Sunnudagur 22.05.2016 - 18:02 - Lokað fyrir ummæli

Stóra Millifærslan tveggja ára og enn galin

Nú eru liðin tvö ár síðan lög um Stóru Millifærsluna („Leiðréttinguna“) voru samþykkt á Alþingi.

Í nóvember 2014 skrifaði ég bloggpistil sem vakti mikla athygli og hét Stóra Millifærslan er galin. Þar sýndi ég graf um ávinning af verðlagsbreytingum á hverja milljón sem tekin hefði verið að láni verðtryggð og sett í íbúð á höfuðborgarsvæðinu, allt frá 1994. Sem sagt: hvernig íbúðaverð hefur hækkað að frádregnu því hvernig höfuðstóll verðtryggðra lána hefur hækkað á sama tíma.

Á grafinu sást greinilega að það var tiltekinn, afmarkaður hópur sem hafði tapað á fjárfestingu í íbúðarhúsnæði, þ.e. þeir sem keyptu 2005-2009. Sumt af því fólki hafði tapað nálægt helmingi af kaupverði fasteignarinnar þegar þar var komið sögu. Aðrir hópar voru hins vegar ennþá í fínum plús með sína fjárfestingu þrátt fyrir hrun og verðbólguskell, sérstaklega þeir sem voru með eldri lán.

Hér er grafið eins og það leit út í pistlinum frá nóvember 2014:

Staðan í nóvember 2014

Staðan í nóvember 2014

Ég benti á að nota hefði mátt 80 milljarðana sem fóru í Stóru Millifærsluna til að hjálpa því fólki sem verst fór út úr fasteignakaupum mun betur – en eiga samt mikið fé afgangs í önnur brýn verkefni, svo sem aðgerðir fyrir ungt fólk og leigjendur og til uppbyggingar Landspítalans, svo eitthvað sé nefnt. 80 milljarðar eru jú mikið fé: 1 milljón króna á hverja fjögurra manna fjölskyldu í landinu.

Á þeim tveimur árum sem liðin eru hefur sama mynstur aðeins styrkst ennþá frekar. Íbúðaverð hefur haldið áfram að hækka (+14,6% frá okt. 2014) umfram almenna verðlagsþróun (+2,5% á sama tíma). Það bitnar harðast á unga fólkinu sem á æ erfiðara með að koma þaki yfir höfuðið, hvort sem er með kaupum eða leigu. Á sama tíma heldur miðaldra fólkið – sem fyrir var í góðum málum, og fékk milljarðatugi afhenta í Stóru Millifærslunni – áfram að hagnast.

Ég fann gamla Excel-reiknivanginn minn og uppfærði hann til apríl 2016. Hér er grafið eins og það lítur út í dag; takið eftir að lóðrétti ásinn nær nú upp í 3 milljónir í stað tveggja áður:

Staðan í apríl 2016

Staðan í apríl 2016

Með hækkandi fasteignaverði hefur staða allra fasteignaeigenda batnað og tjón þeirra sem keyptu 2005-2008 hefur minnkað um næstum helming. Þeir sem keyptu 2009 eru nú komnir réttu megin við strikið. (Athugið að hér er aðeins horft á verðtryggðan höfuðstól lána miðað við fasteignaverð; vextir eru utan jöfnunnar.)

Það er hins vegar enn augljósara en áður hve stór hluti Millifærslunnar fór til fólks sem þurfti ekki á henni að halda; miðaldra og eldra fólks sem hefur haft góðan ávinning af fasteignakaupum sínum og á mikið eigið fé í húsnæði. Á þeim tveimur árum sem liðin eru hefur þessi hópur enn bætt við sig, allt að 500.000 kalli fyrir hverja milljón af upphaflegu kaupverði (á föstu verðlagi), vegna verðlagsbreytinga – til viðbótar við það sem hann fékk úr Stóru Millifærslunni.

Var þetta réttlát eða skynsamleg ráðstöfun þeirra 80 milljarða af skattfé sem þarna fóru í gegn um ríkissjóð? Það finnst mér ekki.

