldra – gætu sótt um bætur á tjóninu og muni þá nýtt sérstakt 17 manna ráð taka erindið fyrir og meta þörfina hjá viðkomandi og bæta honum tjónið eftir því sem teldi hæfilegt…!

        • Punkturinn í pistlinum er að fjöldi fólks varð ekki fyrir tjóni en fær samt bætur. Nema það eigi að vera ríkisábyrgð á því að fólk geti jafnan selt fasteignir sínar á síðasta toppi markaðarins, en fái bætur frá skattgreiðendum ella?

          • Það er rétt hjá þér að það orkar tvímælis að bæta fólki verðbætur á fasteignalánum – því í sjálfu sér eru verðbætur aldrei kostnaður heldur mæling á rýrnun krónunnar. Þannig gerur verið mikil verðbólga en fasteignaeigendur samt að hagnast því fasteignir hækki enn meir. Það er áhætta sem hver verður að taka fyrir sig – og hafa alltaf gert og munu líklega gera hér eftir.

            En þá má líta til þess að margir fengu gríðarlegar leiðréttingar á gengisbundnum lánum sínum – þó svo ríkissjóður hafi ekki borið kosnaðinn á því. Þeir högnuðust gríðarlega.

            Í öðru lagi þá þyngdist fyrir fæti hjá fasteignaeigendum að standa í skilum á innlendum lánunum vegna hækkunnar þeirra (þó svo eignirnar hafi einnig hækkað) – þar sem laun lækkuðu á sama tíma.

            Í þriðja lagi þá var þetta helsta kosningarloforð þess flokks sem vann stærsta kosningasigurinn í síðustu kosningum. Og – stjórnmálamenn eiga að reyna að standa við kosningaloforð, því annars virkar ekki þetta sem við köllum lýðræði.

            Í fjórða lagi þá kemur hátt í helmingurinn af þessu til baka til ríkisins með auknum umsvifum í samfélaginu (sannaðu til..). (Afar ólíkt Icesave vöxtunum sem margir vildu endilega borga…).

            En – þetta orkar tvímælis, það er rétt.

  • góður Torfi Hjartarson 🙂

  • Þeir sem halda fram því að ekki hafi orðið forsendubrestur í Hruninu, virðast meina það að sé eðlilegt að fólk sé neytt í afleiðuveðmál með stóran hluta ævisparnaðarins með verðtryggðum húsnæðislánum.

    Einstaklingur tekur verðtryggt lán. Lánveitandi með glæpsamlegri hegðun veldur einstaklingnum miklu fjárhagslegu áfalli þannig að hann getur ekki borgað af láninu. Er það ekki forsendubrestur?

    Vissulega hefði það verið eðlilegra að ríkið hefði kippt vísitölunni úr sambandi strax eftir hrunið en leiðréttingin núna er þó a.m.k. síðbúin tilraun til að bæta fyrir þau mistök. Ríkið breytti forsendum lánskjaravísitölu snemma á níunda áratugnum, bankarnir fóru í mál sem þeir enduðu á að tapa fyrir Hæstarétti þannig að fordæmi er komið fyrir því að breyta forsendum vísitölu.

    Þó hægt sé að reikna burt hluta af áfallinu með því að skoða hækkað söluverð fasteigna er þar einungis horft á dæmið sem fjárfestingu. Flest fólk þarf að búa í húsnæðinu sem lánið er tekið fyrir, hækkun markaðsverðs breytir því ekki að greiðslubyrðin þyngist harkalega.

    Ríkið ber sína ábyrgð. Lánveitandinn starfaði undir eftirliti ríkisins sem gerði ekki sína skyldu.

    • Ég held því ekki fram að það hafi ekki orðið „forsendubrestur“ í Hruninu, en hann varð fyrst og fremst hjá þeim sem keyptu 2005-2009 og hafa tapað vænum hluta af eigin fé sínu. Ég rek dæmið frá október 2007 þar sem 40% hafa tapast af hverri milljón. Stóra Millifærslan „leiðréttir“ hins vegar ekki nema kannski 11%, af því að svo mikið fé fer til fólks með eldri lán sem hefur haft fínan ávinning af hækkun íbúðaverðs umfram vísitölu neysluverðs. Það hefði kostað miklu minna að beina aðgerðinni að þeim sem raunverulega urðu fyrir tjóni, og gera jafnvel meira fyrir þá en Stóra Millifærslan gerir.

  • Það var enginn neyddur í neitt og flestir munu græða á sínu „afleiðuveðmáli“ þegar uppi er staðið. Það er óréttlátt að ríkið skuli greiða upp mismuninn á áætluðum hagnaði fólks og raunverulegum.

    Greiðslubyrði annarra hækkaði líka, fólks í leiguhúsnæði sem eyðir hærri hluta sinna tekna í húsnæðiskostnað og ungs fólks sem mun nú eiga erfiðara með að komast inn á markaðinn, auk annarra slæmra efnahagslegra afleiðinga sem þessi ráðstöfun mun hafa.

    Allir töpuðu á hruninu ekki bara fasteignaeigendur. Nú þurfa hinir, sem þó þurftu að taka á sig jafn mikla skerðingu og sá útvaldi hópur, að greiða fyrir sjálftöku hinna fyrri úr galtómum ríkissjóði.

