Laugardagur 19.06.2010 - 08:55 - FB ummæli ()

Kúguð þjóð í tilvistarkreppu

Við erum mest, best, fallegust, klárust, sérstæðust, ríkust… Ísland er nafli alheimsins sem veröldin snýst um. Auðvitað. En ekki hvað? Okkar ellefuhundruð ára saga miklu merkilegri en mörgþúsund ára saga annarra þjóða. Bókmenntaarfur okkar einstakari en Grikkja eða annarra margfalt meiri og eldri. Vitanlega. Við erum jú Íslendingar. En takið eftir: Við erum kúgaðir Íslendingar – ekki frjálsir.

Íslenski fáninn - Mynd DV

Íslenski fáninn - Mynd DV

Það er auðvelt að skilja hvernig Jón Sigurðsson og samverkamenn hans upphófu allt sem íslenskt var þegar þeir hófu máls á mögulegu sjálfstæði þjóðarinnar á 19. öldinni. Einhvern veginn varð að efla sjálfsvitund þessarar kúguðu bændaþjóðar og fá hana til að skilja að hún gat staðið á eigin fótum. Skáldin, sem sum hver sáu sveitina sína í hillingum í gegnum áfengismóðu, hímandi kaldir, hraktir og svangir á hanabjálkakytrum í kóngsins Köbenhavn, ortu ódauðleg og upphafin ástarljóð og hetjukvæði sem notuð voru til að koma vitinu fyrir ómenntaðan lýðinn sem þekkti ekki annað en vinnuþrælkun og kúgun. Skrifaðar voru sögubækur þar sem fortíðin í sveitasælunni var hjúpuð rósrauðum bjarma hins fullkomna lífs í fögrum dal eða firði. Bóndi var bústólpi, Íslandi allt!

En þrátt fyrir langþráð fullveldi og seinna sjálfstæði var eitt af einkennum íslenskrar þjóðar ævinlega þessi undarlega sátt við kúgunina. Það var eins og Íslendingar gætu ekki ímyndað sér líf án kúgunar í einhverju formi. Og þeir kölluðu meira að segja kúgunina stundum „frelsi“. Halldór Laxness varði allri ævinni í að benda á þetta í bókum sínum.

Fjölmargir Íslendingar sem hafa búið erlendis um lengri eða skemmri tíma og kynnst raunverulegu frelsi, réttlæti og sanngirni hafa bent á þann gríðarlegu mun á lífskjörum sem er á Íslandi og í því sem við köllum hinn vestræna heim – sem Ísland telur sig þó hluta af. En allt kemur fyrir ekki. Þjóðarsálin hefur ekki losnað við að því er virðist inngróna viðurkenningu á endalausri kúgun. Hún kyssir vöndinn ítrekað – ár eftir ár, áratug eftir áratug – í þögulu þakklæti og með furðulega ómengaðri virðingu fyrir kúgara sínum. Þegar Íslendingar lýstu sig sjálfstæða þjóð árið 1944 var það í raun aðeins formbreyting – þeir skiptu um kúgara. Skiptu úr erlendri kúgun yfir í innlenda kúgun. Við vorum þjóð í hlekkjum hugarfarsins og erum enn. Lengra nær sjálfstæðið varla. Við erum kúguð þjóð í tilvistarkreppu að reyna að ná áttum.

Þjóð í hlekkjum hugarfarsins

Þjóð í hlekkjum hugarfarsins - heimildamynd

Í aðdraganda dóma Hæstaréttar á miðvikudaginn var merkilegt að fylgjast með væntingum fólks. Flestir voru vonlitlir um að dómarnir yrðu réttlátir gagnvart almenningi í landinu. Það segir sína sögu um hve vön við erum óréttlæti. Því magnaðri var fögnuðurinn þegar dómsúrskurðir voru ljósir og sýnt þótti að loksins – loksins hefði réttlætið náð fram að ganga. Maður fann bókstaflega strauma vonar hríslast um þjóðfélagið og einhvern veginn varð bjartara yfir samfélaginu. Líka því fólki sem átti engra fjárhagslega hagsmuna að gæta sjálft. Það fagnaði réttlætinu sem slíku innilega – fyrir hönd samfélagsins og þeirra sem nú eygðu von um að endurheimta fjárhagslegt sjálfstæði sitt og reisn. Þeirra, sem bankar og lánastofnanir höfðu beitt fáheyrðu ofbeldi og yfirgangi, jafnvel hrakið út á guð og gaddinn vegna atburða sem þeir áttu enga sök á og gátu ekki með nokkru móti ráðið við.

Í gær las ég áhrifamikinn pistil eftir Helga Jóhann Hauksson hér á Eyjublogginu. Ég hef nú lesið hann þrisvar og tárast í hvert sinn. Þessi pistill er skyldulesning, ekki síst fyrir starfsfólk banka, lánastofnana og vörslusviptingarfyrirtækja sem farið hefur offari í innheimtu skulda hjá saklausu fólki. Fólki, sem hefur ekkert á samviskunni annað en að vera kúgaðir Íslendingar í ómanneskjulegu samfélagi þar sem peningar eru Guð dagsins, græðgi og gróðahyggja algilt boðorð eftir áratugalanga innrætingu, stjórn og kúgun stjórnmálamanna. Stjórnmálamanna í FLokkum sem gefa skít í þá sem hafa ekki áhuga á eða samvisku til að sanka að sér misvel fengnu fé. Helst á kostnað annarra. Samt kýs fólk kvalarana, merkilegt nokk.

Eitt af því sem vekur athygli í pistli Helga Jóhanns er tilvitnun í forstjóra einnar lánastofnunarinnar í viðtali í Morgunblaðinu í gær. Hann segir „Orðspor Íslendinga hefur beðið hnekki“, og á þar ekki við hnekki vegna þess að lánastofnanir hafi prangað ólöglegum lánum inn á fólk og borgað starfsmönnum bónusa fyrir lögleysuna. Hann á heldur ekki við hnekki vegna yfirgangs og hörku við innheimtu lána sem hröktu fólk í gjaldþrot eða dauðann. Hann á við að orðspor landsins hafi beðið hnekki vegna þess að einn svívirðilegasti þjófnaður Íslandsögunnar var dæmdur ólöglegur! Hér er viðtalið:

Orðspor Íslendinga beðið hnekki – Morgunblaðið 18. júní 2010

Orðspor Íslendinga beðið hnekki - Morgunblaðið 18. júní 2010

Orðspor Íslendinga beðið hnekki - Morgunblaðið 18. júní 2010

Svo er annar vinkill á málinu – þeir sem héldu kúgunina og ofbeldið ekki út og sviptu sig lífi eftir að lánastofnanirnar hirtu af þeim ævistarfið og aleiguna. Við vitum ekki hve margir þeir eru. En ætli þeir sem gáfu dagsskipanirnar átti sig á að þeir hafa mannslíf á samviskunni? Hafa þeir þann skilning á samfélagi manna og sálræna dýpt til að átta sig á afleiðingum gjörða sinna og græðgi? Átta þeir sig á að dómar Hæstaréttar á miðvikudaginn hafa að öllum líkindum bjargað mannslífum? Skilur núverandi ríkisstjórn að mannslíf glötuðust vegna aðgerðaleysis hennar? Fattar hún hve margir eiga um sárt að binda af því hún hefur ekki beitt því valdi sem hún þó hefur til að afstýra þeim harmleikjum sem átt hafa sér stað í þjóðfélaginu og Helgi Jóhann lýsir svo vel? Maður spyr sig…

Í fyrsta pistlinum mínum hér á Eyjunni 1. desember sl., Hve glöð er vor þjóð, birti ég myndband sem ég hafði gert í minningu þeirra sem höfðu gefist upp og stimplað sig út úr lífinu. Ég tók mjög nærri mér að heyra sögurnar um fólkið sem lánastofnanir höfðu murkað lífið úr í bókstaflegri merkingu. Og maður heyrir aldrei nema brotabrot af þeim því þetta eru ekki málefni sem fólk ber á torg. En ég ætla að endurbirta myndbandið núna – tæpum sjö mánuðum síðar. Ég ákallaði þingið, sem hafði mestar áhyggjur af því að fá ekki matarhlé á meðan almenningur barðist fyrir lífi sínu. Og ég ákallaði þjóðina – sárbað hana að láta ekki óréttlætið yfir sig ganga lengur. Á meðan gerendur hrunsins, sjálfir stórþjófarnir, fengu tugmilljarða afskrifaða var almenningur hrakinn út í dauðann – bókstaflega.

