Föstudagur 08.01.2010 - 17:16 - FB ummæli ()

Að kanna hug og móta skoðanir

Ef ég man rétt hef ég aðeins einu sinni á ævinni lent í úrtaki í skoðanakönnun, kannski tvisvar. Símakönnun þar sem hringt var frá einhverjum aðila og spurt nokkurra spurninga. Varla hefur efnið verið merkilegt fyrst ég man það ekki. Mig langar stundum að vita hverjir það eru sem lenda á úrtakslistum og eru í þjóðarpúlsum. Hvernig úrtakið er valið og hvort þetta sé alltaf sama fólkið. Bara af einskærri forvitni. Netkannanir eru ómarktækar að mestu, því eins og sjá má t.d. hér er hægt að fikta við þær að vild. Nema könnun Eyjunnar og Íslendingavals í gegnum heimabanka um daginn. Hún hafði kost nafnleyndar en þá galla að ekki eru allir með heimabanka og ekki alveg allir með tölvu og netaðgang. En kannski er ekki hægt að framkvæma könnun sem útilokar alls engan.

En ekki fáum við alltaf að vita hvernig spurt er í skoðanakönnunum, hvað er lagt upp með og í hvaða röð spurningarnar eru – og það getur ráðið úrslitum. Kannski líka í þjóðaratkvæðagreiðslum, en af þeim höfum við enga reynslu þótt forseti vor hafi látið skína í annað í viðtalinu við BBC. Nú stendur fyrir dyrum ein slík um Icesave ef ekki verður samið áður. Ég sá spurninguna sem lögð er til í frumvarpi um þjóðaratkvæðagreiðslu og mér svelgdist á. Varla var hægt að orða hana á öllu  klúðurslegri hátt. Spurningin var óralöng og mér datt í hug hvernig fólki sem ekki hefur fylgst náið með Icesave-málinu – og það eru væntanlega allnokkrir – myndi ganga að stauta sig fram úr henni. Ég hef fylgst þokkalega með, en var búin að missa þráðinn þegar inn í miðja setningu/spurningu var komið. Hvað finnst ykkur?

Fréttir RÚV 6. janúar 2010

.

Viðbót: Ég sá í fréttum í kvöld, föstudag, að ég er ekki ein um að finnast spurningin flókin og klúðursleg.

Fréttir RÚV 8. janúar 2010

.

Í tengslum við það sem ég nefndi áður um hvernig spurt er, í hvaða röð og hvað lagt er upp með er svo spurningin um hvaða niðurstöðu fyrirspyrjandi eða sá sem pantar og greiðir fyrir skoðanakönnunina vill fá. Þá þarf væntanlega líka að skoða hvaða svarmöguleikar eru gefnir. Stundum er ekki einleikið hvað niðurstöður skoðanakannana eru þeim í hag sem láta gera hana þótt alls ekki þurfi endilega að vera maðkur í mysunni. En það er líklega best að tjá sig ekki of mikið um þetta, því skoðanakannanir eru hluti af miklum markaðsvísindum sem fólk menntar sig í og framkvæmir síðan af mikilli leikni og list. Þar er ég aldeilis enginn sérfræðingur þótt mér finnist þetta afskaplega áhugaverðar pælingar. Því eins og einhver sagði: „Skoðanakönnunum er ekki ætlað að kanna skoðanir almennings heldur að móta þær“. Enda eru skoðanakannanir víða bannaðar síðustu dagana fyrir kosningar.

Hér er dásamlegt atriði úr þáttunum Yes, Prime Minister þar sem ráðuneytisstjórinn, Sir Humphrey Appleby, sýnir Bernard Wooley, aðstoðarmanni forsætisráðherra, fram á hvernig hægt er að fá „rétta“ niðurstöðu í skoðanakönnun með orðalagi spurninga og því að raða þeim í rétta röð.

.

