Þriðjudagur 03.11.2015 - 17:33 - Lokað fyrir ummæli

Stórar tölur, stöðugleikaframlög og stærðfræði

Í umræðu hafa verið uppi tvær meginhugmyndir um uppgjör slitabúa föllnu bankanna. Önnur gekk út á að gera frjálsa nauðasamninga þar sem kröfuhafar „sleppa út“ með erlendar eignir/gjaldeyri búanna, gegn því að skilja eftir innlendar eignir/krónueignir. Hin gekk út á að nota skattlagningu og/eða „gjaldþrotaleið“ til að taka hluta (35-40%) af heildareignum búanna, erlendum sem innlendum, til stjórnvalda, og nota þær eignir m.a. til að losa út aðrar krónueignir í eigu erlendra aðila (og jafnvel til að bæta annað tjón þjóðarbúsins af bankahruni).

Ég skrifaði til dæmis um fyrri leiðina vorið 2013, en þá voru þegar uppi vangaveltur um skipti á krónueignum og gjaldeyriseignum við kröfuhafa sem hluta af nauðasamningi. Tíminn hefur verið dýr í þessu efni enda hafa krónueignir slitabúanna hækkað úr 500 milljörðum króna í 576 milljarða vegna virðisaukningar útlána meðan stjórnvöld hafa velt málinu fram og aftur.

Í síðustu viku kynnti Seðlabankinn það mat sitt að fyrirliggjandi drög að nauðasamningum föllnu bankanna uppfylli skilyrði um fjármálastöðugleika og kröfur laga um gjaldeyrismál. Í framhaldi var haldinn blaðamannafundur á vegum ríkisstjórnarinnar með nýrri glærukynningu. Niðurstaðan er sú að fara fyrri leiðina, þ.e. leið frjáls nauðasamnings en ekki skattlagningar eða gjaldþrotaleiðar.

„Afnám hafta“ kynnt í Hörpu í júní sl. Mynd mbl.is/Golli

Eins og margir eflaust muna voru stórar tölur nefndar til sögu í Hörpu í júní sl. þegar „aðgerðir til losunar fjármagnshafta“ voru reifaðar. Bar þar hæst áform um stöðugleikaskatt upp 850 milljarða brúttó.

Heildarvandinn vegna slitabúanna er talinn nema 815 milljörðum króna (glæra 12). Með hliðsjón af því, og í ljósi gagnrýni og varnaðarorða InDefence, hefur ríkisstjórninni þótt mikilvægt að setja ávinning af nauðasamningi þannig fram að hann leysti vandann og þætti ekki lakari en skattlagningarleiðin. Því var áberandi á blaðamannafundinum í síðustu viku talan 856 milljarðar sem „heildarumfang aðgerðanna“ (glæra 4).

Sú tala er hins vegar ekki sérlega traustvekjandi, enda fengin með athyglisverðri stærðfræði þar sem margvíslegar eðlisólíkar tölur eru lagðar saman. Skoðum það aðeins nánar. (Heimild: Greinargerð Seðlabanka Íslands, einkum tafla á bls. 10)

Hið eiginlega stöðugleikaframlag er að sjálfsögðu sú fjárhæð sem kröfuhafar bankanna þriggja afhenda stjórnvöldum vegna nauðasamninganna sem slíkra. Samkvæmt kynningunni nemur framlagið 379 milljörðum króna. Þar verður þó að hafa í huga að talan miðast við að Íslandsbanki og Arion banki séu metnir á fullu eiginfjárvirði (Q-hlutfall 1,0). 95% hlutur í Íslandsbanka er þannig metinn á 185 milljarða. Ef rétt verð reynist t.d. 0,6 (sem er ekki ólíklegra en 1,0) er stöðugleikaframlagið 74 milljörðum lægra, eða 305 milljarðar alls. Sama gildir um Arion banka; 20 milljarðar af stöðugleikaframlaginu eru skilyrtir við Q 1,0. Framlagið getur því hæglega orðið undir 300 milljörðum þegar upp er staðið – og sú fjárhæð birtist ekki í ríkiskassanum fyrr en bankarnir hafa verið seldir og kaupverðið greitt.

Til að brúa mismuninn frá <379 milljörðum upp í 856 milljarða er gripið til skapandi bókhalds.

