Mánudagur 25.04.2016 - 20:13 - Lokað fyrir ummæli

Fleiri svör um fjármál

Nafn mitt kom fyrir í Kastljóss-þætti RÚV í kvöld.

Ég árétta að ég tengist með engu móti viðskiptafléttum af því tagi sem lýst var í þættinum og gengu út á lán til hlutabréfakaupa án áhættu.

Hér á eftir fara skýringar mínar á því sem fram kom og að mér snýr, og svör við spurningum sem ég geri ráð fyrir að kviknað hafi. Sjálfsagt er að svara þeim spurningum þó ég sé ekki lengur gjaldkeri Samfylkingarinnar og ekki í opinberri trúnaðarstöðu.

Stutta útgáfan:

Eignarhaldsfélag mitt Meson Holding var í eignastýringu hjá Kaupþingi Lúxemborg á árunum 2000-2008. Vegna regluverks um slík félög í Lúxemborg var það praxís bankans að stofna dótturfélög fyrir þau á Bresku jómfrúreyjum – með fullri vitund stjórnvalda í Lúxemborg – ef viðskiptavinur vildi geta fjárfest í öðru en hlutabréfum, skuldabréfum og fasteignum. Það gilti um mitt félag og það átti því dótturfélag á Bresku jómfrúreyjum í umsjá bankans til 2008 þegar Kaupþing Lúxemborg fór í greiðslustöðvun. Eftir það flutti félagið eignastýringu sína og allar eignir annað og dótturfélagið var þar með úr sögunni. Í millibilsástandi 2009-2011 var félagið með hluta eigna sinna í eignastýringu hjá alþjóðlegum banka sem stofnaði af sömu ástæðum dótturfélag á Guernsey. Það var lagt niður 2011 og eftir það hefur eignarhaldsfélagið aðeins átt dótturfélög innan EES eins og fram kemur í reikningum þess. Ekkert af ofangreindu hafði áhrif til lækkunar á skattgreiðslum félagsins í Lúxemborg né á mínum persónulegu skattgreiðslum á Íslandi. Fram kemur í svörunum að Meson Holding hefur greitt skatta af söluhagnaði hlutabréfa á Íslandi sem það hefði ekki greitt ef það væri íslenskt félag.

Langa útgáfan:

1. Hvað er “M-Trade”?

Eins og fram hefur komið á ég eignarhaldsfélagið Meson Holding S.A. í Lúxemborg. Það var upphaflega stofnað árið 2000 af Kaupþingi Lúxemborg, og var þar í eignastýringu allt til október 2008 er bankinn fór í greiðslustöðvun. Félagið var svokallað “1929 Holding” félag, nefnt eftir ártali laganna sem um slík félög giltu. Samkvæmt þeim lögum máttu félögin eiga hlutabréf, skuldabréf og fasteignir, en ekki aðrar tegundir fjármálagjörninga (enda var slíkt sjaldgæft árið 1929).

Það var því almennur praxís hjá Kaupþingi Lúxemborg, eftir því sem ég best veit, að stofna dótturfélög á Bresku jómfrúreyjum í umsjá bankans fyrir “1929” félög í eignastýringu ef skjalfest fjárfestingarstefna viðskiptavinarins leyfði fjárfestingar til dæmis í valréttum eða skiptasamningum. Slík viðskipti voru þá gerð í nafni dótturfélagsins en hefðbundnari fjárfestingar í nafni móðurfélagsins.

Afkoma dótturfélaganna var færð í ársreikning móðurfélaganna hverju sinni, sem var endurskoðaður og lagður fram til birtingar hjá fyrirtækjaskrá Lúxemborgar. Þetta fyrirkomulag, sem var þá alsiða og skattyfirvöldum í Lúxemborg vel kunnugt, hafði ekki áhrif á skattgreiðslur móðurfélaganna í Lúxemborg enda greiddu “1929” félög ekki tekjuskatt þar í landi.

M-Trade var dótturfélag Meson Holding, stofnað af Kaupþingi Lúxemborg og í umsjá bankans í ofangreindum tilgangi sem þáttur í eignastýringu. Það var skráð á Bresku jómfrúreyjum.

Ég hafði aldrei prókúru fyrir félagið, né var ég framkvæmdastjóri þess eða stjórnarmaður.

Við fyrsta tækifæri eftir fall Kaupþings Lúxemborgar í október 2008 flutti Meson Holding allar eignir sínar úr eignastýringu þar. M-Trade var þar með úr sögunni hvað mig varðar.

Frá og með 2009, þ.e. síðastliðin 7 ár, er Meson Holding S.A. “venjulegt” fullskattlagt hlutafélag í Lúxemborg.

