Miðvikudagur 23.12.2009 - 02:26 - FB ummæli ()

Sparnaðarhugmyndir framsóknarmanns

Maður er nefndur Gunnar Bragi Sveinsson. Hann er framsóknarmaður. Eins og sjá má hér hefur Gunnar Bragi unnið margvísleg störf í gegnum tíðina og verið – miðað við stjórnarsetur og slíkt – góður og gegn framsóknarmaður sem fær sína hefðbundnu bitlinga. Skal hér ósagt látið hvort hann hefur verið hæfur, því sáralítið sem ekkert þarf til að vera bitlingahæfur hjá Framsóknarflokknum. En það er önnur saga.

Gunnar Bragi, sem var kjörinn á þing í fyrsta sinn í vor, fékk hugsjónainnspýtingu nýverið og grennslaðist fyrir um, hve mikið það hefur kostað að halda íslensku þjóðinni sæmilega upplýstri um sukk, spillingu, þjófnað, rán og rupl sem kostaði efnahagshrun og svipti þjóðina reisn og æru. Sem flokkurinn hans ber reyndar mjög mikla ábyrgð á. Honum virðist hafa gengið það eitt til að athuga hvort ekki mætti spara á vettvangi upplýsingar. Til hvers svosem að upplýsa lýðinn? Hann rífur þá bara meiri kjaft, ekki satt? En Gunnar Bragi var ekki ánægður með svarið, ætlar að fylgja málinu fast eftir og krefjast enn meiri og nákvæmari upplýsinga. Það kostar nefnilega heilar 211 milljónir að segja landsmönnum sannleikann!

Gunnar Bragi Sveinsson, þingflokksformaður Framsóknarflokksins

Gunnar Bragi Sveinsson, þingflokksformaður Framsóknarflokksins

Fyrir utan nokkra netmiðla og bloggara hefur RÚV – sjónvarp og útvarp – staðið sig langbest þegar á heildina er litið við að upplýsa, uppljóstra, afhjúpa og fræða þjóðina um hvað átt hefur sér stað á bak við gullhúðuð tjöld og harðlæstar dyr einkavinavæðingar, sérhagsmuna, spillingar og klíkusamfélagsins sem hér hefur ráðið ríkjum. Aðrir fjölmiðlar hafa gert mjög vel einkum DV sem hefur farið á kostum, og fréttastofa Stöðvar 2 hefur átt góða spretti.  Fréttablaðið og Morgunblaðið (þar til í lok september) hafa gert marga góða hluti. Hér er magnaður greinaflokkur DV um kjör, leynilaun, uppbætur og dulbúin laun þingmanna. En RÚV hefur borið höfuð og herðar yfir aðra „hefðbundna“ fjölmiðla og er auk þess eini ljósvakamiðillinn sem hefur haft fyrir því að vera með bókmenntaþátt í sjónvarpi.

En Gunnari Braga finnst þetta ofrausn og sér ofsjónum yfir kostnaðinum – sem þó hefur þegar verið skorinn töluvert niður þótt ekki viti ég hvort sá niðurskurður komi fram í tölunum sem gefnar voru upp. Nú er svo komið að RÚV er skammtaður skítur úr hnefa svo hið þjóðfélagslega mikilvæga starfsfólk sem sér um að upplýsa þjóðina um sannleikann fær sig varla hrært. Gunnar Bragi virðist auk þess ekki hafa skilning á því, að ekki er hægt að sundurliða alla kostnaðarliði, s.s. sminkur, starfsfólk í safnadeild, sendla, símakostnað o.þ.h. sem samnýtt er í flestum eða öllum deildum fyrirtækisins. Maður spyr sig hvort hann hafi ekkert lært í öllum störfunum sem tíunduð eru á upplýsingasíðu Alþingis eða hvort honum gangi kannski eitthvað annað til en sparnaðarhugsjón. Það er alltént deginum ljósara að hann hefur aldrei unnið á fjölmiðli og hefur ekki hundsvit á því hvernig störfum er háttað á þeim bæjum. Setur sig samt á háan hest.

