Fimmtudagur 13.05.2010 - 08:25 - FB ummæli ()

Að fortíð skal hyggja

Herskáir menn á nornaveiðum

Á nornaveiðum

Alveg frá fyrstu dögum hruns hafa heyrst raddir, stundum allháværar, um að við ættum ekki að líta um öxl heldur horfa fram á við. Ekki draga menn til ábyrgðar, heldur einhenda okkur í að byggja upp aftur. Á hvaða grunni er ekki tíundað sérstaklega. Í fyrstu voru þetta raddir þeirra sem vildu ekki, af einhverjum ástæðum, grafast fyrir um orsakir hrunsins. Ekki persónugera vandann, ekki stunda nornaveiðar. Munið þið?

Við áttum meðal annars að: Standa saman, slíðra sverðin, þreyja þorrann og góuna, sýna stillingu og yfirvegun, bíta á jaxlinn og bölva í hljóði, hugsa í lausnum en ekki vandamálum, láta ekki hugfallast, styðja hvert annað með ráðum og dáð, bíta í skjaldarrendur, sýna æðruleysi, snúa bökum saman, halda ró okkar, ekki horfa um öxl og leita að sökudólgum, sýna samstöðu…“ Síðan bættust þeir við sem nenntu þessu ekki lengur. Fannst of niðurdrepandi og neikvætt að grafa upp sannleikann um hvað gerðist. Kannski voru í þeim hópi þeir, sem óttuðust eitthvað. Fannst of nálægt sér vegið þegar farið var að rannsaka málin.

Ég hef alla tíð verið afar mótfallin þeim hugsunarhætti sem afskrifar fortíðina og var byrjuð að safna efni í sarpinn nokkru fyrir hrun. Gullfiskaminni þjóðarinnar – og mitt eigið – var farið að fara verulega í taugarnar á mér og ég vildi geta rifjað upp og minnt á orð og athafnir. Sem ég hef og gert af miklum móð.

Að hluta til stafar þessi ásetningur af eðlislægum áhuga mínum á sögunni og því, sem gerði íslenska þjóð að því sem hún er í dag. Ég var ekki nema rúmlega tvítug þegar ég fékk áhuga á ættfræði og þá fyrst og fremst mínum eigin ættum. Þá var ekki til Espólín, hvað þá Íslendingabók… reyndar engar einkatölvur – og maður þurfti að fara á Landsbókasafnið til að afla sér upplýsinga, grúska í manntölum og slíku og skrifa hjá sér upplýsingar úr ættfræðiritum.

Mæðgin á Alþingishátíðinni á Þingvöllum 1930

Á Alþingishátíðinni á Þingvöllum 1930

Þegar ég eignaðist soninn og varð einstæð móðir 24 ára gömul hugsaði ég til föðurömmu minnar. Hún eignaðist pabba utan hjónabands árið 1918. Ég hellti mér yfir Aldirnar, sem ég hafði ekki lesið síðan ég gleypti þær í mig sem barn, og hóf lesturinn árið 1880. Amma fæddist 1884 og ég sökkti mér ofan í atburði líðandi stundar frá hennar æskuárum, upplifði heimsmynd hennar og veruleika þegar hún var að vaxa úr grasi, rifjaði upp sögurnar hennar og reyndi að gera mér í hugarlund hvernig líf þeirra mæðgina var á fyrri hluta 20. aldar. Bar það saman við mínar aðstæður á seinni hluta sömu aldar. Ég lærði mikið á þessu.

Seinna heimsótti ég fjörðinn hennar ömmu við Ísafjarðardjúp, þar sem hún fæddist og ólst upp. Stóð inni í fjarðarbotni og horfði út í átt að Djúpinu. Snæfjallaströndin handan Djúps lokaði útsýninu við fjarðarmynnið og fjöllin gnæfðu yfir manneskjunni sem fann fyrir smæð sinni í stórfengleika fjallanna og fjarðarins. Vegir voru engir þegar amma mín ólst þarna upp og fólk þurfti annaðhvort að fara leiðar sinnar með bátum þess tíma eða ganga yfir fjöll og firnindi. Annað en nú til dags þegar fólk þeysir á sínum fínu bílum um malbikaða vegi þvers og kruss um landið og heldur að þetta hafi alltaf verið svona.

Tvær langömmur mínar, sú í firðinum við Djúp og hin í dalnum við Önundarfjörð, eignuðust ellefu börn hvor. Hjá annarri komust tveir synir til manns og eignuðust afkomendur. Hjá hinni komust þrjár dætur á legg og eignuðust afkomendur, en ein þeirra lést kornung frá ungum börnum og eftir voru tvær. Hin börnin þeirra létust á ýmsum aldri af ýmsum ástæðum eða voru andvana fædd. Synirnir drukknuðu gjarnan ungir við róðra. Þetta var veruleiki formæðra okkar og forfeðra um allt land fyrir ótrúlega skömmu síðan. Veruleiki við harðneskjulegan kost og óblítt veðurfar á harðbýlli eyju.

Skötufjörður við Djúp - Ljósm. Jónas Guðmundsson 1999

Skötufjörður við Djúp - Ljósm. Jónas Guðmundsson 1999

Þegar ég eignaðist Espólín-ættfræðiforritið hans Friðriks Skúlasonar komst ég aldeilis í feitt. Ég gleymdi mér gjörsamlega við að skrá inn heilu ættfræðiritin og var jafnáhugasöm þótt þau tengdust sjálfri mér ekki neitt. Við þessa iðju lærði ég svo margt, skildi enn meira og öðlaðist ennþá dýpri tilfinningu fyrir fortíðinni. Fyrir lífsbaráttunni, aðstæðunum, lífsháskanum, barnadauðanum, missinum og fórnunum. Maður les nefnilega svo miklu fleira út úr ættfræðiritum en nöfn og fæðingardaga.

Skömmu síðar eignaðist ég Vestfirska slysadaga – tvö bindi sem segja frá slysum á Vestfjörðum frá 1880 til 1940. Ég skrökva því ekki, en ég las þessar bækur upp til agna frá A til Ö eins og sögubækur. Frá blaðsíðu til blaðsíðu. Stundum varð ég að hætta lestrinum því ég sá ekkert fyrir tárum.

Um svipað leyti kom út bók sem er líklega með þeim betri sem ég hef lesið. Hún snerti mig óhugnanlega djúpt. Það var bókin Meðan nóttin líður eftir Fríðu Á. Sigurðardóttur, sem nú er nýlátin. Ég las hana tvisvar með stuttu millibili og hef lesið hana tvisvar eða þrisvar síðan. Lánað hana mörgum, gefið hana enn fleirum. Fríða segir þar sögu sex kynslóða íslenskra kvenna og saga þeirrar fyrstu hefst í afskekktri vík. Eins og saga formæðra minna og – ef út í það er farið – okkar flestra.

Ljósmyndasafn Reykjavikur - Skafti Guðjónsson

Ljósm.safn Reykjavikur - Skafti Guðjónsson

Oft er sagt að nútíminn hafi haldið innreið sína á Íslandi í upphafi síðari heimsstyrjaldarinnar. Að þá hafi Ísland loks orðið hluti af alþjóðasamfélaginu. Það má til sanns vegar færa þótt það sé nokkur einföldun. Móðurafi minn á Ísafirði upplifði atvinnuleysið í kreppunni miklu. Hann neyddist jafnvel til að sækja vinnu alla leið suður til Reykjavíkur á stundum þegar ekkert annað var að hafa. Hann var ekkill með þrjú lítil börn og þurfti að setja dótturina í fóstur. Afi hafði misst konuna sína, ömmu mína, úr berklum þegar yngsta barnið var tveggja ára. Móðir hans, langamma mín, annaðist drengina tvo sem báðir létust ungir – líka úr berklum. Foreldrar mínir uxu báðir úr grasi fyrir stríð og upplifðu því Ísland áður en það upplifði nútímann. Þau voru alin upp við lítil efni og voru alla tíð mjög nægjusöm. Efnislegar eignir áttu þau litlar, en því meira af skilyrðislausum kærleika og alltumvefjandi umhyggju.