2. Varð tilvist M-Trade til þess að lækka persónulegar skattgreiðslur þínar?

Nei. Tilvist félagsins varð ekki til að lækka launatekjuskatta, auðlegðarskatta, fjármagnstekjuskatta eða aðra skatta sem ég greiddi og mun greiða á Íslandi. Líkur standa til að tilvist þess hafi fremur orðið til að hækka þessa skatta.

3. Hvað er þá “Jacinth”?

Eftir fall Kaupþings í Lúxemborg leitaði Meson Holding fyrir sér með bankaviðskipti og eignastýringu á öðrum stöðum. Það hóf árið 2009 viðskipti við alþjóðlegan banka sem, af sömu ástæðum og Kaupþing Lúxemborg, stofnaði dótturfélag á Guernsey, kallað Jacinth, fyrir önnur hugsanleg viðskipti en hlutabréf, skuldabréf og fasteignir. Viðskiptasambandinu var hins vegar slitið fljótlega og Jacinth var endanlega lagt niður í júní 2011. Jacinth hafði ekki áhrif, frekar en M-Trade, til lækkunar á skattgreiðslum móðurfélagsins eða mín persónulega.

Eftir afleita reynslu af viðskiptaháttum og áhættusækni Kaupþings hefur Meson Holding frá 2010 verið í mjög íhaldssamri eignastýringu og hefur t.d. enga afleiðusamninga gert.

4. Greiddi Meson Holding S.A. lægri skatta á Íslandi en íslenskt félag hefði gert?

Uppistaðan í eigin hagnaði Meson Holding S.A. meðan það var “1929” félag var söluhagnaður hlutabréfa. Slíkur söluhagnaður er ekki skattlagður innan íslenskra hlutafélaga frá og með árinu 2008. Fyrir þann tíma frestaðist skattlagning söluhagnaður hlutabréfa svo lengi sem endurfjárfest var í hlutabréfum í stað þeirra sem seld voru. Það átti í öllum tilvikum við í þeim viðskiptum sem Meson Holding var í á þeim tíma, þannig að ekki hefði komið til skattlagningar slíks söluhagnaðar í íslensku félagi. (Skattlagning hagnaðarins á sér stað þegar hann er greiddur út til eigenda sem arður, og það er óháð því hvort félag er í Lúxemborg eða á Íslandi.)

En af því að Meson Holding var “1929” félag (til 2009) og féll sem slíkt ekki undir tvísköttunarsamning Íslands og Lúxemborgar, bar það svokallaða “takmarkaða skattskyldu” á Íslandi skv. 3. gr. laga um tekjuskatt nr. 90/2003. Nánar til tekið bar því að greiða tekjuskatt af söluhagnaði hlutabréfa á Íslandi sbr. 7. tölulið þeirrar greinar, án þess að eiga rétt til frádráttar á móti skv. tvísköttunarsamningi.

Félagið greiddi því, og samkvæmt þessu, skatt í ríkissjóð af söluhagnaði hlutabréfa á Íslandi. Þær skattgreiðslur, vel á þriðja tug milljóna króna, voru umfram það sem félagið hefði greitt væri það skráð hér. Að sjálfsögðu greiddu svo dótturfélög og hlutdeildarfélög Meson Holding á Íslandi, sem eru stór hluti fjárfestinga félagsins, sína skatta hér.

5. Á félag þitt eða þú sjálfur dótturfélög eða hlutdeildarfélög í skattaskjólum?

Nei. Síðan Jacinth var lagt niður í júní 2011 eru öll dóttur- og hlutdeildarfélög Meson Holding S.A. venjuleg hlutafélög innan EES, eins og fram kemur í ársreikningum félagsins, og skattlögð sem slík.

Frá því Meson Holding var stofnað árið 2000 hef ég engin önnur félög átt erlendis.

6. Tengdist þú félagi í skattaskjóli meðan þú varst gjaldkeri Samfylkingarinnar?

Nei. Ég var fyrst kjörinn gjaldkeri Samfylkingarinnar á landsfundi í nóvember 2011.

7. Breyta þessar upplýsingar um forsögu félags þíns einhverju um það sem fram kemur í Eyjupistli þínum frá 30. mars sl.?

Nei. Þar er allt satt og rétt, en þessar upplýsingar eru til viðbótar því sem þar kemur fram.

Ég skrifaði pistil á bloggið mitt á eyjan.is á síðkvöldi á hótelherbergi erlendis (á iPad!) í þeim tilgangi að tilkynna snarlega um afsögn mína sem gjaldkeri, þannig að nafn mitt og flokksins þvældist sem minnst fyrir þeirri mikilvægu umræðu um Wintris-málið sem þá var framundan.