En það sem skelfir mig einna mest er sú staðreynd að enn vill þriðjungur þjóðarinnar kjósa yfir sig alverstu kúgarana sem hjúpa sig blekkingarvef sem þeir kalla „frelsi einstaklingsins“ og er, eins og kemur svo vel fram í pistli Helga Jóhanns, frelsi hinna efnuðu til að kúga almenning. Ekkert annað. Ég fjallaði um það meðal annars hér. Enn fleiri kjósa áframhaldandi kúgun ef hinn helmingakipta-kúgaraflokkurinn er talinn með. Það sýna skoðanakannanir. Sagan og reynslan segja okkur hverjir þessir kúgarar eru og hvert markmið þeirra er: að auðga sig og sína. Skítt með almenning og samfélagið. Það skelfir mig líka að valkosturinn – núverandi stjórnvöld – hafa ekki beitt valdi sínu nægilega vel í þágu umbjóðenda sinna, þjóðarinnar. Þau hafa þvegið hendur sínar af bönkum og lánastofnunum – þeim sömu og hafa hrellt almenning með yfirgangi og lögleysu og jafnvel hrakið fólk út í dauðann. Af hverju? Ég skil það ekki og hef ekki fengið neinar skýringar á því… ennþá.

Hér er fréttasögulegt yfirlit sjónvarpsstöðvanna um hæstaréttardómana og mögulegar afleiðingar þeirra. Auðvitað ná þeir yfir húsnæðislánin líka. En ekki hvað? Og næsta mál á dagskrá: Baráttan gegn verðtryggingunni og hækkun lána af hennar völdum! Verðtryggingin er ekki náttúrulögmál – hún er mannanna verk og örugglega jafn ólögleg og gengistryggingin. Í það minnsta ósanngjörn og óréttlát. Brjótum af okkur hlekkina og hættum að láta kúga okkur!

RÚV og Stöð 2 – 16. júní 2010

RÚV og Stöð 2 – 17. júní 2010

RÚV og Stöð 2 – 18. júní 2010

Flokkar: Bloggar

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Ummæli

  • Guðbjörg Elín

    Lára Hanna, takk kærlega fyrir þennan pistil. Þú ert frábær og hafðu þökk fyrir !

  • Anna Benkovic

    Lára Hanna mín, þú ert snillingur!
    Það verður samt gaman upp a sagnfæðina að sjá framhaldið með dómi Hæstaréttar Íslands haustið (sept 2010) um vaxtakjör ólöglegra lána sem fjallað er um í greininni. Það hlýtur að vera svolítið heimsfréttalegt að segja að samningar standi ekki af hæstarétti þjóðarinnar sjálfrar?

  • Þá er það orðið grímulaust, fyrsta vinstristjórn landsins er fyrir auðhringana.
    Alþýðan éti það sem úti frýs.
    Heimilin máttu hanga í snörunni með 100% hækkun lána. Fjármálafyrirtækin skulu fá skotleyfið endurnýjað.
    Fjórfokkið er dautt, lengi lifi fjórfokkið!

  • haukur kristinsson yngri

    maður verður svo jákvæður eftir að lesa þína pistla, eða þannig,er ekki möguleiki að þú getir komið með smá jákvæðni hérna? eða viltu bara draga fólk niður á þitt plan,(neikvæðni)

  • 1. Fólk sem tók myntkörfulán tók þau ekki til að græða heldur til að spara. Maður á ekki að greiða meira fyrir vöru/lán en maður þarf og myntkörfulán báru hagstæðari vexti en innlend til lengri tíma. Þetta átti að vera góður valkostur fyrir þá sem gætu þolað eðlilegar gengissveiflur og hér var það ekki áhættusækni eða gróðafíkn sem réð ákvörðun, heldur vel útreiknaðar og skynsamlegar ákvarðanir um heimilisfjármálin. Í einhverjum tilvikum voru hreinlega ekki önnur lán en myntkörfulán í boði.

    2. Fólk með myntkörfulán felldi ekki krónuna, bankarnir gerðu það. Bankarnir unnu gegn viðskiptavinum sínum, stunduðu óeðlilega viðskiptahætti OG buðu upp á ólögleg lán. Gengissveiflur voru reiknaðar inn í myntkörfudæmin EN hér varð algjör forsendubrestur. Bankarnir og stjórnmálamenn LUGU til um stöðuna, eigendur bankanna stálu úr þeim og fjármálakerfið hrundi í heild sinni. Þetta heitir forsendubrestur, enda höfðu lántakendur ekki sömu upplýsingar og bankarnir/stjórnmálamenn. Það mætti eins kalla þjóðina í heild sína áhættufíkla að hafa búið við þetta system sem hlaut á endanum að hrynja.

    3. Samstaða allra lántakenda var rofin þegar fólkið með vísitölubindinguna sætti sig við að fórna myntkörfulánþegum. Báðir hópar urðu fyrir óréttlæti, en þeir sem voru minni órétti beittir sættu sig við að fórna hinum. Þá mátti ekki ræða það að setja alla á sama stað. Geta þeir gert kröfu um sanngirni núna?
    JÁ auðvitað! ALLIR eiga kröfu um sanngirni, en vandamálið er gagnvart bankanum, þar liggur óréttlætið, ekki í því að einhver annar hafi sloppið með skrekkinn. Ef það er brotist inn hjá tveimur nágrönnum og meiru stolið frá öðrum en hinum, hvort á maður að vera reiður út í þjófana eða grannann sem slapp betur?
    Smásálin er reið út í nágrannann, aðrir horfa á þjófinn og rót vandans.

    4. Ég bauð bankanum mínum að greiða upp myntkörfulánin eins og við hefðum tekið verðtryggt íslenskt. Bankinn hafnaði og velti 30 milljóna gengistapi yfir á okkur hjónin, hótaði að ganga strax að ábyrgðarmönnum og sýndi yfirgengilega ósvífni í öllum samskiptum. Dettur þessu sama fólki í hug að við séum núna tilbúin til að semja? Neitakk, fyrr frýs í helvíti en að þessi banki fái einhvern slaka hjá okkur. What goes around comes around.

    5. Ég óska lántakendum með vísitölubundin íslensk lán alls hins besta í sinni baráttu og vona að við stöndum sameinuð gegn óréttlætinu, ekki sem sundraðar smásálir. Fólk sem gleðst yfir óförum annarra og lætur óréttlætið líðast þar til það lendir í því sjálft, á ekki marga bandamenn þegar á reynir. Við skulum ekki láta það verða örlög íslensks almennings, við erum raunverulega öll í sama liði.

  • Ég get alveg tekið undir með þér, Haraldur, að myndin sem dregin er upp í pistlinum er einfölduð. Það væri allt of flókið mál að fara út í innlendu kúgunina öldum saman – meðfram hinni erlendu. Ég læt sagnfræðinga um það, en held samt að skilaboðin í pistlinum séu nokkuð skýr.

  • Öflugur pistill en full mikil dramatík. Of einfölduð mynd og einhliða, eins og vill verða í svona pistlum. Tæplega rétt að segja að Íslendingar hafi búið við erlenda kúgun á árunum fyrir 1944 og 1918 – og álitamál hversu mikil hún var fyrr á öldum, a.m.k. miðað við innlenda kúgun, eins og reyndar er vikið að í hinn umdeildu mynd „Þjóð í hlekkjum hugarfarsins“. Í dag er þjóðin á valdi tilfinninganna, skiljanlega – en það er ekki gott til lengdar.

  • Hvaða græðgi ætli valdi því að á Íslandi er 40 ára íbúðarlán 6 til 15 sinnum dýrara en í nágrannalöndum okkar?
    Því miður gildir það sama um önnur lán og á þá eftir að tina til allan ruglkostnaðinn sem reynt er að smyrja líka á dæmið eins og þessi frábæra grein hjá Helga Jóhanni Haukssyni fjallar um!
    Ég mæli með því að það verði gerð könnun á því hvað yfirstéttin (þeir sem ekki nenna að vinna) er orðin stór á Íslandi og þá sérstaklega sú stétt sem lá mikið á að komast í 3ja mánaðara langt sumarfrí og kvartaði hvað mest yfir að komast ekki í matarhlé!