      • „…Það var enginn neyddur í neitt …“
        Það er svosem hægt að flytja til annarra landa. Leigumarkaður undanfarinna ára og áratuga getur varla talist boðlegur valkostur. Fáir geta staðgreitt við fasteignakaup. Verðtryggð húsnæðislán hafa verið partur af þeim raunveruleika sem almenningur á Íslandi hefur búið við.

        Þar fyrir utan get ég fallist á að forsendubresturinn var tilfinnanlegastur hjá þeim sem keyptu síðustu árin fyrir hrun.

        • Í þessari athugasemd, kæri Borgari, kristallast öll umræðan, þegar þú segir að leigumarkaður undanfarinna ára og áratuga geti ekki talist „boðlegur valkostur“.

          Ég veit ekki hvort mér svíður meira, sem leigjanda til margra ára, sem á engra annarra kosta völ, að líf mitt skuli vera metið svo í opinberri umræðu sem svo að það sé ekki boðlegt, eða það að ég skuli þurfa að borga fyrir það með sköttunum mínum, hærri verðbólgu, og þar með húsaleigu, verri heilbrigðisþjónustu og skólum á fallanda fæti, að aðrir sem hafa meira á milli handanna en ég fái lægri greiðslubyrði og hærri eiginfjárstöðu í húsnæði.

          Og þetta kallið þið réttlæti. Þetta er til skammar!

          Þú segir líka að fólk geti farið til útlanda. Það vill svo til að ég er vel menntaður ungur maður í góðu og vellaunuðu starfi. Hins vegar er greiðslubyrði mín af húsaleigu, mat og öðru tilfallandi slík að ég mun aldrei geta sparað fyrir útborgun í íbúð til að komast í tölu almennilegs fólks í þessu landi.

          Ég er búinn að gefast upp, og það er ekki síst hroki og skeytingarleysi stjórnvalda sem veldur, því og mun flytja frá Íslandi og aldrei búa hér aftur nema ég verði efnaður maður.

          Ég er búinn að kaupa flugmiðann.

  • Borgar Bui

    „110% leiðin var á kostnað lánveitenda, ekki skattborgara (nema óbeint í tilviki Íbúðalánasjóðs). Gengistryggð krónulán voru dæmd ólögleg í Hæstarétti og kostnaður af því lenti einnig hjá lánveitendum. Þar er grundvallarmunur á þeim niðurfærslum og Stóru Millifærslunni, sem er á kostnað ríkissjóðs.“

    Ef lygin er sögð nógu oft …………….. var það ekki einhvernveginn svoleiðis sem á að gera það ?

    Bara að upplýsa þig um staðreyndir sem þú ættir að hafa á hreinu ef þú vilt skrifa eitthvað marktækt um málið.
    Gert er ráð fyrir að sérstakur bankaskattur fari í þetta. Það er búið að segja það þúsund sinnum.

    Held að vinstra liðið ætti að anda í gegnum nefið og minnast SPKEF og svikum vinstri stjórnarinnar við almenning þessa lands.

    • Og það er búið að svara því þúsund og einu sinni að skattur er skattur og þeir fara í ríkissjóð. Það sem kemur úr ríkissjóði er á kostnað skattgreiðenda, ekki banka.

    • Sigurður M. Grétarsson

      Í fyrsta lagi þá er það valkostur að setja þennan skatt í annað sem skattgreiðendur fjármagna því það er engin skylda að láta þennan skatt fara í niðurgreisðlu lána. Sá vallkostur var hvorki til staðar varðandi gengislánin né 110% leiðina. Gengislánin þurfti einfaldlega að leiðrétta vegna dóms Hæsaréttar. Niðurfellingar skulda semkvæmt 110% leiðinni voru að mestu leyti niðurelling á þegar töpuðu fé. Vissulega eru líkur á því að eitthvað af þeim niðurfellingum hefðu orðið innheimtanlegar en kostnaðurinn við að reyna að ná í þann hluta lánasafnsins sem mögulegt hefði verið að nái inn hefði sennilega orðið meiri en ávinnungurinn. 110% leiðin kostaði því ekki neitt í raun þó hún hafi gert það á pappírum.

      Í öðru lagi þá er óvíst að skattur á þrotabúin standist stórnarskrá og þá lendir á öðrum skattgreiðendum að borga það.

      Í þriðja lagi eru bankar eins og önnur fyrirtæki þannig að veltuskattur á þau lendir að mestu leyti á viðskiptavinum þeirra. Því mun sá bankaskattur sem lendir á viðskiptabönkunum koma fram í auknum vaxtamun á íslenskum lánamarkaði. Þar sem innlánsvextir eru mjög nálægt núllinu þá mun sú aukning vaxtamunar að mestu koma fram í hækkun útlánsvaxta. Það er ekki hægt að hækka vexti á þegar teknum lánum með föstum vöxtum og því mun þessi vaxtahækkun að mestu koma niður á nýjum langímalánum og skammtímalánum. Það kemur ekkert niður á fólki sem er þegar búið að taka húsnæðislán með föstum vöxtum og hefur nægar tekjur til að geta fjármagnað endurnýjun bíla sinna og heimilistækja ásamt fjármögnun sumarleyfa án lántöku. Það verða þeir sem ekki geta gert það sem borga brúsann. Þetta mun því auka ójöfnuð í samfélginu því það verða fyrst og fremst þeir betur stæðu sem hagnast á þessum aðgerðum en þeir verr stæðu sem borga brúann.

