Mánudagur 29.06.2015 - 18:29 - Lokað fyrir ummæli

Nokkur grundvallaratriði um Grikkland

Staða mála á Grikklandi er flókin og erfitt að henda reiður á því hvað snýr upp og hvað snýr niður.

Svona horfa grundvallaratriði málsins við mér:

1. Skúrkarnir í málinu eru þeir stjórnmálamenn (og þau sem kusu þá) sem skuldsettu gríska ríkið svo gríðarlega sem raun ber vitni. Að hluta til var sú skuldsetning uppi á yfirborðinu og afleiðing viðvarandi fjárlagahalla, en að hluta var hún falin og „utan efnahagsreiknings“.

2. Í samningum árið 2012 náðu Grikkir, með aðstoð Íslandsvinarins Lee Buchheit, að semja um verulega afskrift (~75%) þeirra skulda sinna sem einkaaðilar áttu (ágætt yfirlit hér). Að því loknu voru lánardrottnar Grikkja að langmestu leyti AGS og sjóðir og ríki ESB.

3. Í þeim pakka komu AGS og Evrópusambandið að málum með því að lána Grikkjum peninga og gera þeim kleift að skuldbreyta og lengja í eldri lánum. Hluti af pakkanum er að ESB-sjóðir gefa eftir vaxtamun og gengishagnað af lánum sínum til Grikkja. Evrópski seðlabankinn ECB hefur jafnframt veitt Grikkjum lausafjárfyrirgreiðslu. Þetta hefur forðað gríska ríkissjóðnum frá greiðsluþroti og bankakerfinu frá því að verða uppiskroppa með lausafé.

4. Síðan þá hefur verið reynt að vinna með grískum stjórnvöldum að því að teikna upp hvernig unnt sé að lækka skuldahlutfall ríkissjóðs smám saman yfir tíma („Debt Sustainability Analysis„). Það gerist með blöndu af því að gefa eftir vexti og fjármagnskostnað annars vegar, og að ná frumafgangi af ríkissjóði (þ.e. að tekjur séu umfram gjöld önnur en vaxtagjöld). Í þeim tillögum sem lágu á borðinu á föstudaginn af hálfu Eurogroup (fjármálaráðherra evruríkjanna) var miðað við að frumafgangur ykist í skrefum og næði 3,5% af VLF á árinu 2018. Það er svipað hlutfall og í íslensku fjárlögunum 2013.

5. Tillögur Eurogroup um leiðir til að ná umræddum frumafgangi hljóma alls ekki frjálshyggjulega eða óskynsamlega fyrir utanaðkomandi; þar er m.a. gert ráð fyrir hækkun tekjuskatta á fyrirtæki úr 26% í 28%, framhaldi hátekjuskatts og lúxus-skatts á skemmtibáta og snekkjur, að loka ýmsum skattundanþágum, að hækka VSK á hótelgistingu (sem væri upplagt á Íslandi líka), að herða mjög skatteftirlit, að draga saman útgjöld til varnarmála um €400m – og raunar að hækka eftirlaunaaldur í skrefum í 67 ár (eða 62 ár eftir 40 ár í starfi).

6. Vandinn er meðal annars sá að aðhaldsaðgerðir með hækkun skatta og lækkun bóta og millifærslna draga þrótt úr hagkerfinu, sem aftur lækkar skattstofninn, sem aftur kallar á meiri aðhaldsaðgerðir. Hitt er líka ljóst, að jafnvel þótt ESB og AGS kæmu ekki að málum, og jafnvel þótt allar skuldir Grikkja yrðu afskrifaðar á morgun, þyrftu Grikkir engu að síður að ná að reka ríkissjóð sinn með jákvæðum frumjöfnuði (því ekki yrðu margir til að lána þeim við svo búið).

7. ESB eru þröngar skorður settar í því að færa skuldir Grikkja með beinum hætti yfir á skattborgara í öðrum löndum sambandsins. Slíkt er raunar bannað í Lissabon-sáttmálanum (sjá 125. gr. hans) og ákvæði svipaðs eðlis eru í stjórnarskrám sumra aðildarríkja, t.d. Þýskalands. Einnig er skiljanlegt að skattborgurum finnist ekki sjálfsagt að greiða skuldir annarra ríkja, a.m.k. ekki uden videre, enda fá fordæmi fyrir slíku, og má segja að þar reyni fyrir alvöru á evrópska samheldni.