Svo einkennilega vill til að þættirnir sem Gunnar Bragi hefur áhyggjur af eru Kastljós, Silfur Egils, Kiljan, Fréttaaukinn og Tíufréttir. Tilgangur Gunnars Braga með því að hafa Kiljuna inni í dæminu frekar en t.d. Útsvar eða Spaugstofuna hlýtur að vera sá að koma höggi á Egil Helgason. Að viðbættum aðalkvöldfréttatímanum, og öðrum þáttum ólöstuðum, eru nefndir þættir hjarta RÚV-sjónvarps. Upplýsingaveita allra landsmanna. Þessir þættir kosta 211 milljónir og það finnst Gunnari Braga allt of mikið. Hann vill spara þriðjung, 70 milljónir, sem samsvarar næstum öllum þessum þáttum fyrir utan Kastljósið. Gunnari Braga finnst pöpullinn fá allt of miklar upplýsingar og honum hugnast lítt að geta ekki framið sín myrkraverk í friði fyrir upplýsingaþyrstum almenningi sem myndi heldur vilja meiri upplýsingar en minni.

En hvað kostar Gunnar Bragi Sveinsson þjóðina?

Í maí var RÚV með innslag í fréttum um kjör þingmanna. Þar kom fram að kostnaður við Gunnar Braga, sem er þingflokksformaður Framsóknarflokksins – á mánuði – er eftirfarandi:
Þingfararkaup – 520.000
Þingflokksformennska – 78.000
Þingfararkostnaður – 91.000
Ferðakostnaður í kjördæmi – 61.000
Ýmis kostnaður – 66.400  (hámark 796.000 á ári)

Þetta gera samtals 816.400 á mánuði og ef gert er ráð fyrir að þingmaðurinn nýti sér álag á þingfararkostnað ef hann heldur tvö heimili – 36.280. Að því gefnu að Gunnar Bragi Sveinsson nýti allar heimildir og kostnað kostar hann þjóðina 852.680 á mánuði – eða 10.232.160 krónur á ári. Þá er ekki tekið inn í myndina ýmislegt sem fram kemur í greinaflokki DV og Kastljóssúttektinni hér að neðan. Það eru ríflega tveir þriðju af kostnaði við Silfur Egils, sem er 14 milljónir á ári. Hvort vill fólk Silfur Egils eða Gunnar Braga ef það þarf að velja? Hvor ætli vinni betur fyrir laununum sínum, Gunnar Bragi eða Egill? Gefum okkur að Gunnar Bragi nái að sitja heilt kjörtímabil (og ef engar eru hækkanirnar) kostar hann þjóðina 40.928.640 krónur á kjörtímabilinu. Hér er fréttin sem birtist – já, á RÚV – í maí:

Fréttir RÚV 21. maí 2009

Þeir eru auðvitað agalegir hjá RÚV að segja okkur frá því hvað við borgum til að halda Gunnari Braga uppi og auðvitað þarf að skera niður hjá fjölmiðli sem vogar sér að upplýsa um slíkan ósóma. Svo bætti skömmin hann Helgi Seljan um betur og ljóstraði upp um fleiri leyndarmál Gunnars Braga í Kastljósinu í september. Það hlýtur auðvitað að hafa hleypt illu blóði í þingmanninn þegar sjálft Ríkissjónvarpið – já, RÚV aftur – kjaftar í almenning hvað Gunnar Bragi fær stóran hluta af skattfé í sinn eigin vasa og hvernig hann hefur í hendi sér að misnota aðstöðu sína. Ef umfjöllun Helga Seljan í Kastljósi er skoðuð vandlega í samhengi við frétt Ingólfs Bjarna hér að ofan getur fólk reiknað út hvernig Gunnar Bragi getur spilað á kerfið og aukið tekjur sínar með m.a. skattaafslætti, skattfrjálsum fríðindum og þvíumlíku.

Kastljós 7. september 2009

Ég skal ekki segja hve mikið umfram 852.680 krónurnar á mánuði – eða 10.232.160 krónurnar á ári – Gunnar Bragi gæti mögulega kostað almenning í landinu ef hann notfærir sér allar mögulegu matarholurnar og skattafríðindin. Það yrði aldrei annað en ágiskun. En víst er að Gunnar Bragi kostar okkur skildinginn og notar nú aðstöðu sína til að reyna að svipta okkur þeim upplýsingum sem við þó fáum í gegnum þá þætti á RÚV sem hann vill ólmur skera niður við enn meira trog en gert er nú þegar.

