Sunnudagur 15.11.2015 - 13:14 - FB ummæli ()

Kaffærum þeim í ást og umburðalyndi!

Hryðjuverk eru með því skelfilegasta sem hægt er að upplifa, sama hver það er sem fremur þau eða hvar þau eiga sér stað. Við erum öll sammála um það. Máttleysið, skilningsleysið og óöryggið sem kemur í kjölfarið eru allt eðlileg viðbrögð við því að mannskepnan geti sýnt svo mikla illsku.

Það sem gerist hins vegar næst er mjög mikilvægt.

Að ala á ótta er elsta trixið í bókinni. Við verðum að passa að detta ekki í gildrurnar þegar voðaverkin gerast og gefa þannig hryðjuverkamönnunum og öðrum öfgamönnum nákvæmlega það sem þeir vilja. Að við verðum hrædd, förum að bregða út af vana okkar, breyta hegðun okkar, tortryggja nágrannann, vopna lögregluna og loka landamærunum. Einangra okkur. Ef við gerum það, þá eru öfgarnar búnar að vinna.

Þegar hryðjuverkin eru afstaðin er annar hópur sem tekur við keflinu. Það er hópurinn sem mun reyna að sannfæra þig um að það sé mikilvægt að gera allt að ofangreindu – og það strax. Hópurinn sem nýtir sér slík voðaverk í þeim tilgangi að styrkja pólitískan málstað sinn, sem í dag er sá að flóttamenn eru hryðjuverkamenn, múslimar eru hryðjuverkamenn og innflytjendur eru hryðjuverkamenn og “þetta fólk beri að forðast og alls ekki “bjóða” til landsins okkar” (sem að sjálfsögðu er betra en öll önnur lönd, jafnvel hreinna og auðvitað heilagara).

Ef maður heyrir slíkan hræðsluáróður of oft er hætta á að maður fari að trúa honum og þar af leiðandi að maður fari að breyta sjálfum sér, hegðun sinni og umhverfi sínu. Fleiri munu gera slíkt hið sama og á endanum verður það til þess að breytingin mun fara að hafa áhrif á samfélagið í heild sinni.

Það eru stjórnmálaflokkar og aðrir formlegir eða óformlegir hópar sem nú tröllríða hinum pólitíska vettvangi í Evrópu sem munu nærast á slíku og styrkjast. Hópar og flokkar sem eiga það sameiginlegt að ala á þjóðernishyggju, innflytjendaandúð og andúð á fjölmenningarsamfélaginu, sem búa til sameiginlegan óvin fyrir þjóðina, sem nýta sér voðaverk eins og þau sem áttu sér stað í París í pólitískum tilgangi.

Því er mikilvægt að stíga varlega til jarðar, taka á stöðunni með ró og halda sínu striki. Það gera Parísarbúar, það hljótum við hin að geta gert líka. Hvers vegna er það mikilvægt?

Jú, því í fyrsta lagi eru það ekki flóttamenn sem bera ábyrgð á hryðjuverkunum í París á föstudaginn eða í Líbanon daginn áður. Það eru sömu einstaklingar og flóttamennirnir eru að flýja heimaland sitt vegna sem bera ábyrgð á þessu og öðrum hryðjuverkum.

Það eru ekki trúarbrögð sem bera ábyrgð á hryðjuverkunum í París eða Líbanon. Það er hatur, fáfræði og óskiljanleg illska mannskepnunnar.

Það er heldur ekki umburðalyndi Evrópubúa sem ber ábyrgð á hryðjuverkunum í París. Það er stórhættuleg hugmyndafræði öfgamanna, þröngsýni og þjóðernisrembingur sem verða til þess að slík voðaverk eru framin.

Það er því engin ástæða til þess að komast að þeirri niðurstöðu að flóttamenn séu hryðjuverkamenn, allir múslimar sjálfsmorðsóðir eða að hætta þurfi að treysta náunganum sem hefur annan bakgrunn en þú og sýna fjölbreytileikanum í samfélaginu skilning.

Það sem er mikilvægt að gera er að halda áfram að tala fyrir umburðalyndi, réttlæti og friði í samfélaginu og í heiminum öllum. Við megum ekki falla í gildruna og gefast upp. Við leyfum ekki hryðjuverkamönnunum og öfgunum að sigra.

Það er mikilvægt að halda áfram að berjast, en ekki með því að svara með sama hatri og illsku sem öfgamennirnir standa fyrir. Við þurfum að kaffæra þeim í ást, umburðalyndi og umhyggju! Þannig munum við að lokum sigra.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Sema Erla Serdar
29 ára stjórnmála- og Evrópufræðingur sem berst fyrir friði, frelsi og jafnrétti þegar hún er ekki að horfa á fótbolta eða leika við hundana sína.

Formaður Samfylkingarinnar í Kópavogi. Fyrrverandi formaður framkvæmdastjórnar Samfylkingarinnar. Ungur jafnaðarmaður!
RSS straumur: RSS straumur