8. Málið er því í erfiðum hnút. Eina mögulega leiðin virðist vera sú að halda áfram viðræðum, finna millileiðir til skemmri tíma og vinna svo að langtímalausnum í betra ráðrúmi. Minna má á að unnið var úr skuldavanda Íra með slíkum hætti; á endanum var búinn til skuldbreytinga- og afskriftapakki sem gerði að verkum að ríkissjóður Írlands getur nú fjármagnað sig sjálfur á skuldabréfamörkuðum á góðum kjörum.

9. Að hætta viðræðum og boða til þjóðaratkvæðagreiðslu um þetta margbrotna mál með viku fyrirvara, eins og Tsipras forsætisráðherra gerði,  gagnast grískum almenningi lítt, að mínu mati. Nær væri að álykta að þar sé Tsipras að leika sér að eldinum.

10. Að hætta við evruna og taka aftur upp drökmu hjálpar heldur ekki grískum almenningi. Drakman myndi falla eins og steinn, nauðsynjavörur hækka í verði, skattstofnar ríkisins dragast enn frekar saman (enda yrði til neðanjarðarhagkerfi í evrum), fjármagnsflótti yrði úr landi og vextir yrðu óbærilegir.

11. Lexían hlýtur að vera sú að skuldsetning ríkja sé afskaplega vandmeðfarin. Stjórnmálamenn, kjósendur og lánardrottnar þurfa að líta í eigin barm varðandi þá hættu sem óvarleg skuldsetning skapar í nútíð og framtíð.

Það er sársaukafullt að horfa upp á raunir grísks almennings þessa dagana, og þessi árin. En lausnin er ekki svört eða hvít frekar en flest annað; einhvers staðar er grátónn á milli sem varðar bestu leiðina. Vonandi bera menn gæfu til að finna hann.

Flokkar: Evrópusambandið · Stjórnmál og samfélag

«
»

Ummæli (14)

  • Einar Karl Friðriksson

    Fróðlegir punktar hjá þér Villi. Sýna að staðan er ekki einföld og ekki hægt að benda á hinu einu réttu leið. Annar Eyjubloggari (sem ekki heimilar athugasemdir) minnist á stöðu Puerto Rico, sem líka á í miklum skuldavanda og gefur í skyn að þar sé verið að leysa málin með skilvirkari hætti. Ég held hins vegar að það sé orðum aukið að lausnin á vanda Puerto Rico liggi fyrir, þ.e. veruleg afskrift skuld, sbr. glænýjar fréttir: http://www.wsj.com/articles/puerto-rico-has-no-easy-path-out-of-debt-crisis-1435526355

  • Þórhallur Kristjánsson

    Hér er ágætur umræðuþáttur um ástandið í Grikklandi og vandamálin í vestrænu efnahagskerfi. Þessi þáttur er síðan á föstudag rétt áður en Tipras boðaði atkvæðagreiðsluna. Bretinn í þættinum er með áhugaverða sýn á málið. Hann vill að skuldir grikkja, ítala og spánverja verði lækkaðar verulega með eftirgjöf.

    http://rt.com/shows/crosstalk/269752-greek-pain-eurozone-creditors/

    • Það er auðveldara um að tala en í að komast. Þekkjandi breska skattgreiðendur og umræðuna um Evrópusambandið í því landi, heldurðu að þeir væru fyrstir í biðröðinni og fullir af spenningi að greiða þessar skuldir úr sjóðum bresku krúnunnar? Ég held ekki, þó það væri vissulega hjartavermandi að sjá það gerast.

  • Tove Cecilie Fasting er norsk kona sem skrifad hefur margar bækur um Grikkland eftir ad hafa bùid tar lengi, jeg hef lesid Paradiso,Rapport fra en gresk landsby, Tar skrifar Tove um breitingarnar sem urdu ì landinu eftir inngønguna ì EU. Grikkir fòru fljòtlega ad lìta à EU sem òtæmanlegan bankareikning sem hægt væri ad taka endalaust ùt af.

    À einum stad ì bòkini skrifar Tove um ad algengur brandari ì Grikklandi fljòtlega eftir inngønguna var segja “ Hægt er ad fà pening frà EU til ad hefja tòpaksrækt og àrid eftir er hægt ad fà pening fyrir ad hætta tòpaksrækt.

    Einnig skrifar hùn ad opinberir starfsmenn høfdu adra vinnu med, eins og løgreglumadur sem àtti veitingarstad og vann tar mest.

