Mánudagur 04.07.2016 - 21:26 - FB ummæli ()

Post Brexit Rasismi og Ísland!

Þann 23. júní s.l. fór fram þjóðaratkvæðagreiðsla á Bretlandi þar sem meirihluti þeirra sem tóku þátt greiddu atkvæði með því að Bretland yfirgefi Evrópusambandið. Óhætt er að segja að síðan þá hafi ríkt pólitísk upplausn í Bretlandi – enda veit enginn hvað mun raunverulega gerst næst.

Eitt er þó víst og það er að í kjölfar þjóðaratkvæðagreiðslunnar hefur andúð á innflytjendum, frodómar, rasismi og hatur í garð útlendinga á meðal bresks almennings náð nýjum hæðum.

„Farið heim“ – „Farið úr Evrópu“ – „Hvenær ferðu heim?“ – „Sendum þau heim“ – „Farðu aftur til Rúmeníu“ – „Farðu að pakka“ – „Ekki fleiri pólsk meindýr“ – „Við unnum, sendið þau nú til baka“ – „Átt þú ekki að vera í flugvél á leiðinni heim“ – „Drullaðu þér heim – við ætlum að gera Bretland hvítt á ný“ – „Við erum komin með landið okkar aftur, næst sprengjum við moskurnar“ – „Afhverju ertu svona glöð? Þú ert á leiðinni heim!“ – „Farðu heim svarta tíkin þín“ – „Það er kominn tími á að gera Bretland stórkostlegt á ný.“

ClzR3azWYAASWOy

Á einungis nokkrum dögum hefur breskt samfélag umturnast. Ótrúlegur fjöldi af rasískum, fordómafullum og hatursfullum athugasemdum og ummælum hafa verið látin falla, td. á Facebook og Twitter, í garð innflytjenda á Bretlandi. Þeim hefur verið safnað saman og birt í nafni þeirra sem hafna svona framkomu. Límmiðar frá nýnasistum hanga á almenningsstöðum, uppákomur og áreiti á götum úti, í lestum og í skólum hafa verið fest á filmu og rosaleg fjölgun hefur orðið á hatursglæpum sem hafa verið tilkynntir til lögreglunnar. Fólk segir frá aðkasti, eignaspjöllum, líkamsárásum og öðru ofbeldi í útvarpi og sjónvarpi. Ástandið er orðið svo slæmt að innflytjendur í Bretlandi óttast sumir hverjir um líf sitt og fjölskyldu sinnar.

Hér er þó ekki um neina tilviljun að ræða. Ástæðurnar fyrir þessari þróun eru augljóslegar. Um er að ræða beinar afleiðingar af því að breskir stjórnmálamenn hafa á síðustu vikum og mánuðum ýtt undir andúð á innflytjendum og alið á ótta og hatri í garð þeirra á meðal almennings. Það hafa þeir gert með hegðun sinni, ræðum og skrifum og ógeðfelldri kosningabaráttu fyrir þjóðaratkvæðagreiðsluna.

Kosningabarátta þeirra sem vildu að Bretar yfirgefi Evrópusambandið einkenndist að mestu leyti af mikilli þjóðernishyggju og andúð á innflytjendum. Í kosningabaráttunni var m.a. mikil áhersla lögð á að með því að ganga úr Evrópusambandinu myndi straumur innflytjenda til Bretlands stoppa. Kosningabaráttan byggðist á hræðsluáróðri, popúlisma, lygum og elsta trixinu í bókinni – að ala á ótta! Eins og svo oft áður, þá virkaði það.

13418973_1152793998096545_6548264954972018794_n13327619_1142191832490095_854599113171840828_n13308333_1142197625822849_1451355178150947773_o13320768_1140949772614301_4756864774330700190_o

Afleiðingarnar eru verri en nokkur gat séð fyrir.

Þrátt fyrir að fordómar, rasismi og andúð á innflytjendum hafi ávallt verið til staðar í bresku samfélagi, rétt eins og í öðrum samfélögum, lýsir breytingin í bresku samfélagi sér amk. á tvo vegu.

Í fyrsta lagi þá hikar fólk ekki lengur við að viðra andúð sína og hatur á innflytjendum á meðal almennings. Í öðru lagi þá hafa þeir fordómar og sú andúð á innflytjendum sem ávallt hefur verið til staðar vaxið til muna á ótrúlega stuttum tíma og þróast yfir í fordæmalaust hatur og öfga sem hefur nú þegar kostað eina manneskju lífið, en þingkona breska Verkamannaflokksins, Jo Cox, var myrt nokkrum dögum fyrir þjóðaratkvæðagreiðsluna. Sá gekk upp að henni úti á götu, kallaði „Bretland fyrst“ og myrti hana síðan.