Niðurstaða pistils míns fyrir tveimur árum á ekki síður við í dag:

Stóra Millifærslan var meingölluð aðgerð, illa hugsuð og ómarkvisst útfærð. Meðferð ríkisstjórnarinnar á almannafé var að mínu mati forkastanleg. Við öll, og sérstaklega unga fólkið – skattgreiðendur framtíðar – áttum betra skilið en þennan galskap.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

«
»

Ummæli (22)

 • Kristján Eiðsson

  Komdu sæll Vilhjálmur.

  Mér finnst þú vera á einhverjum villigötum.Horfir í fortíðina hjá stjórnvöldum sem framkvæmdu leiðréttingar sem ekki hafa fengið sanngjarna umfjöllun, vegna þess að þær voru ekki nógu miklar eða þær voru of litlar.

  Ég er Vélfræðingur með ágætar tekjur og samkvæmt þinni skilgreiningu þá átti ég ekki rétt á leiðréttingu með mín húsnæðislán þar sem ég var ekki í vandræðum eða þannig!

  Það er ekki mikil virðing að tala við fólk einsog peningar skipri minna máli ef tekjur eru yfir meðallagi og þá skaltu bara borga.

  Fjárfestingar á höfuðborgarsvæðinu eru landsbyggðarfólki ekki ofarlega í huga.

  Húsið mitt sem ég byggði 1990-1991 hækkaði ekki í takt við verðlagsbreytingar. Lánin hækkuðu og þess vegna þáði ég leiðréttingu lána. Fyrir mig og mína fjölskyldy skipti þetta máli og mér finnst ekkert athugavert við það.

  Af öðru slepptu þá er þetta ágætis umfjöllun hjá þér og haltu áfram að tjá þig
  Virðingarfyllst.
  kristján Eiðsson.

  • Tekjur koma ekki við sögu í þessari röksemdafærslu, Kristján, aðeins hvenær fasteign var keypt og lán tekið. Ef þú hefur til dæmis átt fasteign frá 1998 (og það skiptir ekki máli hvort þú hafir selt hana í millitíðinni og keypt aðra, ef sama fjárbinding hefur verið í gegn um allt ferlið), þá hefur verðmæti fasteignarinnar aukist verulega umfram höfuðstól verðtryggða lánsins. Af hverju ætti fólk í slíkri stöðu að fá „leiðréttingu“? Hvað er verið að „leiðrétta“? Að allur söluhagnaður sem fólk sá fyrir sér 2007 yrði ekki að veruleika?

 • Til viðbótar við það sem Krisján nefndi: Grundvallaratriði leiðréttingarinnar var að þau heimili sem höfðu tekið verðtryggð lán fengju sömu leiðréttingu og gengislán höfðu fengið frá Hæstarétti.

  • Gengistryggðu lánin voru allt annars eðlis. Þau voru ólögleg og voru endurreiknuð yfir í íslenska Seðlabankavexti, en fyrri afborganir með fullnaðarkvittun voru látnar halda gildi sínu. Það er lánveitandinn í hverju tilviki sem bar tjónið af þessu. Verðtryggðu lánin voru ekki ólögleg og „Leiðréttingin“ var á kostnað ríkissjóðs (=skattborgara nútíðar og framtíðar). Hins vegar hefði verið hægt að koma miklu betur til móts við þá sem voru í verulega neikvæðri eiginfjárstöðu vegna verðlagsbreytinga, hópinn sem keypti 2005-9, heldur en gert var í „Leiðréttingunni“.

   • Sigurður

    Hvaða „tjón“ lánveitenda ert þú að tala um?

    Ríkisstjórn Samfylkingar og Vg tryggðu lánveitendum yfir 500 milljarða skaðabætur úr veskjum lántakenda fyrir lögbrot bankanna með því að margfalda vaxtakjörin í staðinn.

    Þessi þjófnaður velferðarstjórnarinnar var færður í bækur bankanna sem „hagnaður“ en er ekkert annað en þýfi.

    Dýrasta ríkisstjórn lýðveldistímans.

    • Skil ekki orð í þessu Sigurður. Ertu að meina þá ákvörðun Hæstaréttar (ekki ríkisstjórnarinnar) að ólögmæt gjaldeyrislán skyldu breytast í krónur og bera óverðtryggða Seðlabankavexti?

     • Sigurður

      Ég er að tala um þegar fyrstu vísbendingar um ólögmætið komu fram var ríkisstjórnin beðin að stöðva nauðungarsölur og vörslusviptingar meðan dómstólar afgreiddu málið.