  • Takk fyrir þessa skýru samantekt.
    Þessi dómur þýðir bara að þessi fyrirtæki græða ekki í þessu tilviki á að hafa tekið stöðu gegn íslensku krónunni. Þau eru ekki að „tapa peningum sem þau lánuðu“.
    Takk !

  • Dramatíserað tilfinningaklám þessi færsla, því miður. Aðrar þjóðir hafa það ekkert betra en við.

  • Sammála Guðrún ( 22:17) Takk fyrir góð innlegg í þessa umræðu.

  • Guðgeir Kristmundsson

    Frábær samantekt hjá þér Lára Hanna. Takk fyrir þetta.

  • Olafur M Olafsson

    Takk fyrir þetta

  • Hulda
    20.6 2010 kl. 14:50

    Í kjölfar dóms Hæstaréttar um ólögmæti gengistryggðu lánanna þar sem niðurstaðan var skýr og í samræmi við hvort tveggja anda laganna og orðanna hljóðanna hver heldur þú að verði niðurstaða hans varðandi neyðarlögin og forgang innistæðueigenda umfram lágmörk og alla aðra kröfuhafa verði?
    Það er bara engin spurning að neyðarlögin munu verða kolfelld af Hæstarétti enda ólög og spilaborgin hrynur ofan á hausinn á okkur.
    N.B. spilaborg sem Sjálfstæðisflokkur og Samfylking reistu sameiginlega í kjölfar Hrunsins og Samfylking og VG hafa viðhaldið í stað þess að afturkalla í nafni réttlætissjónarmiða og jafnaðar.
    Það hjálpar ekkert að hrópa sífellt á glæpi Sjálfstæðisflokksins þegar eitt og hálft ár er liðið frá brotthvarfi hans frá valdastóli og núverandi stjórnvöld hafa haft næg tækifæri til að taka til hendinni. Slíkt þjónar einungis þeim tilgangi að gera stjórnvöldum lífið léttara við að viðhalda hér ójöfnuði þrátt fyrir endalausar yfirlýsingar um annað.

  • Jón Frímann, þú ættir að vita það sjálfur að innganga Íslands mun hafa í för með sér afsal fullveldis okkar, það er lágmark að þú sért með þessi mál á hreinu. Nú allir þessir frægu styrkir ESB sem eiga að kaupa okkur íslendinga til aðildar, eru háðir tekjum ESB ríkjanna sem eins og allir ættu að vita rýrna stöðugt vegna kreppu og atvinnuleysis innan ESB sem ekki sér fyrir endann á. Bretar eru ein af ríku þjóðunum innan ESB svo að minnkandi tekjur þeirra hafa áhrif á allt batteríið. Segðu mér annars Jón Frímann ertu ekki ánægður með að fá alvöru mafíósa til að „hjálpa“ litla Íslandi?

  • Guðrún, hvaða þjóð hefur afsalað sér fullveldi sínu við það að ganga í ESB ? Svaraðu nú! Guðrún, ef að bandaríkjamenn sniðganga breskar vörur. Þá mun það bara koma niður á Bretlandi, ekki neinni annari aðildarþjóð ESB. Þannig að fullyrðing þín er röng að mínu mati.

  • Það er ekki nóg að velta sér uppúr gömlum íslenskum fréttum þegar að taka á jafn afdrífaríka ákvörðun og þá hvort að afsala eigi fullveldi þjóðarinnar, almenningur verður að fylgjast grannt með erlendum fjölmiðlum það er beinlínis skylda okkar! Fréttablaðið er og hefur verið undanfarin ár ESB áróðursmiðill. Núna eru uppi getgátur um að Bandaríkjamenn muni í auknum mæli hefna sín á Bretum með því að sniðganga breskar vörur í kjölfar olíulekans í Mexíkóflóa. Almenningur í USA er brjálaður vegna nýrra frétta hér af http://www.politicsdaily.com/2010/06/19/bps-tony-hayward-at-yacht-race-in-england-as-oil-spills-in-gulf/ Við skulum átta okkur á því slíkar aðgerðir munu koma niður á öllu ESB svæðinu.

  • Takk fyrir þetta Lára Hanna. Mjög flott hjá þér.

  • Já SS menn hugsa um sína gæðinga sama hvað það kostar.

  • Takk, Elfar. Fann þetta á forsíðunni 6. maí og greinin var nákvæmlega svona, ekkert lengri. Sé ekki að henni hafi verið fylgt eftir.

  • Ég veit ekki hvort hún hafi mögulega verið lengri í Fréttablaðinu en greinin er hér á vísi: http://visir.is/article/20100506/FRETTIR01/2508989

  • Manstu nokkuð nánar hvenær þessi grein birtist í Fréttablaðinu og hver skrifaði hana, Hulda?

  • Þakka þér fyrir góða pistla Lára Hanna, sammála því sem fram kemur.

    Munið hverjir ollu hruninu, Sjálfstæðisflokkurinn og gæðingar hans sem græða á daginn og grilla á kvöldin. Ég fagna líka Hæstarétardómnum, hann og skýrslan um aðdraganda hrunsins vekur með manni vonir að nú fari í hönd tími réttlætis og tími ranglætis sé liðinn – i bili amk.

    Það er með ólíkindum hvað hefur fengið að viðgangast hérlendis – almenningur hefur fram að þessu verið talinn lítils virði en fyrirtækjum og eigendum þeirra er jafnan bjargað, sbr yfirlýsinguna í kjölfar hrunsins sem var kyrjuð dag inn og út fyrstu vikurnar eftir hrun „allar innistæður eru tryggðar að fullu“ – hver átti innistæðu yfir 22.500 evrum – fjölskyldufólk, almenningur? Nei, líklega ekki.

    Því hefur verið lýst vel í grein sem birtist í Fréttablaðinu nýlega að hefði þáverandi ríkisstjórn undir dyggri stjórn Sjálfstæðisflokksins látið sér nægja lágmarks innistæðutryggingu hefði 90% allra innlána verið tryggð og við skattgreiðendur þurft að greiða ca 550 milljarða í stað nærri 2000 milljarða við hrun bankanna. Þannig runnu ca 1450 milljarðar til gæðinga Sjálfstæðisflokksins sem enn hafa ekkert fundið fyrir hruninu, ólíkt okkur hinum, almúganum sem borgum brúsann. Hvet ég aðra fjölmiðla til að fara ofan í saumana á þessari samantekt og gera henni betri skil svo fólkið í landinu geti áttað sig á því hvert fjámunir Íslendinga fóru.

    Vonandi verður hrunið og afleiðingar þess til þess að almenningur geri sér grein fyrir því að með því að halda áfram að kjósa Sjálfstæðisflokkinn, flokkinn sem berst fyrir sjálfsæði fyrirtækjaeigenda og innheimtufyrirtækja til að seilast í vasa almennings eftir síðasta aurnum, breytist ekki neitt. Hættum að halda með stjórnmálaflokkum eins og íþróttafélögum, kynnum okkur stefnuskrár. Hættum að kjósa yfir okkur talsmenn innheimtufyrirtækja og banka, kjósum þá sem gefa manngildi mestan gaum.

  • Ég er sek um að vera með mikla þjóðerniskend, ég er snortin af æðruleysi og dugnaði fólksins sem býr nálægt Eyjafjallajökli. Oft hefur maður séð í sjónvarpi frá fólki sem hefur hlaupið öskrandi og gargandi út á götur vegna náttúruhamfara, en íslendingar tóku gosinu í Eyjafjallajökli með fullkominni skynsemi og yfirvegun. En ég tek aldrei undir að við séum bestir stekastir og klárastir allra 🙂 En við skulum ekki endalaust vera að þessum samanburði og minnimáttarkend gagnvart öðrum þjóðum. Verum bara við sjálf og hlúum að okkar fólki. Byggjum upp á ný reynslunni ríkari.

  • Ólafur Bjarni

    Það er gott að þessi myntkörfulán voru dæmd ólögleg. Verðtrygðulánin eru úlfur í sauðagæru, þessi lán eru venjulega veitt sem jafngreiðslulán, þetta gerið það að verkum að það er lítil afborgun fyrstu árinn og eftirstöðvar hækk og hækka. Ef það væri að jafnaði 5% verðbólga og þú tækir verðtryggtlán með jafngreiðslu til 25 ára á 5% vöxtum og berð það saman við óverðtryggt lán á 10% vöxtum og með jöfnum afborgunum er höfuðstóllin borgaður hratt niður og eftir ca 10 ár er afborgun orðin jöfn á báðum lánum og síðustu afbroganir á 10% laninu eru ekki nema 1/3 af verðtryggðaláninu. En flestir stökkva á fyrgreindulánin því fyrstu afborganir eru helmingi lægri.