Það hefði óneitanlega verið réttara og skynsamlegra af mér að flýta mér hægar, bíða uns ég hafði aðgang að fullnægjandi gögnum (allt frá árinu 2000) og fara að því loknu yfir alla forsögu mála í einum og þá ítarlegri pistli.

Í lokin er ástæða til að ítreka orð mín úr blogginu frá 30. mars: Ég hef ekki kosið að hafa eignarhaldsfélag mitt í Lúxemborg vegna skattahagræðis, heldur fyrst og fremst vegna krónunnar, óstöðugleika íslensks efnahags- og stjórnmálaumhverfis og gjaldeyrishafta.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

«
»

Ummæli (18)

  • Sigurður

    Hversu oft heldur þú að þú getir komið eftirá, með nýjar og nýjar skýringar?

    Gleymdu þessu

    • Það var ekkert rangt í pistlinum frá 30. mars, Sigurður. Hann var hins vegar ekki tæmandi og fór ekki yfir forsögu máls. Það voru mistök hjá mér. Niðurstöður hans standa þó alveg fyrir sínu.

      • Sigurður

        „Veit ekki alveg hvort ég á að taka þetta til mín; þetta er svona „let the bastards deny it“ dæmi. Ég afneita því alla vega að eiga „aflandsfélag“ í „skattaskjóli“. Ég á félag í EES-landinu Lúxemborg, eins og áður hefur komið fram í fjölmiðlum, og það er fullskattlagt.“

        Manstu eftir þessu?

        Þú lýgur alveg linnulaust.

        • Þetta er rétt staðhæfing, Sigurður. Þegar pistillinn var skrifaður voru næstum 8 ár síðan hið margumrædda dótturfélag M-Trade hvarf úr eigu eignarhaldsfélagsins míns.

          • Það má vel vera að öll þessi viðskipti þín séu fullkomlega eðlilega og lögleg – ég ætla ekki að leggja mat á það. Málið snýst hinsvegar ekki lengur um það. Þú virðist ekki átta þig á því að það sem fólki finnst fyrst og fremst tortryggilegt er að þú segir aldrei sannleikann allan: segir bara eins lítið og þú kemst upp með í hvert skiptið, og kemur síðan eftirá með yfirlýsingar á borð við „Ég taldi bara ekki ástæðu til að minnast á …“ eða „Þetta var nú kanski ekki alveg tæmandi hjá mér …“ o.s.frv.

            Því fær fólk aldrei á tilfinninguna að nú sé allt uppi á borðum, heldur hugsar frekar „Hvað er hann ennþá að fela, hvað kemur í ljós næst og hvaða afsökun notar hann þá?“

            Auðvitað hefðir þú átt að leggja öll spilin á borðið strax í upphafi, en það er líklegast orðið of seint úr þessu. Héreftir verður allt sem þú segir rengt og gert tortryggilegt. Féllst í raun í sömu gryfju og Sigmundur. PR mistök 101.

  • kristinn geir st. briem

    skil ekkert í þessu. helt að luxemburg væru meðal frjálslindustu bankareglugerðir í evrópu. gétur þá verið að sigmundur hafi verið neidur til að flitja peníngana til hinnar heilögu jónfrúar,?.got og vel. en hvers vegna þá ekki að setja þettað eigið nafn frekar en að setja þettað undir fyrirtækjanafni. skítur það ekki nokkuð sköku við að nena ekki að borga skatta á íslandi en þyggja síðan alla þjónustu af íslenka ríkinu. nema maðurin þyggi einga þjónustu af íslenska ríkinu. og leiti eftir heni hjá ees. sem hlítur að vera miskilnígur miðað við að stendur í greininni í viðauka no.2. að vera með þessa hríngavilleisu bara til þess að þurfa ekki að vera með aurin á íslandi er nokkuð skemtilegur er furða að bjarni ben gleimi ýmsum hlutum í öllum þessum flækjum enda fátækur maður samhvæmt skattaframtali. en eflaust hafa fátæklíngar ekkert annað að gera en að henda peníngum á milli bankabóka. hvernig var með jólaævindýrið eftir dickens sem er nokkuð góð saga af fátækum manni að nafni ebeneser scrooge.

  • Yngvi Eysteinsson

    Gegndir þú einhverjum öðrum trúnaðarstörfum fyrir Samfylkinguna áður en þú varðst gjaldkeri? Ef já, þá hvaða?

  • Ertu með flókið eignarhald á félögum viðsvegar í heiminum til þess að lækka eða komast hjá sköttum þar sem viðkomandi félög starfa?
    Hefur veitt lán á milli eiginn félaga á óeðlilegum lánakjörum til þess að flytja fjármagn á milli landa
    Eru arðgreiðslur frekar greiddar út þar sem þær eru ekki skattlagðar

    Ertu samfélagssvindlari?