  • Borgar Bui

    Marinó G Njálsson skrifar: ilhjálmur Þorsteinsson fellur enn og einu sinni í þá gildru að telja hækkun húsnæðisverð vega upp hækkun verðbóta. Ég er búinn að benda honum oft á og fleirum að þessi rök eru röng. Best ég fari í gegn um þetta enn einu sinni:
    1. Það er ENGINN ávinningur af hækkun húsnæðisverðs nema annað af tvennu eigi sér stað:
    a. Húsnæði er selt og viðkomandi seljandi fer í ókeypis húsnæði og þá líka leigulaust;
    b. Húsnæði er selt og viðkomandi fer í húsnæði sem hefur hækkað umtalsvert minna en húsnæðið sem var selt, þ.e. fer í minna húsnæði eða flytur í hverfi eða stað, sem sat eftir í hækkun húsnæðisverðs.
    2. Í öllum öðrum tilfellum, þá kaupir viðkomandi húsnæði sem hækkaði samhliða því þegar hið selda húsnæði hækkaði.

    Tökum dæmi um tvær íbúðir sem byggðar eru á sama tíma. Segjum að einstaklingur A hafi keypt aðra á 9 m.kr. 1997 og einstaklingur B hafi keypt hina á 12 m.kr. Íbúð sem A kaupir er umtalsvert minni en sú sem einstaklingur B kaupir. Nú setjum við á fastforward til 2004. Gefum okkur að báðar íbúðir hafi hækkað um sömu prósentu, þ.e. 50%, meðan vísitalana (júní til júní hvort ár) hefur hækkað úr 179,8 stigum í 235,7 stig eða 31%. Sem sagt hækkun húsnæðisverðs umtalsvert meiri en verðbólga. Hvernig aðili B fjármagnaði sín kaup skipta ekki máli, þar sem ég ætla að skoða meintan ávinning aðila A. Hann tók 65% húsnæðislán hjá Húsnæðisstofnun (síðar ÍLS) til 30 ára og fjármagnaði afganginn með eigin fé.
    Aðili A selur í júní 2004 og kaupir um leið af einstaklingi B. Söluverð gamla húsnæðisins er 13,5 m.kr. og kaupverð nýja húsnæðisins kr. 18,0 m.kr.
    Einstaklingur A tók lán að upphæð kr. 5.850.000 og greiddi af láninu 2.605.026 kr., en eftirstöðvarnar eru 6.834.030 kr. Eftirstöðvar og greiðslur nema því 9.439.056 kr. Eigið fé hefur hækkað úr 2.150.000 kr. í 6.665.970 kr. og er 49% í stað 35% áður. Mesta hækkun eiginfjár er vegna hækkunar húsnæðisverðs en einnig greiddi hann heilar 421.818 kr. inn á höfuðstólinn.
    En þá er það hitt húsnæðið. Það kostaði 1997 12,0 m.kr. og hefur hækkað um 6,0 m.kr. Staða lána á því skipta ekki máli. Ef einstaklingur A hefði keypt húsnæðið 1997 hefði hann þurft að bæta 3,0 m.kr. við kaupverðið miðað við kaupverð á hinu húsnæðinu, en núna þarf hann að bæta við mismuninum á núverandi eiginfé við sölu á gamla húsnæðinu og kaupverði á því nýja, þ.a. 18.000.000 – 6.665.970 = 11.334.030. Ef hann hefði tekið 7,8 m.kr. lán (65%) til að kaupa dýrara húsnæði 1997, þá stæði það í 9,1 m.kr. með afborganir upp á 562.424 kr. Einstaklingur A hefur sem sagt tapað um 2 m.kr. á því að fá „ávinninginn“ hans Vilhjálms.

    Allar tölur í dæmunum eru rauntölur nema hækkun húsnæðisverðs, en eftir því sem hún hefði orðið meiri, hefði „ávinningur“ einstaklings A orðið neikvæðari. Notaðar eru raunverðbólgutölur og lánareglur Húsnæðisstofnunar, eins og ég man þær. Miðað er við 5,1% vexti.

    Mér finnst það furðulegt, að þeir sem taka þátt í þessari umræðu og vilja láta taka sig alvarlega geri ekki betri greiningu á þeim upplýsingum sem þeir setja fram. Ég hef séð þetta hjá sérfræðingum sem eru hliðhollir verðtryggingunni og öðrum sem eru á móti leiðréttingunni, nema þeir séu í báðum liðum. Ég hef ítrekað bent á þessa rökvillu þeirra, en þeir láta alltaf eins og seljandi húsnæðis búi á einhverju rósrauðu skýi eftir að hann er búinn hagnast á hækkun húsnæðisverðs. Þannig er það bara ekki. Fólk þarf þak yfir höfuðið. Hækkun eiginfjár í húsnæði er ekki peningur í hendi, heldur þarf tilviljun, heppni eða útsjónarsemi til að geta tekið inn slíkan hagnað.

    Nákvæmlega svona er þetta gott fólk.

