Sunnudagur 08.05.2011 - 09:32 - 14 ummæli

Kosningabaráttan 2013 hafin

Þegar litið er til yfirlýsingar ríkisstjórnarinnar, sem birtist í Fréttablaðinu í dag, er ljóst að verið er að undirbúa kosningabaráttu ársins 2013. Og ekki nóg með það, heldur er verið að undirbúa áframhaldandi samstarf flokkanna fyrir næsta kjörtímabil (2013-2017). Sumt í yfirlýsingunni er virkilega uppbyggilegt og af hinu góðu og fagna ég því innilega. Ég ítreka þó spurningu mína frá því í gær, hvort VG hafi skipt um stefnu í virkjana- og stóriðjumálum, því í yfirlýsingu Jóhönnu og Steingríms er m.a. minnst á tvö umfangsmikil fjárfestingaverkefni í orkufrekum iðnaði. Er þingflokkur VG og grasrót flokksins búin að samþykkja þetta eða hefjast illindin innan ríkisstjórnarinnar nú enn einu sinni og verða þessi mál jafnvel leyst með fulltingi Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks?

Ég undrast að þessi pakki hafi ekki komið fyrr fram og vona að ríkisstjórnin hafi ekki beðið með lausnirnar til að jákvæðra áhrifa virkjunarframkvæmda og stóriðju verði farið að gæta 6-12 mánuðum fyrir næstu kosningar. Það væri vissulega spaugilegt ef að VG kæmust aftur í ríkisstjórn út á virkjanir og stóriðju eftir að hafa komist í ríkisstjórn út á stóriðjustopp í síðustu kosningum. Enn skemmtilegra er að þessi flokkur sagðist alfarið andsnúinn ESB en samþykkti síðan ESB aðildarviðræður nokkrum dögum eftir kosningar. Hitt er ljóst að VG og Samfylkingin eru byrjuð að múta sínum umbjóðendum, sem sést á loforðaflóðinu fyrir þá lægst launuðu, atvinnulausa og þá sem þiggja bætur úr almannatryggingakerfinu. Án atkvæða þessara hópa mun vinstri stjórn ekki ráða ríkjum eftir næstu kosningar og þetta er Jóhönnu og Steingrími ljóst. Stjórnmál snúast aldrei um það á Íslandi, hvað sé skynsamlegast að gera, heldur um sérhagsmunagæslu fyrir hina og þessa hópa og atvinnugreinar samfélagsins.

Þegar litið er til nýju kjarasamninganna og loforða ríkisstjórnarinnar um fjárútlát til velferðarkerfisins er eins gott að fjármögnunin stemmi, því ríkissjóður er galtómur og næsta víst að um ávísun á óðaverðbólgu sé að ræða og enn frekari efnahagsvandræði ef tekjur ríkisins og fyrirtækja sem ekki eru í útflutningi aukast ekki. Opinberir starfsmenn munu gera kröfu um svipaðar hækkanir, sem enn eykur á fjárþörf ríkissjóðs. Skattahækkanir eru nær óhugsandi, þar sem skattlagning hefur náð hæstu hæðum hér landi og viðbúið að bylting brjótist út verði skattar hækkaðir enn meira, fyrir utan þau atkvæði sem skötuhjúin myndu tapa í næstu kosningum. Eina vonin er að virkjunaráform og stóriðja komi hagkerfinu af stað og því er það von mín að Jóhönnu og Steingrími verði ágegnt við kattasmölun næstu tvö árin og að þau hafi einhverja stjórn á umhverfisráðuneytinu og Umhverfisstofnun, sem hafa ítrekað tafið bæði virkjunarframkvæmdir, lagningu raflína og stóriðjuframkvæmdir á undanförnum 2 1/2 árum. En sem fyrr segir fagna ég þessari sóknaráætlun, sem er um margt skynsamleg og jákvæð. Efasemdir mínar lúta aðeins að því að ríkisstjórnin hafi ekki þann manndóm, sem nauðsynlegur er, til að koma henni í framkvæmd.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (14)

  • Útilokað að þessi stjórn haldi meirihluta. Missir allttaf eitthvað en má ekki missa neitt. D og S geta heldur ekki myndað stjórn nema með mjög naumum meirihluta og það gengur ekki. Þar með er möguleiki á 2ja flokka stjórn úr sögunni.

