Þriðjudagur 24.11.2015 - 14:54 - Lokað fyrir ummæli

Viðfangsefni næstu áratuga

Margvíslegar stórar samfélagsbreytingar eru fyrirsjáanlegar á næstu árum og áratugum. Að mínu mati þyrftu stjórnmálin að fjalla meira um þessar breytingar og taka tillit til þeirra. Umræðan er of föst í viðfangsefnum og hjólförum síðustu aldar. Það kann einnig að vera hluti skýringarinnar á því að ungt fólk tengir ekki við hina hefðbundnu flokka, sem eru býsna miðaldra í ýmsum skilningi.

Meðal viðfangsefna og spurninga sem þarf að glíma við af fyllstu alvöru má nefna:

Loftslagsvána. Að sporna við hlýnun jarðar mun þýða miklar breytingar á orkuvinnslu, samgöngum, flutningum, land- og borgarskipulagi, meðferð vatnsauðlinda o.m.fl. Verkefnið mun reyna á alþjóðlega og hnattræna samstöðu – einnig við að takast á við afleiðingar þurrka og hamfaraveðurs.

Fólksflutninga. Vegna loftslagsvárinnar og vegna þess að fólk sættir sig ekki við að búa við stríðsástand verða fólksflutningar stærri í sniðum en áður. Því þarf að mæta með opnum huga og lausnum sem helst taka á orsökunum fremur en afleiðingunum.

Deilihagkerfið og upplifunarhagkerfið. Yngri kynslóðir leggja ekki eins mikið og þær eldri upp úr stórum húsum, dýrum húsbúnaði og flottum bílum (enda mun einkabíllinn hverfa af sjónarsviðinu; einkabílar verða eins og vínýlplötur). Þær eru frekar til í að deila efnislegum gæðum en eiga í staðinn meiri frítíma og verja peningum í upplifanir, ferðalög, menningu og skemmtun. Sá þáttur hagkerfisins mun stækka.

Lýðheilsu. Fólk lifir lengur, en á móti koma ýmsir lífsstílssjúkdómar: Offita, sykursýki, streita og sálrænir kvillar. Ný sérhæfð lyf og hátæknimeðferðir geta verið mjög dýrar. Taka þarf upp virka lýðheilsustefnu (dæmi: sykurskatt), gera starfslok sveigjanlegri og svara erfiðum spurningum um samhjálp og samábyrgð í heilbrigðiskerfinu.

Símenntun og endurmenntun. Þekkingu mun sífellt þurfa að endurnýja og uppfæra, eftir því sem hraðari breytingar verða á atvinnumarkaði. Efla þarf mjög möguleika til símenntunar og endurmenntunar á öllum æviskeiðum. Skapandi greinar verða sífellt mikilvægari.

Klæðskerasaumaða framleiðslu í stað magnframleiðslu. Með tilkomu þrívíddarprentunar verða hlutir framleiddir jafnóðum nálægt okkur (eða heima hjá okkur), í þeirri útfærslu sem við veljum sjálf. Virðið og framlegðin mun felast í hönnuninni, ekki framleiðslunni. Þetta gerbreytir framleiðslu, flutningum, dreifingu, smásölu og hlutverki hönnuða.

Sítengingu við netið. Allar heimsins upplýsingar verða ætíð aðgengilegar. Með okkur í för verður „gáfaður“ tölvuþjónn sem við getum talað við, vonandi á íslensku. Þjónninn pantar vörur og þjónustu fyrir okkur, sér um dagatalið, hóar í sjálfkeyrandi bíl þegar við þurfum hann, man það sem þarf að muna o.s.frv. – Störf sem felast fyrst og fremst í að hnoða upplýsingum fram og aftur, án skapandi þáttar (les: hvers kyns skriffinnska), verða smám saman óþörf. Gæta þarf sérstaklega að persónuvernd og valdi og ábyrgð stórra upplýsingatæknifyrirtækja.