    • Ragnheiður

      Þetta er hugsanavilla hjá Marino og dapurlegt að sjá þennan málflutning hjá honum. Það varð hrun og það er enginn sem kemur til með að bæta okkur þann skaða bara sorrí. Hins vegar við svona aðstæður er eðlilegt að hjálpa þeim sem eru í mestum vanda ef það er hægt. Það þurfa nefnilega allir húsnæði. En þessi kosningatékki Framsóknarmanna sem fer að stærstum hluta til fólks sem er í ágætri stöðu er galin.

      • En það er sem sagt í lagi að Hæstiréttur bæti skaðann 100% hjá þeim sem tóku gengislán? Voru þeir bara „heppnari“ en þeir sem töldu sig fara varlega?

        • Sigurður M. Grétarsson

          Það var aldrei valkostur að gera annað en að virða dóm Hæstaréttar og sú lánalækkun var á kostnað kröfuhafanna en ekki skattgreiðenda eða viðskiptavina bankanna. Verðmiðin á lánasamningana þegar nýju bankarnir keyptu þau af þrotabúum gömlu bankanna voru með endurskoðunarákvæði og því hafði þetta áhrif á kaupverð nýmu bankanna. Fáir aðrir veittu gengislán.

          Þessi aðgerð ríkissjóðs er hins vegar á kostnað skattgreiðenda og viðskiptavina nýju bankanna.

    • Ég missi eiginlega þráðinn yfir þessum flóknu útskýringum Marinós. En þetta er augljóslega rangt hjá honum. Sá sem hefur eignast eigið fé í fasteign, t.d. sá sem keypti 1998, getur alltaf tekið það út með því að skuldsetja sig upp í sama hlutfall og sá sem er á byrjunarreit – t.d. ungt par árið 2005 – þarf að gera þegar hann kaupir. Eftir það er ávinningur þeirra eða tap það sama, nema hvað sá sem keypti 1998 er búinn að taka út pening.

    • Bogi Ragnarsson

      Sæll Búi.

      Þú ert því miður a rangri braut með þetta. TIl þess að þetta gæti staðist þarft þú að sýna að vísitala neysluverðs hafi hækkað umfram launavísitölu þ.e. að kaupmáttur hfi minnkað. Kaupmátur er sá sami og 2006 þannig að fólk sem tók lán fyrir 2006 á að jafnaði að hafa hlutfallslega jafnmikið eða meira til að greiða af lánum sínum.

    • Sigurður M. Grétarsson

      Það er stundum þannig að ef maður segir A þá verðum maður líka að segja B. Ef menn hafna þeirri röksemd að í því felist hagnaður fyrir húsnæðiskaupendur að húsnæðisverð hækkar að raungildi ef maður innleysir ekki hagnaðinn þá á það sama við um tapið af hækkun höfuðstóls húsnæðislánsins. Útgjöldin vegna hans dreifast á það sem eftir er af lánstímanum og koma því ekki til útgreiðslu strax. Reyndar er það svo miðað við þann tíma sem fólk á fasteignir sínar að meðaltali hér á landi að það mun aðeins lítill hluti þessarar höfuðstólslækkunar koma til útgreiðslu áður en íbúðin er seld og hækkun húsnæðisverðs þar með innleyst.

      Annað hvort er hækkun húsnæðisverðisns hagnaður og hækkun lánsins tap á móti eða að hvorki er um hagnað eða tap að ræða. Annað hvort þurfa menn að hugsa bæði hagnaðinn og tapið til langs tíma eða til skams tíma. Það er einfaldlega skekkja í umræðunni ef aðeins er horft á tapið vegna hækkunar lánsins til langs tíma en hagnaðinn af hækkun húsnæðisverðs til skamms tíma. Slíkur málflutningur gengur ekki upp.

  • Gunnar Jóhannsson

    @Borgar Bui
    Þetta eru hárréttir útreikningar hjá þér fyrir utan það að þú gleymir að taka með mun á eigin fé einstaklinganna. Þar munar millu og er því það sem þú nefnir „tap“ ekki tvær milljónir heldur ein milljón.

    Skýringin á milljóninni sem er eftir er hinsvegar einföld og felst í því að til að kaupa íbúð B þarf að leggja meira undir. Fyrir íbúð B þarf meira eigið fé og lánshæfið leyfir einstaklingi að gíra sig hærra og í þessu dæmi nærri 2 milljónum hærra lán en A. Hann er því tæknilega að taka 3 milljónum króna meiri áhættu. Í þessu dæmi uppsker hann hærri ávöxtun þar sem hann lagði meira undir.

    Hefði komið hrun og húsnæðisverð lækkað þá myndi íbúð B líka lækka meira í krónum talið en íbúð A og hann því getað tapað meiru.

    Það er ekki hægt að taka fasteignir út fyrir sviga og segja að þær séu einstakar fjárfestingar. Já, fólk þarf þak yfir höfuð en það er fullt af fólki sem þarf þak yfir höfuð margt af því fólki er á leigumarkaðnum. Hvar er réttlæti þess? Hvar er réttlæti þeirra sem tóku skólalán? Hvar er réttlætri þeirra sem fundu aðallega fyrir hærri framfærslukostnaði en ekki húsnæðiskostnaði?