  • Óðinn Þórisson

    Sæll Guðbjörn
    Það eru tvær stefnur í gangi hjá tæru vinstri “ velfeðrarstjórninni “ í öllum lykilmálum, gjaldeyrismálum, nato, esb og virkjanamálum.
    Það er engin ástæða til að halda það að vinsri stjórnin muni standa við eitthvað af þessu enda hafa þeir svikið allt til þessa þar á meðal stöðugleikasaáttmálann – ekki staðið við eitt einasta atriði.
    Nú síðast sveik ríkisstjórn loforð sem hún gaf á ríkisstjórnarfundi í Reykjnesbæ fyrir 5 mán um flutning á Landhelgisgæslunni.
    En þar hafa tveir þingmenn SF þeir RM og BGS lýst yfir mikilli óáængju með ákvörðun ÖJ og vilja að þingið grípi inní og taki framfyrir hendurnar á Ögmundi.
    Ögmundur segist hafa gert mistök 2009 í esb – atkvæðagreiðslunni og vill keyra viðræðurnar í gegn og sakar SF um að vilja draga þær á langinn.
    Jón Bjarnason styður ekki stjórnarráðsfrumvarp Frú Jóhönnu sem hann segir ekki vera neitt annað en til þess að auka hennar völd en sumir hafa kallað stærsta uppsagnarbréf sögunnar.
    Þráinn styður ekki flokksbróðir sinn Jón sem ráðherra.

    Það eru engar lýkur fyrir því að þessir stjórnmálaflokkar fái meirihluta eftir næstu kosngar og líklegt að komi klofningsframboð frá vg enda hefur Steingrímur sett hugsjónnir og stefnu vg til hliðar fyrir völd.

    Jóhanna sem var kosin á þing ´78 og Steingrímur sem var kosin á þing ‘ 82 eru fortíðin og verða að hverfa af þingi.

  • Þú talar um að hafa stjórn á Umhverfisstofnun sem þvælist fyrir vikjunarframkvæmdum.

    Á að hafa stjórn á eftirlitsstofnun?

    Boðskapurinn: Það á að virkja með góðu eða illu. Af því að það er þinn heilagi réttur?

    Þú ert sem sagt frekjuhundastjórnmálamaður.

  • Guðbjörn Guðbjörnsson

    asi:

    Nei, ég er nú bara að tala um að umhverfisráðuneytið og Umhverfisstofnun fari að lögum og sinni stjórnsýsluverkefnum af samviskusemi og dugnaði þannig að ekki sé verið að bíða eftir svörum þaðan árum saman!

  • Heyrðu Guðbjörn !

    Þú segir að Umhverfisstofnun og ráðuneyti tefji virkjunarframkvæmdir og lagningu raflína eins og þessar raflínur og virkjanir séu þegar samþykktar, dön díll.

    Þær eru m.ö.o. að þvælast fyrir þinni sýn, þínum göfugu hugmyndum um endurreisn Íslands. Og því þarf að koma böndum á þessar stofnanir, stjórna þeim eins og þú sjálfur orðar það.

    Það var líka gert þegar Sif snéri úrskurði Umhverfisstofnunar á sínum tíma vegna Kárahnjúkavirkjunar. Mannstu?

    Og ég geri ráð fyrir að það verði líka á dagskránni hjá þér þegar þú ferð að stjórna landinu og eftirlitstofnanir fara að þvælast fyrir þínum göfugu áformum?

  • Margretj

    Þessi ríkisstjórn mun missa umboð kjósenda um leið og tækifæri gefst. Ríkisstjórn, sem svíkur sig inná kjósendur með lognum loforðum, er einskis virði og almenningur ber enga virðingu fyrir ráðherrum hennar.
    Þessi auma ríkisstjórn, sem sendir þjóðinni fingurinn og svíkur öll sín stærstu loforð um leið og hún kemst að völdum , hefur sannað í eitt skipti fyrir öll, að orð þessa fólks eru einskis virði. Hugsjónir eru troðnar í svaðið um leið og stóllinn er fenginn.
    Er hægt að vera ómerkilegri pappír?

    Alþingi Íslendinga þarf að hreinsa af þeirri óværu, sem kallar sig þingmenn, hvar í flokki sem þeir eru. Fyrr en okkur tekst það, verður þetta land rænt aftur og reglulega með fulltingi og aðstoð þessa fólks, sjálfu sér og sínum til hagsbóta.
    Ekkert mun breytast fyrr en okkur tekst það.

  • Margrét S.