  • Svo mikið er víst, að það þarf að efla verkalýsðforustuna í nýja Íslandi. Það á ekki að líðast að ítalskir verktakar geti vaðið hér yfir allt. Davíð, Geir, Björgólfs og Bónusfeðgar eru bara smá kettlingar í samanburði við ítölsku mafíuósana fá að vaða uppi í ESB!!

  • Guttormur Sigurðsson

    Ég byrjaði þessa ESB umræðu á því að væna Láru Hönnu um að vera með öfgafulla skoðun varðandi lífskjör í öðrum vestrænum ríkjum og að vera að hlúa að þeirri skoðun að best væri að ganga í ESB. Auðvitað er ekkert nema sjálfsagt að ræða opinskátt um kosti og galla aðildar að ESB, en við skulum ekki rugla heilbrigðri þjóðrækni og þjóðmenningarlegu framtaki saman við þjóðernisofstæki. Það er t.d. mjög gagnrýnisvert hvernig hópur Íslendinga með forsetann í fararbroddi hrópaði um heimsbyggðina að við Íslendingar værum eitthvað miklu klárari en aðrir í kauphallarviðskiptum. Það er allt annað mál að standa sig vel í t.d. handbolta en ætla að leggja undir sig heiminn með kauphallarbraski.

  • Merkileg þessi ESB umræða. Röksemdir eða talsmáti margra er farin að minna á þegar blá höndin var slík að það mátti ekki nefna „ESB“, þá var *whack* lamið í hnakkann á viðkomandi, hann tekinn á beinið og skammaður í tætlur, og það helst opinberlega, svo aðrir sáu vel til.

    Afhverju má ekki ræða kostina og gallana við það að vera í ESB versus að vera fyrir utan ESB?

    Afhverju má ekki búa til hlutlausan lista af staðreyndum: „Svona er ef við förum í ESB“ og „Svona er ef við stöndum fyrir utan ESB“?

    Við vitum að fiskimiðin verða ásteitingssteinn við ESB. Það þýðir… bardagi við LÍÚ. Ok. Þetta vitum við nú þegar. Nóg hefur áróðursmaskína LÍÚ tjáð sig beint og óbeint um þetta. (Bláa höndin líka.)

    Hvað með aðrar starfsstéttir? Bara sem dæmi:
    Landbúnaðinn?
    Heilbrigðisgeirann?
    Skrifstofufólk?
    Leiðsögumenn?
    Starfsfólk í þungaiðnaði, eins og álbræðslu?

    Ég skal alveg viðurkenna það að ég sé kosti við það að ganga í ESB. Ég skal alveg viðurkenna það að það eru líka ókostir við ESB.

    Ég veit, eins og staðan er í dag, ekki nóg til að ákveða mig. Hví? Jú, allri umræðu um hugsanlega kosti og ókosti hefur alltaf og ætíð verið dreift með einhverjum skrítum orðum, sem hafa litlar sem engar upplýsingar á bak við sig.

    Það hefur aldrei verið búinn til heiðarlegur listi af kostum og göllum við aðild eða ekki-aðild. Afhverju má slíkur listi ekki vera búinn til? Afhverju kemur alltaf einhver, með offorsi, og grillar allt tal um ESB í rjúkandi kolamola?

  • Gunnar Víglunda

    Verð að vera sammála Guttormi hér – það virðist vera að koma í ljós að Lára Hanna sé orðin einhver leigupenni í nýju átaki við að sannfæra íslenska þjóð um ágæti ESB. Svei þér Lára Hanna. Ferð ekki beina leið og segir ESB, en notar „allskonar“ leiðir til að sannfæra fólk um þetta „indirectly“. Það er eins og Samspillingin hafi hafið aðgerðaráætlun II um leið og þetta var samþykkt í Brussel um daginn.

  • Páll Sigurjónsson

    Er ekki nóg komið af öfgunum um hversu kapitalísk kerfið er slæmt. Allt bönkum og fjármálastofnunum að kenna. Er ekki tími til kominn að átta sig á því að þeir sem taka lokaákvörðun um sína mál eru einstaklingarnir. Ekki datt mér í hug á sínum tíma að taka gengistryggð lán, einfaldlega vegna þess að ég var ekki með tekjur í erlendri mynt. Ég hef búið erlendis helming ævi minnar og þar var alltaf hægt að fara út í svona æfingar, ef fólk vildi. En flestir spá ekki einu sinni í þetta, því flestir eru með tekjur í sínu heimalandi. Fyrirtæki aftur á móti stunda svona viðskipti mjög oft, en tryggja / hedge-a sig á móti til að minnka gengisáhættuna. Eins og gengur og gerist.

    Nú er staðan síðan orðin þannig að allt er bönkum og fjármálastofnunum að kenna, jafnvel þó að þetta hafi á sínum tíma allt bara verið valkostir fyrir einstaklinga að velja úr. Datt einhverjum heilvita manni það í hug að með því að „græða“ við að taka vexti sem voru langt undir meðaltali IBS að þar væri ekkert „hook“. Eg bara spyr erum við ekki komin inn í 21 öldina, sem er sögð þekkingaröldin. Hvar var fjármálalæsið hjá flestum? Eða voru flestir bara að njóta „góðærisins“ og úti að grilla. Er það þá orðin sök fjármálastofnana að fólk gerir sér ekki grein fyrir áhættuþáttunum sem gætu dottið inn? Síðan er auðvitað hægt að láta stofnanir eða ríkið hafa meiri völd og fá það til að hugsa fyrir einstaklinga, í staðin fyrir að hafa sem flesta valkosti og einstaklingsfrelsi – en jesús kristur – það er ekki kerfi sem flestir vilja þ.e.a.s verðum við eins og kerfispæklaðir Svíar eftir nokkur ár – ef við losnum ekki við þessa helvítis vinstri stjórn sem fyrst.

  • ps, er búsettur erlendis og hef aldrei séð eða heyrt um að það væri hægt að fá lán í erlendrir mynt hér, hlítur að vera eitthvað sér Íslenskt fyrirbæri.
    Að taka lán á Íslandi í erlendum gjaldeyri jafngildir því að spila í Rússnerskri
    Rúllettu að mínu mati.

  • Til hvers að vera með hálaunað lið í FME sem gaf grænt ljós á gengislán og glæpsamlega banka sem á nokkrum árum tókst að rústa efnahag þjóðarinar og stórskaða mannorð landsins í útlöndum..
    Er einnig undrandi yfir því að margir tóku þessi gengislán sem er gríðileg áhætta með þessa littlu krónu sem getur hrunið við minsta óveður i fjármálaheiminum…

  • Þegar dönsku konungshirðinni bárust fréttirnar,um að Íslendingar hefðu tekið sér sjálfstæði,á sínum tíma,vakti það blendnar tilfinningar meðal hirðarinnar. Einn konungsmaður sem þekkti Íslendinga vel,vegna ágætra samskipta við landsmenn,sem hann var fremur velviljaður, átti að hafa sagt, eftir nokkra íhugun,að því er virtist hryggur í bragði,Það versta við þetta er að Íslendingar munu aldrei geta stjórnað sér sjálfir. Og hvað höfum við séð! Nákvæmara gat það varla orðið.
    Ekkert hefur breyst til batnaðar í þessum efnum, þótt ca.60 ár séu liðin frá því orðin voru sögð. Nýjustu æfingarnar hjá stórþjófadeildinni er að selja útlendingum náttúruauðlindir,fleira er í farvatninu.
    Mér sýnist stjórnunarhæfi þúfnabanans jafnvel enn snautlegra í dag,en bauninn sá fyrir sér við upphafið.