Samskipti kynslóðanna eru öllum nauðsynleg. Börn þurfa að vera með öfum og ömmum og helst langöfum og langömmum til að fá samhengi og samfellu í tilveruna, læra af þeim sem eldri eru og tengja nútímann við fortíðina. Því nútíminn er byggður á fortíðinni. Hann varð ekki til í gær.

Ég er ekki vön að skrifa um sjálfa mig og hef nú gert meira af því en mér þykir góðu hófi gegna. En tilgangurinn er sá, að hnykkja á upplifun minni af hruninu. Ég held að við hugsum flest um okkur sjálf, börnin okkar og barnabörnin þegar við tölum um og reiðumst því og þeim sem orsökuðu hrunið. Við hugsum um nútímann og framtíðina. Það er sjálfsagt og eðlilegt. En í huganum og hjartanu geng ég skrefi lengra og hugsa um fortíðina líka. Um allt fólkið á liðnum áratugum og öldum sem lifði á þessu landi við þröngan kost og lagði ótrúlega hart að sér til að lifa af og koma börnum sínum á legg. Formæður okkar og forfeður. Ég hugsa um langömmur mínar sem hvor um sig mátti sjá á eftir 9 af 11 börnum í gröfina – ýmist vota eða þurra. Ég sé þær í anda þerra tárin, harka af sér og halda áfram – hinna barnanna vegna. Þær áttu ekki annarra kosta völ. Ég minnist kvennanna í bókinni hennar Fríðu – drauma þeirra og vona um að næsta kynslóð myndi öðlast það sem þær öðluðust aldrei.

Kröfuganga kvenna 1975

Kvennafrídagurinn 1975

Þetta fólk, formæður okkar og forfeður og lífsbarátta þeirra er það sem við byggjum nútímann á. Baráttu þeirra fyrir betra samfélagi, kosningarétti, ellilífeyri, heilsugæslu, skólum og menntun fyrir alla – háa sem lága; verkföllum til að krefjast betri kjara, skaplegs vinnutíma, veikindadaga, launaðra sumarleyfa… og þannig mætti lengi, lengi telja. Við eigum lífsgæði okkar þessu fólki að þakka.

Það er meðal annars af takmarkalausri virðingu fyrir því og hetjulegri baráttu þess sem ég hef alla tíð verið andsnúin einkavæðingu grunnstoða samfélagsins – hvort sem um er að ræða heilsugæslu, menntunar, hita- og orkuveitna eða hverju því sem nauðsynlegt er til að lifa af í þessu landi við þokkalegan aðbúnað og á sæmilegum jafnréttisgrundvelli.

Ég fyrirlít af öllu hjarta hugmyndir þeirra sem tala fjálglega um meint „frelsi“ til allra hluta – en meina í raun frelsi þeirra efnameiri til að græða og níðast á hinum efnaminni. Þeirra sem vilja að frumskógarlögmálið gildi um alla hluti – að hinir „hæfari“ lifi af – sem í raun þýðir að hinir spilltu og gráðugu verða ofan á en hinir heiðarlegu og nægjusömu verða undir.

Ég upplifi því glæpi hrunverja ekki bara sem glæpi gegn okkur sem lifum í nútímanum og afkomendum okkar í framtíðinni – heldur ekki síður sem glæpi gegn og ótrúlega vanvirðingu við hið þrautseiga, kjarkaða en auðmjúka fólk sem byggði Ísland í árhundruð. Fólkið sem lagði grunninn og skóp þau lífsgæði sem við njótum í dag. Fólkið sem barðist fyrir draumi um framtíð sem rættist – en var síðan eyðilögð af spilltum, valdasjúkum stjórnmálamönnum og gráðugum fíflum sem svifust einskis í ásókn sinni í fánýtan, sjúklegan munað sem manneskjan hefur enga þörf fyrir.

Banka- og viðskiptamenn tæmdu bankana og rændu þjóðina. Þeir eru sekari en andskotinn. En þeir gerðu það ekki fyrr en þeim hafði verið gert það kleift af vægast sagt misvitrum stjórnmálamönnum og hugmyndasmiðum sem innrættu þjóðinni sérgæsku og eiginhagsmunahyggju. Hömruðu látlaust á meintri nauðsyn einka(vina)væðingar allra þátta samfélagsins – einka(vina)væðingar alls þess sem formæður okkar og forfeður höfðu byggt upp með blóði, svita og tárum í þágu samfélagsins alls. Margir þessara stjórnmálamanna fengu ríflega greitt fyrir vikið og sumir eru enn við völd og neita að víkja. Þeir neita að hætta þótt þeim hafi verið sagt upp störfum. Mikil er skömm þeirra, vansæmd og vanvirðing við nútíð, framtíð… og fortíð.

Við verðum að byggja upp nýtt og betra samfélag, það er ljóst. En við verðum að byggja það á traustum, samfélagslegum grunni, ekki feysknum ímyndunum ójafnaðarmanna sem hugsa ekki um annað en eigin rass og vasa – og vina sinna, klíku- og flokksbræðra. Ég minni á kjarna þeirra hugmynda – þá firru sem var grundvöllur þess sem hrunið byggir á.

Hannes Hólmsteinn Gissurarson – Ísland í dag 13. september 2007

Hvernig getur nokkur hugsandi, skynsöm, samfélagslega þenkjandi manneskja X-að við D  – eða B – í sveitarstjórnarkosningunum sem fram undan eru? Það er mér hulin ráðgáta. Við megum aldrei gleyma því að flokkurinn ræður – ekki fólkið.

Flokkar: Bloggar

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Ummæli

  • Erlingur Loftsson

    Eins og skrifað út frá mínu aldna hjarta. Tek undir gamla máltækið:“ Að fortíð skal hyggja,er framtíð skal byggja“.- E.L.

  • Kristján G. Kristjánsson

    Takk fyrir þennan pistil.

  • Frábær pistill og takk fyrir hann! Ég hef margoft hugsað það sama en ég hef líka margoft hugsað til þeirra sem ólu þessa menn upp! Hvað klikkaði þar?

  • Ingibjörg Ágústsdóttir

    Frábær pistill sem snerti mig djúpt.

    Sjálf hef ég heyrt margar sögur af lífsbaráttu forfeðra minna á Hornströndum. Fortíðinni megum við ekki gleyma, né því hvernig eru tilkomin þau lífsgæði sem við höfum þó í dag.

    Takk kærlega fyrir mig.