Á þingi sitja 63 þingmenn. Ekki eru allir landsbyggðaþingmenn eða þingflokks- eða nefndaformenn eins og Gunnar Bragi og því ekki allir jafndýrir. Og einn þingmaður afþakkaði formannsálag á þingfararkaup eins og sagt er frá hér. Gefum okkur að 35 þingmenn kosti það sama og Gunnar Bragi og 28 séu eitthvað ódýrari – segjum t.d. 9.000.000 á ári. Þá kosta þingmennirnir almenning 35 x 10.000.000 = 350.000.000 plús 28 x 9.000.000 = 252.000.000. Alþingismennirnir 63 kosta skattborgara því 602.000.000 – sex hundruð og tvær milljónir króna – á ári, bara í laun og ýmis fríðindi – lágmark.

Í fjárlögum var gert ráð fyrir að bein fjárframlög til stjórnmálaflokka árið 2010 yrðu 371,5 milljónir. Það mun hafa verið skorið niður um 10% og verður 334.500.000. Að auki voru framlög til þingflokka áætluð 65.000.000 og með sama 10% niðurskurðinum gera það 58.500.000. Þessir tveir kostnaðarliðir hljóða samtals upp á 393.000.000. Og ef við leggjum nú saman launakostnaðinn og framlögin eru þetta alls 995.000.000 krónur sem auðvelt er að rúnna upp í eitt þúsund milljónir eða einn milljarð. Það er nærri fimmföld sú upphæð sem allir áðurnefndir þættir kosta á ári eða… Kastljós í 7,7 ár eða Silfur Egils í 71,4 ár eða Kiljan í 41,7 ár eða Fréttaaukinn í 47,6 ár eða Tíufréttir í 45,5 ár.

Ég gef mér – og það er einlæg og afdráttarlaus skoðun mín – að á hverjum tíma sé a.m.k. helmingur alþingismanna ekki að vinna í þágu þjóðarinnar heldur gegn henni. Engu máli skiptir hvort þeir eru í stjórn eða stjórnarandstöðu – en ef þeir eru í stjórnarandstöðu gera þeir hvað sem er og ljúga hverju sem er til að komast í stjórn. Þessir þingmenn vinna að eiginhagsmunum, hagsmunum flokksins síns, klíkunnar eða annarra afla sem hafa það eitt að leiðarljósi að tryggja sér og sínum völd og þar með sjálftöku úr sameiginlegum sjóðum þjóðarinnar. Skítt með okkur hin. Og þeim er meinilla við tjáningarfrelsið, skoðanafrelsið, gagnsæi stjórnsýslunnar og upplýsingaskyldu. Slíkt þjónar ekki hagsmunum þeirra.

Í mínum huga er ekki spurning um niðurstöðuna. Það á að skera Gunnar Braga niður við trog og stórauka fjárveitingar til RÚV í þágu upplýsingaþyrstrar þjóðar.

Flokkar: Bloggar

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Ummæli

  • Þetta er skemmtileg talnaleikfimi, sem kallar greinilega á fjölbreyttar athugasemdir. Laun þingmanna er þekkt stærð, en hún er ekki nema lítið brot af þeim kostnaði sem þeir geta lagt á þjóðina. Hvers vegna eiga nafntogaðir stjórnmálamenn og fjölskyldur þeirra jafnvel milljarða í kvóta“eign“ en hvergi örlar á Hinum íslenska auðlindasjóði, að norskri fyrirmynd?
    Hvernig fara milljarðatugir í lítið nothæfa höfn hér og lítið notuð göng þar?
    Hver kaus þá Egil og Pál spyr einhver. Á móti má spyrja hvernig á því standi að engar faglegar kröfur eru gerðar til þeirra sem verma ráðherrastóla?
    Við eigum langt í land með að upplýsa almenning um hvaða ábyrgð þeir bera sem kjósendur. Gleggsta vitnisburðinn um það má finna hér: http://www.althingi.is/vefur/thingme.html

  • Sæl Hanna Lára. Góð grein en leyfi mér að bæta við að Gunnar Bragi er dæmigerður Skagfirðingur, ungur framsóknarmaður sem hefur starfað í pólitík án mótbyrs og gagnrýni. Þessi gerðin er ekki líklega til að skilja annað en þöggun og finnst auðvitað upplýsingar um annað en þeim hentar séu ómögulegar. Hann og hans menn gera þetta heima hjá sér!
    Ég er að blogga um fjölmiðla og er ekki að öllu leyti sátt við Ríkissjónvarpið – sérstaklega ekki alvarlegan og lítt gagnrýndan pólitískan halla á aðal stjórnmálafréttamönnunum. Þeir myndu aldrei upplýsa um Gunnar Braga og alveg örugglega ekki eitthvað neikvætt um Sjálfstæðisflokkinn. Hjá þeim er enn 2007 í fagmennsku.
    Hér er slóðin mín: http://blogg.visir.is/unnurkr/

