Sunnudagur 10.04.2016 - 18:48 - Lokað fyrir ummæli

Stjórnarskráin og atburðir liðinnar viku

Austurvöllur. Mynd: VÞ (c)Það er fróðlegt að máta nýju stjórnarskrána inn í hina hröðu og afdrifaríku atburðarás síðustu viku.

Ramminn sem stjórnarskráin setur, leikreglurnar, hefur nefnilega mikil áhrif á það hvað gerist og hvað gerist ekki.

Í fyrsta lagi gerir nýja stjórnarskráin kröfu um hagsmunaskráningu alþingismanna (50. gr.), sem greinilega þarf að styrkja í núgildandi lögum. Engin krafa er um slíka hagsmunaskráningu í gömlu stjórnarskránni.

Í öðru lagi kveður nýja stjórnarskráin á um vanhæfi þingmannaAlþingismanni er óheimilt að taka þátt í meðferð þingmáls sem varðar sérstaka og verulega hagsmuni hans eða honum nákominna. (50. gr.) Samkvæmt þessu hefði forsætisráðherra til dæmis ekki getað greitt atkvæði á þingi um mál er vörðuðu hag kröfuhafa í föllnu bankanna. Engin ákvæði um vanhæfi þingmanna er að finna í gömlu stjórnarskránni.

Í þriðja lagi fjallar nýja stjórnarskráin um vanhæfi ráðherraGeti ráðherra ekki fjallað um mál vegna vanhæfis, fjarveru eða annarra ástæðna felur forsætisráðherra það öðrum ráðherra. (86. gr.) Samkvæmt þessari grein hefði forsætisráðherra þurft að tilnefna staðgengil sinn til að fjalla um málefni kröfuhafa föllnu bankanna. Brot gegn greininni varða ábyrgð skv. ákvæðum um ráðherraábyrgð.

Í fjórða lagi er upplýsingaskylda ráðherra gagnvart þinginu áréttuð í 93. gr.: Ráðherra er skylt að veita Alþingi eða þingnefnd allar upplýsingar, skjöl og skýrslur um málefni sem undir hann heyra, nema leynt skuli fara samkvæmt lögum. Mikilvæg viðbót er sannleiksskylda ráðherra: Upplýsingar sem ráðherra veitir Alþingi, nefndum þess og þingmönnum skulu vera réttar, viðeigandi og fullnægjandi. Sambærilegt ákvæði er ekki að finna í gömlu stjórnarskránni.

Í fimmta lagi er sjálfstætt embætti Umboðsmanns Alþingis tryggt í nýju stjórnarskránni og því falið að hafa eftirlit með stjórnsýslu ríkis og sveitarfélaga. [Umboðsmaður] gætir þess að jafnræði sé í heiðri haft í stjórnsýslunni og að hún fari að öðru leyti fram í samræmi við lög og vandaða stjórnsýsluhætti. (75. gr.) Hvorki er minnst á Umboðsmann Alþingis, jafnræði né vandaða stjórnsýsluhætti í gömlu stjórnarskránni, en treyst á almenn stjórnsýslulög sem raunar voru ekki sett á Íslandi fyrr en 1993.

Í sjötta lagi segir í nýju stjórnarskránni: Frelsi fjölmiðla, ritstjórnarlegt sjálfstæði þeirra og gegnsætt eignarhald skal tryggja með lögum. Vernd blaðamanna, heimildarmanna og uppljóstrara skal tryggja í lögum. (16. gr.) Þessi ákvæði myndu til dæmis vernda Jóhannes Kr. Kristjánsson rannsóknarblaðamann og ritstjórn Kastljóss gagnvart áreiti valdaafla þegar stórmál á borð við Panamaskjölin koma upp. Ekkert sambærilegt er að finna í gömlu stjórnarskránni.

Í sjöunda lagi er í nýju stjórnarskránni sett fram meginreglan Öllum er frjálst að safna og miðla upplýsingum. (15. gr.) Í sömu grein segir: Söfnun, miðlun og afhendingu gagna, geymslu þeirra og birtingu má aðeins setja skorður með lögum í lýðræðislegum tilgangi, svo sem vegna persónuverndar, friðhelgi einkalífs, öryggis ríkisins eða lögbundins starfs eftirlitsstofnana. (Skattsvik falla nóta bene hvorki undir persónuvernd né friðhelgi einkalífs.) Með þessu er stuðlað að lýðræðislegu aðhaldi, eins og Panama-skjölin eru dæmi um. Ekkert um þetta er að finna í gömlu stjórnarskránni.

Í áttunda lagi er í nýju stjórnarskránni skýrt að Forseti Íslands rýfur Alþingi að ályktun þess (73. gr.). Þingrofsréttur færist þar með frá forsætisráðherra til þingsins sjálfs. Framkvæmdarvaldið (ríkisstjórnin) situr jú í umboði löggjafarvaldsins (þingsins) en ekki öfugt. Óeðlilegt er, og fáheyrt í nýrri stjórnarskrám, að forsætisráðherra geti rofið þing, eins og gamla stjórnarskráin segir. Þau ákvæði hennar eru þó ekki fullkomlega skýr frekar en annað í henni. Eins og við sáum í síðustu viku er umdeilanlegt hvaða vald forseti hefur nákvæmlega í þessu efni.

Í níunda lagi skilgreinir nýja stjórnarskráin nákvæmlega hvernig skipt er um forsætisráðherra á miðju kjörtímabili. Það gerist annað hvort í kjölfar þess að meirihluti þingheims samþykkir vantraust á ríkisstjórnina, en í vantrauststillögu felst jafnframt tillaga um nýjan forsætisráðherra (91. gr.); eða með því að forsætisráðherra biðst lausnar og er þá nýr forsætisráðherra kjörinn í atkvæðagreiðslu á Alþingi (90. gr). Þannig er þingræðisreglan í heiðri höfð með jákvæðum og gegnsæjum hætti, og ábyrgð þingsins á ríkisstjórninni hverju sinni er skýr.