    Það varð forsendubrestur víða á Íslandi í hruninu. Húsnæðiseigendur, utan 2005-9 hópsins. eru þó líklegast þeir sem höfðu minnsta þörf fyrir leiðréttingu. Nákvæmlega svoleiðis er þetta.

    ps. Það var mjög almennt fyrir hrun að taka út aukið eigiðfé í húsnæði með því að taka annað lán á húsið. Það þarf ekki mikla útsjónarsemi til þess.

    pps. Gangi kynslóð þinni vel að fjármagna lífeyrinn ykkar þegar þið verðið búin að hrekja allt unga fólkið af landinu.

    • Borgar Bui

      Engar áhyggjur kæri vinur. Við „gamla“ settið erum að pakka saman og ætlum að flytja út með krökkunum. Biðum bara eftir leiðréttingunni.
      Það vill ekki nokkur maður, sem heilar heilasellur búa hér – HVAÐ þá verða gamall. Jesús minn góður – biddu fyrir þér – Nei takk.

      Eftir að hafa sannfært börnin okkar að menntun þeirra væri sóað á bananalýðveldi byggju þau áfram hér, settist fjölskyldan niður og skoðað hvað ætti að gera. Þar sem 3 af fjórum börnum okkar eru menntuð í heilbrigðisgeiranum og eitt í tölvugeiranum, stendur þeim heimurinn til boða. Noregur varð þó fyrir valinu þar sem þar er gott að búa og margir vinir og kunningjar sestir þar að.

      Við gamla settið hlökkum til. Ætlum að selja allt okkar hafurtask og þökk sé leiðréttingunni eigum við nú auka tvær millur þegar íbúðin verður seld. Ekki slæmt fyrir tvo auka atkvæði við fjórflokkinn í síðustu kosningum.

      Fínt tímakaup þar.

      • Búinn að taka út vísitölu launa og neysluverðs frá 2002 til sept 2014.

        Það er aðeins árinu 2007 sem má finna tímabil vísitala launa hefur hækkað minna en vísitala neysluverðs til dagsins í dag.

        Það þýðir einfaldlega að aðeins þeir sem keyptu árið 2007 hafa að jafnaði séð lánin hækka að jafnaði umfram ráðstöfunartekjur.

        Þú verður því að endurskoða þessi skrif þín.

  • Samfylkingin gekk erinda auðmanna í síðustu ríkisstjórn og það var Samfylkingin sem kom í veg fyrir að bankar yrðu skattlagðir.

    Samfylkingin er flokkur auðmagnsins á Íslandi.

    Samfylkingin færði ríkasta fólkinu 110% leiðina.

    Í dag er sagt frá því í fréttum að auðmenn hafi sameinast um að þétta byggðina í Reykjavík.

    Enn eitt dæmið um að Samfylkingin er flokkur auðmanna.

    Skil ekki hvernir venjulegt fólk í þessu landi getur stutt þennan ömurlega flokk.

    • Hvað ertu að þvaðra um Samfylkinguna? Hér er verið að ræða tiltekið mál, hvernig væri að halda sig við efnið?

    • Borgar Bui

      @Rosa

      Nákvæmlega Rosa – Nákvæmlega. Þessi skí…flokkur eyðilagði ekki bara algerlega alla vinstri hugsjón á þessu landi heldur færði hún auðmönnum, fjármálafyrirtækjum og útvöldu liði, eigur landsmanna. Láglaunastefnan var endanlega og kyrfilega fest í sessi þegar þetta lið stjórnaði.

      Það er hinn stóri sannleikur sem vinstri menn þola ekki að talað sé um því þeir vita sem er að þetta voru stóru svikin.

    • Gísli Tryggvason

      Nú hefur hugtakið „Samfylking“ tekið við af „Baugur“ hjá náhirðinni. Þeirri sömu sem hneykslast á auðmönnum en liggur síðan undir öllum útgerðarbúrgeisum landsins. Trúverðugt ?

      • Borgar Bui

        Í fyrsta skipti sem hrein vinstri stjórn komst til valda í áratugi, var tíminn notaður til að svíkja og arðræna almenning í landinu.

        Þið megið kalla okkur „Náhirð“ ef ykkur líður betur að uppnefna fyrrverandi kjósendur ykkar og spyrða þá saman við Sjálfstæðisflokkin – en svo mikið er víst að ég, ævarandi kjósandi vinstri aflana á Íslandi, mun aldrei aftur gefa þeim atkvæði mitt.

    • Það segir sína sögu ef þetta eru skástu mótrökin sem finnast gegn því sem sagt er í pistlinum.

    • 110% leiðin var framkvæmd og kostuð af bönkunum, en ekki ríkisstjórninni eða Samfylkingunni.

  • Óskar Guðmundsson

    Þessi pistill heitir einfeldlega:
    „Í LAGI AÐ STELA FRÁ ÞEM SEM HAFA EFNI Á AÐ KAUPA SÉR NÝTT“.

  • Gunnar Sigfusson

    Varðandi tryggingu á innistæðunum sem fluttar voru yfir þá þurfti ríkið að gefa út skuldabréf á móti (því sem og öðru) og gerði það reyndar í tilviki Landsbankans í ERLENDRI mynt. Auk þass gaf ríkið út skuldabréfa flokk (RIKH18 minnir mig) í ISK til að fjármagna rest. Bara vaxtagreiðslurnar af því rugli auk þvi sem ríkið lagði beint inn í kerfið (100 milljarðar í viðbót).
    má ætla að trigging innistæðna hafi ekki kostað minna en 150 milljarðar , eða um helming þess sem sett var beint í endurreisn bankakerfisins.

