Mánudagur 02.11.2015 - 18:19 - FB ummæli ()

Tíu ástæður fyrir aðild Íslands ESB!

Man einhver eftir því að Ísland sótti um aðild að Evrópusambandinu? Man einhver afhverju? Fyrir betri lífskjör? Nýjan gjaldmiðil? Hér eru tíu góðar ástæður fyrir því að Ísland ætti að gerast aðildarríki Evrópusambandsins, sem hafa ekki breyst síðustu árin, þrátt fyrir allt.

1. Lægra matvælaverð á Íslandi

Flestir þeir sem hafa fylgst með umræðunni um mögulega aðild Íslands að Evrópusambandinu (ESB) síðustu ár hafa eflaust heyrt rökin um lægra matvælaverð, sem eina af ástæðum þess að Ísland eigi að ganga í sambandið. Það er ekki af ástæðulausu, en áhrif aðildar á matvælaverð hefur verið rannsakað margoft, en niðurstaðan er alltaf sú sama: matvælaverð mun lækka. Samkvæmt nýjustu rannsóknum má reikna má með að verð á kjúklingum, eggjum og svínakjöti lækki um allt að 40 – 50% við aðild að ESB. Þá munu mjólkurvörur lækka um allt að 25% og einnig má reikna með að verð á nautakjöti muni lækka. Þetta eru afleiðingar þess að tollar á vörum og landbúnaðarafurðum frá aðildarríkjum ESB falla niður við aðild Íslands að ESB, sem eykur samkeppnina og bætir kaupmáttinn.

2. Ísland öðlast raunverulegt fullveldi

Öfugt við það sem margir andstæðingar Evrópusambandsins halda fram, að Ísland tapi fullveldi sínu við inngöngu í ESB, má í raun segja að Ísland öðlist raunverulegt fullveldi með því að ganga í ESB. Með samningnum um Evrópska efnahagssvæðið (EES) njótum við margra þeirra kosta sem ríki öðlast með aðild að ESB, en gleymum því ekki að við höfum þar af leiðandi kynnst þeim ókosti sem felst í því að vera ekki fullgildur aðili; við höfum ekkert um þær ákvarðanir sem eru teknar innan ESB að segja, ákvarðanir sem hafa bein og óbein áhrif á okkur Íslendinga, því vegna EES-samningsins tökum við upp gríðarlegt magn af ESB löggjöf hér á landi, löggjöf sem aðrir hafa samið því við sitjum ekki við borðið þar sem vinnan fer fram. Með aðild að ESB mun Ísland því styrkja fullveldi sitt með virkri þátttöku í ákvörðunum og samningum á vettvangi sambandsins, en raunverulegt fullveldi í hinum hnattræna heimi sem við búum í, fæst með því að deila því með öðrum þjóðum til þess að ná sameiginlegum markmiðum.

3. Lægri vextir

Með aðild Íslands að Evrópusambandinu og upptöku evru fáum við lánakjör sambærileg þeim sem Evruríkin búa við í dag sem mun skila sér í lægri vöxtum á húsnæðismarkaði og almennt á lánamarkaði. Með íslensku krónuna og verðtrygginguna búum við hér á landi við gríðarlega háar vaxtagreiðslur. Munurinn á vaxtagreiðslum Íslendinga og Evrópuríkja hefur verið rannsakaður margoft, til dæmis af ASÍ, og eru niðurstöðurnar sláandi.

Á árunum 1998 – 2010 voru nafnvextir á húsnæðislánum hér á landi um 12% á meðan þeir voru mest 5% í Evrópu. Í dæmi sem ASÍ tók til skoðunar síðast kom í ljós að á meðan evrópsk fjölskylda var að borga um 5 – 800 þúsund krónur í vexti á ári, var íslenska fjölskyldan að borga 1 – 2 milljónir í vexti á ári af sambærilegu láni. Með aðild Íslands að Evrópusambandinu og upptöku evru munum við því getað fengið lán á lægri vaxtakjörum, án verðtryggingar, og þannig munu heimilin í landinu spara sér háar upphæðir, sem nú fara í vaxtagreiðslur, á ári hverju. Þá munu fyrstu íbúðarkaup ungra Íslendinga verða auðveldari og lán fást á almennilegum kjörum.