  • Þeir sem hæst gjamma hér um skort á gegnsæi og meintan óheiðarleika Láru Hönnu að upplýsa ekki um allt sem þá gæti vantað að vita um hana í pistlinum ættu að átta sig á því að heimska þeirra eða skortur á upplýsingu skrifast á þá sjálfa en ekki Láru Hönnu. Gagnsæi felst ekki í að láta tyggja ofan í sig heldur að geta nálgast upplýsingar sem máli skiptir. Ef menn nenna því ekki er þeim ekki viðbjargandi.

  • Spurði bara sísona af því að einu sinni var talað um ,,villutrú“ og var víst alveg voðaleg.

    Sérstaklega fyrir þá sem höfðu ánetjast henni.

    En alltíeinu var hún horfin útí veður og vind og síðan hefur enginn tekið sér þetta orð í munn.

  • Djöfull ertu góð nafna! Gleðilega hátíð allir.

  • Jóhann Gunnar

    Reyndar Lára Hanna þá þiggur þú kaup frá Rúv hversu lítið sem það er og auðvitað áttu að tilkynna það Lára ef þú ætlar að vera samkvæm sjálfum þér. Annars er ég alveg sammála þessari færslu upp á hár fyrir kannski utan það að mér finnst hægt að spara hjá Rúv en ekkert sérstaklega í þessum deildum sem Gunnar nefnir nema þá í kastljósi. Launalega séð. Mér finnst þeir ekki vinna alveg fyrir launum sínum þó þeir komi með eitt og eitt gott á cirka mánaðar fresti.

  • Flottur og beittur penni hún Lára Hanna. Viðbrögðin hjá Frömmurum og Íhaldi gætu bent til þess
    að ákveðin hræðsla sé í gangi um að ýmislegt vafasamt eigi eftir að koma í ljós þegar þeir
    skiftu bönkunum milli sín og aðrir einkavinagjörningar litu dagsins ljós.

  • Ég vil taka fram að ég er ekki starfsmaður RÚV – og hef aldrei verið. Ég er sjálfstætt starfandi þýðandi með starfstöð á heimili mínu og hef ekki fengið borgað fyrir neins konar yfirvinnu í 20+ ár. Auk þýðinga hef ég starfað í lausamennsku sem ökuleiðsögumaður með erlenda ferðamenn en verið í fríi frá því starfi um skeið.

    Aftur á móti hef ég flutt stutta pistla á föstudögum á Morgunvakt Rásar 2 síðan í byrjun júlí í sumar. Þá skrifa ég og tek upp heima hjá mér og sendi í Efstaleitið á geisladiski. Pistlana vinn ég sem illa launaður verktaki.

    Ég er ekki í neinum stjórnmálaflokki og á hvorki pólitíska samherja né andstæðinga. Ég á hins vegar málefnalega samherja og andstæðinga – og það getur verið misjafnt hvaða stjórnmálastefnu eða -flokkum þeir tilheyra hverju sinni.

  • sveinbjörn

    Lára Hanna ertu ekki að kasta steini í glerhús ? Þú færð borgað yfirvinnu sem þú ekki vinnur

  • Hvað er að vera ,,forhertur kommi“?

  • Lára hanna þú ert nú einfaldlega ekki í lagi. hvernig á að vera hægt að treysta starfsfólki RÚV þegar það hagar sér eins og Lára Hanna gerir? Situr á kaupi uppi í Efstaleiti hjá RÚV við að úthúða þingmanni sem hún lítur á sem pólitískan andstæðing. Svona fólk eins og Láru Hönnu sem er ekkert annað er forhertur kommi hefur þjóðin ekkert að gera við sem starfsmann RÚV því það er fólk eins og hún að ótöldum Gunnari í Speglinum sem draga niður trúverðugleika RÚV. Hvar er Páll útvarpsstjóri þegar starfsfólk hans er að vinna svona hlutdrægt ? Er hann úti að aka í Audi jeppanum sínum ?

  • Gleðileg jól Lára Hanna. Þú ert hetjan mín.

  • áhugaverð skrif.
    afætur finnast allsstaðar.

