Fimmtudagur 28.04.2016 - 16:18 - Lokað fyrir ummæli

Haldið til haga

Eins og við var að búast hefur umfjöllun Kastljóss RÚV á mánudagskvöld, þar sem nafn mitt kom fyrir, vakið ýmis viðbrögð, sum hörð. En margir hafa einnig haft samband og sýnt stuðning og skilning sem mér þykir vænt um.

Ég sé af viðbrögðunum að ekki veitir af að árétta nokkur aðalatriði.

 • Þau sem hafa lesið skýringar mínar og svör virðast sem betur fer átta sig á því að ekkert er athugavert við efnisatriði míns máls. Ekkert var ólöglegt, engu leynt fyrir yfirvöldum og engin skattundanskot áttu sér stað.
 • Mín stóru mistök eru að hafa ekki greint frá eignarhaldi eignarhaldsfélags míns á dótturfélagi skráðu á Bresku jómfrúreyjum 2000-2008. Þar var á ferð ótvíræður dómgreindarbrestur af minni hálfu sem ég geri mér vel grein fyrir og biðst afsökunar á.
 • Höfuðstóll eigna minna kemur úr fyrirtækjum sem ég hef sjálfur stofnað eða komið verulega að rekstri og uppbyggingu á. Ég hef hvorki hagnast á áhættulausum lánum til hlutabréfakaupa né gjaldfrjálsum aðgangi að auðlindum íslensku landhelginnar. Þá er það rangt að ég hafi hagnast á „stöðutöku gegn krónunni“ í hruninu eða aðdraganda þess.
 • Gjarnan er spurt hver tilgangur félags á Bresku jómfrúreyjum geti verið, annar en sá að leyna upplýsingum og/eða komast hjá sköttum. Í mínu tilviki er það banki í Lúxemborg sem stofnar dótturfélagið M-Trade sem hluta af eignastýringarþjónustu sinni fyrir lúxemborgíska móðurfélagið. Ástæður þessa eru fyrst og fremst lögfræðilegar tækniástæður (varðandi takmarkanir „1929 Holding“ félaga) og einfaldleiki í bókhaldi og umsýslu. Eignastýringarþjónusta bankans var, eins og önnur starfsemi hans, undir eftirliti fjármálaeftirlitsins í Lúxemborg og þarlendum yfirvöldum var fullkunnugt um hvernig kaupin gerðust á þeirri eyri. Engum upplýsingum var leynt fyrir yfirvöldum og þau settu sig á engan hátt á móti þessum praxís. Þau sóttust jú á þeim árum ekki eftir tekjusköttum af eignarhaldsfélögum sem slíkum*), enda voru þau tekjuskattsfrjáls í Lúxemborg, heldur fremur skatttekjum af bankastarfsemi og annarri umsýslu sem þeim fylgdi.
 • Margt af því sem viðtekið var á þessu sviði fyrir hrun hefur nú breyst, m.a. fyrir áeggjan ESB og OECD, sem hafa unnið ötullega að því að samræma skattkerfi milli landa, loka skattaskjólum og auka upplýsingaskipti skattyfirvalda. Þetta er góð þróun.
 • Hvað skattskil á Íslandi varðar þá greiddi ég auðlegðarskatt (meðan hann var og hét) hér af öllu eigin fé eignarhaldsfélags míns, að dótturfélögum þess meðtöldum. Afkoma M-Trade lagðist á sínum tíma við eigið fé móðurfélagsins og af því og ávöxtun þess greiði ég 20% fjármagnstekjuskatt (m.v. núverandi skattprósentu) á Íslandi eftir því sem arði var og verður úthlutað úr því.
 • Frá júní 2011 eru eignarhaldsfélag mitt og öll dótturfélög „venjuleg“ fullskattlögð hlutafélög innan evrópska efnahagssvæðisins (EES).

— o —

Ekkert af ofangreindu breytir neinu um það að ég er jafnaðarmaður að lífsskoðun. Það þýðir meðal annars að ég styð aukna skattlagningu á hið eignamesta 1%, sem ég tilheyri, til dæmis með auðlegðarskatti (þar sem hóflegt eigið húsnæði væri undanskilið) og þrepaskiptum erfðafjárskatti.

Þá tel ég nauðsynlegt að bregðast við því sem Thomas Piketty hefur m.a. bent á, að eignir þess eina prósents sem mest á ávaxtast hraðar en sem nemur almennum hagvexti. Það þýðir að hlutdeild hinna 99% í afhentri vöru og þjónustu í framtíðinni mun áfram minnka sé ekkert að gert. Þetta er ósjálfbær (og ósiðleg) þróun sem verður að finna leiðir til að snúa við. Ég hef fullan hug á að taka virkan þátt í þeirri umræðu.