  • Haraldur Finnsson

    Þakka þer fyrir frábæran pistil. Ekki sá fyrsti. Viðbrögð margra valda mér vonbrigðum. Af hverju er svona margir enn innilokaðir í flokkunum sínum. Sjá allar flísarnar í augum annara flokka…… Auðvitað eru þeir sem sekir eru í öllum flokkum. Við getum þrasað endalaust um hvar þeir séu flestir – eða fæstir. Vissulega þarf að gera upp málin við þá hvar í flokki sem þeir standa. En þjóðin þarf að gera upp við sig hvaða siðferðisviðmið eiga að gilda hjá þjóðinni. Erum við ein þjóð þar sem allir eiga jafnan rétt, jafna möguleika burtséð frá ætterni, stjórmálaflokki eða búsetu eða viljum við eitthvað annað. Og þá hvað ? Þá væri fínt að byrja á að skilgreina orðið frelsi sem var svo mikið flaggað fyrir hrunið. Frelsi fyrir hverja ? Til hvers ? Var það frelsi einhverra útvaldra til að stela, mismuna, misnota, kúga, þagga niður? Hver úthlutaði þessu frelsi og til hverra ?

  • Erna Kristín

    Einlægur og fallegur pistill sem setur hlutina svo sannalega í samhengi. Takk kærlega fyrir mig.

  • Heiða Björg

    Ég vildi að ég gæti komið hugsunum mínum svona vel frá mér eins og þú Lára Hanna.

    Jafnaðarmenn verða að sameinast nú, kerfið í bæði S og VG er allt öðruvísi en í gömlu flokkunum. Þar er samráð og fólkið er flokkurinn !
    Ef það væri mögulegt að ríkið gæti ákveðið að færa niður húsnæðislán þá hefði það verið gert. Ríkið á ekki þessi lán og hefur aldrei átt og með því að ákveða það hefði ríkið þurft að borga til baka til kröfuhafa og við þurft að borga í gegnum skatta.
    Þetta er ÓSANNGJARNT þetta er ÖMURLEGT og bitnar á þeim sem síst skildi. En það eru ekki bara glæpamennirnir í bönkunum og fyrirtækjunum sem eru sekir heldur líka hundað ára gömlu valdaflokkarnir sem úthlutuðu þessum peningum til SINNA MANNA ! og sköpuðu hugmyndafræðina og þjóðfélagið til að hinn „frjálsi markaðir fengi að blómstra“ og svo fór sem fór !!

    ALLIR í B og D benda á samfylkinguna núna og það er eðlilegt því þar á bæ vill fólk ekki viðurkenna eigin sekt.
    EN þó að allt sem samfylking hafi gert hafi ekki verið fullkomið og sumt sé allrar gagnrýni vert þá þurfum við að muna að samfylkingin 10 ára lýðræðislegur flokkur.
    Við erum með nýjan formann sem alltaf varaði við stærð bankanna og frjálshyggjukórnum !
    við erum með nýjan varaformann og flesta nýja þingmenn af öðrum flokkum. Við erum með umbótanefnd sem fólk er í alls staðar af á landinu og þar mun verða tekið á þeim sem ekki hafa unnið samkvæmt jafnaðarmannastefnunni eða sofið á verðinum..
    Samfylkingin er flokkur fólks en ekki stofnun sem stýrir fólki.

    takk fyrir mig

  • Takk fyrir að deila þessu með okkur öllum!

  • Sveitadrengur að austan

    Þessi grein er skrifuð af skilningi, réttlætiskennd og heitum huga, Lára Hanna, og ég er sammála þér: „að fortíð skal hyggja ef frumlegt skal byggja“ – og sá sem ekki þekkir fortíð sína og sögu þjóðar sinnar villist af leið.

  • Góður pistill. Alveg eins og talaður út úr mínum munni og ef ég væri svona ritfær hefði ég get skrifað svipað pistil.

  • Guðni Gunnarsson

    Þetta er frábær grein Lára Hanna.

  • Góð skrif.

  • Mér finnst sannur þessi póstur hjá þér.
    Við hugsum ekki oft um þennan hóp sem voru bara 2-3 kynslóðum í burtu.
    Fólk sem þurfti að byggja upp þetta land úr engu. Fórna öllu. Týna heilsu og börnum til að hér mætti verða þjóðfélag sem einhvers virði var.
    Svo núna, sjáum við að þessum hópi hefur verið gleymt. Eða alla vega ekki minnst sem skyldi.
    Takk Lára Hanna fyrir þarfa umfjöllun. Svo sannarlega ekki í fyrsta skipti.
    Erla

  • Rúnar Vernharðsson

    Flott grein hjá þér.

  • Kærar þakkir, góður pistill og ekki síðri í talaðri útgáfu í morgun.
    Hef svo oft hugsað um það á síðastliðnum árum hvað við erum gleymin. Hin ýmsu réttindi og kjör sem við höfum, það bar okkur það enginn á silfurfati, það þurfti að sækja þetta með samstöðu og þrautseigju. Jafnvel fórnum, sem færðar voru til að næstu kynslóðir fengju að njóta. Það er hins vegar greinilega auðveldara að eyðileggja en byggja upp. Það er það sorglega.
    Lítilmennin velja að standa á herðum annarra til að sýnast stór. En þá er bara að taka áskoruninni, hrista þau af sér og hugsa til þeirra sem þú talar um í pistli þínum. Það fólk það skilið af okkur.
    Og öðruvísi eigum við ekki skilið virðingu barnabarna okkar.

  • Takk fyrir frábæran pistil. Við eigum flest svona fjölskyldusögu, um formæður og forfeður sem misstu börn og jafnvel maka líka, þurftu í versta falli að horfa á heimilið leyst upp og vonuðu að framtíðin yrði betri.

    En varðandi flokkana, þá er það alveg á hreinu hverjir bera LANGMESTA ábyrgð á hruninu hér. Bankahrunið var óumflýjanlegt árið 2006, það kemur alveg skýrt fram í rannsóknarskýrslunni. Hverjir voru þá við stjórn og höfðu verið um áraraðir? Jú, Sjálfstæðisflokkur og Framsóknarflokkur. Það er sagnfræðileg staðreynd, sem verður ekki mótmælt.

  • Þessi vel skrifaði pistill snart mig djúpt, ekki síst af því að amma mín er líka fra Skötufirði og hennar foreldrar báðir. Ekki veit ég samt hvort við erum skyld.

  • MargrétJ

    Þakka þér fyrir fallegan og mjög svo fróðlegan pistil. Ég ætla að prenta hann út og láta dætur mína lesa hann. Langalangalang afi minn var prestur og í Móðuharðindunum þurfti hann sjálfur að grafa eiginkonu sína og 9 börn af 11! Hræðileg örlög og hörmungarnar sem hafa dunið á þessari þjóð í gegnum aldirnar, hafa efalaust verið samverkandi þættir í því að hrunið var mögulegt á okkar tímum.
    Kynslóðirnar eru algerlega komnar úr tengslum við hvor aðra. Börn og gamalmenni eru í gæslu á meðan við hin erum í vinnu. Þ.e.a.s., þeir, sem eru svo heppnir að hafa vinnu.
    Stjórnvöld eru hins vegar ekki bara úr tengslum við yngstu og elstu kynslóðirnar, heldur allan almenning. Ég segi eins og einhver hér að ofan. Það verður aldrei sátt í þjóðfélaginu ef við eigum að greiða peninginga (vil ekki kalla þetta skuldir því þetta eru ekki skuldir), sem búnir eru til með rangri stærðfræði.
    Þetta eru tilbúnar tölur svo almenningur geti að fullu greitt inneignir efnamanna, með íbúðarlánum okkar. Slíkt óréttlæti er ekkert annað en þjófnaður.
    ALLIR flokkar líka VG og Samfylking standa að þessum þjófnaði.
    Hvernig þetta fólk getur sofið er mér hulið – hvað þá horfst í augu við börn sín og barnabörn. Ég get heldur ekki skilið hvernig nokkur manneskja getur sett X við Samfylkingu og VG frekar en Sjálfstæðisflokkinn og Framsókn. Stjórnmálaflokkar eru ónýtir hér á landi og brýn þörf á að við fáum fólk til að koma núverandi ríkisstjórn og þingmönnum burt. Hér þarf nýtt fólk, nýja sýn og við verðum að hætta að hyggla eignafólki endalaust í þessu landi. Þessi eignatilfærsla, sem og kvótaeignafærslan er verknaður má aldrei gleymast og sagan mun geyma nöfn þeirra einstaklinga, sem fyrir þessum eignatilfærslum standa. VIÐ getum séð til þess og við skulum sjá til þess með að skila auðu í kosningunum sem framundan eru.