    Sammála nöfnu minni hér að ofan. Ríkisstjórnin hefur sent okkur fingurinn og svíkur sín stærstu loforð og já hugsjónir eruð troðnar í svaðið um leið og stóllinn er fenginn.
    Þessi ríkistjórn hefur staðið fyrir mesta þjófnaði frá „eigendum“ húsnæðis til fjármagnseigenda síðan uppúr 1980. Bankahrun, hrun gjaldmiðils, þetta var lagt á herðar skuldara og skuldirnar hækkaðar um tugi prósenta á örskömmum tíma. Jóhanna setti saman nefnd sem átti að skoða það að frysta vísitöluna tímabundið vegna hrunsins en setti Gylfa Arnbjörnsson, helsta talsmann verðtryggingar yfir nefndina. Hún vissi að Gylfi myndi aldrei komast að neinni annari niðurstöðu en að ekki mætti hrófla neitt við verðtryggingunni. Þetta get ég hreinlega ekki fyrirgefið þessari ríkisstjórn. Jóhanna sjálf já og Steingrímur höfðu bæði lagt fram tillögur (þegar þau voru í stjórnarandstöðu) um að hætta með þessa glórulausu verðtryggingu, en um leið og þau voru komin að kjötkötlunum þá heyrist ekki múkk. Síðan er það þessar aðgerðir til handa skuldsettum heimilum. Þetta er mest mismunun sem ég hef nokkurn tíma séð á æfinni. Í mínu tilfelli t.d. þá áttum við hjónin nokkrar milljónir á mann, enda búin að vinna í áratugi. Við fengum ódýra lóð á jaðarsvæði á Höfuðborgarsvæðinu og byggðum lítið ódýrt timbureiningahús, keyptum bara ódýrustu innréttingar og gólfefni og virkilega spöruðum vinnulaun með því vinna þetta mikið sjálf.
    Við þurftum þó að taka 17,5 milljónir að láni (2005). Á þeim tíma var þetta alveg frábært dæmi, hámarkslán hjá íbúðalánasjóði fyrir lítilli íbúð var 18 milljónir. Við vorum bæði í góðri vinnu og töldum okkur nú aldeilis hafa gert góða hluti. En annað kom á daginn, skuldin stendur í 27 milljónum (verðtryggt ísl. lán) þrátt fyrir að hafa borgað um 100 þús á mánuði af því í 6 ár. Og vaxtabætur??????????
    Engar, núll, zilch….. af hverju?? Fasteignamatið á húsinu er þannig að það stendur akkúrat í 37 milljónum þótt það sé óseljanlegt með öllu. Enda á jaðarsvæði, ekki á spennandi stað. Dýrt að keyra þangað í dag.
    Þannig að við, breiðu bökin, fíflin, aularnir, fáum engar vaxtabætur af því að Steingrímur og Jóhanna vilja ekki láta EIGNAFÓLK fá vaxtabætur.
    Maðurinn minn hefur verið atvinnulaus í heilt ár. Það er búið að segja mér upp vinnunni líka.
    Og gerir þetta pakk sem situr við stjórnvölinn eitthvað fyrir okkur??
    NEI.
    Ég mun ekki fyrirgefa þessari ríkisstjórn þetta. Aldrei.
    Ég vil fá nýtt fólk á alþingi, fólk sem þorir.

  • Margretj

    Heyr heyr Margrét. Sem betur fer er fjöldi fólks sammála okkur. Fólk sem hélt í trúgirni sinni að Jóhönna Sigurðardóttur meinti það sem hún þrumaði í mörg ár í púltinu á Alþingi.

    Hvet alla til að kynna sér útreikningana á síðu Guðlaugs Þórs – þar sést svart á hvítu hvernig fjármálafyrirtækin haga sér gagnvart skuldurum. Velþóknun forsætisráðherra og fjármálaráðherra lýsir sér svo í vilja- og getuleysi þeirra til að standa með almenningi OG láta þessi fyrirtæki fara að lögum.
    „Tilmæli“ þeirra til banka og fjármálafyrirtækja eru svo bara eitt skrumið enn og maður heyrir innan þeirra fyrirtækja að það er hlegið að þeim og engin tekur mark á þessum „tilmælum“ en eingöngu framsett til að reyna að slá ryki í augu almennings og meiningin er aldrei og hefur aldrei verið að sjá til þess að peningaöflin fari að lögum.

    Ég hef svo mikla skömm á þessu fólki að mér verður illt – þarf að skipta um stöð ef Jóhanna birtist á skjánum sem er betur fer alveg sárasjaldan og skyldi engan furða að hún kinoki sér við að koma fram.

  • Guðbjörn Guðbjörnsson

    Margrétar:

    Er sjálfur í svipaðri stöðu, þótt enn haldi ég vinnunni.

