Sunnudagur 19.03.2017 - 10:26 - Rita ummæli

Blandað markaðshagkerfi Þýskalands

Otto von Bismarck, prins af Bismarck og hertogi af Lauenburg, kanslari Þýsklands og einn mesti stjórnmálaskörungur Evrópu fyrr og síðar.

Í framhaldi af athyglisverðri en kannski ekki alveg réttri yfirlýsingu Jóns Baldvins Hanníbalssonar – sem fjölmiðlar lepja að venju gagnrýnislaust upp – er rétt að benda á að blönduð markaðshagkerfi eru ekki einungis skandínavísk hugmynd, heldur einnig mið-evrópsk. Sá hagfræðingur, sem lagði fræðilega að þessu fyrirkomulagi í Þýskalandi, var Alfred August Arnold Müller-Armack og það fyrir stríð eða upp úr 1920. Virkilegu flugi náðu hugmyndir Müller-Armack þó fyrst eftir heimsstyrjöldina síðari árið 1947, þegar bók hans „Wirtschaftslenkung und Marktwirtschaft“ kom út. Þessar hugmyndir og svipaðar voru síðan þróaðar víða í Evrópu, enda má segja að nær öll ríki álfunnar séu með eina eða aðra útgáfu af blönduðu markaðshagkerfi, þótt útfærslan sé vissulega nokkuð ólík landa á milli. Þessi kerfi eru styrkleiki álfunnar en ekki veikleiki hennar, eins og sumir vilja halda fram.

 

Nürnberg (Þýskaland) í rústum vorið 1945 en á næstu 20 árum varð landið að nýju blómstrandi efnahagslegu stórveldi Evrópu.

Hugmyndir Þjóðverja um blandað hagkerfi lögðu áherslu á virka samkeppni, samkeppniseftirlit og að aðalhlutverk ríkisvaldsins væri að skapa fyrirtækjum „hagstætt lagalegt umhverfi“, reka óháðan seðlabanka, auk fullkomins afskiptaleysis hins opinbera af vinnudeilum (þ. Tarifautonomie). Þessar hugmyndir hittu síðan fullkomlega í mark hjá Ludwig Erhard og Konrad Adenauer, sem tilheyrðu systurflokkum Kristilegra Demókrata í Þýskalandi og Bæjaralandi (CDU/CSU/Christliche Demokratische Union/Christlich-Soziale Union). Að sjálfsögðu fylgdi samstarfsaðilinn í ríkisstjórn hinir frjálslyndu Freie Demokratische Partei (FDP/Die Liberalen) sömu efnahagsáætlun og Erhard (CSU) og Adenauer (CDU). Segja má að uppgang og styrkleika Þýskalands eftirstríðsáranna megi rekja til þessa blandaðs markaðshagkerfis en þó ekki síður hugmyndarinnar um Sambandslýðveldið Þýskaland og tiltölulega sjálfstæð ríki (þ. Bundesländer) innan sambandsríkisins, sem og stjórnmálalegs stöðugleika, er klárlega byggir á frábærri stjórnarskrá og góðri stjórnskipan, sem síðan aftur byggir á hugmynd sem aðlöguð var að Þýskalandi og er í anda hins bandaríska kerfis „Checks and Balances“.

 

Dr. Ludwig Erhard fær í hendur fyrsta eintak bókar sinnar „Velmegun fyrir alla“ ( þ. Wohlstand für Alle).

Að auki var að finna í þessari þýsku gerð af blönduðu hagkerfi (þ. Soziale Marktwirtschaft) og stjórnskipan eftirstríðsáranna í Þýskalandi, mikið af hugmyndum sem tengdust frelsi einstaklingsins, t.d. athafna-, viðskipta- neyslufrelsi, samningafrelsi, atvinnu- og samvinnufrelsi. Þá var í þessu markaðshagkerfi gert ráð fyrir blöndu af sterkum almannatryggingum og einkatryggingakerfi. Ef algjör nauðsyn krafðist þess átti ríkið að vera með afskipti af félagslega kerfinu, vinnumarkaðsmálum og efnahagslegum málum á borð við að auka hagvöxt, tryggja stöðugt verðlag og lágt atvinnuleysi. Mikilvægt er að taka fram að í Þýskalandi hafði Bismarck tekið upp sjúkratryggingar og síðar einnig slysa- og lífeyristryggingar, þannig að hugmyndin byggði að þessu leyti á gömlum merg. Sósíaldemókratar voru frekar „skeptískir“ gagnvart þessu markaðshagkerfi og boðuðu eigin útgáfu sem hét „Demokratischer Sozialismus“. Sú hugmyndafræði var mun „sósíalískari“ en nálgun Kristilegra Demókrata og Frjálslyndra, þótt markmiðið hafi verið það sama, þ.e. „velmegun fyrir alla“. Þessi hugmyndafræði sósíalista var síðan prufuð í Austur-Þýskalandi en mistókst hrapalega. Árið 1990 sameinaðist Þýska alþýðulýðveldið (DDR), sem var orðið lýðræðislega og efnahagslega gjaldþrota, Sambandslýðveldinu Þýskalandi (BRD) og blönduðu markaðshagkerfi þess.

 

Konrad Adenauer, kanslari Þýskalands 1949-1963, undirritar nýja tímamóta stjórnarskrá (þ. Grundgesetz) Þýskands 8. maí 1949.

Að þessu sögðu er tómt mál fyrir Jón Baldvin Hannibalsson að tala um að norrænir jafnaðarmenn hafi verið þeir einu sem börðust fyrir blönduðu markaðshagkerfi í heiminum og nú sé bara engin þörf fyrir þá lengur, þar sem öllum markmiðum hafi verið náð! Þótt ekki sé hægt að líkja kommúnískum Sovétríkjunum og ríkjum Austur-Evrópu við velferðarkerfi Skandinavíku, má þó segja að útþensla félagslegra kerfa og forræðishyggjan í norræna módelið hafi á Norðulöndunum leitt til  nokkurra efnahagsþrenginga upp úr 1980 og til 2000. Á þessum árum var norræna velferðarríkið minnkað eftir óhóflega þenslu félagslega kerfisins allt frá stríðslokum, sem hafði leitt til þess að útgjöld ríkisins voru orðin allt of mikil, skattlagning of há og bætur allt of háar, þannig að það borgaði sig ekki fyrir fólk að vinna lengur. Í dag stendur því norræna módelið styrkum fótum og það sama má segja um svipuð kerfi í Þýskaland, Hollandi og Austurríki. Verr stendur um önnur svipuð kerfi í Frakklandi, Ítalíu og á Spáni.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af sjö og fjórum? Svar:

Höfundur