*) Almennt greiða eignarhaldsfélög ekki verulega „hefðbundna“ tekjuskatta, ekki heldur á Íslandi, vegna þess að þau sýsla með höfuðstól sem þegar hefur verið skattlagður. Söluhagnaður hlutabréfa er skattfrjáls innan hlutafélaga og móttekinn arður sömuleiðis. Flest form fjármagnstekna eru nú til dags skattlögð með afdráttarskatti þegar og þar sem þær verða til, ekki með hefðbundnum tekjuskatti eftir á.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

«
»

Ummæli (17)

 • Þór Saari

  Sorrí Vilhjálmur en eina ástæðan fyrir því að menn stofna fyrirtæki og reikninga í skattaskjólum er að fela fé. Fyrir því geta verið margvíslegar ástæður að men vilja fela fé en það er samt eina ástæðan fyrir stofnun reikninga á þessum stöðum. Hægt er að stunda alla hefðbundna bankastarfsemi í flestum Evrópuríkjum og hefur verið lengi.

  • Sveinbjörn

   Þór.
   Þú telst vera vel menntaður!!

  • Þannig að Þór þú verslar alltaf í Bónus Skipholti vegna þess að þar geturðu verslað helstu matvörur?

   Hvað ef þú ert að versla í matinn með fólki á Akranesi. Ætlarðu samt að keyra í Skipholtið? Er ósiðlegt að versla í kjörbúðinni á Akranesi vegna þess að þú nýtir þér helst þjónustu á höfuðborgarsvæðinu?

   Hvað ef bankaumsýsla á Jómfrúreyhjum er einfaldari og hentar betur þeim verkefnum sem Vilhjálmur var í og bankinn ráðlagði til viðbótar þannig viðskipti? Átti hann samt að fara í Skipholtið?

   Á að fara ásækja borgara fyrir löglegt líferni og viðskipti? Á að útskúfa íslendinga vegna þess að einhverjum líkar ekki hvernig að þú stundar þín löglegu viðskipti eða hvað þú lest eða hvernig þú syngur?

   Það sem Vilhjálmur hefði mátt gera er að segja frá öllum sínum viðskiptum strax þegar málið kom upp og sleppa því að berja tunnu gegn „aflandseigendum“ niður á Austurvelli. En að ásaka hann og hundelta fyrir lögleg viðskipti er ekkert nema fáviska og múgsefjun.

  • Þótt félag sé skráð á Bresku jómfrúreyjum þýðir það ekki að það eigi bankareikning þar né að peningar fari nokkurn tímann þangað yfirleitt. Í mínu tilviki var öll eignastýringin hjá Kaupþingi Lúxemborg. Það að dótturfélagið væri á Bresku jómfrúreyjum var hreint lögfræðilegt tækniatriði, eins og ég útskýri í pistlinum. Því má svo bæta við að ég hafði engan sjálfstæðan aðgang að því félagi, var ekki í stjórn þess og hafði ekki prókúru fyrir það. Ég samþykkti einfaldlega, sem hluthafi móðurfélagsins, að félagið veitti Kaupþingi Lúxemborg umboð til eignastýringar og bankinn sá svo um alla framkvæmd í krafti þess umboðs.

 • Kristinn J

  Hættu nú að bulla og bulla og bulla Vilhjálmur !

 • Sigurður

  „Úlfur úlfur“

  Trúverðugleikinn er farinn.

  Gleymdu þessu.

 • Að greiða 20% skatt af 100kr er ekki eins erfitt og rúmlega 30% af sömu upphæð.

 • Marinó G. Njálsson

  Tek undir þessi síðustu orð þín:
  „Það þýðir að hlutdeild hinna 99% í afhentri vöru og þjónustu í framtíðinni mun áfram minnka sé ekkert að gert. Þetta er ósjálfbær (og ósiðleg) þróun sem verður að finna leiðir til að snúa við.“

  Það sem meira er að þessi ósjálfbærni er að verða alveg æpandi. Að t.d. þrjú fjármálafyrirtæki hafi ár eftir á hagnast meira en nemur aukningu landsframleiðslu er farið að hafa mjög neikvæð áhrif á þjóðfélagið. Að Seðlabanki Íslands taki svo þátt í að auka á þetta ójafnvægi með peningastefnu sini er verulegt áhyggjuefni.

 • Garðar Garðarsson

  Sæll Vilhjálmur og takk fyrir útskýringarnar.

  Var ekki samt hægt að sleppa því að stofna reikning/félag í skattaskjóli fyrir þessar fjárfestingar þínar og hvað kostaði að stofna reikninginn/félagið á Bresku jómfrúreyjunum? Sagt er að það kosti þó nokkuð að stofna svona félög í skattaskjólum.

  • Ég hefði þá þurft að fara sérstaklega fram á það við bankann og það hefði flækt málin töluvert. En hver hefði átt að vera ástæðan til þess á þeim tíma? Ef einhver var hugsanlega að tapa skatttekjum af þessu fyrirkomulagi (og þó varla í reynd) var það lúxemborgíska ríkið, en því var nákvæmlega sama og hafði engan áhuga á þeim peningum.