    Varðandi 110% leiðina Vilhjálmur þá er það rétt hjá þér að það voru fjármálastofnanirnar sem þurftu að afskrifa þessa 80 milljarða en af þeim lentu 40 milljarðar (ó)beint á ríkinu vegna eignahalds þeirra á IBL og LBI

    • Þetta er ekki rétt hvað varðar innistæður í Landsbankanum. Nýi bankinn tók yfir meira af eignum (sem sagt útlánum) en skuldum (þ.e. innlánum), og þess vegna þurfti að gefa út skuldabréf til gamla bankans fyrir mismuninum. Ef innlánin hefðu verið meiri þá væri skuldabréfið lægra, ekki hærra. Ég endurtek að kostnaður vegna tryggingar innistæðna var alfarið settur á herðar almennra kröfuhafa í bönkunum með Neyðarlögunum. Það var mjög farsæl ráðstöfun enda hefði hagkerfið bókstaflega stöðvast að öðrum kosti og menn hefðu misst ástandið yfir í rán og gripdeildir.

      • Þórhallur Kristjánsson

        Það er vel í lagt að halda því fram að engin kostnaður hafi lent á almenningi vegna 100% innistæðutryggingarinnar. Það lokuðust inni í landinu yfir 600 milljarðar af krónum í eigu erlendra aðila ásamt öðrum öðrum froðukrónum sem aldrei voru verðmæti á bakvið.

        Þetta varð til þess að það varð að setja á gjaldeyrishöft og afleiðingin varð sú að gengið á krónunni féll mikið. Þetta er kostnaður sem almenningur hefur þurft að taka á sig.

        Ef ákveðið hefið verið að tryggja innistæður að ákveðinni lámarksupphæð þá hefði eflaust verið hægt að afskrifa mikið af þessum froðukrónum sem enn eru inni í kerfinu. Það hefði hinsvegar heyrst eitthvað í eigendum þessara króna við þennan skell og jafnvél hærra en í þeim sem nú gagnrýna leiðréttingu á húsnæðislánum.

        Friðrik Jónsson gerir þessu ágæt skil í nýlegum pistli.

        http://blog.pressan.is/fridrik/2014/10/18/staersta-millifaerslan/

      • Gunnar Sigfusson

        Varðandi neyðarlögin þá ertu aðeins að misskilja þau.Þau tryggja bara innistæður á íslandi og það er Ríkið sem það tryggir ekki kröfuhafar. Hins vegar duga eignir þrotabúsins fyrir þeim 20.000 Evrum sem Ríkið þarf að tryggja per reikning. Mismunurinn (m.a annars stórar innistæður fyrirtækja á gjaldeyrissreikningum á Íslandi) fellur því beint á Ríkið og ekki séð að það dekkist af því sem kemur úr þrotabúinu. vandamálið var 8og er) að Ríkið á engan gjaldeyri til að bakka þessar innistæður upp og þurfti því að taka erlent lán (nota erlendar eignir þrotabúsins til tryggingar og fá lán) fyrir þessu og blessað LI -skuldabréfið er hluti af því dæmi. Hjá hinum bönkunum féllust kröfuhafar á að eignast hlut í bankanum ´´I stað þess að lána ríkinu fyrir þessu (eða hvort víkjandi láni var breytt í eignarhlut, man það ekki)

  • Þorsteinn

    Ég held að vandinn við þennan málflutning Vilhjálms sé sá, að hann áttar sig ekki á að tilgangurinn með leiðréttingunni er ekki að bæta einungis þeim sem á þessum tímapunkti eru í tapi vegna húsnæðiskaupa heldur að bæta öllum það tap sem þeir urðu fyrir vegna verðbólguskotsins. Sá sem nú er í tapi verður það ekki eftir tíu ár. Sá sem keypti árið 2003 og var í tapi 2008 er það ekki lengur. Sú aðferð að reyna að greina þarna á milli og bæta þeim sem eru í tapi á einhverjum tilteknum tímapunkti upp tapið, hún verður aldrei neitt réttlátari en einhver önnur aðferð.
    Vilhjálmur segir að þeir sem urðu fyrir verðbólguskoti en keypti nægilega snemma til að verðmæti eignarinnar hafi samt sem áður aukist meira en samanlagðar verðbætur frá kaupdegi hafi engu tapað. Er þetta rétt? Bersýnilega ekki: Setjum sem svo að Vilhjálmur tapi helmingi hlutabréfa sinna – þau verði einfaldlega verðlaus. En hinn helmingurinn af eignum hans hækkar og eftir nokkur ár á hann aftur meira en hann lagði upp með í byrjun. Tapaði þá ekki Vilhjálmur samt helmingi hlutabréfanna? Jú, það gerði hann svo sannarlega.
    „There are lies, damn lies and statistics“ – Þessi pistill er ágætt dæmi um það.

    • Sigurður M. Grétarsson

      Þessi málflutningur gengur ekki upp og dæmið með hlutabréfin er ekki sambærilegt. Sá sem keypti árið 2003 var fyrir hrun komin með mikinn bóluhagnað vegna húsnæðisverðbólu sem gekk að mestu en þó ekki öllu leyti til baka í hruninu. Ef þú ætlar að setja samlíkingu við hlutabréf þá þarft þú að setja það upp þannig að um sé að ræða hlutabréf sem hækkuðu mikið í verði en lækkuðu svo aftur en standa samt í hærra verði en þegar Vilhjálmur keypti þau og það meira að segja að raungildi. Við þær aðstæður væri ekki hægt að halda því fram að Vilhjálmur hafi tapað á hlutabréfakaupunum.