  • Ég get ekki annað en leiðrétt stafsetningarvilluna mína í innlegginu hérna áðan, „silvur“ á að sjálfsögðu að vera skrifað með effi eins og allir vita, silfur.
    Ekki að þetta skipti höfuðmáli en maður veit jú aldrei hvenær Eiður Guðnason kíkir við.

  • Frábær pistill hjá þér Lára Hanna eins og svo oft áður. Það er mörg matarholan og auðvitað má spara víða. En ég held að það færi framsóknarmönnum best að þegja þegar að þessu kemur þetta eru jú mestu sjóðasukkarar þjóðarinnar og hafa verið um marga mannsaldra.

  • Frábær pistill, takk fyrir þetta. Tek síðan heils hugar undir hjá HMV með að skipta Þórhalli út fyrir Kristin Hrafnsson.

  • Ég tek undir að Gunnar Bragi er á villigötum að eltast við einhverjar krónur í rekstri RÚV, sérstaklega þegar hann beinir spjótum sínum að þáttum sem eru hræódýrir í framleiðslu, eins og Silfur Egils og Kiljan – en eru samt með besta efninu sem Sjónvarpið býður upp á.

    En hann hittir naglann á höfuðið með ábendingum um að það megi spara í rekstri Kastljóssins – sem kostar jú töluvert meira en rekstur Hæstaréttar. Kastljósið er orðið andlega gelt og fast í einhverjum hjólförum um hvernig þessi þáttur eigi að vera og megi vera. Upphaflega fór allt fram í sjónvarpssal, sem er ódýrasti framleiðslumátinn, en núna er meirihluti efnisins unninn með ferðalögum með upptökulið út um bæinn. Verst er þó að í Kastljósinu veldur ekki nema helmingur umsjónarmanna (og tæplega það) því hlutverki að geta tekið ráðamenn á beinið, saumað að fólki sem hefur eitthvað að fela og sett hlutina í samhengi. Flest fólkið í Kastlj´soi virðist einkum hugsa um að líta vel út, vera rétt dressað og virka gáfulega og tala við „réttu“ viðmælendurna.

    Það á að taka Kastljósið úr höndum Þórhalls Gunnarssonar og setja Kristinn Hrafnsson yfir það. Kristinn er hörku góður fréttamaður og hann yrði fljótur að fá til liðs við sig öndvegis fréttamenn sem kunna að fara ofan í málin.

    Eða var hugsunin með Kastljósi kannski alltaf að það væri skemmtiþáttur?

  • Einar Jón

    Flott samantekt. Þú gleymir þó að minnast á ferðakostnað þingmanna, sem þú settir sjálf upp hér: http://larahanna.blog.is/album/laun_og_fridindi_tingmanna/image/944778/
    Samtals 139 milljónir í fyrra, um 180þús/þingmann að meðaltali á mánuði. Það eru aðallega gisting, ferðalög og skattfrjálsir dagpeningar, og því sjálfsagt að reikna það inn sem beinan kostnað af þingmönnum.

    602 milljónirnar fara þá upp í 741.000.000.

  • Rabarbari

    Mig langar að lýsa samúð minni með vesalings manninum sem þurfti að verja þennan sóðaskap í launa-/starfskjörum alþingismanna í þessum Kastljósþætti. Starfsmenn alþingis þurfa greinilega að standa í skítverkum.

    Mikið hlýtur þeim alþingismönnum sem hafa sómatilfinningu að líða illa með þetta launafyrirkomulag. Þegar það eru 15 þúsund íslendingar á atvinnuleysisskrá þá er það ekki boðleg afsökun að það sé of mikið mál að greiða kostnað eftir nótum.

    Nú ættu þingmenn að taka sig saman og létta þó ekki væri nema einum haus af atvinnuleysisskrá til að taka við nótum vegna starfstengdra happdrættismiða og blómvanda alþingismanna. Sem sagt nýjir tímar = engin nóta, engin greiðsla.