  • kristinn geir st. briem

    no. 1 eru skuldsettur ríkisjoður ekki vegna samkomulags grikkja við alþjóðarstofnanir. um hina ýmsu björgunarpakka við banka en ekki óreiðu ríkisjóðs.

    no. 2. afhverju ú grykkir að semja um einkaskuldir lítur vel út á pappír en veldur mér áhygum að samíngur íslands við kröfuhafa virðast ganga í sömu átt.

    no.3. eru e.s.b að bjarga sínum eigin bönkum sem lánuðu óvarlega. sem hefði þá lagst á þeirra eigin ríkisjóð þanig að voru þau ekki að bjarga eigin skinni.

    no. 4. frumafgangur. ?.fólk sveltur í grykklandi. samnígurin geinfur útá að erða enn meira

    no.5. ganga tilögurnar úta að skattlegja eignir sem auðvelt er að flitja í önnur lönd. auðmenn eiga auðvelt með að flitja margar eignir úr landi

    no.6. e.s.b hefði hvort sem er þurft að greiða þettað með vandræðum banka í öðrum löndum evrópu. hvernig sem þettað kemur út í bókhaldi skiptir vist máli

    no. 7. en skulum við velta okkur uppúr því hvernig skuldir grýska ríkisins er að mestu tilkomin er það vegna samkomulags við alþjóðastofnanir.

    no.8. er víst að írar séu slopnir þeir njóta stuðníngs breta sem raða heilmiklu. í hinum og þessum stofnunum. íslendíngar feingu að kenna á því

    no.9. þettað kallast víst klækjastjórnmál hjá sumum stjórnmálaflokkum.

    no.10. er mikið val.?.

    no.11. men eru oftast að leita auðveldrar lausna auðveldar lausnir sem oftast sem færa vandan bara til eru eingar lausnir reinsla grykkja sínir það

    no.12.reindar srýtið að 2%. hagkerfis e.s.b skuli valda svo miklu uppnámi
    sem erfit er að leisa

  • Sigurður Oddgeirsson

    Punktur eitt, vekur upp tvær spurningar í mínum huga.
    Af hverju var þessi mikla fjárþörf hjá gríska ríkinu? Voru skattlögin svo götótt, að ekki tækist að rukka inn skatta skv. lögum. Það ganga sögur um, að vsk hafi eingöngu verið greiddur af upphæðum yfir einhverju lágmarki. Þannig að ef upphæð reiknings fór yfir þetta lágmark, þá voru gefnir út tveir reikningar, hvor um sig undir lágmarksupphæð. Veiztu eitthvað um þetta?
    Og önnur spurning. Hvað var svona eftirsóknarvert í Grikklandi, sem heillaði fjármálaheiminn í Evrópu til að veita gríska ríkinu endalaus lán?

    • Það er góð spurning, en svarið við henni gæti verið svipað svarinu við spurningunni um hvernig mönnum datt í hug að lána íslenskum bönkum fullt af peningum. En það græddu fáir eða enginn á því fyrir rest að lána Grikkjum eða Íslendingum peninga. Einkaaðilar tóku allt að 75% afskrift af lánum til Grikkja 2012 og þeir sem lánuðu íslenskum bönkum munu tapa (eða hafa tapað) 70-85% af þeim peningum.

  • Ómar Kristjánsson

    Átæða þess að skuldir Grikkja eru svo háar, um 170 sem hlutfall af GDP, (þó eitthvað mismunandi eftir við hvað menn miða og hvað talið er með.) er líka sú að eftir að vandamálin komu verulega upp um 2009, að þá dróst GDP saman og ríkissjóður var með halla. Skuldir skærokkuðu. Er ekkert leyndardómsfullt eða mystískt. Mest bara plús og mínus reikningur.

    Svo má nefna það atriði, að stundum er talið að gríska ríkið hafi beisiklí verið rekið með halla í nokkur ár áður en vandræðin byrjuðu 2008/2009 en tölurnar hafi bara verið fixaðar einhvernvegin þannig að þær litu sæmilega út.

    Eða man fólk ekki eftir fréttunum öllum, eitthvað á þá leið, grikkir fölsuðu ríkisreikninga?

    Þegar vandræðin byrjuðu og grikkir fóru að biðja alþjóðastofnanir um mikinn pening, þá komu auðvitað alþjóðlegir sérfræðingar að kíkja á bókhaldið, – allt meira og minna í ruglinu. Eg man vel eftir svona fréttum.

  • Ekkert bendir til þess að þær aðgerðir sem AGS setti í gang í Grikklandi hafi skilað árangri í að styrkja grískt efnahagslíf heldur þvert á móti haft eyðileggjandi áhrif enda margt sem bendir til þess að markmið AGS og evrópska seðlabankans hafi fyrst og fremst verið að koma í veg fyrir að það skapaðist fordæmi fyrir niðurfellingu skulda hjá ríki með aðild að myntbandalagi EU.