      Ríkisstjórnin hafnaði því.

      Bankarnir settu allt á fullt við að hirða heimili og fyrirtæki, vitandi að þetta væru að öllum líkindum ólögleg lán.

      Þá var ríkisstjórnin beðin að útvega flýtimeðferð á þessi mál gegnum dómskerfið til að lágmarka þjófnaðinn.

      Ríkisstjórnin hafnaði því.

      Þúsundum heimila, fyrirtækja og bifreiða hafði þá þegar verið stolið af landsmönnum meðan norræna velferðarstjórnin sat aðgerðarlaus hjá, enn vann á sama tíma að undirbúningi á ríkisábyrgð á skuldum Landsbankans.

      Lánin voru svo dæmd ólögleg.

      Þá var ríkisstjórnin beðin að stöðva nauðungarsölur og vörslusviptingar meðan Hæstiréttur tæki málið fyrir.

      Ríkisstjórnin hafnaði því, og gott betur.

      Viðskiptaráðherra steig fram og lýsti því beinlínis yfir að við þessa niðurstöðu yrði ekki unað.

      Það er líklega einsdæmi í vestrænu lýðræðisríki að ráðherra í ríkisstjórn hafi svo bein afskipti af dómskerfinu, að hann beinlínis lýsi yfir að niðurstaða dómstóls komi ekki til greina.

      Því til viðbótar laug hann því að þingi og þjóð að ráðuneytið hefði undir höndum lögfræðiálit sem teldi lánin lögleg.

      Síðar kom í ljós að bæði viðskiptaráðuneytið og Seðlabankinn höfðu undir höndum óháð lögfræðiálit sem bæði sögðu allar líkur á að þessi lán innihéldu ólöglega gengistryggingu.

      Þannig að bæði ríkisstjórnin vissu að þessi lán væru ólögleg en horfðu aðgerðarlaus á bankanna sópa undir sig eignum almennings vegna þeirra.

      Áður en Hæstiréttur tók málið til meðferðar sendu þessir aðilar tilskipun til allra fjármálafyrirtækja að endurreikna þessi lán með Seðlabankavöxtum, þessi afskipti eiga sér enga lagastið og þarna var farið langt út fyrir valdheimildir.

      Þarna var bönkunum útvegaðir mörg hundruð milljarða króna skaðabætur fyrir eigin glæpi, sem Hæstiréttur staðfesti síðar með heimatilbúnum rökum sem eiga sér enga stoð í lögum.

      Allt eftir pöntunum og skipunum frá ríkisstjórn sem sló heimsmet í skjaldborg um glæpsamlegt bankakerfi.

     • Jafnvel þótt eitthvað af þessu væri satt sem þú segir Sigurður, sem mér sýnist í fljótu bragði ekki vera, þá skiptir það engu máli um réttlætið eða skynsemina í Stóru Millifærslunni.

   • “ „Leiðréttingin“ var á kostnað ríkissjóðs (=skattborgara nútíðar og framtíðar).“
    Leiðréttingin var fjármögnuð í gegnum ríkissjóð með sérstökum skatti á slitabúin sem var svo staðfestur í stöðugleikaframlögunum, undarlegt að þú skulir halda öðru fram.

    Varðandi verðtrygginguna þá veldur hún meiri óstöðugleka en ef hún væri ekki þar sem hún er sjálfvirk seðlaprentun.

    Leiðréttingin setur á hverju ári frá framkvæmd 4 til 5 milljarða inní hagkerfið sem annars hefði farið út úr því í formi vaxta og mun hafa mjög góð áhrif í töluverðan tíma á ráðstöfunartekjur þeirra sem eru með húsnæðislán.

    • Það var eins skiptis tækifæri til að leggja skatt á fjármálafyrirtæki, starfandi og fallin, og það var gert. Sá skattur skilaði 80 milljörðum. Þá milljarða mátti nota í hvaða verkefni sem er á vegum ríkissjóðs eða til að lækka skuldir eða skatta. Ríkisstjórnin kaus að útdeila peningunum, sem jafngilda milljón krónum á hverja fjögurra manna fjölskyldu í landinu, með þessum furðulega og mjög svo óréttláta hætti. Sem dæmi má nefna að hjón með 25 milljónir eða meira í eigið fé í fasteign (og einstaklingar með >13 milljónir) fengu 24 milljarða króna í vasann! Það er 300.000 kall af þessari milljón hverrar fjölskyldu í landinu. Þetta var sem sagt öfugur Hrói Höttur, tekið af hinum fátæku og ungu og fært hinum eldri og ríku.