   Varðandi kostnað þá satt að segja hef ég ekki hugmynd um hvað stofnun svona félags kostar. Væntanlega er það einhver föst upphæð sem hefur verið gjaldfærð á móðurfélagið árið 2000.

 • Björn Heiðdal

  Auðvitað á fólk ekki að pönkast á Vilhjálmi þó hann vilji ekki borga eins mikinn skatt og hann mögulega gæti. Hver vill borga allt sem hann á í skatt?? Ekki einu sinni Ríkisskattstjóri eða starfsfólk hans reynir að borga eins mikið og það getur. Þvert á móti þá nota sérfræðingar allar smugur og glufur sem til eru til að sleppa við skatta. Smugur sem Jón og Gunna út í bæ vita kannski ekki af.

  Svo má líka spyrja sig hvort allir skattar séu sanngjarnir. Er t.d. sanngjarnt að álfyrirtæki, Coca Cola og litlir fagfjárfestar sem starfa á alþjóða vísu borgi fulla skatta í hverju landi fyrir sig. Er ekki miklu hreinlegra að aðilar sem fjárfesta í mörgum löndum haldi öllum peningunum sínum fyrir sjálfa sig. Þannig geta þeir fjárfest í löndum sem þeir hafðu annars lítin áhuga á sökum hárra skatta.

 • Pjónkur

  Vilhjálmur mótmælti Vilhjálmi kröftuglega með því að berja tunnu. Vonandi að Vilhjálmur hafi hlustað á sláttinn hjá Vilhjálmi og sá Vilhjálmur taki hinn Vilhjálm sér til fyrirmyndar sem er rosalega á móti aflandsfélögum Vilhjálms.

  Hljómar eins og Samfylking.

  • „1929 Holding“ félög voru tekjuskattfrjáls í Lúxemborg, Hlynur. Þess vegna var lúxemborgíska ríkið ekki að missa af neinum skatttekjum sem það sóttist eftir þótt – af lagatæknilegum ástæðum – væru stofnuð dótturfélög á Bresku jómfrúreyjum vegna fjármálagjörnina sem féllu utan upphaflegs lagaramma félaganna frá 1929. 1929 Holding félaginu mínu var svo breytt í fullskattlagt „venjulegt“ hlutafélag árið 2009 og hefur verið það síðan.

 • Gleymdi Þórður Snær að bera undir þig þessa grein
  http://kjarninn.is/skodun/2016-05-02-thess-vegna-er-thetta-mikilvaegt/

  Á þetta ekki sérstaklega við í þínu tilfelli
  „Það er ekk­ert eðli­legt við það þegar lít­ill hópur lands­manna ­segir sig úr efna­hags­legum veru­leika allra hinna.“

  Og þetta
  „Það er ekki eðli­legt ástand að nokkur hund­ruð Íslend­ingar fái að fara með stórar fjár­hæðir sem urðu til á Ís­landi í aflands­skjól þegar illa árar og geti síðan stýrt þeim aftur inn í landið til eigna­kaupa þegar verð­gildi fjár­hæð­anna hefur hækkað stór­kost­lega ­vegna geng­is­falls og hruns á eign­ar­verði.“

  • Þórður Snær ber aldrei skrif sín eða Kjarnans undir hluthafa eða stjórnarmenn.

   Ég lít ekki svo á að ég „segi mig úr efnahagslegum veruleika [annarra landsmanna]“. Stærstu og helstu fjárfestingar mínar (í gegn um félag mitt) hafa verið í íslenskum fyrirtækjum og sprotum. Og skatttekjur íslenska ríkisins af hagnaði af þeim fjárfestingum eru ekki minni en þær væru þótt eignarhaldsfélag mitt væri íslenskt, enda eru hvorki söluhagnaður hlutabréfa né móttekinn arður skattlögð innan íslenskra hlutafélaga. Skattlagningin fer fram með fjármagnstekjuskatti af úthlutuðum arði, og hann er sá sami hvort sem félag í minni eigu er í Lúxemborg eða á Íslandi.

   Í seinni málsgreininni held ég að Þórður Snær eigi aðallega við fjárfestingarleið Seðlabankans, sem félag mitt (eða dótturfélög þess) tók ekki þátt í.

   Ef merking málsgreinarinnar er sú að vera á móti frjálsum fjármagnsflutningum, þ.e. að banna eigi eigendum króna að selja þær ef þeim líst ekki á blikuna, þá er það einhvers konar þjóðernissinnað vistarband á krónueigendur sem mér finnst algjörlega galin skoðun. En ég þekki fyrri skrif og skoðanir Þórðar Snæs nógu vel til að vera viss um að það sé ekki meiningin hjá honum.

   Ef taka ætti upp slíkt vistarband, þ.e. varanleg gjaldeyrishöft eða geðþóttaákvarðanir eftir tíðaranda um bann við fjármagnsflutningum, myndi krónan fyrst vera búin að stimpla sig endanlega út, og er staða hennar og trúverðugleiki þó ekki beysinn fyrir.

Höfundur