    Tók 16 milljóna lán 2005 sem stendur í dag í 25 milljónum og verð hússins í 32 milljónum, sem ég átti 40% í þegar ég flutti inn, en núna 15%.

    asi:

    Þetta er ekki mín stefna, heldur stefna allra flokka á Alþingi nema Hreyfingarinnar – þ.á.m. VG, sbr. yfirlýsingu Steingríms J. frá því í gær.

    Stærstur hluti þjóðarinnar sér í dag að við verðum að nýta auðlindirnar, m.a. annars til stóriðju, þótt fólk hafi verið blindað af „gróðæri og rugli“ um nokkurn tíma.

    Andri Snær og fleiri voru búin að sannfæra þjóðina að við værum svo eitursnjöll að við þyrftum ekki að lifa á auðlindum, líkt og margar aðrar þjóðir gera, heldur gætum við lifað einunigs á hugvitinu, t.a.m. á snilli fjármálasnillinga og útrásarvíkinga.

    Nei, það er raunhagkerfið, sem er framleiðslu og útflutnings tengt, sem getur komið okkur út úr kreppunni og tryggt okkur Íslendingum vinnu, velferð og svipuð lífskjör og á Norðurlöndunum, en ekki pípudraumar fólks, sem ekki er með báða fæturna á jörðinni!

    Hefjumst handa við verklegar framkvæmdir, t.d. virkjanir og stóriðju, en um leið skulum við koma undir okkur fótunum í öðrum iðnaði en stóriðju og þá með auknum framlögum í þróun, rannsóknir og menntun.

    Þar á ég t.d. við ferðaþjónustu, skapandi greinar og hátækniiðnaðinn. Þótt ég guðs lifandi feginn vildi fara beint í þessar greinar, þá tekur uppbygging þeirra a.m.k. 10-15 ár. Þau ár höfum við ekki, því helmingur þjóðarinnar verður farinn til Norðurlandanna á meðan við byggjum þetta upp.

    Stóriðjan og virkjanir kaupa okkur tíma til að ráðast í fjárfestingu í þróun, rannsóknum og menntun til að kljást við það verkefni að skapa hér 30-40.000 störf á næstu 15 árum.

  • Margrétj

    Ömurlegt að búa við ríkisstjórn sem kann ekki, nennir ekki og vill ekki sinna skyldum sínum gagnvart almenningi en er snögg og dugleg að sinna fjármálafyrirtækjum. Þá vantar ekki peninga ef bjarga á banka þó einka sé, eða ausa peningum í hítir, sem að sjálfsögðu er í eigu rétta fólksins.
    Íhaldið ætti að bjóða Jóhönnu að gerast heiðursfélagi hjá þeim og banksterar ættu að gera henni stall og styttu. Betur hefur aldrei nokkru sinni verið gert við þennan hóp og afnám reglna og skortur á aðhaldi fyrri ríkisstjórna, er barnaleikur miðað við þá skattpeninga sem þessi ríkisstjórn hefur fært þessu fólki.
    Sjáið þkið svo bara hvað gerist þegar frumvarpið um kvótann og sjávarútveginn kemur fram. Frumvarp sem ríkisstjórinin að sjálfsögðu bauð LÍU að skoða og meta, ÁÐUR en Alþingi fékk það í hendurnar!!!!!
    Eða vatnið? Hverjum skyldi það vera fært á silfurfati?
    Manni verður illt.

  • Margrét S.

    Ég er sammála Guðbirni hvað varðar að það verður að skapa hér atvinnu strax. Við erum að missa fólk úr landi vegna atvinnuleysis og lágra launa. Við höfum ekki efni á að missa heilbrigðisstarfsmenn svo sem lækna og hjúkrunarfólk af því að við erum með ónýtan gjaldmiðil og miklu lægri laun en bjóðast annars staðar á Norðurlöndunum. Það hlýtur að vera hægt að nýta orkuauðlindir okkar án þess að við eyðileggjum landið. Fjölbreytt atvinnulíf er það sem við þurfum og við verðum að viðurkenna það að krónan er EKKI lengur trúverðugur gjaldmiðill og við verðum að skoða af alvöru hvort okkur sé ekki betur borgið innan Evrópusambandsins.
    Margrét J. mér verður líka illt þegar ég sé þetta fólk, Jóhönnu, Steingrím og skósveina þeirra. Samfylkingin er búin að vera að monta sig af aðgerðum fyrir skuldsett heimili og Steingrímur skrifaði nýlega montgrein í Fréttablaðið þar sem hann stærði sig af því að fólk væri að fá allt að 900.000 krónur í vaxtabætur og niðurgreiðslur vaxta. Hvaða fólk fær það?? Þeir sem fóru offari í skuldsetningu, spöruðu ekkert og fóru nokkrum sinnum á ári til útlanda, keyptu kannski allt í búið í dýrustu og fínustu verslunum??? Eða þeir sem vinna svart?? Alla vega fær hinn venjulegi Jón og hin venjulega Gunna sem voru sparsöm alla tíð og lögðu smávegis til í útborgun á húsnæði lítið sem ekkert út úr þessum „aðgerðum“. Ég er alltaf að verða sannfærðari um það að eina sanngjarna leiðin hefði verið að stilla öll lán til baka að t.d. 1. maí 2008 og setja síðan þak á verðtryggingu meðan hrunið gekk yfir t.d. 4%. Líka fyrir gengistryggðu lánin. Þá hefðu allir verið ánægðir og þeir sem hefðu farið á hausinn þá hefðu líklega farið á hausinn hvort eð er.
    Þessi leið sem farin var er ósanngjarnasta leið sem hægt var að fara. Hróplegt ranglæti og mismunun sem á sér vart hliðstæðu í siðmenntuðum heimi.