4. Nothæfur gjaldmiðill

Með aðild Íslands að Evrópusambandinu og upptöku evru, munum við, auk þess að fá lægri vexti og losna við verðtrygginguna, fá stöðugara gengi og verðlag, losna við gjaldeyrishöftin, fá minni verðbólgu, stöðugara verðlag og minni gengissveiflur á sama tíma og við losnum  við ónýtan gjaldmiðil og þann gríðarlega kostnað sem heimilin í landinu bera af krónunni. Sama hvað fólk vill segja um evruna, þá er það staðreynd að á sínum versta degi er evran sterkari en krónan á sínum besta degi. Allt skilar þetta sér í betri lífskjörum fyrir almenning þar sem áætlanir í heimilisrekstrinum og atvinnulífinu verður mun auðveldari.

5. Lægri skólagjöld í breskum háskólum

Breskir háskólar hafa ávallt verið vinsælir á meðal íslenskra námsmanna enda eru breskir háskólar á meðal bestu háskóla í heimi. Skólagjöldin í breska háskóla eru hins vegar gríðarlega há, og þá sérstaklega fyrir nemendur sem ekki koma frá aðildarríkjum Evrópusambandsins, þar sem Bretar skipta námsmönnum í tvo flokka; Ríkisborgarar Evrópusambandsins og aðrir. Með aðild Íslands að ESB gætu því íslenskir námsmenn sparað sér þúsundir punda í skólagjöld og áralangar greiðslur af námslánum á sama tíma og þeir ná sér í góða menntun.

6. Niðurfelling tolla

Við inngöngu í Evrópusambandið falla niður tollar á milli aðildarríkjanna, en það skilar sér til dæmis í lægra matvælaverði. Niðurfelling á tollum skilar sér einnig í ódýrari verslun og þjónustu, annars konar en með matvæli. Það á einnig við um verslun á netinu. Niðurfelling tolla opnar möguleikana á auknum atvinnutækifærum fyrir unga Íslendinga. Innlend fyrirtæki, stór sem smá, eiga erfitt með að þrífast á Íslandi í dag. Afhverju ætli forsvarsmenn Össurar, Marel og CCP vilja ganga í Evrópusambandið? Vegna þess að með krónu, sem er ein stærsta viðskiptahindrunin á Íslandi í dag, og aðrar hindranir eins og tollar til og frá Íslandi hefta viðskipti og koma í veg fyrir vöxt fyrirtækja. Hvort sem þú vilt panta þér bækur eða raftæki á netinu eða stofna fyrirtæki, þá mun aðild að Evrópusambandinu auðvelda þér verkið og spara þér háar greiðslur.

7. Erlendar fjárfestingar – aukin atvinnutækifæri

Með inngöngu í Evrópusambandið og upptöku evru verður auðveldara að laða að erlenda fjárfesta til Íslands, sem myndi vonandi skila sér í því að erlend fyrirtæki munu setjast hér að í auknu mæli og skapa þannig atvinnu fyrir Íslendinga, en við þurfum að skapa þúsundir starfa hér á Íslandi á næstu árum ef við ætlum ekki að horfa á eftir unga fólkinu úr landi í leit að atvinnutækifærum. Sem dæmi má nefna að erlendar fjárfestingar á Möltu, Kýpur, Slóvakíu og Slóveníu tvöfölduðust fyrstu fjögur árin eftir að ríkin gengu í Evrópusambandið árið 2004. Öll nota þau evru. Í Eistlandi jukust erlendar fjárfestingar um helming á sama tíma.