      • Þorsteinn

        Sigurður: Dæmið um hlutabréfin er fullkomlega sambærilegt. Hluti bréfanna verður verðlaus – það fé sem í þeim er bundið tapast. Með sama hætti veldur verðbólguskotið því að hluti eigna húseigandans tapast. Þótt eignirnar aukist aftur síðar breytir það engu um að verðbólguskotið olli húseigandanum tjóni. Það er þetta tjón sem leiðréttingunni er ætlað að bæta.

        • Lestu sjálfur upphátt það sem þú skrifaðir, Þorsteinn, þá heyrirðu e.t.v. hversu fáránlega þetta hljómar.

          • Þorsteinn

            Hafir þú ekki betri rök en þetta er nú lítið mark á þér takandi, Vilhjálmur. Þú verður bara að sætta þig við að þú hefur farið hér fram með málflutning sem grundvallast á því að þú skilur ekki umfjöllunarefnið.

  • Værum ekki í þessum vanda ef ekki hefðu verið veitt verðtryggð lán.

    Oft sagt að heimili hefðu ekki ráðið við 15-20% vexti (ef þau hefðu öll verið með breytilega vexti á óverðtryggðum lánum í hruninu) sem er vissulega rétt. Vextir Seðlabankans hafa hins vegar hverfandi áhrif á greiðsluflæði verðtryggðra lána og þurfa því að vera hærri en ella. Þannig má færa rök fyrir því að vextir af íbúðalánum væru lægri ef ekki væru veitt verðtryggð lán. Íslensk heimili hefðu ekki þurft að taka erlend lán á sínum tíma, með þekktum afleiðingum, bara ef vextir á Íslandi hefðu verið á svipuðu róli og erlendis. Sem dæmi eru stýrivextir í Svíþjóð 0% en 5,75% á Íslandi.

    Hér (http://www.nasdaqomxnordic.com/bonds/sweden/mortgagerates) má t.d. sjá að vextir til 10 ára á óverðtryggðum lánum í Svíþjóð eru 3,5-3,6% sem eru lægri en raunvextir á verðtryggðum íslenskum lánum.

    Án þess að hafa skoðað það þá velti ég því fyrir mér hvort ekki hefði verið sniðugt að fara í einhvers konar aðgerðir til að gera heimilum kleift að taka óverðtryggð lán án þess að greiðslubyrðin myndi hækka um 50%. Hugsanlega hefði verið hægt að niðurgreiða vexti í x-ár þangað til nógu mörg heimili séu komin með óverðtryggð fasteignalán þannig að stýrivextir Seðlabankans séu farnir að bíta á greiðsluflælði íbúðarlána og Seðlabankinn geti þannig betur stjórnað neyslu landsmanna en það er jú markmið hans að geta slegið á neyslu heimilanna ef verðbólga fer af stað.

    Í dag segja bankarnir að verið sé að bjóða upp á óverðtryggð og verðtryggð lán en heimilin velji hins vegar verðtryggð. Málið er það að mörg heimili ráða ekki við greiðslubyrði af óverðtryggðum lánum og neyðast því til að taka verðtryggð lán sem er jú skárra en að vera á leigumarkaði þar sem leigan er meira að segja hærri en afborganir á óverðtryggðum lánum.

    Það að létta á skuldum heimilanna er mjög jákvætt. Hvort þetta sé heppilegasta leiðin mun alltaf verða þrætuepli. Það er hins vegar ekki verið að ráðast á rót vandans. Hvað á að gera í næsta verðbólguskoti, t.d. ef/þegar höftum verður aflétt? Á að leiðrétta aftur „forsendubrestinn“?

    Ef öll heimili væru með óverðtryggð fasteignalán myndi 0,5%-1% hækkun stýrivaxta (og þannig vexta á óverðtryggðum lánum með breytilega vexti) hafa nægjanleg áhrif á greiðsluflæðið að fjölmörg heimili myndu draga eitthvað úr neyslu. Með verðtryggð lán mun 0,5%-1% hækkun stýrivaxta ekki hafa teljandi áhrif á greiðsluflæði verðtryggðra lána.

    • Kristján Kristinsson

      Fullkomlega rétt greining hjá þér. Hækkun stýrivaxa bítur ekki á verðtryggð lán – enda er eðli þeirra að fresta vaxtagreiðslum til að geta létt á greiðslubyrði. En til þess að svara þeirri spurningu hvort við getum hent verðtryggingunni og boðið upp á óverðtryggð lán sem stjórnast af stýrivöxtum þurfum við að fara tvö skref til baka. Í fyrsta skrefinu verðum við að spurja, getum við það með íslensku krónuna? Jú, segja sumir. Hvernig, er spurt. Svarið er, betri hagstjórn sem hefur hemil á krónunni og þ.a.l. verðbólgunni. Þá er farið síðara skrefið til baka og spurningin er: Er það mögulegt og þá hvernig?

      Fyrir mér er lausnin Evra.