  • Helgi Jóhann Hauksson

    Takk fyrir að vera svona skýr, glöggskygn og frábær Lára Hanna. – Ég sé sjaldan ástæðu til að kommenta á þig því ég er jafnan svo innilega sammála þér. Reyndar orðin svo forpokaður að mér finnst það hljóti að einkenna alla sem skrifa af dýpt og innileika án sterklitaðra gleraugna sérhagsmuna að þeir hljóti oftast að komast að sömu niðurstöðu og þú. – Einfaldlega það sé hin heilbrigða skynsemi – en líklega verð ég að reyna víkka sýn mína meira en svo.
    Efiðast á ég með að skilja þjóðrembuna og hvað við og allir sem til þekkja erum rög við að svara henni. Að baki er þó það að sérhagsmunir fóðra þjóðrembuna en almannahagsmunir kalla á víðsýnina og almannahagsmunir/(Evrópu-samstarf) verða aldrei svo eindregnir og ákafir að þeir fórni sér í deilum við sérhagsmunina/(LÍÚ og Hval hf) sem telja sig pívat og persónulega tapa völdum og offjár.

    Framtíð Íslands ræðst af því hvort fjöldinn sem þekkir almannahagsmuni ÞORI að tala fyrir þeim, eða láti búllína sem aðeins verja sérhagsmuni og segja til þess hvað sem er og fórna hverju sem er á kostnað almennings ráða umræðunni.

    – Þorum við að segja satt um ESB og að þar liggi framtíðar vörn fullveldis okkar, tilveru og sjálfstæðis? – Ég er ekki viss. – Ef ekki þá fórnum við því öllu fyrir hugleysi allra sem til þekkja og hefðu átt að getað uppfrætt þjóðina en þorðu ekki að taka þátt í umræðunni.

  • Afsakið, þarna vantar hjá mér „Það eru vissulega til vandamál, enda búum við ekki í fullkomnum heimi.“. Þetta er leiðrétt hér með.

  • Uni Gíslason

    Guðrún við *erum* í sameiginlegu atvinnusvæði ESB nú þegar! Því ætti nokkur maður að krefjast þess að fá aðild að einhverju sem hann hefur aðild að?

    Nú er mjög mikilvægt að skilja hvað ESB aðild þýðir í stað þess að rugla saman hlutunum. Hvað varðar Impregilo, þá eru glæpamenn til víðast hvar í heiminum og auðvitað enn ein stjórnsýslumistökin að ráða svoleiðis hyski.

    Kemur ESB aðild samt *ekkert* við.

  • Voru það vinnubrögð Impregilo á Kárahnjúkum sem heilluðu fólk íslenska ESB sinna sem kerfjast aðildar að sameiginlegu atvinnusvæði ESB? Impregilo valtaði yfir íslensk verkalýðsfélög og stjórnvöld.

  • Íslenska þjóðin er kúguð, þá aðalega að sjálfstæðisflokknum sem stendur vörð um sérhagsmunina og sitt eigið valdakerfi. Jafnvel þó svo að hann sé ekki við völd.

    Bestu réttarbætur sem íslendingar hafa fengið hafa komið þegar Ísland gekk í EFTA og síðar EES. Núna verður stór réttarbót fyrir íslenskan almenning ef Ísland gengur í ESB. Þar er nefnilega óháð eftirlit að finna. Sett upp af þjóðum sem hafa ákveðið að vinna saman fyrir hagsmuni þjóða sinna, þannig að aðstæður batni fyrir alla innan þessara þjóða. Það eru vissulega vandamál, enda búum við ekki í fullkomnum heimi.

    Það kemur því ekki á óvart að hart sé barist gegn inngöngu Íslands í ESB. Það nefnilega hentar kúgurum íslendinga að halda landinu fyrir utan ESB og frelsið sem þar er að finna.

  • Spilling var alltof mikil hér í stjórnsýslu og viðskiptalífinu, en Eva joly og félagar eru heldur betur að hreinsa til og lofa skal það sem vel er gert. Við enduruppbyggingu landsins er mikilvægt að vanda vel til verka, og við megum alls ekki stökkva úr olíunni í eldinn eins og með inngöngu í ESB. Hver stekkur um borð í sökkvandi skip? Hér eru linkar á ummfjöllun fjölmiðla á einn af mestu áhrifavöldunum í ESB, við sjáum svo klárlega þessi mafíuvinnubrögð í svari hollendinga í gær sem gáfu það út að þeir hefðu tryggt sér stuðning allra landa ESB gegn íslendingum í Icesavedeilunni. Það er greinilegt að ákvarðanirnar eru teknar bakvið tjöldin, og ætli þar gildi ekki greiði á móti greiða? ítalir styðja hollendinga gegn íslendingum í Icesave gegn því að hollendingar styðji ítali í öðrum málum?
    http://www.huffingtonpost.com/2009/12/04/gaspare-spatuzza-mob-turn_n_380034.html

    http://svt.se/2.129759/1.1939216/videocracy

  • Flottur pistill. Sá sem laug hvað mest, samdi viðgerðarreikninga og innheimtukostnað og leit á alla þá sem voru í vanksilum sem glæpamenn er nú stjórnarformaður or í skjóli Jóns Gnarr. Segðu brandara Jón minn og von um að það endurlífgi fólk

  • Guttormur Sigurðsson

    Ástæðan fyrir því að ég minntist á ESB málið í tvennum ummælum mínum hér að ofan er ekki sú að ég vilji rangfæra eða snúa út úr pisli síðuhöfundar, sem er um margt góður, heldur sú að þar er haldið fram samskonar skoðunum um þjóðrækni og sjálfstæði þjóðarinnar og rammir ESB sinnar halda framum ásamt ósönnum fullyrðingum um efnahagslegt og stjórnmálalegt ástand annarra vestrænna ríkja. Þannig gat ég mér þess til og sennilega réttilega að síðuhöfundur væri að hlúa að þeirri hugmynd að best sé að ganga í ESB.

    Það er auðvitað allt í lagi að færa góð rök fyrir slíkri skoðun, en hvar var Jónas Hallgrímsson þegar hann orti „Efst á Arnarvatnsheiði, oft hef ég fáki beitt….“? Blindfullur á hanabjálkakytru í Kaupmannahöfn? Í pistlinum er síðuhöfundur í raun að gefa falska mynd af sjálfsstæðisbaráttunni og lætur að því liggja að sjálfstæðið hafi ekki verið gott fyrir þjóðina. Hver nema sanntrúaður ESB sinni gerir svo lítið úr sjálfstæðisbaráttu Íslendinga? Það getur líka verið álitamál að vitna í Nóbelsskáldið
    og túlkun hans á frelsi, svo rækilega sem það féll á dómgreindarprófinu um hvað er frelsi, í Moskvuréttarhöldunum á Stalínstímanum, þar sem hann var viðstaddur og „kommenteraði“ mjög frjálst.

    Hitt er annað mál að hér eins og annarsstaðar í hinum vestræna heimi ( og auðvitað víðar)er almenningur að gjalda ómaklega fyrir það að hugmyndafræði kapitalismans er að ganga sér til húðar með tilheyrandi kreppum. En slíkt breytir því ekki að lífskjör þjóðarinnar bötnuðu mjög fljótt og mikið eftir að Ísland varð fullvalda ríki og fór að verja og hagnýta sér betur sínar auðlindir, sérstaklega sjávarauðlindina.

    Mér finnst persónulega að síðuhöfundur eigi að vera jákvæður gagnvart réttmætri gagnrýni, því það er aldrei gott að hafa bara jábræður í kringum sig.

  • Fékk Lára Hanna ekki örugglega fálkaorðuna í gær ?
    Frábær pistill og hafðu þökk fyrir.

  • MargrétJ

    Kæra Lára Hanna
    Oft hefur þér tekist að koma við „kauninn“ en sjaldan ef nokkurn tímans eins og nú. Þú ert svo frábær að mig skortir orð. Á meðan við eigum fólk eins og þig eigum við von.
    Von um frelsi og réttlæti. Lýðræði eins og það gerist best.
    Hafður þúsundfaldar þakkir fyrir þitt óeigingjarna en mikla starf.

  • Aðeins. Fyrir örstuttu samþ. Alþingi breyt. á l. um aðför, nr. 90/1989, og lögum um gjaldþrotaskipti o.fl., nr. 21/1991.

    Breytingarnar eru mikil réttarbót fyrir kröfuhafa, já kröfuhafa. Hreifingin+Þráinn sögðu: Já.

  • Ég er með verðtryggt húsnæðislán HG.