     • Hvað var hinn „réttláti“ Hrói Höttur (Skjaldborgarríkisstjórnin) búinn að leyfa fjármálafyrirtækjunum að taka af þessum fjölskyldum sem þú segir að hafi fengið 24 milljarða í óréttlátum aðgerðum.

      Ég held að þú ættir að hætta þessum rangflræslum þetta er rétt eins og þegar þið hjá samfylkingunni flögguðu gömlu konunni til að verja verðtrygginguna á meðan þið voruð að skerða tekjutrygginguna hennar.

      Fyrsta hreina vinstri ríkisstjórnin dekraði við fjármagnshafa hversvegna er algerlega óskiljanlegt en mun allavega tryggja að ég mun aldrei nýta mitt atkvæði til að styðja það lið.

     • Aðgerðir fyrri ríkisstjórnar voru tekju- og eignatengdar, þannig að fólk með >25 milljónir í eigið fé í fasteign hefur varla fengið mikið út úr þeim. En þar að auki drógust þessar fyrri tekjutengdu aðgerðir frá Stóru Millifærslunni, sem er einn af mörgum absúrd flötum á henni. Hún var beinlínis hönnuð til að gagnast best þeim tekjuhæstu og eignamestu, en minnst þeim tekju- og eignalægri.

   • Gagnvart skuldurum voru bæði gengis- og verðtryggðulánin húsnæðislán. Það hefði aldrei gengið upp að mismuna venjulegum húsnæðiseigendum svona hrottalega bara eftir því hvorn kassann þú hakaðir við lántökuna hjá bankanum. Það eru fjöldamörg dæmi um nágranna og systkini sem tóku annarsvegar gengis og hinsvegar verðtryggð lán. Venjulegir borgarar eiga ekki að þurfa að flækjast í lagaflækjum fjármálastofnanna þegar kemur að húsnæði sínu. Öll húsnæðislán varð að leiðrétta.

    Leiðréttingin var síðan greidd af þrotabúum bankanna í gegnum sérstaka skattlagningu ríkissjóðs, eins og ítrekað hefur komið fram.

 • Guðmundur Örn Harðarson

  Sæll Vilhjálmur þú nefnir að tjón þeirra sem keyptu 2005-2008 hefur minnkað um næstum helming. þú tekur ekki með hér að þeir sem td. seldu á þessu tímabili eða urðu að selja sitja með gríðalegt tap enn þann dag í dag þrátt fyrir svokallaða leiðréttingu sem leiðrétti rétt um 1/3. Hefði Samfylkingin gert eitthvað í málunum sem þeir gerðu ekki væri tölurnar líklega öðruvísi bæði hjá mér og ykkur. Ég veit að þú styður verðtryggingu en ég geri það ekki af þeirri einföldu ástæðu að það er ekki hinn almeni maður sem á að taka á sig heilt kerfishrun vegna lélegrar hagstjórnar, að markaðurinn falli er annað mál.

  • Ég er að segja að unnt hefði verið að koma miklu betur til móts við tjón þeirra sem keyptu 2005-2009 heldur en gert var. Það er einmitt hópurinn sem hægt er að segja með vissum rökum að hafi „lent í forsendubresti“. En til þess þurfti ekki að spreða milljarðatugum í fólk sem var í fínum ávinningi af fasteignakaupum sínum, þrátt fyrir hrunið.

   Ég „styð“ ekki verðtryggingu, en tel hana óhjákvæmilegan og mjög svo hvimleiðan fylgifisk krónunnar. Ég tel að á meðan við erum með krónuna losnum við ekki við verðtrygginguna. Til þess er saga þessa örgjaldmiðils of þyrnum stráð. Og það er vegna krónunnar sem óábyrg hagstjórn og fáránlegar ofurskuldsettar fyrirtækjaspilaborgir verða að vandamáli almennings með svo afgerandi hætti sem við höfum séð.