Tauganet og gervigreind. Nú liggur fyrir að tauganet í tölvum geta lært að leysa ýmis verkefni sem áður þóttu erfið, svo sem að þekkja fólk, hluti og aðstæður á myndum og í myndstraumum, keyra bíla, þýða talað mál jafnóðum milli tungumála, greina æxli á sneiðmyndum, versla með verðbréf og jafnvel að stjórna fyrirtækjum. Allt þetta munu tauganetin innan tíðar gera betur en fólk; hraðar, öruggar, áreiðanlegar. Raunar er stórt heimspekilegt viðfangsefni að ákveða hvernig mannkynið hyggist höndla framþróun gervigreindar. Það þarf helst að liggja fyrir áður en gervigreind nær svo langt að geta endurbætt sjálfa sig – en eftir það skilur hún mannkynið eftir í rykinu, ef ekki er varlega farið frá upphafi.

Ójöfnuð. Þessar samfélagsbreytingar munu að óbreyttu gagnast þeim best sem í bestri stöðu eru fyrir; vel menntuðu fólki í efri lögum þjóðfélaga í ríkari heimshlutum. Þær geta hins vegar orðið mjög jákvæðar ef rétt er á spilum haldið. Þær gera okkur kleift að mæta margvíslegum þörfum fólks með minni tilkostnaði, tíma, forðum og umhverfisálagi. Breytingarnar kalla á meiri endurdreifingu gæða, þannig að í stað þess að lítill hópur hafi það miklu betra (vegna þekkingar, aðstöðu og sveigjanleika), en stór hópur verra (vegna atvinnuleysis og jaðarsetningar), gagnist þær sem flestum. Í þessu efni koma til álita ráðstafanir á borð við styttri vinnuviku, öflugra velferðarkerfi, borgaralaun og aukna þróunaraðstoð.

Lýðræði og alþjóðlegt samstarf. Allt ofangreint mun reyna á lýðræðislega stjórnarhætti, ekki bara innan þjóðríkja, heldur einnig milli þeirra – enda flest viðfangsefnin hnattræn. Gæta þarf að því að vilji og hagur almennings ráði för, fremur en sérhagsmuna. Það útheimtir þá einnig að almenningur sé vel upplýstur um álitaefnin og að um þau fari fram gagnrýnin umræða. Stjórnmálaflokkar framtíðar eiga m.a. að fóstra þá umræðu – ef þeir vilja skipta máli.

Að mínu mati er afar mikilvægt að hugmyndafræði jafnaðarmanna – með lýðræði, algildum mannréttindum og samhjálp, gegn ójöfnuði – komi verulega við sögu þegar tekist er á við áskoranir næstu áratuga.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

«
»

Ummæli (2)

  • Fólksflutningar verða ekki bara vegna loftslagsvárinnar. Neðst á arabíuskaga er ríki sem heitir Jemen, Jemen er gott dæmi um helstu ástæður fólksflutninga. Á rúmlega hálfri öld sem landið hefur verið sjálfstætt hefur íbúafjöldin vaxið frá 3,7 mil. til 24 mil. íbúafjöldin tvöfaldast á minna en 20 ára fresti. Vatn er þar af skornum skammti og nú er borgarastríð hafið í landinu, bráðlega munu flóttamenn þaðan fylkast til Evrópu. Jafnaðarmenn geta ekki leyst vandamál miðaustur-landa með því að opna Evrópu. Nú hafa Sósíaldemókratar í Svíþjóð loksins tekið Danska og Norska sósíaldemókrata sér til fyrirmyndar. Ég hef ekki kynt mér stefnu Samfylkingarinar í innflytjendamálum. En vona að hún sé mótuð af raunsæi.

  • Mjög góð grein.

    Varðandi einkabílinn þá held ég að eftir bara 30 ár muni fólk ekki trúa því að hér áður fyrr var normið hjá meðalplebbanum að eiga bíl sem kostaði hann ígildi árslauna.

Höfundur