  • Hvað með hið léttvæga dótturfélag Baugs.. sjálfs samfylkinguna????

    Ef menn vilja hyggja að fortíðinni, ættu menn að hlaupa af öllum lífsins sálarkröftum frá samfylkingunni og jafnvel til flokka sem ekki eru jafn harkalega múlbundin Baugi.

  • Vel gert hjá þér að upplýsa okkur stöðugt hvað þau sögðu í gær og sem þau vona að við höfum gleymt í dag. Láttu okkur vita þegar þú finnur einhvern sem er samkvæmur sjálfum sér út í gegn og hefur eitthvað vit á því sem hann er að tala um. Fréttamiðlar Íslands mættu taka þig sér til fyrirmyndar í vinnu sinni.

  • Vel gert hjá þér að upplýsa okkur stöðugt hvað þau sögðu í gær og sem þau vona að við höfum gleymt í dag. Láttu okkur vita þegar þú finnur einhvern sem er samkvæmur sjálfum sér út í gegn og hefur eitthvað vit á því sem hann er að tala um. Fréttamiðlar Íslands mættu taka þig sér til fyrirmyndar í vinnu sinni.

  • Sólveig Björg

    Þakka þér frábæran pistil! Þetta er svo satt og rétt – þarf endilega að koma fyrir augu sem flestra. Sammála með myndbandið!

  • Ingibjorg

    Takk fyrir pistilinn Lára Hanna, málefnaleg ertu að vanda og setur hlutina í samhengi við fortíð, nútíð og framtíð.
    Nútíðin er mörgum ansi þung í skauti, það sést vel á þeim athugasemdum sem settar hafa verið fram hér. Mér finnst sumt fólk sem hér skrifar ekki aðeins vera reitt, það er biturt og stundum fullmikið sérhagsmunasinnað fyrir minn smekk – það var brotið á mér – og það skal einhver fá það borgað.
    Sjálf er ég jafnaðarmaður, hef stutt Samfylkinguna og mun gera það áfram. Samfylkingin ber vissulega ábyrgð á þeirri stöðu sem við erum í núna og hana talsverða. Mitt fólk var í ríkisstjórn á hæstu hæðum bólunnar og mitt fólk svaf á vaktinni þegar þjóðarskútan strandaði. Einhverjir úr mínum flokki hafa axlað ábyrgð en ekki allir og þar vildi ég gjarnan að mitt fólk liti meira út úr rammanum og endurskoðaði afstöðu sína. Ég kem þeirri skoðun minni á framfæri hvar sem ég get og dreg ekkert undan.
    Níð, fordómar, fyrirlitning, reiði, úthrópanir og formælingar munu ekki koma okkur neitt nema dýpra í holuna sem við erum nú í. Það er mikilvægt að fólk muni það sem hefur gerst, við þurfum að muna einkavæðingu bankanna og afhendingu kvótans, við þurfum að vita hvernig farið var með þessa sameign okkar. Við þurfum að standa vörð um það sem eftir stendur, orkulindirnar, vatnið og lífeyrissjóðina. Ekki okkar vegna sem lifum í nútímanum heldur vegna þeirra sem byggðu þetta þjóðfélag og lögðu grunninn að þessu öllu og ekki síður vegna þeirra sem á eftir koma.
    Offors, reiði og hatur hjálpa ekki.
    Með bestu kveðju,

  • Baldur T.

    Takk fyrir frábæran pistil Lára Hanna. Formæður þínar horfa eflaust stoltar til þín úr „sumarlandinu“.

  • Kolbrún Valvesdóttir

    Takk Lára Hanna fyrir frábæran pistil! Fyrri hlutinn minnti mig á bók Jóns Kalmans Stefánssonar, Himnaríki og helvíti. Myndbandið í seinni hlutanum ætti að vera skylduáhorf í 10. bekk grunnskóla næstu árin.

  • Orð í tíma töluð. Hjartanlega sammála þér! Við megum vera stolt af fólkinu okkar sem byggðu upp þetta samfélag með svo miklu meiri auðmýkt en við höfum nokkurn tíman þurft að sýna. Skömm af því að við skulum ekki bera meiri virðingu fyrir fortíðinni og fólkinu sem kom okkur til manns.
    Einkavæðing á grunnstoðum samfélagsins er ekkert annað en svik við hinn almenna borgara og grefur undan velferðarkerfinu. Þessi takmarkalausa markaðsvæðing elur af sér spillingu og meiri spillingu þar sem frumskógarlögmálið eitt gildir og réttlæti og virðing er fótum troðið.

  • Bergljot Aðalsteinsd

    Kærar þakkir ég er djúpt snortin að lesa þessa grein þú ert frábær!!

  • Hrefna Björt

    Algerlega Lára Hanna, ég og mínir lesum þig alltaf, þú hefur lag á því að byggja upp skilning á kjarna málsins, svo að innihalds punkturinn skilar allveg innað beini.
    Ég vona innilega að þeir sem hafa mestan skaða gert lesi greinarnar þínar stundum.

    Þakka fyrir mig & þessa virkilega vel skrifuðu grein, þetta er í fyrsta skipti sem ég kommenta, þú ert brilliant penni með afbrigðum og skín í gegn satt og sanngjarnt hjarta.

  • Herdís H. Schopka

    Þetta er held ég albesti pistill sem þú hefur nokkru sinni skrifað og er þá langt til jafnað. Þú sýnir okkur ekki bara samhengið heldur hið stóra samhengi. Takk!

  • Ragnheiður

    Oft var þörf en nú er nauðsyn.
    Ætla loksins að láta verða að því að gauka að þér lítilræði á reikninginn þinn. (Vona að fleiri sjái sér fært að gera það líka!!).
    Þú ert hreint óborganleg Lára Hanna.

    Mesta furða að allir fréttagúrúar og afdankastjórnmálamenn hneigi sig ekki þér til heiðurs.
    Þú ert hrein manneskja og tær og hefur svo oft bjargað deginum fyrir mig þegar fréttir eru annarsvegar.

    Ef ég mætti ráða værir þú á fullum launum og búin að fá riddarakrossinn fyrir þitt framlag fyrir og eftir hrun.
    En svo merkilega vill til að sumir (karlar) virðast geta hlaðið á sig þáttum í sjónvarpi og fengið fyrir það góð laun, en þú (konanI gerir allt í sjálfboðavinnu. Hvar er réttlætið þar? Væri ekki gaman að sjá breytingu þar á? Hvað segið þið hin um það?

    Takk og aftur takk fyrir mig!

  • Takk fyrir frábæran pistil…

  • Þú ert snilld. Takk fyrir þetta. Komst svo sannarlega við hjartað í mér.

  • Arnar Helgi.

    Vá Lára , þetta hlýtur að vera einn besti pistill um þessi mál sem ég hef lesið.

    Er orðlaus eiginlega….

  • Arnór Valdimarsson.

    Nákvæmlega sammála Blár 13.5 2010 kl. 22:53.