8. Fyrir landsbyggðina

Aðild Íslands að Evrópusambandinu felur í sér hlutdeild í hinum ýmsu styrktarsjóðum ESB. Til dæmis fengi Ísland aðgang að byggða- og uppbyggingarsjóðum ESB, en til þeirra renna um 1/3 af heildarfjárlögum ESB. Í greinagerð sem unnin var fyrir Samtök íslenskra sveitarfélaga um hugsanleg áhrif aðildar að ESB á íslensk sveitarfélög kemur fram að „talið er til helstu kosta aðildar að íslenskum sveitarfélögum opnist aðgangur að styrkjum úr byggðarsjóðum ESB og ákvörðunum um með hvaða hætti þeim er úthlutað til einstakra svæða hér á landi. Aðrir kostir sem nefndir eru er aðgangur að styrkjum úr landbúnaðar-/dreifbýlissjóði ESB, aðgangur að styrkjum til sjávarbyggða, aðild að öllum áætlunum ESB, hvati að auknu samastarfi sveitarfélaga, landshlutasamtaka og öflugri stjórnsýslu sveitarfélaga, meira forræði sveitafélaga í byggðamálum og aðgangur að stofnunum ESB sem fjalla um byggða- og sveitastjórnarmál.“ Landsbyggðin mun því hagnast mjög á aðild Íslands að ESB.

9. Stærsta viðskiptablokk í heimi

Evrópusambandið er stærsta viðskiptablokk í heimi. ESB er stærsti útflytjandi vöru og þjónustu á heimsvísu og hefur yfir að ráða víðfeðmu neti viðskiptasamninga og tengsla sem skapa aðildarríkjum markaðsaðgang utan svæðisins. Með aðild Íslands að ESB yrðum við hluti af stærstu viðskiptablokk heims og hefðum áhrif á mótun hennar og aðgerðir. Evrópumarkaðurinn yrði að heimamarkaði okkar, en árið 2011 fór 82.7 % af vöruútflutningi Íslands til annarra ríkja á innri markaði ESB. Þá er pólitískt vægi ESB mikið í alþjóðlega viðskiptasamstarfi, og þannig myndu áhrif Íslands á alþjóðavettvangi aukast með aðild að ESB.

10. Friður, frelsi og jafnrétti

Markmið Evrópusambandsins hefur frá upphafi verið að stuðla að friði og er friður eitt af grunngildum Evrópusambandsins. ESB hefur í áratugi átt þátt í því að stuðla að aukinni velferð, frelsi, lýðræði og virðingu fyrir mannréttindum, jafnt í Evrópu sem og um allan heim. Jafnréttismál hafa ávallt verið í forgangi hjá Evrópusambandinu, en mikil áhersla er einnig lögð á umhverfisvernd, neytendavernd, kvenréttindi, þróunaraðstoð, öryggismál, menntun og atvinnu. Öll 28 aðildarríki ESB deila þessari hugmyndafræði og hafa skuldbundið sig til þess að verja hana, jafnt í Evrópu sem og um allan heim.
Evrópusambandið er einstakt fyrirbæri sem finnst hvergi annars staðar í heiminum. ESB er ekki ríki, ekki ríkjasamband og ekki venjuleg alþjóðastofnun. ESB er samstarfsvettvangur 28 ríkja, samfélag meira en 500 milljón manna, sem saman vilja vinna að betri heim. Afhverju ætti Ísland ekki að vera hluti af þeirri sögu sem Evrópusambandið er að skrifa?

Flokkar: Stjórnmál og samfélag
Efnisorð: , , , ,

»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Sema Erla Serdar
29 ára stjórnmála- og Evrópufræðingur sem berst fyrir friði, frelsi og jafnrétti þegar hún er ekki að horfa á fótbolta eða leika við hundana sína.

Formaður Samfylkingarinnar í Kópavogi. Fyrrverandi formaður framkvæmdastjórnar Samfylkingarinnar. Ungur jafnaðarmaður!
RSS straumur: RSS straumur