  • Þetta er frábær samantekt hjá þér um bull kostnaðinn við þingmenn sem við þurfum að borga, launin undanskilin, laun þurfa allir.
    Annars er þetta rövl hægri manna um rúv orðið svolítið þreytt þar sem það beinist eingöngu gegn þeim sem koma upp um spillinguna hjá þeim, úr hvaða flokki kemur annars Páll Magnússon og var hann ekki pólitískt ráðinn ?
    Björn Bjarnason og Hannes Hólmsteinn eru náttúrlega bestu dæmin um hversu fáránlega menn hugsa á þeim bænum.
    Ég vil reyndar fá meira af fréttaskýringarþáttum, enda finnst mér það frekar vera hlutverk ríkisútvarps/sjónvarps að upplýsa almenning með vönduðum fréttaskýringaþáttum og rannsóknarblaðamennsku, heldur en að sýna ameríska sápuþætti í samkeppni við aðrar stöðvar.
    Eini fréttaskýringarþátturinn sem kemst með tærnar þar sem erlendir fréttaskýringarættir eru með hælana er Silvur Egils.
    Björn, Hannes og Gunnar Bragi geta fylgst með skoðanabræðrum sínum í ævintýraheimum Ingva Hrafns á ÍNN.
    Við hin sem lifum í raunheimum þurfum hinsvegar að fá raunverulegar upplýsingar t.d. um spillingu þeirra sem hafa verið kosnir svo við þurfum ekki að kjósa þá aftur.

  • Sumir vilja ekki missa pistla slottið sitt á föstudögum hjá RÚV. Gott að eiga inni hjá ríkisklíkunni. Þjófélagið er allt orðið súrmeingað af einhverjum gömlum AllaBöllum?

  • Frábær pistill! Þessir menn vilja náttúrulega ekki óþægilega umræðu og vilja þagga niður í Agli. Týpískur framsóknardindill angandi af spillingu.

  • Einar Guðjónsson

    Svo passsar Gunnar Bragi upp á að fá líka greiðslur frá hinu gjaldþrota sveitarfélagi Skagafjarðarsveit. Sama gildir um Kristján Þór Júlíusson en lætur Akureyrarbæ endurnýta sig. Þannig rukkar hann Akureyrarbæ fyrir ferðir norður á fundi í bæjarstjórninni. Kæmi mér ekki á
    óvart þó að Alþingi greiddi flugmiðana líka. Því er við að bæta að Kristján hefur upplýst í viðtali að hann spyrji aldrei um verð þegar hann taki flugið norður.

  • Joi Erlendsson

    Mér finnst ad Thessir smápeningar sem Lára Hanna hefur fengid er thess 100% virdi, thad er annad mál ad útvarpsstjóri fái bíl sem er algjör ótharfi. Sídan á ríkid ekki ad borga laun presta, ef thad á ad vera trúfrelsi thá á kirkjan ekki ad ad fá eina krónu af skattgreidendum.Vaeri soldid einhaeft ef thad vaeru bara privat útvarpsstödvar sem spila mest popp mm og engar fréttir og fréttaskýringar.
    Flott samantekt hjá thér Lára Hanna.

  • Flott samantekt hjá þér Lára. Það má svo bæta því við að misvægi atkvæða milli kjördæma hefur sitt að segja um það hvaða einstaklingar sitja á þingi. Mitt atkvæði hér í Suðvesturkjördæmi er aðeins hálfdrættingur á við atkvæði í Norðvesturkjördæmi þar sem Gunnar Bragi er kjörinn.
    Meira af svona pistlum Lára Hanna.

  • „Ég myndi taka til fótanna“ Flannagan sendisveinn.

  • Kristján G. Kristjánsson

    Flottur pistill.

    Lélegar smjörklípur í athugasemdum.

  • Egill… ég hefði kosið Egil ef það hefðu verið haldnar kosningar um það starf en ég myndi aldrei kjósa þennan Gunnar Braga 🙂

    Annars eru þetta tómar hártoganir- auðvitað væri hægt að skera niður við kostnað Kastljóss og líklega Silfursins líka. En af hverju í ósköpunum af fara með hnífinn í upplýsingaveiturnar okkar. Byrja á því kannski að hætta með þessar þulur sem hafa ekkert annnað starf en að segja okkur hvað er á dagskrá.