  • Kristinn B. Magg.

    Segja má að nú ríki hér draumahagkerfi vinstrimanna, umhverfissinna og fólks úr hinum skrafandi og skrifandi stéttum.

    Aldrei hafa vinstrimenn átt betri tíma en einmitt núna. Margar þeirra eru komnir í góð störf hjá ríkinu, á meðan aðrir vinstrimenn hafa viðurværi sitt af ýmsum sérvekrefnum sem einhverjir úr ríkisapparatinu skaffar þeim.

    Fyrir marga vinstrimenn er núverandi „Zeitgeist“ ekki ósvipaður og sá „Zeitgeist“ sem ríkti meðal banka- og fjármála og útrásarfólk á árunum 2005-2007.

    Margt kemur hér til:
    Búið er að koma á koppinn ýmsum gæluverkefnum og áhugamálum vinstrimanna,
    öfga-femínismi blómstrar,
    boð og bönn eru skipun dagsins,
    virkjana- og stórframkvæmdastopp hefur verið hér í nokkur ár og verða hér enn,
    þeir sem töldust til millistéttarinna og höfðu það sæmilegt eru nú hundeltir og nánast ofsóttir,
    og loks fékk lista- og menningarelítan gefins stærsta tónlistar og menningarhús norðan Alpafjalla sem kostar skattborgarana litlar 30 mia.kr. fyrir utan rekstrarkostnað.

    Það hefur semsagt aldrei verið betra að vera vinstrimaður á Íslandi, og aldrei hafa þeir sem teljast til hinna skrafandi og skrifandi stétta haft það betra.

    Skítt með það þó að það séu um 15.000 manns atvinnulausar, hugsa þeir. Getur þetta fólk ekki bara lifað á bótum? – segir vinstraliðið líkt og Marie Antonette þegar hún spurði „hvort að fólkið gæta þá bera ekki borðað kökur“.

    Og það er í lagi að aðrar 15.000 séu farnar úr landinu. Það var gott að losna við þetta fólk, þetta voru hvort eð er gráðugir iðnaðarmenn og verktakar sem fóru, hugsar vinstraliðið.

    Draumlandið hans Andra Snæs er orðið að veruleika á Íslandi nú í dag.

  • Kristinn B. Magg.

    Ps,
    Góð grein hjá þér Guðbjörn, og svör þín við athugasemdum eru að sama skapi mjög góð.

    Það er raunhagkerfið sem við þurfum að virkja. Hér þarf að koma af stað framleiðludrifnu hagkerfi sem skapar gjaldeyristekjur.
    Til þessa notum við þær náttúruauðlindir sem við eigum, orku og sjávarfang í bland við þann mannauð sem við eigum þó enn í landinu.

    Í kjölfarið munu svo hinar skapandi greinar og hátækniiðnaður blómstra.

    Í opnu hagkerfi er það bara ekki eitthvað eitt sem útlokar eða kemur í staðinn fyrir eitthvað annað.

  • Kristinn B. Magg.

    Jóhanna og Steingrímur nefna í grein sinni; Lífskjarasóknin hafinn“ tvær stórframkvæmdir sem munu verða á næstunni.

    Ekki nefna þau hvaða tvær stórframkvæmdir þetta eru, svo þessi yfirlýsing þeirra er mjög loðin.

    Er þetta enn eitt leikritið þeirra varðandi stórframkvæmdir í landinu?

    Hvað eiga þau við með þessu?

    Hef enga trú á því að hér eigi þau við framkvæmdir í Helguvík eða álver á Bakka.

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af þremur og fimm? Svar:

Höfundur