    • Í aðgerðunum 2012 („bailout“) voru skuldir Grikkja í höndum einkaaðila færðar niður um 75% af verðmæti. Menn geta spurt af hverju þær skuldir sem eftir standa, sem eru að mestu í höndum AGS og ESB-ríkja og -sjóða, séu ekki skrifaðar strax niður með sama hætti. Svarið liggur í lagaramma þessara stofnana. Lissabon-sáttmálinn heimilar til dæmis ekki að fjárhagslegar skuldbindingar eins aðildarríkis séu settar á önnur ríki fyrir tilstuðlan ESB (utan þeirra hefðbundnu sameiginlegu verkefna sem sambandið sinnir). Ríkisstjórnir hvers ríkis fyrir sig yrðu að taka sjálfstæða ákvörðun um slík fjárframlög – og bera ábyrgð á því gagnvart kjósendum, enda er jú lýðræði í fleiri löndum en Grikklandi.

  • Ólafur Magnús Ólafsson

    Það má nú bæta ýmsu inn í þetta hjá þér og þetta er bara efst í huganum hjá mér.
    Bankageirinn í Grikklandi fékk að blása sig upp líkt og hér með aðstoð stjórnvalda. Troika hefur meira og minna verið við stjórn síðastliðin 5 ár og gert illt mun verra. Stór hluti af grískum útflutningi var til Rússlands en það hefur hrunið eftir efnahagsþvinganir USA/EU. 130 milljarðar af þessu 240 milljarða björgunarpakka fer í gjalddaga skuldir og vexti. Allur vöxtur í landinu stöðvaður, atvinnuleysi eykst umfram allar spár, ellilífeyrir skorinn niður um helming (eftirlaunaaldur í dag er 67 ára eða 62 eftir 40 ára vinnu) sem gerir þetta að mannúðarvandamáli en ekki fjármagnsvandamáli þar sem skuldir bankanna voru fluttar á almenning en það virðist ekki skipta EU/ECB/IMF miklu máli. Skuldbindingar Grikklands í hernaðarmálum mátti ekki skera niður þar sem það eru viðskipti við Þýskaland/Frakkland … það er svo mikið meira á bakvið tjöldin en það sem fær að koma fram en fyrst og fremst er fólkið í landinu að þjást og evrópubúar dirfast að kalla fólkið latt og að þau áttu þetta skilið. Sama staða hefði auðveldlega getað komið upp á Íslandi en það sem gerði Íslandi gott var okkar eiginn gjaldmiðill, þannig gæti drachma hjálpað Grísku þjóðinni út úr þessu skulda-þræla-hjóli evrópu. Fylgist vel með afleiðu vandamáli Deutche Bank á komandi dögum.

    • „130 milljarðar af þessum 240 milljarða björgunarpakka fer í gjalddaga, skuldir og vexti.“ Já, það er eðli máls, það er verið að forða Grikkjum frá greiðsluþroti með að veita þeim ný, lengri og hagstæðari lán. Hluti af lánunum 2012 fór til dæmis í að greiða prívat-lánardrottnum 25% af verðmæti skulda þeirra gegn því að þeir afskrifuðu 75%.

      „Eftirlaunaaldur er í dag 67 ár eða 62 eftir 40 ára vinnu.“ Nei, hann er lægri í dag, en þetta er markið sem stefnt er að.

      „Skuldir bankanna voru fluttar á almenning.“ Það hef ég hvergi séð, geturðu vísað í heimildir?

      „Skuldbindingar Grikklands í hernaðarmálum mátti ekki skera niður.“ Nú leggur Eurogroup til €400m niðurskurð til hermála, en Tsipras svarar með tilboði um lækkun um €200m á næsta ári og €400 eftir það. Vissulega eru allt of há útgjöld til hermála markverður hluti af skuldasöfnun og vanda Grikkja. En það var ákvörðun þeirra eigin ríkisstjórnar hverju sinni – því miður.

      Fólkið í landinu þjáist og það er ömurlegt að horfa upp á. Vandinn núna er að finna leiðir til að minnka þjáningar almennings eins og kostur er. Ég efast um að þjóðaratkvæðagreiðsla Tsipras sé nýtileg í því efni, hvað þá að fara úr evrunni og taka upp drökmu.

      • kristinn geir st. briem

        fór ekki stór hluti lana frá til að bjarga grýskum bönkum hefði grykkland þurft að fá alla þessa fjármuni til að bjarga ríkiskuldum grykkja fyrir 7.árum

  • Þórhallur Kristjánsson

    Hér kemur fram í hvað peningarnir fóru frá AGS og ECB

    http://www.theguardian.com/world/2015/jun/29/where-did-the-greek-bailout-money-go?CMP=fb_gu

Höfundur