    En með því að kjósa fólk en ekki flokka, getum við betur og hraðar vinsað út þá sem eru í framboði fyrir sig og flokkana, frekar en fólkið sem kýs það.

  • Éf fyrirlít ekki lýðræðið þó einhverjir misnoti það, ég gerist ekki fráhverfur samvinnu og jafnrétti þó einhverjir notfæri sér það, sínum eigin hagsmunum til framdráttar.
    Steini J. : Við getum aldrei tryggt að krimmar notfæri sér ekki fagrar hugsjónir til að dylja eigin græðgi eða vinna samfélaginu tjón. Þeir geta stolið peningunum okkar en þeir geta aldrei tekið hugsjónirnar frá okkur.

  • Lára Hanna: Mögnuð grein sem sýnir að enginn þekkir betur íslenska þjóð en þú!

    Björn S. Lárusson: Ég er alveg sammála þér, föður þínum og afa um samvinnu, félagshyggju og jöfnuð og get meira að segja bætt við að ég tel að íslenskri þjóð ber að framleiða eins mikið af matvælum eins og hún mögulega getur og ber að styrkja það gegn óhaghvæmni íslensks veðurfars og erlendra niðurgreiðslna.

    En þér að segja: Aldrei nokkurn tíma hefur mér dottið til hugar að kjósa Framsóknarflokkinn þar sem þar þar fer svo augljós hagsmunagæsla valds fjármagns – vissulega ekki eins spillt og hjá Sjálfstæðisflokknum.

    En okkur greinir greinilega á hvor er verri Framsóknarflokkur eða Samfylking.

    Hvernig förum við að því að tryggja að Samvinna, félagshyggja og jöfnuður verði ráðandi á Íslandi án þess að önnur öfl misnoti þau til þess að koma sínum sérhagsmunum á?

  • Takk fyrir þennan frábæra pistil! Ekki slæmt að þú skrifir um sjálfa þig meira en þér líkar ef þetta er útkoman!

  • Nú átta ég mig á því hvernig á því stóð að Svanhildur Hólm heillaðist og gerðist framkvæmdastjóri þingflokks Sjálfstæðisflokksins.

  • Arnór Valdimarsson.

    Lára Hanna. Takk fyrir góða grein.

    Efst í huga mér er þó, að engir flokksmenn hafa þó sýnt það með puttann jafn hátt upp í andlit þjóðarinnar, að „Flokkurinn ræður – ekki fólkið“.
    Heldur en fyrrum Ráðherrar og Alþingismenn samspillingar. Ingibjörg S., Steinunn Valdís og Björgvin G. með því að biðja flokkinn afsökunnar og afláts. En ekki þjóðina sem kaus þau á þing.

    Og já Björn S. Lár. Sannarlega átt þú að yfirgefa þinn gamla flokk, eins og allir aðrir kjósendur 4flokka samspillingarinnar. Hún er ekki að breytast eitt dugg. Við þurfum að sameinast um nýja pólitíska leiðsögn.
    Í nýjum fylkingum, hreyfingum og undir nýrri forystu. Fólks sem er í framboði fyrir þjóð sýna en ekki rotnu leyfar sjálftökuflokkanna fjögurra.

    Utanþingsstjórn Strax. Og stjórnlagaþing fólksins, án aðkomu 4flokka samspillingarinnar.

    Alvöru stjórnlagabreytingar sem fela í sér valdið til fólksins.

    Flokkakerfið drap okkar framtíðardrauma með sjálftöku og einstaklingshyggju.

    Flokkakerfið sveik allar þær fallegu hugsjónir sem standa að baki t.d. Kommúnisma, Framsóknarstefnunnar sem Björn mynntist á og jafnaðarstefnu Kratanna. Lærum af reynslunni.

    Einfaldast er að henda hræjunum og byrja upp á nýtt. Með fólk og einstaklinga að leiðarljósi.

    Persónukjör, þar sem einstaklingar eru í ábyrgð og sýna ábyrgð. Og geta ekki falið sig í pilsfaldi hinar rotnu 4flokka samspillingar mafíu.

    Því Mafía er hún og Mafía skal hún heita. Ekkert hefur breitst.

  • Þorsteinn Úlfar Björnsson

    Ég held að ég hafi aldrei orðið fyrir minnstu vonbrigðum með það sem ég hef lesið eftir þig og oftar en ekki verið meira en hjartanlega sammála.

    En þessi pistill er slík snilld að orðabókin á ekki til lýsingarorð yfir hann. Og ég tek undir með Heiðu, þú mættir gjarnan vera persónulegri oftar. Eins og Borat mundi orða það: „Þeink jú verí næs!“

  • Björn S. Lárusson

    Afi minn gekk í Framsóknarflokkinn 1917. Hann hafði þá ekki kosningarétt. Það var ekki vegna þess að hann hefði ekki aldur til að kjósa. Nei – það var vegna þess að hann var 14 barna faðir (faðir minn sá 13. í röðinni f. 1908) og þurfti að segja sig á sveit – þar með missti hann kosningaréttinn og fékk hann ekki fyrr en 1930. Framsóknarflokkurinn var flokkur afa míns til dánardægurs 1942 og föður míns einnig til hans dánardægurs 1991.

    Á ég að kasta fyrir róða hugsjónum forfeðra minna um samvinnu, félagshyggju og jöfnuð vegna Finns Ingólfssonar og hans pótintáta í Framsóknarflokknum? Eða á ég að endurreisa hugsjónir forfeðrana í flokknum? Á ég að nýta kosningaréttinn sem afi minn hafði ekki stóran hluta ævinnar til að sækja vatnið yfir lækinn í VG eða Samfylkingu sem reist hafa Potemkintjöld um fjölskyldur til þess eins að komast til valda? Spyr sá sem ekki veit.
    Með kveðju

  • Magnaður pistill, kærar þakkir!

    D og B eru jú aðalsökudólgarnir og ég gef ykkur öllum leyfi til þess að henda mér á klepp sem hættulegum sjálfum mér og samfélaginu ef ég mun nokkurn tímann leiða hugann að því að kjósa þessa flokka. Því miður virðast þó hinir flokkarnir ekki eins ólíkir Sjálfsæðisflokknum og Framsókn og maður hefði vonað og vildi jafnvel á tímabili trúa. Ég bendi til dæmis á þetta: http://visir.is/article/20100506/FRETTIR01/2508989 („Ríkið verndar þá fjársterku“), en þótt það hafi verið ríkisstjórn Samfylkingar og Sjálfsæðisflokks sem hafi lofað þessu áður en þeirri ríkisstjórn var hvolft af hásæti sínu, þá voru það flokkar núverandi ríkisstjórnar sem sáu um að koma þessu í gegn, Samfylking í sæng með Vinstri Grænum, Steingrímur og Jóhanna…

  • Alveg frábær pistill hjá þér Lára Hanna. Það besta sem ég hef lesið lengi.

  • Góð grein.

    Væri hægt að segja margt en ég læt nægja að spyrja hvaða íslendingur er svo heimskur að halda því fram að eftirlitsaðilar og hið opinbera hefði ekki löngu fyrir hrun átt að vera farið að skoða málin.

  • Jón Brynjar

    Verulega góð skrif Lára Hanna og það væri gaman ef fleiri mundu skrifa af jafn mikilli innlifun og þú.