Kannski er best að hafa varann á þegar kynntar eru niðurstöður skoðanakannana. Beita gagnrýninni hugsun og spyrja sjálfan sig um tilgang þeirra og hvort verið sé að reyna að móta skoðanir manns. Skoða fjölda í úrtaki, svarhlutfall og reikna sjálfur. Mannleg viðbrögð eru að vilja vera sammála meirihlutanum því fólk heldur að þar með sé það í „sigurliðinu“ hvort sem það er eitthvað sérlega eftirsóknarvert eða ekki. Er ekki meira virði að skoða hug sinn, pæla, tengja, skerpa á sjálfstæðri skoðun, vera heiðarlegur gagnvart sjálfum sér og samviskunni – og varast hugsunarlausa hjarðhegðun?

Flokkar: Bloggar

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Ummæli

  • Gagarýnir

    Það er ekki eins og þjóðin viti ekki um hvað málið snýst og mæti blönk í kjörklefa gagnvart einhverri spurningu. Já eða nei er valið. En svo má alltaf gera þarfir sínar þar. Ekki það að mælt sé með því hér.

  • Hjörtur J. Guðmundsson

    Það þarf ekki mikla rannsóknarvinnu, sé áhugi á henni, til þess að sjá að enginn stjórnmálaflokkur daðraði eins við útrásarvíkingana svokallaða eða talaði þeirra máli en Samfylkingin. En sumir hafa auðvitað pólitíska hagsmuni af því að gera sem minnst úr því eða jafnvel minnast ekkert á það.

  • Sé núna að spurningin stendur virkilega svona í frumvarpinu. En það kemur ekki í veg fyrir að hún fáist þýdd á mannamál.

    „Lög nr. 1/2010 kveða á um breytingu á lögum nr. 96/2009, um heimild til handa fjármálaráðherra, fyrir hönd ríkissjóðs, til að ábyrgjast lán Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta frá breska og hollenska ríkinu til að standa straum af greiðslum til innstæðueigenda hjá Landsbanka Íslands hf. Alþingi samþykkti lög nr. 1/2010 en forseti synjaði þeim staðfestingar. Eiga lög nr. 1/2010 að halda gildi?“

    Á kjörseðli skulu gefnir tveir möguleikar á svari, þ.e. „Já, þau eiga að halda gildi“ og „Nei, þau eiga að falla úr gildi“.

  • Spurningunni verður komið á mannamál. Að sjálfsögðu. Víða þar sem þjóðaratkvæðagreiðslur eru tíðkaðar, eru sérstök batterí sem sjá um að orða spurningar. Furðulegt að láta þennan óskapnað inn í frumvarpið.

    http://ruv.is/heim/frettir/frett/store64/item320139/

  • Áhugaverðar pælingar hjá þér Lára. En þetta með Íslendingaval þá eru gallarnir fleiri. Ég gat auðveldlega kosið fyrir konuna þar sem við erum með sameiginlegan netbanka.

  • Get ekki séð betur en að DV sé komið á full í kostningabaráttuna.
    Túlkar orð Frederiksen svo sem að við fáum bara ekkert lán nema segja JÁ í kostningunum.

    http://www.dv.is/frettir/2010/1/8/fjarmalaradherra-dana-ef-islendingar-segja-nei-fa-their-ekkert-lan/

    Reyndar kemur ekkert annað fram í hans frásögn nema að málið verður bara tekið upp aftur ef þjóðin segir NEI

  • Það getur ekki verið mjög flókið að spurja á einfaldann hátt Annað væri bara til að flækja málið og skapa efasemdir ! Ætti að setja saman mjög einfalda og skyra spurningu , sem búið væri að dreifa út til fólks( á netinu t.d.) áður, svo það fengi tima til skilnings og umhugsunar i rólegheitum ,og gæti gengið hiklaust til atkvæðis á kjördag !
    ANNARS VERA BARA VANDAMÁL OG LÆTI !! og reiði á eftir