  • Seiken og aðrir þeir sem ég hef séð hreyta því ólundarlega og oflætislega út úr sér að þeir sem eru með verðtryggð lán séu „smásálir“ „afbrýðisamir“ „öfundsjúkir“ og þar fram eftir götunum. Nú er ég búin að sjá sl. daga ótal komment í þessa áttina og mér er gróflega misboðið! Ég er ein af þeim sem fór varlega, eins og margir aðrir sem tóku verðtryggð lán, rétt eins og margir þeirra sem tóku gengislánin. Þó ég gæti ekki frekar en nokkur annar séð fyrir hvernig færi, þá gat ég aldrei séð að þetta gúddí góðærisástand ætti eftir að vara til langs tíma. Ég átti þó nokkrar milljónir í minni litlu íbúð sem ég hef með blóði, svita og bókstaflega tárum, barist við að koma mér upp og halda í. Í dag á ég ekkert í henni og er, rétt eins og alltof margir aðrir, í ömurlegri aðstöðu án þess að ég fari nánar út í það. Ég get ekki ímyndað mér að fólk samgleðjist ekki þeim sem sjá fram á að fá leiðréttingu sinna lána eftir dóm Hæstarréttar. En over my dead body, ætla ég að taka því þegjandi og hljóðalaust að það lendi á mér og öðrum með verðtryggð lán að taka á mig meiri byrgðar og fá ekki leiðréttingu á mínum lánum sem hafa rokið upp úr öllu valdi eins og maður er að sjá „sérfræðinga“ tala um. Ég er öryrki, er búin að vera við fátækramörk næstum því alla mína ævi, LÖNGU, LÖNGU, LÖNGU fyrir kreppu en nú er nóg komið. Verðtryggðu lánin hafa LÍKA hækkað, afborganir orðnar óviðráðanlegar og alveg nógu erfitt þó þið hin með gengistryggðu lánin séuð ekki að senda þeim sem eru með verðtryggðu lánin og voga sér að gera athugasemdir þessar skítapillur. Ég er ansi hrædd um að þið væruð sjálf að gera sömu athugasemdirnar ef þið væruð hinum megin við borðið og væruð örugglega jafn áhyggjufull og ég er t.d. núna. Það getur vel verið að fyrr frjósi í helvíti og svín fljúgi áður en íslenska þjóðin fari að sýna hvort öðru meiri samkennd, skilning og stuðning, en í guðanna bænum, er ekki tími til kominn og verður þessi dómur Hæstaréttar virkilega til þess að við förum að skipta liði eftir því hvort við erum með gengistryggð lán eða verðtrygg? Við erum ÖLL í sama skítnum og við græðum ekkert á því að vera að bauna svona á hvort annað.

  • Þakka þér fyrir Lára, þetta er góður pistill en hann hefur svo oft verið skrifaður birtur og kæfður áður. Ein rangfærsla er í pistlinum um að kúgunin hafi verið flutt inn í landið 1944, þetta er rangt hún var alltaf innlend. Mesta áfallið fyrir íslenskan almenning var stofnun Hæstaréttar Íslands 1920 og ekki var lengur hægt að sækja „réttlætið að utan“ þessi kví var svo rofin 1989 með dómi ME einangrun íslensk almennings var rofin.

    Takk.

  • Frábær pistill Lára Hanna. Næst er það verðtryggingin. Tökum til í þessu kerfi í eitt skipti fyrir öll.

    Nenni ekki orðið að eyða miklu púðri í fulltrúa landssambands smásála sem ekki geta glaðst yfir þessum dómi, að því að hann sé svo ósanngjarn gagnvart þeim sem tóku verðtryggð lán.

    Eins og ég hef marg oft sagt undanfarna daga þá eru til tvær leiðir til þess að leiðrétta kynjabundin launamun. Að lækka laun karla eða hækka laun kvenna. Hvorum hópnum skyldu smásálirnar tilheyra?

  • @margrét, ?????

    Átti mig alls ekki á þessu innleggi hér. Horfði aftur á myndbandið, bara til að vera alveg viss, en sé ekki betur en að það hafi verið sýnd mörg brot af mismunandi alþingismönnum kvarta yfir skertum matartíma.

    Að lokum vil ég þakka Láru Hönnu fyrir frábæran pistil.

  • Þú ert snillingur Lára Hanna, og þessi pistill er frábær, að venju! Samsetta myndbandið (það efsta) er líka ofboðslega áhrifamikið.

  • Andri Geir kemur með góðan punkt:

    „Útkoman verður að þeir sem tóku meiri áhættu verða verðlaunaðir. Innlánseigendur, sérstaklega ellilífeyrisþegar og lántakendur í verðtryggðum krónum borga brúsann ásamt skattgreiðendum og næstu kynslóð.

    Hér er sagan að endurtaka sig frá því um 40 árum síðan þegar útvaldir fengu óverðtryggð lán sem „hurfu“ í óðaverðbólgu.

    Hér er auðvita ekki verið að sakast við lántakendur enda fóru flestir eftir því sem bankarnir ráðlögðu þeim á sínum tíma en kaldhæðni örlaganna er ótrúleg. Aftur endum við uppi með tvöfalt kerfi þar sem einn hópur borgar verðtryggingu en hinn ekki.“

    http://blog.eyjan.is/andrigeir/2010/06/19/staersta-eignartilfaersla-islandssogunnar/

    Mitt komment við grein Helga:
    „Virðist hann þá vísa til þess að með því hafi ólöglegir skilmálar átt að verða löglegir. Þ.e. sá sem stelur nógu oft frá nógu mörgum öðlist við það lögmæt yfirráð yfir öllum fengnum sínum.

    Álitshnekkurinn er auðvitað sá að hér birtist loks að almenningur á Íslandi hefur ekki haft aðgang að lögfræðiaðstoð eða þá vörn í opinberum eftirlitskerfum sem skyldi.“

    Nú er ég sammála dómnum og fagna honum.

    Hinsvegar getur maður ekki varist þeirri hugsun að þeir sem tóku þessi lán þögðu þunnu hljóði meðan þeir voru að græða á vaxtamuninum og sterkri krónu.

    Lögfræðiaðstoð og opinber eftirlitskerfi voru einnig til staðar fyrir hrun. En með dollaran í kringum 60 krónur og vexti langt undir íslensku krónunni var enginn sem hafði áhuga á að láta reyna á lögmæti þessara lána.

    Hagfræðin segir að þeir sem taka mesta áhættu og geta því grætt mest eiga líka að tapa mestu. Enn og aftur er þessu lögmáli snúið á hausinn á Íslandi.

    Fólk tók þessi lán útaf einni ástæðu. Til að græða. Íslenska krónan var orðin ónýt fyrir löngu. Okurvextirnir sem henni fylgja hafa íþyngt fjölskyldum hér svo um munar. Lágir vextir og von um áframhaldandi gott efnahagsástand útskýrir ásælni fólks í erlendu lánin. Samkomulag var milli lánveitenda og lánþega um að þau væru góð og gild, á meðan allt lék í lyndi.

    Stóra spurningin núna er hvað á að gera við alla þá sem vísvitandi tóku ekki áhættu? Eiga þeir að halda áfram að borga og brosa? Eða er kannski kominn tími til að gera okkur öllum þann greiða að kasta krónunni eins langt út í hafsauga og mögulegt er og koma neytendamálum á Íslandi á sama stig og í Evrópu?

    Nú er þannig komið meðal ungra fjölskyldna á Íslandi að þeir sem tóku mesta áhættu í fjárfestingum hefur verið reddað. Þeir sem tóku minni áhættu með háum verðtryggðum lánum er sagt að tíminn lækni allt að lokum, og þeir sem áttu mest eigið fé í sínum fasteignum og létu skynsemi ráða för verða að sætta sig við hrikalegan bruna á eigin fé.

    Vonandi er þetta byrjunin á því að bæta hag neytenda á Íslandi. Vonandi láta menn ekki staðar numið.

    http://blog.eyjan.is/hehau/2010/06/18/oll-domafordaemi-og-logfraediadsti-thagu-auds-og-lanafyrirtaekja/comment-page-1/#comment-147

  • Já, ég er að meina þetta: „Ég ákallaði þingið, sem hafði mestar áhyggjur af því að fá ekki matarhlé á meðan almenningur barðist fyrir lífi sínu.“

    Það er mikilvægt að fjölmiðlar geri sér grein fyrir valdi því sem felst í umfjöllunum um mikilvæg mál og framsetningu þeirra. Mikið lesnir fjölmiðlar hafa mikið vald, og nýir fjölmiðlar eins og þinn hér, eru trúverðugri en hinir hefðbundnu miðlar, sem fólk er í sífelldum mæli hætt að treysta. Þess vegna er ábyrgð þín mikil því íslenskur almenningur er þyrstur eftir sanngjörnum fjölmiðlum.