    Ég veit hvernig lífið við Djúp er og hef séð hræðilega hluti bæði í Súðavík og á Flateyri og fundið fyrir góðmennsku og hjálpsemi þeirra sem gátu hjálpað og látið af hendi rakna það sem þurfti, þá kom í ljós samhugurinn sem þessi þjóð getur sýnt. Ég hef líka séð góða hluti þar og hvergi er betra að búa en á Vestfjörðum þegar veður er gott og útsýni er til Snæfjallastrandar yfir lygnan sjó. Eins er lífið hart við hinn venjulega mann sem byggir afkomu sína á að sægreifar sjái þeim fyrir vinnu og að kvótinn fari ekki úr byggðarlaginu. Eignaupptakan er og hefur verið gríðarleg t.d á vestfjörðum og hefur staðið yfir lengi og er ekkert nýtt fyrirbæri fyrir það fólk.

    Það er mér til efs að einn flokkur sé eitthvað betri eða verri en annar. Við skulum ekki gera okkur í hugarlund að VG hefði breitt öðruvísi en hinir ef þeir hefðu komist til valda fyrr, þeir eru núna einmitt að sýna klærnar, annað en mátti skilja á þeim fyrir fimm árum síðan. Án þess að vilja afsaka Sjálfstæðis- og Framsóknarflokka, þá held ég að Samfylking og VG séu ekki hót betri. Bjöllusauðurinn hún Ásta Ragnheiður sýnir það með gerðum sínum við níumenningana að engin er afslátturinn þegar á að gera upp fortíðina.

    Þegar kemur að uppgjöri við fortíðina þá er það ekki af vinskap eða velvilja við flokkana og mennina sem komu okkur á hausinn að vilja halda áfram og líta helst ekki um öxl. Það er uppgjöf fyrir vangefnu dómskerfi og lélegum dómum ásamt því að þeir dæmdu geta valsað inn og út úr fangelsunum eins og þeim sýnist. Til hvers er þá barist?
    Íslendingar hafa alltaf verið kúgaðir, alveg frá tólftu öld þegar Norðmenn tóku við völdum á landinu og síðar Danir. Við urðum ekki fullkomlega sjálfstæð þjóð fyrr en Bandaríkjamenn fóru frá landinu með herafla sinn árið 2006.
    Núna þegar við erum að taka okkar fyrstu barnaskref, óstyrk á fótunum, gerum við vitleysur og dettum á rassinn, en við þurfum að standa á fætur aftur og læra að ganga ein og óstudd og það munum við gera. Við skulum ekki gleyma hvað gerðist og hverjir gerðu hvað í hruninu mikla, en við skulum heldur ekki aðeins horfa í baksýnisspegilinn, heldur líka fram á við.

  • Frábær pistill hjá þér Lára, þessir þingmenn sem neita að víkja ættu að lesa þennan pistil og svo
    ættu þeir að skammast sín fyrir hvað þeir hafa gert þjóðini.

  • Afbragðspistill. Þetta mætti samt sem áður gilda um xS og xVG líka. Hugsarðu aldrei hvernig þetta hefði gerst með þá tvo flokka við völd öll þessi ár? Hefðum við ekki farið í sama farveginn? Mismunandi atburðarás ef til vill en sama niðurstaða?
    Fólk getur ekki réttlætt það að kjósa einn af þessum fjóru spilltu flokkum í dag. Það bara getur það ekki. Sérstaklega þegar það hefur val um annan flokk. Þó þú búir í Hafnafirði hefurðu alltaf það val að skila auðu.

  • takk fyrir skemmtileg og fræðandi lesningu,en einsog þú minnist á eru ekki allir tilbúnir að gera upp fortíðina nema þá á sínum forsendum, sem er náttúrulega óásættanlegt þegar í hlut á ríkisbanki einsog þessi,http://www.pressan.is/Frettir/LesaFrett/landsbankinn-jafnvel-manudir-i-uttekt-a-bjorgolfstimanum—mal-verid-send-til-serstaks-saksoknara, sem sennilega geymir mestu leyndarmálin og stærstu afskriftirnar,allavega miðað við að þetta er bankinn sem mokaði lánum í sjávarútvegsfyrirtækin…en bankaleyndin er góð skjaldborg.

  • Anna Margrét Bjarnadóttir

    Hólmfríður það var vissulega mikið ranglæti að ábyrgjast allar innistæðður með þeim hætti sem að ríkisstjórn Haarde gerði, en það réttlætir ekki á nokkurn hátt að heimilislánin séu ekki leiðrétt.

    Ríkisstjórnin verður að átta sig á því að það er algjörlega siðlaust og rangt að telja sér til peningaeignar stærðfræðivilluna. Það er gervi og lygaupphæðirnar sem að hafa bæst ofan á lánin. það eru peningar sem að aldrei hafa verið til. Það að leiðrétta ekki villuna er að stela!!! Það kemur mistökum Geirs Haarde ekkert við. Það er ekki hægt að bera því við að ríkisstjórnin hafi ekki efni á því að leiðrétta heimilislánin. Þeir einfaldlega hafa ekki leyfi til að telja sér ofgreiðslurnar til peninga sem að þeir geti gert tilkall til. Þessir peningar eru ekki til og hafa aldrei verið til. Þannig eru þeir bara að búa til okurskatt á fátækasta hluta þjóðarinnar. Það stríðir gegnu öllu réttlæti.

    Við verðum að átta okkur á því hvað allt virði er orðið brenglað… virði lánasafna, fasteigna og svo framvegis. Hið raunverulega virði erum við sjálf, fjölskyldurnar okkar, börnin, atvinnan, heimilin. Það skiptir öllu máli skjaldborgin utan um þjóðina, fólkið, fjölskyldurnar, börnin okkar, heimilin okkar. Það verður að leiðrétta heimilislánin strax.

    Það hefur valdið mér persónulega gríðarlegum vonbriðgum hvað Samfylkingin og Vinstri Grænir hafa staðið sig hræðilega illa gagnvart þjóðinni og heimilunum í þessari ríkisstjórn. Þá Samfylkingin verr. Þeir hafa komið fram sem hinn versti spillingarflokkur og hafa valdið heimilunum gríðarlegu tjóni fyrir að hafa staðið í veginum fyrir að heimilislánin séu leiðrétt. Það er kanski ekkert skrítið þó að hún Jóhanna ein ríkasta kona landsins búin að vera í 30 ár á ofurlaunum sé ófær um að setja sig í spor þeirra sem að hafa orðið fyrir tjóni í kreppunni. Þessi ,,míta“ sem að hún hefur búið til utan um sjálfa sig að hún berjist fyrir ,,þeim sem minnst mega sín“ er fallin. Það eru allir búnir að sjá það núna að sú ,,míta“ var INNANDTÓM LYGI!!

  • Jón Kr. Arnarson

    Þetta er svo góður pistill að ég á ekki til nógu sterk orð.

    Eftir þennan lestur getur enginn tekið sér í munn orðið Frjálshyggja örðuvísi en sem skammaryrði.

  • Þröstur Jóhannesson

    Gamall húsgangur frá 17.öld

    Níu á ég börn og nítján kýr,
    nær fimm hundruð sauði,
    sex og tuttugu söðladýr
    svo er nú varið auði.

    Níu á ég börn og nítján kýr,
    nær fimmtíu sauði,
    sex eru eftir söðladýr
    svo er nú komið auði.

    Góður pistill hjá þér Lára Hanna

  • Björn Leví

    og þegar allt þetta dauða fjármagn út um allt hefur lifnað við hvað þá? Hvernig geta peningarnir vaxið eftir það?