 • Þetta er athyglisvert vegna þess að það sem gerðist 2004-2005 var samsæri einkavinavæddu bankanna. Þeir voru búnir að undirbúa í rúm 2 ár hækkun á fasteignaverði, auka þannig veðrými og lánagetu. Þetta gerðu þeir með því að bjóða húsnæðislán í samkeppni íbúðalánasjóð (sumar 2004). Þetta gekk allt eftir hjá þeim og á aðeins einu ári hækkaði fasteignaverð um 100% !!! meðan byggingarvísitalan stóð í stað. Þetta gerði það að verkum að fasteignakaupendur þurftu miklu hærri lán en margir þeirra réðu við. Þó ekkert hrun hefði átt sér stað þá hefðu margir þeirra sem fjárfestu í húsnæði frá 2005 og fram að hruni lent í vandræðum. Verðtrygging kemur málinu ekkert við og varla hægt að tala um forsentubrest verðtryggingarinnar vegna þess að verðtrygging var sú forsenta sem hélt. Þeir sem krefjast afnám verðtryggingar eru í raun að fara fram á að þurfa ekki að greiða allt jafnvirði láns til baka. Það ástand þekkjum við frá 5. 6. og 7. áratug síðustu aldar þá voru engin lán að fá nema fyrir örfáa útvalda og meðan verið var að tæma ævisparnað gamla fólksins.

 • Það vantar eitt skelfilegt skaðræði inn.

  Af hverju er lítið byggt af smáum íbúðum og af hverju stígur markaðurinn svona hratt?

  Svarið við því er : „Algild hönnun“.

 • Sjáum nú til hvort ég skilji Vilhjálm rétt.

  Á meðan ríka prósentið á Íslandi getur ákveðið fyrir sjálft sig hvaða skattgreiðslur eru við hæfi, hvaða gjaldmiðill hentar best og hvaða vextir eru heppilegir miðað við þá áhættu sem þú kýst að hafa þá skal millistéttin greiða að fullu sínar verðtryggðu skuldir sem hvíla á þeirra íslensku eignum svo hægt sé að nýta það svigrúm sem kann að vera til staðar til að hjálpa þeim sem að mati pólitíkusa „hafa það verst“.

  Þetta er nefnilega réttlæti einsog jafnaðarmenn vilja hafa það…

  Það væri gaman ef einhver skoðaði hvort það væri ekki martæk fylgni á milli gengi Samfylkingar í skoðanakönnunum og birtingu pistla af þessu tagi.

  • „Þá skal millistéttin greiða að fullu sínar verðtryggðu skuldir“, segir þú. Það eru ekki mín orð, enda bendi ég á að það hefði verið hægt að hjálpa miklu betur því fólk sem raunverulega tapaði á verðlagsbreytingum vegna fasteignakaupa. Það hefði getað fengið kannski 50% leiðréttingu í stað 11% – og samt hefði verið gomma af peningum afgangs í aðra þarfari hluti en að borga fólki sem á >25 mkr eigið fé í fasteign 24 milljarða króna.

 • Hérna getur lesið muninn á aðgerðum Skjaldborgarríkisstjórnarinar og skuldaleiðréttingu núverandi ríkisstjórnar

  http://www.johannesthor.com/vinstri-stjornin-20-milljardar-til-775-heimila/

 • Garðar Garðarsson

  það er gott hjá þér Vilhjálmur að minna okkur á þessa óréttlátu leiðréttingu.
  Það átti einmitt að hjálpa þeim sem tóku lán rétt fyrir hrun þegar íbúðaverð var mjög hátt. Þeir sem tóku íbúðalán löngu fyrir hrun voru í raun flestir að fá styrk. Og það þarf heldur betur að aðstoða unga fólkið í dag til þess að koma sér upp þaki yfir höfuðið.

  Ég sjálfur keypti íbúð 1994 og verðmæti íbúðarinnar hefur vaxið meira en íbúðalánið sem ég tók. Eftir mikla umhugsun þá sótti ég um leiðréttingu sem ég fékk. Upphæðin var ekki há, en þar sem þetta var í raun styrkur eða gjöf þá ákvað ég að nýta upphæðina til þess að hjálpa mínum börnum við íbúðakaup við mjög svo erfiðar aðstæður eftir hrun.

Höfundur