    Annars sé ég sparnaðamöguleika í þingheimi mikið frekar en í fréttatengdu efni á RÚV

  • Gretar Eir

    Egill Þór ef þú setur „heilkveðna“ vísu á mbl þá sjá þeir um að skera helminginn af henni 😉 og ekki kaus ég Þórhall né Pál Magnússon heldur samt eru þeir þarna í starfi 😉 ekki kusu áskrifendur Moggans Davíð ! samt er hann korteri eftir að skattgreiðendur feldu niður skuldir fyrir eigendur moggans, vel hefði mátt senda út tvöfaldaðan Kastljós f þann pen, og jafnvel hægt að ráða Hannes Hólmstein til að fara með gamanmál í korter á viku 🙂 og ekki kaus ég Jóhönnu Vilhjálms í kastljós ! samt er hún þar (og að mínu mati mætti alveg spara hennar launakosnað).

    byggjum land yrkjum land en spörum framsækinn afturhaldsfræ 🙂

  • Takk, Lára Hanna.
    Þetta er mjög athyglisvert.
    Ein spurning:
    Þegar þú segir að helmingur þingmanna vinni jafnan GEGN hagsmunum þjóðarinnar á það þá við um þingmenn allra flokka?
    Teluir þú þannig að þingmenn VG hafi fram til þessa unnið GEGN hagsmunum þjóðarinnar þ.e.a.s fram til þess tíma að flokkurinn komst í ríkisstjórn?

    Telur þú með sama hætti að þingmenn Samfylkingarinnar hafi unnið gegn hagsmunum þjóðarinnar fram til þess að flokkurinn myndaði stjórn árið 2007?

    Fróðlegt væri að fá svör við þessu.

    Varðandi kostnað við þingið vil ég segja að ég hef fylgst mjög grannt með umræðunni á þingi á síðustu mánuðum. Hún er á svo lágu plani að mig óar við ástandinu. Hugsun mjög margra þingmanna er svo þokukennd að undrum sætir. Mjög margir þingmenn eru ekki færir um að tjá sig á móðurmálinu eða að koma hugsun sinni til skila.

    Þetta er í senn hrikalegur áfellisdómur yfir menntakerfinu og íslenskum kjósendum. Hverjum dettur í hug að velja þetta fólk sem fulltrúa þjóðarinnar til setu á Alþingi? Það er alveg skelfilegt að fylgjast með þinginu og ég geri þar engan greinarmun á flokkum.

    Og varðandi Gunnar Braga þennan treysti ég mér til að fullyrða að spurn eftir honum sé lítil og engin sérstök þörf sé fyrir hann á Alþingi Íslendinga. Ég hef fylgst með honum líkt og öðrum í sölum þingsins.

    Kærar þakkir fyrir góða pistla. Ég leyfi mér að ítreka spurningar mínar.

    Kveðja
    Rósa

  • Joi, Lára Hanna hefur hagsmuna að gæta, vegna þess að RÚV borgar henni.

    Var ekki einhver að tala um nauðsyn gegnsæis í stjórnmálum og fjölmiðlum? Eða eiga aðrar reglur að gilda hérna?

  • Joi Erlendsson

    Kalli hún Lára er ekki fastrádin hjá RUV, vitu kanski leggja nidur RUV og hafa bara thessa baugsmidla eda hvad?

  • Framsóknarforkólfurinn kostar okkur semsagt tíu milljón kall á ári.

    Ekki sýnist mér hann vænlegur til að afla auglýsingatekna og lækka rekstarkostnaðinn á sér.

  • Lára Hanna ber ekki að geta þess að þú vinnur hjá RÚV?

    Þú hefur hagsmuna að gæta en nefnir það ekki.

  • eitt enn – ætli páll magnússon keyri enn um á audi jeppanum sem skattgreiðendur borguðu undir hann fyrir hrun? 🙂

  • 30% niðurskurður virðist ekki ósanngjörn krafa.

    er í alvöru ekki hægt að búa til fréttaskýringaþátt sem kostar „bara“ 90-100 milljónir á ári?

    veistu hvað kostar að reka hæstarétt á ári?
    ca. 105 milljónir.

    kastljósið kostar 130 milljónir!

    hvað ætli hinn misheppnaði laugardags-spjallþáttur ragnhildar steinunnar (þessi sem sendur var út í 2 mánuði eða svo) hafi kostað í framleiðslu? umgjörðin var mikil; gestir í sal, stór hljómsveit og ég veit ekki hvað.

    ef við berum hann svo við þátt gísla einarssonar, út og suður. hvað ætli sá þáttur kosti í framleiðslu? sennilega 1/8 af því sem laugardagsþátturinn kostaði.

    út og suður er einfaldur spjallþáttur, tekinn upp á (þannig séð) einfalda upptökuvél.

    markmið þáttana er auðvitað hið sama, tala við fólk og koma því heim til landsmanna. ég veit ekki hvort þátturinn út og suður yrði neitt betri ef gísli einarsson fengi 5 sinnum meira fé til þess að framleiða næstu þáttaröð.