      • Sigurður M. Grétarsson

        Þessar greiningar eru rangar hjá ykkur báðum. Þarna eruð þið að elta bulið Sigmundi Davíð og fleirum sem eru ranglega að kenna verðtryggingunni um þassa hlutai.

        Hvað varðar stýrivextina þá eru það langtímalán með föstum vöxtum sem draga úr biti þeirra. Það er óháð því hvort lánin eru verðtrggð eða óverðtryggð. Vextir á föstum lánum breytat ekki þó stýrivextir seðlabankans breytist. En vissulega er það staðreynd að hærra hlutfall verðtryggðra lána eru með föstum vöxtum og því hægt að færa rök fyrir því að um óbein áhrif sé að ræða en það breytir ekki þeirri staðreyna að það eru fastir vextir en ekki verðtrgging sem dregur úr biti hækkunar stýrivaxta.

        Það er ekki eðli verðtryggðra lána að færa vexti aftur fyrir í lánstíma. Ef vextir verðtryggðra lána eru breytilegir þá kemur vaxtahækkun strax til útgreiðslu ef um afborgunarlán er að ræða. Hins vegar eru jafngreiðslulán þannig að vaxtahækkun dreifist á allt greiðslutímabil lánsins því afborgunarhlutinn lækkar á móti að meistu leyti. Þetta er líka óháð því hvort lánið er verðtryggt eða óverðtryggt.

        Vissulega má segna að sá verðtryggingin er í raun viðbótafextir og þeir vextir dreifast yfir lánstímann. En það er verðbólgan sem hefur áhrif á það en ekki stýrivextir seðlabankans. Verðbæturnar hækka ekki þó stýrivextir seðlabankans hækki.

        • Þorsteinn

          Í þeim löndum, sem ekki verðtryggja lán, er það hagur banka og annarra fjárfesta að halda verðbólgu í skefjum. Bankar og aðrir fjárfestar, ásamt ríkisvaldinu, leitast því við að halda verðbólgu niðri, forðast athafnir sem valda þenslu, hvort sem þær felast í stórum fjárfestingum á vegum ríkisins eða peningaaustri af öðrum toga. Þegar verðtrygging er til staðar hverfur þessi hvati hins vegar. Þótt verðbólga rjúki upp tapar ekki bankinn á því, séu langtímalánin verðtryggð. Húsnæðislánasjóðurinn tapar heldur ekki á því, af sömu ástæðu. Þegar þennan hvata skortir má ætla að verðbólga verði að jafnaði meiri en í löndum þar sem hinir öflugu aðilar sem ráða að miklu leyti efnahagslífinu hafa sterkan hvata til að halda henni í skefjum.

        • Sigurður M. Grétarrson. Ef öll verðtryggð lán væru jafnafborgunarlán með breytilegum raunvöxtum þá væri verðtryggingin eflaust ekki eins mikið vandamál. En það eru eflaust innan við 5% verðtryggðra lána þannig.

          Þannig að jú, verðtryggð fasteignalán (eins og þau eru allflest í dag) draga úr mætti peningastefnunnar. Að halda öðru fram er rugl.

          Auðvitað daga líka fastvaxta óverðtryggð lán úr mætti peningastefnunnar en best væri ef allir væru með óverðtryggð lán á breytilegum vöxtum, 3-5%.

        • Kristján Kristinsson

          Alls ekki að kenna verðtryggingunni um, heldur krónunni og hagstjórninni.

  • kristinn geir st. briem

    skemtilegt þegar menn eru að leika sér með tölur. og skatta. menn skrifa um að núverandi skuldalækub. sé vurgað með skattfé þá má eitnig seigja að 100%leiðin hafi verið borguð með því veita bönkum skattaafsláttfrá árunum 2011-13 en auðvitað gétur það ekki verið. ekki veit ég hvernig kaupinn gerast á eyrini í stjórnmálum efast um að bankar hafi viljað gefa eftir lröfur án þess að hafa gulrót til að elta

  • Fátækraníð – röng hugsun

    Stöðugt klifa afglapar á stigbreytingu lána í Hruninu og tala um forsendubrest. Með verðtryggingu breytast lán ekki að verðgildi, vegna hennar halda þau verðgildi sínu miðað við kaupmátt neysluvara. Í Hruninu féll verðgildi krónunnar og þar með kaupmáttur launa.

    Það var hið raunverulega Hrun – launalækkun á heilu línuna.

    Nú hafa sumir fengið leiðréttingu, en einungis sumir þeirra sem tóku lán til íbúðakaupa. Allir hinir sem lentu í sama Hruni með tilheyrandi launalækkun og tapi á ráðstöfunartekjum (26% að meðaltali) fá ekkert.

    Meira að segja verkalýðshreyfingin virðist ekki skilja þessi einföldu sannindi, fyrir nú utan vesalings fjölmiðlafólkið.

    • Ragnheiður

      Guðmundur Maður gerir sér æ betur grein fyrir hvernig stjórnarflakkarnir ná að rugla í fólki . Eftur lestur á þessum athugasemdum er það greindarvísitalan af öllum vísitölum sem maður hefur eiginlega mestar áhyggur af.

  • Oskar Frimannsson

    Godan dag

    Hvad langt aftur i timann eru lan leidrett ?

    Kv

    Oskar

Höfundur