    … á eðlilegan hátt? Þá vil ég bara spyrja, veit þetta fólk hvað eðlilegur vöxtur er?

    smá vísbending, eðlilegur vöxtur er knúinn af sólinni…

  • Algjörlega frábær pistill Lára Hanna 🙂

    Það hefur oft flogið í gegnum huga mér undanfarin ár að spilltir stjórnmálamenn og útrásarlúðar, viti hreinlega ekki hvað ættjarðarást er.

  • Glæsilegur pistinn Lára Hanna – það er nauðsynlegt og gott að muna það sem þjóðin hefur gengið í gegnum og skoða framtíðina í því ljósi. Takk.

  • Ragnheiður

    Afar góður pistill Lára Hanna. Ég hef einmitt staðið í riflildi undanfarið við fólk sem finnst alltof hart gengið að „þessum“ mönnum og mér er fyrirmunað að skilja hvaða hugsunargangur er þar á ferð. Þessir viðmælendur mínir eru jafnvel fólk sem hefur sjálft misst mikið í hruninu. Það er eins og sumum finnist þessir menn of FÍNIR til að lenda á Hrauninu!! Úff, ég þarf að draga andann MJÖG djúpt þegar ég hlusta á svona raddir…

  • Sæmundur

    Glæsileg skrif.Ég er innilega sammála þér í þessum skrifum.Við stöndum frammi fyrir mjög stóru verkefni og við verðum að fara allstaðr inn og hreinsa út. Við megum ekki horfa bara í eina átt.Við verðum að hreinsa út úr öllum skúmaskotum,smáum sem stórum ,ja það mun taka tíma en réttlætið verður fram að ganga til þess að sálarlíf okkar geti náð sátt og jafnvægi.Þú mátt ekki gleyma Samfylkingu og VG. Sjáðu aö t.d situr Össur sem fastast þrátt fyrir styrki,hlutabréfabrask og vafasama gjörninga aðstoðarmanns þar sem hann sækist eftir alþjóðlegum styrk til rannsóknarverkefna. Við þurfum ekki fleiri sem leggjast á þá ár að ata okkur drullu og skít erlendis með gjörðum sínum. Hvað með Árna Þór hvaða braski átti hann í með SPRON og hvaða tengingar á hann inn í Kaupþing? Þetta er ótrúlegt á meðan Össur situr sem fastast er verið að ræða um að reka Rögnu.Það sem ég er að segja er að við verðum að taka til frá efri millistjórnendum og upp úr. Því miður er það þannig. Í öllum ráðuneytum,alþingi,borgarfyrirtækjum þarf að skoða alla þá gjörninga sem gerðir hafa verið. Í bönkunum þarf að athuga afskriftir þar sem eigendur standa eftir með skuldlaus fyrirtæki.Hér var farið í stórkostlega fjármagnsfluttninga frá almenningi yfir á banka,leyrissjóði,fjármagnseigendur og Íbúðalánasjóð.Þennan þjófnað ber að leiðrétta strax.Það er með ólíkindum að fólkið í landinu þurfi að berjast með hörku fyrir þessu og á sama tíma setur þessi ríkissjórn bílamál í forgang. Auðvitað þarf að taka til í þeim viðbjóði sem hefur liðist þar hjá þessum fyrirtækjum þar sem þeir taka bíla til sín fyrir smáaura í skjóli upploginna reikninga t.d ryki á mælaborði eða einhverju jafn fáránlegu. En húsnæðismál eiga að ganga fyrir.Við verðum að taka til í öllum flokkum, hreinsa algerlega út, varamenn líka.Við megum ekki detta í þá gryfju að það sé allt í góðu í okkar flokki. Þetta hrun teygði anga sína inn í alla kima.

  • Takk fyrir þetta. Fallegur pistill.

    Mjög gott að skoða hlutina í stærra samhengi.

  • Amen við þessu. Það má aldrei, aldrei, aldrei gleymast að „FLokkurinn ræður“. Þetta á við um fjórflokkinn, hvort sem öllur líkar það betur eða verr, að heyra sinn flokk dissaðan í tætlur.

    Þessi pistill þinn væri holl lesning fyrir veruleikafirrta pólitíkusa og bankabullur, en að þeir komi til með að lesa þetta? Hvað þá taka inn á sig? Nei, þeir eru of skemmdir til þess.

    Ég ætla raunar að bæta við listann þinn, hvað ekki á að X-a við. Það á ekki heldur að X-a við S, þeir voru á vaktinni, en gerðu voða lítið. Og eru enn í því að gera voða lítið, finnst manni.

    Þannig að niðurstaðan er: Ekki setja X við: B, D eða S. (Hvort aðrir kommentarar vilji bæta VG við, það er ykkar mál; ég nenni ekki að elta ólar við slík komment.)

    Þá fer nú að verða fátt um fína drætti. Hvað er í boði? Eigum við að halda áfram að púkka upp á fjórflokkinn? Eða eigum við að breyta alfarið um stefnu? Eigum við að fara að stefna á persónukjör, frekar en flokkana? Það er það sem við ættum að gera… fara að kjósa fólk, en ekki FLokkana, þar sem atkvæði einstaklinsins hefur lítið annað að segja heldur en halda viðkomandi flokki við völd. (Atkvæði hins venjulega manns hefur nákvæmlega engin, ENGIN, áhrif á það hvað FLokkurinn gerir. Allt slíkt er ákveðið á miðstjórnarfundi eða öðrum sambærilegum fundi hjá lítilli valdaklíku.)

    En… nóg um það.

    Hvað er í boði, fyrir fólk sem er orðið þreytt á þessu sífellda hjakki í fjórflokknum, endalausri spillingu og ættartengslum?

  • úff. þetta viðtal við grillmeistarann veitir manni alltaf sama aulahrollinn.
    flottur pistill hjá þér Lára Hanna.
    ertu af Arnardalsætt?

  • Snilld Lára,snilld.

  • Fríða Eyland

    frábær skrif hjá þér eins og alltaf

  • Vaskapumpa

    Foreldrar mínir spyrja bara,,,,hvað ætlar þetta blessað fólk að gera við aurinn.

  • Sæl Anna Margrét. Gullfiskaminni er landlægt á Íslandi. Þegar verðtryggingin var sett á með einu pennasttriki á 9. áratugnum misstu margir allt út úr höndunum og það algjörlega án hjálpar frá nokkrum. Fólk tók líf sitt af skömm, aðrir gerðust fórnalömb og eru jafnvel enn, svo voru einhverjir sem sáu líf eftir gjaldþrot og er ég þar á meðal. Eignaupptaka er ekki ný á Íslandi því miður og ég er ekki að mæla henni bót á nokkurn hátt. Gjafakvótinn var öruggleg miklu stærri eingnaupptaka og það milli landsvæða og byggðarlaga. Það versta er að oftast er verið að færa fé frá þeim efnaminni og til þeirra efnameiri og svo er einnig nú. Sú „stórmannlega“ ákvörðum ríkisstjórnar Geirs H Haarde, með Samfylkinguna innanborðs, því miður, að ábyrgjast ALLAR innistæður, en ekki aað lágmarki ca 10 milljónir, kostði ríkissjóð aukalega um 2000 milljarða TVÖ ÞÚSUND MILLJARÐA sem kemur í veg fyrir að nú sé hægt á myndarlegann hátt að koma heimilunum til hjálpar. Vissulega gríðarleg eignaupptaka, en hvort hún er sú mesta ????

  • Vestfirðingar nutu líka góðs af hvalrekanum og áreyðanlega þínir forfeður og mæður Lára Hanna eins og aðrir.