    Með því að birta Margréti í ræðustól Alþingis á eftir umræddri setningu má auðveldlega lesa að umrædd þingkona meti meira matarhlé en að almenningur berjist fyrir lífi sínu!

    Þingmenn Hreyfingarinnar segja frá lélegu skipulagi á Alþingi. Það er partur af kúgun og vinnubrögðum af síðustu sort, sem hefur viðgengist á þessum vinnustað, sbr. uppsafnaða hrúgu af mikilvægum málum í þinglok. Í þinglok er verslað með atkvæðagreiðslur á málum til að loka þingi. Og síðan er endað á því að afsaka sig með að ekki hafi gefist tími til að klára mikilvæg mál. Þegar í raun og veru lélegu skipulagi er um að kenna og meirihlutavaldið nýtir sér það.

  • Það er deginum ljósara að ef svo fer að kjósendur samþykkja inngöngu í ESB þá er skýringin alfarið fólgin í uppgjöf á eigin stjórnvöldum.
    Pólitísk heimska tveggja,þriggja ríkisstjórna í röð er með þeim fádæmum að það er öllu venjulegu fólki óskiljanlegt.

  • Laplace, ég bý í úthverfi Parísar og hef það mjög gott eins og flestir hérna, fyrir utan ógæfufólk. Ég bjó líka í Danmörku í 6 ár og hafði það líka mjög gott, eins og allir nema ógæfufólk. Það var ekki fyrr en ég flutti til Marokkó og sá hvernig fólkið var kúgað og rænt af yfirvöldum og auðmönnum að ég hugsaði til Íslands. Þetta er að vísu ýkt dæmi, en margt kunnuglegt sem þar gerist og hugsa ég að hrunið hafi ekki verið það versta sem gat gerst.

  • Of flott færsla!

    Mig syrgir að segja það en eina af helstu ástæðum að ég lít jákvæðum augum til ESB er einmitt að flestir sjá þetta bara ekki og án aðkomu góðra erlendra áhrifa breytist ekkert hérna. Sama hvað svona mörg blogg koma menn kalla bara viðkomandi „komma“ eða „vinstri kellingu“ og annað slíkt.

    Fyrir þá sem hafa búið erlendis er vonlaust að skilja hvernig hlutirnar geta verið svona súrir og pólitíkin á svona lágu plani og hver öðrum ómerkilegri og óverðugari. Sama hvort fólk sé hægri vinstri þá er það lykilatriði að kjósa fólk sem er heiðarlegt.

    Simon

  • Nú skil ég þig ekki, Margrét. Hvaða þingkonu Hreyfingarinnar? Mér er hlýtt til Hreyfingarinnar þótt hún sé ekki undanskilin gagnrýni. Það eina sem Hreyfingin kemur nálægt þessum pistli er í klippum um matarhlé þingmanna – og þar komu margir þingmenn og -konur við sögu. Líka sú þingkona Hreyfingarinnar sem ég hampaði t.d. hér.

    Er það þetta sem þú átt við?

  • Mér finnst pistlar þínir frábærir, Lára Hanna og þakka þér fyrir að standa vaktinu. Það dregur þó úr mikilvægi og heiðarleika ef hægt er að greina hjá þér lúmskt einelti í garð þingkonu Hreyfingarinnar. Ég hef tekið eftir þessu áður hjá þér og þar sem þú ert að verða alvöru fjölmiðill hér á landi, finnst mér sorglegt ef þú ætlar að láta persónulega óvild í garð Hreyfingarinnar lita svona alvarleg málefni.
    En takk samt fyrir góðan pistil að öðru leyti.

  • Blandarinn

    Takk fyrir Lára!

  • Óþarfa öfgar í annars ágætum pistli. Ég er sammála að Íslendingar viðast oft vilja kissa vöndin en margt annað er ofsagt.

    T.d. þessi setning: „Fjölmargir Íslendingar sem hafa búið erlendis um lengri eða skemmri tíma og kynnst raunverulegu frelsi, réttlæti og sanngirni hafa bent á þann gríðarlegu mun á lífskjörum sem er á Íslandi og í því sem við köllum hinn vestræna heim.“

    Lífskjör á Íslandi eru mjög góð. Þó hér ríki oft óréttlæti þá er það þannig líka í Evrópu. Ég er ekki að segja að það sé ekki rúm til að bæta því það er heilmargt sem betur má fara en evrópa er oft ekki jafn framarlega og margir halda.
    Prófiði að bera saman kjör Íslendinga og t.d. þeirra sem búa í einu af mörgum subbulegu úthverfum Parísar, Berlínar eða öðrum stórborgum Evrópu. Hvað með verkamenn sem vinna fyrir alþjóðleg stórfyrirtæki jafvel langt undir lágmarkslaunum. Víða þarf ungt fólk að vinna allt að nokkrum árum launalaust fyrir eitthvað fyrirtæki til að öðlast „starfsreynslu“ sem er auðvitað bara fallegt orð yfir þrælahald. Auk þess sem atvinnuleysi er víða mikið.

    Svo er hægt að taka fyrir stjórnskipan þar sem í sumum löndum hafa forsetar, einn maður, mikið vald og eru ekki einu sinni kosnir af helming þjóðarinnar, þeim nægir að fá flest athvæði af þeim sem eru í framboði jafnvel þó það sé tilturulega lítill hluti kjósenda á bakvið hann. Það þarf auðvitað ekki að nefna það að oft er þar kosningaþáttaka afar slæm enda fólk búið að missa von.

    Ég er sammála Láru í mörgu, eiginlega flestu, en það hefur held ég ekkert uppá sig að draga upp einhverja ýkta og falska mynd af góðærisástandi í evrópu til að miða sig við.

    kv Laplace

  • Það væri við hæfi að reisa minnisvarða um fólkið sem hefur látið lífið í þessum hamförum og þyrfti hann að vera staðsettur á Austurvelli, fyrir framan Alþingishúsið. Ég er viss um að Jón Sigurðsson hefði tekið undir það með mér, enda er ég viss um að hann var ekki að berjast fyrir því „frelsi“ sem við fengum svo að lokum. Það mætti líka minnast þeirra sem féllu í óðaverðbólgunni um árið.

  • Ég vil benda Guttormi Sigurðssyni á, að innihald þessa pistils kemur ESB nákvæmlega ekkert við. Ég vil líka benda Guttormi á að síðuhöfundur hefur skrifað mjög mikið og ítarlega um hugmyndafræðilegar ástæður fyrir hruninu og á örugglega eftir að gera meira af slíku. Hvort Guttormur telur það allt vera yfirborðslegt blaður veit ég ekki og mér stendur auk þess nákvæmlega á sama um það.

    Guttormur Sigurðsson er örugglega ekki mjög heimskur maður í nútímalegri merkingu orðsins. Lesskilningi hans er þó greinilega afar ábótavant þar sem hann kýs að mistúlka, misskilja og snúa út úr velflestum pistlum sem hann skrifar athugasemdir við bæði hjá mér og öðrum og koma þar að hugðarefnum sínum sem koma innihaldi pistla og umræðu um þá nákvæmlega ekkert við.

    En enginn er fullkominn, sem betur fer. Ekki Guttormur Sigurðsson heldur.

  • Guttormur Sigurðsson

    Leiðin er ekki að láta teyma sig inn í ESB þar sem „frelsi“ Láru Hönnu er 3% atkvæðavægi Íslendinga. Lausnin er fólgin í að þróa nýja hugmyndafræði sem byggir á sannari gildum heldur en kapitalísk markaðshyggja byggir á. Dreifing á efnahagslegu valdi byggðu á öðru rekstrarformi heldur en hlutafélagsforminu, er nauðsyn. Að gera lítið úr íslenskri sveitamenningu og tengsl þjóðskálda okkar við hana, eins og Lára Hanna gerir, þjónar engum öðrum tilgangi en þeim að rífa niður þá strengi í þjóðmenningu Íslendinga sem reyndust okkur vel í sjálfstæðisbaráttu okkar. Slík niðurrif hentar vel þeim sem vilja nú að Íslendingar skríði innfyrir tollamúra ESB og afsali stórum hluta efnahagslegs sjálfstæðis síns.
    Ég vara við svona yfirborðslegu blaðri eins og kemur af lyklaborði síðuhöfundar og þar sem örlar ekki á að kafað sé í hugmyndafræðilegar ástæður fyrir hruninu.