    • Lestu pistilinn vel, Jens. Þar eru svörin. Arðgreiðslur út úr móðurfélaginu eru skattlagðar með fjármagnstekjuskatti á Íslandi, og ég greiddi auðlegðarskatt meðan hann var og hét (og er fylgjandi honum). Ég hef í gegn um tíðina greitt talsverðar upphæðir í skatta á Íslandi og tel það ekki eftir mér.

  • Vilhjálmur. Þú hélst þessum upplýsingum leyndum þegar ég kaus þig í Stjórnlagaráð til að gera siðbót. Þú hefur ollið mér jafn miklum vonbrigðum og Sigmundur Davíð olli sínum. Eiginlega meiri, því kjörtímabil á bara að stand til fjögurra ára en ný Stjórnarskrá mun lengur. Þú ert samskonar pappír og Sigmundur. Varstu kannski líka kröfuhafi? Það skýrir þá andstöðu þína við stöðugleikaskattinn

    • Sæl Guðný! Mér þykir leitt að hafa valdið þér hugarangri. Við vorum 25 í Stjórnlagaráði og öll sammála um lokaniðurstöðuna. Ég vann af fullum heilindum við stjórnarskrárfrumvarpið og hef stutt það með ráðum og dáð síðan – og mun gera áfram. Ég var ekki kröfuhafi í bankana, hvorki beint né óbeint. Ríkisstjórnin sá alveg um það sjálf að heykjast á stöðugleikaskattinum og þurfti ekki minn atbeina til þess.

  • Yngvi Eysteinsson

    Ætlar þú ekki að svara spurningunni minni hér að ofan?

    • Sæll Yngvi! Það er dálítið erfitt að svara því það fer eftir skilgreiningu á „trúnaðarstörfum“. Ég hafði ekki áður verið í stjórn eða framkvæmdastjórn Samfylkingarinnar. Ég hef hins vegar verið virkur í stjórnmálum allt frá 1983 og hef m.a. verið á framboðslistum og tekið þátt í störfum ýmissa nefnda, svo dæmi séu tekin. Það liggur í spurningunni hjá þér að það að eignarhaldsfélag mitt hafi átt dótturfélag á Bresku jómfrúreyjum til 2008 geri mig einhvern veginn vanhæfan til að taka þátt í almennu pólitísku starfi. Það er vitaskuld ekki svo enda hvorki um að ræða skattundanskot né neins konar ólöglegt athæfi, eins og ég útskýri í pistlinum. Það hefur alltaf legið fyrir að ég er frumkvöðull og fjárfestir og hef verið virkur í viðskiptalífinu, einkum á sviði fyrirtækja í upplýsingatækni.

  • Óskar Guðmundsson

    Ef maður er kominn í holu of djúpa til að komast uppúr er um að gera að hætta sem fyrst að grafa

  • Nú tíðkast breiðu spjótin. Minnir helst á Mccarthy tímann – þegar það var kannski löglegt að vera sósíalisti, eða hafa farið á fund hjá þeim, eða keyrt framhjá fundi hjá þeim – en þú varðst bara atvinnulaus, mannorðslaus og úrhrak eftir að Mccarthy nefndin hafði farið um þig sínum ofstækishöndum.

    Nú er RÚV stolt af því að leika Mccarthy. Með tónlist úr Scream myndunum henda þeir upp nöfnum og myndum í ríkissjónvarpinu af mönnum sem reyndar brutu ekki lög, svo vitað sé, en keyrðu örugglega framhjá fundum…

    Eina sem Vilhjálmur er „sekur“ um, svo vitað sé, er að láta mynda sig við að berja tunnu við Alþingi – væntanlega til að mótmæla aflandstengingum ríkisstjórnarinnar..! Það var óheppilegt, vandræðalegt en líka afar lýsandi fyrir íslensk stjórnmál nú um stundir.

  • Jon Þorbjörnsson

    Ég get ekki með nokkru móti séð að þú hafir gert eitthvað rangt í viðskiptum. En ég skil illa veru þína á Austurvelli að berja tunnur með Illuga? Það væri gaman að fá skýringu á því hverju þú varst að mótmæla.

    • Takk fyrir að lesa pistilinn og skilja hvað í honum stendur, Jón.

      Varðandi mótmælin, er þá endilega mótsögn í því falin að fyrsti maður til að segja af sér vegna Panama-umræðunnar vilji að ríkisstjórnin segi af sér vegna Panama-umræðunnar (og af fleiri góðum og gildum orsökum) og boði til kosninga?

Höfundur