 • Taldir eru með ýmsir kostnaðarliðir föllnu bankanna sem þeir greiða innanlands og hefðu alltaf greitt óháð nauðasamningi. Þar má nefna almennan rekstrarkostnað þeirra (laun, þ.m.t. slitastjórna, verktaka o.s.frv.) upp á 15 milljarða, skaðleysissjóð slitastjórna og starfsmanna vegna ágreiningsmála upp á 1 milljarð, bankaskatta upp á 26 milljarða og aðra skatta að fjárhæð 3 milljarðar. Þessi kostnaður upp á 46 milljarða samtals er sem sagt talinn til ávinnings af nauðasamningnum og innifalinn í 856 milljarða tölunni. – Óneitanlega er skemmtilegt að ofurlaun slitastjórna teljist nú hluti af lausninni, ekki vandanum.
 • Endurheimtur Eignasafns Seðlabanka Íslands af kröfum í föllnu bankana (vegna ástarbréfaviðskiptanna á sínum tíma) upp á 81 milljarð eru taldar til ávinnings af nauðasamningnum. Sú fjárhæð hefði alltaf fengist greidd, raunar að frádregnum 39% ef stöðugleikaskattur hefði verið lagður á en nettóávinningur ríkisins hefði verið sá sami.
 • Nýi Landsbankinn skuldar þeim gamla 149 milljarða í svokölluðu „Landsbankabréfi“ sem stjórnvöld streittust lengi á móti (af óskiljanlegum ástæðum) að framlengt yrði. Nýlega seldi nýi Landsbankinn skuldabréf erlendis á ágætum kjörum. Ef nauðasamningur verður samþykktur hyggst bankinn greiða niður „Landsbankabréfið“ með fénu sem nýja skuldabréfið skilaði. Þessi fyrirætlun bankans virðist vera stjórnvöldum tilefni til að bæta öllum höfuðstóli Landsbankabréfsins – 149 milljörðum – við ávinning af nauðasamningnum og innifela hann í 856 milljarða tölunni(!) – Aftur er skemmtilegt að sjá að skuld sem einu sinni þótti ógna þjóðarhag sé nú orðin veigamikill þáttur í lausn vandans, og væri veigameiri ef hún væri hærri.
 • Þá er lengt í innlánum kröfuhafa í bönkunum og skuldum ríkissjóðs með nýrri fjármögnun á vegum kröfuhafa. Höfuðstóll skuldanna er óbreyttur og þær þarf eftir sem áður að greiða, í erlendum gjaldeyri þar sem það á við. Þessar skuldbreytingar að fjárhæð 151 milljarður eru taldar með í ávinningi af nauðasamningnum.
 • Loks er liður í útreikningum stjórnvalda upp á 50 milljarða undir nafninu Eignir með undirliggjandi erlendan gjaldeyri sem ég get ómögulega séð annað en að sé a.m.k. að hluta tvítalinn, en gæti haft rangt fyrir mér í því.
 • Ofantaldir liðir eru 46+81+149+151+50 = 477 milljarðar sem að viðbættu 379 ma. kr. stöðugleikaframlagi gerir 856 milljarðana margnefndu.

Nú er það gott og blessað að nauðasamningnum tengist ýmsar aðrar ráðstafanir, svo sem lánalengingar. En allir geta séð að þeir liðir sem ég taldi upp hér að ofan eru alls ekki hliðstæðir stöðugleikaskatti sem hefði einfaldlega, og a.m.k. fræðilega, skilað 850 milljörðum brúttó í ríkissjóð (mínus afsláttur sem kröfuhafar hefðu getað fengið með því að festa fé á Íslandi til lengri tíma). Að nota 856 milljarða „ávinning“ af nauðasamningi reiknaðan eins og hér var lýst í samanburði við 850 milljarða skatt er algjör markleysa.

Hitt, og jafnvel meira áhyggjuefni, er að í reynd er aðeins verið að fá <379 milljarða (eftir dúk og disk og sölu tveggja banka á Q=1,0), upp í vanda sem nemur 815 milljörðum mínus skattar og innlendur kostnaður, skv. upplýsingum stjórnvalda sjálfra. En þar fyrir utan, og til viðbótar, er svo snjóhengja aflandskróna upp á 300 milljarða. Það er því ljóst að talsverðar upphæðir þurfa að koma úr gjaldeyrisvaraforðanum til að ná heildarjöfnuði. Og þrátt fyrir digurbarkaleg orð talsmanna stjórnarflokkanna um annað er niðurstaðan sú að kröfuhafar komast fyrstir út úr höftum með gjaldeyrinn sinn, meðan óljóst er hvort og hvenær höftum verður aflétt á innlend fyrirtæki og einstaklinga.