  • Takk Lára.
    Gleymum svo ekki því að kjósendur fá það sem þeir eiga skilið.
    Í síðustu alþingiskosningum völdu 90% fjórfokkið, vitandi hvað það stendur fyrir.

  • Frábært, eins og allt sem Lára Hanna segir og skrifar – að mér finnst a.m.k. Í gær nefndi ég á Facebook að pistill Helga Jóhanns væri „skyldulesning“. Leyfi mér að geta til gamans, að þegar ég las upphaf þessa pistils Láru varð mér strax hugsað til Halldórs Kiljans. Og svo nefnir hún hann einmitt …

  • Guttormur Sigurðsson

    Ótrúlega öfgafull mynd sem síðuhöfundur dregur upp af ástandinu á Íslandi fyrir og eftir hrun og samanburðurinn við aðrar vestrænar þjóðir er út í hött. Ég hef sjálfur dvalið erlendis og þekki marga sem hafa dvalið víða í öðrum vestrænum löndum og veit þessvegna að þetta blaður síðuhöfundar um „raunverulegt frelsi“ er bull.

    Allstaðar í öðrum vestrænum löndum hefur ríkt kapitalískt efnahagskerfi með þinglýðræði. Á áratugunum fyrir kreppuna ríkti og ríkir þar enn mikið atvinnuleysi, sérstaklega meðal ungs fólks. T.d. er atvinnuleysi fólks á aldrinum 18 til 24 um 17% í velferðarríkinu Svíþjóð. Noregur er eina landið í vestur Evrópu, þar sem tiltölulega lítið atvinnuleysi hefur verið um árabil, annarsstaðar er atvinnuleysi frá 9% upp í 20%, eins og á Spáni. Velmegun á Íslandi hefur nefnilega verið miklu meiri en í mörgum Vestrænum ríkjum, eins og sést á bílaflotanum o.fl.
    Ég er ekki að mæla strjórnkerfinu eða hugmyndafræðinni sem þar er að baki, bót, enda einn af hörðustu talsmönnum gegn kapitalískri markaðshyggju sem kommenterar hér á Eyjunni, en sú glansfegraða mynd sem síðuhöfundur dregur upp af lífskjörum annarra vestrænna landa er ekkert annað en tálsýn enda stillt upp til að lokka fólk til fylgis við ESB aðild.

  • Svo sammála, Lára Hanna, svo sammála.

    Ég fann þetta líka, þegar klukkan nálgaðist 16:00 á úrslitadeginum…. skipti engu hvort það var leikur í sjónvarpinu eða ekki. Útvarpsfréttirnar fóru í gang klukkan 16, og fyrsta fréttinn….. ég fann, sá, heyrði hvernig fólk í kringum mig, bæði á netinu og annars staðar, drógu andann léttara. Óvænt niðurstaða. Og strax fóru að koma pælingar hvernig hægt væri að „dempa dóminn“ fyrir fjármögnunarfyrirtækin.
    Stjórnvöld tóku það sérstaklega fram að ekki væri á áætlun að draga úr réttindum almennings. Í flestum löndum hefði ekki þurft að taka það sérstaklega fram að það stæði ekki til að draga úr réttindum almennings.

    Nú þarf að reikna og komast að niðurstöðu, hvernig fer með þessi lán. Hvað með þá sem hafa greitt mikið inn á, til að minnka greiðslubirgðina? Hvað með endurgreiðslur? Þetta má ekki vera hangandi yfir fólki of lengi, ekki heldur fyrirtækjunum. Það verður skaðlegt fyrir báða aðila ef þetta dregst of lengi.

    Já. Kyssa vöndinn. Algjörlega stórmerkilegt að circa 1/3 kosningabærra íslendinga vill kjósa þann FLokk sem skirrist við að viðurkenna sinn þátt í hruninu. Hruni heillar þjóðar, hvorki meira né minna. Það er nú ekki lítil þúfa, það. Og þó…. ef maður veltir fyrir sér, að þessi ákveðni FLokkur hefur alla tíð horft á fjármagn og peninga fyrst og síðast. Mannveran er bara hagfræði- og viðskiptastærðir á blaði fyrir þennan FLokk. (Gamalt fólk og öryrkjar kostar svona mikið af krónum úr sameiginlegum (Afhverju er þetta SAMEIGINLEGUR sjóður? Af hverju á ég að borga í hann? Mér kemur þetta ekki við!) sjóði, en skila til baka svona miklu í þennan sameiginlega sjóð (ah, nú skulum við tala saman, ég skal taka þátt í að hirða úr þessum sameiginlega sjóði). Þetta er bara reikningsdæmi, tölur á blaði. Ef það er ekki hægt að græða á fólki, þá er fólkið ekki þess virði að púkka upp á það.

    Meira segja afhroð í síðustu sveitastjórnarkosningum virðist ekki ná að senda skilaboðin almennilega til stjórnmálaaflanna.

    Þessi fjöldi (hver sem hann er?) af fólki, sem hefur gefist upp, og annað hvort flúið land, eða það sem verra er…. Bankabesefunum kemur það ekki við. Ekki nema að því leytinu til að þá koma færri peningar í kassann, færra fólk sem hægt er að blóðmjólka.
    Bankabesefarnir hafa sko aldeilis *ekki* áhyggjur af því hvort einstæða móðirin með 4 börn geti keypt hafragraut út mánuðinn eða ekki. Nei. Hún er bara tala á blaði í reikningsdæmi. (Og í þessu tilvikinu með mínusmerki fyrir framan sig.)

    Mun þetta breytast? Ég veit það ekki. Það er þetta með að kyssa vöndinn, og halda því áfram, þó hægt sé að horfa í kringum sig og sjá fleiri möguleika. Er þetta kannski spurning um menntun? Er það kannski hagur yfirstéttarinnar að halda menntunarstigi lágu? Koma í veg fyrir að fólk hugsi fyrir sig?

    Ég veit það ekki. Stundum held ég að réttast væri að jörðin og móðir náttúra myndi bara ýta á RESET takkann á mannkyninu og senda okkur aftur ofan í polla sem græna þörunga. Mannfólkið er að gera svo mikið á hlut móður náttúru; fyrr eða síðar slær móðir náttúra til baka. Og mun varla taka eftir því.

    En. Nóg í bili.

  • Takk Lára Hanna – TAKK

  • Er nokkuð annað en að hraða ferðinni inn í Evrópusambandið ? Hér á land breytist ekkert í átt til réttlætis meðan landið er lokað og stýrt af þeim öflum sem nú síðast keyrðu landið í efnahagslegt og siðferðilegt hrun. Landið verður að komast í tengsl við efnahagssvæði Evrópu og með öllum þeim gildum sem þær þjóðir búa við. Íslenska krónan er okkar þrælakista . Hún er kúgunartækið mikla sem beitt er miskunnarlaust í efnahagsmálum -fyrir hina efnameiri og valdamafíuna um áratugi.. Við inngöngu í ESB og tengingu við evruna myndi t.d verðrtyggingarharmleikurinn hverfa-ekki fyrr. Það ber að fagna því að Ísland hefur verið samþykkt til aðildarviðræðna. Kúguð þjóð af innanmeinum verður að hrista af sér hina innlendu þrælahlekki og verða þjóð meðal þjóða Evrópu. Það er okkar helsta von.

  • Þórdís B

    Þennan pistil á að stækka í 100 pt letur og veggfóðra allar opinberar byggingar – og strætó – með. Þennan pistil á að hafa á fyrstu síðu Sögu Íslands; hafa sem skyldulesningu í öllum menntaskólum næstu þúsund ár.
    Takk fyrir mig, Lára Hanna.

  • Guðrún Anna Finnbogadóttir

    Frábær samantekt. Endurspeglar vel það sem fer í gegnum huga landsmanna. Það er þá smá réttlæti á Íslandi.

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af fjórum og tveimur? Svar:

Höfundur



Eldri færslur

Dagatal

júní 2010
S M Þ M F F L
« maí   júl »
 12345
6789101112
13141516171819
20212223242526
27282930