  • Takk fyrir góðan og fræðandi pistil. Þú ferð aftir til 1880 en þá var mikið harðræði á Íslandi, fólkið orðið um 70 þúsund (var áður mun færra samkv Hagstofunni) og jarðnæði uppurin. Margir að flosna upp og flytja „vestur um haf“. Vorið 1882 höfðu verið mikilir kuldar, grasbrestur og búfjárdauði undanfarin ár. Vesturfarar voru margir að búast til ferðar og hungur víða á heimilium. Þann 20. maí gerði norðaustan stórhríð sem stóð á þriðja sólarhring. Fé var úti og bóndinn á Ánastöðum á Vartnsnesi bað son sinn að fara ofan á bakkana við sjóinn að kvöldi 22. maí og gá hvort fé hefði hrakið þar fram af. Hríðin var þá að mestu gengin niður. Sonurinn kom til baka, hvaðst ekkert fé hafa séð, en Húnaflóinn væri fullur af hafís og um 30 stórir reyðarhvalir fastir í einni kös í ísnum rétt við land. (Voru alls 32)
    Þarna er verið að lýsa hvalrekanum á Ánastöðum og þessi gríðarlega matbjörg reyndist síðan forða mörgum frá hungurduða það sumar á norður og vesturlandi, allt suður undir Reykjavík.
    Bóndinn á bænum stjórnaði verkinu og kom því svo vel fyrir að allir sem eftir þvi leituðu fengu matbjörg. Menn unnu fyrir því með því að fara í hvalskurð og var ákveðið kerfi á því fyrirkomulagi. Hvalskurður stóð frameftir sumri við afar frumstæðar aðstæður í flæðarmálinu við Ánastaði. Menn voru líka frameftir sumri með lestir trússhesta í ferðum milli landshluta með matbjörgina. Vorskipið kom ekki að Norðurlandi og barst ekki kornvara og annað þangað fyrr en um haustið. Matur sumarsins var því að mestu hvalur og mjólk, þar sem hún var til.
    Ég er alin upp á Vatnsnesinu og þessi atburður var enn nokkuð ferskur í minnum á þeim tíma. Er að safna heimildum og hyggst skrifa um þennan merka stórviðburð.

    Þá var KREPPA Á ÍSLANDI og margir dóu þrátt fyrir hvalinn.

  • Áslaug Ragnars

    Afbragðsgrein, Lára Hanna, skrifuð af næmi og skilningi á kjörum almennings og verðskuldaðri fyrirlitningu á óhófi og fíflagangi.

  • Þú hittir mig fyrir eins og venjulega. Takmarkalaust skeytingarleysi og virðingarleysi fyrir fortíðinni og þeim sem byggðu upp þetta land með höndunum. Það er þetta sem ég vil REFSA mönnum fyrir. Þessum hveljukenndu gullætum sem myndu pissa í buxurnar ef þeir stæðu frammi fyrir raunverulegum þrautum og áskorunum. Ég er greinileg nútímaafurð. Verð alveg froðufellandi ef ég passa mig ekki. Mér verður hugsað til formæðra minna og feðra sem allt var alþýðufólk af Vestfjörðum. Ólíkt mér myndu þau öll hafa lagt líf sitt í hættu til að bjarga þessum úrhrökum úr nauð.

  • Hrönn Geirsdóttir

    þú segir allt sem ég vildi sagt hafa, hafðu þökk fyrir og kærar kveðjur.

  • Æðislegur pistill Lára Hanna….takk fyrir mig. Mér finnst að þú mættir gerast persónuleg oftar 🙂

  • Brottfluttur

    Er það ekki meðalhófið sem gildir?

    Hvort hömlulaus einstaklingshyggja að hætti Hannesar Hólmsteins né Sovét-Ísland Indriða Þorlákssonar.

    Hvað varð um heilbrigða skynsemi á Íslandi?

  • Anna Margrét Bjarnadóttir

    Takk fyrir flottan pistil Lára Hanna. Eitt vil ég þó nefna að lokum af því að þú mærir jafnaðarmennina og talar í ljósi sögunnar.

    ,,Jafnaðarmennirnir þínir“ geta samt ekki leyft sér eignaupptöku á fasteignum heimilanna. Þeir verða að átta sig að það varð hér forsendubrestur. Ofgreiðslurnar sem að komu ofan á lánin eru peningar sem að aldrei hafa verið til, peningar sem að fólkið tók ekki að láni eða hefur getað nýtt sér á nokkurn hátt. Um er að ræða púra stærðfræðivillu sem að ber að leiðrétta. Það eru ekki peningar sem að er siðsamlegt eða fallegt af stjórnvöldum að gera tilkall til eða nýta sér til að byggja upp bankakerfið. Það verður aldrei sátt í þessu landi nema að heimilislánin verði leiðrétt.

    Þessi stjórnvöld Samfylkingar og Vinstri grænna eru nú að fremja einn ljótasta glæpinn sem að framin hefur verið í þessu hruni öllu saman, eingarupptakan á fasteignum heimilana. Þeir eru að hirða af almenningi ævistarfið með svindli.

    Samfylkingin kemur í veg fyrir með öllum ráðum að heimilislánin séu leiðrétt. Samfylkingin hefur ekki reynst vera góður flokkur því miður. Þetta er ágjarn spillingarflokkur sem að komst að með því að ljúga sig inn á þjóðina.

  • Sigríður

    Kærar þakkir fyrir góðan pistil. Hann snart mig djúpt.

  • arnar bjarnason

    Glæsilegur pistill Lára Hanna.

    Það er synd að þjóðin lenti í þessari hugarvillu, efnishyggjunni og kapitalismanum, á tímabili. Eins og Black segir, gott að þetta hrundi 2008 en ekki í ár. Það er hræðilegt að hugsa til þess að stór hluti þjóðarinnar þótti fínt að borða gull og eyða umhverfinu á margra tonna jeppum í snatti um bæjinn. Það er hræðilegt með tilvísun til sögunnar, eins og þú gerir, en einnig með tilvísun til annarra landa þar sem fólk á ekki fyrir nauðsynjum.

    Persónulega finnst mér Íslendingar þurfa að ganga í gegnum sjálfsskoðun líkt og ÞJóðverjar gerðu eftir stríðið. Það er hræðilegt sem kom fyrir okkur. Gísli Marteinn, eins bjartur kjáni og hann er verður hættulegur með þessu rugli sem þú vísar í. En gefum honum séns. Ef þú spyrð hann núna, þá væru þetta ekki hans orð.

    Gangi okkur vel sem þjóð.

  • Magga Rikka

    Takk Lára Hanna. Frábær pistill. Ég fæ nú samt aulahroll þegar ég hlusta á HHG. Deili honum á FB síðunni minni.

  • Flottur pistill Lára Hanna sem setur hlutina í samhengi.

  • Takk fyrir þetta Lára Hanna. Auðmýkt er einmitt það sem vantar í þá sem þykjast vera okkur fremri og æðri.
    Kveðja að norðan.

  • Datt engum i hug að spyrja Hannes Hólmstein Gissurarson, hvers vegna sumt fjármagn á að „liggja dautt og óframseljanlegt“? Eða minna hann á skessurnar sem léku sér með fjöreggið? Fyrst með fiskinn og ríkisstofnanirnar. Síðan lífeyririnn okkar. Þvílíkur klappkór og halleljújasamkoma í þessu drottningaviðtali.

    Er skrýtið að við hrundum?

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af sex og átta? Svar:

Höfundur



Eldri færslur

Dagatal

maí 2010
S M Þ M F F L
« apr   jún »
 1
2345678
9101112131415
16171819202122
23242526272829
3031