  • Jakob Þór Haraldsson

    Þú kemur inn á hárrétt atriði, ekkert mál að búa til „villandi“ skoðannakönnun, liðsmenn Samspillingarinnar & Baugsmiðla kunna þann leik. Í flestu „siðmenntuðum löndum“ er bannað að birta skoðannakannanir síðustu viku fyrir kosningar. Við Íslendingar erum frekar aftarlega á merinni í flestum slíkum málum..lol..! Við skulum vona að „nýja Ísland kalli á nýja tíma & betri – faglegri vinnubrögð á öllum stöðum“ – ekki veiti af..!

    kv. Heilbrigð skynsemi (fun.blog.is)

  • Það borgar sig bæði að mynda sér skoðanir, byggðar á þeim upplýsingum sem maður hefur, (öðrum en þeim hve margir eru á umræddri skoðun) sem og að treysta sér til að skipta um skoðun þegar í ljós koma nýjar upplýsingar eða aðstæður breytast.

    Flest er flókið. Ég hætti alltaf að hlusta þegar einhver segir: „Auðvitað“, þessa dagana eða „eins og allir vita“ eða „eins og allir hljóta að sjá“… Allt þýðir þetta: „Ef þú ert ekki á þeirri skoðun sem ég er að agitera fyrir ertu hálfviti“.

    Þetta er algengasta heilaþvottaraðferð pólitíkusa.

  • Kristín Ben

    Sæl
    Ég er i könnunarhópi hjá Capacent. Ég hef oft lent í vandræðum með að svara spurningum þeirra því gert er ráð fyrir að það sé einhvert norm sem ég þekki ekki og er ekki mitt. Spyrjendur ganga oft út frá því að ég sé á hvínandi kúpunni með kúlulán. Hvar kaupi ég bensín.? Hver er banki minn? Vil ég skifta? Þetta eru einhvers konar markaðskannanir sem fyrirtæki panta. Ég hef aðeins lært aðferðarfræði og kann lítillega að semja spurningar en mér finst oft ekki í lagi með þá sem semja spurningar. Þeir semjendur gera ráð fyrir að við séum öll frjálshyggjumenn með dýra jeppa og ofurhúsnæði. Það er einnig spurt um aldur, stöðu,laun,og hvað ég kaus síðast. Ég tek ekki mark á Capaset Gallup.

  • Illugi Jökulsson

    Sæl og blessuð.

    Ég mundi ekki hafa þungar áhyggjur af því þótt spurningin sé löng og leiðinleg. Þegar að atkvæðagreiðslunni kemur verður væntanlega og vonandi búið að gera fólki ljóst að það þarf bara að velja milli þess að segja „já“ eða „nei“. Við skulum vona að þá verði búið að gera öllum grein fyrir því hvað hvor möguleiki um sig hefur í för með sér.

  • Björgvin Valur

    Könnun Eyjunnar og Íslendingavals var heldur ekki marktæk því úrtakið valdi sig sjálft.

  • bjarnveig

    Þar sem kosning er um hvort erum með eða á móti ákveðnu lagafrumvarpi, sé ég ekki hvernig væri hægt að orða spurninguna öðruvísi

  • Erna Kristín

    Mjög áhugaverð pæling hjá þér og takk fyrir að koma með þetta fram.
    Eftir atburði síðustu daga finnst mér nokkuð ljóst að stór hluti þjóðarinnar fylgir þeim sem hæst hefur. Ég hef sjalda séð annan eins viðsnúning á milli daga í skoðunum fólks (ekki bara Bjarna og Kalla-barnsins, heldur venjulegs fólks).
    Stór hópur fólks argandi á þjóðaratkvæðagreiðslu einn daginn en nú finnst þeim nýir samningar vera málið. Ég er að verða gjörsamlega uppgefin á mörgum af samlöndum mínum. Fólk virðist ekki muna fyrir horn og elta bara „vinsælustu“ skoðunina hverju sinni.

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af núlli og einum? Svar:

Höfundur



Eldri færslur

Dagatal

janúar 2010
S M Þ M F F L
« des   feb »
 12
3456789
10111213141516
17181920212223
24252627282930
31