Þrátt fyrir að hatursáróðurinn sem ýtti undir þessa þróun hafi verið fjarlægður af vefnum hjá hreyfingunni sem barðist fyrir því að Bretland yfirgefi Evrópusambandið og þeir stjórnmálamenn sem notuðu hræðsluáróður og ótta í kosningabaráttunni reyni nú að draga úr því sem þeir hafa sagt og gert og sumir þeirra eru jafnvel að hætta í stjórnmálum, eins og Nigel Farage, leiðtogi breska Sjálfstæðisflokksins, er ljóst að breskur almenningur situr upp með afleiðingarnar.

Margir hafa lýst yfir áhyggjum af því að atburðir síðustu daga séu einungis upphafið á einhverju hræðilegu og enginn veit hvernig það mun enda. Ljóst er að box pandóru hefur verið opnað og nú er bara í lagi að vera rasisti í Bretlandi.

Post Framsókn2014 Rasismi á Íslandi

moskahatursáróður

Atburðarásin sem lýst er hér að ofan er ekki einsdæmi enda fæðist enginn fordómafullur eða fullur af hatri og öfgum. Sú hegðun er lærð.

Sú atburðarrás sem lýst er hér að ofan rýmar ágætlega við það sem gerðist hér á landi í síðustu sveitarstjórnarkosningum þegar allt breyttist á einni nóttu.

Þann 23. maí, þegar átta dagar voru til kjördags í sveitarstjórnarkosningunum á Íslandi lýsti Sveinbjörg Birna Sveinbjörnsdóttir, oddviti lista Framsóknarflokksins og flugvallarvina, því yfir að hún vildi að lóð sem var úthlutað til byggingar mosku í Reykjavík verði afturkölluð. Flokkurinn mældist þá með 2,1% fylgi í Reykjavík.

Framsókn og flugvallarvinir ákvaðu á þessum tímapunkti að keyra á síðasta mögulega útspilinu til þess að sækja sér fylgi, því ljótasta sem hægt er að hugsa sér í stjórnmálum. Afleiðingarnar urðu þær að næstu átta daga fór fram ein óhugnanlegasta samfélagsumræða sem við höfðum á þeim tímapunkti orðið vitni að. Kjördagur rann síðan upp og Framsóknarflokkurinn í Reykjavík fékk 10.7% atkvæða og tvær konur kjörnar í borgarstjórn Reykjavíkur.

Á þessum tímapunkti fengur þeir einstaklingar sem höfðu að mestu legið á skoðunum sínum ekki bara meðbyr og stuðning heldur griðarstað fyrir óhuggulegar skoðanir sínar. Framsóknarflokkurinn í Reykjavík varð á einni nótu sú fyrirmynd sem þennan hóp hafði vantað og í kjölfarið stigmagnaðist umræðan um innflytjendamál hér á landi.

Nú, rúmum tveimur árum síðar, erum við að horfa upp á ástand sem mörg okkar þekkja ekki og hafa ekki upplifað áður. Umræðan um málefni innflytjenda heldur áfram að stigmagnast og fjölmiðlar og stjórnmálamenn hafa verið duglegir við að ýta undir fordóma, hatur og ótta hjá fólki, sem er auðvitað mikið áhyggjuefni, sem veldur því að meira en 70% af innflytjendum á Íslandi hafa fundið fyrir fordómum.

Aukinn straumur flóttamanna til Evrópu og uppgangur öfgaafla víða um Evrópu var síðan eins og olía á eld íslenskra skoðanabræðra evrópskra öfgamanna og hreyfingar eins og Pegida (frá Þýskalandi), hermenn óðins (frá Finnlandi) og the icelandic defence league (frá Bretlandi) voru stofnaðar og loks íslenska þjóðfylkingin, stjórnmálaflokkur sem stefnir á að bjóða fram í öllum kjördæmum í komandi kosningum.

Allt eiga þessar hreyfingar það sameiginlegt að ala á útlendingaandúð, andúð á íslam og múslimum, þjóðernisrembingi og ótta. Um er að ræða hreyfingar sem stuðla að mismunun, eru tilbúnar til þess að traðka á mannréttindunum fólks, trúfrelsi og grundvallarréttindum einstaklingsins.

Eðlilega spyr maður því í hvað stefni og hvernig þetta muni enda. Hætta er á að kosningabarátta íslensku þjóðfylkingarinnar verði svipuð og hjá breskum popúlistum í þjóðaratkvæðagreiðslunni um aðild að Evrópusambandinu. Það er því eðlilegt að kona spyrji sig hvort við stefnum nú sömu leið og Bretland?

Flokkar: Óflokkað

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Sema Erla Serdar
29 ára stjórnmála- og Evrópufræðingur sem berst fyrir friði, frelsi og jafnrétti þegar hún er ekki að horfa á fótbolta eða leika við hundana sína.

Formaður Samfylkingarinnar í Kópavogi. Fyrrverandi formaður framkvæmdastjórnar Samfylkingarinnar. Ungur jafnaðarmaður!
RSS straumur: RSS straumur