Fyrir mitt leyti myndi ég gjarnan vilja sjá betri útskýringu, með trúverðugri tölum, á því hvernig ríkisstjórnin sér fyrir sér að þetta dæmi gangi upp.

Að minnsta kosti er full ástæða til að flýta sér hægt, og taka um þetta risastóra mál góða og ítarlega umræðu á þingi og í þjóðfélaginu.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

«
»

Ummæli (7)

 • Nú sagði áhrifamaður innan Samfylkingarinnar eftirfarandi um málið vorið 2013 þegar vinstri stjórnin réð öllu:

  „Það eru engar hraðvirkar töfra- eða patentlausnir í boði. Ég tel affarasælast að vinna áfram að áætlun með AGS, ESB og evrópska seðlabankanum, og stefna á ERM II og evru myndi hjálpa mjög, en þetta verður eitt af meginviðfangsefnum næsta kjörtímabils.“

  Sú lausn sem sem er á borðinu í dag náðist með hjálp sannfærandi hótunar um skattlagninu. „Gulrótin og kylfan.“ Niðurstaðan er sú að áætlað er að 500 milljarðar renni í ríkissjóð, gjaldeyrisvarasjóðurinn stækki, gjaldeyrishöftin og snjóhengjan hverfi og skuldastaða ríkisins lækki gríðarlega og verði sú besta í áraraðir.

  Þetta eru öfundsverðar horfur.

 • Þjóðrembingarnir eru semsé að hafa um 400 milljarða af þjóðinni.

  Það er ekki upp á þetta lið logið.

  En samt er þetta allt Samfylkingunni að þakka.

  Sjálfur Árni Páll segir okkur í Fréttablaðinu að „efnislega niðurstaðan“ hvað varðar afnám hafta og samninga við erlenda kröfuhafa sé „mjög í samræmi við það sem Samfylking“ lagði til á sinum tíma.

  Já, allt það frábæra fólk.

  Auðvitað ber Samfylkingin enga ábyrgð á þessari hroðalegu niðurstöðu – enn einum milljarðastuldi frá þjóðinni.

  Samfylkingin hefur rétt fyrir sér í öllu.

  Öllu.

  Alltaf.

 • Hef alla tíð átt erfitt með tölur, sérstaklega þegar um er að ræða peninga. Stóra spurningin í mínum huga er að er það möguleiki/ líklegt að það verði alvarlegt gengisfall á íslensku krónunni þegar höftunum verður létt/aflétt. Og ég segi bara, eftir alla þessa flugeldasýningu hjá þeim Bjarna og Sigmundi.

 • kristinn geir st. briem

  ekki verri greiníng en hver önnur, ekki þótti mér kyníng stjórnvalda góð minnir á gamla tímma. en senilega er alveg sama hver er í stjórn. hef líka nokkrar áhyggjur af þessari snjóheingju. ekki þótti mér mikið að græða á umræðuni á þíngi tók umræðan frekar stuttan tíma miða við efni máls þíngmenn virtust bera nokkuð sáttir vonandi vita menn hvað menn eru að gera hraðin veldur mér áhyggjum eins hafa menn ekki góða reinslu af reiknínghæfileikum seðlabankans sem hefur tilhneigeingu til að fylgja husbóndanum í stjórnarráðinu, þar sem vilhjámur hefur eflaust lesið þettað yfir þá sagði sigmundur davíð í fréttum þó þettað færi ílla þá væri í samníngnum glausa væri hægt að taka meira frá slitabúunum ef það er rétt eru menn bæði með belti og axlabönd því það verða allnokkrar eignir eftir þó slitabúin verði gerð upp

 • Góð samantekt. Spuni í gangi hjá stjórnvöldum og greinilegt að eigendur slitabúanna fara alltof létt frá þessu. Aftur og enn vantar stjórnvöldum malt – þó svo ekki dragi í Icesave botn fyrri stjórnar.

  Samfylkingin hefur nánast alltaf vitlaust fyrir sér – sem er sorglegt því gamli Alþýðuflokkurinn átti það til að hafa rétt fyrir sér. Jóhanna, blessunin, drap báða flokkana af miklu miskunnarleysi.

Höfundur