Í tíunda lagi gerir nýja stjórnarskráin kjósendum mun auðveldara að losa sig við þingmenn sem þeir telja að hafi brugðist trausti með auknum möguleikum til persónukjörs: Kjósandi velur með persónukjöri frambjóðendur af listum í sínu kjördæmi eða af landslistum, eða hvort tveggja. Honum er og heimilt að merkja í stað þess við einn kjördæmislista eða einn landslista, og hefur hann þá valið alla frambjóðendur listans jafnt. (39. gr.) Eins og landsmenn þekkja eru ákvæði núgildandi stjórnarskrár og kosningalaga rýr og gagnslítil til persónukjörs. Flokkarnir ráða því miklu fremur en kjósendur hvaða einstaklingar setjast á þing.

Ef þau 10 ákvæði sem hér eru talin, og fjölmörg önnur í nýju stjórnarskránni, hefðu verið í gildi á Íslandi undanfarin misseri hefði atburðarás hér getað orðið verulega öðruvísi, og farsælli fyrir almenning, en raun ber vitni. Leikreglurnar móta bæði leikinn sjálfan og útkomu hans.

Höldum áfram hinu opna og lýðræðislega ferli sem í gangi var á síðasta kjörtímabili, og setjum okkur það markmið að klára stjórnarskrána okkar á næsta kjörtímabili. Það verður heillaskref í átt að því nýja Íslandi sem við ætluðum að byggja upp eftir hrunið en var lagt á hilluna af núverandi ríkisstjórnarflokkum.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

«
»

Ummæli (4)

 • Baldvin Jónsson

  Sem og veita greinar 62 og 63 almenningi tækifæri til inngrips

 • Sæll Vilhjálmur,

  ég var ein þeirra sem talaði mjög mikið fyrir því að hagsmunaskráning stjórnlagaráðsmanna væri nauðsynleg en talaði því miður fyrir daufum eyrum margra, m.a. þinna.

  Áhugavert að þú skulir nefna hagsmunaskráningu núna þar sem þú virtist ekki sjá tilgang í því að skrá þína eigin hagsmuni sem stjórnlagaráðsþingmaður á sínum tíma eins og kemur m.a. fram hér: http://www.dv.is/blogg/thordur-bjorn/2012/2/7/skodanir-og-hagsmunir-skodadir/

  Þar kemur m.a. fram þetta svar frá þér:

  Kristbjörg og Ragnar: Allir menn hafa einhverja „hagsmuni“, sem mótast af bakgrunni þeirra, reynslu, störfum, áhugamálum og svo framvegis. Kjósendur taka að einhverju leyti tillit til þessa þegar þeir velja fulltrúa sína, þ.e. þeir eru líklegri til að velja fulltrúa sem kjósandinn samsamar sig við að einhverju leyti. Spyrja má: Meðal ráðsfulltrúa eru prestur og guðfræðingur – eiga þeir að fjalla um aðskilnað ríkis og kirkju eða ekki? Ég er með bakgrunn í upplýsingatækni – á ég að tala fyrir opinni, rafrænni stjórnsýslu eða ekki? Illugi Jökulsson er fjölmiðlamaður – á hann að láta til sín taka á sviði tjáningarfrelsis eða ekki? Freyja Haraldsdóttir er fötluð – á hún að koma að mannréttindum fatlaðra eða ekki? „Hagsmunirnir“ geta legið víða, en eru einhver mörk þarna og hvar eiga þau að vera? Athyglisverðar spurningar, en ég hef ekki fullmótuð svör, önnur en þau að ég held að það séu ekki skýrar línur í þessu. Og að hluta er það hópsins sem heildar að meta hvað séu gildir almannahagsmunir og hvað ekki.

  • Sæl Kristbjörg!

   Við erum kannski eitthvað að misskilja hvort annað. Ég er vitaskuld fylgjandi hagsmunaskráningu og man ekki betur en að við höfum fyllt út eyðublað um slíkt í Stjórnlagaráði, en hvað varð af þeim upplýsingum veit ég ekki. Þar fyrir utan lá ferilskrá mín fyrir, m.a. á vef ráðsins: http://stjornlagarad.is/fulltruar/fulltrui/item32943/Vilhjalmur_Thorsteinsson/

   Í textanum sem þú vísar til, sem er hluti af lengri umræðu, var ég að spyrja almennt hvernig skoða bæri hagsmuni í tengslum við vinnu við stjórnarskrárfrumvarp og bjóða upp á rökræðu um það. Mér finnst þetta ennþá spennandi spurning. Hvaða skoðun hefur þú á henni?

 • kristinn geir st. briem

  skil ekki þessa árátuhegðun með þessa nýju stjórnarskrá sem aðeins með góðum vilja má seigja að var kosið um. þar stendur til viðmiðunar. að mínu mat á bara vera í stjórnarskrá það alltra nauðsinlegasta. síðan koma lög sem eru náhvæmari og reglugerðir sem eiga að skíra lögin mér sínist að flest af þessu sem vilhálmur nemdi mætti vera í lögum. því ef þarf að breita er þúngt í vöfum að breita stjórnarskrá. ef menn vilja algert an glundroða þá lofum við þjóðinni að losa okkur auðveldlega við þíngmenn. það sindi sig í grykklandi forðum daga. þing á að sitja út kjörtímabil það þarf ekki endilega að vera sama stjórninn mér hugnast skipulagið í noregi vel

Höfundur