Þriðjudagur 28.06.2016 - 20:12 - FB ummæli ()

Erum við í alvöru ein af þeim?

13517537_10154971734184202_7850969866301191345_o

Erum við í alvöru ein af þeim sem hafa enga mannúð, enga virðingu og enga samkennd eftir handa fólki? Erum við í alvöru ein af þeim sem sjá ekki neyðina, sorgina og ákallið um hjálp í augum þeirra sem hingað koma vegna þess að það óttast um líf sitt og er tilbúið til þess að deyja fyrir vonina um betra líf og leggur því á flótta?

Erum við í alvöru ein af þeim sem koma fram við fólk á flótta eins og það sé einskis virði? Fólk sem hefur ekki gert neinum neitt nema að hafa fæðst í stríðshrjáðu landi? Fólk sem eru fórnarlömb stríðs sem þau eiga engan þátt í að hafa skapað. Fólk sem hefur misst allt! Land sitt, þjóð, fjölskyldu, vini og heimili.

Erum við í alvöru ein af þeim sem niðurlægir fólk, brennimerkir það og lætur því líða eins og það sé óvelkomið alls staðar? Eins og það sé minna virðir en við hin?

Erum við í alvöru ein af þeim sem virða ekki mannréttindi fólks? Erum við í alvöru ein af þeim sem beitir börn á flótta ofbeldi? Handjárnum þau, lemjum þau og sendum úr landi þar sem ómögulegt er að vita hvað bíður þeirra en líklegast er að það sé kynferðisofbeldi, mansal, vændi eða dauði.

Erum við í alvöru ein af þeim?

Aldrei hafa fleiri verið á flótta í heiminum. Evrópa stendur frammi fyrir gríðarlegri áskorun. Lík reka upp á strendur Evrópu, örvæntingarfullir hælisleitendur krækja sér undir lestarvagna, gaddavírsgirðingar eru settar upp við ytri landamæri Evrópu, ofbeldisfullar árásir eru framdar á flóttamannamiðstöðvar í Þýskalandi, hrækt er á flóttabörn í Danmörku, í Króatíu eru flóttamenn númeraðir og í Ungverjalandi eru flóttamenn fóðraðir eins og skeppnur. Ætlum við í alvöru að vera ein af þessum?

Í gær var ég stoltur Íslendingur. Í dag græt ég af skömm fyrir að tilheyra þjóð sem kemur svona fram við fólk.

Ísland hefur lögfest Mannréttindasáttmála Evrópu, Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna og Flóttamannasáttmála Sameinuðu þjóðanna. Íslensk stjórnvöld verða að axla ábyrgð, gangast við skyldum sínum, sýna mannúð og réttlæti í verkum sínum og hætta strax að vísa á brott hælisleitendum og öðrum sem hingað leita í neyð. Annað er ómannúðlegt og til háborinnar skammar fyrir alla þjóðina!

Flokkar: Óflokkað

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Sema Erla Serdar
29 ára stjórnmála- og Evrópufræðingur sem berst fyrir friði, frelsi og jafnrétti þegar hún er ekki að horfa á fótbolta eða leika við hundana sína.

Formaður Samfylkingarinnar í Kópavogi. Fyrrverandi formaður framkvæmdastjórnar Samfylkingarinnar. Ungur jafnaðarmaður!
RSS straumur: RSS straumur