    því miður er kastljósið hægt og bítandi að breytast í ómerkilegan „magazine“ þátt eins og ísland í dag.

    eins vel og þau stóðu sig mánuðina um og eftir hrun.

  • Egill Þór, ég þekki þetta ekki nógu vel en ég held að Alþingi (sem þjóðin kaus) skipi útvarpsráð og menntamálaráðherra (sem er kosinn af þjóðinni) skipi útvarpsstjóra. Útvarpsráð og útvarpsstjóri sjá svo um að velja þáttastjórnendur.

    Hvernig vilt þú breyta þessu skipulagi? Viltu að haldinn verði þjóðaratkvæðagreiðsla um það hver stjórnar hverjum þætti? Er þetta ekki bara best eins og þetta er í dag, að við kjósum Alþinigsmenn sem síðan skipa útvarpsráð/útvarpsstjóra sem sjá um þessi mál?

    Annars er þetta einn besti og beittasti pistill hjá þér Lára Hanna, sem ég hef séð í langan tíma. Algjör snilld.

  • Snæbjörn Björnsson Birnir

    Egill Þór: eru ekki bara hálfkveðnar vísur á mbl.is…?? Allavega það, sem ekki er hrein lýgi…..

  • Egill Þór

    . . . og Lára Hanna; Hvaða lágkúruheit eru þetta að setja „hálfkveðna vísu“ á mbl.is og láta svo grunlausan almúgann sækja restina á eyjuna!!??

  • Egill Þór

    Það má vel vera, Heiða að Egill geri meira gagn en Gunnar Bragi en . . . HVER kaus Egil Helgason í þetta hásæti sem hann er í?
    Þessir blessuðu þingmenn okkar eru hálf „tæpir“ stundum en þeir mega samt eiga það að VIÐ kusum þetta blessaða fólk á þing!
    Ekki kaus ég Egil Helgason til að útbreiða Evrópustefnuna sína í sjónvarpi „allra landsmanna“!!

  • Snæbjörn Björnsson Birnir

    Það er hægt að spara á ýmsum stöðum, líka í RUV, en að spara þar sem krítísk umræða fer fram er náttúrulega bara vitleysa. Það eru sterk öfl í þjóðfélaginu, sem vilja stoppa alla frjálsa umræðu. Þessi náungi (Gunnar Bragi skylst mér að hann heiti)er bara eitt peð í því tafli. Hvernig væri heldur að hætta öllum þessum „bjánaþáttum“, sem keyptir eru inn og fólki boðið uppá…?? Sakna meiri umræðu um fólk eins og Gunnar Braga…fólk, sem er á Alþingi Íslands, en sem hefur ekki hreint mjöl í pokanum…..!

  • Ég held að Egill Helgason geri meira gagn fyrir 816.400 kr heldur en Gunnar Bragi…..

  • Egill Þór

    Alveg ertu kostuleg, Lára Hanna! Hvað eru Páll Magnússon og Þórhallur með á mánuði?
    Ja, Framsóknarmennirnir mega eiga það að þeir kusu kallinn á þing . . .
    Hver kaus Palla og eða Þórhall?? Tók þá bara sem dæmi af því þeir voru í aðalhlutverki í klippunum þínum. Ég ætla ekki einu sinni að minnast á launin hans Nafna míns. . . OMG!!

  • Lára Hanna… þú ert yndisleg 🙂 Spörum og losum okkur við Gunnar Braga Sveinsson! Algjör óþarfi að vera að eyða peningum í svona „Mao-týpu“

  • Sigurður #1

    Ég held þú ofmetir þingheim.

    Það er alveg fráleitt að mínu mati að helmingur þingmanna hafi einhvern
    áhuga á að vinna að heill almennngs.

    Ég held að þeir séu teljandi á fingrum annarrar sem hafa einhvern áhuga á almenningi í landinu.

    Þessi félagsskapur snýst aðeins um eitt.

    Og það er að moka undir sig og sína.

    Og þá skiptir engu máli í hvaða flokki viðkomandi er.

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af sjö og sjö? Svar:

Höfundur



Eldri færslur

Dagatal

desember 2009
S M Þ M F F L
« nóv   jan »
 12345
6789101112
13141516171819
20212223242526
2728293031